Hvað er þjóð í þjóðkirkju?

Hjalti Hugason, 28. November 2011 13:48

 

Stundum virðist kylfa ráða kasti um hvort sameiginlegar stofnanir okkar eru kenndar við þjóðina eða landið. Bókmenntaarfurinn er geymdur í Landsbókasafni en óútgefnar heimildir um sögu okkar á Þjóðskjalasafni. Við förum í Þjóðleikhúsið til að lyfta upp andanum en á Landsspítalann ef eitthvað amar að líkamanum. Er einhver dulin rökfræði á bak við þetta?

Sums staðar starfa landskirkjur en við köllum kirkju okkar þjóðkirkju og það heiti hvílir á sjálfri stjórnarskránni. Í því sambandi er þjóð hliðstæða danska orðsins folk en það er ekki auðþýtt. Stundum vísar það til þjóðar (nation) en stundum til almennings eða jafnvel alþýðu. Hvaða merkingu skyldi orðið hafa sem forliður í þjóðkirkju-hugtakinu og hvaða álitamál tengjast því?

 

Þjóðleg kirkja?

Ein leið er að líta svo á að fyrsta atkvæðið í þjóðkirkju-heitinu vísi til íslensku þjóðarinnar í sögulegri, pólitískri eða jafnvel líffræðilegri merkingu. Þjóðkirkja okkar væri þá kirkja íslensku þjóðarinnar: kirkja fyrir íslenska þjóð, alíslensk deild í almennri kirkju Krists — forsmekkur Guðsríkisins meðal Íslendinga.

Slíkur þráður hefur oft verið spunninn í þjóðkirkjum Norðurlanda. Stundum hefur hann leitt til þung-þjóðernislegra ef ekki létt-fasískra áherslna  Á öndverðri 20. öld þróaðist slík hreyfing meðal sænskra stúdenta sem héldu í krossferðir út um landið, prédikuðu fagnaðarerindið og söfnuðu fé — til að kaupa þungvopnað stríðsskip til að verja landið fyrir útlendum fjendum. Þetta var í aðdraganda fyrri heimsstyrjaldarinnar.

Hér komst á friðsamlegri og vinstrisinnaðri tenging milli þjóðkirkjuguðfræði og þjóðernisstefnu í kjölfar seinna stríðs. Þá börðust menn á borð við Sigurbjörn Einarsson samtímis gegn erlendri íhlutun og her í landi og kirkjulegri endurreisn með Skálholt sem þungamiðju.

 

Kirkja allra

Í samtímanum er þjóðernisleg hleðsla þjóðkirkjuhugtaksins ófrjó og hana ber að forðast. Í landinu býr nú góðu heilli fólk af fleiri en einu þjóðerni. Ísland stefnir í að vera fullgildur félagi í heimsþorpinu en ekki einangrað frá því. Við verðum að læra að vera opnari og umburðarlyndari fyrir öllum sem hér vilja búa og fljótari til að veita þeim fulla aðild að samfélagi okkar. Þar ætti þjóðkirkjan að vera fremst í flokki.

Forliðurinn í þjóðkirkjuhugtakinu má því ekki fela í sér skírskotun til þeirrar þjóðerniskenndar sem hefur verið svo ríkjandi meðal okkar síðan í sjálfstæðisbaráttunni á 19. öld. Þjóðkirkjan á að vera kirkja allra landsmanna í þeim mæli sem hver og einn kýs.

Í þessu efni ætti að túlka þjóðkirkjuhugtakið í 62. gr. stjskr. í ljósi 63. gr. sem fjallar um trúfrelsið. Þar er nú vissulega rætt um „alla“ en áður var þar kveðið á um „landsmenn“. Eins og allir njóta trúfrelsis á þjóðkirkjan að þjóna öllum sem til hennar leita og vera málsvari allra sem á stuðningi hennar þurfa að halda.

Þjóð í þjóðkirkju ætti því að merkja almenningur, fólkið í landinu, hvaðan sem það er, hvaða tungu sem það talar, hvernig sem það er á litinn. Í þjóðkirkjunni eiga öll sem það vilja að finna sig heima.

 

Hlutverk meðal þjóðarinnar

Hér að framan var fjallað um úthverfa vídd þjóðkirkjuguðfræðinnar. Hún snýst um hvernig þjóðkirkjan tengist umhverfi sínu og höfðar til þess, þjóðarinnar, samfélagsins, alls almennings í landinu: Er hún opin eða lokuð þjóðernislega séð?

Hér vaknar önnur spurning: Hvernig skynjar og skilur þjóðkirkjan hlutverk sitt í samfélaginu? Er hún varðhundur þjóðlegra hefða og þjóðlegra gilda; þjóðlegt langtímaminni samfélagsins og veislustjóri þess á þjóðlegum hátíðum? Eða er hún gagnrýnandi afl sem andæfir þjóðhyggju en stuðlar að samhyggð og samstöðu út fyrir þjóðleg mörk og mæri hvort sem er innanlands eða á erlendum vettvangi? — Í þessu sambandi ber að gæta þess að kirkjur og raunar trúarbrögð heims hafa einstæða möguleika á að tryggja alþjóðleg tengsl, jafnvægi og frið ef þau leggja rækt við það besta í hefðum sínum og heimfæra það upp á aðstæður í samtímanum.

Auðvitað ber svo að gæta þess að hugsanlega getur þjóðkirkjan sameinað þetta hvort tveggja: ræktarsemi við það jákvæðasta sem þjóðlegar hefðir fela í sér og geta helst lagt til heimsmenningarinnar og samstöðu með öllum sem þurfa á hjástoð kirkjunnar að halda óháð þjóðerni.

 

Þolandi eða gerandi?

Þjóðkirkjuheitið kallar þó einnig fram aðrar og innhverfari spurningar. Hvort er þjóðin þolandi eða gerandi, frumlag eða andlag, í þjóðkirkjunni? Þessari spurningu svarar kirkjan með þeirri stefnu sem hún markar sér á sviði stjórnar og starfshátta.

Þar sem þjóðin er andlag eða þolandi í kirkjulegu starfi lítur kirkjan á þjóðina sem markhóp, viðfangsefni, viðtakanda og í ýktustu myndum vandamál — jafnvel andstæðing. Þetta gerist í kirkjum sem einangrast frá þjóð sinni, almenningi, landsmönnum, öllum.

Í slíkum kirkjum eru það fáir sem ráða, velja, kjósa eða taka ákvarðanir fyrir marga. Þar deila og drottna embættismenn, fagmenn og sérfræðingar. Þar myndast tvær fylkingar: kirkjueigendur og hinir. Táknmynd slíkrar kirkju er turn og allar boðleiðir eru brattar.

Þar sem þjóðin er frumlag eða gerandi heyrast raddir allra. Öll skipta máli. Í sameiningu leita leikir og lærðir bestu leiðarinnar til að byggja kirkju Krists á hverjum stað og hverri stundu, í þeim sporum sem við erum stödd í hverju sinni. Boðleiðirnar eru stuttar, greiðar og flatar. Táknmynd slíkrar kirkju gæti verið torg.

