Aðskilnaður ríkis og kirkju — ógn við þjóðkirkjuna?

Hjalti Hugason, 15. November 2011 16:15

 

Aðskilnaður ríkis og kirkju er áleitið álitamál sem mörgum virðist ástæða til að leitt verði til lykta í náinni framtíð. Afstaða fólks ræðst af fjölmörgum þáttum og átakalínur liggja ekki alfarið milli þeirra sem taka virkan þátt í starfi kirkjunnar og hinna sem ekki gera það.

 

Hver er afstaða kirkjufólks?

Ljóst er þó að meiri varfærni — eða íhaldssemi — gætir í þessu efni í röðum virks þjóðkirkjufólks en almennings í landinu.

Í nýlegri könnun sem gerð var meðal ýmissa er gegna launuðum eða ólaunuðum trúnaðarstörfum í þjóðkirkjunni kusu t.a.m. um 70 % að halda í 62. gr. stjórnarskrárinnar. Tæp 45 % lýstu sig þó sammála því að 19. gr. í frumvarpi Stjórnlagaráðs nái fram að ganga en hún felur í sér mun óljósari útfærslu á þjóðkirkjuskipan. Niðurstaðan virðist sú að betri sé einhver kirkjuskipan en engin.

Heil 80 % vilja að þjóðkirkjan njóti sérstöðu sinnar vegna sögulegs og menningarlegs hlutverks hennar í aldanna rás. Ekki var gefinn kostur á að taka afstöðu til annarra og nútímalegri röksemda. Verður að líta á það sem mistök. Nú á tímum verður að styðja þjóðkirkjuskipanina rökum sem horfa fremur til framtíðar og fortíðar.

Um 2/3 hlutar svarenda taldi að breytingar á sambandi ríkis og kirkju mundi hafa áhrif á starf kirkjunnar. Spurt var sérstaklega hvort fólk teldi að starf kirkjunnar á höfuðborgarsvæðinu mundi veikjast eða styrkjast. Svörin dreifðust nokkuð líkt. 1/3 áleit að störf safnaða í landinu almennt mundu veikjast og álíka stór hópur að stjórnsýsla kirkjunnar muni veikjast en helmingur taldi að starfsmönnum mundi fækka. Öll sem svöruðu töldu þó að starf kirkjunnar yrði áfram með svipuðu móti og nú. — Aðskilnaður ríkis og kirkju birtist þjóðkirkjufólki því ekki sem ógn. Tæpur helmingur taldi enda að þjóðkirkjan ætti að beita sér fyrir breytingum á sambandi ríkis og kirkju. Það þarf þó alls ekki að þýða aðskilnað heldur breytingu innan núgildandi fyrirkomulags.

 

Ógnar frelsið?

Við núverandi skipan nýtur þjóðkirkjan umtalsverðs sjálfstæðis og sjálfsstjórnar. Hún er þó ekki sjálfráð (autonom).  Hún hefur þegið núverandi sjálfstæði sitt úr hendi Alþingis sem getur skert það að nýju. Jafnvel við núverandi aðstæður nær löggjafarvald þess langt inn í innri málefni þjóðkirkjunnar. Í lýðræðislegu, veraldlegu, fjölhyggjusamfélagi geta komið upp þær aðstæður að þessi staða þjóðkirkjunnar reynist henni fjötur um fót.

Út frá þessu ákveðna sjónarhorni er vandséð að aðskilnaður ríkis og kirkju geti skaðað kirkjuna. Sjálfræði kirkju getur vart haft áhrif til annars en eflingar. — Nema hún vantreysti stjórnkerfi sínu, forystuliði eða líði af vanmetakennd.

 

Er menningarlegri og félagslegri stöðu ógnað?

Eins og að ofan getur telja margir að þjóðkirkjan eigi að njóta sérstöðu vegna sögulegs og menningarlegs hlutverks síns í aldanna rás. Að svo miklu leyti sem um sögulegt hlutverk kirkjunnar er að ræða verður því ekki breytt úr þessu. Vonandi fær kirkjan notið sögu sinnar áfram ef ekki í sambandi við ríkisvaldið þá a.m.k í samlífi sínu við þjóðina.

