Trúmálaréttur fyrir 21. öldina

Hjalti Hugason, 20. August 2012 17:43


Trú og lífsskoðanir eru meðal þess sem okkur er heilagast. Það er réttur hvers einstaklings að vera frjáls trúar sinnar og skoðana. Trú- og skoðanafrelsi er því meðal frumlægra mannréttinda sem standa ber vörð um. Að þessu leyti eru trú og lífsskoðanir einkamál sem hið opinbera ætti ekki að vera með puttana í.

Trúmálaréttur mikilvægur
Á þessu máli er þó annar flötur. Í landinu starfa kirkjur, trú- og lífsskoðunarfélög. Mörg þeirra hafa starfað hér lengi og standa styrkum fótum í samfélaginu og velta miklu félagslegu og menningarlegu „kapítali“ auk beinharðra peninga. Þá koma þau að lífi stórs hluta þjóðarinnar á viðkvæmustu stundunum í lífi okkar í gleði og þraut og starfa öll á afar viðkvæmum sviðum lífsins jafnvel þar sem við liggjum flötust fyrir. Af þeim sökum hafa trúar- og lífsskoðunarmálefnin hlið sem mikilvægt er að hið opinbera setji leikreglur um. Það þarf að vera mögulegt að vernda einstaklinga fyrir kirkjum, trú- og lífsskoðunarfélögum en það þurfa líka að gilda reglur sem gera þessum félögum kleift að sýna sínar bestu hliðar. Það gera þau m.a. með því að fylla út í grófa möskva íslenska velferðarkerfisins ekki síst eftir Hrun. — Hver viðurkennir ekki að Samhjálp, Hjálparstarf kirkjunnar, Hjálpræðisherinn og ýmis trúarleg velferðarsamtök önnur hafi ekki gert sitt gagn?
Einmitt af þessum sökum er mikilvægt að í gildi sé vandaður trúmálaréttur í landinu. Með því er átt við stjórnarskrárákvæði, lög og reglugerðir sem gera það að verkum að hluti en aðeins hluti trú- og lífsskoðunarmálefnanna heyri undir opinberan rétt. Það tryggir að hið opinbera hafi innsýn og jafnvel íhlutunarrétt í þennan afar viðkvæma málaflokk — ekki síst starf kirknanna, trú- og lífsskoðunarfélaganna.
Þá má og benda á annað atriði sem einnig kallar á vandaðan trúmálarétt. Íslenskt samfélag þróast nú hratt úr einsleitu lúthersku samfélagi yfir í fjölhyggjusamfélag. Trúarbrögðum í landinu fer fjölgandi, trúarleg einstaklinghyggja fer stórum í vöxt og þeim fer fjölgandi sem aðhyllast veraldlegar lífsskoðanir í stað trúar. Í náinni framtíð mun því trúar- og lífsskoðunarlegum kimum fjölga mjög í landinu og fjölhyggja aukast. Vandaður trúmálaréttur stendur ekki síst vörð um minnihlutahópa.

Ásarnir í íslenskum trúmálarétti
Frá 1874 er við fengum okkar fyrstu stjórnarskrá hafa ásarnir í íslenskum trúmálarétti verið tveir: trúfrelsi og þjóðkirkjuskipan. Á grundvelli hans hefur öllum verið frjálst að iðka, tjá eða boða þá trú eða lífsskoðun sem hann eða hún aðhyllist einslega eða með öðrum, jafnvel stofna um slíkt félög. Eigi að síður hefur eitt trúfélag, Þjóðkirkjan, verið tekið út fyrir sviga og veitt sérstaða í trúmálaflórunni.
Allt til þessa hafa gild rök verið talin fyrir því að standa þannig að verki. Þjóðkirkjan nær til margfalt stærri hluta þjóðarinnar en nokkurt annað trúfélag, hún starfar á fleiri stöðum, veltir meiri fjármunum og gegnir fleiri félags- og menningarlegum hlutverkum en nokkurt annað trúfélag. Eftir meira en 450 ára samfellda sögu með þjóðinni hefur Þjóðkirkjan einfaldlega það mikla sérstöðu að réttlætanlegt hefur þótt að hún hafi opinberari stöðu en nokkurt annað trúfélag. Þessi sérstaða hennar hefur tvær hliðar. Annars vegar nýtur hún óneitanlega meiri stuðnings og verndar ríkisvaldsins en önnur trú- eða lífsskoðunarfélög. Hins vegar býr hún við mjög skert frelsi miðað við þau þótt sjálfstæði hennar og sjálfsstjórn hafi vissulega aukist rétt fyrir síðustu aldamót.

