Ólafur Ragnar Grímsson — Framboð og eftirspurn

Hjalti Hugason, 25. February 2012 11:40

Ég heyrði tvöföld skilaboð í nýársávarpi forsetans nú um áramótin. Undir lok þess tók hann að skýra frá framtíðaráformum sínum og benti á að vera hans á Bessastöðum væri þegar orðin löng og því eðlilegt að hann væri tekinn að „hlakka til frjálsari stunda“. Því næst dró hann upp dramtíska mynd:

 

Að dómi margra eru tímarnir hins vegar markaðir verulegri óvissu og er þá einkum vísað til stöðu stofnana og samtaka á vettvangi þjóðmálanna, að stjórnarskráin hafi verið sett í deiglu breytinga, fullveldi Íslands orðið dagskrárefni vegna viðræðna við Evrópuríki og áríðandi sé að málstaður þjóðarinnar birtist skýrt í alþjóðlegri umfjöllun.

 

Á grundvelli þessa er svo höfðað til skyldurækni forsetans, trúnaðarins sem fólkið í landinu hefur sýnt mér.

 

Ummælin um skylduræknina komu dálítið á óvart en gáfu því sem á undan hafði farið aukið vægi. Svo kom framhaldið:

 

Vissulega hef ég á nýliðnum vetrardögum íhugað vandlega þessi sjónarmið. Niðurstaðan kann að hljóma sem þversögn en er engu að síður sú að aðstæður þjóðarinnar séu þess eðlis að ég geti fremur orðið að liði ef val á verkefnum verður eingöngu háð mínum eigin vilja, óbundið af þeim skorðum sem embætti forsetans setur jafnan orðum og athöfnum.

 

Þegar skyldur þjóðhöfðingjans hvíla ei lengur á mínum herðum fæ ég meira frelsi til að sinna hugsjónum og málefnum sem hafa lengi verið mér kær, ...

 

Ákvörðun mín felur því ekki í sér kveðjustund heldur upphaf að annarri vegferð, nýrri þjónustu við hugsjónir sem hafa löngum verið mér leiðarljós; frjálsari til athafna en áður og ríkari af reynslunni sem forsetaembættið færir hverjum þeim sem þjóðin kýs. (http://www.forseti.is/media/PDF/2012_01_01Aramotaavarp.pdf Sótt: 16. 2. 2012.)

 

Að ávarpinu loknu var niðurstaða mín þessi: Ólafur Ragnar hafði opnað hurðina á forsetasetrinu í hálfa gátt og gat gengið hvort heldur sem er út eða inn að nýju og þá með endurnýjað umboð. Boltinn var þó augljóslega hjá þjóðinni og auðvelt að sjá fyrir sér nýleg dæmi um að undirskriftalistar væru afhentir á Bessastöðum þótt um annað efni væru.

 

Flétta eða ekki — niðurstaðan varð alla vega sú að öldungadeild í íslenskum þjóðmálum hefur nú safnað undirskriftum sem í senn hljóta að sýna trúnað fólkins í landinu og höfða til samvisku forsetans þrátt fyrir að óskir um lokatölur hafi ef til vill ekki ræst.

 

Ég studdi Ólaf Ragnar

Ég  kaus Ólaf Ragnar  á sínum tíma og var stoltur af því.

 

Eftir tvo forseta úr menningargeiranum fannst mér áhugavert að fá mann af vettvangi hinna hörðu þjóðmála, taldi það jarðtengja Bessastaði og að það væri gott annað slagið. Þá fannst mér ögrandi að máta stjórnmálafærðing í stólinn ef það mætti verða til þróa embættið í nýja átt.

 

Því er ekki unnt að neita að forsetaembættið hefur í tíða Ólafs Ragnars orðið fyrirferðarmeira en áður var. Það hefur orðið að reikna með forsetanum. Það þurfti líklega mann með sérþekkingu á stjórnskipaninni, langa stjórnmálareynslu og hæfilegan skammt af ósvífni til að beita málskotsréttinum.

 

Ég hef fráleitt verið sammála öllum orðum og gjörðum Ólafs Ragnars. Hann hefur þó ekki valdið mér vonbrigðum að þessu leyti.

 

Síðasti söludagur

Nú verðum bæði Ólafur Ragnar og við sem studdum hann í upphafi að gera okkur grein fyrir að endingartími forseta hefur styst til muna í seinni tíð. Um daga Ásgeirs Ásgeirssonar hefði forseti líklega geta setið í fjögur, fimm kjörtímabil án þess að þreyta þjóð sína um of. Kristján Eldjárn sem sat þrjú tímabil hefði líklega geta haldið áfram. Síðan hefur styst í síðasta söludag.

 

Þetta hefur í sjálfu sér ekkert að gera með persónu forsetans. Vigdísi fylgdi auðvitað alveg sérstakur ferskleiki á allan mögulegan máta. Skýringin á því að líftími forseta í embætti er að styttast felst í síaukinni fjölmiðlun og þá einkum í sjónvarpi. Þar sem er konungsveldi er heilli ætt á að skipa og hirð að auki. Þar eru brúðkaup, afmælishátíðir og ýmis konar skrautsýningar sem gleðja augað. Samt gætir þar þreytu. Forsetaembætti okkar er sem betur fer ákaflega alþýðlegt og látlaust. Einn karl í jakkafötum eða kona í dragt með fáa málaflokka á sínum snærum endist illa í mynd.

 

Auðvitað þarf nokkra festu kringum embætti eins og forsetaembættið. Enginn ætti þó að freista þrásetu í þeim stóli.

 

 

Maður með fortíð!

