Velferðarþjónusta og trú

Hjalti Hugason, 29. March 2012 09:12

 

Hjalti Hugason prófessor og Ragnheiður Sverrisdóttir djákni

 

Velferðarþjónusta og trú

Fyrir skömmu skrifuðust fulltrúar meiri- og minnihluta í borgarstjórn Reykjavíkur á um þátttöku trú- og lífsskoðunarfélaga í velferðarþjónustu  hér í Fréttablaðinu (14. og 15. 3.). Það sem umræða þessara aðila þyrfti þó helst að snúast um er hvert sé ásættanlegt lágmark í þeirri þjónustu sem hið opinbera veitir þeim sem standa höllustum fæti í samfélagi okkar.

 

Margs konar velferð

Mögulegt er að byggja upp velferðarkerfi eftir ólíkum leiðum. Sú leið sem helst hefur verið farin á Norðurlöndunum felst í að hið opinbera kostar velferðarkerfið af skattfé okkar. Kostir þess eru fjölmargir. Það er t.a.m. lögboðin skylda ríkis og/eða sveitarfélaga að tryggja öllum mannsæmandi lágmarkslífskjör en slíkt er frumlægur réttur okkar hver svo sem staða okkar er að öðru leyti. Margir hafa aftur á móti bent á það sem óskost að þetta fyrirkomulag geti firrt okkur samfélagslegri og sammannlegri ábyrgð. Þeir líta þá svo á að það sé kostur að við sem betur erum sett látum eitthvað af hendi rakna til almennrar velferðar af fúsum og frjálsum vilja.

Önnur leið er að velferðarkerfið sé í ríkum mæli byggt upp af frjálsum félagasamtökum sem heyra til „þriðja geiranum“ sem samanstendur af samtökum og -stofnunum sem starfa utan hins opinbera og sækjast hvorki eftir hagnaði né dreifa honum. Þessum geira tilheyra líknarfélög, hjálparsamtök og stofnanir, trúfélög og neytendafélög svo nokkuð sé nefnt. Veikleikar velferðarkerfis sem hvílir á „þriðja geiranum“ er að í skjóli þess getur hið opinbera vísað frá sér ábyrgð og stjórnvöld látið félagasamtökum eftir að ráða ferðinni í velferðarmálum.

 

Bland í poka?

Velferðarkerfi okkar er samþætt úr þessum tveimur leiðum. Við höfum byggt hér upp kerfi sem hvílir á hinni norrænu velferðarhugsun. Hjá okkur liggur hið félagslega öryggisnet þó lágt og möskvar þess eru stórir. Af þeim sökum hafa margir lent hér í frjálsu falli. Fé hefur aldrei legið hér á lausu til velferðarmála ýmist vegna stefnu stjórnvalda eða sökum þess að fé skorti eins og segja má eftir Hrun.

Á móti kemur að sjálfboðasamtök af ýmsu tagi hafa verið virk í velferðarmálum og þátttaka í landssöfnunum hefur verið góð. Ætíð verður þó að spyrja hversu mikið hið opinbera geti dregið úr þjónustu sinni án þess að bregðast skyldum sínum í því velferðarsamfélagi sem við viljum flest vera hluti af.

 

Þáttur trú- og lífsskoðunarfélaga

Trú- og  lífsskoðunarfélög hafa ætíð verið fyrirferðarmikil innan „þriðja geirans“ enda er það samofið eðli þeirra flestra að vinna að samfélagsmálum. Þegar kristin trúfélög eiga í hlut má benda á að sagan af miskunnsama Samverjanum er ein af lykilsögunum sem notaðar eru til að lýsa inntaki trúarinnar. Það er hluti af kristinni trú að vinna að velferð. Þá er það gömul reynsla og ný að meira verður oft úr peningunum þar sem starf og hugsjón fara saman eins og oftast er í trú- og lífsskoðunarfélögum. Það væri því skaði ef samtökum af þessu tagi væri ýtt úr úr velferðargeiranum eða byggðir upp eldveggir milli þeirra og hins opinbera félagsmálakerfis. Betra væri að þétta samvinnu hins opinbera og „þriðja geirans“ með hagsmuni neytendanna í huga.

Þegar hið opinbera gengur til samstarfs við trú- og lífsskoðunarfélög á sviði velferðarþjónustu sem m.a. felur í sér styrk af almannafé er nauðsynlegt að reglubundið faglegt eftirlit sé með starfinu, að séð sé til þess að styrkurinn fari aðeins til velferðarmála en ekki annars starfs og að ekki sé krafist þátttöku í trúariðkun í velferðarþjónustu sem kostuð er af almannafé. Hitt ætti aftur á móti að vera hættulítið að trúartákn séu til staðar eða trúarrit liggi frammi til frjálsra nota þar sem þjónustan er veitt.

 

Hætta á innrætingu?

Í þessu mikilvæga máli ríður mest á að sem flestir sameini krafta sína í fjölbreyttu og þróttmiklu starfi meðal þeirra sem verst eru sett, sem og að hið opinbera hlaupi ekki undan merkjum sem fyrsti ábyrgðaraðili á því sviði. Hitt virðist fullmikil rétthugsun að hafa áhyggjur af því að fullorðið fólk verði fyrir trúarlegri innrætingu þótt trú- eða lífsskoðunarfélög veiti þjónustuna sé fyrrgreindra viðmiða gætt. Á þessu sviði gilda þrátt fyrir allt  aðrar aðstæður en í skyldunámsskólum og því ómögulegt að færa reglur um svigrúm trú- og lífsskoðunarfélaga þar óbreyttar yfir á velferðarþjónustu meðal fullorðinna sem fara með eigið forræði. — Í því gæti falist forræðishyggja sem sjaldan á rétt á sér!

  

Þjóðaröryggi

Hjalti Hugason, 27. March 2012 12:45

 

 

Á nokkurra mánaða fresti er þess getið í fréttum að hersveitir hins eða þessa NATO-ríkisins hafi tekið við loftrýmisgæslu hér og annist hana um skeið. Á bakvið fréttina búa svo flutningar hermanna, hergagna og alls kyns búnaðar sem ekki má sýna í sjónvarpi. Svo verðum við lítið vör við gæsluna þar til á næstu vaktaskiptum — eða hvað?

 

Heræfingar?

Oft hef ég orðið fyrir því á Akureyri að norðlensk kyrrðin er rofin af ógnarhávaða og tvær-þrjár herþotur geysast í lágflugi yfir flugvöllinn og þar með bæinn. Þetta eru greinilega aðflugs- ef ekki árásaræfingar. Í hvert skipti vaknar spurningin: Er um raunverulegt loftrýmiseftirlit að ræða eða dulbúnar æfingar fyrir NATO-heraflann?

Er yfir höfuð mögulegt að komast inn í íslenskt loftrými án þess að hafa þegar farið um svæði sem vöktuð eru í bak og fyrir? Steðjar einhver hætta að okkur úr háloftunum og beinist hún sérstaklega að Akureyri? Hangir öryggi þjóðarinnar á þessum eftirhreytum herstöðvarinnar á Miðnesheiðinni? — Til hvers er loftrýmisgæsla hér á friðartímum?

Aðstæður í heiminum hafa sem betur fer breyst. Kalda stríðinu er lokið. Það er friðvænlegt í okkar heimshluta og sáralitlar líkur á því að hér komi upp skyndileg vá sem afstýrt verður með loftrýmisgæslu.

 

Falskt öryggi

Þrátt fyrir minnkaða hernaðarógn er ekki þar með sagt að við búum við gott þjóðaröryggi. Það er þó fyrst og fremst svo að hættan sem að okkur steðjar kemur innan frá.

