Sinnaskipti í landsdómsmáli

Hjalti Hugason, 23. January 2012 21:23

 

Hugleiðing út frá greinum Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra

 

Sinnaskipti fela í sér róttækt uppgjör og endurmat. Þau leiða til þess að einstaklingur tekur nýja stefnu, leitast við að leiðrétta fyrri mistök og varast ný. Sinnaskiptum manns ber ætíð að sýna virðingu og ræða af varúð.

Þegar stjórnmálamaður stígur fram og vitnar um sinnaskipti sín á opinberum vettvangi og sinnaskiptin lúta að störfum hans sem stjórnmálamanns er þó eðlilegt að vitnisburður hans sé ræddur jafnvel á gagnrýnum nótum.  Þetta á einnig við um þau sinnaskipti sem Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra kveðst hafa tekið varðandi málshöfðun á hendur Geirs H. Haarde fyrir landsdómi. (Fréttablaðið 16. jan. 2012)

 

Sinnaskipti eru alltaf einstaklingsbundin

Í eðli sínu eru sinnaskipti einstaklingsbundin. Það er einstaklingur sem tekur sinnaskiptum. Vissulega geta upp komnar aðstæður orkað svo á hópa fólks, jafnvel heil samfélög að sinnaskipti verði að fjöldahreyfingu. Þannig hefði ekki verið óeðlilegt að við Íslendingar sem þjóð hefðum tekið sinnaskiptum við Hrunið 2008. Það gerðum við ekki. Af þeim sökum er hætt við að uppgjör okkar við það verði yfirborðslegt — að  ekkert róttækt endurmat eigi sér stað og stefna okkar verði áfram óbreytt. Það getur t.d. leitt til þess að Hrun-flokkarnir taki við stjórnartaumunum eftir næstu kosningar.

Í Fréttablaðs-grein sinni 16. jan. talar ráðherra á þessum persónulegu nótum.  Daginn eftir kveður við nokkuð annan tón í grein hans í Mbl.  Hún ber yfirskriftina: „Við gerðum rangt“.

Sá sem tekur sinnaskiptum horfir fyrst og fremst til eigin verka. Endurmat hans hversu einlægt sem það kann að vera gefur honum ekki rétt til að dæma gerðir annarra, hvað þá að kveða upp algilda dóma um rétt og rangt þegar eigin verkum sleppir.  Á því örlar í þessari síðari grein þótt vissulega hlífist ráðherra ekki við að horfa fyrst og fremst í eigin barm.

 

Sinnaskipti verðskulda virðingu

Það er ætíð aðdáunarvert þegar maður nemur staðar, metur athafnir sínar og leiðréttir það sem hann telur að úrskeiðis hafi farið. Það er sjaldgæft að stjórnmálamenn okkar sýni þá djörfung sem til þess þarf. Í íslenskum stjórnmálum virðist það eitt að skipta um skoðun vera flestum um megn jafnvel þegar um lítilsverð mál er að ræða. — Hvað þá að taka pólitíska áhættu í jafn umdeildu máli og málshöfðunin fyrir landsdómi raunverulega er.

Af þeim sökum ber fyrst og fremst að virða Ögmund Jónasson fyrir að endurmeta afstöðu sína í þessu umdeilda máli. Þar með er ekki sagt að hann hljóti að hafa á réttu að standa.

 

Vond staða

Ég hygg að við séum mörg mjög ósátt við þá niðurstöðu sem þingheimur komst að með atkvæðagreiðslu sinni um tillögu þingmannanefndarinnar sem fékk það hlutverk að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og leiddi til þess að mál var höfðað gegn fyrrum forsætisráðherra einum. Hins vegar má svo deila um hver „rétta“ niðurstaðan hefði verið.

Ég hefði ekki sætt mig við að ekkert mál hefði verið höfðað. Með því tel ég að stjórnmálastéttin í landinu hefði tekið málið í sínar eigin hendur — kveðið upp sýknudóm yfir sjálfri sér.

