Trúlausir guðfræðingar?

Hjalti Hugason, 25. May 2012 22:19


 

Fyrir skömmu birtist hér á innhaldi grein eftir Magnús S. Magnússon, rannsóknarprófessor við HÍ, undir fyrirsögninni Hverjir vilja láta blekkja sig? (http://www.innihald.is/index.php/thjodfelagsmal/frettaumfjollun/item/932-hverjir-vilja-lata-blekkja-sig) Þar lætur Magnús m.a. að því liggja að guðfræðingar austan hafs og vestan þar á meðal við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ trúi almennt „ekki á tilveru neinna guða“. Á hinn bóginn telur hann þá taka þátt í að blekkja fólk ef ekki með því að boða trú á guð þá með því að mennta aðra til þess.

 

Trú og guðfræði

Nú er trú, jafnvel trú á tilvist guðs, almennt og yfirleitt flókið fyrirbæri sem mörg okkar kjósa að halda að mestu fyrir sig. Hér skal því ekki karpað um trú eða vantrú einstakra guðfræðinga því síður fagstéttarinnar í heild. Það er þó full ástæða til að velta upp sambandi guðfræði og trúar þó ekki væri til annars en að skýra að hér er um tvö ólík fyrirbæri að ræða. Þó skal því haldið fram að trú geti þroskast og þróast sé hún iðkuð í návígi við vandaða guðfræði. Jafnframt skal viðurkennt að trú getur mótað guðfræði bæði á hollan og óhollan máta.

Hlutverk guðfræðinnar er ekki að halda fram einhverri ákveðinni afstöðu til tilvistar guðs, t.d. að sanna hana eða afsanna. Sannast sagna er mögulegt að ástunda guðfræði heila starfsævi án þess að velta spurningunni um tilvist guðs nokkru sinni fyrir sér a.m.k. á kaupi, þ.e. á faglegan og formlegan máta í tengslum við starf sitt. Þessi spurning er heldur ekki uppistaða í guðfræðinámi eins og það er almennt skipulagt við vestræna háskóla. Þetta er spurning sem hvert og eitt okkar hlýtur að eiga við sjálft sig og er hluti af því lífsviðhorfi sem við tileinkum okkur meðvitað eða ómeðvitað og byggjum m.a. á lífsreynslu, tilfinningum og persónugerð.

 

Félagsvísindi, „fílólógía“, hugmyndasaga, heimfærsla?

Hlutverk guðfræðinnar eru margvísleg og hér skal drepið á nokkur þeirra. Trú og trúarhugsun eru snar þáttur í samfélagi og menningu bæði í sögu og samtíð. Eitt af hlutverkum guðfræðinnar er að greina birtingarmyndir og áhrif trúarinnar og þá sérstaklega kristinnar trúar í þessu samhengi. Út frá þessu sjónarhorni má líta á guðfræðina sem félagsvísindalega gein eða trúarbragðafræði sem sérhæfir sig í rannsóknum á kristinni trú sem félagslegu og menningarlegu fyrirbæri. Í guðfræði af þessu tagi er djúpt á spurningunni um tilvist guðs.

Þá má líta á guðfræðina sem rannsókn á fornum textum, þ.e. ritum Gamla og Nýja testamentisins og öðrum textum þeim skyldum þó ekki séu þeir hluti af helgiritasafni Ísraelsmanna hinna fornu og síðar gyðinga og kristinna manna. Að þessu leyti er guðfræðin raunar ekki annað en „fílólógískar“ rannsóknir á uppruna, geymd og inntaki fornra rita. Guðfræði af þessu tagi þarf ekki endilega að vekja upp spurninguna um tilvist guðs þrátt fyrir að hún kunni hæglega að vakna við lestur þessara rita. Henni má þá svara með mismunandi móti.

