Aðskilnaður ríkis og kirkju — Rök með og á móti — II

Hjalti Hugason, 6. November 2011 22:29

 

Í fyrri pistli hér á Pressunni var vöngum velt yfir nokkrum álitamálum um hvort tími sé til kominn að skilja að ríki og þjóðkirkju. Var á það bent að þegar fjölmenning er orðin slík að menningarhefð sem í einhverri merkingu er lúthersk er ekki lengur sameiningarafl og/eða þegar þjóðkirkjan er hætt að gegna öðrum samfélagshlutverkum en trú- og lífsskoðunarfélög almennt sé kominn tími á aðskilnað. Þær aðstæður virðast enn ekki fyrir hendi hér. Aðskilnaður virðist að því leyti ekki brýnt viðfangsefni.

Hér skal vikið að nokkrum fleiri álitamálum.

 

Ríkisvaldið á ekki að skipta sér af trúmálum

Í umræðu um aðskilnað halda ýmsir því fram að nútímalegt ríkisvald eigi ekki að hafa nein afskipti af trúmálum. Því eigi ekki aðeins að skilja að ríki og þjóðkirkju heldur ríki og trúfélög almennt. Hér er vissulega um álitamál að ræða.

Í velferðarsamfélagi þarf að huga að fleiru en efnalegri velferð. Þar þarf líka að hlú að félagslegri, sálrænni og andlegri velferð fólks. Í því sambandi skiptir starf ýmis konar hreyfinga og félagasamtaka miklu. Hið opinbera, ríki og sveitarfélög, styður og verndar enda starf þeirra með ýmsu móti þó ekki sé kveðið á um það í stjórnarskrá líkt og þegar þjóðkirkjan á í hlut. Trúfélög leggja mörg hver mikið af mörkum við að byggja upp hina „mjúku“ velferð fjölda fólks. Því máli gegnir ekki síst um þjóðkirkjuna. Hún veitir t.d. mun fleirum styrk á erfiðustu stundunum á lífsleiðinni en þeim sem taka reglubundinn þátt í starfi hennar. Þessu máli gegnir jafnvel um þá sem ákveðið hafa að yfirgefa þjóðkirkjuna eða hafa jafnvel aldrei verið í henni. Vandséð er að byggja þurfi upp eldveggi milli ríkisvaldsins og félagasamtaka sem stuðla að velferð vegna þess eins að um trúfélög er að ræða. Þvert á móti virðist ekkert mæla gegn að ríkið styrki með ýmsu móti starf trúfélaga sem leggja sitt af mörkum til velferðarinnar ef það er gert á faglegan og ábyrgan máta.

Hér hafa verði færð „jákvæð“ rök fyrir að ríkisvaldið geti og að því beri jafnvel að styðja og vernda trúfélög og þá ekki síst þjóðkirkjuna vegna framlags þeirra til velferðarsamfélagsins. Fyrir þessu má einnig færa „neikvæð“ rök. Með því er átt við að það sé hugsanlega ekki heppilegt að láta trúfélög leika lausum hala í samfélaginu og því síður því stærri sem þau eru. Því beri ríkisvaldinu beinlínis að tryggja sér innsýn í starf þeirra. Í því efni vísast annars til pistils míns hér á Pressunni — „Á að setja ríkinu kirkjuskipan?“

Í umræðum um aðskilnað ríkis og þjóðkirkju ber að vega og meta hvernig alhliða velferð fólksins í landinu verði best tryggð. Meta þarf hvað þjóðkirkjan og önnur trúfélög leggja til hennar, sem og hvort það tryggi velferð fólks bæði í og utan kirkju og trúfélaga betur að þau séu alfrjáls eða ef ríkisvaldið getur haft áhrif á starfshætti þeirra. Hér er litið svo á að hófleg tengsl kirkju og trúfélaga við ríkisvaldið sem hvíli á lögum og/eða samningum efli velferðarsamfélagið frekar en rýri það. Af þeim sökum virðist aðskilnaður ekki brýnt viðfangsefni.