Svo er því vissulega ekki að neita að Ólafur Ragnar er með fortíð frá útrásartímanum eins og allir aðrir sem þá tóku þátt í opinberu lífi. Að vísu er frasinn „Gamla Ísland“ nú að mestu gleymdur. Örugglega er það vegna þess að vonin um „Nýja Ísland“ varð að engu. Ólafur Ragnar kemst þó tæpast hjá því að vera talinn forseti „Gamla Íslands“. — Á því herrans ári 2012 er þó enn tækifæri til að taka skref í átt að nýjum tíma. Hjálpar ekki Ólafur Ragnar betur til í því efni með að hverfa til  þeirra nýju ögrandi verkefna sem hann taldi upp í áramótaávarpinu en með því að vera kyrr á Bessastöðum?

 

Hér er alls ekki átt við að forsetinn hafi átt þátt í Hruninu þótt hann dansaði vissulega í partíinu. Það hefur hann örugglega gert án þess að hafa öll spil á hendi líkt og við hin. Þetta skiptir þó vissulega máli.

 

Nýársdagur á Bessastöðum

Á veltiárunum gegndi ég starfi sem fól í sér árlega ferð til Bessastaða á nýársdag. Þetta var á margan hátt skondið ritúal. Maður kom á staðinn, heilsaði forsetahjónunum og bauð gleðilegt nýár. Síðan spjallaði maður við mann og annan stutta stund og drakk vatn úr fínu glasi — maður var jú á bíl og hafði vakað fram undir morgun! Loks laumaðist maður út og keyrði heim. Þetta var í alla staði verðugt og rétt, þétti raðirnar og minnti mann á skyldur sínar við land og þjóð. Ég sé síður en svo eftir þessum stundum. Það er líka oft svo fallegt á Álftanesinu í vetrarsólinni.

 

Eitt árið gerðist skrýtið atvik. Ég var á spjalli við einhvern um daginn og veginn. Þá var komið aftan að mér, tekið hraustlega á mér og mér vikið til hliðar líkt og í biðröð á bar. Ég lít um öxl og fyrir aftan mig stendur digur maður, svartur á hár og skeggrót. Skýringin sem ég fékk var: „Ég ætla að tala við hann Jón þarna!“ Síðar komst ég að því þetta var ólukkutröll úr bankaheiminum.

 

Var skýringin á framkomu mannsins sú að hann fann sig heima, vissi að hann átti Bessastaði inn að kviku en að ég var óbreytt aðskotadýr? Í öllu falli verðum við að fá tryggingu fyrir því hver á Bessastaði. Það gerum við best með því að skipta út í brúnni helst ekki sjaldnar en á 12 ára fresti — jafnvel oftar.

 

Snorri í Betel — trú- og tjáningarfrelsið

Hjalti Hugason, 19. February 2012 13:56


 

Kennarinn Snorri Óskarsson kenndur við Betel skrifaði svo í bloggfærslu í lok janúar s.l.:

 

Kjarninn í sjónarmiði evangelískra er sá að samkynhneigðin telst vera synd. Syndin erfir ekki Guðs ríkið og því óæskileg. Laun syndarinnar er dauði og því grafalvarleg. (http://snorribetel.blog.is/blog/snorribetel/entry/1220188/#comments)

Þannig að öllu sé til skila haldið er Snorri hér að bregðast við ásökunum einhverra ótilgreindra mannréttindasamtaka er hann telur kenna „...evangelískum prestum um aukið hatur í garð samkynhneigðra".

Mergurinn málsins er að Snorri lýsir því yfir að það sé trúarafstaða sín að samkynhneigð sé synd er útiloki fólk, þ.e. samkynhneigða, frá Guðs ríki. Þá telur hann sig ekki aðeins tjá persónulegu skoðun sína heldur sannfæringu allra sem telja sig „evangelíska“. Með þessu gefur hann orðum sínum aukið vægi enda bloggar hann sem „ safnaðarhirðir Hvítasunnukirkjunnar á Akureyri“.

 

Hver er „evangelískur“?

Ýmis frjáls, kristin trúfélög sem segja má að standi „hægra megin“ við evangelísk-lúthersku þjóðkirkjuna telja sig „evangelísk“ (dregið af evangélion (gríska) = fagnaðarerindi) í þeirri merkingu sem Snorri notar. Eitt af einkennum trúfélaga af þessu tagi sem raunar ræður ferðinni í bloggfærslu Snorra er bókstafstrú eða fúndamentalismi. Hún felur í sér að litið er svo á að Biblían Guðs orð t.d. eins og hún er orðrétt í útgáfu JPV og HÍB frá 2007 — en þó e.t.v. frekar í einhverri eldri útgáftu! Að lútherskum skilningi er hins vegar litið svo á að í Biblíunni sé Guðs orða að finna, þ.e. þar tali Guð með sérstökum hætti en þó ekki alls staðar og ekki alltaf eins, því verði að vega, meta og túlka hvern ritningarstað fyrir sig.

 

Er í lagi að láta í ljósi trúarafstöðu af ofangreindu tagi sem augljóslega beinist að einum ákveðnum minnihlutahópi sem um aldir hefur sætt þöggun og mismunun, á stundum beinum ofsóknum og hefur á s.l. áratugum orðið að berjast þrotlausri baráttu til aukins jafnræðis við aðra þjóðfélagsþegna?

Hér kemur einkum til álita hvernig litið er á trú- og tjáningarfrelsi í landinu.

 

Snorri og trúfrelsið

Trúfrelsið er útfært í stjórnarskrá lýðveldisins og lögum um mannréttindasáttmála Evrópu.

 

Í stjórnarskánni segir:

63. gr. Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu.

64. gr. Enginn má neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna, né heldur má nokkur fyrir þá sök skorast undan almennri þegnskyldu.

(Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands 1944 nr. 33 17. júní. http://www.althingi.is/lagas/140a/1944033.html).

 

Ákvæði  Mannréttindasáttmála Evrópu eru mjög samhljóða enda er hann lögiltur hér á landi en þar segir í 9. gr.:

1. Sérhver maður á rétt á að vera frjáls hugsana sinna, samvisku og trúar. Í þessu felst frelsi manna til að breyta um trú eða sannfæringu svo og til að rækja trú sína eða sannfæringu, hvort heldur einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einkavettvangi, með guðsþjónustu, boðun, breytni og helgihaldi.
2. Frelsi manna til að rækja trú sína eða sannfæringu skal einungis háð þeim takmörkunum, sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna almannaheilla, til verndar allsherjarreglu, heilsu manna eða siðgæði eða rétti og frelsi.

