Gildameðvitund — og meðvitundarleysi

Hjalti Hugason, 10. January 2012 14:56

 

Ég tel að Íslendingar séu flestir greiðviknir og góðviljaðir. Þeir vilja almennt vel og eru skjótir til hjálpar þegar á bjátar jafnvel hjá ókunnu fólki. Þeir eru „þrautgóðir á raunarstund“. Þetta er ekki hluti af þeim þjóðareinkennum sem við erum svo sólgin í að leita heldur sammannlegir eiginleikar. Samkennd er hluti af mannlegu eðli og samstaða er forsenda þess að samfélög og menning fái þrifist.

Gildismat á floti

Að þessu sögðu skal því haldið fram að gildismat okkar Íslendinga sé kynlega óljóst og á floti. Með þessu er ekki átt við að þjóðin aðhyllist upp til hópa gilda-níhilisma eða afneiti hefðbundnum gildum af öðrum ástæðum. Vandi okkar liggur frekar í því að við erum ómeðvituð um gildismat okkar. Við bregðumst við ýmsum flóknum aðstæðum fremur út frá tilfinningum og allt að því eðlislægum kenndum en skilgreindum gildum. Við vitum oftast nokkurn veginn hvað okkur finnst en eigum erfitt með að skýra hvers vegan og við tökum oft afstöðu í flóknum álitamálum af lítt grunduðu máli.

 

Sögulegur veikleiki

Þessi skortur á meðvitaðu gildismatismati okkar á meðal á sér að því er virðist nokkuð langa sögu. Um aldamótin 1900 ferðaðist Friðrik J. Bergmann prestur Íslendinga í Vesturheimi um landið eftir langa útivist. Um hann má því segja að hann hafi haft glöggt gestsauga þegar hann virti fyrir sér mannlífið á Íslandi. Hann hafði menntast erlendis og hlotið sterkari trúarlega mótun en almennt gerðist hér. Út frá þeim forsendum dæmi hann vissulega það sem hann sá og heyrði hér heima.

 

Friðrik var harðorður í garð þeirra skóla sem hér störfuðu og tóku við af hreinni almenningsfræðslu en hún fór að verulegu leyti enn fram á heimilum, þ.e. Lærða skólans í Reykjavík og Möðruvallaskóla fyrir norðan. Gagnrýndi hann að kennarar sem þarna störfuðu létu sér nægja að troða í skólasveina þeim námsgreinum sem þeir voru ráðnir til að kenna í þrengsta skilningi en gerðu sér ekki minnsta far um að móta þá og þroska — mennta í eiginlegum skilningi.

Á þessum tíma hlaut aðeins lítill hluti þjóðarinnar og aðeins karlar eiginlega skólamenntun. Heimilin og kirkjan önnuðust uppeldi, mótun og fræðslu þeirra sem ekki gengu menntaveginn. Þar var mest áhersla lögð á uppeldi til hlýðni, undirgefni og iðni auk trúarlegrar og siðrænnar innrætingar. Uppeldishættir af því tagi eru ekki til þess fallnir að hvetja fólk til að vega og meta, þróa og móta meðvitað gildismat.

Viðloðandi vandi

Þeir veikleikar sem Friðrik J. Bergmann brást við fyrir rúmri öld hafa lengst af loðað við íslenska menntakerfið. Mín kynslóð sem nú er á „miðjum aldri“ hlaut enga fræðslu í siðfræði, heimspeki, trúarbragðafræði eða yfir höfuð nokkurri grein sem hafði með gildislæg álitamál að gera þegar kristnum fræðum í barnaskóla sleppti. Þau svifu líka almennt í kennslufræðilegu tómarúmi og fólust í utanbókarlærdómi á biblíusögum. Sögukennsla í framhaldsskólum varð í höndum sumra kennara að eins konar andrúmi þar sem mögulegt var að velta fyrir sér réttu og röngu í einhverjum skilningi. Því máli gilti þó ekki í mínum skóla. Okkar kynslóð hélt því út í lífið án nokkurrar þjálfunar í að ræða og hugleiða gildi og gildismat.