 

Kirkja og þjóð

Framtíðarstaða þjóðkirkjunnar veltur á tengslum kirkju og þjóðar. Eru kirkjan og þjóðin á sömu vegferð, bæta þær hvor aðra upp, styðja hvor aðra og kalla fram það besta hvor í annarri? Eða horfa þær hvor í sína áttina — önnur fram á veg en hin um öxl?

Á nýbyrjuðu kirkjuári er íslensku þjóðkirkjunni hollt að velta fyrir sér hvernig hún skilur fyrsta atkvæðið í heiti sínu. — Það er margt sem hangir á þeirri spýtu.

Hvað verður um kirsuberjagarðana?

Hjalti Hugason, 25. November 2011 11:19

 

Sýning Borgarleikhússins á Kirsuberjagarði Antons Tsjekhovs er mikið sjónarspil. Leikur, búningar og sviðsmynd heilla og hrífa. Þrír tónlistarmenn brjóta upp flæði, ramma inn senur og taka á stundum þátt í leiknum. Töfrar og ærls vega salt við trega og óhamingju.

Sögupersónurnar skiptast í tvær fylkingar: firrt hástéttarfólk sem má muna sinn fífil fegurri og annað af lægri stigum sem slitnað hefur úr tengslum við uppruna sinn og rætur, er orðið ófært um að lifa lífinu öðru vísi en í svikulu skjóli hástéttarinnar.

 

Margslungið verk

Kirsuberjagarðurinn er leikverk með margar víddir. Að hluta er þetta gamanleikur. Að hluta fjallar verkið um upplausn og hnignun.

Einnig  má setja leikinn í sögulegt samhengi sitt í Rússlandi 19. aldarinnar skömmu eftir afnám bændaánauðar. Það fóta sig ekki allir í breyttu umhverfi. Þeir sem áður lifðu á striti leiguliða og hjúa rísa ekki undir kröfum nýs tíma. Aðrir hafna því frelsi sem í boði er. Flestir vilja innst inni óbreytt ástand.

 

Hvað er kirsuberjagarðurinn?

Eftir hlé sótti magnaður óhugnaður að. Hvað er eiginlega kirsuberjagarðurinn og hvað verður um hann?

Auðvitað er svarið ekki einfalt. Kirsuberjagarðurinn er árangur af blóði, svita og tárum þeirra sem nutu hans ekki. Þannig séð getur hann hugsanlega verið tákn ranglætis. Í verkinu er hann þó fyrst og fremst tákn fegurðar, alls þess í umhverfi okkar sem hefur eitthvert raunverulegt gildi, tengir okkur við sögu okkar og sjálfsmynd.

 

Hvers vegna gerðu þau ekkert?

Grundvallarspurning verksins er: Hvers vegna loka eigendur kirsuberjagarðsins augunum? Hvers vegna hreyfa þau ekki legg né lið og láta garðinn ganga sér úr greipum? Er það ef til vill örvæntingarfull tilraun til að bjarga honum? — Eina lausnin sem í boði var fólst í stórbrotinni viðskiptahugmynd sem leiða mundi  til eyðileggingar garðsins.

 

Hvað eru okkar krisuberjagarðar?

Við eigum svo sannarlega okkar kirsuberjagarða bæði ein og sér og öll saman. Okkar sameiginlegu garðar eru náttúruperlur og sögustaðir þar sem við skynjum okkur í sátt og samhengi við landið eða uppruna okkar, sækjum í orku og hugarró.

Fleiri og fleiri af þessum stöðum hafa orðið viðskiptahugmyndum að bráð í seinni tíð. Eigum við að horfa eftir fleirum í þá hít?

Það var bókstaflega sárt að heyra hvert tréð af öðru fellt í hörðum takti meðan tjaldið féll í lok sýningar.

Leikverk sem talar inn í síbreytilegar aðstæður og vekur ágengar spurningar í huga þess sem á horfir er svo sannarlega klassískt. Takk fyrir, Borgarleikhús!

Biskupa(f)árið mikla!

Hjalti Hugason, 20. November 2011 22:39

Biskupaárið mikla

 

Yfirstandandi árs verður lengi minnst sem biskupaársins mikla. Kjör til vígslubiskups í Skálholti stóð yfir allan bjargræðistímann. Í upphafi nýafstaðiðs kirkjuþings lýsti biskup Íslands því yfir að hann láti af embætti er skipunartími hans rennur út. Í lok þingsins tilkynnti vígslubiskup á Hólum svo um starfslok sín. Á einu ári — frá síðsumri 2011 til síðsumars 2012 — verður því endurnýjun í öllum þremur biskupsembættunum. Það er svo óreynt hvort það verður til heilla fyrir þjóðkirkjuna, hnekkis eða hvort það skipti ef til vill ekki máli. Tvennar biskupskosningar svo til samtímis skapa þó óhjákvæmilega álag í kirkjunni.

 

Umræðu er þörf

Nú er áríðandi að umræðan hefjist sem allra fyrst. Þar er auðvitað ekki átt við umræðu um vænlega arftaka eða biskupskandídata heldur hlutverk biskupsins í kirkjunni, stöðu hans eða hennar í samfélaginu og þær áherslur sem ríkja eiga við val á biskupum. Ugglaust hefur fólk rætt slík mál sín á milli í aðdraganda nýafstaðiðs vígslubiskupskjörs. Það var á hinn bóginn veikleikamerkin að engin opin „prinsípsumræða“ fór þá fram. Hvers vegna í ósköpunum viljum við Íslendingar alltaf frekar ræða um persónur en „prinsíp“?

Áður en átakalínur taka að myndast milli einstaklinga, áður en biskupunum, hrókunum, peðunum og öllum hinum taflmönnunum verður stillt upp á borðið, verður að taka afstöðu til fjölmargra álitamála.

 

Andlegur leiðtogi eða framkvæmdastjóri?

Nú eins og löngum er embætti biskups æði víðfeðmt og hefur í sér fólgna bæði andlega og veraldlega vídd þó vissulega hangi þær saman. Oft hefur verið á það bent að létta þurfi ýmsum „framkvæmdastjórahlutverkum“ af biskupi og  fela þau öðrum. Nú síðast hefur Ríkisendurskoðun spunnið þennan þráð og bent á að biskupi séu falin of umfangsmikil stjórnunarstörf m.a. þar sem hann sé forseti kirkjuráðs.

Það kjör sem nú stendur fyrir dyrum fer vissulega fram samkvæmt gildandi þjóðkirkjulögum. Því þurfa kjörmenn og raunar kirkjan í heild að marka sér stefnu um hvort kjósa skuli framkvæmdastjóra eða andlegan leiðtoga. Ólíklegt er að einstaklingur finnist sem er jafnvígur í báðum hlutverkunum ekki síst vegna þeirra fjölmörgu verkefna sem áður voru unnin í ráðuneyti kirkjumála en hvíla nú á herðum biskups og starfsfólks í hinum veraldlega geira Biskupsstofu.

Þegar val stendur á milli andlegs leiðtoga og framkvæmdastjóra vakna spurningar á borð við: Hvort viljum við að sé aðalstarf eða forgangsverkefni biskups? Hvort teljum við æskilegra að hann leiti sér „staðgengils“ á hinu andlega eða veraldlega sviði? Á hvoru sviðinu viljum við að styrkleikar biskupsins sjálfs liggi? Val á einstaklingi í embættið veltur á svörum við slíkum spurningum.