(Lög um mannréttindasáttmála Evrópu 1994 nr. 62 19. maí. http://www.althingi.is/lagas/140a/1994062.html)

Hér er mælt fyrir því nær ótakmörkuðum rétti til að aðhyllast hvaða trúarskoðanir sem er og tjá þær svo fremi sem það brjóti ekki í bága við önnur lög eða nauðsyn beri til að takmarka það og þá til að standa vörð um lýðræði, almannaheill, allsherjarreglu, heilsu fólks, siðgæðis þess, rétt eða frelsi.

Sé talið nauðsynlegt að grípa til takmörkunar á trúfrelsi einstakling og/eða heilla trúfélaga verður það einvörðungu gert á grundvelli laga og að föllnum dómi fyrir brot á lögum. Þar geta komið til álita hegningarlög (vegna meiðyrða eða brota gegn friðhelgi einkalífs) eða önnur lög svo sem dýraverndarlög (vegna slátrunaraðferða eða fórna), hjúskaparlög (vegna hugsanlegs fjölkvænis og fl.) eða enn önnur lög.

Af þessu má ráða að einstaklingnum Snorra í Betel er frjálst að aðhyllast fúndamentalisma og tjá hann og túlka með öllu mögulegu móti meðan hann brýtur ekki hengingarlög eða önnur lög sem til greina geta komið.

 

Snorri og tjáningarfrelsið

Upphaf mannréttindabaráttu er að rekja til sóknar til aukins trúfrelsis á dögum trúarnauðungar sem ríkti í einhverri mynd hvarvetna í Evrópu fram undir aldamótin 1800.

 

Í seinni tíð hafa margir tekið að efast um „heilagleika“ trúfrelsisins og telja að það eigi að takmarka miðað við það sem nú er — a.m.k. hvað trúarlega tjáningu áhrærir. Á sama tíma hefur „helgi“  tjáningarfrelsisins aukist til muna. Hér um árið þótti dönskum teiknurum og blaðaútgefendum t.d. tjáningafrelsi sitt skert fengju þeir ekki óáreittir að birta háðsteikningar af Múhameð spámanni. Um svipað leyti töldu íslenskir áfengisauglýsendur að tjáningarfrelsi sínu vegið fengju þeir ekki að vekja athygli á vöru sinni á sjónvarpsskjánum.

 

Hér á landi er tjáningarfrelsi líkt og trúfrelsi skilgreint í stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum. Ber þar raunar flest að sama brunni og að framan segir um trúfrelsið. Í stjórnarskránni segir þannig:

 

73. gr. Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.
Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.
Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

(Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands 1944 nr. 33 17. júní. http://www.althingi.is/lagas/140a/1944033.html).

 

Ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu eru í sama anda. Þar segir í 10. gr:
1. Sérhver maður á rétt til tjáningarfrelsis. Sá réttur skal einnig ná yfir frelsi til að hafa skoðanir, taka við og skila áfram upplýsingum og hugmyndum heima og erlendis án afskipta stjórnvalda. Ákvæði þessarar greinar skulu eigi hindra ríki í að gera útvarps-, sjónvarps- og kvikmyndafyrirtækjum að starfa aðeins samkvæmt sérstöku leyfi.
2. Þar sem af réttindum þessum leiðir skyldur og ábyrgð er heimilt að þau séu háð þeim formsreglum, skilyrðum, takmörkunum eða viðurlögum sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, landvarna eða almannaheilla, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu eða siðgæði manna, mannorði eða réttindum og til þess að koma í veg fyrir uppljóstran trúnaðarmála eða til þess að tryggja vald og óhlutdrægni dómstóla.

(Lög um mannréttindasáttmála Evrópu 1994 nr. 62 19. maí. http://www.althingi.is/lagas/140a/1994062.html)

Hvað sem okkur kann að virðast um skoðanir Snorra í Betel og hugsanlega annarra „evangelískra“ trúarleiðtoga er ljóst að þetta frelsi nær til þeirra ekki síður en annarra. Tjáningarfrelsi þeirra hlýtur þó að lúta sömu skorðum og annarra. Þeir mega ekki nota frelsi sitt til að vega að „heilsu eða siðgæði manna, mannorði eða réttindum.“

 

Trúfélög njóta aukins félagafrelsis hér á landi þar sem um þau gilda sömu stjórnarskrárákvæði og önnur félagasamtök í landinu (74. gr.) en auk þess er kveðið á um réttindi þeirra sérstaklega eins og að framan greinir. Á hinn bóginn búa trúfélög, trúarleiðtogar eða trúfólk ekki við aukið tjáningarfrelsi. — Trúartjáning er háð öllum sömu takmörkunum og tjáning annarra skoðana.

 

Hér hlýtur líka að koma til skoðunar að hér á landi eru það ekki síst fulltrúar trúfélaga sem telja að tjáningarfrelsi hafi verið misbeitt. Slíkt var nánast árlegur viðburður þegar að páskaþætti Spaugstofunnar kom hár á árum áður. Af þeim sökum ættu einmitt þeir að fara varlega í tjáningu sinni í viðkvæmum málum ef ekki væri fyrir annað en „gullnu regluna“: Allt sem þér viljið að aðrir menn gera yður það skuluð þér og þeim gera“ (Mt. 7. 12).

 

 

Snorri er leiðtogi í skráðu trúfélagi

Snorri Óskarsson er ekki hvaða einstaklingur sem er enda gerir hann sig að talsmanni trúarlegrar breiðfylkingar — „evangelíska“ armsins á Íslandi — sem ekki virðist hafa tekið afstöðu gegn yfirlýsingu hans. Hann er og „safnaðarhirðir“ Hvítasunnukirkjunnar á Akureyri sem er  skráð trúfélag.

