Þjóðkirkjuguðfræði fyrir 21. öldina — Nokkrir kubbar í púsl

Hjalti Hugason, 28. September 2011 09:45

Nýlega lét ég að því liggja hér á síðunni að líklega skorti íslensku þjóðkirkjuna forsendar til að geta risið undir því að vera sjálfrátt (autonomt) trúfélag í tengslum eða án tengsla við veraldlegt ríkisvald. (Sjá pistilinn Þorum við, getum við viljum við vera sjálfráð þjóðkirkja?)

Með þessu er átt við að kirkjan búi ekki að mótaðri þjóðkirkjuguðfræði sem hæfi 21. öldinni og sé henni leiðarljós í samfélagi fjölhyggju og fjölmenningar. — Hér verður bent á nokkur viðfangsefni slíkrar guðfræði.

Sjálfstætt trúfélag og þjóðkirkja

Í 1. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 er kirkja okkar skilgreind bæði sem „sjálfstætt trúfélag“ og  þjóðkirkja sem ríkisvaldinu ber að „styðja og vernda“ sbr. 62. gr. stjskr. Grundvallarspurning er hvort þetta sé samræmanlegt eða óstættanlegt.

Þjóðkirkja er háð lögum sem Alþingi setur. Núgildandi þjóðkirkjulög eru 7 kaflar og heilar 64 gr. — sem sé smásmuguleg. Hverjir eru aftur á móti gagnráðarnir í stjórnkerfi og starfsháttum sjálfstæðra trúfélaga? Eru þeir sóttir innávið eða útávið — til játninga, hefða, sögu og hlutverks trúfélagsins eða til veraldlegs ljöggjafa? Endurspegla þjóðkirkjulögin sjálfsskilning kirkju okkar eða breyta þau henni í bákn?

Hér þarf vissulega ekki að vera um annað hvort eða að ræða. Við endurskoðun þjóðkirkjulaganna er hins vegar full ástæða til að spyrja gagnrýninna spurninga. Þar á meðal verður að  ákveða hver eigi að setja hina innri kirkjuskipan eða skrifa kirkjuréttinn, Alþingi eða Kirkjuþing.

Þetta eru álitamál fyrir þjóðkirkjuguðfræði á 21. öld.

Tengsl trúfélags og ríkisvalds

Ofangreindar spurningar lúta öðrum þræði að afstöðu þjóðkirkjunnar til tengsla sinna við veraldlegt ríkisvald í lýðræðissamfélagi sem er á hraðri leið inn í fjölhyggju 21. aldar. Í því sambandi ber að gæta að því að kirkjuskipan ríkisins er ekki gagnvirk. Hún ákvarðar aðeins stöðu þjóðkirkjunnar út frá ákveðnum bæjardyrum séð. Hún leiðir hins vegar ekki til þess að ríkisvaldið verði í einhverjum skilningi lútherskt.

Spyrja verður hvernig tengsl ríkis og kirkju eigi að vera í framtíðinni. Sterkari tengsl en nú munu vissulega ekki standa til boða. En eiga þau að vera óbreytt, á að teygja enn meira á þjóðkirkjuskipaninni eða hugsanlega slíta tengslin með öllu?

Hlýtur sjálfstætt trúfélag ekki að keppa að sem mestu sjálfræði gagnvart ríkisvaldinu? Hvað þýðir það þá bæði í orði og á borði? Sjálfræði þarf vissulega ekki að merkja að ríki og kirkja segi að öllu leyti skilið hvort við annað. Sjálfræði kirkjunnar hlýtur þó að setja tengslunum skorður og skipta sköpum við framtíðarmótun þeirra.

Spurningum um á borð við þessar verður ekki svarað án þjóðkirkjuguðfræði sem hefur merkingu á 21. öldinni.

Þjóðkirkja — jafnvel eftir aðskilnað?

Vangaveltur um samband ríkis og kirkju vekja óhjákvæmilega þá spurningu hvort þau tengsl skipti í raun sköpum um hvort kirkja sé þjóðkirkja eða ekki. Svarar ríkisvaldið þeirri spurningu með þjóðkirkjulögum? Gerir þjóðin það með atkvæðagreiðslu á grundvelli 62. og 2. mgr. 79. gr. stjskr.? Eða er það hugsanlega fyrst og fremst kirkjan sjálf sem svarar þeirri spurningu út frá köllun sinni og sjálfsskilningi?

