Von um sumarland — eða hvað það nú er

Hjalti Hugason, 5. December 2011 20:50

 

Aðventa Gunnars Gunnarssonar er áhugaverð blanda skáldskapar og veruleika. Þórður Jónsson (1882–1968) í Brekkukoti fitjaði upp á efninu 1931 með frásöguþætti í Eimreiðinni þar sem hann rakti hrakningasögu sögupersónunnar á aðventu 1925. Gunnar prjónaði síðan við uns sagan var fullbúin á þýsku 1936, á dönsku 1937, í íslenskir þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar 1939 og höfundarins sjálfs 1976.

Það er áhugaverð spurning hvað sé sameiginlegt með Benedikt Sigurjónssyni (1872–1946) frá Grímsstöðum í Mývatnssveit, þekktum sem Fjalla-Bensa, og nafna hans í Aðventu. Fjalla-Bensi var knúinn af dýraverndarhugsjón og öræfafíkn af líku tagi og mörg okkar þekkja sem heyrum „óbyggðirnar kalla“. Benedikt í Aðventu hafði á hinn bóginn hafði ferðir sínar um „Strembu“ (svæðið vestan Jökulsár á Fjöllum) í sálarangist, leit að fró og innri friði, sátt vegna brostinna vona. Ferðir hans eru örðum þræði glíma við vonbrigði og harm.

Í sögunni hefur alvitur sögumaður orðið og lýsir Benedikt úr kaldri fjarlægð. Sögumanni finnst í einu og öllu „eitthvað hálfgildings og lítilmótlegt“ við Benedikt, hann sé „að hálfu maður, að hálfu skepna“. Benedikt er þó íhugull maður sem hugleiðir  bæði stöðu sína og hlutverk í heiminum.

Siðfræði sögunnar endurspeglar klassíst, íslenskt gildismat. Enginn skyldi liggja á liði sínu heldur leggja sig allan fram. Æðruleysi er æðst dyggða ásamt hógværð, hófsemi aðgætni og virðingu fyrir höfuðskepnunum en lengst af sögunnar tekst Benedikt á við stórviðri líkt og strákurinn í Harmi englanna eftir Jón Kalman. Þá eiga menn að bera harm sinn í hljóði. — “Enginn skyldi áhyggjum við annan deila. Hver og einn á nóg með eigin armæðu“.

Gildismat Benedikts víkur þó í grundvallaratriðum frá viðteknum hugsunarhætti hins forsjála bónda þannig að hvorugur skilur hinn. Benedikt leggur „jafnvel líftóruna í sölurnar til þess eins að bjarga fáeinum flökkurollum, sinni úr hverri áttinni! Sjálfur á Benedikt aðeins fáar kindur og vantar enga“. Þarna leynist biblíuminni. Benedikt er góður hirðir á ferli um Mývatnsöræfin.

Benedikt hugleiðir líka inntak og boðskap aðventunnar og í huga hans tengir hún saman himinn og jörð, helgi og hversdag. Í einveru og kyrrð hvarflar hugur hans út fyrir tíma og rúm og um leið skynjar mann merkingu og tilgang í ófullkomnu lífi sínu á jörðinni:

Aðventa! ... Benedikt tók sér orðið í munn af stakri varfærni, þetta mikla hljóðláta orð, furðulega annarlegt og þó um leið innfjálgt, sennilega það orð sem snart hann dýpra en öll önnur. Hverju það bjó yfir var honum að vísu alls ekki ljóst, nema að það fól í sér að einhvers væri vant en eftirvænting á næsta leiti, undirbúningur einhvers betra — það fór ekki milli mála. Eftir því sem árin færðust yfir hann var sem allt hans líf væri orðin ein aðventa. Því hvað var líf hans, rétt á litið, hvað var líf mannsins á jörðinni ef ekki ófullkomin þjónusta sem helgaðist af bið eftir einhverju betra, eftirvænting, undirbúningi — þeirri ákvörðun að láta gott af sér leiða.

