Aðskilnaður ríkis og kirkju — Rök með og á móti — I

Hjalti Hugason, 31. October 2011 09:57

 

 

Nú velta margir fyrir sér hvort ekki beri að höggva á öll tengsl ríkis og þjóðkirkju eða gera aðskilnað þessara stofnana eins og oftast er sagt. Vangaveltan er tímabær af mörgum ástæðum. Má þar m.a. nefna stöðu kirkjumála víða um heim en víðast eru veikari tengsl milli ríkis og kirkju en hér.

Umræða um þetta viðfangsefni stendur ekki milli andstæðinga og unnenda þjóðkirkjunnar. Skoðanir eru skiptar bæði innan hennar og utan. Þá er mikilvægt að umræðan sé opin, víðsýn og frjálslynd á báða bóga. Áframhaldandi samband eða aðskilnaður má ekki verða trúarkredda. — Það er svo vissulega ekki mitt að dæma um hvort þessi pistill stenst mál í því tilliti eða ekki! Þá er mikilvægt að hafa í huga að allt frá 1874 hafa ríki og þjóðkirkja verið í aðgreiningarferli. Fyrr eða síðar mun hefjast nýtt skeið í því efni — aðskilnaðarferli. Áður en það getur hafist svo vit sé í er nauðsynlegt að spyrja m.a.: Hvenær, hvernig og til hvers ætti að gera aðskilnað?

 

Ríkið á ekki að vera trúarlegt

Algeng rök fyrir aðskilnaði ríkis og þjóðkirkju er að nútímalegt ríkisvald eigi að vera lýðræðislegt, sem og að því beri að standa vörð um mannréttindi og jöfnuð. Af þeim sökum megi það ekki vera trúarlega skilgreint og geti því ekki verið evangelísk-lútherskt svo dæmi sé tekið.

Þetta er rétt. Íslenska lýðveldið hefur heldur aldrei verið lútherskt þrátt fyrir að stjórnarskrá þess hafi að geyma ákvæði sem nefnt er „kirkjuskipan ríkisins“ (þ.e. 62. gr.). Kirkjuskipanin leggur ríkisvaldinu aðeins á herðar að styðja og vernda lúthersku þjóðkirkjuna að því leyti sem hún er rammi um trúariðkun þjóðarinnar eða meirihluta hennar. Þetta þýðir hins vegar ekki að lýðveldið sé lútherskt. Þess hefur t.a.m. aldrei verið krafist að forseti þess væri í lútherskri kirkju en sú kvöð liggur t.d. á þjóðhöfðingjum Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar. Meðan kirkjumálaráðherrar voru og hétu hér á landi var þess ekki einu sinni krafist að lögum að þeir væru þjóðkirkjumenn þó þess væri gætt í framkvæmd.

Kirkjuskipanin virkar því aðeins í aðra áttina en ekki hina, þ.e. hún gerir ráð fyrir að þjóðkirkjan sé lúthersk en krefst þess aftur á móti ekki að ríkisvaldið sé það enda mundi slíkt leiða til óþolandi mismununar. Af þessum ástæðum þarf ekki að rjúfa núverandi tengsl ríkis og kirkju til að gera ríkisvaldið minna lútherskt.

Nú kann mörgum að virðast að hér sé aðeins um teoríu að ræða og að íslenska ríkið sé samt lútherskt í raun. Sé svo stafar sú lútherska frekar af sögulegum ástæðum en lögfræðilegum eða stjórnskipunarlegum. Nú liggur þróunin líka tvímælalaust í átt frá lútherskum bakgrunni þjóðarinnar að fjölmenningarlegum aðstæðum í landinu. Þeirri þróun ætti ekki að stýra með lögformlegum aðgerðum heldur ætti lögfræðin að endurspegla stöðu hennar hverju sinni.

Þegar fjölmenningin er orðin slík að lúthersk menningarhefð er ekki lengur sameiningarafl í samfélaginu er kominn tími til að gera aðskilnað ríkis og þjóðkirkju. Spyrja þarf hvort þær aðstæður séu þegar fyrir hendi. Ef svo er ekki er vandséð að aðskilnaður sé aðkallandi verkefni.

