Sinnaskipti í landsdómsmáli

Hjalti Hugason, 23. January 2012 21:23

 

Hugleiðing út frá greinum Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra

 

Sinnaskipti fela í sér róttækt uppgjör og endurmat. Þau leiða til þess að einstaklingur tekur nýja stefnu, leitast við að leiðrétta fyrri mistök og varast ný. Sinnaskiptum manns ber ætíð að sýna virðingu og ræða af varúð.

Þegar stjórnmálamaður stígur fram og vitnar um sinnaskipti sín á opinberum vettvangi og sinnaskiptin lúta að störfum hans sem stjórnmálamanns er þó eðlilegt að vitnisburður hans sé ræddur jafnvel á gagnrýnum nótum.  Þetta á einnig við um þau sinnaskipti sem Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra kveðst hafa tekið varðandi málshöfðun á hendur Geirs H. Haarde fyrir landsdómi. (Fréttablaðið 16. jan. 2012)

 

Sinnaskipti eru alltaf einstaklingsbundin

Í eðli sínu eru sinnaskipti einstaklingsbundin. Það er einstaklingur sem tekur sinnaskiptum. Vissulega geta upp komnar aðstæður orkað svo á hópa fólks, jafnvel heil samfélög að sinnaskipti verði að fjöldahreyfingu. Þannig hefði ekki verið óeðlilegt að við Íslendingar sem þjóð hefðum tekið sinnaskiptum við Hrunið 2008. Það gerðum við ekki. Af þeim sökum er hætt við að uppgjör okkar við það verði yfirborðslegt — að  ekkert róttækt endurmat eigi sér stað og stefna okkar verði áfram óbreytt. Það getur t.d. leitt til þess að Hrun-flokkarnir taki við stjórnartaumunum eftir næstu kosningar.

Í Fréttablaðs-grein sinni 16. jan. talar ráðherra á þessum persónulegu nótum.  Daginn eftir kveður við nokkuð annan tón í grein hans í Mbl.  Hún ber yfirskriftina: „Við gerðum rangt“.

Sá sem tekur sinnaskiptum horfir fyrst og fremst til eigin verka. Endurmat hans hversu einlægt sem það kann að vera gefur honum ekki rétt til að dæma gerðir annarra, hvað þá að kveða upp algilda dóma um rétt og rangt þegar eigin verkum sleppir.  Á því örlar í þessari síðari grein þótt vissulega hlífist ráðherra ekki við að horfa fyrst og fremst í eigin barm.

 

Sinnaskipti verðskulda virðingu

Það er ætíð aðdáunarvert þegar maður nemur staðar, metur athafnir sínar og leiðréttir það sem hann telur að úrskeiðis hafi farið. Það er sjaldgæft að stjórnmálamenn okkar sýni þá djörfung sem til þess þarf. Í íslenskum stjórnmálum virðist það eitt að skipta um skoðun vera flestum um megn jafnvel þegar um lítilsverð mál er að ræða. — Hvað þá að taka pólitíska áhættu í jafn umdeildu máli og málshöfðunin fyrir landsdómi raunverulega er.

Af þeim sökum ber fyrst og fremst að virða Ögmund Jónasson fyrir að endurmeta afstöðu sína í þessu umdeilda máli. Þar með er ekki sagt að hann hljóti að hafa á réttu að standa.

 

Vond staða

Ég hygg að við séum mörg mjög ósátt við þá niðurstöðu sem þingheimur komst að með atkvæðagreiðslu sinni um tillögu þingmannanefndarinnar sem fékk það hlutverk að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og leiddi til þess að mál var höfðað gegn fyrrum forsætisráðherra einum. Hins vegar má svo deila um hver „rétta“ niðurstaðan hefði verið.

Ég hefði ekki sætt mig við að ekkert mál hefði verið höfðað. Með því tel ég að stjórnmálastéttin í landinu hefði tekið málið í sínar eigin hendur — kveðið upp sýknudóm yfir sjálfri sér.

Á grundvelli meginniðurstaðna rannsóknarnefndar Alþingis og meirihluta þingmannanefndarinnar virðast málefnalegar ástæður hafa verið til að höfðað væri mál gegn fjórum ráðherrum fyrir vanrækslu og/eða bort í starfi í aðdraganda Hrunsins. Það hefði verið ásættanlegasta niðurstaðan að mínum dómi.  Þar með hefði stórt skrefi verið stigið í átt að lögformlegu uppgjöri á hinni pólitísku hlið málsins en það er nauðsynlegt til að byggja megi upp sátt og samstöðu í landinu.

Með tilliti til þess foringjaræðis sem tíðkast hefur í íslenskum stjórnmálum um langt skeið hefði verið mögulegt að sætta sig við málshöfðun gegn formönnum stjórnarflokkanna beggja.

