Kreppan að baki?

Hjalti Hugason, 8. July 2012 23:40


Undanfarnar vikur og mánuði hefur því þráfaldlega verið fleygt í umræðunni að kreppan í kjölfar Hrunsins 2008 sé að baki. Öll vitum við að þar með erum við ekki komin í skjól. Krísan í viðskiptalöndum okkar á evru-svæðinu mun fyrr eða síðar leiða til samdráttar hér. — Það er þó önnur Ella. Íslenska kreppan var að vísu afleiðing af lánsfjárþurrð í heiminum. Hrunið sjálft var samt innlend framleiðsla. Við komum okkur í það af eigin rammleik undir forystu viðskiptajöfra okkar, stjórnvitringa af frjálshyggjuskólanum og undir háværu klappi forsetans.

Vel má vera að þessari heimagerðu kreppu sé lokið. Ýmsar hagtölur vísa nú upp á við í stað niður áður. Spennandi verður að sjá hvaða dóma ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur munu fá þegar söguleg fjarlægð er fengin á ráðstafanir þeirra frá 2009 og út kjörtímabilið. Margt bendir til að þeir muni verða jákvæðir. Hugsanlega byggir hávær og yfirdrifin gagnrýni stjórnarandstæðinga á áleitnum grun um að sú verði raunin. Í pólitík reyna menn ávallt að skrifa söguna fyrirfram.

 

„Aftur á móti var annað stríð...“

Íslensku kreppunni er þó aðeins lokið út frá þröngu sjónarhorni séð. Þjóðarhagur kann að hafa batnað svona á heildina litið mælt á yfirgrípandi mælikvarða. Afleiðingar kreppunnar bíta þó enn undir niðri og munu ekki fyrst um sinn sleppa takinu af mörgum einstaklingum okkar á meðal.

Kreppan er ekki að baki hjá þeim sem misstu atvinnu og hafa ekki fengið aðra jafngóða. Kreppan er ekki að baki hjá þeim sem misstu heimili sín eða aðrar eignir. Kreppan er ekki að baki meðal þeirra sem glötuðu ævisparnaði sínum eða urðu á annan máta illa fyrir barðinu á Hruninu.

Hvað svo sem hagtölur kunna að sýna munu mörg okkar áfram þurfa að takast á við afleiðingar kreppunnar. Verði ekkert að gert er hætt við að til verði kynslóð eða aldurshópur sem verður að verja drjúgum hluta ævinnar í glímuna við eftirstöðvar kreppunnar í formi ofvaxinna skulda og tekjusamdráttar. Út frá þeim bæjardyrum séð mun hún fylgja okkur í marga áratugi.

Í hrifningu okkar yfir drjúgri siglingu þjóðarskútunnar megum við ekki gleyma þessari hlið kreppunnar. Það er þvert á móti siðferðisleg skylda samfélagsins að horfast í augu við hana.

 

Reiðin

Íhaldssamar valdapersónur af ýmsu sauðahúsi hafa að undanförnu þráfaldlega talað af vandlætingu um reiðina í samfélaginu af völdum Hrunsins. Svo er að heyra að þessu vel setta og vel meinandi fólki hafi þótt reiði — vel að merkja væri hún stillt og prúð — átt rétt á sér haustið 2008 en ekki núna. Nú telur það skyldu okkar að gleyma því sem að baki er og gleðjast yfir bættum hagtölum. Þetta er einföld ef ekki einfeldningsleg greining á ástandinu.

Þvert á móti verðum við að spyrja: Er reiði örugglega rétta orðið til að lýsa tilfinningunni sem ólgar í djúpi þjóðarsálarinnar? Er ekki möguleiki á að vanstillingin í samfélaginu stafi fremur af angist yfir erfiðri stöðu, sárindum yfir missi af einhverju tagi, birturleiki yfir rangindum, depurð yfir því að hafa verið blekkt eða blekktur, sorg yfir því sem gerðist — nú eða réttlætanlega reiði yfir þeirri kreppu sem enn er ekki að baki hjá mörgum okkar á meðal?

 

Nýtt upphaf

Það er rétt að fyrir löngu er kominn tími á nýtt upphaf í íslensku samfélagi. Við getum ekki byggt hér upp gott samfélag fyrir okkur sjálf, börn okkar og barnabörn undir formerkjum reiði, angistar, sárinda, biturleika eða sorgar. Við verðum að öðlast gleði, stolt, bjartsýni og samstöðu að nýju.

Þetta gerist þó ekki sjálfkrafa og enn síður vegna þess að valdaöflin í samfélaginu krefjist þess. Þetta gerist því aðeins að kreppan verði ekki blásin af fyrr en henni er raunverulega lokið meðal þeirra sem illa urðu úti, ekki fyrr en réttlæti nær fram að ganga, ekki fyrr en ábyrgð hefur verið öxluð og sátt náðst.

Meðan hinn reiði Geir Haarde í tröppum Þjóðmenningarhússins er tákngerfingur fyrir afstöðu þeirra sem voru við völd á veltiárunum og í Hruninu mun „agressíónin“ ólga áfram í þjóðardjúpinu. — Það er ekki þjóðin sem á leik heldur þau sem völdin höfðu og völdin hafa.

Guð gefi að hér blómgist í framtíðinni „gróandi þjóðlíf með þverrandi tár“. Til þess þarf þó vilja til að vinna að réttlæti og sáttum. Valdafólkið ætti að beina kröftum sínum að því í stað þess að tugta til sára og hugsanlega reiða þjóð!