(Gunnar Gunnarsson, 1996: Aðventa. Reykjavík, Mál og menning. Bls. 12.)

 

Aðventan kallaði líka fram sælustu minningar og heitustu drauma Benedikts eða hvaða draumur er heitari en „von um sumarland“:

Og þarna í næturkyrrðinni og einverunni undir skörðum mána hvarflaði aftur að honum aðkenning af aðventu, leifar af hljómum, endurminningar um sólskin og heyilm, von um sumarland — eða hvað það nú var. Ef til vill aðeins einskonar innri kyrrð og friður.

(Gunnar Gunnarsson, 1996. Bls. 58.)

 

Sum okkar muna heyilm bernskunnar hvort sem er úr flekk eða hlöðu . Öll dreymir okkur þó líklega sólskin og sumarland í svartasta skammdeginu. Á þann hátt tjáir Gunnar Gunnarsson sammannlega kennd í sögu sinni. Öðrum þræði boðar Aðventa því von — eins og aðventan í kirkjuárinu.

Er eitthvað við biskupsembættið sem kallar fremur á karl en konu?

Hjalti Hugason, 5. December 2011 20:48

Hjalti Hugason og Sigrún Óskarsdóttir

Er eitthvað við biskupsembættið sem kallar fremur á  karl en konu?

Eftir kosningasumar á íslenska þjóðkirkjan nú kosningavetur framundan. Enginn veit enn hvort hann verður harður eða mildur fremur en hvort komandi jól verða rauð eða hvít. Kosningabaráttan má ekki fara af stað áður en rætt hefur verið um grundvallaratriði. Við þurfum að nota tímann vel því líklega er kosningaundirbúningur þegar hafinn bak við tjöldin og reikna má með að opinberlega hefjist hann af krafti fljótlega eftir hátíðir.
Kviksaga

Nokkrar konur sitja á tali um komandi kosningar. Ein þeirra dregur fram símaskrá presta og saman leita þær að frambærilegum kvenkandídat. Þess skal getið að þar eru ríflega 60 embættisgengar konur að finna. Eftir að hafa blaðað fram og aftur í skránni komast þær að niðurstöðu: Þarna er engin kona sem kemur til greina sem biskupskadídat!

Hvað segir þessi saga okkur?

 

Segir hún eitthvað um konurnar?

Hugsanlega segir hún eitthvað um þær sem felldu dóminn. Einhver gæti freistast til að segja að þetta sanni að konur séu konum verstar. Það er þreytt klisja og gjarnan notuð gegn konum.  Vissulega er til að konur dæma kynsystur sínar hart og gera til þeirra óraunhæfar kröfur.  En á það eitthvað sérstaklega við um konur? Konur eru konum bestar og konur eru konum verstar. Sama getum við sagt um karla — að þeir séu körlum ýmist verstir eða bestir.

Það eru ekki allar konur framsæknar í jafnréttismálum og fráleitt allar femínistar. Sumar sjá einfaldlega heiminn sömu augum og karlar, telja öruggast að halda í gömlu góðu dagana þegar staður konunnar var „á bakvið eldavélina“, eins og Guðni sagði um árið! Það eru heldur ekki allir karlar framsæknir í jafnréttismálum og fráleitt allir femínistar.

 

Segir sagan eitthvað um prestsvígðar konur?

Spyrja má hvort sagan segi eitthvað um þær konur sem hafa embættisgengi í biskupskjöri?

Það er hæpið. Hópur prestsvígðra kvenna virðist í fáu skera sig frá körlunum. Í honum eru konur með langa og glæsta reynslu af prestskap. Margar eru með mikla reynslu af sálgæslu aðrar með sérhæfingu á öðrum sviðum. Í hópi prestsvígðra kvenna er að finna konur sem tekið hafa þátt í alþjóðlegu og samkirkjulegu starfi, sem og hálærða guðfrærðinga. — Ekki verður séð að prestsvígðu konurnar standi körlum í prestastétt neitt að baki nema síður sé.

