Biskupa(f)árið mikla!

Hjalti Hugason, 20. November 2011 22:39

Biskupaárið mikla

 

Yfirstandandi árs verður lengi minnst sem biskupaársins mikla. Kjör til vígslubiskups í Skálholti stóð yfir allan bjargræðistímann. Í upphafi nýafstaðiðs kirkjuþings lýsti biskup Íslands því yfir að hann láti af embætti er skipunartími hans rennur út. Í lok þingsins tilkynnti vígslubiskup á Hólum svo um starfslok sín. Á einu ári — frá síðsumri 2011 til síðsumars 2012 — verður því endurnýjun í öllum þremur biskupsembættunum. Það er svo óreynt hvort það verður til heilla fyrir þjóðkirkjuna, hnekkis eða hvort það skipti ef til vill ekki máli. Tvennar biskupskosningar svo til samtímis skapa þó óhjákvæmilega álag í kirkjunni.

 

Umræðu er þörf

Nú er áríðandi að umræðan hefjist sem allra fyrst. Þar er auðvitað ekki átt við umræðu um vænlega arftaka eða biskupskandídata heldur hlutverk biskupsins í kirkjunni, stöðu hans eða hennar í samfélaginu og þær áherslur sem ríkja eiga við val á biskupum. Ugglaust hefur fólk rætt slík mál sín á milli í aðdraganda nýafstaðiðs vígslubiskupskjörs. Það var á hinn bóginn veikleikamerkin að engin opin „prinsípsumræða“ fór þá fram. Hvers vegna í ósköpunum viljum við Íslendingar alltaf frekar ræða um persónur en „prinsíp“?

Áður en átakalínur taka að myndast milli einstaklinga, áður en biskupunum, hrókunum, peðunum og öllum hinum taflmönnunum verður stillt upp á borðið, verður að taka afstöðu til fjölmargra álitamála.

 

Andlegur leiðtogi eða framkvæmdastjóri?

Nú eins og löngum er embætti biskups æði víðfeðmt og hefur í sér fólgna bæði andlega og veraldlega vídd þó vissulega hangi þær saman. Oft hefur verið á það bent að létta þurfi ýmsum „framkvæmdastjórahlutverkum“ af biskupi og  fela þau öðrum. Nú síðast hefur Ríkisendurskoðun spunnið þennan þráð og bent á að biskupi séu falin of umfangsmikil stjórnunarstörf m.a. þar sem hann sé forseti kirkjuráðs.

Það kjör sem nú stendur fyrir dyrum fer vissulega fram samkvæmt gildandi þjóðkirkjulögum. Því þurfa kjörmenn og raunar kirkjan í heild að marka sér stefnu um hvort kjósa skuli framkvæmdastjóra eða andlegan leiðtoga. Ólíklegt er að einstaklingur finnist sem er jafnvígur í báðum hlutverkunum ekki síst vegna þeirra fjölmörgu verkefna sem áður voru unnin í ráðuneyti kirkjumála en hvíla nú á herðum biskups og starfsfólks í hinum veraldlega geira Biskupsstofu.

Þegar val stendur á milli andlegs leiðtoga og framkvæmdastjóra vakna spurningar á borð við: Hvort viljum við að sé aðalstarf eða forgangsverkefni biskups? Hvort teljum við æskilegra að hann leiti sér „staðgengils“ á hinu andlega eða veraldlega sviði? Á hvoru sviðinu viljum við að styrkleikar biskupsins sjálfs liggi? Val á einstaklingi í embættið veltur á svörum við slíkum spurningum.

 

Prestur prestanna eða eitthvað meira?

Oft heyrist sagt að biskup sé „prestur prestanna“ sem hljómar líkt og bergmál af einum af mörgum titlum páfa: Servus Servorum Dei. Þetta er auðvitað satt og rétt. Biskup á m.a. að vera prestur og sálusorgari prestanna — og nú auðvitað djáknanna líka.

