Þjóðkirkja í frjálsu falli?

Hjalti Hugason, 30. August 2011 15:59

 

Í aðdraganda hinna ógildu Stjórnlagaþingskosninga s.l. haust varð þjóðkirkjugrein stjskr. (62. gr.) að heitu umræðuefni. Snemma tók þó að örla á þeirri afstöðu — ekki síst meðal margra er síðar settust í Stjórnlagaráð — að ekki bæri að eyða dýrmætum tíma ráðsins í þetta mál. Það sjónarmið hefur raunar jafnan komið fram þegar breytingum á trúmálaákvæðum stjskr. hefur verið hreyft samtímis víðtækari endurskoðun. Hafa tillögur að trúmálarétti þá annað tveggja dagað uppi eða flotið umræðulítið gegnum breytingaferlið.

Málamiðlun Stjórnlagaráðs

Þrátt fyrir þetta kom Stjórnlagaráð sér saman um tillögu að efnislegir breytingu á þjóðkirkjugreininni. Nú hljóðar greinin svo:

„Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.“

Stjórnlagaráð leggur til að í staðinn komi í 19. gr. nýrrar stjskr.:

 „Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins. Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.“

Er síðari málsgreinin sótt til 2. málsgr. 79. gr. núgildandi stjskr.  

Þetta er dæmigerð málamiðlunarlausn. Öðlist frumvarpið gildi mun ný stjskr. ekki hafa að geyma neina þjóðkirkjugrein. Hún mun hins vegar veita þjóðkirkjuskipan sem sett yrði með lögum sérstaka vernd. Bæði fylgjendur og andstæðingar þjóðkirkju í landinu kunna því að geta vel við unað. Fljótt á litið virðist breytingin heldur ekki hafa teljandi praktísk áhrif — eða hvað?

Frjálst fall?

Setjum svo að frumvarp Stjórnlagaráðs gangi rétta boðleið og öðlist gildi 17. júní árið X. Það með féllu 62. og 79. gr. núverandi stjskr. úr gildi rétt eins og allar aðrar greinar hennar. Löggjafinn stæði þá frammi fyrir því að hann hefði heimild til að setja lög um kirkjuskipan ríkisins. Margháttuð rök mæla með að það verði gert (sjá m.a. pistil undirritaðs „Á að setja landinu kirkjuskipan“ á Pressunni). Stjórnvöld kynnu enda að velja þá leið. Þá kemur síðari liður 19. gr. frumvarpsins til framkvæmda og hinum nýju lögum yrði ekki breytt án þjóðaratkvæðagreisðlu. Núverandi staða þjóðkirkjunnar gæti þá haldist lítt röskuð

Svo kynni þó að fara að þeir sem forystu hefðu á vettvangi stjórnmálanna kysu að notfæra sér ekki heimildina. Hvað gerist þá? Augljósasta svarið er að þar með færi þjóðkirkjuskipanin í frjálst fall. Hún nyti hvorki verndar núgildandi stjskr. né þeirrar nýju.

Svo virðist með öðrum orðum að á grundvelli stjórnlagaráðstillögunnar geti löggjafinn tekið endanlega afstöðu til þjóðkirkjufyrirkomulagsins en frá 1920 hefur það vald verið í höndum þjóðarinnar sjálfrar. Tillaga Stjórnlagaráðs áskilur þjóðinni sem sé ekki atkvæði um það hvort heimildarákvæðið skuli nýtt eða ekki heldur aðeins um lagabreytingar hafi lög um kirkjuskipan ríkisins verið sett.

Hvað er kirkjuskipan?

Í þessu sambandi skiptir merking hugtaksins kirkjuskipan að sjálfsögðu sköpum. Hún getur verið tvíþætt. Löng hefð er fyrir því að nota hugtakið um lög er kveða á um innri skipan kirkjumála. Dæmi um slíkt er kirkjuskipan Kristjáns konungs III. fyrir danska ríkið frá siðaskiptatímanum á 16. öld. Hún fjallar m.a. um kenningu kirkjunnar, helgisiði, skólana sem voru kirkjulegar stofnanir á þessum tíma og framfærslu presta. Líta má svo á að lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar frá 1997 séu slík kirkjuskipan nú á dögum, þ.e. kirkjuskipan fyrir íslensku þjóðkirkjuna.