Enn má líta á guðfræði sem hugmyndasögulega rannsókn á því hvernig inntak ofangreindra texta hefur verið túlkað í aldanna rás. Þá er glímt við spurningar á borð við hvernig Kristur túlkaði rit Gamla testamentisins, „Biblíu“ síns tíma, hvernig Ágústínus kirkjufaðir túlkaði orð Krists, hvernig Lúther lagði út kenningar Ágústínusar og þannig mætti lengi telja. Líklegt er að spurningar um raunhæfar og óraunhæfar, jafnvel „réttar“ og „rangar“, túlkanir skjóti hér upp kollinum og vangaveltur um tilvist guðs leiti fremur á en í félagslegum eða „fílólógískum“ rannsóknum.

Loks getur guðfræði haft það hlutverk að heimfæra boðskap hinna fornu trúartexta upp á aðstæður líðandi stundar. Í því felst m.a. að velta því fyrir sér hvort upphafleg merking einhverrar af fjölmörgum „sköpunarsögum“ Biblíunnar geti átt við nú á dögum, hvort þær séu yfirleitt merkingarbærar, hvort þær „gagnist“ nútímamanni á einhvern máta og þá hvernig. Pælingar á borð við þessar hljóta fyrr eða síðar að vekja spurninguna um tilvist guðs. Þar býður guðfræðin ekki upp á neitt algilt svar en hjálpar vonandi heiðarlegum spyrjanda að komast að undirbyggðari og ábyrgari niðurstöðu en ella hefði orðið. — Sú niðurstaða verður þó ætíð persónulegs eðlis en ekki fagleg eða fræðileg í þröngum skilningi.

 

Boðun og heiðarleiki

Af því sem hér hefur verið sagt er vonandi ljóst að guðfræðin sem fræðigrein snýst ekki um tilvist guðs og að afstaða guðfræðinga í því efni er einkamál hvers og eins. Blæbrigði trúarlegrar afstöðu guðfræðinga eru líklega álíka mörg og einstaklingarnir eru margir. Það þarf því ekki að fela í sér neinn fræðilegan óheiðarleika að ástunda guðfræði hvort sem efast er um tilvist guðs eða litið á hana sem einu bjargföstu staðreynd lífsins. Hins vegar er það svo að sá guðfræðingur sem tekur sér fyrir hendur að boða öðrum trú hlýtur að taka persónulega afstöðu og byggja boðun sína á henni. Ef þann grundvöll skortir er hætt við að guðfræðingurinn finni sig klofinn og óheiðarlegan, sem og að boðskapur hans hljómi ótrúverðugur. Þar skiptir spurningin um tilvist guðs þó ekki ein máli þótt vissulega hljóti hún að teljast grundvallarspurning í boðun kristinnar trúar.

Í síðari grein verður brugðist við öðrum atriðum í grein Magnúsar S. Magnússonar.

Við biðjum Skálholti griða

Hjalti Hugason, 24. May 2012 22:03


Hjalti Hugason og Sigrún Óskarsdóttir

Við biðjum Skálholti griða

Sagan segir að Gissur Ísleifsson hafi um aldamótin 1100 gefið Skálholtsland með því skilyrði að þar væri biskupsstóll meðan kristni væri játuð í landinu. Sú skipan hélst allt til Hruns 18. aldar en þá var biskupsstóllinn fluttur til Reykjavíkur. Biskupinn sjálfur keypti Skálholt á brunaútsölu. Þar með voru skilmálar Gissurar rofnir. Í byrjun sjöunda áratugar liðinnar aldar gaf þjóðin þjóðkirkjunni staðinn.

Reikna má með að þessari rausnarlegu gjöf hafi fylgt sambærilegar óskir og hjá Gissuri biskupi forðum: að Skálholt með allri sinni sögu og helgu hefð væri fyrst og síðast vettvangur kirkjustarfs. Í kjölfarið rættust draumar ýmissa hugsjónamanna í kirkjunni. Prestssetur var endurreist. Dómkirkja reis og var búin frábærum listaverkum Gerðar Helgadóttur og Nínu Tryggvadóttur. Stofnaður var lýðháskóli að norrænni fyrirmynd sem nú er ráðstefnusetur. Það varð mörgum gleðiefni að aftur sæti biskup Skálholt þegar embætti vígslubiskupanna voru flutt á hin fornu biskupssetur. — Við hönnun Skálholtsstaðar var leitast við að raska náttúrunni sem minnst. Það er erfitt að lýsa því með hlutlægum hætti en mörg þeirra sem staðurinn er kær vitna um helgi hans.

