Ólafur Ragnar Grímsson — Framboð og eftirspurn

Hjalti Hugason, 25. February 2012 11:40

Ég heyrði tvöföld skilaboð í nýársávarpi forsetans nú um áramótin. Undir lok þess tók hann að skýra frá framtíðaráformum sínum og benti á að vera hans á Bessastöðum væri þegar orðin löng og því eðlilegt að hann væri tekinn að „hlakka til frjálsari stunda“. Því næst dró hann upp dramtíska mynd:

 

Að dómi margra eru tímarnir hins vegar markaðir verulegri óvissu og er þá einkum vísað til stöðu stofnana og samtaka á vettvangi þjóðmálanna, að stjórnarskráin hafi verið sett í deiglu breytinga, fullveldi Íslands orðið dagskrárefni vegna viðræðna við Evrópuríki og áríðandi sé að málstaður þjóðarinnar birtist skýrt í alþjóðlegri umfjöllun.

 

Á grundvelli þessa er svo höfðað til skyldurækni forsetans, trúnaðarins sem fólkið í landinu hefur sýnt mér.

 

Ummælin um skylduræknina komu dálítið á óvart en gáfu því sem á undan hafði farið aukið vægi. Svo kom framhaldið:

 

Vissulega hef ég á nýliðnum vetrardögum íhugað vandlega þessi sjónarmið. Niðurstaðan kann að hljóma sem þversögn en er engu að síður sú að aðstæður þjóðarinnar séu þess eðlis að ég geti fremur orðið að liði ef val á verkefnum verður eingöngu háð mínum eigin vilja, óbundið af þeim skorðum sem embætti forsetans setur jafnan orðum og athöfnum.

 

Þegar skyldur þjóðhöfðingjans hvíla ei lengur á mínum herðum fæ ég meira frelsi til að sinna hugsjónum og málefnum sem hafa lengi verið mér kær, ...

 

Ákvörðun mín felur því ekki í sér kveðjustund heldur upphaf að annarri vegferð, nýrri þjónustu við hugsjónir sem hafa löngum verið mér leiðarljós; frjálsari til athafna en áður og ríkari af reynslunni sem forsetaembættið færir hverjum þeim sem þjóðin kýs. (http://www.forseti.is/media/PDF/2012_01_01Aramotaavarp.pdf Sótt: 16. 2. 2012.)

 

Að ávarpinu loknu var niðurstaða mín þessi: Ólafur Ragnar hafði opnað hurðina á forsetasetrinu í hálfa gátt og gat gengið hvort heldur sem er út eða inn að nýju og þá með endurnýjað umboð. Boltinn var þó augljóslega hjá þjóðinni og auðvelt að sjá fyrir sér nýleg dæmi um að undirskriftalistar væru afhentir á Bessastöðum þótt um annað efni væru.

 

Flétta eða ekki — niðurstaðan varð alla vega sú að öldungadeild í íslenskum þjóðmálum hefur nú safnað undirskriftum sem í senn hljóta að sýna trúnað fólkins í landinu og höfða til samvisku forsetans þrátt fyrir að óskir um lokatölur hafi ef til vill ekki ræst.

 

Ég studdi Ólaf Ragnar

Ég  kaus Ólaf Ragnar  á sínum tíma og var stoltur af því.

 

Eftir tvo forseta úr menningargeiranum fannst mér áhugavert að fá mann af vettvangi hinna hörðu þjóðmála, taldi það jarðtengja Bessastaði og að það væri gott annað slagið. Þá fannst mér ögrandi að máta stjórnmálafærðing í stólinn ef það mætti verða til þróa embættið í nýja átt.

 

Því er ekki unnt að neita að forsetaembættið hefur í tíða Ólafs Ragnars orðið fyrirferðarmeira en áður var. Það hefur orðið að reikna með forsetanum. Það þurfti líklega mann með sérþekkingu á stjórnskipaninni, langa stjórnmálareynslu og hæfilegan skammt af ósvífni til að beita málskotsréttinum.

 

Ég hef fráleitt verið sammála öllum orðum og gjörðum Ólafs Ragnars. Hann hefur þó ekki valdið mér vonbrigðum að þessu leyti.