 

Prestur prestanna eða eitthvað meira?

Oft heyrist sagt að biskup sé „prestur prestanna“ sem hljómar líkt og bergmál af einum af mörgum titlum páfa: Servus Servorum Dei. Þetta er auðvitað satt og rétt. Biskup á m.a. að vera prestur og sálusorgari prestanna — og nú auðvitað djáknanna líka.

Með þessu er þó alls ekki sagt að biskup eigi aðeins að gegna þessu innhverfa hlutverki í kirkjunni. Hann er biskup allrar kirkjunnar eins og embættistitill hans ber með sér, þ.e. biskup Íslands.

Auk allra þeirra hlutverka sem biskup gegnir í innra lífi kirkjunnar er hann jafnframt fulltrúi hennar út á við. Hann er því sá sem öðrum fremur túlkar afstöðu kirkjunnar í ýmsum málum í samtali hennar við samfélagið. Það er þess vegna sem þjóðin hlustar á og ræðir um orð biskups t.d. á helgum og hátíðum. Með þessu er ekki sagt að kirkja okkar eigi að vera einhver biskupakirkja. Rödd biskups lætur samt hærra í eyrum fólks en annarra þjóna kirkjunnar.

Áður en gengið er til atkvæða þarf því að ákveða hvort sé mikilvægara að velja „prest prestanna“ eða biskup þjóðarinnar. Í framhaldi af því mætti velta upp spurningunni: Hvort hlutverkið er eðlilegra að vígslubiskuparnir taki yfir í vaxandi mæli? Ætli það hljóti ekki að vera prestshlutverkið meðal hinna vígðu?

 

Jafnréttisvinkillinn

Eins og nú er í pottinn búið yrði það fullkomlega óásættanlegt fyrir kirkjuna verði kona ekki kjörinn til biskups í þeirri miklu kosningalotu sem nú er hafin. Helst þurfa þær að verða tvær og mikilvægara er að kona verði kjörin biskup en vígslubiskup.

Jafnrétti er mannréttindamál og þar á þjóðkirkjan að fara fyrir öðrum. Það verður tæplega um hana sagt nú. Þá er þess að gæta að frá 1998 hefur þjóðkirkjan búið að jafnréttisstefnu þar sem eitt af markmiðunum er „að stuðla að jafnri stöðu kvenna og karla í stjórnunar- og áhrifastöðum“. Þetta má ekki gleymast á biskupaárinu mikla.

 

Hvers eðlis er kosningarétturinn?

Sá sem þetta ritar hefur þráfaldlega bent á að kosnigaréttur í biskupskosningum er annars eðlis en þegar um alþingis- eða sveitarstjórnarkosningar er að ræða. Í síðari tilvikunum hafa allir landsmenn yfir ákveðnum aldri kosningarrétt. Í biskupskjöri kýs enginn nema sá sem valinn hefur verið til ákveðinnar launaðrar eða ólaunaðrar trúnaðarstöðu í kirkjunni. Fáeinir kjörmenn kjósa því fyrir hönd alls þorra þjóðkirkjufólks.

Af þessum sökum er full ástæða til að velta fyrir sér hvernig fara beri með atkvæðisrétt sinn. Er kjörmaðurinn aðeins bundinn af samvisku sinni — eða smekk — eins og í venjulegum lýðræðislegum kosningum? Eða ber honum eða henni að leggja heildarstefnu kirkjunnar til grundvallar við val sitt?  Og hvaða afleiðingar hefur það þá t.d. þegar um jafnréttisstefnuna er að ræða?

Disney í Skálholti?

Hjalti Hugason, 20. November 2011 22:38

 

Skálholt í Biskupstungum hefur verið mikilvæg miðstöð kristninnar í landinu allt frá 1056 ef frá er talið 150 ára tímabil sem hófust um aldamótin 1800. Þrátt fyrir þetta hefur einstaka sinnum verið tekist á um Skálholt. Sú var t.d. raunin um miðja 16. öld er kaþólskum og lútherskum laust þar saman. Nú er tekist þar á um svokallaða Þorláksbúð, tilgátuhús sem er í byggingu norðan undir vegg dómkirkjunar. Mörgum er heitt í hamsi og í kirkjunni virðist búðin hafa hlotið táknræna merkingu: Fólk er krafð um afstöðu með eða á móti og ekki er grunlaust um að ályktanir séu dregnar um kirkjupólitíska stöðu hvers og eins út frá skoðunni á Þorláksbúð.

 

Viðskiptahugmynd til eflingar

Þegar deilan um búðina fornu stóð sem hæst kynntu fjárfestar nýja viðskiptahugmynd sem koma skyldi Skálholti á kortið á nýjan hátt. Hið tragí-kómíska í málinu er að hugmyndin felst einmitt í byggingu tilgátuhúss! Nú er þó ekki um litla búð að ræða heldur eftirlíkingu af miðaldadómkirkju sem bera mundi allar þær byggingar sem nú eru á staðnum ofurliði stærðar sinnar vegna.

Hér skal ekki rætt um arðsemisútreikninga né heldur gildi tilgátuhúsa svona almennt og yfirleitt. Um hvort tveggja má ugglaust deila. Hér skal aðeins staldrað við hugmyndina um tálbeitu fyrir túrista í Skálholti.

 

Hagsmunaárekstur

Í Skálholti er stundað margþætt kirkjulegt starf sem verður vonandi með vaxandi blóma í framtíðinni þótt nú virðist blása á móti. Þangað leita margir til að njóta kyrrðar og næðist á sögufrægum stað. Í Skálholt er líka stöðugur straumur ferðamanna bæði á eigin vegum og í skipulegum ferðum á vegum ferðaþjónustunnar. Rúturnar sem þangað koma dag hvern eru ótrúlega margar.

Stundum rekast hagsmunir þessara tveggja hópa á: Þátttakendur í kirkjustarfi, t.d. á kyrrðardögum, vilja vera í friði. Ferðamenn á hinn bóginn þarfnast meiri þjónustu. Sé viðskiptahugmyndin eins góð og af er látið er ljóst að þessi árekstur verður enn tilfinnanlegri í framtíðinni. Verði af byggingunni og lánist hún verulega vel vaknar spurningin: Mun kirkjumiðstöðin í Skálholti víkja fyrir ferðamannastaðnum? Óskar þess einhver í alvöru? Lánist byggingin hins vegar illa gæti kirkjumiðstöðin drukknað í einhvers konar íslenskri útgáfu af Disneylandi.

 

Nægja ekki Gullfoss og Geysir?

Nú má spyrja: Þarf raunverulega að auka vægi Skálholts á þann hátt sem hugmynd fjárfestanna gengur út á?

Staðurinn er staðsettur í „gullna hringnum“ sem hefur af allnokkru að státa: Þingvöllum, Gullfoss og Geysi auk Skálholts með sögu sína og núverndi reisn. Verður einhverju bætt við þessar náttúruperlur sem hefur eitthvert raunverulegt gildi umfram viðskipagildi?