Menningarleg hlutverk kirkjunnar eru aftur á móti margþætt í samtímanum burtséð frá sögunni. Sama máli gegnir um félagsleg hlutverk hennar. Þjókirkjan þéttir t.a.m. vef velferðarkerfisins til mikilla muna ekki síst í dreifðum byggðum þar sem félagsleg þjónusta er oft takmörkuð. Kirkjan gegnir þessum hlutverkum ekki fyrst og fremst vegna stjórnarskrár- eða lögbundinnar stöðu sinnar heldur vegna þess að hún er þjónandi kirkja Krists. Þjónusta hennar stendur öllum til boða.

Trúverðugleiki kirkjunnar í félagslegum og menningarlegum efnum ræðst ekki af tengslum hennar við ríkisvaldið. Hann veltur alfarið á lífi og stafi kirkjunnar: Er hún köllun sinni trú? Er hún biðjandi, boðandi og þjónandi kirkja? Nær hún eyrum fólks? Veitir hún friði, gleði, farsæld og heillum inn í líf fólksins í landinu — einstaklinganna og samfélagsins í heild? Sé svo er aðskilnaður ekki ógn.

 

Aðskilnaður fjárhagsleg ógn?

Aðskilnaður ríkis og kirkju hefur lengi verið í umræðu hér á landi. Oft heyrðist sú rödd að slík breyting mundi lama starf kirkjunnar og leggja fjáhag hennar í rúst. Aðrir bentu þá á að slík afstaða væri einhver stærsta gjaldþrotayfirlýsing sem hægt væri að gefa út fyrir kirkjunnar hönd. Þeir sem óttuðust hrun teldu með öðrum orðum að almenningur tilheyrið kirkjunni aðeins af lagaskyldu.— Sem betur fer lítur kirkjufólk ekki svo á nú á dögum eins og fram kom í könnuninni sem vitnað var í hér að framan.

Aðskilnaður ríkis og kirkju verður að fela í sér að kirkjan verði fjárhagslega sjálfstæð, fjár síns ráðandi og ábyrg fyrir rekstri sínum. Þegar hefur verið gengið langt í þessa átt.

Á 20. öld færðist forræði yfir fornum kirkjueignum frá kirkjunni yfir til ríkisvaldsins. Síðar fór eignarhaldið að mestu leyti sömu leið. Í staðinn var gerður tvíhliða samningur milli ríkis og kirkju um launagreiðslur til tiltekins fjölda starfsfólks á Biskupsstofu, presta, prófasta og biskupa. Þessi þáttur fjárhagstengslanna er því með öllu óháður þjóðkirkjuskipaninni.

Annar fjárhagsþáttur sem tengir ríki og kirkju eru sóknargjöld sem ríkisvaldið innheimtir fyrir þjóðkirkjuna, sem og allar aðrar skráðar kirkjur og trúfélög í landinu. Þessi innheimta félagsgjaldanna er óháð kirkjuskipaninni. Kirkjur og trúfélög þurfa þó að geta ráðið því sjálf hver upphæð gjaldanna skuli vera.

Þá má á það benda að kirkjur víða um lönd gegna ýmsum hlutverkum í samfélaginu sem ekki lýtur beint að boðunarstarfi þeirra eða þröngu hlutverki þeirra sem kirkna. Víða eru gerðir samningar um greiðslur fyrir veitta þjónustu. Algengasta dæmið um slíka samninga kveða á um greiðslur fyrir varðveislu menningarminja. Skoða þyrfti starf þjóðkirkjunnar út frá þessu sjónarhorni og gera í framhaldinu samninga um verkaskipti og skiptingu kostnaðar.

Loks getur ríkisvaldið stutt starf kirkna og trúfélaga m.a. með fjárframlögum líkt og hið opinbera styður ýmis félög, samtök og hreyfingar sem til heilla horfa í samfélaginu. Eftir aðskilnað hlýtur þjóðkirkjan þó að sitja við sama borð og önnur skráð trú- og lífsskoðunarfélög í þessu efni.

Í ljósi þessa er ljóst að aðskilnaður ríkis og kirkju þarf ekki að ógna fjárhag kirkjunnar.

 

Siðfræði aðskilnaðar

Við hugsanlegan aðskilnað ríkis og þjóðkirkju er mikilvægt að fram fari samtal, samningar og stefnumörkun um skilnaðarkjörin, þ.e. með hvaða hætti löngu sambandi ríkis og kirkju verður slitið með ábyrgum hætti.

Ríki getur t.a.m. aldrei hlutast til um aðskilnað af sparnaðarástæðum einum saman. Í siðuðu samélagi má aðskilnaður heldur ekki verða til að raska starfi þess trúfélags eða kirkju sem í hlut á til mikilla muna. Síst eftir nýafstaðna eignatilfærslu á borð við þá sem hér varð undir lok liðinnar aldar.

