Fellum forsetann

Hjalti Hugason, 17. April 2012 13:12

 

 

Nú er ljóst að forsetakosningar verða á komandi sumri. Fyrsta könnunin á fylgi fram kominna kandídata bendir til að þegar sé kominn frambjóðandi með verulegt fylgi. Jafnvel svo núverandi forseta sé ógnað. Vera má að fleiri komi þó fram og breyti núverndi sviðsmynd.

 

Heillandi hugsun

Það er ótrúlega frjó og ögrandi hugsun að mögulegt verði að fella sitjandi forseta. Það væru hvörf í sögu forsetaembættisins og lýðveldisins.

 

Hingað til hefur forsetinn notið óskoraðrar friðhelgi. Honum hefur verið sýnd virðing í hvívetna og ómögulegt hefur reynst að koma fram með raunhæft mótframboð þegar sitjandi forseti hefur ákveðið að gefa kost á sér að nýju.

 

Það eina sem skyggir á þessa spennandi stöðu í mínum huga er að mörgum er eflaust meira í mun að fella einstaklinginn Ólaf Ragnar en forsetann sem slíkan. Þar á ég við alla er unnu gegn kjöri hans í upphafi ekki síst af pólitískum ástæðum. Síðan þá hefur hann vissulega eignast andstæðinga. Þó er líklegt að eindregnum stuðningsmönnum hafi fjölgað meira ekki síst í kjölfar Icesave-kosninganna. Með því að beita málskotsréttinum sneri forsetinn vörn í sókn í uppgjörinu eftir Hrun. Þannig má væntanlega skýra þann mikla meðbyr sem framboð hans hlaut nú í vetur eftir að hann hafði slegið úr og í um áramótin.

 

Mér er er ekkert sérstaklega í mun að fella Ólaf Ragnar. Ég er gamall stuðningsmaður hans. Mér er ofar í huga að fella þann forseta sem sat í embætti 2008 en þann einstakling sem um ræðir.

 

Veislustjóri atvinnulífsins

Löngu áður en Ólafur Ragnar flutti að Bessastöðum var forsetinn orðinn að veislustjóra þjóðarinnar — ekki síst viðskiptageirans.

 

Það virtist sjálfgefið að fulltrúar á hvers kyns ráðstefnum og fundum gætu pantað móttöku á Bessastöðum og í opinberum heimsóknum voru fjölmennar viðskiptasendinefndir í för með forsetanum. Vissulega áttu vísindi, menning og menntu líka hauk í horni þar sem forsetinn var. Tengsl embættisins við viðskiptalífið eiga sér því lengri sögu en frá 1996. Þau verða líka áfram til staðar. Það er og verður eitt af hlutverkum forsetans að smyrja hin margumræddu hjól atvinnulífsins. — Það er bara spurning hve þykkt er smurt.

 

Gagnrýninn forseti

Með ofangreindum tengslum var grunnur lagður að því hlutverki sem Ólafur Ragnar gekk inn í af svo miklum krafti á þensluárunum fyrir Hrun og varð svo hált á.

 

Þess ber þó að gæta að forsetaembættið hafði ekki yfir að ráða neinum greiningardeildum eða öðrum úrræðum til að meta stöðu mála á hlutlausan og gagnrýninn máta. Forsetinn var í raun í lítið betri stöðu til að sjá í gegnum blekkingarvef athafnaleirskáldanna en við hin. Ólafur Ragnar tók hefðbundinn þátt í að draga fé og fyrirtæki til landsins ef til vill aðeins af meiri ákafa og metnaði en einkenndi forvera hans. — Því fór sem fór. Hann var rúinn trausti þegar veislunni lauk.

 

Sú lexía sem við og verðandi forsetaframbjóðendur getum dregið af þessu öllu er að forsetinn verður að halda sjálfstæði, fjarlægð og frelsi gagnvart öllum valdablokkum samfélagsins. Forsetinn verður að nota víðsýnið á Bessastöðum til að skapa sér gagnrýnið sjónarhorn á það sem gerist í samfélaginu og leggja sig fram um að beina því á heillavænlegar brautir.