Hugmynd um tilgátuhús, jafnvel „miðalda“-dómkirkju, þarf ekki að vera slæm en er þörf á slíku í Skálholti? Þjóðveldisbærinn var ekki reistur á Stöng svo dæmi sé tekið. Dregur það á einhvern hátt úr gildi hans? Hafi menn áhuga á að fjárfesta í tilgátukirkjum má benda á að klausturkirkjurnar íslensku voru líka merkilegar byggingar. Mætti ekki endurgera einhverja þeirra og koma þannig fleiri sögustöðum á kortið, stækka hringinn og beina ferðamönnum víðar?

 

Ábyrgð þjóðkirkjunnar

Skálholt er helgur sögustaður sem þjóðkirkjunni er trúað fyrir og henni falinn til að stunda þar lifandi starf í nútíð og framtíð. Þjóðkirkjan ber endanlega ábyrgð á öllum framkvæmdum í Skálholti. Staðurinn á ekki heimtingu á vernd neins nema hennar. Þegar fram koma stórhuga hugmyndir á borð við þá sem hér um ræðir er það þjóðkirkjunnar að standa fyrir raunsæinu, mótvæginu, gagnrýninni, varúðinni. — Ef íhaldssemi er einhvern tíman dyggð þá er hún það í málum sem þessu!

Aðskilnaður ríkis og kirkju — ógn við þjóðkirkjuna?

Hjalti Hugason, 15. November 2011 16:15

 

Aðskilnaður ríkis og kirkju er áleitið álitamál sem mörgum virðist ástæða til að leitt verði til lykta í náinni framtíð. Afstaða fólks ræðst af fjölmörgum þáttum og átakalínur liggja ekki alfarið milli þeirra sem taka virkan þátt í starfi kirkjunnar og hinna sem ekki gera það.

 

Hver er afstaða kirkjufólks?

Ljóst er þó að meiri varfærni — eða íhaldssemi — gætir í þessu efni í röðum virks þjóðkirkjufólks en almennings í landinu.

Í nýlegri könnun sem gerð var meðal ýmissa er gegna launuðum eða ólaunuðum trúnaðarstörfum í þjóðkirkjunni kusu t.a.m. um 70 % að halda í 62. gr. stjórnarskrárinnar. Tæp 45 % lýstu sig þó sammála því að 19. gr. í frumvarpi Stjórnlagaráðs nái fram að ganga en hún felur í sér mun óljósari útfærslu á þjóðkirkjuskipan. Niðurstaðan virðist sú að betri sé einhver kirkjuskipan en engin.

Heil 80 % vilja að þjóðkirkjan njóti sérstöðu sinnar vegna sögulegs og menningarlegs hlutverks hennar í aldanna rás. Ekki var gefinn kostur á að taka afstöðu til annarra og nútímalegri röksemda. Verður að líta á það sem mistök. Nú á tímum verður að styðja þjóðkirkjuskipanina rökum sem horfa fremur til framtíðar og fortíðar.

Um 2/3 hlutar svarenda taldi að breytingar á sambandi ríkis og kirkju mundi hafa áhrif á starf kirkjunnar. Spurt var sérstaklega hvort fólk teldi að starf kirkjunnar á höfuðborgarsvæðinu mundi veikjast eða styrkjast. Svörin dreifðust nokkuð líkt. 1/3 áleit að störf safnaða í landinu almennt mundu veikjast og álíka stór hópur að stjórnsýsla kirkjunnar muni veikjast en helmingur taldi að starfsmönnum mundi fækka. Öll sem svöruðu töldu þó að starf kirkjunnar yrði áfram með svipuðu móti og nú. — Aðskilnaður ríkis og kirkju birtist þjóðkirkjufólki því ekki sem ógn. Tæpur helmingur taldi enda að þjóðkirkjan ætti að beita sér fyrir breytingum á sambandi ríkis og kirkju. Það þarf þó alls ekki að þýða aðskilnað heldur breytingu innan núgildandi fyrirkomulags.

 

Ógnar frelsið?

Við núverandi skipan nýtur þjóðkirkjan umtalsverðs sjálfstæðis og sjálfsstjórnar. Hún er þó ekki sjálfráð (autonom).  Hún hefur þegið núverandi sjálfstæði sitt úr hendi Alþingis sem getur skert það að nýju. Jafnvel við núverandi aðstæður nær löggjafarvald þess langt inn í innri málefni þjóðkirkjunnar. Í lýðræðislegu, veraldlegu, fjölhyggjusamfélagi geta komið upp þær aðstæður að þessi staða þjóðkirkjunnar reynist henni fjötur um fót.

Út frá þessu ákveðna sjónarhorni er vandséð að aðskilnaður ríkis og kirkju geti skaðað kirkjuna. Sjálfræði kirkju getur vart haft áhrif til annars en eflingar. — Nema hún vantreysti stjórnkerfi sínu, forystuliði eða líði af vanmetakennd.

 

Er menningarlegri og félagslegri stöðu ógnað?

Eins og að ofan getur telja margir að þjóðkirkjan eigi að njóta sérstöðu vegna sögulegs og menningarlegs hlutverks síns í aldanna rás. Að svo miklu leyti sem um sögulegt hlutverk kirkjunnar er að ræða verður því ekki breytt úr þessu. Vonandi fær kirkjan notið sögu sinnar áfram ef ekki í sambandi við ríkisvaldið þá a.m.k í samlífi sínu við þjóðina.

Menningarleg hlutverk kirkjunnar eru aftur á móti margþætt í samtímanum burtséð frá sögunni. Sama máli gegnir um félagsleg hlutverk hennar. Þjókirkjan þéttir t.a.m. vef velferðarkerfisins til mikilla muna ekki síst í dreifðum byggðum þar sem félagsleg þjónusta er oft takmörkuð. Kirkjan gegnir þessum hlutverkum ekki fyrst og fremst vegna stjórnarskrár- eða lögbundinnar stöðu sinnar heldur vegna þess að hún er þjónandi kirkja Krists. Þjónusta hennar stendur öllum til boða.

Trúverðugleiki kirkjunnar í félagslegum og menningarlegum efnum ræðst ekki af tengslum hennar við ríkisvaldið. Hann veltur alfarið á lífi og stafi kirkjunnar: Er hún köllun sinni trú? Er hún biðjandi, boðandi og þjónandi kirkja? Nær hún eyrum fólks? Veitir hún friði, gleði, farsæld og heillum inn í líf fólksins í landinu — einstaklinganna og samfélagsins í heild? Sé svo er aðskilnaður ekki ógn.

 

Aðskilnaður fjárhagsleg ógn?

Aðskilnaður ríkis og kirkju hefur lengi verið í umræðu hér á landi. Oft heyrðist sú rödd að slík breyting mundi lama starf kirkjunnar og leggja fjáhag hennar í rúst. Aðrir bentu þá á að slík afstaða væri einhver stærsta gjaldþrotayfirlýsing sem hægt væri að gefa út fyrir kirkjunnar hönd. Þeir sem óttuðust hrun teldu með öðrum orðum að almenningur tilheyrið kirkjunni aðeins af lagaskyldu.— Sem betur fer lítur kirkjufólk ekki svo á nú á dögum eins og fram kom í könnuninni sem vitnað var í hér að framan.