Þegar hugtakið er notað um „kirkjuskipan ríkisins“ eins og gert er í 2. mgr. 79. gr. núgildandi stjskr. og tillögu Stjórnlagaráð öðlast það aðra merkingu. Á báðum stöðum er átt við efni núverandi 62. gr. stjskr. eða ígildi hennar. Hér vísar hugtakið ekki til innri skipanar kirkjumálanna heldur einvörðungu til tengsla kirkjunnar við ríkið.

Það er því mikilvægt að greina á milli innri og ytri kirkjuskipunar eða kirkjuskipunar í innri og ytri málum. Ytri kirkjuskipanin kemur nú fram í stjskr. og er þjóðinni allri ætluð aðkoma að breytingum á henni eins og eðlilegt er í lýðræðisríki. Innri kirkjukipanin kemur hins vegar nú fram í fyrrnefndum lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar.

Það skal fúslega játað að að sá hluti þjóðarinnar sem tilheyrir þjóðkirkjunni þyrfti að eiga mun beinni aðkomu að innri kirkjuskipaninni en nú er en þá á vettvangi Kirkjuþings en ekki Alþingis. Það er hins vegar ljóst að ekki er mögulegt að leggja breytingar á innri kirkjuskipaninni „undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu“ síst af öllu þegar vaxandi hluti þjóðarinnar kýs að standa utan þjóðkirkju og hefur því vart áhuga á að taka þátt í að móta starfshætti hennar og á enda ekki eðlilegt tilkall til þess.

Ögrandi viðfangsefni

Þennan mun á innri og ytri kirkjuskipan, kirkjuskipan ríkisins og skipan kirkjunnar sjálfrar, verður að hafa í huga þegar afstaða er tekin til tillögu Stjórnlagaráðs.

Spyrja verður: Á að setja ríkinu (ytri) kirkjuskipan og þá til hvers og hvar á hún að koma fram — í lögum eða stjskr.? Einnig verður að ræða hvernig kirkjuskipan ríkisins sé best fyrir komið í lögum. Á að setja hana fram í sérstökum lögum eða viðameiri lögum um þjóðkirkjuna? Með öðrum orðum: Er heppilegt að flétta saman innri og ytri kirkjuskipan? Væri sú leið farin ætti þjóðin öll aðkomu að breytingum á tiltekinni grein laganna en ekki öðrum. Eða ættu frekar ein lög að gilda um stöðu kirkjunnar (ytri kirkjuskipan) en önnur um stjórn hennar og starfshætti (innri kirkjuskipan). Þá væru breytingar á öðrum háð þjóðaratkvæðagreiðslu en ekki hinum. Og loks: Hvar sleppir ytri kirkjuskipaninni og hvar tekur hin innri við?

Stjórnlagaþing hefur boðið upp til þessarar umræðu eins og bert kemur fram í skýringum þess við 19. gr. frumvarpsins. Það er án efa hollt bæði fyrir þjóðina og þjóðkirkjuna að taka þá umræðu. Hún krefst hins vegar yfirvegunar og vandvirkni á báða bóga en ekki fljótræðis og flumbrugangs eins og okkur hættir oft til.

Gloppóttur trúmálaréttur?

Hjalti Hugason, 17. August 2011 20:01

 

Stjórnlagaráð hefur lokið störfum. Nú liggur frumvarp þess fyrir í endanlegri mynd. Hér verður enn einu sinni vikið að trúmálarétti tillagnanna (sjá fyrri pistla hér á Pressunni) sem fram kemur í 18. og 19. grein frumvarpsins.