Með þessu er þó alls ekki sagt að biskup eigi aðeins að gegna þessu innhverfa hlutverki í kirkjunni. Hann er biskup allrar kirkjunnar eins og embættistitill hans ber með sér, þ.e. biskup Íslands.

Auk allra þeirra hlutverka sem biskup gegnir í innra lífi kirkjunnar er hann jafnframt fulltrúi hennar út á við. Hann er því sá sem öðrum fremur túlkar afstöðu kirkjunnar í ýmsum málum í samtali hennar við samfélagið. Það er þess vegna sem þjóðin hlustar á og ræðir um orð biskups t.d. á helgum og hátíðum. Með þessu er ekki sagt að kirkja okkar eigi að vera einhver biskupakirkja. Rödd biskups lætur samt hærra í eyrum fólks en annarra þjóna kirkjunnar.

Áður en gengið er til atkvæða þarf því að ákveða hvort sé mikilvægara að velja „prest prestanna“ eða biskup þjóðarinnar. Í framhaldi af því mætti velta upp spurningunni: Hvort hlutverkið er eðlilegra að vígslubiskuparnir taki yfir í vaxandi mæli? Ætli það hljóti ekki að vera prestshlutverkið meðal hinna vígðu?

 

Jafnréttisvinkillinn

Eins og nú er í pottinn búið yrði það fullkomlega óásættanlegt fyrir kirkjuna verði kona ekki kjörinn til biskups í þeirri miklu kosningalotu sem nú er hafin. Helst þurfa þær að verða tvær og mikilvægara er að kona verði kjörin biskup en vígslubiskup.

Jafnrétti er mannréttindamál og þar á þjóðkirkjan að fara fyrir öðrum. Það verður tæplega um hana sagt nú. Þá er þess að gæta að frá 1998 hefur þjóðkirkjan búið að jafnréttisstefnu þar sem eitt af markmiðunum er „að stuðla að jafnri stöðu kvenna og karla í stjórnunar- og áhrifastöðum“. Þetta má ekki gleymast á biskupaárinu mikla.

 

Hvers eðlis er kosningarétturinn?

Sá sem þetta ritar hefur þráfaldlega bent á að kosnigaréttur í biskupskosningum er annars eðlis en þegar um alþingis- eða sveitarstjórnarkosningar er að ræða. Í síðari tilvikunum hafa allir landsmenn yfir ákveðnum aldri kosningarrétt. Í biskupskjöri kýs enginn nema sá sem valinn hefur verið til ákveðinnar launaðrar eða ólaunaðrar trúnaðarstöðu í kirkjunni. Fáeinir kjörmenn kjósa því fyrir hönd alls þorra þjóðkirkjufólks.

Af þessum sökum er full ástæða til að velta fyrir sér hvernig fara beri með atkvæðisrétt sinn. Er kjörmaðurinn aðeins bundinn af samvisku sinni — eða smekk — eins og í venjulegum lýðræðislegum kosningum? Eða ber honum eða henni að leggja heildarstefnu kirkjunnar til grundvallar við val sitt?  Og hvaða afleiðingar hefur það þá t.d. þegar um jafnréttisstefnuna er að ræða?

Disney í Skálholti?

Hjalti Hugason, 20. November 2011 22:38

 

Skálholt í Biskupstungum hefur verið mikilvæg miðstöð kristninnar í landinu allt frá 1056 ef frá er talið 150 ára tímabil sem hófust um aldamótin 1800. Þrátt fyrir þetta hefur einstaka sinnum verið tekist á um Skálholt. Sú var t.d. raunin um miðja 16. öld er kaþólskum og lútherskum laust þar saman. Nú er tekist þar á um svokallaða Þorláksbúð, tilgátuhús sem er í byggingu norðan undir vegg dómkirkjunar. Mörgum er heitt í hamsi og í kirkjunni virðist búðin hafa hlotið táknræna merkingu: Fólk er krafð um afstöðu með eða á móti og ekki er grunlaust um að ályktanir séu dregnar um kirkjupólitíska stöðu hvers og eins út frá skoðunni á Þorláksbúð.