Vill kirkja okkar lifa og líða með íslensku samfélagi eftir Hrun? Vill hún standa öllum opin? Vill hún þjóna öllum sem þiggja vilja óháð trúarskoðunum þeirra eða trúarstyrk? Vill hún eiga orðastað við alla? Vill hún berjast fyrir betri heimi í samvinnu við öll þau sem vilja láta gott af sér leiða? Vill hún leggja sitt af mörkum til að koma á nýju félagslegu réttlæti í landi okkar? — Er það ekki þetta sem að biðja, boða og þjóna merkir á hversdagsmáli?  Vilji kirkjan starfa með þessum hætti er hún og verður þjóðkirkja hvernig svo sem tengslum hennar við ríkisvaldið er háttað.

Vonandi stendur þjóðkirkjan ekki öllum opin — ef hún gerir það í raun — einungis vegna þess að lög um stöðu, stjórn og starfshætti hennar nr. 78/1997 kveða á um það. Vonandi gerir hún það fyrst og fremst vegna þess að hún finnur sig kallaða til þess af höfundi sínum, Kristi. Vonandi þjóna prestar hennar öllum sem til þeirra leita nú ekki aðeins vegna þess að þeir eru embættismenn veraldlegs ríkis heldur vegna þess að þeir eru þjónar í kirkju Krists.

Kirkjan varðveitir samstöðu sína með þjóðinni best á grundvelli þjóðkirkjuguðfræði fyrir 21. öldina.

Hver tekur ákvarðanir?

Í sjálfstæðum trúfélögum verður að taka þúsund ákvarðanir um allt milli himins og jarðar. Í öllum ákvörðunum felst val milli ólíkra kosta. Við það val er tekist á um völd. Því er óhjákvæmilegt að spurt sé hverjir eigi að koma að ákvörðunum, á hvaða hátt og í hvaða mæli. Eiga guðfræðingar að ráða för? Skapar vígsla forskot í óhjákvæmilegu en oft ósýnilegu valdatafli sem stöðugt fer fram í kirkjunni?  Á kirkjan að vera „prestakirkja“? Á lýðræði að vega þyngra? Hvað veitir myndugleika í kirkjunni: menntun, vígsla, trú, almennur eða sértækur prestdómur, lýðræðislegar eða „kanonískar“ kosningar?

Spurningum á borð við þessar verður ekki svarað nema út frá mótaðri þjóðkirkjuguðfræði fyrir 21. öldina.

Hlutverk í fjölhyggjusamfélagi

Svo virðist sem þjóðkirkjan velkist í vafa um raunverulegt hlutverk sitt í kviku samtímans. — Vissulega er það sístætt hlutverk kirkjunnar að syngja Guð lof í helgihaldi. Vissulega er kristniboðsskipunin enn í gildi og kallar á boðun og fræðslu. Vissulega er köllun kærleikans alltaf söm við sig og kallar á hlustandi eyra í sálgæslu og líknandi hönd í díakoníu.

Í kviku samtímans verður þjóðkirkjan þó að iðka þessi sístæðu hlutverk á nýjan hátt. Spyrja verður: Hver er köllun kirkjunnar í samfélaginu eftir Hrun? Á hún að „siðvæða“ samfélagið? Ætti hún að leitast við að endurreisa hið kristna einingarsamfélag sem margir virðast sjá í hillingum? Eða felst hlutverk hennar í því að axla krossinn með svikinni þjóð, takast á við afleiðingar ranglætis í fjölmörgum myndum, koma á nýju réttlæti?

Þetta eru spurningar um þjóðkirkjuguðfræði fyrir 21. öldina.

Á leið inn í píslarvætti?

Á síðari árum hefur oft heyrst að „sótt sé að kirkjunni“. Er það rétt? Hverjir sækja að henni? Hvaðan er sótt og til hvers? Erum við e.t.v. að rangtúlka eitthvað? Kann að vera að íslenska þjóðkirkjan eigi aðeins erfitt með að fóta sig í samtímanum, fjölhyggjunni og ekki síst þeirri félagslegu deiglu sem opnaðist eftir Hrun? Þá varð ekkert lengur upphafið, ósnertanlegt eða heilagt. Í þeim aðstæðum sem nú eru uppi er auðvelt fyrir gamlar forréttindastofnanir að leita skjóls í hlutveki píslarvottarins. En hver er sjálfsmynd kirkjunnar í þessum nýju aðstæðum?

Þeirri spurningu verður ekki svarað öðru vísi en út frá þjóðkirkjuguðfræði fyrir 21. öldina.

Eigum við gilda þjóðkirkjuguðfræði?

Hér hefur verið spurt nokkurra — vonandi ágengra — spurninga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkju okkar. Engri þeirra verður svarað af nokkru viti án markaðrar þjóðkirkjuguðfræði sem hefur merkingu við þær aðstæður sem uppi eru við upphaf 21. aldar.