Aðskilnaður ríkis og kirkju verður að fela í sér að kirkjan verði fjárhagslega sjálfstæð, fjár síns ráðandi og ábyrg fyrir rekstri sínum. Þegar hefur verið gengið langt í þessa átt.

Á 20. öld færðist forræði yfir fornum kirkjueignum frá kirkjunni yfir til ríkisvaldsins. Síðar fór eignarhaldið að mestu leyti sömu leið. Í staðinn var gerður tvíhliða samningur milli ríkis og kirkju um launagreiðslur til tiltekins fjölda starfsfólks á Biskupsstofu, presta, prófasta og biskupa. Þessi þáttur fjárhagstengslanna er því með öllu óháður þjóðkirkjuskipaninni.

Annar fjárhagsþáttur sem tengir ríki og kirkju eru sóknargjöld sem ríkisvaldið innheimtir fyrir þjóðkirkjuna, sem og allar aðrar skráðar kirkjur og trúfélög í landinu. Þessi innheimta félagsgjaldanna er óháð kirkjuskipaninni. Kirkjur og trúfélög þurfa þó að geta ráðið því sjálf hver upphæð gjaldanna skuli vera.

Þá má á það benda að kirkjur víða um lönd gegna ýmsum hlutverkum í samfélaginu sem ekki lýtur beint að boðunarstarfi þeirra eða þröngu hlutverki þeirra sem kirkna. Víða eru gerðir samningar um greiðslur fyrir veitta þjónustu. Algengasta dæmið um slíka samninga kveða á um greiðslur fyrir varðveislu menningarminja. Skoða þyrfti starf þjóðkirkjunnar út frá þessu sjónarhorni og gera í framhaldinu samninga um verkaskipti og skiptingu kostnaðar.

Loks getur ríkisvaldið stutt starf kirkna og trúfélaga m.a. með fjárframlögum líkt og hið opinbera styður ýmis félög, samtök og hreyfingar sem til heilla horfa í samfélaginu. Eftir aðskilnað hlýtur þjóðkirkjan þó að sitja við sama borð og önnur skráð trú- og lífsskoðunarfélög í þessu efni.

Í ljósi þessa er ljóst að aðskilnaður ríkis og kirkju þarf ekki að ógna fjárhag kirkjunnar.

 

Siðfræði aðskilnaðar

Við hugsanlegan aðskilnað ríkis og þjóðkirkju er mikilvægt að fram fari samtal, samningar og stefnumörkun um skilnaðarkjörin, þ.e. með hvaða hætti löngu sambandi ríkis og kirkju verður slitið með ábyrgum hætti.

Ríki getur t.a.m. aldrei hlutast til um aðskilnað af sparnaðarástæðum einum saman. Í siðuðu samélagi má aðskilnaður heldur ekki verða til að raska starfi þess trúfélags eða kirkju sem í hlut á til mikilla muna. Síst eftir nýafstaðna eignatilfærslu á borð við þá sem hér varð undir lok liðinnar aldar.

Að sínu leyti þarf kirkja í aðskilnaðarfreli að fara yfir rekstur sinn og starfsfyrirkomulag, vega og meta tekjur og útgjöld, hagræða ef verða má og færa til fjármuni þannig að hver króna nýtist til lifandi starfs.

Umfram allt þarf kirkjan að vera meðvituð um að aðskilnaður felur í sér óskorað sjálfræði. Í því felst ábyrð og ögrun en tæpast ógn.

 

Aðskilnaður ríkis og kirkju — Hvað, hvernig, til hvers...?

Hjalti Hugason, 15. November 2011 09:50

 

Í nokkrum pistlum hér á Pressunni hef ég fjallað um aðskilnað ríkis og kirkju sem mörgum finnst aðkallandi viðfangsefni nú um stundir. Hér skal leitast við að draga saman þræðina út frá nokkrum lykilspurningum.

 

Á að gera aðskilnað?

Almenna svarið við þessari spurningu til lengri tíma litið er: Já! — Þróunin hefur um langt skeið legið í átt til aukins sjálfstæðis og sjálfsstjórnar kirkjum og trúfélögum til handa bæði alþjóðlega og hér á landi. Stofnunarleg aðgreining ríkis og þjóðkirkju er þegar langt á veg komin hér þrátt fyrir að aðskilnaðarferli sé ekki hafið. Hitt er álitamál hvenær eigi að gera aðskilnað, hvernig það skuli gert og hvað skuli taka við af núverandi skipan.

 

Hvað er aðskilnaður?

Með aðskilnaði ríkis og þjóðkirkju er a.m.k. átt við að þjóðkirkjan sé í öllu réttarfarslegu tilliti gerð jafnstæð öðrum skráðum trú- og lífsskoðunarfélögum.

Í aðskilnaði getur líka falist að ríkisvaldið hætti öllum afskiptum af trúfélögum meðan þau brjóta ekki lög ríkisins. Er þá látið nægja að kveða á um trúfrelsi fólks  sem hluta af almennum mannréttindum en að öllu öðru leyti litið á trúmál sem einkamál.

 

Hvenær á að gera aðskilnað?

Rök virðast fyrir því að gera aðskilnað í fyrri merkingunni hér að framan þegar fjölmenning í landinu er orðin slík að menningarhefð sem í einhverri merkingu getur talist lúthersk er ekki lengur sameiningarafl meðal þjóðarinnar.

Einnig mætti svara því til að aðskilnað skuli gera þegar þjóðkirkjan er hætt að gegna öðrum samfélagshlutverkum en þeim sem önnur trú- og lífsskoðunarfélög gegna í sama mæli.

Loks mætti svara svo að aðskilnað eigi að gera þegar meirihluti þjóðarinnar tilheyrir ekki lengur þjóðkirkjunni.

Hitt er flóknari spurning hvenær skilja beri að öllu leyti milli ríkisvaldsins og trúfélaga í landinu. Þar er raunar um trúarpólitískt álitamál að ræða sem lýtur að því hvort við viljum að samfélagið sé að öllu leyti veraldlegt eða hvort trúarleg vídd mannlífsins fái skilgreinda stöðu á opinberum vettvangi. Að nokkru leyti er þar líka um að ræða hvers konar trúfrelsi við viljum að ríki meðal okkar. — Sjá pistil minn um „bleikt og blátt trúfrelsi“ hér á Pressunni.

 

Hvernig er aðskilnaður gerður?

Fyrsta skrefið í aðskilnaði er að fella brott það sem kallað er „kirkjuskipan ríkisins“, þ.e. 62. gr. stjskr. eða ef því er að skipta strika út 19. gr. frumvarps Stjórnlagaráðs.

Annað skrefið er að fella úr gildi lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 eða einfalda þau mjög. Vissulega má færa rök að því að jafnvel eftir aðskilnað verði fyrirferð lúthersku kirkjunnar slík að rétt sé að kveða á um stöðu hennar í sérstökum lögum. Í þeim ætti þá að koma fram 1) að kirkjunni bera áfram að vera lúthersk í þeirri merkingu sem hún er það nú, 2) að hún sé öllum opin og reiðubúin til þjónustu við alla án þess að krefjast sérstakrar trúarjátningar af þeim sem til hennar leita, 3) að hún starfi um land allt, 4) að stjórnarhættir hennar séu lýðræðislegir og 5) að hún fari að jafnréttislögum, stjórnsýslulögum og öðrum þeim réttarreglum sem eðlilegar eru í lýðræðissamfélagi.