Að sínu leyti þarf kirkja í aðskilnaðarfreli að fara yfir rekstur sinn og starfsfyrirkomulag, vega og meta tekjur og útgjöld, hagræða ef verða má og færa til fjármuni þannig að hver króna nýtist til lifandi starfs.

Umfram allt þarf kirkjan að vera meðvituð um að aðskilnaður felur í sér óskorað sjálfræði. Í því felst ábyrð og ögrun en tæpast ógn.

 

Aðskilnaður ríkis og kirkju — Hvað, hvernig, til hvers...?

Hjalti Hugason, 15. November 2011 09:50

 

Í nokkrum pistlum hér á Pressunni hef ég fjallað um aðskilnað ríkis og kirkju sem mörgum finnst aðkallandi viðfangsefni nú um stundir. Hér skal leitast við að draga saman þræðina út frá nokkrum lykilspurningum.

 

Á að gera aðskilnað?

Almenna svarið við þessari spurningu til lengri tíma litið er: Já! — Þróunin hefur um langt skeið legið í átt til aukins sjálfstæðis og sjálfsstjórnar kirkjum og trúfélögum til handa bæði alþjóðlega og hér á landi. Stofnunarleg aðgreining ríkis og þjóðkirkju er þegar langt á veg komin hér þrátt fyrir að aðskilnaðarferli sé ekki hafið. Hitt er álitamál hvenær eigi að gera aðskilnað, hvernig það skuli gert og hvað skuli taka við af núverandi skipan.

 

Hvað er aðskilnaður?

Með aðskilnaði ríkis og þjóðkirkju er a.m.k. átt við að þjóðkirkjan sé í öllu réttarfarslegu tilliti gerð jafnstæð öðrum skráðum trú- og lífsskoðunarfélögum.

Í aðskilnaði getur líka falist að ríkisvaldið hætti öllum afskiptum af trúfélögum meðan þau brjóta ekki lög ríkisins. Er þá látið nægja að kveða á um trúfrelsi fólks  sem hluta af almennum mannréttindum en að öllu öðru leyti litið á trúmál sem einkamál.

 

Hvenær á að gera aðskilnað?

Rök virðast fyrir því að gera aðskilnað í fyrri merkingunni hér að framan þegar fjölmenning í landinu er orðin slík að menningarhefð sem í einhverri merkingu getur talist lúthersk er ekki lengur sameiningarafl meðal þjóðarinnar.

Einnig mætti svara því til að aðskilnað skuli gera þegar þjóðkirkjan er hætt að gegna öðrum samfélagshlutverkum en þeim sem önnur trú- og lífsskoðunarfélög gegna í sama mæli.

Loks mætti svara svo að aðskilnað eigi að gera þegar meirihluti þjóðarinnar tilheyrir ekki lengur þjóðkirkjunni.

Hitt er flóknari spurning hvenær skilja beri að öllu leyti milli ríkisvaldsins og trúfélaga í landinu. Þar er raunar um trúarpólitískt álitamál að ræða sem lýtur að því hvort við viljum að samfélagið sé að öllu leyti veraldlegt eða hvort trúarleg vídd mannlífsins fái skilgreinda stöðu á opinberum vettvangi. Að nokkru leyti er þar líka um að ræða hvers konar trúfrelsi við viljum að ríki meðal okkar. — Sjá pistil minn um „bleikt og blátt trúfrelsi“ hér á Pressunni.

 

Hvernig er aðskilnaður gerður?

Fyrsta skrefið í aðskilnaði er að fella brott það sem kallað er „kirkjuskipan ríkisins“, þ.e. 62. gr. stjskr. eða ef því er að skipta strika út 19. gr. frumvarps Stjórnlagaráðs.

Annað skrefið er að fella úr gildi lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 eða einfalda þau mjög. Vissulega má færa rök að því að jafnvel eftir aðskilnað verði fyrirferð lúthersku kirkjunnar slík að rétt sé að kveða á um stöðu hennar í sérstökum lögum. Í þeim ætti þá að koma fram 1) að kirkjunni bera áfram að vera lúthersk í þeirri merkingu sem hún er það nú, 2) að hún sé öllum opin og reiðubúin til þjónustu við alla án þess að krefjast sérstakrar trúarjátningar af þeim sem til hennar leita, 3) að hún starfi um land allt, 4) að stjórnarhættir hennar séu lýðræðislegir og 5) að hún fari að jafnréttislögum, stjórnsýslulögum og öðrum þeim réttarreglum sem eðlilegar eru í lýðræðissamfélagi.