 

Uppgjör

Með því að fella sitjandi forseta sýnum við að við erum gagnrýnir kjósendur. Við kjósum ekki til að viðhalda ríkjandi ástandi heldur til að breyta.

 

Því meiri umskipti sem verða því skýrari verða skilboðinn. Ung kona sem leysir af karl á eftirlaunaaldri er ták sem ekki verður misskilið. — Þannig yrði forsetinn ímynd hins nýja, þess sem koma skal, þess sem við mörg höfum þráð svo heitt síðan veturinn 2008. — Að fella sitjandi forseta einmitt nú í sumar yrði hluti af því nauðsynlega uppgjöri sem ekki hefur tekist að gera eftir Hrun.

 

Æfing

Forsetakosningarnar nú í sumar geta líka orðið upphitun og æfing undir þær alþingiskosningar sem verða 2013. Með því að fella sitjandi forseta sendum við skilaboð til stjórnmálaaflanna í landinu, skilaboða þess efnis að við viljum nýtt upphaf, skýra og ferska kosti til að kjósa um.

 

Gömlu flokkarnir verða að ganga í endurnýjun lífdaganna, gera upp við bakgrunn sinn og hugsa stefnumál sín upp á nýtt. Ný framboð verða aftur á móti að gera sér ljóst að ekki dugir að gera út á óánægju og beita ódýrum loforðum. Þvert á móti verða þau að koma með ábyrgar og raunhæfar stefnuskrár, reka málefnalega pólitík.

 

Langtímaminn

Í kosingum felst alltaf uppgjör og mat. Sérhver kjördagur er stund sannleikans. Þá færist valdið frá valdhöfunum til okkar kjósenda. Við höldum þó valdinu aðeins í þá 13 tíma sem kjörfundur stendur. Að kosningum loknum höfum við framselt það öðrum til næstu fjögurra ára. Við verðum því að beita kosningarrétti okkar af ábyrgð.

 

Á tímum sem þeim sem nú standa yfir er sérlega mikilvægt að við vöndum val okkar. Við megum ekki láta stjórnast af skammtímaminninu einu og sveiflast gagnrýnislaust milli blokka í stjórnmálunum vegna þess að okkur virðist sitjandi stjórn eða þingmeirihluti ekki hafa risið undir ýtrustu væntingum okkar síðustu mánuðina eða misserin fyrir kosningar. Við verðum líka að beita langtímaminninu.

 

Í næstu þingkosningum verðum við til að mynda að muna hvar í flokki arkítektana að kvótakerfinu er að finna, hverjir leiddu einkavæðingu fjármálakefisins, hverjir stokkuðu spilin og gáfu í þeirri lönguvitleysu sem nú stendur yfir. Umfram allt verðum við að spyrja: Þykir okkur rétt eða vitlaust gefið? Og kjósa í samræmi við það. 

Hallgrímur og Gyðingarnir

Hjalti Hugason, 15. April 2012 11:35

 

 

Passíusálmarnir voru að venju lesnir á nýafstaðinni föstu. Þetta var í 69. sinn.

Sigurbjörn Einarsson reið á vaðið. Hann las líka sálmana oftar en nokkur annar eða þrisvar. Um 50 karlar hafa lesið sálmana í heild en aðeins 12 konur og kom röðin ekki að konu fyrr en eftir 30 ára lestur. Upplesturinn er þannig kynjaspegill á samfélagið.

Prestar hafa lesið í 26 skipti en óvígt fólk í 39. 1978 lásu 25 guðfræðinemar og jafnmargir 14–18 ára skólanemar 2011. Flutningurinn hefur því ekki verið einokaður af klerkum. Upplestur sálmanna er þvert á móti vel rótfestur í menningu þjóðarinnar. Þannig hafa Nordal, Laxness, Jón Helgason í Kaupmannahöfn og Vigdís lesið, auk okkar bestu upplesara og útvarpsradda. Óhætt er að segja að Passíusálmaflutningurinn sé orðinn menningarhefð.