Á grundvelli meginniðurstaðna rannsóknarnefndar Alþingis og meirihluta þingmannanefndarinnar virðast málefnalegar ástæður hafa verið til að höfðað væri mál gegn fjórum ráðherrum fyrir vanrækslu og/eða bort í starfi í aðdraganda Hrunsins. Það hefði verið ásættanlegasta niðurstaðan að mínum dómi.  Þar með hefði stórt skrefi verið stigið í átt að lögformlegu uppgjöri á hinni pólitísku hlið málsins en það er nauðsynlegt til að byggja megi upp sátt og samstöðu í landinu.

Með tilliti til þess foringjaræðis sem tíðkast hefur í íslenskum stjórnmálum um langt skeið hefði verið mögulegt að sætta sig við málshöfðun gegn formönnum stjórnarflokkanna beggja.

Hvorug síðarnefndu leiðanna hefði falið í sér að yfirbragði málshöfðunarinnar hefði verið spillt með því að hún fengi á sig pólitíska mynd. Mér sem leikmanni virðist hin síðari þó veikari frá lagalegu sjónarmiði.

Niðurstaða Alþingis í málinu varð að mínu viti sú næst versta, þ.e. að fyrrum forsætisráðherra skyldi einum stefnt. Veik rök fyrir henni eru auðvitað þau að forsætisráðherra sé ábyrgur fyrir ráðuneyti sínu í merkingunni ríkisstjórn. Þar sem stjórn landsins starfar ekki sem fjölskipað stjórnvald virðist röksemdafærslan þó tæpast duga nema sem eftiráskýring þegar vond staða er upp komin.

Það er svo annað mál hvort réttara sé að fella málið niður eða halda því til streitu. Þar er svo sannarlega léttara um að ræða en í að komast.

 

Röksemdafærsla Ögmundar

Af lokaorðum innanríkisráðherra í Mbl.-grein sinni má ráða að hann telji nú brýnast að vinna að rannsókn og uppgjöri „glæpsamlegra ásetningsbrota“. Þar á hann væntanlega við brot banka- og bisness-manna bólutímabilsins. Undir þetta má taka svo langt sem það nær.

Við þetta mat er þó að athuga að þjóðin hlýtur að krefjast rannsóknar á hlut stjórnmálastéttarinnar, fjármálastéttarinnar og eftirlitstéttarinnar í Hruninu. Þar getur engin ein stétt vísað á aðra. Þótt brýnt sé að upplýsa um brot á fjármálasviðinu má það ekki draga athyglina frá hinum tveimur.

Þá telur ráðherra að málshöfðun fyrir landsdómi dugi skammt í pólitísku uppgjöri Hrunsins þar sem hún taki hvorki til aðgerða stjórnmálamanna við upptöku hins framseljanlega kvóta né einkavæðingu bankanna. Þetta er í sjálfu sér rétt.

Hér ber þó að hafa í huga að hið pólitíska uppgjör hefur a.m.k. þrjár víddir. Sú vídd sem Ögmundi Jónassyni er efst í huga er uppgjörið við þá frjálshyggju sem skapaði það pólitíska landslag sem hér ríkti árin fyrir Hrun. Slíkt uppgjör fer ekki fram fyrir landsdómi. Þangað verður engum stefnt fyrir pólitískar skoðanir. Uppgjörið milli frjálshyggju og „samhyggju“ verður að fara fram á hinum pólitíska vettvangi — á Alþingi og í næstu kosningum.

Þetta uppgjör má ekki koma í veg fyrir að látið verði reyna á ábyrgð þeirra ráðherra sem með beinustum hætti komu að hagstjórn þjóðarinnar misserin fyrir Hrun. Að því og engu öðru miðar málshöfðunin fyrir landsdómi. Sé lagaramminn um dóminn úreltur er við engan að sakast nema löggjafann. Hann hefur þá sofið á verðinum — líkt og á svo mörgum sviðum öðrum á undangengum árum. Slíkur þyrnirósarsvefn má hins vegar ekki valda því að ráðherraábyrgð verði merkingarlaust hugtak okkar á meðal. Þvert á móti verður að bíta í það súra epli að fara verði eftir slæmum lögum. Það stendur þá upp á innanríkisráðherra og starfssystkini hans á þingi að breyta lögunum áður en á þau reynir næst.