Síðustu misseri hafa fært okkur heim sanninn um að sú sannfæring okkar margra um að við búum í einu öruggasta samfélagi heims er blekking. Þetta er ein af þeim ranghugmyndum sem Hrunið afhjúpaði. Það sýndi svart á hvítu að við höfuð búið og búum enn við falskt öryggi.

 

Eftirlistkerfi í molum

Öflugar eftirlitsstofnanir eru mikilvægir horsteinar samfélagslegs öryggis. Hrunið sýndi aftur á móti og sannaði að eftirlist- og aðhaldsstofnanir okkar á sviði fjármála voru ekki nægilega öflugar, höfðu ekki yfir nauðsynlegum úrræðum að ráða eða sváfu á verðinum. Þetta á við um opinbert eftirlit, það aðhald sem endurskoðunariðnaðurinn á að tryggja, sem og innra eftirlit í bönkum og fjármálafyrirtækjum. — Við bjuggum við falsk öryggi á því mikilvæga sviði sem fjármál eru í nútímasamfélagi. Í Hruninu kynntumst við umbúðalaust hvaða afleiðingar falskt öryggi getur haft.

Í upphafi þessa árs dundu síðan á okkur fréttir af götóttu eftirliti á stöðugt fleiri sviðum.

 

Við erum frumstæð

Upphafið voru þau tíðindi að fjöldi kvenna hafi leka silíkonpúða í brjóstum. Það mál hefur vissulega margar hliða. Sú ömurlegasta er þó sú að í einhverjum tilvikum uppgötvaðist leki við krabbameinsskimun án þess að konurnar væru upplýstar. Látum vera að læknar hafi ekki verið sannfærðir um að lekinn væri skaðlegur. Er það samt ekki sjálfsagður réttur kvenna að fá að vita af þessu ástandi sínu? Máttu þær ekki vita að þær gengju með svikna vöru í líkama sínum? Hverjir eiga ríkari hagsmuna að gæta en þær?

Skammt var síðan í að fregnir láku af að áburði með of háu kadmíummagni hafði verið dreift á tún og að iðnaðarsalt hafði verið notað í matvæli eftir að eftirlitsaðilum var kunnugt um málin. Í bæði skiptin brást eftirlitsstofnunin: hún þagði um málið, heimilaði notkun þeirra birgða sem til voru, tók afstöðu með seljendum vörunnar og lét þá njóta vafans en ekki neytendur og náttúruna eins og henni bar tvímælalaust að gera. Í báðum tilvikum hélt stofnunin því fram að notkunin væri skaðlaus. — Hvers vegna ættum við að trúa því? Hefur stofnunin sýnt sig að vera trausts verð? Dæmi hver fyrir sig.

Öll þessi mál sýna í raun að hér er allt eftirlit í skötulíki. Að því leyti erum við frumstætt samfélag.

 

Ísland — Pólland

Við eigum það sameiginlegt með Pólverjum að hafa óafvitandi verið fóðruð á iðnaðarsalti í matvælum í stórum stíl. Sá er þó munur á að seljandi saltsins í Póllandi falsaði vöru sína með því að pakka henni um og gerðist þar með brotlegur við lög. Hér var ekkert slíkt brot framið. Því er óljóst hvar sök og ábyrgð liggur. Hitt er umhugsunarefni að hér þurfti ekki að beita slíkum brögðum. Vitandi vits keyptu matvælaframleiðendur saltið í upphaflegum umbúðum. Hverju er um að kenna? Fáfræði, kæruleysi eða hreinum og beinum sóðaskap? Sjálfsagt er það mismunandi eftir fyrirtækjum. — Í öllu falli er þetta merki um slaka gæðastjórnun og frumstæða fyrirtækjamenningu í matvælaiðnaðinum.

Það er þó sértaklega áhugavert að bera saman viðbrögð íslenskra og pólskra eftirlitsaðila. Í Póllandi var mikið magn af matvælum sem menguð voru af iðnaðarsalti kallað inn og fargað. Hér var aftur á móti spurt: „Skiptir vika máli?“ Og seljendum svo heimilað að klára lagerinn.

Hér sjáum við annars vegar háþróuð viðbrögð hins vegar frumstæð!

Öll þau dæmi sem hér hafa verið nefnd sýna og sanna að öryggi okkar á fjölmörgum sviðum stendur á brauðfótum, er falsk öryggi. Við erum blekkt og höfð að fíflum af þeim sem eiga að gæta öryggis okkar.

Almannavarnir

Hér hafa verið nefndar nokkrar ólíkar hættur sem að okkur steðja og stafa af slóðaskap, vanrækslu og frumstæðum starfsháttum okkar sjálfra  og ýmissa samfélagsstofnana okkar.  Þegar um öryggi okkar er að ræða ber líka að hafa í huga að við búum í stórbrotnu landi með harðbýla náttúru. Okkur stafar því stundum hætta af umhverfi okkar. Af þeim sökum gegna Almannavarnir mikilvægu hlutverki líkt og við höfum reynt í eldgosum, jarðskjálftum og snjóflóðum.

Flest höfum við treyst Almannavörnum vel og dáðst að fumlausum og faglegum viðbrögðum þegar á hefur reynt. Það kom því á óvart er fregnir bárust af hversu mjög skortir á að viðbragðsáætlanir hafi verið gerðar til að bregðast við ógn sem hvenær sem er getur dunið yfir vegna náttúruhamfara eða stórslysa. Ein til tvær heildstæðar séráætlanir munu til vegna eldgosa á landinu en talið er að alls skorti 200 viðbragðsáætlanir. Helst eru snjóflóðavarnir í viðunandi horfi enda reynsla okkar sárust þar.

 

Gott samfélag

Farsælt mannlíf og gott samfélag veltur m.a. á því að fólkið í landinu búi við öryggi á öllum sviðum. Falskt öryggi er aftur á móti vottur um frumstæðni og loddaraskap. Við höfum vaknað upp við vondan draum og áttað okkur á glufunum í öryggiskerfi okkar. Það mun taka langan tíma að byggja traust og öryggistilfinningu upp að nýju. — Er víst að forgangsröðunin þar sé í lagi? 

Ég afsala mér kosningarétti!

Hjalti Hugason, 13. March 2012 14:57

 

Ég vil helst af öllu afsala mér kosningarrétti í „ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu“ um frumvarp stjórnlagaráðs 30. júní n.k. Nú veit ég að slík yfirlýsing er merkingarlaus. Það er ekki hægt að kæra sig út af kjörskrá þótt hin leiðin sé stundum fær. Ég er því neyddur til að grípa til persónulegra óyndisúrræða: sitja heima, skila auðu eða gera ógilt.

 

Ég var hrifinn

Ég er vissulega í hópi þeirra sem hrifust af stórhuga hugmyndum ríkisstjórnarinnar í kjölfar Hrunsins um að hleypa af stokkunum róttækri endurskoðun á stjórnarskránni með beinni aðkomu þjóðarinnar. Ég var að vísu ekki þeirrar skoðunar að Hrunið væri að rekja til ágalla á stjórnarskránni. Orsakanna var frekar að leita í að einstökum ákvæðum hennar hafi ekki verið fylgt nægilega stíft. Endurskoðun stjórnarskrárinnar á lýðræðistímanum hefur þó gengið of hægt og ákveðnir hlutar hennar hafa staðið lítt breyttir allt frá 1874. Þetta kallar á endurskoðun. Þá var þetta táknrænt skref í átt að „nýju Íslandi“ sem mörg okkar dreymdi um eftir Hrun.