 

Ríkið á ekki að fylgja trúarpólitískri stefnu

Mörgum virðist að kirkjuskipan ríkisins feli í sér lítt dulda trúarpólitíska stefnu, þ.e. að í henni felist yfirlýsing af ríkisins hálfu í þá veru að evangelísk-lúthersk trú sé annarri trú æðri og að ríkisvaldið styðji hana og verndi af þeim sökum. Slíkt væri trúarpólitísk stefna. Þjóðkirkjuskipanin felur aftur á móti ekki í sér neitt slíkt mat.

Þegar því var slegið föstu í dönsku stjórnarskránni um miðja 19. öld að evangelísk-lútherska kirkjan væri þjóðkirkja í Danmörku var það einfaldlega lýsing á aðstæðunum eins og þær voru á þeim tíma. Þá voru Danir lúthersk þjóð enda höfðu þeir ekki haft frelsi til annars. Í Danmörku bjó vissulega kaþólskt fólk, gyðingar, kalvínistar og fleiri. Þetta var þó allt fólk af erlendu bergi brotið og mátti aðeins iðka trú sína í eigin hópi. Trúfrelsi komst hins vegar ekki á í Danmörku fyrr en einmitt með stjórnarskránni.

Dönsku kirkjuskipaninni var aldrei ætlað annað eða meira hlutverk en að vera algerlega lýsandi í þessu efni. Í henni fólst aðeins að þrátt fyrir að kirkjan væri nú greind frá ríkisvaldinu en ætti ekki að vera óaðskiljanlegur hluti af því eins og verið hafði ætti ríkisvaldið að styðja og vernda þessa tilteknu kirkju meðan hún væri rammi um trúariðkun þjóðarinnar eða meirihluta hennar. Í þessari ákvörðun fólst engin yfirlýsing um að lútherska kirkjan væri „betri“ eða „réttari“ en aðrar. Hún hafði aðeins sérstöðu í samfélaginu miðað við önnur trúfélög m.a. hvað stærð áhrærði og það þótti réttlæta þá sérstöku stöðu sem kirkjuskipanin veitti henni.

Íslenska stjórnarskráin frá 1874 og síðari útgáfur hennar eru afsprengi dönsku stjórnarskrárinnar. Ofangreind túlkun á því að breyttu breytanda við um íslensku kirkjuskipanina þrátt fyrir að orðalag hennar sé óþægilega afdráttarlaust þar sem segir að evangelísk-lútherska kirkjan „skuli vera“ þjóðkirkja í landinu. Þó má færa rök fyrir að þar sé aðeins um að ræða óheppilega þýðingu úr dönsku.

Þegar aðstæður eru orðnar þannig að evangelísk-lútherska kirkjan hefur ekki lengur áberandi sérstöðu miðað við önnur trú- og lífsskoðunarfélög sem starfa í landinu virðist einboðið að afnema þjóðkirkjuskipanina. Hér nægir þó ekki að horfa til stærðar kirkjunnar einvörðungu heldur ber einnig að huga að samfélagslegum hlutverkum hennar. Enn hefur þjóðkirkjan mikla sérstöðu í þessu efni. Meðan svo er virðist ekki brýnt verkefni að gera aðskilnað.

 

Frelsi kirkjunnar

Hér hefur verið bent á að aðskilnaður ríkis og þjóðkirkju sé ekki áríðandi viðfangsefni af lögformlegum og/eða pólitískum ástæðum þar sem ríkisvaldið sé hvorki trúarlega háð né bundið af ákveðinni trúarpólitískri stefnu. Í lokin má benda á aðra hlið á málinu sem kynni að gera aðskilnað aðkallandi að einhverra mati.

Þjóðkirkjuskipanin gerir það að verkum að þjóðkirkjan býr ekki við trúfrelsi. Henni ber að vera evangelísk-lúthersk og ríkisvaldið getur auk þess haft ýmis önnur áhrif á innri mál hennar.

