Snorri í Betel — trú- og tjáningarfrelsið

Hjalti Hugason, 19. February 2012 13:56


 

Kennarinn Snorri Óskarsson kenndur við Betel skrifaði svo í bloggfærslu í lok janúar s.l.:

 

Kjarninn í sjónarmiði evangelískra er sá að samkynhneigðin telst vera synd. Syndin erfir ekki Guðs ríkið og því óæskileg. Laun syndarinnar er dauði og því grafalvarleg. (http://snorribetel.blog.is/blog/snorribetel/entry/1220188/#comments)

Þannig að öllu sé til skila haldið er Snorri hér að bregðast við ásökunum einhverra ótilgreindra mannréttindasamtaka er hann telur kenna „...evangelískum prestum um aukið hatur í garð samkynhneigðra".

Mergurinn málsins er að Snorri lýsir því yfir að það sé trúarafstaða sín að samkynhneigð sé synd er útiloki fólk, þ.e. samkynhneigða, frá Guðs ríki. Þá telur hann sig ekki aðeins tjá persónulegu skoðun sína heldur sannfæringu allra sem telja sig „evangelíska“. Með þessu gefur hann orðum sínum aukið vægi enda bloggar hann sem „ safnaðarhirðir Hvítasunnukirkjunnar á Akureyri“.

 

Hver er „evangelískur“?

Ýmis frjáls, kristin trúfélög sem segja má að standi „hægra megin“ við evangelísk-lúthersku þjóðkirkjuna telja sig „evangelísk“ (dregið af evangélion (gríska) = fagnaðarerindi) í þeirri merkingu sem Snorri notar. Eitt af einkennum trúfélaga af þessu tagi sem raunar ræður ferðinni í bloggfærslu Snorra er bókstafstrú eða fúndamentalismi. Hún felur í sér að litið er svo á að Biblían Guðs orð t.d. eins og hún er orðrétt í útgáfu JPV og HÍB frá 2007 — en þó e.t.v. frekar í einhverri eldri útgáftu! Að lútherskum skilningi er hins vegar litið svo á að í Biblíunni sé Guðs orða að finna, þ.e. þar tali Guð með sérstökum hætti en þó ekki alls staðar og ekki alltaf eins, því verði að vega, meta og túlka hvern ritningarstað fyrir sig.

 

Er í lagi að láta í ljósi trúarafstöðu af ofangreindu tagi sem augljóslega beinist að einum ákveðnum minnihlutahópi sem um aldir hefur sætt þöggun og mismunun, á stundum beinum ofsóknum og hefur á s.l. áratugum orðið að berjast þrotlausri baráttu til aukins jafnræðis við aðra þjóðfélagsþegna?

Hér kemur einkum til álita hvernig litið er á trú- og tjáningarfrelsi í landinu.

 

Snorri og trúfrelsið

Trúfrelsið er útfært í stjórnarskrá lýðveldisins og lögum um mannréttindasáttmála Evrópu.

 

Í stjórnarskánni segir:

63. gr. Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu.

64. gr. Enginn má neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna, né heldur má nokkur fyrir þá sök skorast undan almennri þegnskyldu.

(Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands 1944 nr. 33 17. júní. http://www.althingi.is/lagas/140a/1944033.html).

 

Ákvæði  Mannréttindasáttmála Evrópu eru mjög samhljóða enda er hann lögiltur hér á landi en þar segir í 9. gr.:

1. Sérhver maður á rétt á að vera frjáls hugsana sinna, samvisku og trúar. Í þessu felst frelsi manna til að breyta um trú eða sannfæringu svo og til að rækja trú sína eða sannfæringu, hvort heldur einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einkavettvangi, með guðsþjónustu, boðun, breytni og helgihaldi.
2. Frelsi manna til að rækja trú sína eða sannfæringu skal einungis háð þeim takmörkunum, sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna almannaheilla, til verndar allsherjarreglu, heilsu manna eða siðgæði eða rétti og frelsi.

(Lög um mannréttindasáttmála Evrópu 1994 nr. 62 19. maí. http://www.althingi.is/lagas/140a/1994062.html)

Hér er mælt fyrir því nær ótakmörkuðum rétti til að aðhyllast hvaða trúarskoðanir sem er og tjá þær svo fremi sem það brjóti ekki í bága við önnur lög eða nauðsyn beri til að takmarka það og þá til að standa vörð um lýðræði, almannaheill, allsherjarreglu, heilsu fólks, siðgæðis þess, rétt eða frelsi.

Sé talið nauðsynlegt að grípa til takmörkunar á trúfrelsi einstakling og/eða heilla trúfélaga verður það einvörðungu gert á grundvelli laga og að föllnum dómi fyrir brot á lögum. Þar geta komið til álita hegningarlög (vegna meiðyrða eða brota gegn friðhelgi einkalífs) eða önnur lög svo sem dýraverndarlög (vegna slátrunaraðferða eða fórna), hjúskaparlög (vegna hugsanlegs fjölkvænis og fl.) eða enn önnur lög.