 

Síðasti söludagur

Nú verðum bæði Ólafur Ragnar og við sem studdum hann í upphafi að gera okkur grein fyrir að endingartími forseta hefur styst til muna í seinni tíð. Um daga Ásgeirs Ásgeirssonar hefði forseti líklega geta setið í fjögur, fimm kjörtímabil án þess að þreyta þjóð sína um of. Kristján Eldjárn sem sat þrjú tímabil hefði líklega geta haldið áfram. Síðan hefur styst í síðasta söludag.

 

Þetta hefur í sjálfu sér ekkert að gera með persónu forsetans. Vigdísi fylgdi auðvitað alveg sérstakur ferskleiki á allan mögulegan máta. Skýringin á því að líftími forseta í embætti er að styttast felst í síaukinni fjölmiðlun og þá einkum í sjónvarpi. Þar sem er konungsveldi er heilli ætt á að skipa og hirð að auki. Þar eru brúðkaup, afmælishátíðir og ýmis konar skrautsýningar sem gleðja augað. Samt gætir þar þreytu. Forsetaembætti okkar er sem betur fer ákaflega alþýðlegt og látlaust. Einn karl í jakkafötum eða kona í dragt með fáa málaflokka á sínum snærum endist illa í mynd.

 

Auðvitað þarf nokkra festu kringum embætti eins og forsetaembættið. Enginn ætti þó að freista þrásetu í þeim stóli.

 

 

Maður með fortíð!

Svo er því vissulega ekki að neita að Ólafur Ragnar er með fortíð frá útrásartímanum eins og allir aðrir sem þá tóku þátt í opinberu lífi. Að vísu er frasinn „Gamla Ísland“ nú að mestu gleymdur. Örugglega er það vegna þess að vonin um „Nýja Ísland“ varð að engu. Ólafur Ragnar kemst þó tæpast hjá því að vera talinn forseti „Gamla Íslands“. — Á því herrans ári 2012 er þó enn tækifæri til að taka skref í átt að nýjum tíma. Hjálpar ekki Ólafur Ragnar betur til í því efni með að hverfa til  þeirra nýju ögrandi verkefna sem hann taldi upp í áramótaávarpinu en með því að vera kyrr á Bessastöðum?

 

Hér er alls ekki átt við að forsetinn hafi átt þátt í Hruninu þótt hann dansaði vissulega í partíinu. Það hefur hann örugglega gert án þess að hafa öll spil á hendi líkt og við hin. Þetta skiptir þó vissulega máli.

 

Nýársdagur á Bessastöðum

Á veltiárunum gegndi ég starfi sem fól í sér árlega ferð til Bessastaða á nýársdag. Þetta var á margan hátt skondið ritúal. Maður kom á staðinn, heilsaði forsetahjónunum og bauð gleðilegt nýár. Síðan spjallaði maður við mann og annan stutta stund og drakk vatn úr fínu glasi — maður var jú á bíl og hafði vakað fram undir morgun! Loks laumaðist maður út og keyrði heim. Þetta var í alla staði verðugt og rétt, þétti raðirnar og minnti mann á skyldur sínar við land og þjóð. Ég sé síður en svo eftir þessum stundum. Það er líka oft svo fallegt á Álftanesinu í vetrarsólinni.

 

Eitt árið gerðist skrýtið atvik. Ég var á spjalli við einhvern um daginn og veginn. Þá var komið aftan að mér, tekið hraustlega á mér og mér vikið til hliðar líkt og í biðröð á bar. Ég lít um öxl og fyrir aftan mig stendur digur maður, svartur á hár og skeggrót. Skýringin sem ég fékk var: „Ég ætla að tala við hann Jón þarna!“ Síðar komst ég að því þetta var ólukkutröll úr bankaheiminum.

 

Var skýringin á framkomu mannsins sú að hann fann sig heima, vissi að hann átti Bessastaði inn að kviku en að ég var óbreytt aðskotadýr? Í öllu falli verðum við að fá tryggingu fyrir því hver á Bessastaði. Það gerum við best með því að skipta út í brúnni helst ekki sjaldnar en á 12 ára fresti — jafnvel oftar.