Þá má benda á að í rúma öld hefur þjóðkirkjan barist fyrir auknu sjálfstæði sínu og sjálfsstjórn. Í lok liðinnar aldar varð henni verulega ágengt í því efni og er nú skilgreind sem sjálfstætt trúfélag þrátt fyrir tengsl sín við ríkisvaldið. Þetta sjálfstæði þáði kirkjan úr hendi löggjafans, Alþingis. Það hefur fullt frelsi til að skerða sjálfstæði kirkjunnar að nýju meðan kirkjuskipan ríkisins er við lýði. Torvelt er að sjá að pólitísk öfl komi í náinni framtíð til með að beita sér fyrir slíkri breytingu. Að þessu leyti er staða þjóðkirkjunnar þó ótrygg og hún getur að óbreyttu sambandi við ríkisvaldið aldrei öðlast sambærilegt frelsi og önnur trúfélög njóta. Mörgum kann að virðast þetta mæla með aðskilnaði.

 

„Máttlitlir siðferðisvitar“?

Hjalti Hugason, 19. October 2011 13:46

 

Pawel Bartoszek spyr ágengrar spurningar í grein sinni „Máttlitlir siðferðisvitar“ í Fréttablaðinu 14. okt. sl. Hann spyr hvort þjóðkirkjan, eða þess vegna önnur trúfélög, séu öfl sem takandi er mark á þegar kemur að því að vísa veginn í siðferðisefnum. En það hefur einmitt verið talið helsta hlutverk trúfélaga. Þau hafa oftar en ekki gert kröfu um að vera handhafar hinna sönnu gilda og talið heill samfélagsins velta á því að þeim sé fylgt.

 

Trú til ills og góðs

Það er skiljanlegt að geta trúfélaga í þessu efni sé dregin í efa eftir það harkalega áfall sem þjóðkirkjan hefur nú orðið fyrir. Niðurstaða Pawels er hins vegar nokkuð einhliða og yfirborðskennd. Hann segir: „Framfarir í siðferðismálum verða sjaldan fyrir tilstuðlan trúfélaga“.

Saga mannsandans og menningarinnar segir flóknari sögu en svo að slík ályktun standist gagnrýni, að minnsta kosti ef rætt er um trúarbrögð í stað einstakra trúfélaga.

Mergurinn málsins er að trúarbrögð, trúfélög og trúarleiðtogar hafa komið til leiðar ýmsu því háleitasta og göfugasta sem gerst hefur í mannlegu samfélagi. Það verður ekki af þeim skafið. Þau hafa hins vegar líka valdið ýmsu ólýsanlegu böli og jafnvel samfélagslegum meinum. Í skjóli trúarbragða hefur því miður farið fram valdbeiting, arðrán, kúgun, niðurlæging og misnotkun sem ómögulegt er að hvítþvo þau af. Nú erum við í þjóðkirkjunni að súpa seyðið af slíkri misbeitingu trúar sem framin var í okkar röðum.

 

Rétt eða röng beiting trúar

Það er varhugavert að taka raunveruleg dæmi af því þegar trúarbrögð eru notuð af valdi og grimmd. Valið gæti byggst á dómhörku og ýtt undir fordóma. Gagnlegt dæmi er hins vegar að finna í sögunni um rannsóknardómarann mikla í skáldsögu Fjodors Dostojevskís um Karamazov bræðurna:

Svo bar við að Kristur sté að nýju niður til jarðarinnar og gekk á meðal borgarbúa í Sevilla, „...hljóðlátt bros hans [lýsti] takmarkalausri meðlíðan“ og allir þekktu hann. Rannsóknardómarinn varð eins og aðrir vitni að kraftaverkum hans en fyrirskipaði tafarlausa handtöku. Hann vildi koma í veg fyrir að Kristur truflaði kirkjunnar menn við að halda uppi þeirri röð og reglu sem þeir kusu frekar en frelsið sem fólst í boðskap Krists. Í réttarhöldum sínum yfir Kristi játaði rannsóknardómarinn að trúfélag hans hefði valið að kenna að „frjáls ákvörðun hjartans“ og kærleikurinn skipti engu heldur varðaði „leyndardómurinn sem [menn] yrðu að lúta í blindni, jafnvel í trássi við samvisku sína“ öllu um velferð fólks. Í stað frelsis og kærleika hafði rannsóknardómarinn og stallbræður hans lögfest leyndardómsfulla kreddu. Réttarhöldum rannsóknardómarans lauk með því að Kristur „brenndi á vör hans kossinn“. Dómarinn vísaði aftur á móti fanga sínum út í nóttina eftir að hafa dæmt hann á köstinn. — Frásagan ýtir undir þann áleitna grun að Krists-atburðinum mundi ljúka á sama hátt og áður ef hann gerðist öðru sinni. Nú væri það aðeins kirkjan sem kallaði: „Krossfestu!“ Þungur dómur það.

Andstæða hroka- og hatursfulls rannsóknardómarans er Kristur guðspjallanna. Hann, ímynd Guðs, svifti sig öllu og gekk inn í kjör þeirra misnotuðu og sviknu þegar hann sagði: „Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín... Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.“ — Eða gáfum við honum ef til vill hvorki að eta né drekka, hýstum hann hvorki né klæddum, komum hvorki til hans á sjúkrabeð né í fangelsi?

Sérhvert trúfélag hefur val um að fylgja fordæmi rannsóknardómarans mikla eða fanga hans. Í valinu felst svarið við spurningu Pawels Bartoszeks og annarra sem efast um forsendur trúfélaga til að vísa veg í siðferðisefnum. Valið stendur milli valds og auðmýktar, lögmáls og frelsis, falskrar kreddu eða kærleika. Valið stendur milli réttrar eða rangrar beitingar trúarinnar og þess afls sem í henni býr. — Stöðugt verðum við að velja og á valinu veltur hvort trúfélögin verða með í að varða veginn að því siðbætta samfélagi sem við þráum öll eða hvort önnur öfl muni gera það án þátttöku trúarbragðanna.

 

Röng skýring á uppruna manns og heims?

Annað atriði sem Pawel Bartoszek gagnrýnir trúarbrögð fyrir er að flest gefi þau rangar skýringar á upphafi heimsins og tilurð mannsins. Gildi trúarbragða felst að flestra mati ekki í að þau gefi svör við spurningum um tilurð manns og heims. Orðræðan um hvort skýri upphafið betur sköpun eða mikli hvellur er ófrjó.

Sköpunarsögur Ritningarinnar og raunar öll sú mikla „stór-saga“ sem þar er rakin frá upphafi til endaloka heims hefur mun meira gildi þegar þær eru notaðar til að rýna í gleði og þraut mannkyns á líðandi stundu. Það er í þessar sögur sem okkur er ætlað að sækja vit og dómgreind til að velja rétt í þeirri stöðu sem við stöndum í sem einstakingar, samfélag, trúfélög eða kirkjur. Sagnheimur Ritningarinnar fjallar allur með einum eða öðrum hætti um hvað það er að vera ábyrg manneskja í viðsjárverðum heimi. Trúarbrögð eru að nokkru leyti viðleitni til að reynast ábyrgt fólk. Þau verða ekki dæmd úr leik í þeirri viðleitni þrátt fyrir að þeim sé illu heilli stundum misbeitt.

 

Hvað er aðskilnaður ríkis og kirkju? — III

Hjalti Hugason, 16. October 2011 21:45

 

Í tveimur pistlum hér á Pressunni hef ég varpað fram ýmsum spurningum sem lúta að aðskilnaði ríkis og kirkju.