Fjölga þarf víddum trúmálaréttarins
Nú er kominn tími til að fjölga ásunum í trúmálaréttinum um a.m.k. einn. Það þarf að halda áfram að útvíkka trúfrelsið en það hefur verið í hægfara þróun frá 9. áratugi 19. aldar er fyrstu lög um utanþjóðkirkjufólk voru sett hér á grundvelli stjórnarskrárinnar frá 1874. Það þarf að þróa þjóðkirkjuskipanina áfram annað tveggja með aukinni aðgreiningu ríkis og þjóðkirkju eða einhverjum róttækari skrefum sem kallast oft aðskilnaður ríkis og kirkju. Loks þarf að bæta þriðja hjólinu undir vagninn og auka jöfnuðinn milli Þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga, sem og milli þeirra og félaga sem stofnuð eru um veraldlegar lífsskoðanir. — Mikilvægt er að gefa því gaum að ekki er mótsögn milli þessara þriggja vídda. Trúfrelsi og þjóðkirkjuskipan getur vel farið saman og innan þjóðkirkjuskipanar er hægt að ganga langt í átt að jöfnuði, jafnri stöðu og jöfnum rétti þjóðkirkju og annarra samtaka sem gera sig gildandi á vettvangi trúar og lífsskoðana. Það er einfaldlega verkefni líðandi stundar að stilla af innri hlutföll milli þessara þriggja vídda: trúfrelsisins, þjóðkirkjuskipanarinnar og jöfnuðarins.
Svo vel vill til að einmitt nú stendur yfir mikil vinna á þessu sviði. Samkvæmt þingsályktun sem samþykkt var s.l. vor er stefnt að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í haust þar sem m.a. verður spurt hvort ákvæði um þjóðkirkju skuli áfram vera að finna í stjórnarskrá okkar eða ekki. Hvort sem svarið verður Já eða Nei er ástæða til að endurskoða þjóðkirkjuskipanina, m.a. lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997. Þá liggur fyrir Alþingi frumvarp innanríkisráðherra um breytingar á lögum um skráð trúfélög nr. 108/1999. Samkvæmt því skal lífsskoðunarfélögum sem óska skráningar og standast tilskilin formskilyrði tryggður sami réttur og skráðum trúfélögum. Verði frumvarpið að lögum sem vonandi er verður stórt spor stigið í átt að jöfnuði milli trúar og veraldlegra lífsskoðana. Því skal þessu frumvarpi fangað.

Efasemdaraddir
Margir hafa lagst gegn þeirri breytingu sem nefnt frumvarp boðar og telja að óljóst sé hvað átt er við með lífsskoðunarfélögum. Sér-íslenskt áhyggjuefni hefur jafnvel skotið upp kollinum sem felst í að menn kunni í framtíðinni að taka feil á lífsskoðunarfélögum og mótorhjólagengjum eða öðrum þeim félagsskap sem leiðst gæti út í skipulagða glæpastarfsemi. Þetta eru óþarfa áhyggjur. Auðvelt er að setja fram skýr skilyrði fyrir hvaða félög geti kallast lífsskoðunarfélög og hlotið skráningu sem slík. Það má t.d. gera á eftirfarandi hátt:
Skilyrði fyrir skráningu lífsskoðunarfélags er að um sé að ræða félag sem byggist á veraldlegum lífsskoðunum, miðar starfsemi sína við ákveðin siðferðisgildi og fjallar um siðfræði (og þekkingarfræði ef þurfa þykir) með skilgreindum hætti. Þá er það jafnframt skilyrði fyrir skráningu að um sé að ræða félag sem ástundar mannrækt og sér um athafnir á ævihátíðum, svo sem nafngjafir, fermingar, giftingar, útfarir eða aðrar hliðstæðar athafnir.
Sérfræðinganefnd ætti síðan að skera úr um hvort félag standist þessar kröfur áður en Innanríkisráðuneytið tekur afstöðu til umsóknar um skráningu. Óþarft er að benda á að afar fá félög geta uppfyllt þessi skilyrði á trúverðugan hátt. Jafnvel þótt mörg félög séu hugsanlega stofnuð um eitthvað sem kalla má veraldlega lífsskoðun eða til mannræktar eru afar fá sem geta með góðu móti boðið upp á athafnir sem séu ígildi trúarlegra athafna á ævihátíðum. — Hér virðist því engin hætta að ferðum.
Aðrir benda á að fátítt sé að lífsskoðunarfélögum sé veitt sama staða og trúfélögum og á Norðurlöndum sé hliðstæðu aðeins að finna í Noregi. Þetta er rétt en þó liggja sérstakar ástæður því til grundvallar að fara einmitt þessa leið þar, sem og hér á landi.

