Trúlausir guðfræðingar?

Hjalti Hugason, 25. May 2012 22:19


 

Fyrir skömmu birtist hér á innhaldi grein eftir Magnús S. Magnússon, rannsóknarprófessor við HÍ, undir fyrirsögninni Hverjir vilja láta blekkja sig? (http://www.innihald.is/index.php/thjodfelagsmal/frettaumfjollun/item/932-hverjir-vilja-lata-blekkja-sig) Þar lætur Magnús m.a. að því liggja að guðfræðingar austan hafs og vestan þar á meðal við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ trúi almennt „ekki á tilveru neinna guða“. Á hinn bóginn telur hann þá taka þátt í að blekkja fólk ef ekki með því að boða trú á guð þá með því að mennta aðra til þess.

 

Trú og guðfræði

Nú er trú, jafnvel trú á tilvist guðs, almennt og yfirleitt flókið fyrirbæri sem mörg okkar kjósa að halda að mestu fyrir sig. Hér skal því ekki karpað um trú eða vantrú einstakra guðfræðinga því síður fagstéttarinnar í heild. Það er þó full ástæða til að velta upp sambandi guðfræði og trúar þó ekki væri til annars en að skýra að hér er um tvö ólík fyrirbæri að ræða. Þó skal því haldið fram að trú geti þroskast og þróast sé hún iðkuð í návígi við vandaða guðfræði. Jafnframt skal viðurkennt að trú getur mótað guðfræði bæði á hollan og óhollan máta.

Hlutverk guðfræðinnar er ekki að halda fram einhverri ákveðinni afstöðu til tilvistar guðs, t.d. að sanna hana eða afsanna. Sannast sagna er mögulegt að ástunda guðfræði heila starfsævi án þess að velta spurningunni um tilvist guðs nokkru sinni fyrir sér a.m.k. á kaupi, þ.e. á faglegan og formlegan máta í tengslum við starf sitt. Þessi spurning er heldur ekki uppistaða í guðfræðinámi eins og það er almennt skipulagt við vestræna háskóla. Þetta er spurning sem hvert og eitt okkar hlýtur að eiga við sjálft sig og er hluti af því lífsviðhorfi sem við tileinkum okkur meðvitað eða ómeðvitað og byggjum m.a. á lífsreynslu, tilfinningum og persónugerð.

 

Félagsvísindi, „fílólógía“, hugmyndasaga, heimfærsla?

Hlutverk guðfræðinnar eru margvísleg og hér skal drepið á nokkur þeirra. Trú og trúarhugsun eru snar þáttur í samfélagi og menningu bæði í sögu og samtíð. Eitt af hlutverkum guðfræðinnar er að greina birtingarmyndir og áhrif trúarinnar og þá sérstaklega kristinnar trúar í þessu samhengi. Út frá þessu sjónarhorni má líta á guðfræðina sem félagsvísindalega gein eða trúarbragðafræði sem sérhæfir sig í rannsóknum á kristinni trú sem félagslegu og menningarlegu fyrirbæri. Í guðfræði af þessu tagi er djúpt á spurningunni um tilvist guðs.

Þá má líta á guðfræðina sem rannsókn á fornum textum, þ.e. ritum Gamla og Nýja testamentisins og öðrum textum þeim skyldum þó ekki séu þeir hluti af helgiritasafni Ísraelsmanna hinna fornu og síðar gyðinga og kristinna manna. Að þessu leyti er guðfræðin raunar ekki annað en „fílólógískar“ rannsóknir á uppruna, geymd og inntaki fornra rita. Guðfræði af þessu tagi þarf ekki endilega að vekja upp spurninguna um tilvist guðs þrátt fyrir að hún kunni hæglega að vakna við lestur þessara rita. Henni má þá svara með mismunandi móti.

Enn má líta á guðfræði sem hugmyndasögulega rannsókn á því hvernig inntak ofangreindra texta hefur verið túlkað í aldanna rás. Þá er glímt við spurningar á borð við hvernig Kristur túlkaði rit Gamla testamentisins, „Biblíu“ síns tíma, hvernig Ágústínus kirkjufaðir túlkaði orð Krists, hvernig Lúther lagði út kenningar Ágústínusar og þannig mætti lengi telja. Líklegt er að spurningar um raunhæfar og óraunhæfar, jafnvel „réttar“ og „rangar“, túlkanir skjóti hér upp kollinum og vangaveltur um tilvist guðs leiti fremur á en í félagslegum eða „fílólógískum“ rannsóknum.

Loks getur guðfræði haft það hlutverk að heimfæra boðskap hinna fornu trúartexta upp á aðstæður líðandi stundar. Í því felst m.a. að velta því fyrir sér hvort upphafleg merking einhverrar af fjölmörgum „sköpunarsögum“ Biblíunnar geti átt við nú á dögum, hvort þær séu yfirleitt merkingarbærar, hvort þær „gagnist“ nútímamanni á einhvern máta og þá hvernig. Pælingar á borð við þessar hljóta fyrr eða síðar að vekja spurninguna um tilvist guðs. Þar býður guðfræðin ekki upp á neitt algilt svar en hjálpar vonandi heiðarlegum spyrjanda að komast að undirbyggðari og ábyrgari niðurstöðu en ella hefði orðið. — Sú niðurstaða verður þó ætíð persónulegs eðlis en ekki fagleg eða fræðileg í þröngum skilningi.

 

Boðun og heiðarleiki

Af því sem hér hefur verið sagt er vonandi ljóst að guðfræðin sem fræðigrein snýst ekki um tilvist guðs og að afstaða guðfræðinga í því efni er einkamál hvers og eins. Blæbrigði trúarlegrar afstöðu guðfræðinga eru líklega álíka mörg og einstaklingarnir eru margir. Það þarf því ekki að fela í sér neinn fræðilegan óheiðarleika að ástunda guðfræði hvort sem efast er um tilvist guðs eða litið á hana sem einu bjargföstu staðreynd lífsins. Hins vegar er það svo að sá guðfræðingur sem tekur sér fyrir hendur að boða öðrum trú hlýtur að taka persónulega afstöðu og byggja boðun sína á henni. Ef þann grundvöll skortir er hætt við að guðfræðingurinn finni sig klofinn og óheiðarlegan, sem og að boðskapur hans hljómi ótrúverðugur. Þar skiptir spurningin um tilvist guðs þó ekki ein máli þótt vissulega hljóti hún að teljast grundvallarspurning í boðun kristinnar trúar.

Í síðari grein verður brugðist við öðrum atriðum í grein Magnúsar S. Magnússonar.