Blikur á lofti

Saga Skálholts hefur verði mögnuð. Þetta mikla mennta- m

enningar- og helgisetur hefur einnig verið vettvangur dramatískra atburða. Á 15. öld var biskupi þar drekkt í Brúará sem þar rennur hjá. Á 16. öld var síðasti kaþólski biskup Norðurlanda hálshöggvinn. Á 17. öld var Ragnheiði Brynjólfsdóttur gert að sverja eið — tákn ferðaveldis, tortryggni og harðýðgi. Nú eru enn blikur á lofti og ástæða til að óttast að hin harmræna fortíð varpi enn skugga á Skálholt. Þorláksbúðarmálið sérkennilega er hugsanlega aðeins upphafið af því sem koma skal.

Á kirkjuþingi s.l. haust kynnti athafnamaður „viðskiptahugmynd“ sem gekk út á að reisa „miðaldadómkirkju“ í Skálholti. Hugmyndin var ekki rædd á þinginu sem er æðsta sjórnarstofnun þjóðkirkjunnar. Þrátt fyrir það hefur kirkjuráð ákveðið að ganga til samstarfs um hugmyndina með þeirri áhættu sem því fylgir. Áhætta kirkjunnar er ekki fjárhagsleg. Hún er menningarleg. — Ef hugmyndin gengur eftir er augljós hætta á að þessi kirkja yfirskyggi allt annað sem gert er á staðnum.

Hér skal ekki efast um að miðaldakirkjurnar í Skálholti hafi verið merkileg arkítektónísk verk. Þær voru sér-íslensk útgáfa af stafkirkjum sem við þekkjum best frá Noregi. Þær voru vissulega einstakar en þó þarf að hafa í huga að þær voru merki þess að Íslendingar voru að dragast aftur úr. Á blómaskeiði timburkirkna í Skálholti voru dómkirkjur í öðrum löndum byggðar úr steini. Hér skorti miðstjórnarafl sem lagt gat á fólk þá kvaðavinnu sem bygging steinkirkju krafðist. Timburkirkjurnar í Skálholti eru því þrátt fyrir allt fyrirboði um þá hnignun sem náði hámarki á 18. öld.

 

Kirkjuráð komi til sjálfs sín

Þráfaldlega kemur til hagsmunaárekstra milli tveggja hópa sem í Skálholt koma. Flest sem þangað leita vegna þess kirkjulega starfs sem þar fer fram óska næðis og kyrrðar. Ferðamennirnir leita „upplifunar“, veitinga, minjagripa og salerna en eru síðan á bak og burt.

Hugmyndin um „miðaldakirkjuna“ gengur fyrst og fremst út á að auka aðdráttarafl Skálholts fyrir ferðamenn og þá kosti sem Gullni hringurinn hefur uppá að bjóða enda er um „viðskiptahugmynd“ að ræða. Hún er hins vegar léttvæg út frá menningarsögulegu sjónarmiði og óviðkomandi kirkjulegu starfi. — Og þó!

Hugsanlega hefur kirkjuráð eygt þann möguleika að rísi bygging af því tagi sem um ræðir í Skálholti muni rekstraraðilar hennar reyna að ná sem mestu fé af ferðamönnum — eða jákvæðar orðað: veita sem besta þjónustu. Það mundi létta álagi af þeim vanbúnu stofnunum sem þar eru nú. Þetta er vissulega hugmynd útaf fyrir sig. Skelfing er þó farið yfir mikið fljót eftir vatni. Í Skálholti þarf aðeins að rísa einföld og látlaus upplýsinga- og þjónustumiðstöð. Það væri verðugt samstarfverkefni fyrir kirkjuráð og ferðamálafrömuði. Hitt virðist fráleitt að reisa þurfi 600 fermetra „miðaldakirkju“ til að leysa salernisvanda!