Þá tel ég að ekki hafi skipt sköpum að áformin um stjórnlagaþing skuli hafa runnið út í sandinn og stjórnlagaráð komið í staðinn. Ég deili ekki við hæstarétt sem ógilti stjórnlagaþingskosningarnar. Það skiptir þó máli að ástæður réttarins fyrir þeirri niðurstöðu voru allar mjög formlegs eðlis og vart er hugsanlegt að þær hafi haft áhrif á niðurstöðu kosningarinnar.

 

Formlegir ágallar

Þessir formlegu ágallar voru vissulega leiðir og hugsanlega ámælisverðir. Þeir hefðu líka skipt sköpum hefðum við verið að kjósa til Alþingis. Í slíkum kosningum veljum við handhafa löggjafar- og framkvæmdavaldsins. Stjórnlagþing hefði hins vegar orðið algerlega valdalaus samkoma. Það kom t.d. aldrei til greina að framselja því vald Alþingis til „stjórnarskrárgjafar“. Hlutverk þess átti aðeins að felast í að taka saman frumvarp til laga — í þessu tilviki stjórnskipunarlaga. Slíkt verk er mögulegt að fela nefndum, ráðum eða starfshópum með ýmsum hætti. Því geta fylgt mikil áhrif en því fylgja engin völd. Þessu máli hefði gegnt um stjórnlagaþingið sem aldrei varð og gilti um stjórnlagaráð sem skilaði tillögu sinni í fyrra.

Af þessum sökum er það frekar formsatriði en að það skipti einhverju verulegu máli að kosningarnar til stjórnlagaráðs voru ógiltar. Það hefði vissulega verið gaman að starfshópurinn hefði þegið umboð sitt frá þjóðinni eins og að var stefnt. Þrátt fyrir að Alþingi hafi á endanum orðið að veita honum umboðið eins og raun varð á völdum við samt fulltrúana í hinum ógildu kosningum.

Ég er á ýmsan máta óttalegur formalisti og kerfiskarl en ekki svo að þetta atriði trufli mig. Hvers vegna vil ég þá ekki kjósa?

Enginn kostur góður

Mergurinn málsins er að ég er ósammála sumum greinum í frumvarpi stjórnlagaráðs og ætla ekki að láta þvinga mig til að greiða þeim atkvæði mitt vegna þess að ég sé sammála öðrum greinum eða sætti mig við heildarstefnu frumvarpsins. Hér skal aðeins nefnd 19. gr. (um þjóðkirkjuna) sem að mínum dómi leysir ekki þann vanda sem 62. gr. núgildandi stjsk. veldur að sumra mati.

Ég vil jafnvel enn síður taka þátt í þeim hráskinnaleik að greiða atkvæði um einstakar greinar og taka þannig þátt í að breyta heildstæðu frumvarpi í gatasigti  verði það borið upp grein fyrir grein. Hvernig á líka að vinna úr slíkum kosningum? Auðvitað er auðvelt að leggjast í tölfræðilega greiningu og kasta út þeim ákvæðum sem þjóðin kann að fella í atkvæðagreiðslu. En hvernig á þá að berja í brestina og fylla í þau göt sem upp kunna að koma? — Eða er það kannski hugsunin að ekki eigi að vera mögulegt að hafna neinni grein? Á þjóðin aðeins að verða missátt við einstakar greinar?

Mér er raunar alveg sama á hvorn veginn kosningin er hugsuð sé hún á annað borð hugsuð. Mér hugnast hvorugur kosturinn.

 

Kosningarnar geta snúist

Loks er ég hræddur um að „ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla“ um frumvarp stjórnlagaráðs kunni að snúast upp í eitthvað allt annað en að er stefnt. Á Alþingi hefur þetta mál fyrir löngu lent í flokkspólitískri gíslingu. Það er eiginlega alveg ljóst að kosningar geta ekki orðið annað en kjör með eða á móti núverandi ríkisstjórn — n.k. strykleikamæling áður en lokahrina kjörtímabilsins hefst. Ef ég kýs gegn frumvarpi stjórnlagráðs er hætt við að litið sé svo á að ég greiði stjórnarandstöðunni atkvæði mitt en hún hefur móast við þessu baráttumáli stjórnarinnar frá upphafi. Illu heilli er enn hættara við að aðgerð mín verði túlkuð á þann veg ef ég sit heima, skila auðu eða geri ógilt.

Hvað sem ég geri í stöðunni er hætt við að litið verði svo á að ég sýni sitjandi ríkisstjórn fingurinn. Það væri röng túlkun. Ég styð stjórnina — ekki vegna þess að ég sé svo ákaflega hrifinn af ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur í heild sinni, öllum þess orðum og gjörðum. En ég vil búa í þjóðfélagi velferðar, jöfnuðar, jafnréttis og jafnra tækifæra. Fyrir þau okkar sem það viljum eru ekki aðrir kostir í stöðunni en ríkisstjórn lík þeirri sem við höfum nú.

Þar er af þessum sökum sem ég vil ekki kosningarréttinn. Ég er á móti fyrirhuguðum kosningum þann 30. júní n.k. sem slíkum. Ég tel að eftir síðari umferð frumvarpsins í stjórnlagaráði nú fyrir skemmstu verði Alþingi að axla ábyrgð sína sem stjórnarskrárgjafi. Það er enn tækifæri til þess áður en fyrirhuguð þjóðaratkvæðagreiðsla verður endanlega samþykkt (sbr. b. lið í þingsályktun frá 22. febr. s.l. http://www.althingi.is/altext/140/s/0859.html). Hún kann að reynast ófarsæll endir á metnaðarfullu ferli í átt að nýrri stjórnarskrá.

  

Djörf kirkja

Hjalti Hugason, 3. March 2012 17:33

 

Sigrún Óskarsdóttir og Hjalti Hugason

 

Djörf kirkja.

Kirkjan er stofnun sem hefur tilhneigingu til að vera þunglamaleg og íhaldssöm. Til hennar var þó stofnað með djörfung og kjark að leiðarljósi.  Erindi kirkjunnar á öllum tímum er erindi fagnaðar. Við eigum að vera kirkja gleðinnar.  Boðskapurinn er bjartur og tær og við eigum að boða hann kinnroðalaust.  Kirkja fagnaðarerindisins hefur það erindi að lýsa upp skugga og bægja frá myrkri. — Það er margt sem ógnar lífinu.  Fólk rænir aðrar manneskjur frelsi, fólk selur eitur.  Inní  þær hörmungar talar djörf kirkja.

 

Djörf kirkja hlustar

Djörf kirkja á erindi við þjóðina sem hún er kennd við.  Djarfa kirkjan óttast ekki fjölbreytileika heldur fagnar honum.  Hún hopar ekki en sýnir virðingu og víðsýni. Hún hvetur til samtals og samstöðu.  Hún gerir sér grein fyrir breyttri stöðu og sér þar ný tækifæri. Djarfa kirkjan hefur úthald til að hlusta og heyra vel. Sumt er framandi og ögrandi en hún hlífir sér ekki við að hlusta, skoða og meta.

Ísland er lítið og fámennt land.  Meirihluti þjóðarinnar tilheyrir þjóðkirkjunni. Á Íslandi eru þó minnihlutahópar bæði innan og utan þjóðkirkjunnar. Hin djarfa kirkja tekur það hlutverk alvarlega að veita þeim sérstaka athygli og styðja þá þegar það á við.