Þriðja vídd hins pólitíska uppgjörs er svo margháttuð siðbót í íslenskum stjórnmálum og störfum Alþingis sem vísað er til bæði í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndarinnar. Í því sambandi er mikilvægt að vega inn flókið samspil „einstaklingsathafna við félagslega, menningarlega og efnahagslega þætti“ og draga lærdóma af því. Þar má sannarlega taka undir lokaorð Ögmundar Jónassonar í Mbl.-grein hans.

 

Lokaorð

Á næsti vikum bíður Alþingis það mikilvæga hlutverk að taka efnislega afstöðu til tillögu Bjarna Benediktssonar um að fallið verði frá málshöfðun á hendur fyrirrennara hans á stóli formanns Sjálfstæðisflokksins. Það væri óskandi að þingmenn prófuðu öll fyrri afstöðu sína af sömu einurð og Ögmundur Jónasson hefur nú gert. Það er þó fráleitt að þau þurfi öll að komast að líkri niðurstöðu og hann.

Það sem þingmönnum ber að hafa í huga er að stjórnmálastéttin í landinu torveldi ekki eða þvælist fyrir rannsókn og uppgjöri á þeim þætti Hrunsins sem að henni snýr. Þar er bæði átt við ábyrgð einstakra einstaklinga í þungaviktarstöðu á vettvangi stjórnmálanna og samspil athafna þeirra við „félagslega, menningarlega og efnahagslega þætti“. Í því ljósi verður að taka afstöðu til fram kominnar tillögu.

Valeyrarvalsinn

Hjalti Hugason, 19. January 2012 17:55

 

Guðmundur Andri Thorsson hefur ort enn eitt tregaljóðið — sagnasveiginn Valeyrarvalsinn. Angurværðin sem við munum úr Segðu mömmu að mér líði vel (2008) og Náðarkrafti (2003) hefur jafnvel dýpkað.

Treginn býr bæði í stílnum, söguefninu og örlögum sögupersónanna. Ljúfsár tilfinning sem gælir við lesandann og seyðir inn í lognværa kyrrð er umlykur bókina út í gegn. Hún er líka full af tónlist, söng heimafólksins, tónlistinni í lífi þess, músíkinni í orðunum — ýmist ljúfri eða hrjúfri.

Þegar stuttri rammasögu sleppir er Valeyrarvalsinn synkrónísk saga með nokkrum endurlitum. Sagan gerist í einu nú-i í nú-inu. Innri tími sögunnar er þessi stutta stund sem það tekur Kötu kórstjóra að hjóla að heiman niður í félagsheimili þar sem tónleikar eru í uppsiglingu. Leið hennar liggur um sögur allra hinna. Ytri tíminn er síðdegið á Jónsmessunni í fyrra eða hitteðfyrra. Hér er Hrunið staðreynd þótt Valeyrarvalsinn sé ekki Hrun-bók. Endurlitin gefa nú-inu dýpt og merkingu.