Í þeim fyrri var bent á að aðskilnaður væri fyrst og  fremst réttarfarsleg breyting sem gerði það að verkum að þjóðkirkjan öðlaðist sömu stöðu gagnvart ríkisvaldinu og öll önnur skráð trúfélög og ef vel ætti að vera öll skráð lífsskoðunarfélög í landinu. Í framhaldi af því var bent á ýmis álitamál sem upp koma í sambandi við slíka breytingu.

Í síðari pistlinum var bent á að breyting á sambandi ríkis og kirkju hefði ekki endilega í för með sér neinar félagslegar eða menningarlegar afleiðingar. Sýnileiki, nærvera og áhrif kirkjunnar í þjóðlífinu hvílir ekki fyrst og fremt á 62. gr. stjórnarskrárinnar, þjóðkirkjulögunum frá 1997 eða ákvæðum sem finna má hér og þar í öðrum lögum.

Núverandi staða kirkjunnar ræðst miklu frekar af 1000 ára sögu kristni í landinu sem auðvitað hefur sett mark sitt á þjóðlífið. Aðskilnaður ríkis og kirkju afmáir þau ekki. Til þess þarf aðskilnað kirkju og þjóðar. Slíkur aðskilnaður ristir dýpra og hefur víðtækari afleiðingar en rofin tengsl ríkis og kirkju.

Svo er þess að gæta að tengsl ríkis og kirkju hljóta ávallt að vera afleiðing af og endurspegla samband þjóðar og kirkju. Sambandi þjóðar og kirkju verður hins vegar ekki stýrt með lögum enda ætti ekki að reyna það í lýðræðisríki.

 

Kirkjan þarf ekki að loka á þjóðina

Líkt og þjóðin þarf ekki að yfirgefa kirkju sína við hugsanlegan aðskilnað hennar frá ríkisvaldinu þarf kirkjan heldur ekki að loka á þjóðina við aðskilnað.

Vonandi stendur evangelísk-lúthersk kirkja ekki öllum opin hér á landi vegna þess eins að hún telji sér það skylt að lögum. Vonandi veitir hún ekki öllum sem til hennar leita þjónustu án persónulegrar trúarjátningar þeirra — og í mörgum tilvikum án þess að krefjast að þeir tilheyri kirkjunni — aðeins vegna þess að um lagaskyldu sé að ræða. Vonandi er hún kirkja allra landsmanna í þessari merkingu fyrst og fremst vegna þess að hún ber umhyggju fyrir fólki og trúir því að boðskapur hennar eigi erindi við alla. Í þeim skilingi þarf hún ekki að hætta að vera þjóðkirkja þó tengsl hennar við ríkisvaldið kunni að rakna eða rofna.

Kirkjan er sem sé ekki einvörðungu þjóðkirkja vegna þess að hún er skilgreind svo að lögum. Þar skiptir skilningur hennar á hlutverki sínu og eðli mun meira máli. Það er fyrst og fremst guðfræði hennar sem ræður úrslitum um hvort hún er opin og umlykjandi eða þröng og útilokandi.

 

Réttarstaða engin trygging

Af því sem hér er sagt má líka ráða að réttarstaða kirkjunnar er engin trygging fyrir því að hún sé þjóðkirkja í raun. Þrátt fyrir stjórnarskrárákvæði og lög kann þjóðkirkja að villast frá þjóð sinni af ýmsum ástæðum. Stjórn hennar getur verið ólýðræðisleg og svifasein, starfshættir hennar framandi og fjarlægir, hún getur verið óviss um hlutverk sitt í samfélaginu og glatað skírskotun til samtíðar sinnar. Hún getur farið úr takti við þjóðina, slitnað úr tengslum við hana eða einangrað sig frá henni. Þar með hættir hún að vera þjóðkirkja í reynd þó hún sé það hugsanlega að lögum.

Engin kirkja getur hreiðrað um sig í því skjóli að hún sé þjóðkirkja sem ríkisvaldinu beri að styðja og vernda. Þjóðkirkja er leitandi kirkja — kirkja sem leitar út á við, leitast við að lifa með þjóð sinni í gleði og líða með henni í þraut.

