Heftum ráðherraræði!

Hjalti Hugason, 5. December 2011 20:45

Heftum ráðherraræði!

Þessa dagana horfum við upp á eitt versta vandamál íslenskrar stjórnskipunar, ráðherraræðið, taka á sig sína verstu mynd. Ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald heldur hópur sjálfstæðra „fag“-ráðherra.

Starfshættir af þessu tagi ganga hugsanlega þar sem samstæðar stjórnir með traustan þingmeirihluta deila og drottna. Í landi samsteypustjórna sem sitja í skjóli örfárra þingmanna býður formið hættunni heim. — Var þetta ekki einn af þeim ágöllum í stjórnarfarinu sem kom okkur á kaldan klakann í Hruninu? Þá fóru „lykil“-ráðherrar sínu fram og leyndu samráðherra sína upplýsingum.

Í einrúmi marka „fag“-ráðherrarnir enn stefnu, kokka upp frumvörp eða fella úrskurði án þess að tryggja sér bakland hjá samstarfsmönnum sínum í ríkisstjórn eða á Alþingi, jafnvel ekki í þingflokki eigin flokks. Er líðandi að ríkisstjórn landsins myndi svo ósamstæða hjörð?

Frumvarp Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá boðar ekki nægilegar breytingar í þessu efni. Þar segir í 86. gr.:

 

Ráðherrar eru æðstu handhafar framkvæmdarvalds hver á sínu sviði. Þeir bera hver fyrir  sig ábyrgð á málefnum ráðuneyta og stjórnsýslu sem undir þá heyrir.

 

Þetta er nauðsynlegt til að mögulegt sé að tryggja hver beri ráðherraábyrgð í hverju máli, þótt hún hafi reynst létt í vasa og torvelt sé að framfylgja henni hér á landi. 87. gr. myndar tæpast nægilegt mótvægi í þessu efni:

 

Ríkisstjórn tekur ákvarðanir sameiginlega um mikilvæg eða stefnumarkandi málefni samkvæmt nánari ákvæðum í lögum. Meirihluti ráðherra þarf að vera á fundi þegar slíkar ákvarðanir eru teknar.

 

Ákvæði um mál sem heyri undir ríkisstjórn sameiginlega mega ekki vera of teygjanleg. Þá ætti upplýsingaskylda einstakra „fag“-ráðherra við samráðherra sína og að vera hrein og klár.

 

Hér skal í sjálfu sér ekki tekin afstaða til þeirra mála sem nú reyna á þanþol stjórnarsamstarfsins. Þar er enda ólíku saman að jafna. Það er þó óneitanlega saga til næsta bæjar ef sá friðsæli og fagri staður Grímsstaðir á Fjöllum sprengir ríkisstjórn landsins. Þess ber þó að gæta að Grímsstaðir eru það byggða ból sem liggur næst þeim stað þar sem hjarta landsins slær.

Það mál er þó gleymt vegna þess trúnaðarbrests sem sjávarútvegsráðherra hefur bakað sér í einu mikilvægasta stefnumáli ríkisstjórnarinnar.

Við sem bindum vonari við endurreisn og uppbyggingu norræns velferðarsamfélags í landinu gerum kröfu til að einleikur „fag“-ráðherra verði ekki látinn stofna pólitísku janfvægi í hættu. — Við krefjumst markvissari og opnar vinnubragaða — a.m.k. eðlilegs samráðs á stjórnarheimilinu!