Í þessu sambandi er þó mikilvægt að huga ekki aðeins að samstarfi þjóðkirkju og ríkis heldur sambandi allra skráðra trúfélaga við ríkisvaldið. Þá ætti að leggja trú- og lífsskoðunarfélög að jöfnu í þessu efni.

 

Ríkið á að stuðla að jöfnuði í trúarefnum

Öfugt við ýmis atriði sem til álita koma við aðskilnað er hér ekki um álitamál að ræða heldur yrðingu sem hafin er yfir vangaveltu. Í nútímanum ber ríkisvaldinu að stuðla að jafnstöðu borgaranna í öllu tilliti ekki síst trúarlegu. Af þeim sökum er mismunun á grundvelli trúar óheimil eins og kemur m.a. fram í jafnræðisreglu stjskr. (65. gr.).

Í kirkjuskipan íslenska ríkisins felst a.m.k. óbein og/eða jákvæð mismunun þar sem þjóðkirkjunni er á grundvelli hennar gert hærra undir höfði en öðrum trúfélögum. Fyrir því hafa þó verið talin málefnaleg rök sem einkum vísa til stærðar þjóðkirkjunnar, samfélagslegra hlutverka hennar og langrar samfelldrar sögu með þjóðinni. Hér skal þessum rökum ekki haldið stíft fram enda tveir fyrri þættirnir breytingum háðir. Þó skal tekið fram að bæði dómstólar og sérfræðingar sem um málið hafa fjallað telja þjóðkirkjuskipan á borð við okkar ekki brjóta gegn trúfrelsi.

Hér skiptir líka máli að í kirkjuskipan ríkisins felst ekki skylda til mismununar. Ákvæði stjskr. þess efnis að ríkisvaldinu beri að styðja og vernda þjóðkirkjuna felur t.d. ekki í sér að löggjafanum sé ekki frjálst að veita öllum trúfélögum sambærilegan stuðning — eða hugsanlega einhvern veginn öðru vísi vernd en þjóðkirkjunni ef rök eru talin fyrir því.

Aðskilnaður ríkis og þjóðkirkju er því ekki eina leiðin til að stuðla að jöfnuði á sviði trúmálanna. Allt eins mætti velja hina leiðina og veita öllum skráðum trúfélögum sambærilegan stuðning og þjóðkirkjan nýtur nú. Þá ætti og að veita lífsskoðunarfélögum rétt til skráningar og stuðnings.

 

Endurskoðunar þörf

Hvort sem menn aðhyllast aðskilnað ríkis og kirkju eða ekki er mikilvægt að gæta að ýmis álitamál tengjast aðskilnaði.  Full ástæða er því til að ræða málið nú á dögum líkt og var fyrir 100 árum en þá var aðskilnaðarumræða hér á landi virk og vönduð. Þá er ljóst að framkvæma má kirkjuskipan ríkisins með ýmsu móti en það er gert með lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, fjárlögum og ýmsum ákvæðum í öðrum lögum. Velja þarf framkvæmd sem hæfir aðstæðum hverju sinni og stuðlar að sem mestum jöfnuði — þar til rétt þykir að rjúfa hin sértæku tengsl ríkis og þjóðkirkju, þ.e. gera aðskilnað.

Þá er mikilvægt að huga að því að samband ríkis og þjóðkirkju er aðeins formleg hlið á sambandi kirkju og þjóðar. Því þarf að meta hverju sinni hver staða kirkjunnar er í raun meðal þjóðarinnar og haga lögfræðinni og stjórnskipunarréttinum til samræmis við hana, þ.e. viðhalda kirkjuskipan ríkisins, breyta henni eða eftir atvikum fella hana úr gildi.

Að endingu má svo auðvitað benda á að evangelísk-lúherska kirkjan getur svo áfram reynst fólkinu í landinu þjóðkirkja þrátt fyrir að tengsl hennar við ríkisvaldið rofni. Heiti hennar öðlast þá aðeins nýja merkingu og tekur að ná yfir kirkju sem lifir og líður með þjóðinni og þjóðin lítur raunverulega á sem sína.  Þetta er sú merking þjóðkirkjuhugtaksins sem auðvitað skiptir mestu máli.