Gloppóttur trúmálaréttur?

Hjalti Hugason, 17. August 2011 20:01

 

Stjórnlagaráð hefur lokið störfum. Nú liggur frumvarp þess fyrir í endanlegri mynd. Hér verður enn einu sinni vikið að trúmálarétti tillagnanna (sjá fyrri pistla hér á Pressunni) sem fram kemur í 18. og 19. grein frumvarpsins.

Núgildandi réttur

Trúmálarétt núgildandi stjórnarskrár er að finna í 6. kapítula hennar (62.–64. gr. sjá og 65. og 79. gr.). Þar er kveðið á um kirkjuskipan landsina (62. gr. og 2 mgr. 79. gr.) og í framhaldi af því um trúfrelsi. Þessi leið var eðlileg á síðari hluta 19. aldar er fyrsta stjórnarskrá okkar var sett. Með kirkjuskipaninni var opnað fyrir aðgreiningu milli ríkis og kirkju og þar með opnuð leið að trúfrelsi. Kirkjuskipanin var því í raun forsenda trúfrelsis eins og þá stóð á.

Að öðru leyti einkennist gildandi trúmálaréttur af því að trúfrelsi er sett fram sem víðtækt frelsi til að játa og iðka trú. Þetta hefur undirritaður nýlega kallað „bleikt trúfrelsi“ (Sjá pistilinn Bleikt eða blátt trúfrelsi) en oftast er  talað um jákvætt trúfrelsi í þessu sambandi. Þetta er eðlilegt fyrirkomulag þar sem trúfrelsi var komið á með stjórnarskrá en ekki byltingu. Útmörk trúfrelsisins eru síðan mörkuð á sértækan hátt, þar sem sagt er að ekki megi kenna eða fremja hvað sem er né heldur skorast undan almennum þegnskyldum undir yfirskini trúar. Þá er sett fram trúarleg jafnræðisregla sem kveður á um að enginn megi „neins í missa“ af réttindum sínum vegna trúar sinnar. Þetta var síðan undirstrikað enn frekar 1995 er almenn jafnræðisregla var tekin upp í stjórnarskrána (65. gr.).  Loks er rækilega kveðið á um frelsi allra til að standa utan trúfélaga og vera frjáls gagnvart þeim. En þetta hefur undirritaður kallað „blátt“ trúfrelsi en ekki neikvætt eins og hefð er fyrir.

Óbreytt meginstefna

Trúmálarétturinn í tillögum Stjórnlagaráðs er snubbóttari en raun er á með gildandi stjórnarskrá. Sagt er að öllum skuli tryggður réttur til trúar og lífsskoðunar, til að breyta um trú og standa utan trúfélaga. Þetta er í sjálfu sér gott og gilt. Þá er kveðið á um frelsi til trúariðkunar í einrúmi eða opinberlega og með öðrum. Hér er sýnilega mælt með því að haldið verði áfram í anda hinnar „bleiku“ hefðar.

Hin „bleika“ hefð kemur einnig fram þegar útmörk trúfrelsisins eru tiltekin. Þar segir að trúfrelsi skuli aðeins takmarkað af því sem „lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi“.

Hvernig ber að skilja þetta? Eru þetta tveir sjálfstæðir liðir í upptalningu? Merkir greinin að löggjafinn geti 1) sett trúariðkun skorður eftir því sem rétt þykir hverju sinni og svo skuli auk þess 2) hugað að nauðsynlegum og almenntum takmörkunum trúfrelsis í lýðræðissamfélagi. Þetta er hugsanleg túlkun. Líklegra er þó að Stjórnlagaráð hafi hugsi þetta svo að síðari liður upptalingarinnar eigi að skýra fyrri liðinn, þ.e. að löggjafinn geti takmarkað trúfrelsi með lögum eftir því sem nauðsynlegt er talið í lýðræðissamfélagi.

Eigi að skilja greinina svo hefði verið heppilegra að sleppa fyrri lið upptalningarinnar. Hann er óþarfur. Þannig hefði greinin heldur ekki þurft túlkunar eða útskýringar við. Hún hefði einfaldlega kveðið á um að að ekki mætti takmarka trúfrelsi nema til að standa vörð um grunngildi samfélagsins, lýðræðið. Þannig hefði ákvæðið raunar fengið sambærilega merkingu og 63. grein í núgildandi stjórnarskrá. Hinum tæknilega stíl sem annars einkennir greinina hefði einnig verið haldið.

