Hvað verður um kirsuberjagarðana?

Hjalti Hugason, 25. November 2011 11:19

 

Sýning Borgarleikhússins á Kirsuberjagarði Antons Tsjekhovs er mikið sjónarspil. Leikur, búningar og sviðsmynd heilla og hrífa. Þrír tónlistarmenn brjóta upp flæði, ramma inn senur og taka á stundum þátt í leiknum. Töfrar og ærls vega salt við trega og óhamingju.

Sögupersónurnar skiptast í tvær fylkingar: firrt hástéttarfólk sem má muna sinn fífil fegurri og annað af lægri stigum sem slitnað hefur úr tengslum við uppruna sinn og rætur, er orðið ófært um að lifa lífinu öðru vísi en í svikulu skjóli hástéttarinnar.

 

Margslungið verk

Kirsuberjagarðurinn er leikverk með margar víddir. Að hluta er þetta gamanleikur. Að hluta fjallar verkið um upplausn og hnignun.

Einnig  má setja leikinn í sögulegt samhengi sitt í Rússlandi 19. aldarinnar skömmu eftir afnám bændaánauðar. Það fóta sig ekki allir í breyttu umhverfi. Þeir sem áður lifðu á striti leiguliða og hjúa rísa ekki undir kröfum nýs tíma. Aðrir hafna því frelsi sem í boði er. Flestir vilja innst inni óbreytt ástand.

 

Hvað er kirsuberjagarðurinn?

Eftir hlé sótti magnaður óhugnaður að. Hvað er eiginlega kirsuberjagarðurinn og hvað verður um hann?

Auðvitað er svarið ekki einfalt. Kirsuberjagarðurinn er árangur af blóði, svita og tárum þeirra sem nutu hans ekki. Þannig séð getur hann hugsanlega verið tákn ranglætis. Í verkinu er hann þó fyrst og fremst tákn fegurðar, alls þess í umhverfi okkar sem hefur eitthvert raunverulegt gildi, tengir okkur við sögu okkar og sjálfsmynd.

 

Hvers vegna gerðu þau ekkert?

Grundvallarspurning verksins er: Hvers vegna loka eigendur kirsuberjagarðsins augunum? Hvers vegna hreyfa þau ekki legg né lið og láta garðinn ganga sér úr greipum? Er það ef til vill örvæntingarfull tilraun til að bjarga honum? — Eina lausnin sem í boði var fólst í stórbrotinni viðskiptahugmynd sem leiða mundi  til eyðileggingar garðsins.

 

Hvað eru okkar krisuberjagarðar?

Við eigum svo sannarlega okkar kirsuberjagarða bæði ein og sér og öll saman. Okkar sameiginlegu garðar eru náttúruperlur og sögustaðir þar sem við skynjum okkur í sátt og samhengi við landið eða uppruna okkar, sækjum í orku og hugarró.

Fleiri og fleiri af þessum stöðum hafa orðið viðskiptahugmyndum að bráð í seinni tíð. Eigum við að horfa eftir fleirum í þá hít?

Það var bókstaflega sárt að heyra hvert tréð af öðru fellt í hörðum takti meðan tjaldið féll í lok sýningar.

Leikverk sem talar inn í síbreytilegar aðstæður og vekur ágengar spurningar í huga þess sem á horfir er svo sannarlega klassískt. Takk fyrir, Borgarleikhús!