Núgildandi réttur

Trúmálarétt núgildandi stjórnarskrár er að finna í 6. kapítula hennar (62.–64. gr. sjá og 65. og 79. gr.). Þar er kveðið á um kirkjuskipan landsina (62. gr. og 2 mgr. 79. gr.) og í framhaldi af því um trúfrelsi. Þessi leið var eðlileg á síðari hluta 19. aldar er fyrsta stjórnarskrá okkar var sett. Með kirkjuskipaninni var opnað fyrir aðgreiningu milli ríkis og kirkju og þar með opnuð leið að trúfrelsi. Kirkjuskipanin var því í raun forsenda trúfrelsis eins og þá stóð á.

Að öðru leyti einkennist gildandi trúmálaréttur af því að trúfrelsi er sett fram sem víðtækt frelsi til að játa og iðka trú. Þetta hefur undirritaður nýlega kallað „bleikt trúfrelsi“ (Sjá pistilinn Bleikt eða blátt trúfrelsi) en oftast er  talað um jákvætt trúfrelsi í þessu sambandi. Þetta er eðlilegt fyrirkomulag þar sem trúfrelsi var komið á með stjórnarskrá en ekki byltingu. Útmörk trúfrelsisins eru síðan mörkuð á sértækan hátt, þar sem sagt er að ekki megi kenna eða fremja hvað sem er né heldur skorast undan almennum þegnskyldum undir yfirskini trúar. Þá er sett fram trúarleg jafnræðisregla sem kveður á um að enginn megi „neins í missa“ af réttindum sínum vegna trúar sinnar. Þetta var síðan undirstrikað enn frekar 1995 er almenn jafnræðisregla var tekin upp í stjórnarskrána (65. gr.).  Loks er rækilega kveðið á um frelsi allra til að standa utan trúfélaga og vera frjáls gagnvart þeim. En þetta hefur undirritaður kallað „blátt“ trúfrelsi en ekki neikvætt eins og hefð er fyrir.

Óbreytt meginstefna

Trúmálarétturinn í tillögum Stjórnlagaráðs er snubbóttari en raun er á með gildandi stjórnarskrá. Sagt er að öllum skuli tryggður réttur til trúar og lífsskoðunar, til að breyta um trú og standa utan trúfélaga. Þetta er í sjálfu sér gott og gilt. Þá er kveðið á um frelsi til trúariðkunar í einrúmi eða opinberlega og með öðrum. Hér er sýnilega mælt með því að haldið verði áfram í anda hinnar „bleiku“ hefðar.

Hin „bleika“ hefð kemur einnig fram þegar útmörk trúfrelsisins eru tiltekin. Þar segir að trúfrelsi skuli aðeins takmarkað af því sem „lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi“.

Hvernig ber að skilja þetta? Eru þetta tveir sjálfstæðir liðir í upptalningu? Merkir greinin að löggjafinn geti 1) sett trúariðkun skorður eftir því sem rétt þykir hverju sinni og svo skuli auk þess 2) hugað að nauðsynlegum og almenntum takmörkunum trúfrelsis í lýðræðissamfélagi. Þetta er hugsanleg túlkun. Líklegra er þó að Stjórnlagaráð hafi hugsi þetta svo að síðari liður upptalingarinnar eigi að skýra fyrri liðinn, þ.e. að löggjafinn geti takmarkað trúfrelsi með lögum eftir því sem nauðsynlegt er talið í lýðræðissamfélagi.

Eigi að skilja greinina svo hefði verið heppilegra að sleppa fyrri lið upptalningarinnar. Hann er óþarfur. Þannig hefði greinin heldur ekki þurft túlkunar eða útskýringar við. Hún hefði einfaldlega kveðið á um að að ekki mætti takmarka trúfrelsi nema til að standa vörð um grunngildi samfélagsins, lýðræðið. Þannig hefði ákvæðið raunar fengið sambærilega merkingu og 63. grein í núgildandi stjórnarskrá. Hinum tæknilega stíl sem annars einkennir greinina hefði einnig verið haldið.