Þriðja skrefið í aðskilnaði er síðan að fella úr gildi öll önnur lög en þjóðkirkjulögin sem veita þjóðkirkjunni sérstöðu sem og ákvæði í öðrum lögum sem nefna þjóðkirkjuna.

Fjórða skrefið í aðskilnaði væri svo að koma málum þannig fyrir að þjóðkirkjan sé án nokkurs vafa fjárhagslega sjálfstæð, fjár síns ráðandi og ábyrg fyrir eigin rekstri.

Á það skal bent að núverandi fjárhagstengsl ríkis og kirkju eru aðeins að litlu leyti afleiðing af þjóðkirkjuskipaninni. Ríkisvaldið er þannig t.d. ábyrgt fyrir launagreiðslum til tiltekins fjölda starfsfólks á Biskupsstofu, presta, prófasta og biskupa vegna tilflutnings á fornum kirkjueignum til ríkisins sem fram fór á 20. öld. Þetta atriði er því óháð tengslum ríkis og kirkju að öðru leyti enda kveðið á um skylduna í tvíhliða samningi. Í líkum samningi ætti að kveða á um fjárhagstengsl ríkis og kirkju á öðrum sviðum. Þar ætti að kveða á um ýmis hlutverk og skyldur kirkjunnar í samfélaginu og greiðslur fyrir þau. Víða er kirkjum t.a.m. greitt fyrir að viðhalda menningarminjum en þar er t.d. um að ræða friðaðar kirkjur og listaverk.

Ef aftur á móti á að framkvæma aðskilnað í trúarpólitískri merkingu, þ.e. leggja grunn að fullkomlega veraldlegu samfélagi, þarf auk þess sem að ofan er talið að fella úr gildi lög um skráð trúfélög nr. 108/1999 og öll ákvæði í lögum er kveða á um trúfélög sérstaklega. Þetta felur í sér að málefnum trúfélaga verði algerlega fyrir komið á sviði einkamálaréttar.

 

Til hvers ætti að gera aðskilnað?

Þyngstu rökin fyrir aðskilnaði eru þau að koma á fullkomnum jöfnuði í trúarefnum ekki aðeins einstaklingum til handa heldur einnig trú- og lífsskoðunarfélögum.

Þá er eðlilegt að lög og ekki síst stjórnskipunarréttur endurspegli raunverulegar aðstæður í landinu þar á meðal stöðu kirkjunnar meðal þjóðarinnar. Þegar málum er svo komið að þjóðkirkjan hefur enga sérstöðu í þessu tilliti er eðlilegt að taka afleiðingum þeirrar þróunar á hinu réttarfarslega sviði eða með öðrum orðum gera aðskilnað.

 

Hvað tekur við eftir aðskilnað?

Eftir aðskilnað tekur við sú staða að evangelísk-lútherska kirkjan nýtur sama frelsis og hefur sömu formlegu stöðu í samfélaginu og öll önnur trú- og lífsskoðunarfélög. Það fer svo eftir trúarpólitískum aðstæðum hvort þessi félög falla að nokkru leyti undir opinberan rétt eins og nú er eða alfarið undir einkamálarétt. — Það ræðst af því hvort fólk kýs að samfélagið sé fullkomlega veraldlegt eða ekki, sem og hvers konar trúfrelsi skuli vera hér við lýði.

Hver staða trúmála síðan verður meðal þjóðarinnar og hver áhrif trúarleg gildi hafa í samfélaginu ræðst svo af allt öðrum ástæðum, þ.e. hver ítök kirkjur og trúfélög hafa meðal þjóðarinnar.

Aðskilnaður ríkis og kirkju ræður sem sé ekki úrslitum um hvort hér verða haldin jól, páskar eða hvítasunna; hvort kristin fræði eða trúarbragðafræði verða kennd í skólum eða þess vegna hvort þjóðin verður heiðin eða kristin! — Það er einfaldlega allt önnur spurning sem tengist menningararfi þjóðarinnar.

 

Er aðskilnaður óhjákvæmilegur?

Hér er gengið út frá að almenn þróun mæli með aðskilnaði ríkis og kirkju fyrr eða síðar en aftur á móti sé álitamál hvenær hann sé orðinn aðkallandi.

Hitt er hins vegar ekki álitamál að brýnt er að tryggja aukinn jöfnuð milli þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga, sem og milli trú- og lífsskoðunarfélaga. Aðskilnaður ríkis og kirkju er ekki eina leiðin til þess. Allt eins má velja þá leið að veita öllum trú- og lífsskoðunarfélögum sem æskja skráningar eins líkan stuðning og vernd og löggjafinn tryggir þjóðkirkjunni nú. Kirkjuskipan ríkisins leggur ríkinu aðeins á herðar að styðja við trúarhefð meirihluta þjóðarinnar en bindur ekki hendur hans gagnvart minnihlutanum. Í þjóðkirkjuskipaninni felst engin skylda til mismununar. Þvert á móti bannar stjórnarskráin (65. gr.) mismunun vegna trúarskoðana.

Færa má ýmis rök fyrir því að fara „hina leiðina“, þ.e. að styðja öll trú- og lífsskoðunarfélög. Í því sambandi vegur þungt að kirkjur og trúfélög geta lagt mikið af mörkum til velferðarsamfélagsins ekki síst eins og árar eftir Hrun. Til að tryggt sé að faglegra og ábyrgra starfshátta sé gætt í því efni virðist æskilegt að hið opinbera hafi innsýn í starf hreyfinga af þessu tagi. Til þess verða þau að falla að nokkru undir opinberan rétt líkt og nú er raun á.

Einnig skal á það bent að í fjölhyggjusamfélagi koma trúarlegir þættir til með að hafa aukin áhrif á sjálfsmyndarsköpun og sjálfstjáningu fólks. Það kemur ekki síst til með að gilda um þau sem tilheyra minnihlutahópum í einhverju tilliti líkt og raun er á víða erlendis nú um stundir. Færa má rök að því að afdráttarlaus aðskilnaður milli hins veraldlega og trúarlega í samfélaginu hefti fremur en auki frelsi fólks til sjálfstjáningar. Það er með öðrum orðum alls ekki gefið að slíkur aðskilnaður sé æskilegasta leiðin þegar um er að ræða skoðunar-, tjáningar- og félagafrelsi á sviði trúmálanna.

Þegar litið er til sögu þjóðarinnar og lýðræðisþróunar er ekki augljóst að aðskilnaður í veraldlegt og andlegt svið sé endilega æskileg leið hér á landi einmitt nú þótt sú leið sé farin annars staðar þar sem lýðræðisþróun varð með allt öðrum hætti svo sem í Frakklandi. Því er alls ekki óumdeilanlegt að ríkinu beri að fylgja trúarpólitískri stefnu í þá átt.

 

Hver tekur ákvörðun?