Djarfa kirkjan treystir fólki. Þar er ekki átt við blint traust heldur traust sem byggir á þeirri reynslu að traust kallar á traust.  Slíkt getur valdið vonbrigðum. Stundum eru þau sem sýnt er traust ekki traustsins verð.  Það heyrir þó til undantekninga, þessvegna velur djarfa kirkjan að treysta áfram.

 

Djörf kirkja og aukið sjálfstæði

Djörf kirkja fagnar umræðu og hefur forystu um að skoða allar hliðar t.d. á tengslum og/eða aðskilnaði ríkis og kirkju.  Hún spyr óhrædd um hagsmuni kirkju og þjóðar og leitast við að skoða þarfirnar frá ólíkum sjónarhornum.

Hin djarfa kirkja hvetur til aukinnar þátttöku fólksins sem tilheyrir henni.  Hún kallar til opins samtals og vill að sem flest þeirra sem vilja taka þátt í starfinu fái auknar skyldur og um leið aukna ábyrgð.

 

Hvernig umræðu vill hin djarfa kirkja?

Hin djarfa kirkja hvetur til opinnar umræðu um öll mál.  Hún lítur svo á að ekkert mannlegt sé henni óviðkomandi.  Opnun er lykilorð.  Það er ekki reynt að hefta eða stýra umræðu.  Hún þorir að taka þátt í samfélagsumræðu og lítur þar til fyrirmyndarinnar Jesú frá Nasaret sem lét til sín taka og hikaði ekki við að ögra viðteknum hefðum og skoðunum ef velferð fólksins var í húfi.  Málstaður minnihlutahópa eða einstaklinga sem minna mega sín er málstaður hinnar djörfu kirkju

 

Hvert er erindi hinnar djörfu kirkju hér og nú?

Eðli þjóðkirkju er að vera umfaðmandi, víðfeðm, í sambandi við umhverfi sitt á hverjum stað. Í raun er það innsti kjarninn í þjóðkirkjuhugtakinu.  Erindið er skýrt — það er fagnaðarerindi sem hún boðar með djörfung og gleði.

 

Að lokum

Við köllum eftir umræðu. Við viljum tilheyra djarfri kirkju. Við skrifuðum nýverið um kirkju óttans. Við sem tilheyrum kirkjunni verðum stundum slegin ótta. En við getum líka verið hugrökk. Við erum samsett úr slíkum andstæðum — það gerir okkur að manneskjum. Það er mikilvægt að kannast við óttann, horfast í augu við hann og leita leiða til að mæta honum. Til þess þarf kjark og við köllum eftir þeim kjarki hjá okkur sjálfum og fólkinu í kringum okkur. Við viljum kirkju sem trúir og vonar að kærleikurinn geri heiminn betri.

Þjóðkirkjan hefur ekkert að hræðast. Hún er grein á meiði hinnar „einu, heilögu, almennu og postullegu kirkju“ Krist. — Slík kirkja hefur aðeins ástæðu til að vera glöð og djörf!

 

 

  

Kirkja óttans?

Hjalti Hugason, 2. March 2012 12:29

Hjalti Hugason og Sigrún Óskarsdóttir

 

Kirkja óttans?

Ögrandi sviðsmynd blasir nú við lúthersku kirkjunni í landinu sem hefur starfað í rúm 450 ár í skjóli ríkisvaldsins þar af í tæp 140 ár sem þjóðkirkja.

Þann 30. júní n.k. eftir rúmlega 120 daga, verður gegnið til ráðgefandi kosninga um tillögur að nýrri stjórnarskrá ásamt „spurningum um helstu álitaefni“. Þar verður spurt hvernig tengslum ríkis og kirkju eigi að vera háttað í framtíðinni. Skoðanakannanir undangengin ár benda til að meirihluti greiði atkvæði gegn þjóðkirkjuskipaninni í núverandi mynd.

Hvar verður þjóðkirkjan eftir atkvæðagreiðsluna í júní? Hvar vill hún vera? Hvar er gott að hún verði?

Þetta eru spurningar sem skipta máli fyrir lúthersku kirkjuna sem þjóðkirkju. Það er ástæða til að spyrja hvers vegna hún hafi ekki verið virkari í málinu en raun ber vitni. — Er það ótti sem ræður för?

 

Ótti við sjálfstæði?

Síðastliðið haust var gerð skoðanakönnun meðal forystufólks í þjóðkirkjunni. Þar var spurt um afstöðu til aðskilnaðar ríkis og kirkju. Niðurstöður benda til að meðal launaðra og ólaunaðra í forystusveitinni líti fólk svo á að slík breyting hafi ekki teljandi áhrif á líf og starf kirkjunnar. Það er að líkindum rétt mat. Margt bendir þó til þess að þjóðkirkjan óttist þrátt fyrir allt breytingar á 62. gr. stjskr.

Alla 20.öld og til okkar tíma hefur þjóðkirkjan keppt að auknu sjálfstæði gagnvart ríkisvaldinu. Það er í samræmi við alþjóðlega þróun og stafar af því að ríkisvaldið hefur stöðugt orðið veraldlegra. Það er ekki einfalt fyrir trúfélag — jafnvel þjóðkirkju — að starfa í tengslum við ríkisvald sem gæta verður trúfrelsis og trúarlegs jafnræðis borgaranna. Það er heldur ekki eðlilegt að veraldleg og trúarlega hlutlaus löggjafarsamkoma geti hlutast til um innri mál trúfélags — jafnvel þótt þjóðkirkja sé.

Þegar næstu skref í átt til aukins sjálfstæðis þjóðkirkjunnar hafa verið rædd hafa komið fram viðbrögð sem benda til stefnubreytingar. Þau fela í sér að ekki sé talin þörf á skýrari skilum ríkis og kirkju. — Þjóðkirkjan virðist tekin að óttast sjálfstæði sitt.

 

Ótti við lýðræði?

Á síðustu árum hefur oft verið rætt um nauðsyn þess að auka lýðræði í þjóðkirkjunni. Því hefur verið mjög ábótavant og verið í mynd hreinræktaðs fulltrúalýðræðis. Kirkjuþing tók athyglisvert skref í lýðræðisátt s.l. haust er kjörmönnum í biskupskosningum var fjölgað til muna með því að formönnum sóknarnefnda var veittur atkvæðisréttur sem áður var einkum í höndum presta.

Þingheimur hefur reynst tregari til að auka lýðræði þegar um kjör til kirkjuþingsins sjálfs er að ræða en það er æðsta stjórn kirkjunnar og því prófsteinn á lýðræði innan hennar.

Þá gætir oft hefðbundinna viðbragða „prestakirkju“ þegar um ákvörðunartöku í kirkjunni er að ræða. Kennimönnum finnst varasamt að auka aðkomu leikfólks að ýmsum innri málefnum kirkjunnar. Slík aðkoma er þó mikilvæg þegar um trúfélag er ræða — ekki síst þjóðkirkju.

 

Ótti við umræður?

Umræða og skoðanaskipti eru lífsnauðsyn í lýðræðislegum samfélögum. Án umræðu þrífst ekkert lýðræði, ekkert frelsi, ekkert líf. Sá gamli frasi er lífseigur í kirkjulegu samhengi „að efla þurfi einingu“ en forðast ríg, krit og flokkadrætti. Þetta er rétt. Samstaða er mikilvæg í kristnu samfélagi.

