Trúmálaréttur fyrir 21. öldina?

Hjalti Hugason, 21. July 2011 18:44

 

Nú er frumvarp Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá sem óðast að taka á sig endanlega mynd. Þar með kemur röðin að okkur hinum að taka afstöðu til þess. Hér verður staldrað við þær greinar frumvarpsdraganna sem ætlað er að leysa af hólmi núgildandi trúmálabálk stjórnarskrárinnar, þ.e. sjötta kaflann, en í honum er að finna ákvæði um trúfrelsi og kirkjuskipan.

Ný bygging

Eins og við var að búast er lagt til að efni trúmálabálksins verði sameinað mannréttindaákvæðunum og fylgi þeim inn í annan kafla væntanlegrar stjórnarskrár. Þá er grein um kirkjuskipan færð aftur fyrir trúfrelsisákvæðin. Um trúfrelsi og kirkjuskipan er þannig fjallað í 15. og 16. gr. frumvarpsdraganna í beinu framhaldi af frelsi menningar og mennta en næst á undan félagafrelsi.

Þessi breytta bygging er til bóta en engin efnisleg rök eru fyrir því að fjalla um trúfrelsi án beinna tengsla við aðra þætti mannréttinda. Þá er ekki mögulegt að setja fram kirkjuskipan í nútímasamfélagi nema í framhaldi af trúfrelsisákvæðum. Á 19. öld voru aftur á móti forsendur fyrir því að líta á trúfrelsi sem afleiðingu af þjóðkirkjuskipan líkt og gert er í núgildandi stjórnarskrá. Þessi nýja skipan efnisins er því í takt við tímann.

Hér skal þó bent á að betur færi á að kveða á um trúfrelsið í beinu framhaldi af skoðunar- og tjáningarfrelsi (11. gr.). Trúfrelsi er aðeins frelsi til skoðunar og tjáningar á ákveðnu sviði sem rétt þykir að taka út fyrir sviga.

Ný áhersla á einstaklinga

Í núgildandi trúmálabálki er fyrst kveðið á um stöðu og rétt trúarlegra stofnana (kirkjuskipan í 62. gr.) og félaga (63. gr.) en loks kveðið á um frelsi einstaklinga (64. gr.). Í frumvarpsdrögunum er þessu snúið við þar sem gengið er út frá einstaklingnum líkt og gert er í alþjóðlegum mannréttindasáttmálum frá 20. öld. Þetta er eðlileg áherslubreyting og í takt við aukna einstaklingshyggju frá því sem var á 19. öld er við fengum okkar fyrstu stjórnarskrá.

Í núgildandi stjórnarskrá er vissulega lögð áhersla á frelsi einstaklinga í trúarefnum þar sem kveðið er á um að enginn megi „neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna“ né megi krefja neinn um að „inna af hendi persónuleg gjöld til trúfélags sem hann á ekki aðild að“. Fyrrgreinda ákvæðið er óþarft eftir að jafnræðisregla núgildandi stjórnarskrár (65. gr.) var tekin upp 1995 en hliðstæðu hennar er að finna í 5. gr. frumvarpsdraganna. Vissulega má einnig líta svo á að síðarnefnda ákvæðið sé óþarft eftir þær breytingar sem orðið hafa á greiðslum til trúfélaga (þ.e. sóknargjaldi og hliðstæðu þess) frá 1874. Þó geta komið upp aðstæður þar sem reynir á ákvæðið eins og nýlegur dómur frá Mannréttindadómstól Evrópu sýnir.

Óbreytt trúfrelsishefð

 Af trúfrelsisgreininni er annars ljóst að lagt er til að áfram verði gengið út frá þeirri trúfrelsishefð sem hér hefur verið við lýði allt frá setningu stjórnarskrárinnar 1874 sem vissuelga hefur þróast lítið eitt í tímans rás. Hún felst í frelsi til að aðhyllast hvaða trú eða lífsskoðun sem er, að skipta um trú og að iðka hana án teljandi takmarkana einslega eða opinberlega — nú eða hafna allri trúariðkun.

Þetta hefur löngum verið kallað „jákvætt“ trúfrelsi sem er ekki að öllu leyti heppilegt (sbr. pistil minn hér á Pressunni um bleikt eða blátt trúfrelsi). Til er önnur trúfrelsishefð sem byggir á því að áskilja einstaklingum sem víðtækast frelsi frá trúarlegum áreitum a.m.k. í almannarými. Sögulegar aðstæður ráða að mestu hvor leiðin er farin í hverju landi og þá einkum með hvaða hætti lýðræðisþróun og nútímavæðing varð á hverjum stað og hvernig kirkjan beitti sér í því efni. Í Frakklandi var kirkjan t.a.m. varðhundur einveldisins og varð því byltingunni að bráð ekki síður en konungsvaldið. Hér á landi var kirkjan aftur á móti virk í nútímavæðingunni. Hún þróaðist því í átt til aukins frjálsræðis í takt við samfélagið að öðru leyti. Engar brýnar ástæður virðast nú til að söðla um í þessu efni.

 Ljóst er að trúfrelsi af því tagi sem hér tíðakst verður að setja skorður. Í núgildandi stjórnarskrá er það gert með tvennum hætti. Annars vegar eru settar skorður við að trúfélög kenni eða stuðli að því að eitthvað sé framið sem er gagnstætt „góðu siðferði eða allsherjarreglu“. Hins vegar er undirstrikað að einstaklingur geti ekki skorast undan „almennri þegnkyldu“. Í frumvarpsdrögunum er mælt með að trúfrelsi séu aðeins settar þær skorður „sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi“. Þetta er að sönnu teygjanlegt orðalag en þó vart loðnara en nú er. Þá verða aldrei tekin af tvímæli í þessu efni í eitt skifti fyrir öll heldur verður að ætla löggjafa og dómstólum að skera úr um það hvar mörkin liggja milli hins leyfilega og óleyfilega í þessu efni hverju sinni.