Nú verður kirkjuráð að taka skýra afstöðu. Vill það standa vörð um að áfram gefist þeim sem leita kyrrðar og uppbyggingar í Skálholti tækifæri til þess? Eða vill það einbeita sér að þeim sem eiga þar skamma viðdvöl í leit að „upplifun“? Það virðist hafa veðjað á síðari hópinn. Samræmist það þeim skilmálum sem alltaf hafa fylgt eignarhaldi kirkjunnar á Skálholti? — Þarf kirkjuráð ekki að ganga í sig og endurskoða afstöðu sína?

Mikið er nú rætt um kirkju á krossgötum. Traustið fer þverrandi og upp hafa komið mál sem hafa reynst kirkjunni erfið. Trúverðugleiki Þjóðkirkjunnar hefur beðið hnekki. Það er kallað eftir breytingum. Kirkjunni ber að koma gleðiboðskap á framfæri. Ýmsir hafa sagt að skortur á gleði hafi leikið kirkjuna grátt. Þá hefur verið talað um kjarkleysi til að taka á málum. Ásamt gleðinni er kjarkur undirstaða boðskaparins sem kirkjunni er trúað fyrir.

Kirkja sem vill eiga samhljóm með þjóðinni skilur að það er ekki kallað eftir „miðaldakirkju“ í Skálholti.  Það er kallað eftir gleði, kjarki, virðingu og næmni fyrir nýjum þörfum í breyttu samfélagi. — Hver eru viðbrögð kirkjustjórnarinnar?

 

Höfundar eru guðfræðingar

 

Hvað er ævisaga?

Hjalti Hugason, 24. May 2012 13:04


 

Nýlega hef ég lesið þrjár nýjar ævissögur íslenskra „aldamótamanna“ úr klerkastétt: Brautryðjandann, sögu Þórhalls Bjarnarsonar (1855–1916) biskups eftir Óskar Guðmundsson, Trúmann á tímamótum sögu Haralds Níelssonar (1868–1928) guðfræðiprófessors eftir Pétur Pétursson og Bjarna Þosteinsson; Eldhuga við ysta haf eftir Viðar Hreinsson,  sögu sr. Bjarna Þorsteinssonar (1861–1936) þjóðlagasafnara og tónskálds m.m. á Siglufirði.

Allar eru sögurnar eftir þrautreynda höfunda. Sögupersónurnar voru samtímamenn úr sama samfélagsgeira. Þá má segja að „hagsmunaaðilar“ komi að öllum sögunum, afkomendur og/eða stofnanir sem halda vilja minningu þeirra á lofti. Það er því fróðlegt að bera sögurnar saman þrátt fyrir að slíkur samanburður sé ekki að öllu leyti réttmætur.

Höfundarnir hafa allir fræðilegan metnað og burði og verk þeirra eru fræðilega unnin. Trúmaður á tímamótum er þó fræðilegasta verkið. Það leitar með skýrustum hætti svara við ákveðnum spurningum og leiðir í ljós þekkingu sem vísar út fyrir sögupersónuna sjálfa. Eldhugi við ysta haf er „bókmenntalegast“, ritað af mestri leikni. Brautryðjandinn er alþýðlegasta verkið og bregður upp fjölbreyttastri þjóðlífsmynd.

Þrátt fyrir að þrír kennimenn eigi í hlut er lífshlaup þeirra og ævistarf af ólíkum toga. Það mótar strax efnið í höndum höfundanna. Haraldur var nútímalegastur í þeirri merkingu að hann var sérhæfðastur. Hann einbeitti sér á þrengstum starfsvettvangi þar sem hann hafði líka veruleg áhrif. Hann var einnig í mestum erlendum samskiptum. Þórhallur kom við sögu á víðari vettvangi en hinir tveir. Hann var prestur, Prestaskólakennari og biskup, kom við sögu í bæjarstjórn Reykjavíkur, sat á Alþingi og var virkur á sviði alþýðufræðslu en jafnframt brautryðjandi í búnaðarmálum og tímaritaútgefandi. Starfsvettvangur hans var því landið allt. Bjarni Þorsteinsson bjó hins vegar alla starfsævi sína á sama stað en kom þó víða við sögu. Hann lagði verulegan skerf af mörkum við söfnun og skráningu á íslenskum menningararfi sem stóð yfir um hans daga. Hann var líka eitt af okkar fyrstu tónskáldum og lagði þannig grunn að nútímatónlist í landinu. Þá ávann hann sér sæmdarheitið conditor urbis — höfundur Siglufjarðar en hann skipulagði bæinn í upphafi og var helsti forystumaður í sveitarstjórnarmálum á því skeiði er byggðin í Siglufirði þróaðist úr sveit í þéttbýli. Víst orkar tvímælis að bera saman svo ólíkar sögur.