Slík guðfæði felur í sér markvissa skoðun á arfi þjóðkirkjunnar sem evangelísk-lútherskrar greinar á almennri kirkju Krists sem og síbreytilegu sögulegu og samfélagslegu umhverfi kirkjunnar. Kirkja mótast alltaf aðstæðum í tíma og rúmi. Ella er hún ekki endurómur af Orði sem varð hold.

Liggur þjóðkirkjuguðfræði fyrir 21. öldina ljós fyrir í kirkju okkar? Ef svo er hvar er hana þá að finna? — Sé hún ekki til staðar er brýnt að búa hana til. Hvernig verður það best gert?

Hvað er aðskilnaður ríkis og kirkju? — II

Hjalti Hugason, 26. September 2011 14:28

Margir velta nú fyrir sér aðskilnaði ríkis og þjóðkirkju. Í fyrri pistli hér á Pressunni var fjallað um réttarfarslegar hliðar aðskilnaðar. Hér verður vikið að ýmsum félagslegum og táknrænum flötum þess máls.

Ekki trúarleg 0-stilling

Réttarfarslegur aðskilnaður ríkis og þjóðkirkju leiðir ekki til þess að hætt verði að halda hér jól — ekki einu sinni litlu-jól, ekki að skipt verði um fána, skjaldarmerki, þjóðsöng eða að endilega verði hætt að ganga til kirkju fyrir þingsetningu. Aðskilnaður ríkis og kirkju felur heldur ekki í sér að hætt verði að kenna kristin fræði í grunnskólum eða guðfræði við HÍ. Þessu öllu væri þó líka mögulegt að breyta án þess að skilja að ríki og þjóðkirkju.

Okkur kann t.a.m. mörgum að finnast full ástæða til að skipta út þjóðsöngnum fyrir alþýðlegra lag og ljóð. Til þess þarf ekki að hrófla við 62. gr. stjskr. Það nægir að breyta 1. gr. laga um þjóðsöng Íslendinga nr. 7/1983.

Verði kostnaður þingheims af fatahreinsun of mikill í framtíðinni eftir skrúðgöngur milli dómkirkju og Alþingishúss til þingsetningar, sbr. mótmælin í fyrra, má leggja athöfnina niður án breytinga á kirkjuskipan ríkisins. Verði slík breyting gerð má líka halda í athöfnina í lítið eitt breyttri mynd, líkt og t.d. er raun á í Svíþjóð þar sem tengsl ríkis og kirkju eru nú veikari en hér. Athöfnin yrði þá í boði kirkjunnar en ekki á vegum þingsins.

Í aðskilnaði ríkis og þjóðkirkju felst sem sé ekki að samfélagið sé sett á trúarlegan núll-punkt.

Ekki bakkað út úr sögunni

Flest af því sem að ofan er talið eru ekki beinar afleiðingar af því að hér hefur ríkt þjóðkirkjuskipan frá 1874 heldur af að hér var tekið við kristni fyrir 1000 árum. Þessi langa samfylgd kirkju og þjóðar hefur sett óafmáanleg merki á sögu okkar og menningarhefð. Krossfáni okkar eins og hinir norrænu fánarnir eru t.d. sýnilegt ták um þessa sögu — hvorki meira né minna. Í norrænu fánunum felst sem sé engin trúarjátning nú á dögum. Vilji menn hins vegar fara í þá vegferð að breyta fánanum nægir að breyta 1. gr. laga um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið nr. 34/1944.

Svipuðu máli gegnir um kristinfræðikennslu í grunnskólum. Hlutverk hennar er ekki að leiða börn til kristinnar trúar. Það er hlutverk kirkjunnar þegar skírð börn eiga í hlut og þeirra foreldra sem bera börn sín til skírnar. Kennslu í kristnum fræðum er hins vegar ætlað að fræða börn um menningarhefð þjóðarinnar og Vesturlanda almennt, gera þau læs á menninguna. Kennsluna má því samþætta sögu og samfélagsfræðum. Kristnum fræðum er líka ætlað að þjálfa börn í að glíma við áleitnar lífsspurningar og gildismat. Kennslu í þeim má því líka flétta inn í lífsleikni, trúarbragðafræðslu, siðfræði- eða heimspekikennslu. Kennslu í kristnum fræðum er í öllu falli stýrt með námsskrá en ekki 62. gr. stjskr. eða hliðstæðu hennar.

Aðskilnaður ríkis og þjóðkirkju felur ekki í sér að bakkað sé út úr sögu síðustu 1000 ára. Það verður aðeins gert með menningarbyltingu. Hér á landi virðast engar forsendur fyrir henni.

Er aðskilnaður eina svarið við fjölhyggju?