 

Skráð trúfélög njóta ýmissa forréttinda sem önnur félög njóta ekki. Trúfélög sem ekki hafa hlotið skráningu sitja t.d. við annað borð. Sama máli gegnir enn sem komið er um lífsskoðunarfélög en það eru félög sem að öllu leyti eru sambærileg trúfélögum nema hvað þau boða veraldlega lífsskoðun, t.d. siðrænan húmanisma eins og Siðmennt. Meðal réttinda skráðra trúfélaga er að ríkið innheimtir fyrir þau félags- eða sóknargjöld og forstöðumenn þeirra mega framkvæma ýmsar opinberar athafnir t.d. hjónavígslur.

 

Félög sem á þennan hátt starfa í ákveðnum tengslum við hið opinbera og njóta fyrirgreiðslu þess og verndar verða að rísa undir ákveðnum væntingum sem beinast ekki síst að leiðtogum þeirra. Þess verður t.d. að krefjast að þessi félög séu lýðræðisleg í uppbyggingu og virða almennar réttarreglur samfélagsins, að félagsmenn geti valið sér leiðtoga og sett þá af, að mögulegt sé að ganga úr félögunum án eftirmála, sem og að leiðtogarnir kenni ekki annað en það sem greinilega er hluti af hefðbundinni, skilgreindri kenningu trúfélagsins eða trúarjátningum þess. Þau stjórnvöld sem veita trúfélögum skráningu hljóta að fylgja því eftir að orðið sé við þessum væntingum. — Á það skal bent að þetta eru allt formlegar kröfur. Það er hins vegar ekki æskilegt að skráning velti á inntakslegum atriðum, t.d. þannig að fúndamentalismi í einni eða annarri mynd komi í veg fyrir skráningu. Slíkt bryti enda í bága við stjórnarskrána.

 

Hér er enn til þess að taka að mörg trúfélög hafa haslað sér völl innan velferðargeirans með ýmsu móti. Það á ekki síst við um Hvítasunnukirkjuna. Sjálfur tel ég þau geta lagt marg gott af mörkum á þeim vettvangi. Til þess er þó mikilvægt að jákvæður mannsskilningur liggi til grundvallar í starfi þeirra. Gætir slíks skilnings í tilvitnuðum orðum Snorra?

 

 

Snorri er kennari

Í því máli sem hér er um ræðir kemur enn til álita að Snorri í Betel kynnir sig sem kennara á bloggsíðu sinni. Hann gegnir því „skuldbundnu lífsstarfi“. Dr. Broddi Jóhannesson einn helsti menntafrömuður kennara á 20. öld skilgreind slíkt starf svo:

 

Starfið veltur á viðurkenndum forða sameiginlegrar þekkingar, kunnáttu sem leikni, og sameiginlegu siðgæði starfsmanna. Gæta þeir þess sjálfir án ytri íhlutunar og af því hugarfari að skyldur þeirra við skjólstæðinga sína séu æðri öðrum skyldum. (www.forseti.is/media/files/2006.2.aevistarf.pdf)

 

Breið samstaða hefur ríkt um þessa skilgreiningu eða hugsjón kennararstarfsins um langt hríð. Á grundvelli hennar eru siðareglur kennarastéttarinnar settar. Í ljósi hennar verður og að taka afstöðu til ummæla Snorra. Sem kennari hefur hann sérstaka stöðu gagnvart fjölda barna og unglinga á viðkvæmu mótunarskeiði ævinnar þegar þau eru á nýjan hátt að átta sig á kynverund sinni, tilfinningum og trú.

 

Skyldur kennara við nemendur sína, hver sem kynhneigð þeirra er, er æðri öðrum skyldum. Hlutverk kennara er að leiðbeina og byggja upp en ekki að brjóta niður eða meiða.

 

 

Snorri í Betel og ég

Nú mælir Snorri í Betel á engan hátt fyrir minn munn. Ég lít ekki á mig sem hluta af þeim „evangelíska“ armi kristninnar sem hann gerir sig að talsmanni fyrir. Þrátt fyrir það koma orð hans mér við. Við erum þrátt fyrir allt báðir félagar í hinni „almennu kirkju“ Krists í þessum heimi. Með orðum sínum er Snorri því að  draga upp mynd af sameignlegri trú okkar, kristninni. — Mynd hans meiðir mig.

 

Við sem játum kristni lítum flest svo á að uppistaðan í henni sé fagnaðarerindi Krists um fyrirgefningu, endurnýjun, endursköpun, endurreisn og jafnstöðu allra frammi fyrir augliti Guðs. Eru ummæli Snorra í Betel til þess fallin að tjá og boða slíka trú? Það ætti ekki síst að vera hlutverk þeirra sem kalla sig evangelíska og kenna sig þannig við sjálft fagnaðarerindið? Er málflutningur Snorra boðun fagnaðarerindis, jákvætt innlegg í samfélagumræðu eða skynsamleg leið til að vinna kristinni trú fylgi við þær aðstæður sem nú ríkja?

 

Að mínum skilningi sýna ummæli Snorra fyrst og fremst hversu hárfín lína liggur á milli ákveðins arms kristinnar trúar og þeirra trúarbragða sem mörgum, ekki síst „evangelískum“, stendur svo mikill stuggur af að helst verður að bægja þeim sem þau játa frá svo sjálfsögðum mannréttindum að eignast guðshús að eigin hætti hér í Reykjavík.

 

 

 

Guðmundur Arason — Rannsóknarsögulegt ágrip

Hjalti Hugason, 11. February 2012 16:44


 

Ráðgátan Guðmundur Arason í ljósi nútíma meðferðarfræða

Í vorhefti Skírnis 2012 birtist grein eftir undiritaðan undir fyrirsögninni Áfallatengt álagsheilkenni á miðöldum? Ráðgátan Guðmundur Arason í ljósi nútíma meðferðarfræða.[1] Eins og titillinn bendir til er þar rýnt í persónuleika, skapgerð og atferli Guðmundar Arasonar (1160/61–1237) Hólabiskups eða Guðmundar góða og þess freistað að varpa ljósi á viðfangsefnið út frá sjónarhorni meðferðarfærðanna (psychotherapy). Hér verður gerð nokkur grein fyrir fyrri rannsóknum á þeim þáttum í lífi Guðmundar sem einkum koma við sögu í þessari rannsókn.