Hvorug síðarnefndu leiðanna hefði falið í sér að yfirbragði málshöfðunarinnar hefði verið spillt með því að hún fengi á sig pólitíska mynd. Mér sem leikmanni virðist hin síðari þó veikari frá lagalegu sjónarmiði.

Niðurstaða Alþingis í málinu varð að mínu viti sú næst versta, þ.e. að fyrrum forsætisráðherra skyldi einum stefnt. Veik rök fyrir henni eru auðvitað þau að forsætisráðherra sé ábyrgur fyrir ráðuneyti sínu í merkingunni ríkisstjórn. Þar sem stjórn landsins starfar ekki sem fjölskipað stjórnvald virðist röksemdafærslan þó tæpast duga nema sem eftiráskýring þegar vond staða er upp komin.

Það er svo annað mál hvort réttara sé að fella málið niður eða halda því til streitu. Þar er svo sannarlega léttara um að ræða en í að komast.

 

Röksemdafærsla Ögmundar

Af lokaorðum innanríkisráðherra í Mbl.-grein sinni má ráða að hann telji nú brýnast að vinna að rannsókn og uppgjöri „glæpsamlegra ásetningsbrota“. Þar á hann væntanlega við brot banka- og bisness-manna bólutímabilsins. Undir þetta má taka svo langt sem það nær.

Við þetta mat er þó að athuga að þjóðin hlýtur að krefjast rannsóknar á hlut stjórnmálastéttarinnar, fjármálastéttarinnar og eftirlitstéttarinnar í Hruninu. Þar getur engin ein stétt vísað á aðra. Þótt brýnt sé að upplýsa um brot á fjármálasviðinu má það ekki draga athyglina frá hinum tveimur.

Þá telur ráðherra að málshöfðun fyrir landsdómi dugi skammt í pólitísku uppgjöri Hrunsins þar sem hún taki hvorki til aðgerða stjórnmálamanna við upptöku hins framseljanlega kvóta né einkavæðingu bankanna. Þetta er í sjálfu sér rétt.

Hér ber þó að hafa í huga að hið pólitíska uppgjör hefur a.m.k. þrjár víddir. Sú vídd sem Ögmundi Jónassyni er efst í huga er uppgjörið við þá frjálshyggju sem skapaði það pólitíska landslag sem hér ríkti árin fyrir Hrun. Slíkt uppgjör fer ekki fram fyrir landsdómi. Þangað verður engum stefnt fyrir pólitískar skoðanir. Uppgjörið milli frjálshyggju og „samhyggju“ verður að fara fram á hinum pólitíska vettvangi — á Alþingi og í næstu kosningum.

Þetta uppgjör má ekki koma í veg fyrir að látið verði reyna á ábyrgð þeirra ráðherra sem með beinustum hætti komu að hagstjórn þjóðarinnar misserin fyrir Hrun. Að því og engu öðru miðar málshöfðunin fyrir landsdómi. Sé lagaramminn um dóminn úreltur er við engan að sakast nema löggjafann. Hann hefur þá sofið á verðinum — líkt og á svo mörgum sviðum öðrum á undangengum árum. Slíkur þyrnirósarsvefn má hins vegar ekki valda því að ráðherraábyrgð verði merkingarlaust hugtak okkar á meðal. Þvert á móti verður að bíta í það súra epli að fara verði eftir slæmum lögum. Það stendur þá upp á innanríkisráðherra og starfssystkini hans á þingi að breyta lögunum áður en á þau reynir næst.

Þriðja vídd hins pólitíska uppgjörs er svo margháttuð siðbót í íslenskum stjórnmálum og störfum Alþingis sem vísað er til bæði í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndarinnar. Í því sambandi er mikilvægt að vega inn flókið samspil „einstaklingsathafna við félagslega, menningarlega og efnahagslega þætti“ og draga lærdóma af því. Þar má sannarlega taka undir lokaorð Ögmundar Jónassonar í Mbl.-grein hans.

 

Lokaorð

Á næsti vikum bíður Alþingis það mikilvæga hlutverk að taka efnislega afstöðu til tillögu Bjarna Benediktssonar um að fallið verði frá málshöfðun á hendur fyrirrennara hans á stóli formanns Sjálfstæðisflokksins. Það væri óskandi að þingmenn prófuðu öll fyrri afstöðu sína af sömu einurð og Ögmundur Jónasson hefur nú gert. Það er þó fráleitt að þau þurfi öll að komast að líkri niðurstöðu og hann.

Það sem þingmönnum ber að hafa í huga er að stjórnmálastéttin í landinu torveldi ekki eða þvælist fyrir rannsókn og uppgjöri á þeim þætti Hrunsins sem að henni snýr. Þar er bæði átt við ábyrgð einstakra einstaklinga í þungaviktarstöðu á vettvangi stjórnmálanna og samspil athafna þeirra við „félagslega, menningarlega og efnahagslega þætti“. Í því ljósi verður að taka afstöðu til fram kominnar tillögu.