Hér verður þó að víkja að einu atriði sem oft er talið mæla gegn því að kona verði næsti biskup nefnilega að þær séu flestar fullungar til að takast embættið á hendur. Við ættum því að bíða einn umgang með að taka það skref að kjósa konu.

Hér verður þó að fara varlega. Við skulum staldra við og líta til þeirra karla sem hafa gegnt hér biskupsþjónustu. Þeir hafa gjarnan verið á líkum aldri og þær konur sem um hefur verið sagt að ungur aldur sé þeim fjörur um fót. Þá verða kjörmenn í biskupskjöri að hafa það hugfast að að verði kona ekki kjörin biskup 2012 gæti það dregist til 2022, 2027 eða jafnvel 2032. Þá verður þjóðirkjan fyrir löngu búin að fá þá einkunn að hún sé stofnun sem ekki vinni að raunverulegu jafnrétti í eigin röðum heldur láti hún það yfir sig ganga. — Dapurleg niðurstaða það!

 

Segir sagan eitthvað um biskupsembættið?

Er hugsanlega eitthvað við biskupsembættið sjálft sem veldur því að eðlilegt sé að velja fremur til þess karl en konu?

Þeirri spurningu svaraði íslenska þjóðkirkjan fyrir sína parta fyrir hart nær fjórum áratugum er fyrsta konan var vígð til prests. Þá höfðu konur haft embættisgengi allt frá miðjum öðrum áratugi aldarinnar. Víða í nálægum kirkjum kostaði prestsvígsla kvenna þrálátar deilur og klofning hefur sem jafnvel enn ekki gróið að fullu. Við sluppum við slík átök. Aðrar kirkjur og jafnvel heilu kirkjudeildirnar heimila ekki prestsvígslu kvenna enn í dag.

Standi prestsembættið konum opið gegnir sama máli um biskupsembættið. Að lútherskum skilningi eru engar gildar ástæður til að gera greinarmun á þessum tveimur embættum að þessu leyti.

 

Segir sagan eitthvað um biskupsímyndina?

Hér gæti vandinn legið hjá mörgum þegar kemur að því að hugsa sér karl eða konu í biskupsembættið.

Biskupsembættið er umlukið heilum táknheimi sem er karllægur. Biskup Íslands hefur hingað til verið föðurlegt (patríarkískt) embætti eða hlutverk. Ef við setjum okkur biskup fyrir hugskotssjónir og setjum á biskupinn ásjónu, þá sjáum við fyrir okkur karl — hugsanlega gamlan karl.

Hér verðum við að vera á varðbergi, hugsa á gagnrýninn hátt. Við þurfum að gaumgæfa hefðirnar og skipta þeim út fyrir nýja hugsun vegna þess að nú lifum við nýja tíma. Við verðum að greina hvað tengir biskupsímyndir okkar karlkyninu, vega og meta gildi þessara atriða og gera okkur grein fyrir að flest lúta þau að ytir hefðum, venjum og vanahugsun. Þessi atriði hafa ekkert raunverulegt gildi þegar til kastanna kemur.

Nú stendur íslenska þjóðkirkjan í líkum sporum og þjóðin fyrir rúmum þremur áratugum eða þegar frú Vigdís var kjörin til forseta. Þá afbyggði þjóðin forsetaembættið og skóp því nýja ímynd. Er ekki komið að biskupsembættinu nú? Er raunverulega svo mikið sem skilur á milli kirkju og þjóðar? Erum við í kirkjunni enn vanbúin að rjúfa glerþakið?

Íslenska þjóðin vakti heimsathygli er hún fyrst allra valdi sér konu að þjóðhöfðingja í lýðræðislegum kosningum. Íslensku þjóðkirkjan á engan kost á viðlíka athygli. Vagninn er farinn hjá. Sambærilegar kirkjur hafa þegar eignast biskupsvígaðar konur, jafnvel konur sem höfuðbiskupa. — Nú er bara spurning hve humátt okkar verður langdregin.