Það er slæmt að byggja upp nokkra óvissu um hvar útmörk trúfrelsis liggja nú í upphafi 21. aldar. Hún mun einkennast af sívaxandi fjölhyggju og fjölmenningu ekki síst í trúarefnum. Trúfrelsisgrein nýrrar stjórnarskrár verður að leggja traustan grunn að fagurri og „harmónískri“ trúarmenningu í samfélaginu. Því hefði að ósekju mátt viðhafa meiri skýrleika hér.

Hallað á „bláu“ leiðina?

Í frumvarpi Stjórnlagaráðs er hin „bláa“ hlið trúfrelsisin útfærð á losaralegri hátt en í núgildandi stjórnarskrá. Raunar er aðeins vikið að henni þar sem segir að „heimilt sé að standa utan trúfélaga“. Hugsanlega er þetta fullnægjandi nú þegar trúfrelsi í landinu hefur slitið barnsskónum.

Það sem er þó verra og raunar afleitt er að frumvarp Stjórnlagaráðs tók afdrifaríkri breytingu á lokastigi. Í drögum að frumvarpinu var gert ráð fyrir jafnstöðu trúarskoðanna og veraldlegra lífsskoðanna þar sem lagt var til að stjórnvöld skyldu „vernda öll skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög“. Þetta ákvæði féll brott á lokastigi. Það er illt. Með að fella það niður stuðlar Stjórnlagaráð að því að haldið verði áfram þeirri mismunun á trúarlegum og veraldlegum lífsskoðunum sem kemur fram í núgildandi lögum um skráð trúfélög (nr. 108 28. desember 1999). Þar eru veraldlegar og trúarlegar lífsskoðanir lagðar að jöfnu í 1. kafla líkt og gert er í upphafi 18. greinar í frumvarpi Stjórnlagaráðs. Í 2. kafla laganna er trúfélögum síðan veitt margháttuð vernd sem lífsskoðunarfélög eru útilokuð frá. Ákvæðinu sem fellt var brott var ætlað tryggja aukinn jöfnuð í þessu efni. Mismunun af þessu tagi er óviðeigandi á 21. öldinni þegar fólk túlkar tilveru sína á fjölbreyttan hátt — ýmist trúarlegan og veraldlegan — og grundvallar gildismat sitt bæði á trú og veraldlegum lífsskoðunum, t.d. húmanisma.

Það er slæmt að Stjórnlagaráði hafi ekki tekist að standast áhlaup sem sýnilega var gert á fyrri tillögu þess í kollhríðinni. Hugsanlega hafa þeir sem áhlaupið gerðu misskilið anda hins nýja ákvæðis um vernd öllum trú- og lífsskoðunarfélögum til handa.

Kirkjuskipanin

Eðlilega færir Stjórnlagaráð kirkjuskipanina aftur fyrir trúmálaákvæðin þar sem hún á heima nú á dögum. Eins og bent hefur verið á felur þessi hluti tillagnanna í sér málamiðlun sem sætir ekki stórum tíðindum þar sem traust rök standa til að löggjafinn nýti þá heimild til að setja landinu kirkjuskipan á þann hátt sem Stjónlagaráð leggur til (Sjá pistilinn Á að setja landinu kirkjuskipan?).

Að lokum

Trúmálarétturinn í frumvarpi Stjórnlagaþings rúmast innan gildandi hefðar þrátt fyrir að ákvæðin séu öllu styttri, snubbóttar og um sumt óljósari. Ekki var heldur nein brýn ástæða til að rjúfa hefðina nú. Ekki er að sjá að tillögur ráðsins séu neitt verulega skýrari eða opnari fyrir aukinni trúarlegri fjölhyggju og veraldarhyggju á sviði lífsskoðana en núgildandi trúmálaréttur. Tæpast hefur ráðinu því tekist að skapa trúarmenningunni á landinu þann sjórnarskrárgrunn sem vert væri í upphafi 21. aldar.