En það er andstætt eðli þjóðkirkju að allir séu á einu máli. Hún er þvert á móti öllum opin og hlýtur því að rúma margar og ólíkar skoðanir sem þarf að ræða. Þar greinir þjóðkirkja sig frá sértrúarsöfnuði. Með því er ekki átt við frjálsa kirkju sem starfar á öðrum grunni en hinum lútherska. Hér er orðið notað í þeirri neikvæðu, gildishlöðnu merkingu sem það í raun hefur, þ.e. um lokaðan, sjálfhverfan trúsöfnuð. Það getur þjóðkirkja ekki verið.

Margt bendir til að í íslensku þjóðkirkjunni sé undirliggjandi hræðsla við umræður. — Hér er ekki átt við þöggun sem er annað en umræðuótti.

 

Ótti við umhverfi

Það er eðli þjóðkirkju að vera umfaðmandi, víðfeðm, að ganga í lífrænt samband við umhverfi sitt á hverjum stað. Í raun er það kjarninn í þjóðkirkjuhugtakinu.

Nú bendir margt til að íslenska þjóðkirkjan sé hrædd við umhverfi sitt — þjóðina! Talað er um að sótt sé að kirkjunni, frelsi hennar sé skert og að hún eigi undir högg að sækja. Meirihlutakirkjan í landinu virðist á leið inn í sjálfvalið píslarvætti þrátt fyrir stærð sína, aldur, forréttindi og um flest sterka stöðu.

Þetta eru óttaviðbrögð.

 

Viðbrögð við fjölhyggju

Íslenska þjóðkirkjan starfar við breyttar aðstæður. Áður var hér samfélag á lútherskum grunni. Nú er öldin önnur. Fjölhyggja er gengin í garð. Ísland er orðinn hluti af heimsþorpinu þrátt fyrir alla okkar einingar- og einangrunartilburði.

Kristin kirkja hefur ýmsa möguleika er hún þarf að bregðast við fjölhyggju. Hér eru þrír möguleikar nefndir: Hún getur skerpt línurnar og lagt aukna áherslu á sérstöðu sína. Hún getur horfið inn í sjálfa sig og lagt yfirdrifna áherslu á kirkjulegar hefðir. Loks getur hún leitað aukins samhljóms við umhverfið, starfað af heilum huga með öllum þeim sem byggja vilja upp réttlátt samfélag og betri heim.

Íslenska þjóðkirkjan virðist einkum sýna tvö fyrri viðbrögðin, skerpingu og innhverfingu. Það eru viðbrögð óttasleginnar kirkju. Djörf kirkja leitar út á við — keppir eftir samhljómi í fjölhyggjunni.

Að lokum

Við köllum eftir umræðu. Við vonum að grein okkar máli stöðu þjóðkirkjunnar of dökkum litum. Það er illt ef evangelísk-lútherska þjóðkirkjan á Íslandi er kirkja óttans. Hún hefur ekkert að hræðast. Hún er grein á meiði hinnar „einu, heilögu, almennu og postullegu kirkju“ Krist. — Slík kirkja hefur aðeins ástæðu til að vera glöð og djörf!

Skýrslu Geirs Jóns verður að opinbera!

Hjalti Hugason, 2. March 2012 12:28

 

Fréttir af rannsókn Geirs Jóns Þórissonar yfirlögregluþjóns á mótmælunum á Austurvelli haustið 2008 vekja óneitanlega athygli. Vissulega var það svo að mótmælin voru óvenju fjölmenn og áköf þegar Íslendingar eiga í hlut. Við erum því vönust að mótmælendur teljist fremur í tugum en hundruðum hvað þá að fjöldinn nálgist þriggja stafa tölu. Þá eru mótmælaaðgerðir almennt mjög formlegar og friðsamlegar hér. Í þessu skerum við okkur frá mótmælamenningu víðast annars staðar þar sem iðulega kemur til átaka. Í samanburði við hefðbundin íslensk mótmæli í seinni tíð rís Búsáhaldabyltingin því alveg undir nafni. Þjóðfélag á borð við það íslenska kemst sennilega ekki mikið nær byltingu en suma dagana eða kvöldin haustið 2008. — Það varð þó engin bylting.

 

Mótmælasiðfræði á háu plani

Jafnvel á þessu „heita“ hausti var mótmælasiðfræðin almennt á mjög háu plani.

Þegar þurfa þótti gripu mótmælendur sjálfir til mótvægisaðgerða með því að verja lögreglu fyrir þeim sem ákafast fóru. Ef til vill var órólegi vængurinn heldur ekki eiginlegir mótmælendur þegar mest gekk á. „Agressionin“ var hugsanlega frekar hluti af næturlífinu í Reykjavík en byltingunni.  Þá var athyglisvert að fylgjast með hvernig mannfjöldinn tók tillit til þess sem fram fór í dómkirkjunni. Væri jarðarför þögnuðu mótmælin eða fluttust að stjórnarráðinu. Fjarlægðin sýnir okkur líka að „innrásin“ í Alþingishúsið var líklega stórum yfirdrifin.

 

Hvers vegna rannsókn?

Það vekur því athygli að nú á fjórða ári eftir atburðina skuli lögreglan hefja rannsókn á málinu: Hvað er verið að rannsaka, hvers vegna, til hvers og hvernig er það gert? Nú hefur lögreglustjórinn í Reykjavík vissulega hafnað því að um eiginlega rannsókn sé að ræða, heldur sé verið að taka saman skýrslu, safna upplýsingum, halda utanum gögn eða eitthvað í þá veru. Líklega er ljóst að um eiginlega lögreglurannsókn getur ekki verið að ræða. Það skiptir samt máli að skýr svör fáist við ofangreindum spurningum. Rannsókn eða „ekki-rannsókn“ á mótmælaaðgerðum getur t.d. ekki talist heppilegt sérverkefni fyrir yfirlögregluþjón aðeins vegna þess að hann bíður starfsloka síðar á árinu. — Til þess er þetta of heitt mál.

Vissulega er það svo að öll embætti og stofnanir þurfa að meta eigin aðgerðir þegar nokkuð er liðið frá atburðum sem reynt hafa á. Mat lögreglu á aðgerðum sínum, viðbrögðum og viðbúnaði í Búsáhaldabyltingunni er því skiljanleg. Þetta kallar þó ekki á rannsókn á mótmælunum sjálfum. Allt bendir þó til að slík rannsókn standi yfir. Til þess benda ummæli í þá veru að ótilgreindir alþingismenn hafi að einhverju leyti stýrt mótmælunum.

 

Rétturinn til að mótmæla

Málið er heitt vegna þess að réttur borgaranna til mótmæla er mjög ríkur í lýðræðissamfélögum. Í 74. gr. stjskr. segir til að mynda:

Rétt eiga menn á að safnast saman vopnlausir. Lögreglunni er heimilt að vera við almennar samkomur. Banna má mannfundi undir berum himni ef uggvænt þykir að af þeim leiði óspektir.

(Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands 1944 nr. 33 17. júní http://www.althingi.is/lagas/140a/1944033.html)

 

Ákvæði Mannréttindasáttmál Evrópu eru sambærileg eins og fram kemur í 11. gr.:

Rétt skal mönnum að koma saman með friðsömum hætti...

 

Eigi skal réttur þessi háður öðrum takmörkunum en þeim sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis eða almannaheilla, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða réttindum og frelsi. Ákvæði þessarar greinar skulu eigi vera því til fyrirstöðu að löglegar takmarkanir séu settar við því að liðsmenn hers og lögreglu eða stjórnarstarfsmenn beiti þessum rétti.

