Aðskilnaður ríkis og kirkju — Rök með og á móti — I

Hjalti Hugason, 31. October 2011 09:57

 

 

Nú velta margir fyrir sér hvort ekki beri að höggva á öll tengsl ríkis og þjóðkirkju eða gera aðskilnað þessara stofnana eins og oftast er sagt. Vangaveltan er tímabær af mörgum ástæðum. Má þar m.a. nefna stöðu kirkjumála víða um heim en víðast eru veikari tengsl milli ríkis og kirkju en hér.

Umræða um þetta viðfangsefni stendur ekki milli andstæðinga og unnenda þjóðkirkjunnar. Skoðanir eru skiptar bæði innan hennar og utan. Þá er mikilvægt að umræðan sé opin, víðsýn og frjálslynd á báða bóga. Áframhaldandi samband eða aðskilnaður má ekki verða trúarkredda. — Það er svo vissulega ekki mitt að dæma um hvort þessi pistill stenst mál í því tilliti eða ekki! Þá er mikilvægt að hafa í huga að allt frá 1874 hafa ríki og þjóðkirkja verið í aðgreiningarferli. Fyrr eða síðar mun hefjast nýtt skeið í því efni — aðskilnaðarferli. Áður en það getur hafist svo vit sé í er nauðsynlegt að spyrja m.a.: Hvenær, hvernig og til hvers ætti að gera aðskilnað?

 

Ríkið á ekki að vera trúarlegt

Algeng rök fyrir aðskilnaði ríkis og þjóðkirkju er að nútímalegt ríkisvald eigi að vera lýðræðislegt, sem og að því beri að standa vörð um mannréttindi og jöfnuð. Af þeim sökum megi það ekki vera trúarlega skilgreint og geti því ekki verið evangelísk-lútherskt svo dæmi sé tekið.

Þetta er rétt. Íslenska lýðveldið hefur heldur aldrei verið lútherskt þrátt fyrir að stjórnarskrá þess hafi að geyma ákvæði sem nefnt er „kirkjuskipan ríkisins“ (þ.e. 62. gr.). Kirkjuskipanin leggur ríkisvaldinu aðeins á herðar að styðja og vernda lúthersku þjóðkirkjuna að því leyti sem hún er rammi um trúariðkun þjóðarinnar eða meirihluta hennar. Þetta þýðir hins vegar ekki að lýðveldið sé lútherskt. Þess hefur t.a.m. aldrei verið krafist að forseti þess væri í lútherskri kirkju en sú kvöð liggur t.d. á þjóðhöfðingjum Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar. Meðan kirkjumálaráðherrar voru og hétu hér á landi var þess ekki einu sinni krafist að lögum að þeir væru þjóðkirkjumenn þó þess væri gætt í framkvæmd.

Kirkjuskipanin virkar því aðeins í aðra áttina en ekki hina, þ.e. hún gerir ráð fyrir að þjóðkirkjan sé lúthersk en krefst þess aftur á móti ekki að ríkisvaldið sé það enda mundi slíkt leiða til óþolandi mismununar. Af þessum ástæðum þarf ekki að rjúfa núverandi tengsl ríkis og kirkju til að gera ríkisvaldið minna lútherskt.

Nú kann mörgum að virðast að hér sé aðeins um teoríu að ræða og að íslenska ríkið sé samt lútherskt í raun. Sé svo stafar sú lútherska frekar af sögulegum ástæðum en lögfræðilegum eða stjórnskipunarlegum. Nú liggur þróunin líka tvímælalaust í átt frá lútherskum bakgrunni þjóðarinnar að fjölmenningarlegum aðstæðum í landinu. Þeirri þróun ætti ekki að stýra með lögformlegum aðgerðum heldur ætti lögfræðin að endurspegla stöðu hennar hverju sinni.

Þegar fjölmenningin er orðin slík að lúthersk menningarhefð er ekki lengur sameiningarafl í samfélaginu er kominn tími til að gera aðskilnað ríkis og þjóðkirkju. Spyrja þarf hvort þær aðstæður séu þegar fyrir hendi. Ef svo er ekki er vandséð að aðskilnaður sé aðkallandi verkefni.

 

Ríkið á ekki að fylgja trúarpólitískri stefnu

Mörgum virðist að kirkjuskipan ríkisins feli í sér lítt dulda trúarpólitíska stefnu, þ.e. að í henni felist yfirlýsing af ríkisins hálfu í þá veru að evangelísk-lúthersk trú sé annarri trú æðri og að ríkisvaldið styðji hana og verndi af þeim sökum. Slíkt væri trúarpólitísk stefna. Þjóðkirkjuskipanin felur aftur á móti ekki í sér neitt slíkt mat.