Í lýðræðissamfélagi sem er í örum breytingum og stefnir hraðbyri inn í aukna fjölhyggju skipir miklu að fengist sé af alvöru og heilindum við álitamál sem lúta að því hvernig best sé að samræma sögu þjóðarinnar og samtíð hennar. Í því sambandi ber að gefa því gaum að hvorki hefur menning okkar Íslendinga né menning kristinnar kirkju verið óbreytt í þau 1000 ár sem þjóð og kirkja hafa átt hér samleið. Í því efni gildir lögmálið: Framþróun eða dauði. Það skiptir því miklu að glæða forn tákn nýrri merkingu en leggja þau til hliðar ef það tekst ekki. Eins verðum við að vera opin fyrir nýjum birtingarmyndum gildismats og menningar sem hafa aðrar rætur en hinar kristnu.

Mörgum kann að virðist þetta verkefni of flókið ef taka á tillit til bæði veraldlegrar menningar og trúarlegrar. Því hyllast þeir til að mæta aukinni fjölhyggju með aðgreiningu á hinum veraldlegu og trúarlegu þáttum menningar og samfélags og útiloka þá trúarlegu sem mest úr opinberu rými. Aðskilnaður ríkis og þjóðkirkju er liður í slíkri viðleitni. Hann einn og sér er þó ekki lausn á þeim flóknu viðfangsefnum sem aukin fjölhyggja hefur í för með sér. Þá má einnig færa rök fyrir því að mannréttindi verði ekki best tryggð í fjölhyggjusamfélagi með því að setja trúartjáningu auknar skorður eins og gert er þar sem ekki er aðeins greint á milli ríkis og kirkju á róttækan hátt heldur hins veraldlega og trúarlega sviðs almennt.

Aðskilnaður ríkis og þjóðkirkju er því ekki óhjákvæmilegt svar við fjölhyggju.

Trúmálaréttur fyrir 21. öldina

Það er ögrandi viðfangsefni að glíma við hvernig menning okkar og saga verðar best fléttaðar saman við allar þær fjölbreyttu lífsskoðanir og gildismat sem fjölhyggjan færir okkur. Það verður að gera án forræðishyggju og stöðlunar. Því miður hefur kirkjan oftar en ekki mætt nýjum stefnum og straumum með þeim hætti á liðnum öldum. Ríkisvaldið getur fallið í sömu gryfju sé því beitt í þá veru að aðgreina hina veraldlegu og trúarlegu menningu um of í því skyni að tryggja einingu. Hugsanlega er betri leið að ríkisvaldið veitti öllum trú- og lífsskoðunarfélögum sem sambærilegastan stuðning.

Það er mikilvægt að einfaldar breytingar á lögformlegum tengslum ríkis og þjóðkirkju dragi ekki athygli okkar frá hinni eiginlegu örgrun fjölhyggjunnar sem kreft þess að 1000 blóm fái að blómstra í sama beði. Til þess að svo megi verða þarf að þróa trúmálarétt sem rúmar þá fjölbreytni sem þegar er til staðar í trúarflóru okkar og stuðlar að sem mestum jöfnuði trúar- og lífsskoðana.

Því ber ekki að hrapa að aðskilnaði sem „patentlausn“ heldur leita bestu leiðarinnar til að bregðast við fjölhyggjunni en til þess eru margar leiðir færar.

Málfar allgott en nálgast skýrslugerð!

Hjalti Hugason, 15. September 2011 17:06

Í sumar fékk ég grein úr ritrýni. Niðurstaðan var jákvæð og athugasemdir fyrirsjáanlegar. Hér var því ekkert sem sætti tíðindum. Eitt atriði rýninnar hefur þó fylgt mér síðan. Annar rýnirinn kom inn á málfar greinarinnar með þessum ummælum: „Málfar er allgott en hefur hins vegar tilneigingu til að nálgast skýrslugerð.“

Ég hugsa að ritrýnirinn hafi hitt naglann á höfuðið  og þá ekki aðeins um þessa grein heldur fjölmargt annað sem ég hef látið frá mér fara. Ég skrifa oftast fast að lengdarmörkum. Þá verða orð oft dýr og farin skemmsta leið í að koma hugsun sinni til skila. Svo skrifa ég almennt flatan stíl og hversdagslegan. Allt á þetta skylt við skýrslugerð. Til varnar mér get ég svo nefnt að greinin fjallaði um lögfræðilegt efni og lagatexti er oftast þurr og knappur. Hvernig nýttust lög ef þau væru sett fram á bókmenntalegan hátt? Við skulum þó ekki vanmeta fagurfræði laga.

Á liðnu sumri fékk ég líka grein til ritrýni. Hún fjallaði um brýnt samfélagslegt umræðu- og jafnvel deiluefni sem lýtur að mennta- og trúarpólitík í landinu. Greinin fékk mín bestu ummæli á öllum sviðum nema mér fannst hún vera á uppkastsstigi hvað málfar áhrærði. Líklega hafði höfundur lent í tímaþröng.