 

Góðu heilli hafa orðið breytingar á síðari áratugum. Lífsleikni hefur verið tekin upp og víða má nú taka a.m.k. valáfanga í ýmsum öðrum gildislægum greinum. Það breytir því þó ekki að mennta- og menningarhefð okkar er — ekki endilega hlutlaus og hlutlæg — heldur höll undir einfaldar og hagnýtar lausnir sem oft einkennast af nytja-, efnis- og (raun-)vísindahyggju sem kenna má við pósitívisma.

Skýring á ógöngum?

Spurning er hvort hér sé að finna helstu orsökina fyrir ýmsum ógöngum sem við höfum ratað í á undanförnum árum þar á meðal sjálfu Hruninu. Við erum fljót að grípa til tæknilausna á ýmsum vanda sem upp kemur, afgreiðum vafa- og álitamál með einföldum hætti út frá því sem okkur finnst, ýtum frá okkur álitamálum og köllum eftir hreinum línum. Við viljum öfluga leiðtoga á sem flestum sviðum sem taka af skarið fyrir okkur og við getum apað eftir.

 

Hér er breytinga þörf á þeirri öld óvissunnar sem við höldum nú inn í og stillir okkur upp andspænis stærri áskorunum en mannkyn hefur nokkru sinni staðið frammi fyrir og varðar í raun framtíð þess vistkerfis sem við erum hulti af. Í þeim sporum erum við í brýnni þörf fyrir meðvitað gildismat en nokkru sinni fyrr.

Fjölhyggja krefst meðvitundar

Hér er ég ekki að lýsa eftir einhverju einu, ákveðnu gildismati. Ég álít t.a.m. hreina efahyggju mun æskilegri en það meðvitundarleysi sem ég tel nú ríkja varðandi gildismat og lífsskoðanir meðal þjóðarinnar. Ég lýsi heldur ekki eftir samhæfðu gildakerfi. Meðvitað gildismat hefur alltaf sterkan, einstaklingsbundinn þátt. Ég krefst þess ekki að ein stofnun öðrum fremur skilgreini gildagrunn samfélagsins. Fjölhyggja nútímans er komin til að vera.

 

Það sem ég lýsi eftir er sterkari meðvitund, aukin þjálfun í að glíma við álitamál og að feta sig út í óvissu — ekki eftir einhverri óljósri tilfinningu og takmörkuðu brjóstviti heldur upplýstri umhugsun um gildi; gott og vont, rétt og rangt.

 

Auðvitað er það svo að gildi og gildismat þróast ekki í tómarúmi. Þetta eru sjálfir innviðir menningarinnar á hverjum stað. Flest erum við mótuð af vestrænu, hellenísk-gyðinglegu-kristnu-húmanísku gildismati sem síðustu 150 árin eða svo hefur verið mýkt upp af lýðræðisþróun, sósíalisma í ýmsum myndum auk jafnréttis- og mannréttindabaráttu. Þennan arf okkar þurfum við að þekkja og vera til þess fær að brjóta hann til mergjar á gagnrýninn máta og aðlaga það besta úr honum breyttum aðstæðum. Það er sameiginlegt hlutverk heimila, skóla, kirkna, trúfélaga, lífsskoðunarhópa, stjórnmálahreyfinga, allra sem vilja taka þátt í að byggja betri heim, að vekja fólk til slíkrar vinnu — berjast fyrir gildameðvitund í stað meðvitundarleysis — og þjálfa það í að lifa í sátt og samlyndi í fjölhyggjunni sem framundan er. Fjölhyggjan krefst meðvitundar, sjálfsvitundar og virðingar fyrir öðrum, gildum þeirra og lífsskoðunum.

 

Framhaldslíf forseta

Hjalti Hugason, 10. January 2012 14:55

 

