Vígslubiskupskosningar — í miðju kafi!

Hjalti Hugason, 9. August 2011 13:05

 

Kjör vígslubiskups í Skálholti stendur nú sem hæst. Slíkar kosningar krefjast alla jafna tveggja umferða þegar vel gengur. Af slysalegum ástæðum verða umferðirnar þó þrjár að þessu sinni! Niðurstöður fyrri umferðar lágu fyrir s.l. föstudag.

Kjörnmenn sluppu fyrir horn!

Fyrir skömmu benti sá sem þetta ritar á hér á Pressunni að ólíkt því sem gerist t.d. í alþingiskosningum ganga kjörmenn í biskupskosningum ekki óbundnir til kosninga. Í biskupskjöri hefur enginn kosningarétt nema hann eða hún gegni tiltekinni trúnaðarstöðu í kirkjunni. Í flestum öðrum kosningum er hins vegar um persónulegan kosningarétt að ræða. Af þessum sökum má ætlast til að kjörmenn leggi markaða stefnu kirkjunnar í ýmsum efnum til grundvallar við atkvæðagreiðsluna. Auðvitað er ekki hægt að gera ráð fyrir neinu slíku í almennum kosningum. Þar á meðal kemur jafnréttisstefna kirkjunnar til álita en samkvæmt henni er það eitt af markmiðunum að „stuðla að jafnri stöðu kvenna og karla í stjórnunar- og áhrifastöðum“. Þetta er hvað brýnast þegar um biskupsembætti er að ræða

Í fyrri umferðinni stóðust kjörmennirnir prófið — eða sluppu a.m.k. fyrir horn. Fjórir kandídatar voru í kjöri, tveir karlar og tvær konur. Konurnar hlutu samtals 76 atkvæði en karlarnir 70. Því má ætla að margir hafi haft jafnréttisstefnuna í huga þótt auðvitað hafi fjölmargir þættir aðrir áhrif á kjörið. Þetta eykur í öllu falli tiltrú á jafnréttisstefnu kirkjunnar. Vonandi staðfestir síðari umferðin einnig að hún sé meira en orðin tóm.

Val um „prinsíp“ en ekki aðeins persónur

Niðurstaðan úr fyrri umferð er að öðru leyti sú að eftir standa tveir ágætir kandídatar sem hvor um sig hefur góðar forsendur til að gegna embættinu með sóma. Helsti kosturinn við niðurstöðuna er þó að hún býður upp á val milli gjörólíkra kandídata. Nú ef nokkru sinni geta biskupskosningar snúist um „prinsíp“ í stað persóna. Það er gleðilegt.

Valið stendur milli karls og konu. Karlinn er á lokaskeiði starfsferils síns en konan um miðbik hans. Karlinn hefur einkum markað sér stöðu í innra starfi kirkjunnar. Konan hefur verið meira áberandi í samfélagsumræðunni. Síðast talda atriðið vegur þung nú um stundir þegar tengsl kirkjunnar við þjóðina standa sennilega tæpar en nokkurn tíman áður. Loks má benda á að þrír einstaklingar gegna biskupsembætti í þjóðkirkjunni í senn. Valið stendur því einnig milli óbreytts biskupateymis eða róttækrar breytingar í því efni. Breidd í forystuliðinu skiptir sköpum um snertiflöt kirkjunnar við samfélagið.

Tækifæri sem ekki má fara forgörðum

Nú er tækifæri til endurnýjunar! Þjóðkirkjan má ekki missa af því! Það verða kjörmenn að muna  næstu tvær til þrjár vikurnar meðan síðari umferðin fer fram!