Hvað er aðskilnaður ríkis og kirkju? — III

Hjalti Hugason, 16. October 2011 21:45

 

Í tveimur pistlum hér á Pressunni hef ég varpað fram ýmsum spurningum sem lúta að aðskilnaði ríkis og kirkju.

Í þeim fyrri var bent á að aðskilnaður væri fyrst og  fremst réttarfarsleg breyting sem gerði það að verkum að þjóðkirkjan öðlaðist sömu stöðu gagnvart ríkisvaldinu og öll önnur skráð trúfélög og ef vel ætti að vera öll skráð lífsskoðunarfélög í landinu. Í framhaldi af því var bent á ýmis álitamál sem upp koma í sambandi við slíka breytingu.

Í síðari pistlinum var bent á að breyting á sambandi ríkis og kirkju hefði ekki endilega í för með sér neinar félagslegar eða menningarlegar afleiðingar. Sýnileiki, nærvera og áhrif kirkjunnar í þjóðlífinu hvílir ekki fyrst og fremt á 62. gr. stjórnarskrárinnar, þjóðkirkjulögunum frá 1997 eða ákvæðum sem finna má hér og þar í öðrum lögum.

Núverandi staða kirkjunnar ræðst miklu frekar af 1000 ára sögu kristni í landinu sem auðvitað hefur sett mark sitt á þjóðlífið. Aðskilnaður ríkis og kirkju afmáir þau ekki. Til þess þarf aðskilnað kirkju og þjóðar. Slíkur aðskilnaður ristir dýpra og hefur víðtækari afleiðingar en rofin tengsl ríkis og kirkju.

Svo er þess að gæta að tengsl ríkis og kirkju hljóta ávallt að vera afleiðing af og endurspegla samband þjóðar og kirkju. Sambandi þjóðar og kirkju verður hins vegar ekki stýrt með lögum enda ætti ekki að reyna það í lýðræðisríki.

 

Kirkjan þarf ekki að loka á þjóðina

Líkt og þjóðin þarf ekki að yfirgefa kirkju sína við hugsanlegan aðskilnað hennar frá ríkisvaldinu þarf kirkjan heldur ekki að loka á þjóðina við aðskilnað.

Vonandi stendur evangelísk-lúthersk kirkja ekki öllum opin hér á landi vegna þess eins að hún telji sér það skylt að lögum. Vonandi veitir hún ekki öllum sem til hennar leita þjónustu án persónulegrar trúarjátningar þeirra — og í mörgum tilvikum án þess að krefjast að þeir tilheyri kirkjunni — aðeins vegna þess að um lagaskyldu sé að ræða. Vonandi er hún kirkja allra landsmanna í þessari merkingu fyrst og fremst vegna þess að hún ber umhyggju fyrir fólki og trúir því að boðskapur hennar eigi erindi við alla. Í þeim skilingi þarf hún ekki að hætta að vera þjóðkirkja þó tengsl hennar við ríkisvaldið kunni að rakna eða rofna.

Kirkjan er sem sé ekki einvörðungu þjóðkirkja vegna þess að hún er skilgreind svo að lögum. Þar skiptir skilningur hennar á hlutverki sínu og eðli mun meira máli. Það er fyrst og fremst guðfræði hennar sem ræður úrslitum um hvort hún er opin og umlykjandi eða þröng og útilokandi.

 

Réttarstaða engin trygging

Af því sem hér er sagt má líka ráða að réttarstaða kirkjunnar er engin trygging fyrir því að hún sé þjóðkirkja í raun. Þrátt fyrir stjórnarskrárákvæði og lög kann þjóðkirkja að villast frá þjóð sinni af ýmsum ástæðum. Stjórn hennar getur verið ólýðræðisleg og svifasein, starfshættir hennar framandi og fjarlægir, hún getur verið óviss um hlutverk sitt í samfélaginu og glatað skírskotun til samtíðar sinnar. Hún getur farið úr takti við þjóðina, slitnað úr tengslum við hana eða einangrað sig frá henni. Þar með hættir hún að vera þjóðkirkja í reynd þó hún sé það hugsanlega að lögum.

Engin kirkja getur hreiðrað um sig í því skjóli að hún sé þjóðkirkja sem ríkisvaldinu beri að styðja og vernda. Þjóðkirkja er leitandi kirkja — kirkja sem leitar út á við, leitast við að lifa með þjóð sinni í gleði og líða með henni í þraut.

 

Þjóðkirkjunni ber að vera kirkja allra landsmanna

Meðan óbreytt þjóðkirkjuskipan ríkir í landinu ber evangelísk-lúthersku kirkjunni lagaskylda til að þjóna landsmönnum öllum. Þá skyldu má eins og á hefur verið bent einnig leiða út frá boðskap og sjálfsskilningi kristinnar kirkju. Skyldur þjóðkirkjunnar við alla landsmenn má þó einnig rökstyðja með jafnveraldlegu atriði og rekstrargrundvelli kirkjunnar.

Ein af grunnstoðunum í rekstri þjóðkirkjunnar nú á dögum er endurgjald af fornum kirkjueignum sem kirkjan afsalið sér endanlega í hendur ríkisvaldsins skömmu fyrir síðustu aldamót með tvíhliða samningi um áframhaldandi fjárhagstengsl. Þessar kirkjueignir eru að langmestu leyti komnar  frá þjóðinni sjálfri og þær voru upphaflega reiddar af hendi til að standa straum af helgihaldi, kærleiksþjónustu og annarri kirkjulegri þjónustu í einhverri ákveðinni sóknarkirkju. Þær héldust sem óraskaður rekstrargrundvöllur viðkomandi kirkju á siðaskiptatímanum. Í upphafi 20. aldar  var tekið að líta á eignir hinna einstöku kirkjubygginga sem sameign kirkjunnar í landinu enda búsetubreytingar þá orðnar örar sem kallaði á breytta starfshætti.

Í ljósi þessarar sögu á íslenska þjóðin sanngjarna kröfu á að þjónusta kirkju sem rekin er með afgjaldi þessara eigna standi öllum til boða raunar óháð þröngum lagaskyldum. Aðskilnaður ríkis og kirkju breytir þar engu. Kirkjan verður áfram í þakkarskuld við þjóðina og greiðir hana með þjónustu við alla sem þiggja vilja.

 

Þjóðkirkjuskipan — margþætt samlíf

Þjóðkirkjuskipan í líkingu við þá sem við búum að hér á landi ber að skoða sem samlíf þriggja aðila: Kristinnar kirkju, meirihluta fólksins í landinu og hins lýðræðislega, veraldlega ríkisvalds.

Eins og á hefur verið bent skiptir samlíf kirkju og þjóðar mestu. Meðan það er enn til staðar getur þjóðin með lýðræðislegum hætti falið ríkinu að styðja og vernda kirkju sína með ýmsu móti. Aðeins þarf að gæta þess að stuðningurinn leiði ekki til ómálefnalegrar mismununar eða skreði trúfrelsi þeirra sem ekki tilheyra þjóðkirkjunni. Snúi þjóðin hins vegar baki við kirkjunni eða kirkjan við þjóðinni verður að fella kirkjuskipan ríkisins úr gildi. Í því efni á þjóðin síðasta orðið eins og sjá má í 2. mg. 79. gr. stjskr. Ríkisvaldið á hins vegar aðeins óbeina aðkomu að því máli og kirkjan verður að hlíta niðurstöðunni.