(Lög um mannréttindasáttmála Evrópu 1994 nr. 62 19. maí http://www.althingi.is/lagas/140a/1994062.html)

 

 

Friðsamleg bylting

Búsáhaldabyltingin var góðu heilli vopnlaus og friðsamleg. Hún ógnaði ekki þjóðaröryggi eða almannaheill, olli ekki (alvarlegum eða langvarandi) glundroða eða glæpum, stefndi ekki heilsu manna, siðgæði, réttindum eða frelsi í hættu. Það má frekar segja að Hrunið hafi gert það! Ekki þótti heldur ástæða til að banna mannfundina meðan á þeim stóð enda hefði það hvorki verið skynsamlegt né lýðræðislegt. Hvaða ástæða liggur því þá til grundvallar að hefja rannsókn nú?

 

Skýrsluna verður að opna

Búsáhaldabyltingin er vissulega stóratburður í íslenskri mótmælasögu. Af þeim sökum er mikilvægt að öllum heimildum um hana sé haldið til haga og hún rannsökuð út frá öllum hugsanlegum sjónarhornum. Þær rannsóknir þurfa þó að vera öllum opnar. Af þeim sökum, sem og til að glata ekki trausti í augum okkar, fólksins í landinu, á lögreglustjórinn í Reykjavík ekki annarra kosta völ en gera skýrslu Geirs Jóns öllum aðgengilega strax og hann setur punktinn aftan við hana. Lokuð rannsókn lögreglu á löglegum mótmælum stenst ekki mat út frá sjónarhóli mannréttinda — nema sýnt sé að þjóðaröryggi sé í húfi. Treysta Stefán Eiríksson og Geir Jón Þórisson sér til að sannfæra okkur um að svo sé?

 

Konan við 1000o

Hjalti Hugason, 1. March 2012 18:51


Þriðja ríkið og síðari heimsstyrjöldin hafa hvað eftir annað skotið upp kollinum í bókmenntum okkar á síðustu árum. Má þar benda á Enn er morgun eftir Böðvar Guðmundsson (2009) og Konan við 1000o, Herbjörg María Björnsson segir frá eftir Hallgrím Helgason (2011). Einnig má nefna Yfir Ebronfljótið (2001) eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur. Sögusviðið þar er þó spænska borgarastyrjöldin.

Þetta er skiljanlegt. Heimsstyrjöldin skóp milljónum manna stórbrotnari örlög en löngum gerðist bæði fyrr og síðar. Í heimsstyrjöldina og aðdraganda hennar má því sækja margháttaðan efnivið sem reynast mun gefandi í bókmenntum, kvikmyndum og á ýmsum öðrum sviðum enn um langa hríð.

Nú er líka sérstök ástæða til að fjalla um þetta tímabil. Stríðsárakynslóðin er komin á efri ár og þau sem teljast til eftirstríðskynslóðarinnar komin á miðjan aldur. Því þarf að ljúka styrjaldarárunum upp fyrir yngri kynslóðum og lyfta þeim upp sem víti til varnaðar ef bókmenntirnar taka það þá að sér. Rithöfundar forðast flestir að boða.

Hér er þó líklega ekki fundin skýring á bókum þeirra Böðvars og Hallgríms heldur hafa báðir skrifað út frá sagnkveikju sem varð á vegi þeirra. Hallgrímur hefur sjálfur skýrt svo frá að símtal við ókunna konu hafi orðið kveikja að sögu hans. Fyrirmyndin kemur þó leynt og ljóst fram í sögunni þrátt fyrir að nafni hennar sé lítið eitt breytt. Hún hét í raun Brynhildur Gerorgía Björnsson og var sonardóttir Sveins Björnssonar forseta líkt og sögupersónan. Um ævi hennar má lesa í bókinni Ellefu líf (1983) sem Steingrímur St. Sigurðsson skráði. Nokkuð öðru máli gegnir um kveikjuna að sögu Böðvars. Lesandinn þarf að þekkja vel til eigi hann að geta tengt músíkantinn Johannes Kohlhaas og ættingja hans við einstaklinga af holdi og blóði.

Hallgrímur fylgir bók sinni úr hlaði með að undirstrika að sagan sé skáldsaga, helstu sögupersónur hennar skáldsagnapersónur og örlög þeirra skálduð. Hann biður fyrirmyndunum nærgætni og varar við að blandað sé saman raunverulegu hlutskipti fólks og örlögum er hann hafi skáldað. Skáldskap og veruleika stillir hann annars upp á þennan hátt: „Sagnfræði er fræðandi saga. Skáldskapur er skálduð saga“. Minna aðfaraorð hans óneitanlega á „kommentar“ Laxness um Íslandsklukkuna.

Ekki þarf að koma á óvart að persónur á borð við Svein Björnsson og frú Georgiu rati inn í sögu eftir Hallgrím Helgason eftir  að hann sendi frá sér Höfund Íslands (2001). Það orkar hins vegar tvímælis á hvern hátt óþekkt og nýlega látið barnabarn þeirra er dregið inn í bókmenntirnar líkt og dóttir fyrirmyndarinnar bendir öfgalaust á í Fréttablaðinu 21. jan. s.l.  Áhorfsmál er hvort „bókmenntaleg nauðsyn“ breytir þar einhverju um eins og Páll Valsson freistar þó að færa rök að í Fréttablaðinu 25. jan.

Með samanburði við Ellefu líf má greina hvernig lífshlaup fyrirmyndarinnar hefur verið sveigt að „nauðsyn“ frásögunnar. Rekja má sameiginlegan rauðan þráð. Einstök frásagnarbort hafa verið flutt til í tíma og sem betur fer er stríðssagan mikið yfirdrifin.

Vissulega er Konan við 1000o margbrotin saga. Á köflum er hún drepfyndin, á köflum næstum lyrísk, lýsingin á dauðastríðinu í lokin er dramtísk eins og margar stríðssenurnar. Einna hæst rís dramað þó í menningarárekstrinum þegar sögupersónan ælir yfir íslensku „há“-stéttina sem auðgaðist á stríðinu sem hafði kostað hana æskuna.

Þegar allt kemur til alls leitar sá áleitna tilfinning á hvort Konan við 1000o  sé ekki íslensk útgáfa af Hundraåringen som klev genom fönstret och försvann eftir Jonas Jonasson (2009). Herra Björnsson strauk vissulega ekki frá eigin banabeði líkt og Allan Karlsson úr aldarafmæli sínu. Hún surfar hins vegar frjáls um netheima, villir á sér heimildir og blandar sér í örlög fólks nær og fjær. Ekki ósvipað og Allan kom hún líka við kviku 20. aldarinnar beggja vegna Atlantsála.

Gildin og stjórnarskráin

Hjalti Hugason, 1. March 2012 18:39

 

 

Eins og lýðum er ljóst stendur nú yfir tilraun til að endurskoða stjórnarskrá okkar niður í kjölinn. Á sama tíma er stefnt að stjórnarskrárbreytingum í Noregi sem m.a. breyta stöðu norsku kirkjunnar. Samkvæmt núgildandi stjórnarskrá Norðmanna er í raun evangelísk-lúthersk ríkistrú þar í landi. Strax 2. gr. hennar er kveðið á um trúfrelsi en síðan segir:

 

Den evangelisk-lutherske Religion forbliver Statens offentlige Religion. De Indvaanere, der bekjende sig til den, ere forpligtede til at opdrage deres Børn i samme.

Eftir stjórnarskrárbreytinguna verður komið á þjóðkirkju sem væntanlega mun þó hafa nokkuð sterkari tengsl við ríkið en íslenska þjóðkirkjan hefur nú. Samtímis verður 2. greininni breytt í sérstaka gildagrein sem hljóða mun á þessa leið:

Værdigrundlaget forbliver vor kristne og humanistiske Arv. Denne Grundlov skal sikre Demokrati, Retsstat og Menneskerettighederne.

