Á að setja landinu kirkjuskipan?

Hjalti Hugason, 11. August 2011 13:53

 

Nú er í stjórnarskrá okkar ákvæði um að evangelísk-lútherska meirihlutakirkjan skuli vera þjóðkirkja á Íslandi (62. gr.). Þetta kallast kirkjuskipan landsins. Henni má breyta með lögum sem þarf þó að staðfesta með þjóðaratkvæðagreiðslu (79. gr. stjskr.) Þjóðin hefur því sjálf lokaorð um það hvort hér er þjóðkirkja eða ekki.

Hrossakaup Stjórnlagaráðs

Stjórnlagaráð hefur nú lagt til að farið verði hálfa leið í að fella kirkjuskipanina úr gildi. Samkvæmt tillögunni skal kirkjuskipanin hverfa úr stjórnarskránni en í staðinn koma heimild til að kveða á um kirkjuskipan í lögum sem varin verða með þjóðaratkvæðagreiðslu eins og kirkjuskipanin nú. 

Þetta er dæmigerð málamiðlunarlausn sem bendir til að eining Stjórnlagaráðs hafi staðið tæpt. Ekki verður séð að breytingin hafi mikil praktísk áhrif — nema auðvitað ef löggjafinn ákveður að nýta ekki heimildina. Færi svo hefur óheppileg leið verið valin til að breyta til í þessu efni.

Hér skal áréttað að með því að fella kirkjuskipan úr stjórnarskrá er ekki náð fullum aðskilnaði ríkis og kirkju — ekki einu sinni fullum lagalegum aðskilnaði. Til þess þarf ýmsar aðrar lagabreytingar einkum niðurfellingu svokallaðra þjóðkirkjulaga sem auðvitað kallar fram mörg álitamál.

Hvað er kirkjuskipan?

Kirkjuskipan er hluti af stærri heild sem kalla má trúmálarétt. Hann kveður m.a. á um inntak og útmörk trúfrelsis, stöðu trúfélaga og ef vel er að verki staðið annars konar lífsskoðunarfélaga, sem og sérstöðu trúfélaga sem málefnalegar ástæður mæla með að séu tekin út fyrir sviga. Kirkjuskipan er einmitt ætlað að taka til þessa síðasttalda hluta.

Vegna yfirburðastærðar, langrar samfelldrar sögu, fjölþættra hlutverka í samfélaginu og af fleiri ástæðum hafa rök verði taldin fyrir því að kveða sérstaklega á um stöðu lúthersku kirkjunnar hér. Til að nefna annað dæmi má benda á að í Finnlandi eru sömu rök talin mæla með sérstöðu lúthersku kirkjunnar. Þar í landi kveður kirkjuskipanin þó auk þess á um að rétttrúnaðarkirkjan sem nær til eins prósents íbúanna skuli líka vera þjóðkirkja og þá af sögulegum ástæðum.

Þegar íslenska kirkjuskipanin var sett 1874 var hún stórt skerf í frjálsræðisátt. Fram að þeim tíma var ríkisvaldið trúarlega skilgreint, þ.e. átti að vera lútherskt, og kirkja og ríki voru algerlega óaðgreinanlegar stofnanir. Við slíkar aðstæður er ekki pláss fyrir trúfrelsi. Kirkjuskipanin skyldi opna fyrir aðgreiningu milli ríkis og kirkju, auka sjálfstæði kirkjunnar og sjálfsábyrgð en slaka á trúarlegum kröfum til ríkisvaldsins. Þar með varð og mögulegt að koma á auknu frelsi í trúarefnum.

Þörfnumst við  kirkjuskipanar?