 

Viðskiptahugmynd til eflingar

Þegar deilan um búðina fornu stóð sem hæst kynntu fjárfestar nýja viðskiptahugmynd sem koma skyldi Skálholti á kortið á nýjan hátt. Hið tragí-kómíska í málinu er að hugmyndin felst einmitt í byggingu tilgátuhúss! Nú er þó ekki um litla búð að ræða heldur eftirlíkingu af miðaldadómkirkju sem bera mundi allar þær byggingar sem nú eru á staðnum ofurliði stærðar sinnar vegna.

Hér skal ekki rætt um arðsemisútreikninga né heldur gildi tilgátuhúsa svona almennt og yfirleitt. Um hvort tveggja má ugglaust deila. Hér skal aðeins staldrað við hugmyndina um tálbeitu fyrir túrista í Skálholti.

 

Hagsmunaárekstur

Í Skálholti er stundað margþætt kirkjulegt starf sem verður vonandi með vaxandi blóma í framtíðinni þótt nú virðist blása á móti. Þangað leita margir til að njóta kyrrðar og næðist á sögufrægum stað. Í Skálholt er líka stöðugur straumur ferðamanna bæði á eigin vegum og í skipulegum ferðum á vegum ferðaþjónustunnar. Rúturnar sem þangað koma dag hvern eru ótrúlega margar.

Stundum rekast hagsmunir þessara tveggja hópa á: Þátttakendur í kirkjustarfi, t.d. á kyrrðardögum, vilja vera í friði. Ferðamenn á hinn bóginn þarfnast meiri þjónustu. Sé viðskiptahugmyndin eins góð og af er látið er ljóst að þessi árekstur verður enn tilfinnanlegri í framtíðinni. Verði af byggingunni og lánist hún verulega vel vaknar spurningin: Mun kirkjumiðstöðin í Skálholti víkja fyrir ferðamannastaðnum? Óskar þess einhver í alvöru? Lánist byggingin hins vegar illa gæti kirkjumiðstöðin drukknað í einhvers konar íslenskri útgáfu af Disneylandi.

 

Nægja ekki Gullfoss og Geysir?

Nú má spyrja: Þarf raunverulega að auka vægi Skálholts á þann hátt sem hugmynd fjárfestanna gengur út á?

Staðurinn er staðsettur í „gullna hringnum“ sem hefur af allnokkru að státa: Þingvöllum, Gullfoss og Geysi auk Skálholts með sögu sína og núverndi reisn. Verður einhverju bætt við þessar náttúruperlur sem hefur eitthvert raunverulegt gildi umfram viðskipagildi?

Hugmynd um tilgátuhús, jafnvel „miðalda“-dómkirkju, þarf ekki að vera slæm en er þörf á slíku í Skálholti? Þjóðveldisbærinn var ekki reistur á Stöng svo dæmi sé tekið. Dregur það á einhvern hátt úr gildi hans? Hafi menn áhuga á að fjárfesta í tilgátukirkjum má benda á að klausturkirkjurnar íslensku voru líka merkilegar byggingar. Mætti ekki endurgera einhverja þeirra og koma þannig fleiri sögustöðum á kortið, stækka hringinn og beina ferðamönnum víðar?

 

Ábyrgð þjóðkirkjunnar

Skálholt er helgur sögustaður sem þjóðkirkjunni er trúað fyrir og henni falinn til að stunda þar lifandi starf í nútíð og framtíð. Þjóðkirkjan ber endanlega ábyrgð á öllum framkvæmdum í Skálholti. Staðurinn á ekki heimtingu á vernd neins nema hennar. Þegar fram koma stórhuga hugmyndir á borð við þá sem hér um ræðir er það þjóðkirkjunnar að standa fyrir raunsæinu, mótvæginu, gagnrýninni, varúðinni. — Ef íhaldssemi er einhvern tíman dyggð þá er hún það í málum sem þessu!