Þegar því var slegið föstu í dönsku stjórnarskránni um miðja 19. öld að evangelísk-lútherska kirkjan væri þjóðkirkja í Danmörku var það einfaldlega lýsing á aðstæðunum eins og þær voru á þeim tíma. Þá voru Danir lúthersk þjóð enda höfðu þeir ekki haft frelsi til annars. Í Danmörku bjó vissulega kaþólskt fólk, gyðingar, kalvínistar og fleiri. Þetta var þó allt fólk af erlendu bergi brotið og mátti aðeins iðka trú sína í eigin hópi. Trúfrelsi komst hins vegar ekki á í Danmörku fyrr en einmitt með stjórnarskránni.

Dönsku kirkjuskipaninni var aldrei ætlað annað eða meira hlutverk en að vera algerlega lýsandi í þessu efni. Í henni fólst aðeins að þrátt fyrir að kirkjan væri nú greind frá ríkisvaldinu en ætti ekki að vera óaðskiljanlegur hluti af því eins og verið hafði ætti ríkisvaldið að styðja og vernda þessa tilteknu kirkju meðan hún væri rammi um trúariðkun þjóðarinnar eða meirihluta hennar. Í þessari ákvörðun fólst engin yfirlýsing um að lútherska kirkjan væri „betri“ eða „réttari“ en aðrar. Hún hafði aðeins sérstöðu í samfélaginu miðað við önnur trúfélög m.a. hvað stærð áhrærði og það þótti réttlæta þá sérstöku stöðu sem kirkjuskipanin veitti henni.

Íslenska stjórnarskráin frá 1874 og síðari útgáfur hennar eru afsprengi dönsku stjórnarskrárinnar. Ofangreind túlkun á því að breyttu breytanda við um íslensku kirkjuskipanina þrátt fyrir að orðalag hennar sé óþægilega afdráttarlaust þar sem segir að evangelísk-lútherska kirkjan „skuli vera“ þjóðkirkja í landinu. Þó má færa rök fyrir að þar sé aðeins um að ræða óheppilega þýðingu úr dönsku.

Þegar aðstæður eru orðnar þannig að evangelísk-lútherska kirkjan hefur ekki lengur áberandi sérstöðu miðað við önnur trú- og lífsskoðunarfélög sem starfa í landinu virðist einboðið að afnema þjóðkirkjuskipanina. Hér nægir þó ekki að horfa til stærðar kirkjunnar einvörðungu heldur ber einnig að huga að samfélagslegum hlutverkum hennar. Enn hefur þjóðkirkjan mikla sérstöðu í þessu efni. Meðan svo er virðist ekki brýnt verkefni að gera aðskilnað.

 

Frelsi kirkjunnar

Hér hefur verið bent á að aðskilnaður ríkis og þjóðkirkju sé ekki áríðandi viðfangsefni af lögformlegum og/eða pólitískum ástæðum þar sem ríkisvaldið sé hvorki trúarlega háð né bundið af ákveðinni trúarpólitískri stefnu. Í lokin má benda á aðra hlið á málinu sem kynni að gera aðskilnað aðkallandi að einhverra mati.

Þjóðkirkjuskipanin gerir það að verkum að þjóðkirkjan býr ekki við trúfrelsi. Henni ber að vera evangelísk-lúthersk og ríkisvaldið getur auk þess haft ýmis önnur áhrif á innri mál hennar.

Þá má benda á að í rúma öld hefur þjóðkirkjan barist fyrir auknu sjálfstæði sínu og sjálfsstjórn. Í lok liðinnar aldar varð henni verulega ágengt í því efni og er nú skilgreind sem sjálfstætt trúfélag þrátt fyrir tengsl sín við ríkisvaldið. Þetta sjálfstæði þáði kirkjan úr hendi löggjafans, Alþingis. Það hefur fullt frelsi til að skerða sjálfstæði kirkjunnar að nýju meðan kirkjuskipan ríkisins er við lýði. Torvelt er að sjá að pólitísk öfl komi í náinni framtíð til með að beita sér fyrir slíkri breytingu. Að þessu leyti er staða þjóðkirkjunnar þó ótrygg og hún getur að óbreyttu sambandi við ríkisvaldið aldrei öðlast sambærilegt frelsi og önnur trúfélög njóta. Mörgum kann að virðast þetta mæla með aðskilnaði.