Á að setja landinu kirkjuskipan?

Hjalti Hugason, 11. August 2011 13:53

 

Nú er í stjórnarskrá okkar ákvæði um að evangelísk-lútherska meirihlutakirkjan skuli vera þjóðkirkja á Íslandi (62. gr.). Þetta kallast kirkjuskipan landsins. Henni má breyta með lögum sem þarf þó að staðfesta með þjóðaratkvæðagreiðslu (79. gr. stjskr.) Þjóðin hefur því sjálf lokaorð um það hvort hér er þjóðkirkja eða ekki.

Hrossakaup Stjórnlagaráðs

Stjórnlagaráð hefur nú lagt til að farið verði hálfa leið í að fella kirkjuskipanina úr gildi. Samkvæmt tillögunni skal kirkjuskipanin hverfa úr stjórnarskránni en í staðinn koma heimild til að kveða á um kirkjuskipan í lögum sem varin verða með þjóðaratkvæðagreiðslu eins og kirkjuskipanin nú. 

Þetta er dæmigerð málamiðlunarlausn sem bendir til að eining Stjórnlagaráðs hafi staðið tæpt. Ekki verður séð að breytingin hafi mikil praktísk áhrif — nema auðvitað ef löggjafinn ákveður að nýta ekki heimildina. Færi svo hefur óheppileg leið verið valin til að breyta til í þessu efni.

Hér skal áréttað að með því að fella kirkjuskipan úr stjórnarskrá er ekki náð fullum aðskilnaði ríkis og kirkju — ekki einu sinni fullum lagalegum aðskilnaði. Til þess þarf ýmsar aðrar lagabreytingar einkum niðurfellingu svokallaðra þjóðkirkjulaga sem auðvitað kallar fram mörg álitamál.

Hvað er kirkjuskipan?

Kirkjuskipan er hluti af stærri heild sem kalla má trúmálarétt. Hann kveður m.a. á um inntak og útmörk trúfrelsis, stöðu trúfélaga og ef vel er að verki staðið annars konar lífsskoðunarfélaga, sem og sérstöðu trúfélaga sem málefnalegar ástæður mæla með að séu tekin út fyrir sviga. Kirkjuskipan er einmitt ætlað að taka til þessa síðasttalda hluta.

Vegna yfirburðastærðar, langrar samfelldrar sögu, fjölþættra hlutverka í samfélaginu og af fleiri ástæðum hafa rök verði taldin fyrir því að kveða sérstaklega á um stöðu lúthersku kirkjunnar hér. Til að nefna annað dæmi má benda á að í Finnlandi eru sömu rök talin mæla með sérstöðu lúthersku kirkjunnar. Þar í landi kveður kirkjuskipanin þó auk þess á um að rétttrúnaðarkirkjan sem nær til eins prósents íbúanna skuli líka vera þjóðkirkja og þá af sögulegum ástæðum.

Þegar íslenska kirkjuskipanin var sett 1874 var hún stórt skerf í frjálsræðisátt. Fram að þeim tíma var ríkisvaldið trúarlega skilgreint, þ.e. átti að vera lútherskt, og kirkja og ríki voru algerlega óaðgreinanlegar stofnanir. Við slíkar aðstæður er ekki pláss fyrir trúfrelsi. Kirkjuskipanin skyldi opna fyrir aðgreiningu milli ríkis og kirkju, auka sjálfstæði kirkjunnar og sjálfsábyrgð en slaka á trúarlegum kröfum til ríkisvaldsins. Þar með varð og mögulegt að koma á auknu frelsi í trúarefnum.

Þörfnumst við  kirkjuskipanar?