Í stjórnarskrá okkar er sem kunnugt er ekki að finna neina hliðstæðu þessa ákvæðis. Í lögum um grunnskóla (91/2008) má hins vegar finna ákveðna hliðstæðu þar sem segir:

Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.

 

Gildin í stjórnarskránni

Skýr gildi koma fram í stjórnarskrá okkar þótt hún skilgreini ekki sameiginleg gildi þjóðarinnar á borð við það sem að er stefnt í Noregi.

Í stjórnarskránni kemur t.a.m. fram að þjóðin veitir forseta og Alþingi umboð sitt. Þar kemur fram að við skulum öll vera jöfn fyrir lögunum og hljóta dóm af óháðum dómstólum ef við brjótum af okkur. Þá skulum við öll njóta jafnstöðu og jafnræðis „án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“ Við eigum að njóta mannréttinda.

Þau gildi sem í stjórnarskránni felast eru því gildi lýðræðis, réttaröryggis, jafnréttis og mannréttinda. Allt eru þetta góð og gegn vestræn gildi sem kirkjan á að geta fylkt sér um þótt hún ætti vissulega lengi erfitt með að samsama sig sumum þeirra. — Það er ein af þverstæðunum sem stundum koma fram milli kirkjunnar og kristninnar sem eru illu heilli ekki alltaf eitt og hið sama.

 

Er 62. gr. stjskr. gildagrein?

Í umræðunni um stjórnarskrárbreytingarnar sem nú standa yfir hefur þeirri spurningu verði velt upp hvort 62. gr. stjskr. sé ekki í eðli sínu gildagrein á borð við þá norsku eða í það minnsta ígildin hennar. Ekki verður þó séð að svo sé.

Þegar danska og síðar íslenska stjórnarskráin voru settar á 19. öld var verið að afnema ríkisátrúnað og trúarnauðung sem og að aðgreina kirkjuna frá ríkinu. Þess vegna var lúthersku kirkjunni gefið nýtt heiti en hún hafði áður verið ríkiskirkja — eða öllu heldur óaðskiljanlegur hluti ríkisvaldsins. Eftir þetta skyldi hún njóta meira sjalfræðis og vera kirkja þjóðarinnar. Það þótti eðlilegt fyrirkomulag þar sem Danir og Íslendingar voru í raun lútherskar þjóðir þegar þessir atburðir gerðust. Kaþólskt fólk, reformert og gyðingar sem vissulega bjó í Danmörku á þessum tíma var af erlendu bergi brotið og hafði notið undanþága frá kröfunni um lútherska trú á þeim grunni.

Þrátt fyrir að ríkið ýtti lúthersku kirkjunni á þennan hátt armlengd frá sér vildi það ekki snúa baki við henni vegna þess að hún myndaði ramma um trúarlíf þjóðanna í löndunum tveimur. Því var kveðið á um að ríkisvaldið skyldi styðja hana og vernda að því leyti (...sem hún væri þessi rammi).

Þetta sýnir að ríkisvaldið var ekki á móti lútherskri trú. Það var reiðubúið að styðja lútherska kirkju vegna ofangreinds hlutverks hennar. Danska ríkið hélt svo og heldur enn í nokkrar frekari leyfar hins forna tíma. Þjóðhöfðinginn er t.d. skyldur til að vera lútherskur (en má þó líklega tilheyra fríkirkju!). Hér hefur aldrei verið gerð slík krafa enda bryti það gegn jöfnu embættisgengi allra til forsetaembættisins óháð trú.

Af þessum sögulegu ástæðum er ekki mögulegt að líta svo á að kirkjuskipanin leiði til þess að grunngildi ríkisins séu eða eigi að vera lúthersk. Íslenska ríkið er í eðli sínu trúarlega hlutlaust en styður af sögulegum og „praktískum“ ástæðum lútherska kirkju umfram önnur trúfélög. Öll rök hníga því að þeirri túlkun að kirkjuskipan landsins (62. gr. stjskr.) sé lýsandi en ekki „normerandi“. Í henni felst með öðrum orðum ekkert gildismat nú orðið.

 

Kristnin og þjóðin

Þrátt fyrir að ríkisvald okkar sé trúarlega hlutlaust eins og við flest viljum ugglaust að það sé á 21. öldinni býr þjóðin að sameiginlegu gildismati sem hún hefur tekið að erfðum frá fyrri kynslóðum og stöðugt aðlagað nýjum tímum. Það hefur þó stundum mistekist eins og dæmin sanna. Að verulegu leyti eru þessi gildi kristin. Þau eru þó ekki öll sér-kristin heldur vestræn, húmanísk og jafnvel sammannleg. Þau eru ekki verri fyrir það.

Þessi samstaða um gildismat hvílir ekki á stjórnarskránni heldur sambúð þjóðarinnar í landinu og sambúð þjóðar og kirkju í þúsund ár. Sameiginlegur gildagrunnur samfélags okkar verður vart tryggður í framtíðinni með stjórnarskrárákvæðum. Þar skiptir miklu meira máli að fram fari opið samtal um gildi og gildismat, sem og áhrif þess og afleiðingar á öllum sviðum samfélagsins. Í því samtali þarf kirkjan að taka virkan þátt af heilindum og með einurð án þess að krefjast forræðis eða valdastöðu.

„Hið svokallaða hrun“ og átökin um söguna

Hjalti Hugason, 1. March 2012 18:37

 

Sagan eins og hún kemur okkur fyrir sjónir og við fjöllum um á vettvangi sagnfræðinnar eða á einhvern annan hátt er ekki röð tengdra eða ótengdra atburða sem hafa flætt eftir tímalínunni frá upphafi og fram á þennan dag.

Sagan er þvert á móti endurgerð óreiða, hugsmíð, túlkun, tilbúningur sem að meira eða minna leyti og eftir atvikum samsvarar því sem eitt sinn var eða gerðist. Hlutlaus og hlutlæg umfjöllun um söguna er því ómöguleg þótt auðvitað sé hægt að endurgera hana á misraunhæfan máta.

 

Átökin um söguna

Af þeim ástæðum sem hér voru nefndar er ekki að furða þótt stöðugt sé tekist á um söguna og tekist á með söguna að vopni. Við Íslendingar skrifuðum sögu þjóðarinnar t.d. lengi út frá því sjónarhorni að Danir hafi gegnum tíðina verið „vondu karlarnir“ sem arðrændu okkur, kúguðu og seldu okkur maðkað mjöl. Færri sögum fór af þeim ávinningi sem við höfðum af samfloti okkar við þá bæði í bráð og lengd. Má þar t.d. nefna hjálparstarf í móðuharðindunum sem munaði um eða styrk og aðstöðu til háskólanáms um aldabil. Sögu sjálfstæðisbaráttunnar er haldið á lofti í tengslum við samningaumleitanir okkar við ESB og nú í nýútgefinni bók hefur verið bent á hvernig Jón Sigurðsson var markvisst gerður að tákni eftir dauða sinn 1879 sem notað hefur verið á mismunandi vegu allt fram á þennan dag (Páll Björnsson. 2011. Jón forseti allur? Táknmyndir þjóðhetju frá andláti til samtíðar. Reykjavík: Sögufélag). — Annað dæmi um átök um söguna er uppgjörið við kommúnismann og margvísleg beiting sögunnar og sögulegra gagna í því sambandi. — Í þessari baráttu er sagan umrituð og endurrituð ekki aðeins í ljósi nýrrar þekkingar heldur líka í ljósi nýrra aðstæðna og ólíkra viðhorfa.