Nú má spyrja: Koma ritrýnum málfarsleg atriði eitthvað við umfram það að benda höfundum góðfúslega á augljós pennaglöp ef þeir þá gefa sér tíma til? Þeir eru hvorki prófarkalesarar né málfarsráðunautar enda margir illa til slíkra verka fallnir. Svo er hitt auðvitað stærri spurning: Skiptir stíll og málfar á ritrýndum fræðigreinum einhverju verulegu máli meðan hugsun er á annað borð skýr, inntak kemst til skila og engar meginreglur ritunar eru fyrir borð bornar, það er þegar lágmarkskröfum til prentaðs máls er flullnægt? Er yfir höfuð eitthvað á móti því að hugvísindafólk skrifi skýrslur til birtingar í fræðiritum? Hefði til dæmis raunvísindamaður fengið sömu umsögn? Ég vil ekki fortaka það en tel samt ríkari kröfu gerða til hugvísindafólks um stíl.

Hvers vegna ætli svo sé? Skýringarnar geta verið ýmsar en eiga margar sammerkt í tensglum hinna ýmsu greina hug- eða mannvísinda við fyrirbæri sem liggja utan þeirra sjálfra. Fjölmargar greinar þeirra eiga til dæmis rætur að rekja til bókmenntaiðju fyrri alda. Sagnfræðin er til að mynda sprottin upp úr sagnaritun miðalda þar sem sagan var sett fram með ýmsu móti — til dæmis í annálum — en líka þar sem mörk söguritunar og skáldskapar voru óljós hvað varðar málfar og framsetningu. Þessi uppruni sagnfræðinnar kann að varðveitast í sagnfræðilegum stíl. Þá má benda á að viðfangsefni hugvísindanna eru oft á tíðum fagurfræðilegs eðlis. Til dæmis fjalla þau oft um bókmenntir og þarf þá ekki bókmenntafræðinga til. Það þykir ekki óeðlilegt að niðurstöður í bókmenntarannsóknum séu settar fram á bókmenntalegri hátt en þegar um kjareðlisfræðilegar niðurstöður er að ræða. Loks má benda á að viðfangsefni hug- og mannvísinda hafa oft tengsl við eða gildi fyrir miðlun utan fræðigreinarinnar sjálfrar. Þannig á prédikun að spertta af fræðilegri vinnu prédikarans sjálfs eða einhvers sérfræðings sem hann eða hún kýs að leita í smiðju til.

Það kann líka að vera að sú ríka krafa sem gerð er um að málfar, stíll og önnur fagurfræði hugvísindalegs texta fari fram úr þurri skýrslugerð stafi af því að fólkinu í landinu standi ekki á sama um hvað hugvísindafólk hefst að. Það vill eiga greiðan aðgang að verkum okkar, vill geta lesið þau sér til gagns, vill að við aðstoðum það og þjálfum í að hugsa um líf sitt og tilveru í sögu og samtíð. Til þess nægja ekki skýrslur. Því „bókmenntalegri“ sem við leyfum okkur að vera því gagnlegri verða verk okkar í þessu efni.

Þorum við, getum við, viljum við vera sjálfráð þjóðkirkja?

Hjalti Hugason, 15. September 2011 17:04

Í rúm 200 ár hefur sú þróun verið uppi að kirkjur Vesturlanda hafa öðlast stöðugt meira sjálfræði (autonomy), þ.e. sjálfstæði og sjálfsstjórn, andspænis ríkisvaldinu. Þjóðkirkjur eða fríkirkjur hafa leyst ríkiskirkjur fyrri alda af hólmi.

Ástæður þróunarinnar

Ástæður þessarar þróunar er að rekja til aðgreiningar hins trúarlega og veraldlega sviðs samfélagsins (þ.e. sekúlaríseringar), lýðræðisþróunar og aukinnar fjölhyggju. Fram hefur komið veraldlegt ríkisvald sem talið er skorta bæði hæfi og hæfni til að fara með trúarleg málefni.

Sumir kunna að sakna fyrra ástands er ríkið studdi og verndaði kirkju þeirra á virkan hátt eða viðurkenndi hana jafnvel sem ríkistrú. Þeir tímar koma þó ekki aftur nema Vesturlönd hverfi að nýju til þess ástands sem nú einkennir ýmis samfélög múslima eða biblíubelti BNA. Þar tengjast íhaldssöm trúartúlkun og stjórnmálastefna enn taustum böndum. Fæstir óska sér slíks ástands hér.