 

Hvað er til ráða?

Íslenska kirkjan lifir nú vitjunartíma. Áður en (hana-)slagurinn byrjar verðum við að hafa ráðrúm og getu til að ræða nokkrar grundvallarspurningar sem lúta að biskupsembættinu og kjöri til þess. — Þar á meðal er spurningin um jafnréttið. Hefur íslenska þjóðkirkjan burði til að taka „prinsípsumræðu“ eða erum við dæms til að ræða um persónur?

Heftum ráðherraræði!

Hjalti Hugason, 5. December 2011 20:45

Heftum ráðherraræði!

Þessa dagana horfum við upp á eitt versta vandamál íslenskrar stjórnskipunar, ráðherraræðið, taka á sig sína verstu mynd. Ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald heldur hópur sjálfstæðra „fag“-ráðherra.

Starfshættir af þessu tagi ganga hugsanlega þar sem samstæðar stjórnir með traustan þingmeirihluta deila og drottna. Í landi samsteypustjórna sem sitja í skjóli örfárra þingmanna býður formið hættunni heim. — Var þetta ekki einn af þeim ágöllum í stjórnarfarinu sem kom okkur á kaldan klakann í Hruninu? Þá fóru „lykil“-ráðherrar sínu fram og leyndu samráðherra sína upplýsingum.

Í einrúmi marka „fag“-ráðherrarnir enn stefnu, kokka upp frumvörp eða fella úrskurði án þess að tryggja sér bakland hjá samstarfsmönnum sínum í ríkisstjórn eða á Alþingi, jafnvel ekki í þingflokki eigin flokks. Er líðandi að ríkisstjórn landsins myndi svo ósamstæða hjörð?

Frumvarp Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá boðar ekki nægilegar breytingar í þessu efni. Þar segir í 86. gr.:

 

Ráðherrar eru æðstu handhafar framkvæmdarvalds hver á sínu sviði. Þeir bera hver fyrir  sig ábyrgð á málefnum ráðuneyta og stjórnsýslu sem undir þá heyrir.

 

Þetta er nauðsynlegt til að mögulegt sé að tryggja hver beri ráðherraábyrgð í hverju máli, þótt hún hafi reynst létt í vasa og torvelt sé að framfylgja henni hér á landi. 87. gr. myndar tæpast nægilegt mótvægi í þessu efni:

 

Ríkisstjórn tekur ákvarðanir sameiginlega um mikilvæg eða stefnumarkandi málefni samkvæmt nánari ákvæðum í lögum. Meirihluti ráðherra þarf að vera á fundi þegar slíkar ákvarðanir eru teknar.

 

Ákvæði um mál sem heyri undir ríkisstjórn sameiginlega mega ekki vera of teygjanleg. Þá ætti upplýsingaskylda einstakra „fag“-ráðherra við samráðherra sína og að vera hrein og klár.

 

Hér skal í sjálfu sér ekki tekin afstaða til þeirra mála sem nú reyna á þanþol stjórnarsamstarfsins. Þar er enda ólíku saman að jafna. Það er þó óneitanlega saga til næsta bæjar ef sá friðsæli og fagri staður Grímsstaðir á Fjöllum sprengir ríkisstjórn landsins. Þess ber þó að gæta að Grímsstaðir eru það byggða ból sem liggur næst þeim stað þar sem hjarta landsins slær.

Það mál er þó gleymt vegna þess trúnaðarbrests sem sjávarútvegsráðherra hefur bakað sér í einu mikilvægasta stefnumáli ríkisstjórnarinnar.

Við sem bindum vonari við endurreisn og uppbyggingu norræns velferðarsamfélags í landinu gerum kröfu til að einleikur „fag“-ráðherra verði ekki látinn stofna pólitísku janfvægi í hættu. — Við krefjumst markvissari og opnar vinnubragaða — a.m.k. eðlilegs samráðs á stjórnarheimilinu!