Af þessu má ráða að einstaklingnum Snorra í Betel er frjálst að aðhyllast fúndamentalisma og tjá hann og túlka með öllu mögulegu móti meðan hann brýtur ekki hengingarlög eða önnur lög sem til greina geta komið.

 

Snorri og tjáningarfrelsið

Upphaf mannréttindabaráttu er að rekja til sóknar til aukins trúfrelsis á dögum trúarnauðungar sem ríkti í einhverri mynd hvarvetna í Evrópu fram undir aldamótin 1800.

 

Í seinni tíð hafa margir tekið að efast um „heilagleika“ trúfrelsisins og telja að það eigi að takmarka miðað við það sem nú er — a.m.k. hvað trúarlega tjáningu áhrærir. Á sama tíma hefur „helgi“  tjáningarfrelsisins aukist til muna. Hér um árið þótti dönskum teiknurum og blaðaútgefendum t.d. tjáningafrelsi sitt skert fengju þeir ekki óáreittir að birta háðsteikningar af Múhameð spámanni. Um svipað leyti töldu íslenskir áfengisauglýsendur að tjáningarfrelsi sínu vegið fengju þeir ekki að vekja athygli á vöru sinni á sjónvarpsskjánum.

 

Hér á landi er tjáningarfrelsi líkt og trúfrelsi skilgreint í stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum. Ber þar raunar flest að sama brunni og að framan segir um trúfrelsið. Í stjórnarskránni segir þannig:

 

73. gr. Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.
Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.
Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

(Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands 1944 nr. 33 17. júní. http://www.althingi.is/lagas/140a/1944033.html).

 

Ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu eru í sama anda. Þar segir í 10. gr:
1. Sérhver maður á rétt til tjáningarfrelsis. Sá réttur skal einnig ná yfir frelsi til að hafa skoðanir, taka við og skila áfram upplýsingum og hugmyndum heima og erlendis án afskipta stjórnvalda. Ákvæði þessarar greinar skulu eigi hindra ríki í að gera útvarps-, sjónvarps- og kvikmyndafyrirtækjum að starfa aðeins samkvæmt sérstöku leyfi.
2. Þar sem af réttindum þessum leiðir skyldur og ábyrgð er heimilt að þau séu háð þeim formsreglum, skilyrðum, takmörkunum eða viðurlögum sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, landvarna eða almannaheilla, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu eða siðgæði manna, mannorði eða réttindum og til þess að koma í veg fyrir uppljóstran trúnaðarmála eða til þess að tryggja vald og óhlutdrægni dómstóla.

(Lög um mannréttindasáttmála Evrópu 1994 nr. 62 19. maí. http://www.althingi.is/lagas/140a/1994062.html)

Hvað sem okkur kann að virðast um skoðanir Snorra í Betel og hugsanlega annarra „evangelískra“ trúarleiðtoga er ljóst að þetta frelsi nær til þeirra ekki síður en annarra. Tjáningarfrelsi þeirra hlýtur þó að lúta sömu skorðum og annarra. Þeir mega ekki nota frelsi sitt til að vega að „heilsu eða siðgæði manna, mannorði eða réttindum.“

 

Trúfélög njóta aukins félagafrelsis hér á landi þar sem um þau gilda sömu stjórnarskrárákvæði og önnur félagasamtök í landinu (74. gr.) en auk þess er kveðið á um réttindi þeirra sérstaklega eins og að framan greinir. Á hinn bóginn búa trúfélög, trúarleiðtogar eða trúfólk ekki við aukið tjáningarfrelsi. — Trúartjáning er háð öllum sömu takmörkunum og tjáning annarra skoðana.

 

Hér hlýtur líka að koma til skoðunar að hér á landi eru það ekki síst fulltrúar trúfélaga sem telja að tjáningarfrelsi hafi verið misbeitt. Slíkt var nánast árlegur viðburður þegar að páskaþætti Spaugstofunnar kom hár á árum áður. Af þeim sökum ættu einmitt þeir að fara varlega í tjáningu sinni í viðkvæmum málum ef ekki væri fyrir annað en „gullnu regluna“: Allt sem þér viljið að aðrir menn gera yður það skuluð þér og þeim gera“ (Mt. 7. 12).

 

 

Snorri er leiðtogi í skráðu trúfélagi

Snorri Óskarsson er ekki hvaða einstaklingur sem er enda gerir hann sig að talsmanni trúarlegrar breiðfylkingar — „evangelíska“ armsins á Íslandi — sem ekki virðist hafa tekið afstöðu gegn yfirlýsingu hans. Hann er og „safnaðarhirðir“ Hvítasunnukirkjunnar á Akureyri sem er  skráð trúfélag.

 

Skráð trúfélög njóta ýmissa forréttinda sem önnur félög njóta ekki. Trúfélög sem ekki hafa hlotið skráningu sitja t.d. við annað borð. Sama máli gegnir enn sem komið er um lífsskoðunarfélög en það eru félög sem að öllu leyti eru sambærileg trúfélögum nema hvað þau boða veraldlega lífsskoðun, t.d. siðrænan húmanisma eins og Siðmennt. Meðal réttinda skráðra trúfélaga er að ríkið innheimtir fyrir þau félags- eða sóknargjöld og forstöðumenn þeirra mega framkvæma ýmsar opinberar athafnir t.d. hjónavígslur.