Störf sögupersónanna ráða þó ekki úrslitum um hvernig ævisaga er rituð um hvern og einn. Þar býr líka að baki val höfundar um hvers konar sögu hann vill skrá. Um alla þrjá hefði verið við hæfi að rita sagnfræðilega ævisögu. Kennimennirnir sem hér koma við sögu voru „aldamótamenn“. Þeir tóku þátt í innreið nútímans í íslenskt samfélag og þjóðbyggingunni sem átti sér stað um aldamótin 1900. Engin ævisagnanna þriggja verður þó talin til þessa flokks í þröngum skilningi. Viðar ritar starfssögu, Pétur hugmyndafræðilega ævisögu en Óskar bók sem kallast getur „æruminnnig“ en slík verk vegsama sögupersónuna og upphefja hana. Hinir höfundarnir tveir halda meiri fjarlægð við sögupersónu sína og rekja bæði styrk þeirra og breyskleika.

Þeirri vangaveltu sem hér hefur verið höfð í frammi er ætlað að minna á að góð ævisaga er ekki gefin stærð sem lesandi geti gengið að með sama hugarfari frá einu verki til annars. Ævissögur þarf að lesa af alúð og íhygli. Spyrja þarf hvers konar saga sé á ferð. Hæfir hún sögupersónunni og sögutímanum? Hvað getur hún sagt og hvað getur hún ekki sagt? Hefur höfundurinn valið frásagnarflokk og frásagnaraðferð við hæfi? Umfram allt ber þó að spyrja hvort styrkleiki sögunnar liggi á sviði fræðanna eða fagurbókmenntanna? Þar einhvers staðar mitt á milli er góða ævisögu að finna. Eldhugi við ysta haf vekur einmitt ágengar vangaveltur um hvernig eigi að nálgast, vega og meta það verk. Hugsanlega er það einmitt einn helsti styrkleiki þeirrar ágætu bókar.

Verður þjóðkirkja að vera íhaldssöm?

Hjalti Hugason, 5. May 2012 09:51


Hjalti Hugason og Sigrún Óskarsdóttir

Verður þjóðkirkja að vera íhaldssöm?

Við búum í fjölmenningarsamfélagi. Þrátt fyrir að Ísland sé ekki fyrsti kostur flóttafólks eða þeirra sem vilja freista þess að eignast betra líf  gætir hér meiri fjölbreyttni hvað varðar trú, litarhátt og menningu en fyrir örfáum áratugum. Í samfélagi þar sem ólíkir menningarheimar mætast ríður á  að búa þannig um hnúta að sátt og samlyndi ríki. Okkur ber því skylda til að ræða hvernig fjölhyggjunni skuli mætt og kosta kapps um að læra af reynslu annarra í því efni.  Í þessu líkt og svo mörgu viðkvæmu umfjöllunarefni verður umræðan því miður oft svart/hvít. Á öðrum endanum eru þau sem vilja loka landinu og einangra. Á hinum kantinum eru þau sem líta á alla umfjöllun sem hræðsluáróður og neita að horfa til þeirra vandamála sem vissulega hafa skapast í nágrannalöndum okkar.

Hvernig ætlar Þjóðkirkjan að bregðast við aukinni flóru trúarbragða, kirkjudeilda og trúleysisstefna?  Fer hún í vörn eða fagnar hún fjölbreytileikanum?

