Disney í Skálholti?

Hjalti Hugason, 20. November 2011 22:38

 

Skálholt í Biskupstungum hefur verið mikilvæg miðstöð kristninnar í landinu allt frá 1056 ef frá er talið 150 ára tímabil sem hófust um aldamótin 1800. Þrátt fyrir þetta hefur einstaka sinnum verið tekist á um Skálholt. Sú var t.d. raunin um miðja 16. öld er kaþólskum og lútherskum laust þar saman. Nú er tekist þar á um svokallaða Þorláksbúð, tilgátuhús sem er í byggingu norðan undir vegg dómkirkjunar. Mörgum er heitt í hamsi og í kirkjunni virðist búðin hafa hlotið táknræna merkingu: Fólk er krafð um afstöðu með eða á móti og ekki er grunlaust um að ályktanir séu dregnar um kirkjupólitíska stöðu hvers og eins út frá skoðunni á Þorláksbúð.

 

Viðskiptahugmynd til eflingar

Þegar deilan um búðina fornu stóð sem hæst kynntu fjárfestar nýja viðskiptahugmynd sem koma skyldi Skálholti á kortið á nýjan hátt. Hið tragí-kómíska í málinu er að hugmyndin felst einmitt í byggingu tilgátuhúss! Nú er þó ekki um litla búð að ræða heldur eftirlíkingu af miðaldadómkirkju sem bera mundi allar þær byggingar sem nú eru á staðnum ofurliði stærðar sinnar vegna.

Hér skal ekki rætt um arðsemisútreikninga né heldur gildi tilgátuhúsa svona almennt og yfirleitt. Um hvort tveggja má ugglaust deila. Hér skal aðeins staldrað við hugmyndina um tálbeitu fyrir túrista í Skálholti.

 

Hagsmunaárekstur

Í Skálholti er stundað margþætt kirkjulegt starf sem verður vonandi með vaxandi blóma í framtíðinni þótt nú virðist blása á móti. Þangað leita margir til að njóta kyrrðar og næðist á sögufrægum stað. Í Skálholt er líka stöðugur straumur ferðamanna bæði á eigin vegum og í skipulegum ferðum á vegum ferðaþjónustunnar. Rúturnar sem þangað koma dag hvern eru ótrúlega margar.

Stundum rekast hagsmunir þessara tveggja hópa á: Þátttakendur í kirkjustarfi, t.d. á kyrrðardögum, vilja vera í friði. Ferðamenn á hinn bóginn þarfnast meiri þjónustu. Sé viðskiptahugmyndin eins góð og af er látið er ljóst að þessi árekstur verður enn tilfinnanlegri í framtíðinni. Verði af byggingunni og lánist hún verulega vel vaknar spurningin: Mun kirkjumiðstöðin í Skálholti víkja fyrir ferðamannastaðnum? Óskar þess einhver í alvöru? Lánist byggingin hins vegar illa gæti kirkjumiðstöðin drukknað í einhvers konar íslenskri útgáfu af Disneylandi.

 

Nægja ekki Gullfoss og Geysir?

Nú má spyrja: Þarf raunverulega að auka vægi Skálholts á þann hátt sem hugmynd fjárfestanna gengur út á?

Staðurinn er staðsettur í „gullna hringnum“ sem hefur af allnokkru að státa: Þingvöllum, Gullfoss og Geysi auk Skálholts með sögu sína og núverndi reisn. Verður einhverju bætt við þessar náttúruperlur sem hefur eitthvert raunverulegt gildi umfram viðskipagildi?

Hugmynd um tilgátuhús, jafnvel „miðalda“-dómkirkju, þarf ekki að vera slæm en er þörf á slíku í Skálholti? Þjóðveldisbærinn var ekki reistur á Stöng svo dæmi sé tekið. Dregur það á einhvern hátt úr gildi hans? Hafi menn áhuga á að fjárfesta í tilgátukirkjum má benda á að klausturkirkjurnar íslensku voru líka merkilegar byggingar. Mætti ekki endurgera einhverja þeirra og koma þannig fleiri sögustöðum á kortið, stækka hringinn og beina ferðamönnum víðar?

 

Ábyrgð þjóðkirkjunnar

Skálholt er helgur sögustaður sem þjóðkirkjunni er trúað fyrir og henni falinn til að stunda þar lifandi starf í nútíð og framtíð. Þjóðkirkjan ber endanlega ábyrgð á öllum framkvæmdum í Skálholti. Staðurinn á ekki heimtingu á vernd neins nema hennar. Þegar fram koma stórhuga hugmyndir á borð við þá sem hér um ræðir er það þjóðkirkjunnar að standa fyrir raunsæinu, mótvæginu, gagnrýninni, varúðinni. — Ef íhaldssemi er einhvern tíman dyggð þá er hún það í málum sem þessu!