 

Félög sem á þennan hátt starfa í ákveðnum tengslum við hið opinbera og njóta fyrirgreiðslu þess og verndar verða að rísa undir ákveðnum væntingum sem beinast ekki síst að leiðtogum þeirra. Þess verður t.d. að krefjast að þessi félög séu lýðræðisleg í uppbyggingu og virða almennar réttarreglur samfélagsins, að félagsmenn geti valið sér leiðtoga og sett þá af, að mögulegt sé að ganga úr félögunum án eftirmála, sem og að leiðtogarnir kenni ekki annað en það sem greinilega er hluti af hefðbundinni, skilgreindri kenningu trúfélagsins eða trúarjátningum þess. Þau stjórnvöld sem veita trúfélögum skráningu hljóta að fylgja því eftir að orðið sé við þessum væntingum. — Á það skal bent að þetta eru allt formlegar kröfur. Það er hins vegar ekki æskilegt að skráning velti á inntakslegum atriðum, t.d. þannig að fúndamentalismi í einni eða annarri mynd komi í veg fyrir skráningu. Slíkt bryti enda í bága við stjórnarskrána.

 

Hér er enn til þess að taka að mörg trúfélög hafa haslað sér völl innan velferðargeirans með ýmsu móti. Það á ekki síst við um Hvítasunnukirkjuna. Sjálfur tel ég þau geta lagt marg gott af mörkum á þeim vettvangi. Til þess er þó mikilvægt að jákvæður mannsskilningur liggi til grundvallar í starfi þeirra. Gætir slíks skilnings í tilvitnuðum orðum Snorra?

 

 

Snorri er kennari

Í því máli sem hér er um ræðir kemur enn til álita að Snorri í Betel kynnir sig sem kennara á bloggsíðu sinni. Hann gegnir því „skuldbundnu lífsstarfi“. Dr. Broddi Jóhannesson einn helsti menntafrömuður kennara á 20. öld skilgreind slíkt starf svo:

 

Starfið veltur á viðurkenndum forða sameiginlegrar þekkingar, kunnáttu sem leikni, og sameiginlegu siðgæði starfsmanna. Gæta þeir þess sjálfir án ytri íhlutunar og af því hugarfari að skyldur þeirra við skjólstæðinga sína séu æðri öðrum skyldum. (www.forseti.is/media/files/2006.2.aevistarf.pdf)

 

Breið samstaða hefur ríkt um þessa skilgreiningu eða hugsjón kennararstarfsins um langt hríð. Á grundvelli hennar eru siðareglur kennarastéttarinnar settar. Í ljósi hennar verður og að taka afstöðu til ummæla Snorra. Sem kennari hefur hann sérstaka stöðu gagnvart fjölda barna og unglinga á viðkvæmu mótunarskeiði ævinnar þegar þau eru á nýjan hátt að átta sig á kynverund sinni, tilfinningum og trú.

 

Skyldur kennara við nemendur sína, hver sem kynhneigð þeirra er, er æðri öðrum skyldum. Hlutverk kennara er að leiðbeina og byggja upp en ekki að brjóta niður eða meiða.

 

 

Snorri í Betel og ég

Nú mælir Snorri í Betel á engan hátt fyrir minn munn. Ég lít ekki á mig sem hluta af þeim „evangelíska“ armi kristninnar sem hann gerir sig að talsmanni fyrir. Þrátt fyrir það koma orð hans mér við. Við erum þrátt fyrir allt báðir félagar í hinni „almennu kirkju“ Krists í þessum heimi. Með orðum sínum er Snorri því að  draga upp mynd af sameignlegri trú okkar, kristninni. — Mynd hans meiðir mig.

 

Við sem játum kristni lítum flest svo á að uppistaðan í henni sé fagnaðarerindi Krists um fyrirgefningu, endurnýjun, endursköpun, endurreisn og jafnstöðu allra frammi fyrir augliti Guðs. Eru ummæli Snorra í Betel til þess fallin að tjá og boða slíka trú? Það ætti ekki síst að vera hlutverk þeirra sem kalla sig evangelíska og kenna sig þannig við sjálft fagnaðarerindið? Er málflutningur Snorra boðun fagnaðarerindis, jákvætt innlegg í samfélagumræðu eða skynsamleg leið til að vinna kristinni trú fylgi við þær aðstæður sem nú ríkja?

 

Að mínum skilningi sýna ummæli Snorra fyrst og fremst hversu hárfín lína liggur á milli ákveðins arms kristinnar trúar og þeirra trúarbragða sem mörgum, ekki síst „evangelískum“, stendur svo mikill stuggur af að helst verður að bægja þeim sem þau játa frá svo sjálfsögðum mannréttindum að eignast guðshús að eigin hætti hér í Reykjavík.