Páll Björnsson sagnfræðingur hefur skráð athyglisvert rit um Jón Sigurðsson og nefnir Jón forseti allur? (Sögufélag, 2011). Þar rekur hann hvernig minningin um Jón hefur verið þróuð allt frá andláti þeirra Ingibjargar fram til dagsins í dag. Viðfangsefni og efnistök eru fersk og ritið skemmtilegt aflestrar. Lesandinn sannfærist um að sá Jón Sigurðsson sem við teljum okkur þekkja er margslungin blanda af skáldskap og veruleika — þeim Jóni sem lifði og hinum sem dó — svo leikið sé með tilvistarspurningu Steins Steinarrs. Bókin er um margt nýstárleg hvað efnistök áhrærir þó vissulega hafi lík verk verið rituð áður t.d. bók Jóns Karls Helgasonar um Jónas Hallgrímsson. Ritið er líka nýstárlegt á annan hátt. Páll dregur saman efni úr ótrúlegustu stöðum og sú spurning verður fljótt ágeng hvort rafræn orðaleit sé ekki forsenda svo víðtækrar efnisöflunar. Höfundur drepur enda á þetta í eftirmála. Bókin er gott dæmi um það hagræði sem orðið er við heimildaleit og gefur fyrirheit um það sem koma skal þegar vel tekst til.

Myndin sem dregin hefur verið upp af Jóni og Páll gerir svo góða grein fyrir er spunnin saman af staðreyndum, minningum, ímyndum, gildismati, persónugerðum hugsjónum, pólitískri tækifærismennsku og hagsmunatogstreitu af öðru tagi. Framan af stóð samkeppni um forsetann látinn. Við 100 ára afmælið tókst meiri samstaða og Jón varð að sameiningartákni. Allt fram til dagsins í dag hafa þó ólíklegustu hópar notað sér hann málstað sínum til framdráttar. Í uppvextinum var ég oft spurður í áminningartón: „Hvað heldur þú að pabba þínum finnist?“ Ef mikið lá við var afa blandað í málið! Í „þjóðaruppeldinu“ er þráfaldlega fullyrt hvað Jóni hefði fundist.

Páli tekst vel að benda á hvernig minningin um Jón hefur þróast líkt og eftir helgunarferli dýrlinga. Að vísu þurfti ekki að koma til beinaupptöku eins og þegar Jónas átti í hlut. Jarðneskar leifar voru þó fluttar um langan veg. Gröfin er helgur staður þar sem reglulega er efnt til minningarhátíða. „Standmynd“ af Jóni „sem steypt er í eir“ stendur í miðpunkti lýðveldisins og heimili Jóns og Ingibjargar í Höfn er fjölsóttur pílagrímastaður. Þegar minnst er á þau hjón saman ber þó að geta þess að ímyndarsmíðin um Jón hefur alla tíð verið karllæg og Ingibjörg gleymst að mestu.

Eini helgistaðurinn um Jón sem mistekist hefur af endurvekja er sjálfur fæðingarstaðurinn. Þar var byggt reisulegt steinhús sem aldrei hefur tekist að glæða neinu lífrænu hlutverki sem hæfir minningu Jóns. Auk þess var reist minningarkapella um leið og sóknarkirkjan á staðnum var endurbyggð þótt nokkur sókn fyrirfinndist tæpast. Loks stóð til að hlú að veggjarbroti sem enn stóð af gamla bænum og Jón hafði hugsanlega fæðst undir. Það hefði orðið látlaus og „ekta“ minnisvarði. Að ráði varð þó að reisa burstabæinn sem þar stendur nú. Skökk hlutföll byggingarinnar sýna þó að þarna er um að ræða 20. aldar eftiröpun af torfbæ fyrri tíma — óekta tilgátuhús. Forsagan var einkennilega lík aðdraganda Þorláksbúðar sem nú er deilt um í Skálholti. Hrafnseyrarnefnd fór sem sé sínu fram þrátt fyrir andstöðu fagfólks. Nú er torvelt að sjá gildi þess að þessi bygging standi á hinu forna bæjarstæði.

Sjálfur á ég ljúfa minningu frá Hrafnseyri. Við komum nokkrir karlar á staðinn á fögrum degi eftir ferð um Ketildali. Staðarhaldarinn og aðstoðarmaður hans sleiktu sólskinið úti undir vegg. Heimamenn voru báðir kennaramenntaðir og aðstoðarmaðurinn nemandi okkar sumra. Hann vildi að við gengjum í kapelluna og hann léki fyrir okkur lag. Við settumst dreift og bjuggum okkur undir ættjarðarlag jafnvel eitthvað andlegt. Við vorum alltént tveir vígðir í hópnum! Tónlistarmaðurinn tók dýfu og brast á með Tondelayo. Andaktin vék fyrir afkáraskap en stundin varð ógleymanleg. Tengingin við forsetann var þó óljós!