Nú á föstunni brá svo við að bréf barst frá Simon Wiesenthal-stofnuninni í Los Angeles þar sem flutningurinn var gagnrýndur vegna and-gyðinglegrar afstöðu í sálmunum. Útvarpsstjóri svaraði kvörtuninni á þann veg að slík túlkun á sálmunum sé of ströng, sálmarnir séu gamlir og lýsi enn eldri atburðum, þeir séu í hávegum hafðir og mikilvægur hluti íslenskrar sögu og menningararfleifðar, RÚV muni því halda áfram að útvarpa þeim.  Þetta virðist málefnalegt svar. Þó má taka undir með útvarspsstjóra er hann segir að ábendingin sé bæði gagnleg og áhugaverð.

Það er ástæða til að staldra við ábendingu sem þessa. Hér skal ekki mælt með að lestrinum verði hætt, felld verði brott erindi eða ortir nýir Passíusálmar. Það er hins vegar hollt að gaumgæfa eigin arfleifð og gera sér grein fyrir að jafnvel tærustu perlur kunna að fela í sér litbrigði sem ekki þættu hæfa í nútímaverki.

Atburðarásin í kringum Krist átti sér stað í samfélagi Gyðinga þar til alveg í blálokin er máli hans var skotið til Pílatusar landsstjóra Rómverja. Átökin sem segir frá í píslarsögunni stóðu hins vegar ekki milli Gyðinga og Krists. Hann og fylgjendur hans voru Gyðingar, öll atburðarás guðspjallanna réðst af gyðinglegu táknmáli og væri óskiljanleg án þess. Átökin stóðu milli alþýðlegrar-gyðinglegrar sértrúarhreyfingar og báknsins, stofnunarinnar eða „kirkjunnar“ á okkar tugumáli. Gyðingdómur og kristni eru heldur ekki andstæð trúarbrögð þótt mikið beri á milli. Þvert á móti eru djúpstæð tengsl milli þeirra og raunar þriðju „bókartrúarbragðanna“, islam. Oft er rætt um fylgjendur allra þriggja sem börn Abrahams, Ísaks og Jakobs. Í kristinni trú sem slíkri felst því ekki and-gyðingleg afstaða þótt hennar hafi vissulega oft gætt í kirkjusögunni.

Það er líka raunar svo að í þeim hugleiðingum Hallgríms út frá píslarsögunni sem finna má í Passíusálmunum gætir vissrar hliðrunar. Í guðspjöllunum koma farísear, fræðimenn og æðstuprestar fram sem andstæðingar Krists. Í píslarsögunni heyrist einnig í trylltum múg eins og alltaf gerist þegar atburðir fara úr böndum og slær fyrir lykt af blóði. Hallgrímur gerir aftur á móti Gyðinga, eða Júða eins og hann segir oft, af og til að sjálfstæðum gerendum í sálmunum. Þá stillir hann þjóðinni vissulega upp sem andstæðingi Krists en ekki leiðtogunum eða götuskrílnum eins og gert er í guðspjöllunum.

Það er þó vert að gefa því gaum að það eru þó ekki Gyðingaþjóðin sem slík sem ber höfuðábyrgð á pínu og dauða Krists að mati Hallgríms. Þver á móti telur hann að þar sé einkum við tvo karla að sakast: Þ.e. Adam og Hallgrím sjálfan. Með þessu er hann þó benda á hluta fyrir heild. Í raun á hann við „okkur“ og „mig“, þ.e. hið breyska mannkyn og lesandann sem ávarpaður er í sálmunum og hvattur til iðrunar.

Eftirfarandi hendingar kunna að skýra hvað við er átt:

Júðar þig, Jesú, strengdu,

ég gaf þar efni til.

Syndir mínar þér þrengdu.

Þess nú ég iðrast vil... (6:11a)