Sókn til sjálfræðis

Því fer fjarri að ofangreind þróun hafi aðeins verið á þá lund að ríkisvaldið hafi snúið baki við kirkjum og trúfélögum. Flestir líta svo á að afskipti ríkisins af starfi trúfélaga skerði óhjákvæmilega frelsi þeirra. Þær trúhreyfingar sem fram hafa komið á síðari öldum hafa því frá upphafi hafnað tengslum við ríkisvaldið. Eldri kirkjur hafa jafnframt keppt að auknu sjálfræði ýmist með aðskilnaði frá ríkisvaldinu eða með stöðugt veikari tengslum við það.

Þjóðkirkja okkar hóf sókn til sjálfræðis þegar í upphafi aldarinnar sem leið. Þá átti sú þjóðkirkjuguðfræði hér miklu fylgi að fagna að sjálfræði — sjálfstæði og sjálfsstjórn — væri þjóðkirkjunni eðlislægt og hún næði ekki að gegna köllun sinni án þess. Því voru settar fram kröfur um kirkjuþing sem æðstu stjórn kirkjunnar í eigin málum.

Þessi stefna náði fram að ganga eftir hartnær 100 ára baráttu með þjóðkirkjulögunum frá 1997 en samkvæmt þeim er þjóðkirkjan sjálfstætt trúfélag sem fer með víðtæka stjórn í eigin málum. Nú, hálfum öðrum áratug síðar, þykir mörgum tími til kominn að taka næsta skref í átt að auknu sjálfræði. Skilaboð í þá veru bárust m.a. frá Stjórnlagaráði nú í sumar sem mælir með að ákvæði um þjóðkirkju þoki úr stjórnarskrá.

Þorum við?

Eigi þjóðkirkjan að öðlast meira sjálfræði en nú er verður hún að axla þá ábyrgð að setja sér sjálf skipan í innri málum sínum, skrifa sinn eiginn kirkjurétt. Sjálfráð kirkja getur ekki til lengdar búið við þá stöðu að veraldlegt þing setji henni innri kirkjuskipan. Lög um stöðu hennar, stjórn og starfshætti verður því að einfalda til muna og færa það efni þeirra sem lýtur að stjórn og starfsháttum yfir í starfsreglur sem Kirkjuþing, æðsta stjórn þjóðkirkjunnar, setur.

Svo virðist sem margir óttist þá breytingu og telji hana fela í sér los eða óvissu. Því má spyrja: Þorum við þjóðkirkjufólk að stuðla að auknu sjálfræði kirkju okkar?

Getum við?

Til að rísa undir sjálfræði þarf þjóðkirkjan að búa að styrkri, lýðræðislegri stjórn sem endurspeglar hana í breidd sinni og fjölbreytileika. Þá verður hún að hafa þróað með sér trausta  stjórnsýsluhætti sem standast samanburð við það sem best gerist meðal annarra sambærilegra stofnana. Hún verður að vera fullgildur aðili í lýðræðislegu réttarríki og helst verður hún að vera þar fyrirmynd annarra.

Í ljósi þessarar siðferðilegu kröfu er rétt að spyrja: Rísum við í þjóðkirkju Íslands undir sjálfræði? Getum við verið sjálfráð kirkja?

Viljum við?

Aukið sjálfræði þýðir að sjálfsögðu að tengslin við ríkisvaldið rakna. Lagaleg staða þjóðkirkjunnar breytist ekki aðeins heldur einnig táknræn staða hennar. Sem dæmi má nefna að ekki er sjálfsagt að forseti lýðveldisins skipi æðstu embættismenn kirkjunnar. Í sjálfráðri kirkju kýs kirkjan sér sína eigin forystu og leiðtogar hennar, þar á meðal biskupar, taka við umboði sínu frá kirkjunni sjálfri en ekki þjóðhöfðingja sem ekki þarf að tilheyra kirkjunni.

Einhverjum kann að virðast þessi breyting og ýmsar viðlíkar lækka risið á kirkjunni. Því má spyrja: Viljum við verða sjálfráðari en við erum nú?

„Já, ég þori, get og vil!“

Fyrir hálfum fjórða áratug sungu stoltar og baráttuglaðar konur: „En þori ég, get ég, vil ég? Já, ég þori, get og vil!“ Tíminn sem liðinn er síðan hefur sannað að þær vildu, þorðu og gátu. Ástæðan er sú að þær höfðu öðlast trausta sjálfsmynd.

Margt bendir til að íslensku þjóðkirkjunni skorti þá sjálfsmynd og það sjálfstraust sem er frumforsenda þess að hún geti risið undir því að vera sjálfrátt trúfélag í tengslum eða án tengsla við veraldlegt ríkisvald. Verkefni dagsins er því að móta þjóðkirkjuguðfræði fyrir 21. öldina — sjálfsskilning sjálfráðrar kirkju sem megnar að standa á eigin fótum og þjóna samfélagi fjölhyggju og fjölmenningar á merkingarbæran hátt.