Valeyrarvalsinn segir frá nánum samvistum fólks og góðu lífi. Stöðugt drífur fleiri að garði Fríðu og Andrésar í Brimnesi, fíflavínið glóir og nægir handa öllum. Á Valeyri ríkir líka sár einsemd og hún býr yfir mörgum blæbrigðum. „Lífið er fyrir utan“ hjá Jósu í bankanum: “Henni finnst stundum eins og hún heyri í því þegar það líður hjá. Það kemur eitthvert hljóð, einhver súgur sem naumast heyrist og þá veit hún að þetta var lífið að fara hjá.“  — „Hér kvaddi lífið sér dyra og nú er það farið“, orti annað skáld. Einsemdin hefur önnur blæbrigði hjá Svenna verkstjóra í frystihúsinu. Hann þjáist enn vegna misnotkunarinnar sem alþingismaðurinn beitti hann sumarið sem hann var 11 ára. Háskalegust er einsemd sr. Sæmundar „Búft“. Einhvers staðar í rófinu milli samsemdar og einsemdar lifir svo og hrærist loftbólu- og Hrun-fólkið, Jói í Valeyrarvinnslunni og Óli Glans sem setti bankann á hausinn og konur þeirra. Samsemdin og einsemdin haldast svo í hendur hjá tónskáldunum sem fundu „staðinn sem er ekki til — staðinn þar sem tíminn er ekki til“ og leyndist á Amtmannsstígnum í R 101.

Við kynnumst Valeyri á sólbjörtu síðdegi. Þar virðist allt slétt og fellt þegar norsku katalóghúsin spegla sig í sléttum sjávarfleti. Eftir því sem sögunni vindur fram opnast þó óhugnanlegar gáttir. Mannrán og mansal í Austur–Evrópu fléttast inn í söguna. Heima í prestsetrinu gengur Sæmundur trekk í trekk „á Látrabjarg lífs síns til að horfa ofan í hyldýpið“. Þegar hann hefur öll tromp á hendi áttar hann sig á „að hans bíða ómældar þrautir hvernig sem fer, löng leið um grýttan veg“. En hvert? Burt úr fíkninni? Hann er andstæða sr. Katrínar í Náðarkrafti. Hún myndar samhljóm í umhverfi sínu. Sæmundur rýfur hann. Ásta, vinkona Fríðu, skynjar gáttir fortíðar og ógæfu ljúkast upp um nótt í Brimnesi. Lalla lunda opnast líka viðsjárverðar víddir er hann bókstaflega ráfar inn í Alsheimer-heiminn. Í bókarlok reikar svikið skáld í fótspor engils út í þoku sem grúfir yfir Vífilstöðum um daga hins Hvíta dauða.  Vonleysi, þunglyndi, alkahólismi, fíkn og dauði er hvergi langt undan. Undir fögru yfirborði Valeyrar og sagnasveigs Guðmundar Andra um hana býr mikil ógn.

Ljúfsár sagan víbrar líka af spennu. Af hverju eru augu Kalla brostin? Mun hann stíga út úr kórnum, hefja upp raustina og syngja Nótt eftir Árna Thorsteinsson? Af hvergu frýs Óli Glans í miðri sögu? Hvers vegna horfist sr. Sæmundur í augu við sannleikann? Verða einhverjir tónleikar eða rofnar allur samhljómur á Valeyri þetta síðdegi? Er heimsendir í nánd? Er Valeyri staður skapaður af Guði — Locus iste, a Deo factus est — eða er hún þvert á móti gleymd af Guði?

Valeyrarvalsinn er eins og „askja“ Pandóru. Litirnir dökkna eftir því sem innar dregur. Þokunni fylgir kaldur súgur.

Gildameðvitund — og meðvitundarleysi

Hjalti Hugason, 10. January 2012 14:56

 

Ég tel að Íslendingar séu flestir greiðviknir og góðviljaðir. Þeir vilja almennt vel og eru skjótir til hjálpar þegar á bjátar jafnvel hjá ókunnu fólki. Þeir eru „þrautgóðir á raunarstund“. Þetta er ekki hluti af þeim þjóðareinkennum sem við erum svo sólgin í að leita heldur sammannlegir eiginleikar. Samkennd er hluti af mannlegu eðli og samstaða er forsenda þess að samfélög og menning fái þrifist.