Höfundur þessarar greinar hefur freistað þess að túlka reynslu sr. Jóns Steingrímssonar (1728–1791) „eldklerks“ með sambærilegum hætti. En líta má á Skaftárelda sem Jón gekk í gegnum með sóknarbörnum sínum á Síðunni sem langvinnt áfall til þess fallið að valda streituröskun.[2] Þótt grunnhugmyndin og aðferðafræðin sé hin sama er þó ólíku saman að jafna að öðru leyti. Jón Steingrímsson stendur mun nær nútímanum í hugarfarssögulegum efnum. En líta má svo á að milli hans og Guðmundar Arasonar liggi að minnst kosti þrjú tímabil sem skerpt hafi einstaklingsvitund fólks og þar með lagt grunn að nútímalegri vitund þess um tilfinningar sínar og innri reynslu. Er þar átt við straumhvörf þau sem urðu á 12. öld, siðaskiptatímann á 16. öld og loks tímaskeið Jóns sjálfs, 18. öldina.[3] Þá skiptir og máli að Jón lét eftir sig umfangsmikil og hispurslaus sjálfsskrif í ævissögu sinni.[4]

Flestir sem um Guðmund fjalla staldra við áföll hans og afleiðingar þeirra og túlka þessi atriði á ýmsa lund. Jón Jóhannesson var fáorður um breytinguna sem varð á Guðmundi. Þó sagði hann að Guðmundur hafi orðið „allur annar maður“ eftir sjóslysið, hann hafi gerst mikill og meinlætasamur trúmaður og örlátur við fátæka en verið eirðarlaus og fullur óyndis. Taldi Jón ferðir Guðmundar um landið hafa nálgast flakk þó þær ættu að heita heimboð.[5] Annars tengdi Jón Jóhannesson hugarheim Guðmundar við þær guðfræði- og guðræknisstefnur sem uppi voru um svipað leyti á meginlandi Evrópu án þess þó að benda á bein tengsl Guðmundar við þær.[6] Flosi Sigurbjörnsson (1921–1986) cand. mag. taldi áföll Guðmundar hafa haft djúp áhrif á hann og hann tekið að hneigjast til „harðlífis og meinlætalifnaðar“ upp úr þeim.[7] Flosi taldi Guðmund einnig hafa verið þann biskup íslenskan „er lengst hefur gengið í því að gera sumar kenningar kristindómsins að meiru en játningu varanna.“[8] Hér gætir hlutlausra túlkana sem þó má kalla sálfræðilegar.

Síðar urðu túlkanir fræðimanna trúarlegri í þrengri skilningi. Þannig benti Svanhildur Óskarsdóttir (f. 1964)  miðaldafræðingur á að trúarviðhorf Guðmundar hafi mótast snemma á ævinni og lítið breyst eftir það.[9] Taldi hún hugmyndaheim Guðmundar einkum hafa mótast af áhrifavöldum eins og Þorláki Þórhallssyni (1133–1193 biskup frá 1178) og ágústínusarreglunni eins og hún var hér.[10] Jón Þ. Þór (f. 1944) sagnfræðingur taldi Guðmund hafa gerst „heitan trúmann og meinlætasaman“ sem hvergi hafi eirt nema skamman tíma í senn eftir fyrra áfall sitt og orðið „enn heittrúaðri og eirðarlausari“ eftir hið síðara[11]

Túlkanir tveggja guðfræðinga frá fyrri hluta 20. aldar vekja sérstaka athygli. Benjamín Kristjánsson áleit að erfðir og ættareinkenni hafi skipt miklu máli hvað skapgerð Guðmundar áhrærði og taldi hann hafa sótt andlegt og líkamlegt atgervi til ættarinnar en jafnframt stríðar tilfinningar, örlyndi og gjafmildi. Taldi Benjamín foreldra hans hafa verið örgeðja og tilfinningaríka.[12] Benjamín taldi áföll Guðmundar hafa leitt til mikillar „andlegrar byltingar í sál“ hans.[13] Benjamín leit svo á að „margir þeir eðliskostir, sem grónir voru í kyn hans“ hafi vaknað „til lífsins af alefli“ við áfallið og iðkun trúarinnar í kjölfarið.[14] Þá beitti Benjamín trúarlífs- eða jafnvel para-sálfræðilegum aðferðum til að túlka atferli Guðmundar eftir afturhvarfið sem hann tengdi við sagnir um „ýmsa vitrana menn og geðhrifalækna kristninnar frá upphafi“.[15] Þá sagði hann og að allt sem sagt væri um Guðmund, benti til að hann „hafi verið ecstatic, eins og t. d. Páll [postuli] og fjölda mörg önnur stórmenni trúarinnar“.[16] Með því átti Benjamín við að Guðmundur hafi verið í ástandi sem einkenndist af sterkum geðshræringum er stundum væru „eins og maðurinn sé innblásinn og magnaður af æðri krafti...“[17] Benjamín lagði áherslu á að Guðmundur hafi ófús orðið prestur og nauðugur undirgengist það að verða biskup.[18]