Þriðja skrefið í aðskilnaði er síðan að fella úr gildi öll önnur lög en þjóðkirkjulögin sem veita þjóðkirkjunni sérstöðu sem og ákvæði í öðrum lögum sem nefna þjóðkirkjuna.

Fjórða skrefið í aðskilnaði væri svo að koma málum þannig fyrir að þjóðkirkjan sé án nokkurs vafa fjárhagslega sjálfstæð, fjár síns ráðandi og ábyrg fyrir eigin rekstri.

Á það skal bent að núverandi fjárhagstengsl ríkis og kirkju eru aðeins að litlu leyti afleiðing af þjóðkirkjuskipaninni. Ríkisvaldið er þannig t.d. ábyrgt fyrir launagreiðslum til tiltekins fjölda starfsfólks á Biskupsstofu, presta, prófasta og biskupa vegna tilflutnings á fornum kirkjueignum til ríkisins sem fram fór á 20. öld. Þetta atriði er því óháð tengslum ríkis og kirkju að öðru leyti enda kveðið á um skylduna í tvíhliða samningi. Í líkum samningi ætti að kveða á um fjárhagstengsl ríkis og kirkju á öðrum sviðum. Þar ætti að kveða á um ýmis hlutverk og skyldur kirkjunnar í samfélaginu og greiðslur fyrir þau. Víða er kirkjum t.a.m. greitt fyrir að viðhalda menningarminjum en þar er t.d. um að ræða friðaðar kirkjur og listaverk.

Ef aftur á móti á að framkvæma aðskilnað í trúarpólitískri merkingu, þ.e. leggja grunn að fullkomlega veraldlegu samfélagi, þarf auk þess sem að ofan er talið að fella úr gildi lög um skráð trúfélög nr. 108/1999 og öll ákvæði í lögum er kveða á um trúfélög sérstaklega. Þetta felur í sér að málefnum trúfélaga verði algerlega fyrir komið á sviði einkamálaréttar.

 

Til hvers ætti að gera aðskilnað?

Þyngstu rökin fyrir aðskilnaði eru þau að koma á fullkomnum jöfnuði í trúarefnum ekki aðeins einstaklingum til handa heldur einnig trú- og lífsskoðunarfélögum.

Þá er eðlilegt að lög og ekki síst stjórnskipunarréttur endurspegli raunverulegar aðstæður í landinu þar á meðal stöðu kirkjunnar meðal þjóðarinnar. Þegar málum er svo komið að þjóðkirkjan hefur enga sérstöðu í þessu tilliti er eðlilegt að taka afleiðingum þeirrar þróunar á hinu réttarfarslega sviði eða með öðrum orðum gera aðskilnað.

 

Hvað tekur við eftir aðskilnað?

Eftir aðskilnað tekur við sú staða að evangelísk-lútherska kirkjan nýtur sama frelsis og hefur sömu formlegu stöðu í samfélaginu og öll önnur trú- og lífsskoðunarfélög. Það fer svo eftir trúarpólitískum aðstæðum hvort þessi félög falla að nokkru leyti undir opinberan rétt eins og nú er eða alfarið undir einkamálarétt. — Það ræðst af því hvort fólk kýs að samfélagið sé fullkomlega veraldlegt eða ekki, sem og hvers konar trúfrelsi skuli vera hér við lýði.

Hver staða trúmála síðan verður meðal þjóðarinnar og hver áhrif trúarleg gildi hafa í samfélaginu ræðst svo af allt öðrum ástæðum, þ.e. hver ítök kirkjur og trúfélög hafa meðal þjóðarinnar.

Aðskilnaður ríkis og kirkju ræður sem sé ekki úrslitum um hvort hér verða haldin jól, páskar eða hvítasunna; hvort kristin fræði eða trúarbragðafræði verða kennd í skólum eða þess vegna hvort þjóðin verður heiðin eða kristin! — Það er einfaldlega allt önnur spurning sem tengist menningararfi þjóðarinnar.

 

Er aðskilnaður óhjákvæmilegur?

Hér er gengið út frá að almenn þróun mæli með aðskilnaði ríkis og kirkju fyrr eða síðar en aftur á móti sé álitamál hvenær hann sé orðinn aðkallandi.