Gildismat á floti

Að þessu sögðu skal því haldið fram að gildismat okkar Íslendinga sé kynlega óljóst og á floti. Með þessu er ekki átt við að þjóðin aðhyllist upp til hópa gilda-níhilisma eða afneiti hefðbundnum gildum af öðrum ástæðum. Vandi okkar liggur frekar í því að við erum ómeðvituð um gildismat okkar. Við bregðumst við ýmsum flóknum aðstæðum fremur út frá tilfinningum og allt að því eðlislægum kenndum en skilgreindum gildum. Við vitum oftast nokkurn veginn hvað okkur finnst en eigum erfitt með að skýra hvers vegan og við tökum oft afstöðu í flóknum álitamálum af lítt grunduðu máli.

 

Sögulegur veikleiki

Þessi skortur á meðvitaðu gildismatismati okkar á meðal á sér að því er virðist nokkuð langa sögu. Um aldamótin 1900 ferðaðist Friðrik J. Bergmann prestur Íslendinga í Vesturheimi um landið eftir langa útivist. Um hann má því segja að hann hafi haft glöggt gestsauga þegar hann virti fyrir sér mannlífið á Íslandi. Hann hafði menntast erlendis og hlotið sterkari trúarlega mótun en almennt gerðist hér. Út frá þeim forsendum dæmi hann vissulega það sem hann sá og heyrði hér heima.

 

Friðrik var harðorður í garð þeirra skóla sem hér störfuðu og tóku við af hreinni almenningsfræðslu en hún fór að verulegu leyti enn fram á heimilum, þ.e. Lærða skólans í Reykjavík og Möðruvallaskóla fyrir norðan. Gagnrýndi hann að kennarar sem þarna störfuðu létu sér nægja að troða í skólasveina þeim námsgreinum sem þeir voru ráðnir til að kenna í þrengsta skilningi en gerðu sér ekki minnsta far um að móta þá og þroska — mennta í eiginlegum skilningi.

Á þessum tíma hlaut aðeins lítill hluti þjóðarinnar og aðeins karlar eiginlega skólamenntun. Heimilin og kirkjan önnuðust uppeldi, mótun og fræðslu þeirra sem ekki gengu menntaveginn. Þar var mest áhersla lögð á uppeldi til hlýðni, undirgefni og iðni auk trúarlegrar og siðrænnar innrætingar. Uppeldishættir af því tagi eru ekki til þess fallnir að hvetja fólk til að vega og meta, þróa og móta meðvitað gildismat.

Viðloðandi vandi

Þeir veikleikar sem Friðrik J. Bergmann brást við fyrir rúmri öld hafa lengst af loðað við íslenska menntakerfið. Mín kynslóð sem nú er á „miðjum aldri“ hlaut enga fræðslu í siðfræði, heimspeki, trúarbragðafræði eða yfir höfuð nokkurri grein sem hafði með gildislæg álitamál að gera þegar kristnum fræðum í barnaskóla sleppti. Þau svifu líka almennt í kennslufræðilegu tómarúmi og fólust í utanbókarlærdómi á biblíusögum. Sögukennsla í framhaldsskólum varð í höndum sumra kennara að eins konar andrúmi þar sem mögulegt var að velta fyrir sér réttu og röngu í einhverjum skilningi. Því máli gilti þó ekki í mínum skóla. Okkar kynslóð hélt því út í lífið án nokkurrar þjálfunar í að ræða og hugleiða gildi og gildismat.

 

Góðu heilli hafa orðið breytingar á síðari áratugum. Lífsleikni hefur verið tekin upp og víða má nú taka a.m.k. valáfanga í ýmsum öðrum gildislægum greinum. Það breytir því þó ekki að mennta- og menningarhefð okkar er — ekki endilega hlutlaus og hlutlæg — heldur höll undir einfaldar og hagnýtar lausnir sem oft einkennast af nytja-, efnis- og (raun-)vísindahyggju sem kenna má við pósitívisma.

Skýring á ógöngum?