Hvað er aðskilnaður ríkis og kirkju? — I

Hjalti Hugason, 8. September 2011 16:47

Um nokkurt skeið hafa kannanir sýnt að stór hluti þjóðarinnar er fylgjandi breytingum á sambandi ríkis og kirkju. Oftast er þar átt við aðskilnað. Umræða um aðskilnað ríkis og kirkju hér er þó hvorki jafnáköf né marksækin nú og hún var fyrir 100 árum. Þá virtist mörgum aðskilnaður á næsta leiti.

En er ljóst hvað átt er við með aðskilnaði? Svo virðist ekki alltaf vera. Hugmyndir sumra virðast óljósar í því efni. Aðrir hártoga hugtakið á ýmsa lund eftir hentugleikum hverju sinni.

Aðgreining er ekki aðskilnaður

Aðgreining ríkis og kirkju sem stofnana er ekki það sem átt er við með aðskilnaði. Á einveldistímanum var ríki og kirkja eitt og hið sama í flestum löndum Evrópu. Undir lok 18. aldar hófst aðgreining þessara stofnana t.d. í Frakklandi. Með stjórnarskrá Dana (1849) hófst aðgreining í danska ríkinu og hér á landi 25 árum síðar með stjórnarskránni 1874.

Eftir þetta var kirkjan ekki órofa hluti af ríkinu heldur sérstök stofnun sem það gat „stutt og verndað“ eins og segir í stjórnarskránni. Ákvæði stjórnarskránna tveggja um þjóðkirkju og skyldur ríkisins við hana sýna hins vegar að ekki var um aðskilnað að ræða.

Aðskilnaður og sjálfstæði er ekki hið sama

Lungann úr 20. öldinni keppti þjóðkirkjan eftir að öðlast aukið sjálfstæði og sjálfsstjórn. Margir kirkjuleiðtogar staðhæfðu að þetta væru órofa þættir af eðli þjóðkirkjunnar. Hún gæti ekki gegnt hlutverki sínu án sjálfstæðis og hún ætti stjórnarskrárvarið tilkall til þess. Þeir byggðu á þjóðkirkjuguðfræði sem hafði kirkjupólitískar afleiðingar. Ýmsir leiðandi lögfræðingar höfnuðu hins vegar þessum skilningi, a.m.k. því að stjórnarskráin gæfi ádrátt um kirkjulega sjálfsstjórn.

Sjálfstæðisbarátta kirkjunnar á 20. öld bar þó þann ávöxt að hún öðlaðist víðtæka sjálfsstjórn eins og fram kemur í 1. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar 1997 nr. 78 26. maí en þar segir m.a.:

„Íslenska þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni.“

Þetta þýðir þó alls ekki að aðskilnaður hafi orðið. Flestir sem börðust ákafast fyrir sjálfsstjórn kirkjunnar voru andvígir aðskilnaði hennar frá ríkinu. Þeir kepptu þvert á móti eftir auknu sjálfstæði þjóðkirkjunnar í áframhaldandi tengslum við ríkið. Þá má ætla að flestir sem nú tala fyrir aðskilnaði láti sér í léttu rúmi liggja hvort kirkjan sé að meira að minna leyti sjálfstæð innan núverandi ramma.

Hvað er þá aðskilnaður?

Aðskilnaður ríkis og þjóðkirkju felst í því að öllum sértækum tengslum þjóðkirkjunnar við ríkisvaldið er slitið. Þetta þarf ekki að þýða að ríkið hætti öllum afskiptum af trúarlífi í landinu þótt sumir tali fyrir því. Aðskilnaður ríkis og þjóðkirkju felst þvert á móti í að trúfélag sem áður naut sérstöðu vegna tengsla sinna við ríkisvaldið er gert fullkomlega jafnstætt öllum trú- og helst einnig lífsskoðunarfélögum öðrum hvað réttarfarslega stöðu áhrærir. Með þessu er ekki sagt að saga þess, stærð og hlutverk geti ekki skapað því einhverja sérstöðu í samfélaginu. Hún er þá einkum óformleg en ekki lagaleg.

Hvernig er aðskilnaður gerður?

Nú eru tengsl ríkis og þjóðkirkju stjórnarskrárbundin, lögbundin, fjárhagsleg og táknræn. Hér verður vikið að þremur fyrstnefndu tengslunum.