 

Þjóðkirkjunni ber að vera kirkja allra landsmanna

Meðan óbreytt þjóðkirkjuskipan ríkir í landinu ber evangelísk-lúthersku kirkjunni lagaskylda til að þjóna landsmönnum öllum. Þá skyldu má eins og á hefur verið bent einnig leiða út frá boðskap og sjálfsskilningi kristinnar kirkju. Skyldur þjóðkirkjunnar við alla landsmenn má þó einnig rökstyðja með jafnveraldlegu atriði og rekstrargrundvelli kirkjunnar.

Ein af grunnstoðunum í rekstri þjóðkirkjunnar nú á dögum er endurgjald af fornum kirkjueignum sem kirkjan afsalið sér endanlega í hendur ríkisvaldsins skömmu fyrir síðustu aldamót með tvíhliða samningi um áframhaldandi fjárhagstengsl. Þessar kirkjueignir eru að langmestu leyti komnar  frá þjóðinni sjálfri og þær voru upphaflega reiddar af hendi til að standa straum af helgihaldi, kærleiksþjónustu og annarri kirkjulegri þjónustu í einhverri ákveðinni sóknarkirkju. Þær héldust sem óraskaður rekstrargrundvöllur viðkomandi kirkju á siðaskiptatímanum. Í upphafi 20. aldar  var tekið að líta á eignir hinna einstöku kirkjubygginga sem sameign kirkjunnar í landinu enda búsetubreytingar þá orðnar örar sem kallaði á breytta starfshætti.

Í ljósi þessarar sögu á íslenska þjóðin sanngjarna kröfu á að þjónusta kirkju sem rekin er með afgjaldi þessara eigna standi öllum til boða raunar óháð þröngum lagaskyldum. Aðskilnaður ríkis og kirkju breytir þar engu. Kirkjan verður áfram í þakkarskuld við þjóðina og greiðir hana með þjónustu við alla sem þiggja vilja.

 

Þjóðkirkjuskipan — margþætt samlíf

Þjóðkirkjuskipan í líkingu við þá sem við búum að hér á landi ber að skoða sem samlíf þriggja aðila: Kristinnar kirkju, meirihluta fólksins í landinu og hins lýðræðislega, veraldlega ríkisvalds.

Eins og á hefur verið bent skiptir samlíf kirkju og þjóðar mestu. Meðan það er enn til staðar getur þjóðin með lýðræðislegum hætti falið ríkinu að styðja og vernda kirkju sína með ýmsu móti. Aðeins þarf að gæta þess að stuðningurinn leiði ekki til ómálefnalegrar mismununar eða skreði trúfrelsi þeirra sem ekki tilheyra þjóðkirkjunni. Snúi þjóðin hins vegar baki við kirkjunni eða kirkjan við þjóðinni verður að fella kirkjuskipan ríkisins úr gildi. Í því efni á þjóðin síðasta orðið eins og sjá má í 2. mg. 79. gr. stjskr. Ríkisvaldið á hins vegar aðeins óbeina aðkomu að því máli og kirkjan verður að hlíta niðurstöðunni.

 

 

 

 

Hvernig háskóli fagnaði 100 árum?

Hjalti Hugason, 13. October 2011 10:01

 

Hundrað ára afmælishátíð Háskólans á dögunum var flott, fjölbreytt og flæddi vel í hröðum og léttum takti. Það var ánægjulegt að sitja úti í sal og njóta þess sem fyrir augu og eyru bar. Dagskráin vakti ýmsar vangaveltur. Á leiðinni út velti ég fyrir mér spurningunni: Hvernig háskóli var það sem þarna fagnaði afmæli sínu?

 

Ungur og hefðalaus

Það fyrsta sem kom upp í hugann var að HÍ er ungur og hefðalaus háskóli. Hann býr ekki að neinni háskólamenningu eða táknum sem einkenna gamalgróna háskóla. Raunar gæti hvaða skóli sem er, jafnvel hvaða fyrirtæki sem er, haldið upp á 100 ára sögu sína með svipuðum hætti og gert var. Í gamalgrónum háskólum hefði brugðið fyrir kápum, rektorskeðjum og ýmsum öðrum táknum sem eiga rætur að rekja allt aftur til miðalda. Að þessu leyti var afmælishátíðin jafnvel með borgaralegra sniði en venjubundnar útskriftarathafnir.