Í upphafi 21. aldar kann mörgum að finnst sem kirkjuskipan feli í sér frelsisskerðingu í stað aukins svigrúms eins og var í öndverðu. Því er eðlilegt að spurt sé hvort eitthvað eigi að koma í stað núv. 62. gr. stjórnarskárinnar eða ekki. Eins og fram er komið hefur saga, stærð og hlutverk kirkjunnar einkum verið talin mæla með — eða kalla eftir — kirkjuskipan. Við þetta má bæta  menningarlegum, guðfræðilegum og jafnvel trúarlegum rökum. Hér skal það ekki gert heldur bent á nokkur algerlega veraldleg rök fyrir að þessum þætti trúamálaréttarins verði áfram haldið inni hvort heldur er í stjórnarská eins og nú er eða í lögum eins og Stjórnlagaráð leggur til:

1. Þjóðkirkjan er trúfélag. Trúfélög eru vettvangur náinna mannlegra samskipta á viðkvæmu sviði lífsins. Þar getur margt farið úrskeiðis eins og dæmin sanna. Í lok síðustu aldar lenti þjóðkirkjan í ógöngum þar sem hún hafði ekki úrræði að grípa til er biskup hennar var borinn þungum sökum. Vissulega hefur mörgu verið breytt til betri vegar síðan þá. Þó er enn full ástæða til að stjórnvöld hafi ákveðna innsýn í málefni þjóðkirkjunnar og geti gripið til aðgerða sé þess talin þörf. — Kirkjuskipan er tæki til þess.

2. Þjóðkirkjan er félagsleg fjöldahreyfing sem starfar á hinu viðkvæma sviði trúarinnar. Hún grípur með fjölþættum hætti inn í líf stórs hluta þjóðarinnar á viðkvæmum stundum í gleði eða sorg. Þá gegnir hún fjölmörgum samfélagslutverkum ekki síst þegar þjóðin á um sárt að binda. Einnig af þessum ástæðum kann að vera hollt að stjórnvöld hafi innsýn í starf þjóðkirkjunnar. — Kirkjuskipan er tæki til þess.

3. Þjóðkirkjan er fjárhagslegt stórveldi. Ríkisvaldið hefur með réttu viðurkennt tilkall hennar til fornra kirkjueigna með samningi sem ekki verður bakkað út úr með einföldum hætti. Núverandi fjárhagstengsl ríkis og kirkju eru því ekki afleiðing af gildandi kirkjuskipan (þjóðkirkjufyrirkomulaginu) heldur byggjast þau á eignatilfærslu frá kirkju til ríkis á 20. öld. Þrátt fyrir að fullkominn aðskilnaður kunni að vera gerður milli ríkis og kirkju í  framtíðinni rofan hin fjárhagslegu tengls ekki. Ríkið er lögfræðilega, sögulega og siðferðilega skuldbundið til að vera fjárhagslegur bakhjarl kirkjunnar — eða afhenda henni fyrri eignir að nýju sem vart kemur til álita. Af þessum sökum er óhjákvæmilegt að hið opinbera geti fylgst með fjárreiðum og rekstri þjóðkirkjunnar. — Kirkjuskipan er tæki til þess.

Kirkjskipan er nauðsynlegt aðhald

Hér hefur verið bent á að nauðsynlegt er að stjórnvöld hafi innsýn í það stórveldi sem þjóðkirkjan vissulega er og hafi möguleika á að veita henni aðhald ef þörf krefur.

Einkum og sér í lagi þarf hið opinbera að standa vörðu um það fyrir hönd þjóðarinnar að þjóðkirkjan breyti ekki um eðli. Þannig ber ríkisvaldinu að tryggja 1) að þjóðkirkjan verði áfram lúthersk í þeirri merkingu sem hún er það nú, 2) að hún sé öllum opin og reiðubúin til þjónustu við alla án þess að krefjast sérstakrar trúarjátningar af þeim sem til hennar leita, 3) að hún starfi um land allt, 4) að stjórnarhættir hennar séu lýðræðislegir og 5) að hún fari að jafnréttislögum, stjórnsýslulögum og öðrum þeim réttarreglum sem eðlilegar eru í lýðræðissamfélagi. Kirkjuskipanin er forsenda þess aðríkið geti staðið vörð um þetta.