Eigi að gera aðskilnað ríkis og kirkju verður í fyrsta lagi að fella þjóðkirkjugrein (62. gr.) stjórnarskrárinnar úr gildi án þess að nokkuð komi í hennar stað. Þetta má nú gera með lögum sem þó þarf að staðfesta með þjóðaratkvæðagreiðslu (samkv. 2. mgr. 79. gr. stjskr.). Eins og ég hef bent á hér á Pressunni („Þjóðkirkja í frjálsu falli?“) leggur Stjórnlagaráð til að millileið verði farin í þessu efni en í 19. gr. frumvarps þess segir:

Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins.

Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.

Í þessari tillögu felst ekki aðskilnaður þó ekki sé þetta fullkomin hliðstæða núgildandi þjóðkirkjugreinar.

Í öðru lagi verður að fella úr gildi fyrrgreind lög um þjóðkirkjuna eða í það minnsta breyta þeim mikið. Vegna stærðar og sérstöðu meirihlutakirkjunnar má vel færa rök fyrir því að um hana eigi að gilda sérstök lög en hún verði ekki látin heyra undir sömu lög og gilda um önnur trú- og lífsskoðunarfélög í landinu (þ.e. lög um skráð trúfélög 1999 nr. 108 28. desember). Væri sérlögum haldið yrðu þau þó að vera einfaldari en svokölluð þjóðkirkjulög eru nú og mjög þyrfti að slaka á kröfum þeirra bæði til ríkisins og kirkjunnar.

Nú hljómar fyrsta málsgrein fyrstu greinar þjóðkirkjulaganna svo:

Íslenska þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni. Ríkisvaldinu ber að styðja og vernda þjóðkirkjuna.

Við hugsanlegan aðskilnað verður að fella síðari málsgreinina niður. Jafnframt verður að gaumgæfa þá fyrri vel. Vissulega má færa rök að því að þjóðkirkjuheitið geti áfram komi fyrir í lögum en þá í nokkuð annarri merkingu en nú. Auk þess yrði að búa svo um hnúta að Alþingi geti aðeins sett lög um ystu útlínur þjóðkirkjunnar. Veraldlegur löggjafi getur ekki sett lög um innri mál trúfélags sem ekki starfar í sérstökum tengslum við ríkið. Slíkt felur í sér skerðingu á trúfrelsi sem ríki getur ekki beitt nema ríkis- eða þjóðkirkja í lagalegri merkingu eigi í hlut.

Vegna þess hvernig fornar kirkjueignir sem þjóðkirkjan nýtur nú eru til komnar getur löggjafinn þó sett lög sem tryggja eftir aðskilnað 1) að þjóðkirkjan verði áfram lúthersk í þeirri merkingu sem hún er það nú, 2) að hún sé öllum opin og reiðubúin til þjónustu við alla án þess að krefjast sérstakrar trúarjátningar af þeim sem til hennar leita, 3) að hún starfi um land allt, 4) að stjórnarhættir hennar séu lýðræðislegir og 5) að hún fari að jafnréttislögum, stjórnsýslulögum og öðrum þeim réttarreglum sem eðlilegar eru í lýðræðisríki (sjá pistil minn „Á að setja landinu kirkjuskipan?“ hér á Pressunni).

Þar með er komið að fjárhagstengslum ríkis og kirkju. Eigi að gera aðskilnað verður að koma málum þannig fyrir að kirkjan sé tvímælalaust fjár síns ráðandi og ábyrg fyrir rekstri sínum. Raunar er málum þegar í stórum dráttum þannig fyrir komið. Núverandi fjárhagstengsl ríkis og kirkju eru ekki hluti af þjóðkirkjuskipaninni heldur afleiðing af tilfærslu á forráðarétti og loks eignarhaldi á fornum kirkjueignum — rekstrargrundvelli kirkjunnar — frá þjóðkirkjunni til ríkisins á 20. öld. Við núverandi aðstæður getur ríkisvaldið þó haft bein áhrif á fjárhagsstöðu kirkjunnar t.d. með því að breyta upphæð sóknargjalda frá ári til árs. Slíkt fyrirkomulag er óeðlilegt eftir aðskilnað.

Eftir mögulegan aðskilnað verður kirkjan að njóta tryggingar fyrir því að rekstrarforsendur hennar breytist ekki skyndilega og á ófyrirséðan hátt milli ára. Eins og dæmin sanna kunna vissulega að gerast atburðir sem eru þess eðlis að kirkjan þarf að herða sultarólina líkt og aðrir. Þannig sýnir hún þjóð sinni samstöðu svo sem hún er skyld til. Ríkisvaldið á að öðru leyti ekki að ráðskast með rekstrargrundvöll hennar — síst eftir aðskilnað.

Í síðari pistli verður vikið að ýmsum táknrænni hliðum aðskilnaðar. Enn síðar verður svo spurt hér: Á að skilja að ríki og kirkju?