 

Dæmi frá Englandi

Fyrir skömmu birtist hér á landi grein sem lýsir afstöðu Davids Cameron forsætisráðherra Breta til fjölhyggjunnar.  Hann ræðir séstaklega hlutverk Biblíunnar og kristinnar trúar í því samhengi (B+, Fréttabréf Biblíufélagsins, apríl 2012, bls 9).  Fjölhyggja er  mun meiri í Bretlandi en hér og því hlýtur efnið að vekja athygli okkar. Við  getum vissulega lært margt af Bretum um hvernig á — eða á ekki — að mæta fjölhyggju.

Í orðum Camerons hlýtur að felast ákveðinn skilningur á hlutverki kirkjunnar í samfélaginu.  Enska biskupakirkjan á um sumt svipaða sögu og nýtur að vissu leyti hliðstæðrar stöðu og þjóðkirkjan hér. Því er vert að gefa hugleiðingum hans gaum.

 

Veruleiki eða draumsýn?

Forsætisráðherra Breta lýsir því yfir að Bretland sé kristið land og Bretar eigi ekki að vera hræddir við að viðurkenna það. Biblían er að hans mati einkar mikilvæg fyrir „bresk gildi“ og loks kallar hann eftir að „hefðbundin kristin gildi“ verði endurvakin til þess að vega á móti „siðferðislegu hruni“ Bretlands.

Hér vakna ýmsar spurningar vegna þeirrar opnu og friðsamlegu sambúðar milli trúarbragða og einnig milli  trúaðra og ekki-trúaðra sem verður að ríkja í lýðræðislegu fjölhyggjusamfélagi. Er forsætisráðherrann að lýsa Bretlandi fyrri tíma, veruleikanum eins og hann er í dag eða draumsýn sinni um Bretland? — Dreymir hann um kristið Bretland mitt í öllum trúarfjölbreytileikanum? Það er ugglaust auðveldara að leiða eina hjörð en margar. En er sú  draumsýn  réttlát og réttmæt? Kemur hún ekki óhjákvæmilega niður á fulltrúum annarra trúarbragða eða trúleysis?

Cameron lýsir þó alls ekki yfir neinni einfaldri afstöðu. Hann veit og virðir að margir „landsmenn“ eru ekki kristnir og telur ekki „rangt“ að vera annarrar trúar —  eða trúlaus. Hann kveðst meira að segja stoltur yfir að mörg „trúarsamfélög eigi heima í Bretlandi“ og að það efli landið. Forsætisráðherra lýsir loks sinni eigin afstöðu svo að hann iðki kristna trú aðeins „lítillega“ og sé „fullur efasemda“ þótt hann telji sig „skuldbundinn“ kristninni.

Hér er að mörgu að hyggja. Einhverjum kann  t.a.m. að finnast mótsögn milli Camerons forsætisráðherra sem hefur miklar væntingar til kristninnar og Davids í Downingstrætinu sem er fullur efasemda. Öðrum kann að finnast tvískinnungur í ákalli hans eftir kristnum gildum og stolti yfir trúarflórunni.

 

Umburðarlyndishefð

Forsætisráðherrann byggir hugmyndir sínar á eldgamalli enskri hefð. Allt frá 17. öld hefur verið skilið á milli opinberrar trúar og einkatrúar í Bretlandi.

Biskupakirkjan hefur verið hin opinbera kirkja landsins og eitt helsta sameiningartákn Heimsveldisins við hlið krúnunnar. Frá 1688 hefur aftur á móti ríkt umburðarlyndi gagnvart minnihlutahópum og síðar trúfrelsi — lengi þó með skertum borgaralegum réttindum. Af þeim sökum lítur Cameron raunar svo á að kristnin sé „bresk“ en önnur trúarbrögð „eigi bara heima“ í landinu líkt og gestir eða útlendingar.

Hér er líka komið að því sem Bretar hafa helst verið gagnrýndir fyrir í innflytjendamálum sínum. Þeir hafa að sumra mati lagt of þunga áherslu á rétt þeirra sem til landsins flytja til að halda sérkennum sínum. Um leið hefur þess verið krafist  að Bretar fái að halda eigin hefðum óröskuðum. Þá hafa þeir undirstrikað að þeir séu handhafar hinna raunverulegu „bresku“ hefða sem hljóti að hafa forgang í opinbera rýminu þrátt fyrir stöðugt vaxandi fjölbreytileika. Þetta er arfur frá nýlendutímanum og blómaskeiði Heimsveldisins. Af þessum sökum telja sumir að Bretar hafi unnið gegn aðlögun nýbúa og haldið þeim á jaðri samfélagsins. Það væru þá hinar öfgarnar borði saman við einstrengingslega aðlögunarkröfu Frakka.