Spurning er hvort hér sé að finna helstu orsökina fyrir ýmsum ógöngum sem við höfum ratað í á undanförnum árum þar á meðal sjálfu Hruninu. Við erum fljót að grípa til tæknilausna á ýmsum vanda sem upp kemur, afgreiðum vafa- og álitamál með einföldum hætti út frá því sem okkur finnst, ýtum frá okkur álitamálum og köllum eftir hreinum línum. Við viljum öfluga leiðtoga á sem flestum sviðum sem taka af skarið fyrir okkur og við getum apað eftir.

 

Hér er breytinga þörf á þeirri öld óvissunnar sem við höldum nú inn í og stillir okkur upp andspænis stærri áskorunum en mannkyn hefur nokkru sinni staðið frammi fyrir og varðar í raun framtíð þess vistkerfis sem við erum hulti af. Í þeim sporum erum við í brýnni þörf fyrir meðvitað gildismat en nokkru sinni fyrr.

Fjölhyggja krefst meðvitundar

Hér er ég ekki að lýsa eftir einhverju einu, ákveðnu gildismati. Ég álít t.a.m. hreina efahyggju mun æskilegri en það meðvitundarleysi sem ég tel nú ríkja varðandi gildismat og lífsskoðanir meðal þjóðarinnar. Ég lýsi heldur ekki eftir samhæfðu gildakerfi. Meðvitað gildismat hefur alltaf sterkan, einstaklingsbundinn þátt. Ég krefst þess ekki að ein stofnun öðrum fremur skilgreini gildagrunn samfélagsins. Fjölhyggja nútímans er komin til að vera.

 

Það sem ég lýsi eftir er sterkari meðvitund, aukin þjálfun í að glíma við álitamál og að feta sig út í óvissu — ekki eftir einhverri óljósri tilfinningu og takmörkuðu brjóstviti heldur upplýstri umhugsun um gildi; gott og vont, rétt og rangt.

 

Auðvitað er það svo að gildi og gildismat þróast ekki í tómarúmi. Þetta eru sjálfir innviðir menningarinnar á hverjum stað. Flest erum við mótuð af vestrænu, hellenísk-gyðinglegu-kristnu-húmanísku gildismati sem síðustu 150 árin eða svo hefur verið mýkt upp af lýðræðisþróun, sósíalisma í ýmsum myndum auk jafnréttis- og mannréttindabaráttu. Þennan arf okkar þurfum við að þekkja og vera til þess fær að brjóta hann til mergjar á gagnrýninn máta og aðlaga það besta úr honum breyttum aðstæðum. Það er sameiginlegt hlutverk heimila, skóla, kirkna, trúfélaga, lífsskoðunarhópa, stjórnmálahreyfinga, allra sem vilja taka þátt í að byggja betri heim, að vekja fólk til slíkrar vinnu — berjast fyrir gildameðvitund í stað meðvitundarleysis — og þjálfa það í að lifa í sátt og samlyndi í fjölhyggjunni sem framundan er. Fjölhyggjan krefst meðvitundar, sjálfsvitundar og virðingar fyrir öðrum, gildum þeirra og lífsskoðunum.

 

Framhaldslíf forseta

Hjalti Hugason, 10. January 2012 14:55

 

Páll Björnsson sagnfræðingur hefur skráð athyglisvert rit um Jón Sigurðsson og nefnir Jón forseti allur? (Sögufélag, 2011). Þar rekur hann hvernig minningin um Jón hefur verið þróuð allt frá andláti þeirra Ingibjargar fram til dagsins í dag. Viðfangsefni og efnistök eru fersk og ritið skemmtilegt aflestrar. Lesandinn sannfærist um að sá Jón Sigurðsson sem við teljum okkur þekkja er margslungin blanda af skáldskap og veruleika — þeim Jóni sem lifði og hinum sem dó — svo leikið sé með tilvistarspurningu Steins Steinarrs. Bókin er um margt nýstárleg hvað efnistök áhrærir þó vissulega hafi lík verk verið rituð áður t.d. bók Jóns Karls Helgasonar um Jónas Hallgrímsson. Ritið er líka nýstárlegt á annan hátt. Páll dregur saman efni úr ótrúlegustu stöðum og sú spurning verður fljótt ágeng hvort rafræn orðaleit sé ekki forsenda svo víðtækrar efnisöflunar. Höfundur drepur enda á þetta í eftirmála. Bókin er gott dæmi um það hagræði sem orðið er við heimildaleit og gefur fyrirheit um það sem koma skal þegar vel tekst til.