Er 760 voru liðin frá fæðingu Guðmundar (1921) fjallaði Magnús Jónsson (1887–1958) þáverandi dósent við guðfræðideild HÍ  um hann í grein. Leit hann þá svo á að skapgerð Guðmundar, meðal annars einþykkni og sjálfræði, hafi komið fram þegar í æsku og fylgt honum fram á fullorðinsár og inn í biskupsdóminn.[19]   Þá leit hann svo á að Guðmundur hafi frá upphafi hneigst í þá átt sem raun varð á, það er að hann hafi frá upphafi verið mikill trúmaður. Taldi Magnús áföll Guðmundar aðeins hafa hert á þroska hans í þá veru. Þá taldi hann að hættir Guðmundar hafi ekkert breyst á prestskaparárunum heldur hafi hann öll fullorðinsár sín keppt eftir að breyta eftir Kristi.[20] Lagði Magnús áherslu á kraftalegt útlit Guðmundar, prestlega hæfileika hans og áhrifamátt meðal almennings og jafnvel höfuðklerka þó ýmsir jafnvel úr klerkastétt yrðu til að bera brigður á kenningar hans.[21] Taldi Magnús Guðmund hafa ástundað trúarhætti sem tíðkast hefðu í landinu fyrir hans dag en hafið þá á „miklu hærra stig“.[22]

Í síðari grein um Guðmund sem birtist tveimur áratugum síðar hafði túlkun Magnúsar breyst mjög. Þá leit hann svo á  að lausnina á ráðgátunni um Guðmund væri ekki fyrst og fremst að finna í erfðri skaphöfn eins og Benjamín Kristjánsson hafði hallast að eða í samfelldum þroskaferli eins og hann hafði álitið í fyrri grein sinni.[23] Nú leitaði Magnús skýringa frekar í lífsreynslu Guðmundar. Taldi hann í því sambandi skipta miklu að Guðmundur hafi móti vilja sínum verið settur til bóknáms og þar með beint af braut veraldlegs höfðingjadóms sem hugur hans hafi staðið til. Þá hafi harðræði er hann bjó við í uppeldinu grópast í huga hans.[24] Nú taldi hann þó að sinnaskipti Guðmundar hafi skipt mestu máli og hafi þau gerst í tveimur áföngum, fyrst við það að sjóslysið hafi endanlega útilokað Guðmund frá hernaði og þar með höfðingjadómi. Þetta stig afturhvarfsins túlkaði Magnús sálfræðilega.[25] Síðara stig þess gerðist um fimm árum síðar við dauða náins vinar. Áleit Magnús aðeins mögulegt að skýra það trúarlega. Væri þeirri skýringu hafnað væri aðeins mögulegt að skilja breytinguna sem geðræna röskun.[26] Magnús taldi að í kjölfar áfallanna hafi öfgar í skapgerð Guðmundar komið betur fram og Guðmundur orðið „hreinn og sannur hugsjónamaður“.[27] Áleit Magnús hugsjón gregoríanismans einkum hafa mótað hugarheim Guðmundar eftir afturhvarfið.[28] Að því leyti taldi hann Guðmund hafa líkst Þorláki Þórhallssyni sem þó hafi verið „töluverður veraldarmaður“ og ekki „misst jafnvægið“. Þórhallur hafi því valið að berjast fyrir stefnu sinni í staðamálum og þar með lagt áherslu á efnahagslegt frelsi kirkjunnar. Guðmundur hafi hins vegar verið „andlegri“ og því beitt sér á sviði dómsvaldsins í kirkjunni er átt hafi sér upphaf í yfirbótarkerfi hennar.[29] Þá hafi hugsjónin um eftirbreytni eftir Kristi mótað hugarheim Guðmundar.[30] Í því efni hafi hann þó gengið „lengra í framkvæmd ölmusugæða en nokkurri átt náði og lengra en svo að heitið geti góðgerðasemi“. Er athyglisvert að Magnús gerði ráð fyrir að ástand Guðmundar hafi þróast til hins verra með tímanum og hann hafi smám saman orðið að „dulu í höndum misyndismanna, þjófa og slæpingja“ og „sýnst beinlínis hafa verið farinn að verða hálfruglaður á síðari árum, hann er orðinn að aumingja, sem enginn getur í raun og veru fylgt...“[31] Virðist hann þar með gera ráð fyrir að sálræn heilsa Guðmundar skipti verulegu máli til að skýra atferli hans. Loks taldi Magnús Brand í samnefndu leikriti Henriks Ibsen (1828–1906) frá 1865 nýtast best við túlkun á lífshlaupi Guðmundar en bent hefur verið á að imitatio Christi-hugsjónin sé meginviðfangsefni verksins.[32] Segja má að Brandur geri altæka kröfu um fórn til sjálfs sín og allra þeirra sem honum standa næstir og endi með að leiða söfnuð sinn í endasleppa „krossferð“ er afhjúpar andlegt ójafnvægi hans.[33]

Gunnar F. Guðmundsson (f. 1952) sagnfræðingur er sá sem næst kemst því í seinni tíða að hafa rannsakað persónu og líf Guðmundar Arasonar í líkingu við það sem hér verður freistað að gera. Gunnar bendir á að samkvæmt heimildum hafi Guðmundur þegar í æsku sýnt ákveðin persónueinkenni sem fylgt hafi honum ævilangt. Hann hafi verið „ólátr“, það er „ódæll“ og „viljað ráða, við hvern sem hann átti“.[34] Lítur Gunnar svo á að þessir skapgerðarþættir hafi fremur styrkst en veikst vegna „basls“ er verið hafi á foreldrum Guðmundar, láts föðurins, harðræðis er Guðmundur mætti af Ingimundi fóstra sínum sem „barði hann til bókar“ auk sífellds flakks og eirðarleysis er hafi verið hlutskipti hans á brensku- og unglingsárum. Hins vegar hafi hann verið nokkuð veraldlega sinnaður í æsku en tekið „rækilegum sinnaskiptum, [breyst] úr aðsópsmiklum unglingi í stríðlyndan guðsmann“, skapmikinn og einþykkan, vegna þeirra áfalla sem á honum dundu ungum.[35] Gunnar túlkar sinnaskipti Guðmundar á trúarlegan hátt eins og vissulega liggur nærri er miðaldabiskup á í hlut:

Saga kristni og kirkju geymir mörg hliðstæð dæmi um róttæk sinnaskipti í mótlæti. Það er eins og óbærileg nálægð við þjáningu og dauða hafi opnað augu margra, sem á annað borð höfðu í sér frækorn trúar, fyrir þjáningu Krists og annarra manna. Lausnin var fólgin í þeirri fullvissu eða köllun að eiga nú framvegis að axla með Kristi krossinn þunga síðasta spölinn á píslargöngunni. Hugsjónin var skilyrðislaus breytni eftir Kristi.[36]

Eins og fram er komið verður hér beitt annars konar túlkun á þessari sömu lífsreynslu Guðmundar þar sem litið verður á hana sem streituröskun eftir áfall. Þar með er ekki tekin afstaða gegn trúarlegri túlkun Gunnars. Á miðöldum hefur sálrænt áfall verið skilið, tjáð og túlkað með orðfæri kristinnar trúar. Hér verður aðeins leitast við að beita fleiri skýringarlíkönum.

Persónugerð og fyrri saga einstaklings getur haft áhrif á hvernig hann bregst við áföllum.[37] Þannig getur aðbúnaður Guðmundar í æsku hafa ráðið einhverju um hver viðbrögð hans við áföllunum urðu líkt og Gunnar lætur að liggja. Í þessu sambandi verður þó að huga að því hvort æska Guðmundar hafi í einhverju verið frábrugðin því sem almennt gerðist um hans daga.

Hér á landi var sem kunnugt er svo algengt að börn væru tekin í fóstur að sett var um slíkt sérstök lagamungjörð enda hafði fyrirbærið félagslega þýðingu.[38] Svipuðu máli gilti enda víða um lönd, það er að aðrir en foreldrarnir önnuðust börn frá sjö ára aldri og að uppeldi þeirra, nám og annar undirbúningur undir fullorðinsár færu saman.[39] Hlutverk fjölskyldunnar við að skapa tilfinningalega nánd var því takmarkað miðað við það sem síðar varð.[40] Þá var strangur agi með líkamlegum refsingum fastur liður í kennslu langt fram eftir öldum enda var litið svo á að börn væru siðferðislega veikar mannverur og þyrftu strangan aga til að stofna ekki eilífri velferð sinni í hættu.[41] Leyfar hins harða skólaaga hafa varðveist allt til þesssa í orðtökum eins og „að berja til bókar“ og „enginn verður óbarinn biskup“.

Sú mynd sem heimildir bregða upp af uppvexti Guðmundar er því í meginatriðum dæmigerð. Það breytir því þó ekki að Guðmundur hefur eins og ávallt er raunin brugðist við dæmigerðum aðstæðum sínum á einstaklingsbundinn hátt. Aðstæður Guðmundar í æsku hafa því mótað tilfinningalíf hans og skaphöfn. Þær geta þó ekki einar og sér talist skýra sérleika hans á fullorðisnárum með fullnægjandi hætti.[42] Því er hér leitað skýringa í sértækari reynslu hans síðar á ævinni.

Heimildir og hjálpargögn

Af vefnum

Brand (play). Slóð sjá heimildaskrá. http://en.wikipedia.org/wiki/Brand_(play) (18. 3. 2011).

Útgefin gögn:

Ariés, Philippe, 1982: Barndomens historia. Án útgs., Gidlunds.

Benjamín Kristjánsson, 1937: „Guðmundur biskup góði Arason. Sjö alda minning flutt á Hólum 29. ág. 1937.“ Kirkjuritið. 3. ár. Nóv. 1937. Reykjavík. S. 346–371.

Breisch, Agneta, 1994: Frid och fredlöshet. Sociala band och utanförskap på Island under äldre medeltid. (Acta Univeristatis Upsaliensis/Studia Historica Upsaliensia. 174. Ritstj.  Uppsala, Historiska Institutionen.) Uppsla universitet.

Erikson, Erik H., 1972: Young man Luther. A Study in Psychoanalysis and History. London, Faber anda Faber.

Flosi Sigurbjörnsson, 1951: „Guðmundur biskup Arason hinn góði og hrun íslenzka þjóðveldisins 1262-´64.“ Á góðu dægri. Afmæliskveðja til Sigurðar Nordals 14. sept. 1951 frá yngstu nemendum hans.“ Án útgst., Helgafell. S. 76–82.

Gunnar F. Guðmundsson, 2001: „Guðmundur Arason. Biskup fátækra?“ Merki krossins. 2. h. 2001. Reykjávík. S. 20–26.

Gurevitj, Aron, 1997: Den svårfångade individen. Självsyn hos fornnoridska hjältar och medeltida lärde i Europa. Stokhólmi, Ordfront.

Handbók um geðraskanir og skyld heilbrigðisvandamál, 1999. 1. b. Hugtök og heiti. Griningarskilmerki og skýringar. Ön Bjarnason bjó til prentnar. Reykjavík, Orðabókarsjóður læknafélaganna.

Hjalti Hugason, 2003. „Guðmundur Arason. Kynlegur kvistur úr röðum Viktorína.“ Ritröð Guðfræðistifnunar/Studia thelogica islandica. 17. Reykjavík, Guðfræðistofnun, Skálholtsúgáfan. S. 161–192.

Hjalti Hugason, 2004. „Afmælishald og sjálfsvitund. Greining á dagbókum sr. Hálfdánar Einarssonar (1801–1865).“ Saga. Tímarit Sögufélags. XLII:1 2004. Reykjavík, Sögufélag. S. 59–89.

Hjalti Hugason, 2008. „Sjálfsvitund á barmi taugaáfalls. Sr. Jón Steingrímsson og þróun einstaklingsvitundar.“ Menntaspor. Rit til heiðurs Lofti Guttormssyni sjötugum 5. apríl 2008. Reykjavík, Sögufélag. S. 225–239.

Hjalti Hugason, 2012. „Áfallatengt álagsheilkenni á miðöldum? Ráðgátan Guðmundur Arason í ljósi meðferðarfræða nútímans.“ Skírnir. Tímarit Hins íslenska bókmenntafélags. 186. ár. Vor 2012. Reykjavík, Hið íslenska bókmenntafélag. S. 98–124.