Að einu leyti talar Cameron þó sem sannur fjölmenningarsinni. Það er þegar hann segir að Biblían hafi „hjálpað til við gefa Bretlandi ákveðin gildi og siðferðisviðmið sem gera Bretland að því sem það er í dag.“ Hann reikna því með að fleiri hafi lagt í púkkið þegar hinn breski gildagrunnur dagsins í dag varð til. Í því felst virðing og viðurkenning sem er til þess fallin að byggja upp traust og umburðarlyndi í margbreytileikanum.

 

Kallað eftir veraldarvæddri trú

Í ákalli Camerons um endurvakningu kristinna gilda felst áskorun til kirkjunnar og þá einkum Ensku biskupakirkjunnar. Cameron kallar eftir að kirkjan standi vörð um hefðbundin, kristin gildi. Hann kallar kirkjuna jafnframt til ákveðins hlutverks sem felst í því að efla hin bresku gildi. Þetta á kirkjan að gera þótt Bretar almennt og yfirleitt hafi síðan allan rétt á að vera fullir efasemda eins og hann sjálfur, trúlausir eða annarrar trúar. Hér kallar Cameron eina áhrifastofnun — kirkjuna — til stuðnings við aðra — ríkið.

Við þetta ákall kann mörgu kirkjufólki bæði í Bretlandi og hér á landi að hafa hlýnað um hjartarætur: Það gleður alltaf þegar reiknað er með kirkjunni og henni gefið skilgreint hlutverk í nútímanum. Öðru kann að hafa runni kalt vatn milli skinns og hörunds: Getur kristin kirkja gengið inn í svona þrögt skilgreint samfélagspólitískt hlutverk?

Það sem Cameron raunverulega kallar eftir er að kirkjan finni sig í því hlutverki að vera stofnun eða rammi utanum það sem kalla má borgaralega eða nánast veraldlega trú (civil religion). Aðall borgaralegrar trúar er að standa vörð um hefðbundin gildi samfélags eins og ráðandi öfl kjósa að skilja þau og verða hluti af opinberum táknheimi samfélagsins og efla þannig einingu þess og samstöðu.

Kirkja sem gengur inn í slíkt hlutverk af heilum huga verður alltaf framlengdur armur ríkisvaldsins hvernig sem tengslum ríkis og kirkju er háttað að öðru leyti. Hún verður alltaf hluti af hástéttinni, hámenningunni, kerfinu eða bákninu. Það telst alltaf til borgaralegra dyggða að tilheyra slíkri kirkju hvað svo sem líður persónulegri afstöðu og virkni.

Ákall Camreons til kirkjunnar kemur okkur við vegna þess að íslenskir stjórnmálamenn skilgreina oft hlutverk kirkjunnar í samfélaginu á sama hátt og hann. Það gera  vissulega ekki stjórnmálamenn einir heldur margir aðrir bæði innan og utan kirkju í þröngum skilningi. Auðvitað er það líka svo að það verður alltaf eitt af hlutverkum gamalla og stórra trúfélaga að halda uppi hefðum og gildum í samfélagi sínu. Það skiptir þó höfuðmáli hvernig það er gert: Er það gert á forsendum kirkjunnar sjálfrar með hagsuni heildarinnar að leiðarljósi, á gagnrýnin máta og af virðingu við aðra eða af tryggð við valdið og ótta við breytingar sem oft reynast til hins betra þegar fram líða stundir.

Ef kirkjan vill raunverulega byggja á gamalli hefð þarf að líta til þess sem grundvöllinn lagði.  Þar var ekki þjónkun við valdið sem leiðina varðaði.  Þvert á móti.

 

Spámaður, trúður eða fífl?