Í upphafi 21. aldar kann mörgum að finnst sem kirkjuskipan feli í sér frelsisskerðingu í stað aukins svigrúms eins og var í öndverðu. Því er eðlilegt að spurt sé hvort eitthvað eigi að koma í stað núv. 62. gr. stjórnarskárinnar eða ekki. Eins og fram er komið hefur saga, stærð og hlutverk kirkjunnar einkum verið talin mæla með — eða kalla eftir — kirkjuskipan. Við þetta má bæta  menningarlegum, guðfræðilegum og jafnvel trúarlegum rökum. Hér skal það ekki gert heldur bent á nokkur algerlega veraldleg rök fyrir að þessum þætti trúamálaréttarins verði áfram haldið inni hvort heldur er í stjórnarská eins og nú er eða í lögum eins og Stjórnlagaráð leggur til:

1. Þjóðkirkjan er trúfélag. Trúfélög eru vettvangur náinna mannlegra samskipta á viðkvæmu sviði lífsins. Þar getur margt farið úrskeiðis eins og dæmin sanna. Í lok síðustu aldar lenti þjóðkirkjan í ógöngum þar sem hún hafði ekki úrræði að grípa til er biskup hennar var borinn þungum sökum. Vissulega hefur mörgu verið breytt til betri vegar síðan þá. Þó er enn full ástæða til að stjórnvöld hafi ákveðna innsýn í málefni þjóðkirkjunnar og geti gripið til aðgerða sé þess talin þörf. — Kirkjuskipan er tæki til þess.

2. Þjóðkirkjan er félagsleg fjöldahreyfing sem starfar á hinu viðkvæma sviði trúarinnar. Hún grípur með fjölþættum hætti inn í líf stórs hluta þjóðarinnar á viðkvæmum stundum í gleði eða sorg. Þá gegnir hún fjölmörgum samfélagslutverkum ekki síst þegar þjóðin á um sárt að binda. Einnig af þessum ástæðum kann að vera hollt að stjórnvöld hafi innsýn í starf þjóðkirkjunnar. — Kirkjuskipan er tæki til þess.

3. Þjóðkirkjan er fjárhagslegt stórveldi. Ríkisvaldið hefur með réttu viðurkennt tilkall hennar til fornra kirkjueigna með samningi sem ekki verður bakkað út úr með einföldum hætti. Núverandi fjárhagstengsl ríkis og kirkju eru því ekki afleiðing af gildandi kirkjuskipan (þjóðkirkjufyrirkomulaginu) heldur byggjast þau á eignatilfærslu frá kirkju til ríkis á 20. öld. Þrátt fyrir að fullkominn aðskilnaður kunni að vera gerður milli ríkis og kirkju í  framtíðinni rofan hin fjárhagslegu tengls ekki. Ríkið er lögfræðilega, sögulega og siðferðilega skuldbundið til að vera fjárhagslegur bakhjarl kirkjunnar — eða afhenda henni fyrri eignir að nýju sem vart kemur til álita. Af þessum sökum er óhjákvæmilegt að hið opinbera geti fylgst með fjárreiðum og rekstri þjóðkirkjunnar. — Kirkjuskipan er tæki til þess.

Kirkjskipan er nauðsynlegt aðhald

Hér hefur verið bent á að nauðsynlegt er að stjórnvöld hafi innsýn í það stórveldi sem þjóðkirkjan vissulega er og hafi möguleika á að veita henni aðhald ef þörf krefur.

Einkum og sér í lagi þarf hið opinbera að standa vörðu um það fyrir hönd þjóðarinnar að þjóðkirkjan breyti ekki um eðli. Þannig ber ríkisvaldinu að tryggja 1) að þjóðkirkjan verði áfram lúthersk í þeirri merkingu sem hún er það nú, 2) að hún sé öllum opin og reiðubúin til þjónustu við alla án þess að krefjast sérstakrar trúarjátningar af þeim sem til hennar leita, 3) að hún starfi um land allt, 4) að stjórnarhættir hennar séu lýðræðislegir og 5) að hún fari að jafnréttislögum, stjórnsýslulögum og öðrum þeim réttarreglum sem eðlilegar eru í lýðræðissamfélagi. Kirkjuskipanin er forsenda þess aðríkið geti staðið vörð um þetta.

Vissulega kann kirkjuskipan að fela í sér jákvæða mismunun um margt. Í henni felst þó einnig mikilvægt aðhald og trygging þjóðinni til handa að hún haldi kirkju sinni óbreyttri meðan hún kýs það sjálf. Víst felst því frelsisskerðing í kirkjuskipaninni. Hún skerðir þó einkum frelsi þjóðkirkjunnar.