Ibsen, Henrik, 1898: Brandur. Sjónleikur í hendingum. Þýð. Matthías Jochumsson. Reykjavík, Félagsprentsmiðjan.

Jón Jóhannesson. 1956. Íslendinga saga 1. Reykjavík: Almenna bókafélagið.

Jón Steingrímsson, 1973: Æfisagan og önnur rit. Kristján Albertsson gaf út. Reykjavík, Helgafell.

Jón Þ. Þór, 2007: „Dýrlingur alþýðunnar. Guðmundur góði.“ Sagan öll. Nr. 11/2007. Reykjavík. S. 42–50.

Magnús Jónsson, 1921: „Guðmundur biskup góði.“ Eimreiðin. XXVII. ár. Reykjavík. S. 172–192.

Magnús Jónsson, 1941: „Guðmundur biskup góði.“ Samtíð og saga. Nokkrir háskólafyrirlestrar. 1. Reykjavík, Ísafoldarprentsmiðja H.F. S. 115–134.

Magnús Már Lárusson, 1959: „Fostring.“ Kulturhistorisk leksikon for nordisk middeladler fra vikingetid til reformationstid. IV. b. Epistolarium – Frälsebonde. Reykjavík, Bókaverslun Ísafoldar. S. 544–545.

Skovgaard-Petersen, Vagn, 1970: „Skole.“ Kulturhistorisk leksikon for nordisk middeladler fra vikingetid til reformationstid. XV. b. Samisk språk — Skude. Reykjavík, Bókaverslun Ísafoldar. S. 631–637.

Stefán Karlsson, 1977: „Misskilin orð og misrituð í Guðmundar sögum.“ Gripla. II. Ritstj. Jónas Kristjánsson. (Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi. Rit. 16.). Reykjavík, Stofnun Árna Magnússonar. S. 121–131.

Sturlunga saga I. 1946. Jón Jóhannesson, Magnús Finnbogason og kristján Eldjárn sáu um útgáfuna. Reykjavík: Sturlunguútgáfan.

Svanhildur Óskarsdóttir, 1992: „Að kenna og rita tíða á millum: Um trúarviðhorf Guðmundar Arasonar.“ Skáldskaparmál. Tímarit um íslenskar bókmenntir fyrri alda. 2. h. Reykjavík. S. 229–238.

The ICD–10 Classification of Mental and Behavioral Disorders. Clinical Descriptions and Diagnostic Guidelines, 1992. Genf, World Health Organization.


[1] Hjalti Hugason 2012.

[2] Hjalti Hugason 2008.

[3] Hjalti Hugason 2008: 225-227.

[4] Jón Steingrímsson 1973.

[5] Jón Jóhannesson 1956: 236–237, 250–252.

[6] Jón Jóhannesson 1956:252.

[7] Flosi Sigurbjörnsson 1951: 77.

[8] Flosi Sigurbjörnsson 1951: 82.

[9] „Það lítur út fyrir að erfið lífsreynsla hafi knúið hann til að endurskoða trúarfastöðu sína og leitt hann til strangara meinlætalífernis en menn vissu dæmi til um hér á landi.“ Svanhildur Óskarsdóttir 1992: 232. Þá taldi hún Guðmund gæddan óvenjulegum „sannfæringarmætti“ og persónutöfrum“. Svanhildur Óskarsdóttir 1992: 233.

[10] Svanhildur Óskarsdóttir 1992: 234–237.

[11] Jón Þ. Þór 2007: 47.

[12] Benjamín Kristjánsson 1937: 350.

[13] Benjamín Kristjánsson 1937: 353.

[14] Benjamín Kristjánsson 1937: 353–354.

[15] Benjamín Kristjánsson 1937: 356.

[16] Benjamín Kristjánsson 1937: 356

[17] Benjamín Kristjánsson 1937:356.

[18] Benjamín Kristjánsson 1937: 351.

[19] Magnús Jónsson 1921: 174–175.

[20] Magnús Jónsson 1921: 173, 176, 178, 190.

[21] Magnús Jónsson 1921: 176–184.

[22] Magnús Jónsson 1921: 184.

[23] Magnús Jónsson 1941: 118.

[24] Magnús Jónsson 1941: 120–121.

[25] Magnús Jónsson 1941: 121.

[26] Magnús Jónsson 1941: 121–122.

[27] Magnús Jónsson 1941: 133.

[28] Magnús Jónsson 1941: 122–124.

[29] Magnús Jónsson 1941: 125–128.

[30] Magnús Jónsson 1941: 130–132.

[31] Magnús Jónsson 1941: 132, 133.

[32] Magnús Jónsson 1941: 134. Brand (play). Slóð sjá heimildaskrá.

[33] Ibsen 1898.

[34] Sturlunga saga 1946(1): 123 (Prestssaga Guðmundar góða). Gunnar F. Guðmundsson  2001:22. Sjá Stefán Karlsson 1977: 121–123.

[35] Gunnar F. Guðmundsson  2001:22. Benjamín Kristjánsson (1937: 348, 350) skýrir skapsmuni Guðmundar með tilvísun til erfða og uppeldis.

[36] Gunnar F. Guðmundsson 2001: 22.

[37] Sjá The ICD–10 Classification af Mental and Behaviour Disorders 1992: 148.

[38] Magnús Már Lárusson 1959: 544–545. Breisch 1994: 104 nmgr 234.

[39] Ariés 1982: 6, 85, 156–157, 176, 186

[40] Ariés 1982: 6–7, 231–232.

[41] Skovgaard-Petersen 1970: 636. Erikson 1972: 74–76 . Ariés 1982: 180.

[42] Hér verður þó að gæta að einstaklingar á öllum tímum bregðast misjanft við sambærilegum uppeldisaðstæðum. Erikson 1972: 59, 60, 65.