Nú rúmum þremur árum eftir Hrun eru átökin um túlkun atburða í aðdraganda þess og eftirmála þess þegar hafin. Nú ríður ýmsum hagsmunaaðilum á að draga upp sína mynd af Íslandssögunni á fyrstu árum 21. aldarinnar. Þar eiga ekki síst í hlut stjórnmálaöflin í landinu. Það getur skipt miklu máli í næstu kosningum hvaða sögutúlkun hefur tekist að „selja“ þjóðinni.

 

Verður kosið um sögutúlkun?

Mörg okkar líta svo á að Hrunið verði í framtíðinni talið einn af stóratburðum sögu okkar á hinni nýbyrjuðu öld og í því hafi fjármálakerfi okkar ekki aðeins lagst á hliðina heldur hafi Hrunið verið stóratburður er haft hafi áhrif á öllum sviðum þjóðlífsins og um margt skekið undirstöður samfélagsins. Afleiðingar þessara atburða eru þó enn ekki komnar fram að öllu leyti og enn of snemmt að kveða upp sögulega dóma sem ætla má að standist tímans tönn. Þá er það líka mat okkar margra að Hrunið hafi ekki verið „náttúruhamfarir“ og ekki einvörðungu verið hluti af alþjóðlegri lánsfjárkreppu heldur átt sér sértækari, innlendar orsakir sem helst sé að leita í þeirri stjórnmálastefnu sem hér var drottnandi allt frá síðustu áratugum 20. aldar. Þetta mat á sér stoð í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Ýmsir þættir málsins eru þó enn í rannsókn m.a. hjá embætti sérstaks saksóknara. Skjalasafn þess verður í framtíðinni mikilvægt við sagnfræðilegar rannsóknir.

Svo eru aðrir sem skoða málið út frá allt annari hlið. Æ oftar heyrist nú frasinn: „Hið svokallaða hrun“. Í hvert sinn sem við heyrum hann verðum við að muna að þar er sögutúlkun á ferð. Í orðunum felst smætting á Hruninu. Það er litið á það sem storm í vatnsglasi, smáatburð og í raun aðeins óhjákvæmilegan eftirskjálfta af alþjóðlegri þróun hlaut að gera vart við sig hér á landi eins og annars staðar.

Milli þessara tveggja sjónarmiða liggur víglína um söguna. Í næstu kosningum verður að meira eða minna leyti kosið um sögutúlkun. Það verða greidd atkvæði um „Hrunið“ eða „hið svokallaða hrun“. Þetta er meira en leikur að orðum.

 

Hótfyndni?

Ein af þeim sem tekur nú þátt í að túlka Hrunið og aðdraganda þess og þar með að skrifa sögu síðastliðinna ára er Kristín Þorsteinsdóttir fv. fréttamaður. Það gerir hún m.a. í greininni „Erum við verri en annað fólk?“ (Fréttblaðið 6. febr. s.l.). Hún aðhyllist augljóslega þá skoðun að Hrunið hafi fyrst og fremst verið íslensk útgáfa af alþjóðlegri atburðarás.

Í grein sinni byggir Kristín á reynslu af því að hafa búið í „nokkrum löndum“ og dregur þá ályktun að fólk „sé nokkurn veginn eins hvar sem það elur manninn“. Hún trúir því t.d. ekki að „við séum verri en annað fólk“. Þetta er ábyggilega alveg hárrétt og ætti að slá á þá útbreiddu firru að við Íslendingar séum eitthvað öðru vísi eða höfum einhverja gríðarlega sérstöðu eins og við ímyndum okkur svo oft.

Kristín leggur hins vegar út á hálli ís þegar hún tekur að álykta frekar út frá reynslu sinni. Hún tekur að gera því skóna að líta megi svo á — eða að einhver líti svo á — að ástæður þess að stofna þurfti embætti sérstaks saksóknara geti bent til þess að hér hafi átt sér stað „stökkbreyting í almennri glæpahneigð, sem varla á sér hliðstæðu í mannlegu samfélagi“.

Að mínum dómi nálgast það hótfyndni að stilla því grafalvarlega máli sem Hrunið er upp á þennan hátt. Hér varð ekki stökkbreyting í glæpahneigð þrátt fyrir að lögbrot af ákveðnu tagi hafi að líkindum stóraukist á tímabili. Hvað sem okkur kann að virðast um útrásarvíkinga, kaupahéðna, bankamenn eða stjórmálaleiðtoga á veltiárunum fyrir Hrun er fráleitt að halda því fram að þetta fólk hafi verið „verra“ en við hin eða að aðgerðir þess hafi stafað af stökkbreyttri glæpahneigð. Það eru líklega sárafáir sem líta svo á enda vísar Kristín ekki í nein slík ummæli máli sínu til stuðnings.

 

Önnur sviðsmynd

Það sem hér gerðist var að lög voru rýmkuð í anda ákveðinnar stjórnmálastefnu, dregið var úr opinberu eftirliti og byggt var upp hvatakerfi, hugarfar og menning sem umbunaði þeim sem tóku skjótar ákvarðanir og áhættu. Þegar stefndi í óefni m.a. vegna alþjóðlegrar þróunar tók líklega örvæntingin við: Reynt var að „bjarga“ því sem bjargað varð undir mikilli tímapressu. Þá er haldið stöðugt lengra út á hin gráu svæði þar sem skilin milli rétts og rangs, löglegs og ólöglegs verða æ óljósari. Fyrr eða síðar hafa svo verið teknar rangar ákvarðanir sem brjóta allt í senn gegn góðri dómgreind, viðskiptasiðfræði og lögum. — Er það ekki fyrst og fremst af þessum ástæðum sem stofnað var til „hlutfallslega stærsta saksóknaraembættis í heimi“ svo enn sé vísað til orða Kristínar Þorsteinsdóttur?

Rannsókn sérstaks saksóknara helgast því ekki af því að hundruð karla og kvenna séu grunuð um alvarlega glæpi vegna illrar hneigðar sinnar. Þvert á móti er verið að rannsaka hvenær brot voru framin og hvenær ekki. Brotin voru ekki endilega framin af illum ásteningi, glæpahneigð eða einhverju þaðan af verra. Þau kunna allt eins að hafa verið framin af dómgreindarleysi eða í örvæntingu. Slík brot verður eigi að síður að rannsaka og leiða til lykta þannig að trygg sé að við séum öll jöfn fyrir lögunum, að öllu réttlæti sé fullnægt og þau fái hugsanlega bætur sem á var brotið. Ekki er því hægt að líta á slík mál sem „dómstólaþras, sem allt er að drepa úr heift og leiðindum“ eins og Kristín lætur að liggja.

Hér er síður en svo verið að bera blak af einum né neinum. Þetta er aðeins tilraun til að sýna fram á að það eru fleiri kostir í boði en hjákátleg sviðsmynd Kristínar Þorsteinsdóttur þegar reynt er að túlka atburðarásina í Hruninu og þar með skrifa sögu þess.

Að mínum dómi hittir Kristín svo aftur naglann á höfuðið þegar hún dregur í efa að dómstólaleiðin sé nægjanleg til að leiða rannsóknir á Hruninu til lykta heldur þurfi til að koma fleiri sjónarhorn — þar á meðal vinkill mannfræðinnar. En var ekki einmitt á þetta bent í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis er brugðið var upp hinni félagssálfræðilegu vídd málsins?