Vissulega kann kirkjuskipan að fela í sér jákvæða mismunun um margt. Í henni felst þó einnig mikilvægt aðhald og trygging þjóðinni til handa að hún haldi kirkju sinni óbreyttri meðan hún kýs það sjálf. Víst felst því frelsisskerðing í kirkjuskipaninni. Hún skerðir þó einkum frelsi þjóðkirkjunnar.

Vígslubiskupskosningar — í miðju kafi!

Hjalti Hugason, 9. August 2011 13:05

 

Kjör vígslubiskups í Skálholti stendur nú sem hæst. Slíkar kosningar krefjast alla jafna tveggja umferða þegar vel gengur. Af slysalegum ástæðum verða umferðirnar þó þrjár að þessu sinni! Niðurstöður fyrri umferðar lágu fyrir s.l. föstudag.

Kjörnmenn sluppu fyrir horn!

Fyrir skömmu benti sá sem þetta ritar á hér á Pressunni að ólíkt því sem gerist t.d. í alþingiskosningum ganga kjörmenn í biskupskosningum ekki óbundnir til kosninga. Í biskupskjöri hefur enginn kosningarétt nema hann eða hún gegni tiltekinni trúnaðarstöðu í kirkjunni. Í flestum öðrum kosningum er hins vegar um persónulegan kosningarétt að ræða. Af þessum sökum má ætlast til að kjörmenn leggi markaða stefnu kirkjunnar í ýmsum efnum til grundvallar við atkvæðagreiðsluna. Auðvitað er ekki hægt að gera ráð fyrir neinu slíku í almennum kosningum. Þar á meðal kemur jafnréttisstefna kirkjunnar til álita en samkvæmt henni er það eitt af markmiðunum að „stuðla að jafnri stöðu kvenna og karla í stjórnunar- og áhrifastöðum“. Þetta er hvað brýnast þegar um biskupsembætti er að ræða

Í fyrri umferðinni stóðust kjörmennirnir prófið — eða sluppu a.m.k. fyrir horn. Fjórir kandídatar voru í kjöri, tveir karlar og tvær konur. Konurnar hlutu samtals 76 atkvæði en karlarnir 70. Því má ætla að margir hafi haft jafnréttisstefnuna í huga þótt auðvitað hafi fjölmargir þættir aðrir áhrif á kjörið. Þetta eykur í öllu falli tiltrú á jafnréttisstefnu kirkjunnar. Vonandi staðfestir síðari umferðin einnig að hún sé meira en orðin tóm.

Val um „prinsíp“ en ekki aðeins persónur

Niðurstaðan úr fyrri umferð er að öðru leyti sú að eftir standa tveir ágætir kandídatar sem hvor um sig hefur góðar forsendur til að gegna embættinu með sóma. Helsti kosturinn við niðurstöðuna er þó að hún býður upp á val milli gjörólíkra kandídata. Nú ef nokkru sinni geta biskupskosningar snúist um „prinsíp“ í stað persóna. Það er gleðilegt.

Valið stendur milli karls og konu. Karlinn er á lokaskeiði starfsferils síns en konan um miðbik hans. Karlinn hefur einkum markað sér stöðu í innra starfi kirkjunnar. Konan hefur verið meira áberandi í samfélagsumræðunni. Síðast talda atriðið vegur þung nú um stundir þegar tengsl kirkjunnar við þjóðina standa sennilega tæpar en nokkurn tíman áður. Loks má benda á að þrír einstaklingar gegna biskupsembætti í þjóðkirkjunni í senn. Valið stendur því einnig milli óbreytts biskupateymis eða róttækrar breytingar í því efni. Breidd í forystuliðinu skiptir sköpum um snertiflöt kirkjunnar við samfélagið.

Tækifæri sem ekki má fara forgörðum

Nú er tækifæri til endurnýjunar! Þjóðkirkjan má ekki missa af því! Það verða kjörmenn að muna  næstu tvær til þrjár vikurnar meðan síðari umferðin fer fram!