Á þetta er ekki endilega bent í gagnrýnisskyni. Íslenskt samfélag er í mörgu tilliti ungt og hefðarlaust. Auðvitað er til fornfræg íslensk menning sem ekki skal vanmetin. Nú á dögum bendir samt margt til að okkur skort ýmislegt sem einkennir menningarþjóðir, þar á meðal form og festu.

Í öllu falli kom Háskólinn fram á laugardaginn sem alþýðlegur þjóðskóli og það er ágætt.

Samfélagstengdur?

Í dagskránni á laugardaginn komu fram skýrar samfélagspólitískar vísanir. HÍ starfar í næsta nágrenni við Austurvöll, vettvang Búsáhaldabyltingarinnar, þar sem eldarnir brunn, tunnur voru barðar og ráðherrum var vísað á dyr. En var Háskólinn þar einhvers staðar nærri? Tók hann þátt í atburðarásinni og hafði hann haldið uppi markvissri gagnrýni á veltiárunum fyrir Hrun?

Vissulega erum við mörg stolt af Gylfa þætti Magnússonar. Hann komu úr okkar röðum. En steig hann þrátt fyrir allt ekki út fyrir háskólasvæðið þegar hann gekk inn á vettvang þjóðmálanna? Hann axlaði fyrst og fremst persónulega ábyrð og stóð með henni. — En rís Háskólinn sem slíkur undir því að geta kallast félagspólitískt afl á byltingartímum? Tæpast.

Raungreinaskóli

Fyst og fremst var það þó raungreinaskóli sem fagnaði aldarafmæli sínu. Jú, fornleifafræði er greinilega stunduð við skólann en hún flokkast af sumum sem raunvísindi. Við skólann er greinilega líka fengist við handritafræði enda erfitt að sniðganga sagnaarfinn og handritin sjálf á varðveisluskrá UNESCO. Þá kom fram að lögð er stund á uppeldisfræði. Af dagskránni mátti loks ráða að lögfræði hefur verið kennd fyrr á tíð en ekki kom fram að svo sé enn í dag. Hugvísindi almennt og yfirleitt komu hins vegar lítið ef nokkuð við sögu.

Nú kann að vera að raunvísindi séu myndrænni en hugvísindi. Það er leiðigjarnt að horfa á fólk bogra yfir bókum. Hugmyndaríkur myndatökumaður hefði þó leyst þann vanda. Hér var fremur um ritstjórnarlapsus að ræða. Svo kann hefðarleysið sem drepið var á að framan auðvitað að valda því að hugvísindi hafi lent á blindum bletti. Þau eru vissulega um margt hefðbundnari en raunvísindin.

Nú skiptir í sjálfu sér litlu hvort komið sé inn á alla þætti háskólastarfsins eða ekki í stuttri og snarpri yfirferð á borð við þá sem farin var í Eldborg. Alltaf verður að velja og hafna og eitthvað fellur í skuggann. Það er hins vegar áleitin spurning hvort hátíðardagskráin endurspegli ekki hversdaginn í Háskólanum nú um stundir. Hafa raunvísindin ekki sett sinn staðlaða og staðlandi svip á allt starf Háskólans í seinni tíð? Hvert eru viðmiðanirnar t.d. sóttar í gæða- og hvatakerfunum? Í hvaða farveg hefur birtingum á sviði hugvísinda verið stýrt á undangengnum áratugum?

Nú ættum við hugvísindafólk að spyrja okkur hvort þær breytingar sem orðið hafa á birtingu rannsóknarniðurstaðna í hugvísindum á undanförnum áratugum hafi virkað hvetjandi eða letjandi þegar um raunveruleg gæði er að ræða?