Myndin sem dregin hefur verið upp af Jóni og Páll gerir svo góða grein fyrir er spunnin saman af staðreyndum, minningum, ímyndum, gildismati, persónugerðum hugsjónum, pólitískri tækifærismennsku og hagsmunatogstreitu af öðru tagi. Framan af stóð samkeppni um forsetann látinn. Við 100 ára afmælið tókst meiri samstaða og Jón varð að sameiningartákni. Allt fram til dagsins í dag hafa þó ólíklegustu hópar notað sér hann málstað sínum til framdráttar. Í uppvextinum var ég oft spurður í áminningartón: „Hvað heldur þú að pabba þínum finnist?“ Ef mikið lá við var afa blandað í málið! Í „þjóðaruppeldinu“ er þráfaldlega fullyrt hvað Jóni hefði fundist.

Páli tekst vel að benda á hvernig minningin um Jón hefur þróast líkt og eftir helgunarferli dýrlinga. Að vísu þurfti ekki að koma til beinaupptöku eins og þegar Jónas átti í hlut. Jarðneskar leifar voru þó fluttar um langan veg. Gröfin er helgur staður þar sem reglulega er efnt til minningarhátíða. „Standmynd“ af Jóni „sem steypt er í eir“ stendur í miðpunkti lýðveldisins og heimili Jóns og Ingibjargar í Höfn er fjölsóttur pílagrímastaður. Þegar minnst er á þau hjón saman ber þó að geta þess að ímyndarsmíðin um Jón hefur alla tíð verið karllæg og Ingibjörg gleymst að mestu.

Eini helgistaðurinn um Jón sem mistekist hefur af endurvekja er sjálfur fæðingarstaðurinn. Þar var byggt reisulegt steinhús sem aldrei hefur tekist að glæða neinu lífrænu hlutverki sem hæfir minningu Jóns. Auk þess var reist minningarkapella um leið og sóknarkirkjan á staðnum var endurbyggð þótt nokkur sókn fyrirfinndist tæpast. Loks stóð til að hlú að veggjarbroti sem enn stóð af gamla bænum og Jón hafði hugsanlega fæðst undir. Það hefði orðið látlaus og „ekta“ minnisvarði. Að ráði varð þó að reisa burstabæinn sem þar stendur nú. Skökk hlutföll byggingarinnar sýna þó að þarna er um að ræða 20. aldar eftiröpun af torfbæ fyrri tíma — óekta tilgátuhús. Forsagan var einkennilega lík aðdraganda Þorláksbúðar sem nú er deilt um í Skálholti. Hrafnseyrarnefnd fór sem sé sínu fram þrátt fyrir andstöðu fagfólks. Nú er torvelt að sjá gildi þess að þessi bygging standi á hinu forna bæjarstæði.

Sjálfur á ég ljúfa minningu frá Hrafnseyri. Við komum nokkrir karlar á staðinn á fögrum degi eftir ferð um Ketildali. Staðarhaldarinn og aðstoðarmaður hans sleiktu sólskinið úti undir vegg. Heimamenn voru báðir kennaramenntaðir og aðstoðarmaðurinn nemandi okkar sumra. Hann vildi að við gengjum í kapelluna og hann léki fyrir okkur lag. Við settumst dreift og bjuggum okkur undir ættjarðarlag jafnvel eitthvað andlegt. Við vorum alltént tveir vígðir í hópnum! Tónlistarmaðurinn tók dýfu og brast á með Tondelayo. Andaktin vék fyrir afkáraskap en stundin varð ógleymanleg. Tengingin við forsetann var þó óljós!