Það er ljóst að hvorki ríkisstjórn, Alþingi, fjórflokkurinn eða þess vegna þjóðkirkjan koma til með að ákveða hvort og þá hvenær aðskilnaður ríkis og kirkju verður gerður hér á landi. Allar koma þessar stofnanir vissulega til með að hafa áhrif á ákvörðunina. Það er þó þjóðin sjálf sem hefur úrslitavaldið. Í því efni er núgildandi stjórnarskrá (79. gr.) afdráttaralaus, sem og frumvarp stjórnlagaráðs (19. gr.).

Það sem er mikilvægt er að þjóðkirkjan vegi og meti fyrir sína parta hvað hún geti gefið þjóðinni sem aðrir geti ekki veitt henni jafnvel eða betur. Í framhaldinu þarf hún að sýna og sanna að hún sé þess megnug að göfga og glæða líf fólksins í landinu. Að sínu leyti þarf þjóðin að hugleiða hvers virði kirkjan sé henni, sem og hvað hún hafi lagt til gróandi þjóðlífs hér á landi í þúsund ár. Með hvaða hætti viljum við skipa málum hennar nú og í nánustu framtíð til að hún geti sem best lagt sitt af mörkum til öflugs og fagurs mannlífs í landinu?

Þjóðkirkja eða ekki þjóðkirkja er ekki spurning sem öllu skiptir. Þvert á móti snýst málið um heill komandi kynslóða. Í því efni þurfum við samstöðu, samstarf og samhjálp sem allra flestra: ríkis, kirkna, trúfélaga, lífsskoðunarfélaga og allra samtaka og hreyfinga sem leggja vilja sitt af mörkum til að byggja hér upp lífvænlegt mannlegt samfélag í friði og sátt. Álitamál kann að vera hvaða lagaumhverfi henti best til að tryggja það.

 

 

 

 

Um Illskuna

Hjalti Hugason, 12. November 2011 13:53

 

Hugvísindi fjalla um allt milli himins og jarðar þar á meðal gott og illt. Hér verður vöngum velt yfir illskunni.

 

Heimsmyndin og illskan

Meðan trúarleg heimsmynd var ríkjandi glímdu menn við vandamálið: Hvernig er mögulegt að samræma veruleika hins illa í heiminum og trú á Guð sem í senn er almáttugur og algóður? Þetta viðfangsefni nefndist theodiche eða guðvörn. Þá tengdu menn hið illa helst við hungursneyðir, drepsóttir og ófrið. Þetta er þó vissulega fremur böl en illska.

Nú er heimsmynd Vesturlanda veraldleg. Athyglin hefur jafnframt beinst í ríkari mæli að þeirri illsku sem kemur fram í mannlegu atferli. Spurt er: Hvernig getur skyni gædd vera sýnt af sér jafnmikla illsku og raun ber vitni? Öldin sem leið afhjúpaði enda illskuna í ríkari mæli en lengi hafði verið raun á. Þar ber Helför Nasista hæst en einnig þjóðarmorð í Rúanda, á Balkanskaga og víðar.

 

Hvað er illska?

Gera verður greinarmun á böli og illsku, illsku og glæpum sem og illsku og andfélagslegri hegðun. Uppskerubrestur, þurrkar, svínaflensur og aðrar hörmungar hafa þjáningar og dauða í för með sér. Ekki er hins vegar mögulegt að líta svo á að böl af þessu tagi stafi af illsku. Glæpir leiða til skaða, tjóns og jafnvel dauða en eru þó ekki alltaf framdir af illsku. Andfélagsleg hegðun veldur mörgum óþægindum og tjóni en stafar af ýmsu öðru en illum huga. — Það verður að slá þröngan hring um illskuna.

Oft er litið svo á illska komi fram í hugsunum, orðum eða gjörðum sem einstaklingur með óskerta dómgreind hugsar, lætur falla eða fremur að yfirlögðu ráði og meðvitaður um að atferli hans skaði aðra. Markmið raunverulegs illvikja er enda öðru fremur að skaða aðra.

 

Er til vont fólk?

Það er grundvallarspurning hvort ill verk séu ætíð framin af illsku, þ.e af vondu fólki, eða ekki.

Umfangsmiklar rannsóknir voru á sínum tíma gerðar bæði á helstu gerendum í Helförinni og þeim sem „aðeins“ tóku þátt. Oftast varð niðurstaðan að um venjulegt fólk væri að ræða. Líkleg skýring á þátttöku flestra er sú hlýðni-menning sem byggð hafði verið upp í þýskri þjóðarsál og enn er til staðar í ýmsum samfélagskimum.

Svipuðu máli gegnir um ill verk sem framin eru af einstaklingum. Víst framdi barnamorðinginn María Farrar í ljóði Brechts illt verk en heldur því einhver fram að María hafi verið vond? Hún var skelkuð og svikin um samhjálp. Josef Fritzl vekur þó með ódæði sínu spurninguna um hvort raunverulega sé til vont fólk, skrímsli í mannsmynd?

Að baki þeirrar spurningar blundar oft þrá eftir að einangra illskuna, láta sannfærast um að hún sé raunverulega ekki hluti af veruleika „okkar“ heldur eitthvað í fari „hinna“, skrímslanna. Áður en við sláum því föstu verðum við þó að hafa í huga varnaðaroð Brects um að illvirkinn kunni að vera „dropi af heimsins kvölum“.

 

Hvernig tökumst við á við illskuna?

Um daga trúarlegu heimsmyndarinnar ákallaði fólk Guð í glímu sinni við hið illa: Kyrie eleison. — Drottinn miskunna þú oss!

Nú erum við ekki síður í þörf fyrir hæli fyrir illskunni. En hin veraldlega heimsmynd kallar á ný úrræði. Ýmsar fræðigreinar leitast við að skilgreina illskuna, afmarka hana og jafnvel meðhöndla. Líka er tekist á við illskuna með hjálp listarinnar, ekki síst bókmenntanna.

Er hinn mikli áhugi á glæpasögum hugsanleg til kominn vegna þess að þar er tekist á við hið illa og það afhjúpað? Stafa gríðarlegar vinsældir svörtu skapanornarinnar Lisbeth Salander, óskilgetinnar dóttur Stieg Larssons og Noomi Rapace, e.t.v. af því að hún dregur illvirkjana ekki aðeins til ábyrgðar heldur endurgeldur þeim einnig illsku þeirra maklega?

(Samið undir áhrifum af Ann Heberlein, 2010: En liten bok om ondska. Stokkhólmi, Bonnier).

Aðskilnaður ríkis og kirkju — Rök með og á móti — II

Hjalti Hugason, 6. November 2011 22:29

 

Í fyrri pistli hér á Pressunni var vöngum velt yfir nokkrum álitamálum um hvort tími sé til kominn að skilja að ríki og þjóðkirkju. Var á það bent að þegar fjölmenning er orðin slík að menningarhefð sem í einhverri merkingu er lúthersk er ekki lengur sameiningarafl og/eða þegar þjóðkirkjan er hætt að gegna öðrum samfélagshlutverkum en trú- og lífsskoðunarfélög almennt sé kominn tími á aðskilnað. Þær aðstæður virðast enn ekki fyrir hendi hér. Aðskilnaður virðist að því leyti ekki brýnt viðfangsefni.

Hér skal vikið að nokkrum fleiri álitamálum.