Það er slæmt að byggja upp nokkra óvissu um hvar útmörk trúfrelsis liggja nú í upphafi 21. aldar. Hún mun einkennast af sívaxandi fjölhyggju og fjölmenningu ekki síst í trúarefnum. Trúfrelsisgrein nýrrar stjórnarskrár verður að leggja traustan grunn að fagurri og „harmónískri“ trúarmenningu í samfélaginu. Því hefði að ósekju mátt viðhafa meiri skýrleika hér.

Hallað á „bláu“ leiðina?

Í frumvarpi Stjórnlagaráðs er hin „bláa“ hlið trúfrelsisin útfærð á losaralegri hátt en í núgildandi stjórnarskrá. Raunar er aðeins vikið að henni þar sem segir að „heimilt sé að standa utan trúfélaga“. Hugsanlega er þetta fullnægjandi nú þegar trúfrelsi í landinu hefur slitið barnsskónum.

Það sem er þó verra og raunar afleitt er að frumvarp Stjórnlagaráðs tók afdrifaríkri breytingu á lokastigi. Í drögum að frumvarpinu var gert ráð fyrir jafnstöðu trúarskoðanna og veraldlegra lífsskoðanna þar sem lagt var til að stjórnvöld skyldu „vernda öll skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög“. Þetta ákvæði féll brott á lokastigi. Það er illt. Með að fella það niður stuðlar Stjórnlagaráð að því að haldið verði áfram þeirri mismunun á trúarlegum og veraldlegum lífsskoðunum sem kemur fram í núgildandi lögum um skráð trúfélög (nr. 108 28. desember 1999). Þar eru veraldlegar og trúarlegar lífsskoðanir lagðar að jöfnu í 1. kafla líkt og gert er í upphafi 18. greinar í frumvarpi Stjórnlagaráðs. Í 2. kafla laganna er trúfélögum síðan veitt margháttuð vernd sem lífsskoðunarfélög eru útilokuð frá. Ákvæðinu sem fellt var brott var ætlað tryggja aukinn jöfnuð í þessu efni. Mismunun af þessu tagi er óviðeigandi á 21. öldinni þegar fólk túlkar tilveru sína á fjölbreyttan hátt — ýmist trúarlegan og veraldlegan — og grundvallar gildismat sitt bæði á trú og veraldlegum lífsskoðunum, t.d. húmanisma.

Það er slæmt að Stjórnlagaráði hafi ekki tekist að standast áhlaup sem sýnilega var gert á fyrri tillögu þess í kollhríðinni. Hugsanlega hafa þeir sem áhlaupið gerðu misskilið anda hins nýja ákvæðis um vernd öllum trú- og lífsskoðunarfélögum til handa.

Kirkjuskipanin

Eðlilega færir Stjórnlagaráð kirkjuskipanina aftur fyrir trúmálaákvæðin þar sem hún á heima nú á dögum. Eins og bent hefur verið á felur þessi hluti tillagnanna í sér málamiðlun sem sætir ekki stórum tíðindum þar sem traust rök standa til að löggjafinn nýti þá heimild til að setja landinu kirkjuskipan á þann hátt sem Stjónlagaráð leggur til (Sjá pistilinn Á að setja landinu kirkjuskipan?).

Að lokum

Trúmálarétturinn í frumvarpi Stjórnlagaþings rúmast innan gildandi hefðar þrátt fyrir að ákvæðin séu öllu styttri, snubbóttar og um sumt óljósari. Ekki var heldur nein brýn ástæða til að rjúfa hefðina nú. Ekki er að sjá að tillögur ráðsins séu neitt verulega skýrari eða opnari fyrir aukinni trúarlegri fjölhyggju og veraldarhyggju á sviði lífsskoðana en núgildandi trúmálaréttur. Tæpast hefur ráðinu því tekist að skapa trúarmenningunni á landinu þann sjórnarskrárgrunn sem vert væri í upphafi 21. aldar.