Í trúarlegu tilliti hefur þróun síðustu alda á Vesturlöndum verði lýst svo að hún liggi frá trúarmenningu til trúarsannfæringar eða trúarlegrar einstaklingshyggju.

Í þessu felst að litið er svo á að samfélag fyrri alda hafi einkennst af að merki trúarinnar hafi hvarvetna verið sýnileg á yfirborði samfélagsins. Í ýmsum íslömskum löndum getum við séð sambærileg samfélög nú á dögum. Um daga trúarmenningarinna var  einstaklingurinn bundinn af trúarlegri „skuldbindingu“ eða samsömun burtséð frá sannfæringu á borð við það sem Cameron forsætisráðherra lýsir. Trúin var þá sýnilegt og sterkt einingarband.

Lýsingin felur hins vegar í sér að nú á dögum skipti máli að einstaklingurinn sé frjáls og myndugur á sviði trúarinnar líkt og á öðrum sviðum. Þá er jafnframt litið svo á að félagsleg velferð okkar felist m.a. í að við fáum að vera við sjálf og sjálfum okkur trú í trúarlegu tilliti en séum ekki gerð annars flokks vegna trúar eða skorts á henni.

Við þessar nýju aðstæður er opin spurning hvort kristin kirkja geti áfram sætt sig við það hlutverk að vera einungis rammi um borgaralega trú.  Væri kirkjan ekki þar með trúmálastofnun hins opinbera eins og hér er talið liggja undir steini í orðum Davids Camreon?

Oft er lögð áhersla á að kristinni kirkju beri að vera gagnrýnið, „spámanlegt“ afl í anda þeirra fornu samfélagsrýna sem við mætum í mörgum ritum Gamla testamentisins. Þá er jafnframt minnt á hlutverk trúðsins eða hirðfíflsins sem kom við kaun sem aðrir þóttust ekki sjá. Öll þekkjum við líka frásögnina um barnið í ævintýri Andersens sem eitt benti á nekt keisarans og þannig mætti lengi telja. Í rétttrúnaðarkirkjunni í Austur-Evrópu gegndi hið heilaga fífl lengi mikilvægu hlutverki. — Það sneri öllum gildum á hvolf, steig út úr samfélaginu, hafnaði hefðum þess og höftum og boðaði trúna í öfugmælum. Fíflið var þyrnir í augum þeirra sem aðhylltust stofnunarvædda trú en fæstir drógu heiðarleika þess og heilagleika í efa.

Gömul og virðuleg kirkja á borð við íslensku þjóðkirkjuna verður að vísu seint trúverðugt fífl. Kirkja sem bregst gagnrýnislaust við ákalli um að vera vettvangur borgaralegrar trúar afsalar sér aftur á móti hlutverki spámannsins, trúðsins og fíflsins algerlega. Hún er til friðs, er prúð, stillt og umfram allt íhaldssöm. Er það hugsanlega eina hlutverk þjóðkirkju í samtímanum eða svíkur hún þvert á móti sjálfa sig með því að ganga inn í það af heilum huga?

Áður en þeirri spurningu er svarað þarf að huga að því hver gætti hinnar borgaralegu trúar í árdaga kristninnar: Hvort voru það farísearnir eða Kristur og fylgjendur hans? — Er það ekki spurningin sem þetta allt snýst um?

 

Að lokum

Ábyrgðarlaust væri að svara þeirri ágengu spurningu sem varpað var fram í upphafi með einföldu já-i eða nei-i. Þjóðkirkjan er hluti af langtímaminni samfélags og ber því að gæta ákveðinnar festu sem sumum kann að þykja íhaldssemi. Hún er þó líka hluti af hinni alþjóðlegu kirkju Krists og því framhald Krists-atburðarins sem rakinn er í guðspjöllunum. Í því felst ákall til gagnrýnins endurmats sem beinist ekki síst inn á við, að kirkjunni sjálfri. Í því felst brýning, hvatning, áskorun um að gæta ekki aðeins hefðanna heldur endurskapa þær við síbreytilegar aðstæðu m.a. í ljósi fjölhygjunnar. Í því felst óhjákvæmilega áskorun um róttækni.

Höfundar eru guðfræðingar