Hitt er hins vegar ekki álitamál að brýnt er að tryggja aukinn jöfnuð milli þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga, sem og milli trú- og lífsskoðunarfélaga. Aðskilnaður ríkis og kirkju er ekki eina leiðin til þess. Allt eins má velja þá leið að veita öllum trú- og lífsskoðunarfélögum sem æskja skráningar eins líkan stuðning og vernd og löggjafinn tryggir þjóðkirkjunni nú. Kirkjuskipan ríkisins leggur ríkinu aðeins á herðar að styðja við trúarhefð meirihluta þjóðarinnar en bindur ekki hendur hans gagnvart minnihlutanum. Í þjóðkirkjuskipaninni felst engin skylda til mismununar. Þvert á móti bannar stjórnarskráin (65. gr.) mismunun vegna trúarskoðana.

Færa má ýmis rök fyrir því að fara „hina leiðina“, þ.e. að styðja öll trú- og lífsskoðunarfélög. Í því sambandi vegur þungt að kirkjur og trúfélög geta lagt mikið af mörkum til velferðarsamfélagsins ekki síst eins og árar eftir Hrun. Til að tryggt sé að faglegra og ábyrgra starfshátta sé gætt í því efni virðist æskilegt að hið opinbera hafi innsýn í starf hreyfinga af þessu tagi. Til þess verða þau að falla að nokkru undir opinberan rétt líkt og nú er raun á.

Einnig skal á það bent að í fjölhyggjusamfélagi koma trúarlegir þættir til með að hafa aukin áhrif á sjálfsmyndarsköpun og sjálfstjáningu fólks. Það kemur ekki síst til með að gilda um þau sem tilheyra minnihlutahópum í einhverju tilliti líkt og raun er á víða erlendis nú um stundir. Færa má rök að því að afdráttarlaus aðskilnaður milli hins veraldlega og trúarlega í samfélaginu hefti fremur en auki frelsi fólks til sjálfstjáningar. Það er með öðrum orðum alls ekki gefið að slíkur aðskilnaður sé æskilegasta leiðin þegar um er að ræða skoðunar-, tjáningar- og félagafrelsi á sviði trúmálanna.

Þegar litið er til sögu þjóðarinnar og lýðræðisþróunar er ekki augljóst að aðskilnaður í veraldlegt og andlegt svið sé endilega æskileg leið hér á landi einmitt nú þótt sú leið sé farin annars staðar þar sem lýðræðisþróun varð með allt öðrum hætti svo sem í Frakklandi. Því er alls ekki óumdeilanlegt að ríkinu beri að fylgja trúarpólitískri stefnu í þá átt.

 

Hver tekur ákvörðun?

Það er ljóst að hvorki ríkisstjórn, Alþingi, fjórflokkurinn eða þess vegna þjóðkirkjan koma til með að ákveða hvort og þá hvenær aðskilnaður ríkis og kirkju verður gerður hér á landi. Allar koma þessar stofnanir vissulega til með að hafa áhrif á ákvörðunina. Það er þó þjóðin sjálf sem hefur úrslitavaldið. Í því efni er núgildandi stjórnarskrá (79. gr.) afdráttaralaus, sem og frumvarp stjórnlagaráðs (19. gr.).

Það sem er mikilvægt er að þjóðkirkjan vegi og meti fyrir sína parta hvað hún geti gefið þjóðinni sem aðrir geti ekki veitt henni jafnvel eða betur. Í framhaldinu þarf hún að sýna og sanna að hún sé þess megnug að göfga og glæða líf fólksins í landinu. Að sínu leyti þarf þjóðin að hugleiða hvers virði kirkjan sé henni, sem og hvað hún hafi lagt til gróandi þjóðlífs hér á landi í þúsund ár. Með hvaða hætti viljum við skipa málum hennar nú og í nánustu framtíð til að hún geti sem best lagt sitt af mörkum til öflugs og fagurs mannlífs í landinu?

Þjóðkirkja eða ekki þjóðkirkja er ekki spurning sem öllu skiptir. Þvert á móti snýst málið um heill komandi kynslóða. Í því efni þurfum við samstöðu, samstarf og samhjálp sem allra flestra: ríkis, kirkna, trúfélaga, lífsskoðunarfélaga og allra samtaka og hreyfinga sem leggja vilja sitt af mörkum til að byggja hér upp lífvænlegt mannlegt samfélag í friði og sátt. Álitamál kann að vera hvaða lagaumhverfi henti best til að tryggja það.