 

Ríkisvaldið á ekki að skipta sér af trúmálum

Í umræðu um aðskilnað halda ýmsir því fram að nútímalegt ríkisvald eigi ekki að hafa nein afskipti af trúmálum. Því eigi ekki aðeins að skilja að ríki og þjóðkirkju heldur ríki og trúfélög almennt. Hér er vissulega um álitamál að ræða.

Í velferðarsamfélagi þarf að huga að fleiru en efnalegri velferð. Þar þarf líka að hlú að félagslegri, sálrænni og andlegri velferð fólks. Í því sambandi skiptir starf ýmis konar hreyfinga og félagasamtaka miklu. Hið opinbera, ríki og sveitarfélög, styður og verndar enda starf þeirra með ýmsu móti þó ekki sé kveðið á um það í stjórnarskrá líkt og þegar þjóðkirkjan á í hlut. Trúfélög leggja mörg hver mikið af mörkum við að byggja upp hina „mjúku“ velferð fjölda fólks. Því máli gegnir ekki síst um þjóðkirkjuna. Hún veitir t.d. mun fleirum styrk á erfiðustu stundunum á lífsleiðinni en þeim sem taka reglubundinn þátt í starfi hennar. Þessu máli gegnir jafnvel um þá sem ákveðið hafa að yfirgefa þjóðkirkjuna eða hafa jafnvel aldrei verið í henni. Vandséð er að byggja þurfi upp eldveggi milli ríkisvaldsins og félagasamtaka sem stuðla að velferð vegna þess eins að um trúfélög er að ræða. Þvert á móti virðist ekkert mæla gegn að ríkið styrki með ýmsu móti starf trúfélaga sem leggja sitt af mörkum til velferðarinnar ef það er gert á faglegan og ábyrgan máta.

Hér hafa verði færð „jákvæð“ rök fyrir að ríkisvaldið geti og að því beri jafnvel að styðja og vernda trúfélög og þá ekki síst þjóðkirkjuna vegna framlags þeirra til velferðarsamfélagsins. Fyrir þessu má einnig færa „neikvæð“ rök. Með því er átt við að það sé hugsanlega ekki heppilegt að láta trúfélög leika lausum hala í samfélaginu og því síður því stærri sem þau eru. Því beri ríkisvaldinu beinlínis að tryggja sér innsýn í starf þeirra. Í því efni vísast annars til pistils míns hér á Pressunni — „Á að setja ríkinu kirkjuskipan?“

Í umræðum um aðskilnað ríkis og þjóðkirkju ber að vega og meta hvernig alhliða velferð fólksins í landinu verði best tryggð. Meta þarf hvað þjóðkirkjan og önnur trúfélög leggja til hennar, sem og hvort það tryggi velferð fólks bæði í og utan kirkju og trúfélaga betur að þau séu alfrjáls eða ef ríkisvaldið getur haft áhrif á starfshætti þeirra. Hér er litið svo á að hófleg tengsl kirkju og trúfélaga við ríkisvaldið sem hvíli á lögum og/eða samningum efli velferðarsamfélagið frekar en rýri það. Af þeim sökum virðist aðskilnaður ekki brýnt viðfangsefni.

Í þessu sambandi er þó mikilvægt að huga ekki aðeins að samstarfi þjóðkirkju og ríkis heldur sambandi allra skráðra trúfélaga við ríkisvaldið. Þá ætti að leggja trú- og lífsskoðunarfélög að jöfnu í þessu efni.

 

Ríkið á að stuðla að jöfnuði í trúarefnum

Öfugt við ýmis atriði sem til álita koma við aðskilnað er hér ekki um álitamál að ræða heldur yrðingu sem hafin er yfir vangaveltu. Í nútímanum ber ríkisvaldinu að stuðla að jafnstöðu borgaranna í öllu tilliti ekki síst trúarlegu. Af þeim sökum er mismunun á grundvelli trúar óheimil eins og kemur m.a. fram í jafnræðisreglu stjskr. (65. gr.).

Í kirkjuskipan íslenska ríkisins felst a.m.k. óbein og/eða jákvæð mismunun þar sem þjóðkirkjunni er á grundvelli hennar gert hærra undir höfði en öðrum trúfélögum. Fyrir því hafa þó verið talin málefnaleg rök sem einkum vísa til stærðar þjóðkirkjunnar, samfélagslegra hlutverka hennar og langrar samfelldrar sögu með þjóðinni. Hér skal þessum rökum ekki haldið stíft fram enda tveir fyrri þættirnir breytingum háðir. Þó skal tekið fram að bæði dómstólar og sérfræðingar sem um málið hafa fjallað telja þjóðkirkjuskipan á borð við okkar ekki brjóta gegn trúfrelsi.

Hér skiptir líka máli að í kirkjuskipan ríkisins felst ekki skylda til mismununar. Ákvæði stjskr. þess efnis að ríkisvaldinu beri að styðja og vernda þjóðkirkjuna felur t.d. ekki í sér að löggjafanum sé ekki frjálst að veita öllum trúfélögum sambærilegan stuðning — eða hugsanlega einhvern veginn öðru vísi vernd en þjóðkirkjunni ef rök eru talin fyrir því.

Aðskilnaður ríkis og þjóðkirkju er því ekki eina leiðin til að stuðla að jöfnuði á sviði trúmálanna. Allt eins mætti velja hina leiðina og veita öllum skráðum trúfélögum sambærilegan stuðning og þjóðkirkjan nýtur nú. Þá ætti og að veita lífsskoðunarfélögum rétt til skráningar og stuðnings.

 

Endurskoðunar þörf

Hvort sem menn aðhyllast aðskilnað ríkis og kirkju eða ekki er mikilvægt að gæta að ýmis álitamál tengjast aðskilnaði.  Full ástæða er því til að ræða málið nú á dögum líkt og var fyrir 100 árum en þá var aðskilnaðarumræða hér á landi virk og vönduð. Þá er ljóst að framkvæma má kirkjuskipan ríkisins með ýmsu móti en það er gert með lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, fjárlögum og ýmsum ákvæðum í öðrum lögum. Velja þarf framkvæmd sem hæfir aðstæðum hverju sinni og stuðlar að sem mestum jöfnuði — þar til rétt þykir að rjúfa hin sértæku tengsl ríkis og þjóðkirkju, þ.e. gera aðskilnað.

Þá er mikilvægt að huga að því að samband ríkis og þjóðkirkju er aðeins formleg hlið á sambandi kirkju og þjóðar. Því þarf að meta hverju sinni hver staða kirkjunnar er í raun meðal þjóðarinnar og haga lögfræðinni og stjórnskipunarréttinum til samræmis við hana, þ.e. viðhalda kirkjuskipan ríkisins, breyta henni eða eftir atvikum fella hana úr gildi.

Að endingu má svo auðvitað benda á að evangelísk-lúherska kirkjan getur svo áfram reynst fólkinu í landinu þjóðkirkja þrátt fyrir að tengsl hennar við ríkisvaldið rofni. Heiti hennar öðlast þá aðeins nýja merkingu og tekur að ná yfir kirkju sem lifir og líður með þjóðinni og þjóðin lítur raunverulega á sem sína.  Þetta er sú merking þjóðkirkjuhugtaksins sem auðvitað skiptir mestu máli.