Kubbslegt orðalag

Hér skal bent á að orðalag trúfrelsisgreinarinnar er kubbslegt og klossað miðað við greinina um skoðana- og tjáningarfrelsi (11. gr.). Þar segir svo fallega: “Öll erum við frjáls skoðana okkar og sannfæringar og eigum rétt á að tjá hugsanir okkar“. Í trúfrelsisgreininni segir hins vegar: „Öllum skal tryggður réttur til trúar og lífsskoðunar, þar með talinn rétturinn til að breyta um trú eða sannfæringu og standa utan trúfélaga.“. Væri ekki betra að segja: „Öll erum við frjáls trúar okkar og lífsskoðana og eigum rétt á að að breyta um trú eða sannfæringu og standa utan trúfélaga“? — Vegna þess sem á eftir kemur þarf svo væntanlega að taka fram að sama máli gegni um lífsskoðunarfélög.

Jöfnuður en ekki aðskilnaður

Ekki er mælt fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju og/eða trúfélaga í frumvarpsdrögunum heldur stefnt að meiri jöfnuði trúfélaga sem og þeirra og lífsskoðunarfélaga, þ.e. félaga sem aðhyllast veraldlegar lífsskoðanir, t.d. húmanisma, og bjóða upp á borgaralegar athafnir á merkisdögum mannsævinnar frá vöggu til grafar.

Þessi meginstefna kemur fram með tvennum hætti. Annars vegar er kveðið á um að stjórnavöld skuli vernda öll skráð trú- og lífsskoðunarfélög. Líkt og nú er  raun á ætlar Stjórnlagaráð löggjafanum að ákveða í hverju þessi vernd sé fólgin. Hins vegar er í frumvarpsdrögunum ákvæði um að setja megi landinu opinbera kirkjuskipan þó hún eigi í framtíðinni að koma í lögum en ekki stjórnarskrá.

Kirkjuskipanin

Ákvæði frumvarpsdraganna um kirkjuskipanina (16. gr.) ber annars öll merki hrossakaupa. Í því felst vissulega að kirkjuskipanin er felld brott úr stjórnarskránni. Það má túlka sem sigur þeirra sem vilja aðskilnað ríkis og kirkju. Þeir sem eru á öndverðum meiði geta hins vegar hrósað sigri í því að kveða má á um kirkjuskipan ríkisins í lögum sem öðlast sömu festu og kirkjuskipan stjórnarskrárinnar nú.  Ætli þessi lagagrein verði sú eina sem stjórnarskráin ver með kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu? Ekki er að sjá að þessi breyting hafi neina praktíska þýðingu verði heimildarákvæðið nýtt. Það er eftirlátið löggjafanum að ákveða og mun hann væntanlega hafa náið samráð við þjóðkirkjuna um málefnið þar sem hún hefur ríkastra hagsmuna að gæta.

Ekki er ljóst hvernig Stjórnalagaráðsmenn hugsa sér að koma kirkjuskipan ríkisins fyrir í lögum. Við okkar aðstæður virðist raunar aðeins ein leið fær til þess. Hún felst í því að 1. mgr. 1. gr. þjóðkirkjulaganna frá 1997 verði breytt. Nú hljóðar málsgreinin þannig: „Íslenska þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni.“  Breyta má henni í kirkjuskipan með því að segja í staðinn: „Evangelísk-lúterska kirkjan er þjóðkirkja á Íslandi. Hún er sjálfstætt trúfélag“. Ákvæði frumvarpsdraganna krefst þá þjóðaratkvæðagreiðslu komi til breytingar á fyrri lið tillögunnar (kirkjuskipaninni) en ekki þeim síðari (um sjálfstæði kirkjunnar) þar sem þegar er kveðið á um það í lögum.

Þjóðkirkjan þarf að hysja upp um sig buxurnar

Tillögur Stjórnalagaráðs um trúfrelsi og kirkjuskipan boða ekki róttækar breytingar. Byggt er í meginatriðum á þeirri hefð sem hér hefur ríkt frá 1874 enda blasa ekki við augljósar ástæður til að bylta henni. Ákvæðin eru þó einfölduð og þau færð til nútímahorfs. Meginbreytingin felst í því að jöfnuður milli trúfélaga sem og trú- og lífsskoðunarfélaga er stórum aukin. Það er til mikilla bóta og veldur því að svo hefðbundinn trúmálaréttur sem þó kemur fram í frumvarpsdrögunum getur mætt vaxandi fjölhyggju á 21. öld.

Þó er ljóst að tillagan skapar ákveðið óvissuástand fyrir þjóðkirkjuna. Einkum á þetta við ef löggjafinn ákveður að nýta ekki heimild til að setja ríkinu kirkjuskipan í lögum strax við gildistöku nýrrar stjórnarskrár nái frumvarp Stjórnlagaráðs fram að ganga.

Þjóðkirkjan hefur verið ótrúlega þögul um framtíðarstöðu sína í þessu efni —næstum svo að líkja má við strút í sandi. Nú þarf hún að hysja upp um sig buxurnar og ræða við þjóðina, Alþingi og ríkisstjórn um hvort hún vilji að kveðið á sé á um kirkjuskipan ríkisins í lögum og þá hvernig og hvers vegna. Í því efni dugar ekki hefð og saga. Lög verða að horfa til framtíðar. Þjóðkirkjan hlýtur að taka frumkvæði í umræðunni um kirkjuskipan framtíðarinnar, tilgang hennar og inntak.