Bregðast þarf við sérstökum aðstæðum
Þar sem ekki er þjóðkirkjuskipan og/eða ekki er kveðið á um stöðu skráðra trúfélaga með sama eða svipuðum hætti og gert er hér í lögum nr. 108/1999 er tæpast nokkur þörf á að grípa til ráðstafana af því tagi sem frumvarp innanríkisráðherra gerir ráð fyrir. Eins og fram er komið hefur þjóðkirkjuskipanin hér mjög mótað þróun trúmálaréttarins og svipuðu máli gegnir um Noreg þar sem evangelísk-lúthersk trú hefur samkvæmt stjórnarskrá verið opinber ríkisátrúnaður fram til þessa. Nú er breyting að verða á í því efni þar sem stefnt er að því að festa í sessi þar í landi þjóðkirkjuskipan í líkingu við okkar.
Þá ber og að gæta þess að óvíða er eins hátt hlutfall barna skírt og gerist hér á landi og í Noregi. Þá gegnir ferming óvíða sama sameiningarhlutverki heils árgangs unglinga og í þessum tveimur löndum. Hlutfall kirkjulegra hjónavígslna er þar líka óvenjuhátt og borgaralegar útfarir heyra til algjörra undantekninga. Þar sem svo háttar til er mikilvægt að til sé borgaralegur eða veraldlegur valkostur við þessar athafnir sem standi þeim til boða sem ekki óska eftir trúarlegum athöfnum á ævihátíðum. Það er eitt af helstu hlutverkum lífsskoðunarfélaga að standa að slíkum athöfnum og jafnframt helstu rökin fyrir að breytingin sem innanríkisráðherra leggur til að verði gerð. Af þessum sökum mæla gild rök með lögum af því tagi sem frumvarpið gerir ráð fyrir hér á landi þrátt fyrir að hliðstæður í nálægum löndum kunna að vera fáar.

Spennandi tímar
Hér skal því fagnað að nefnt frumvarp skuli komið fram. Það er sérstaklega áhugavert að þessi vinna skuli vera í gangi nú þar sem Stjórnlagaráð eða meirihluti þess lagði ekki í að fara þessa leið í frumvarpi sínu. Að því leyti náði vilji þess til jöfnuðar ekki nægilega langt — eða hvað?
Þá eru kosningar á komandi hausti jafnvel ekki áhyggjuefni fyrir Þjóðkirkjuna sjálfa. Þótt svarið við spurningunni um þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskránni kunni að verða Nei merkir það ekki lok heldur upphaf aðskilnaðarferlis milli kirkju og ríkis sem óneitanlega býður upp á mörg spennandi viðfangsefni. Aðskilnaður af því tagi er aldrei ein gefin stærð heldur málefni sem marka verður stefnu og skapa sátt um og vinna síðan að stig af stigi. Sú vinna býður upp á mörg spennandi viðfangsefni sem skapað geta Þjóðkirkjunni sóknarfæri. — Svo er auðvitað alls ekki er gefið að svarið verði Nei! Það getur allt eins orðið Já. Tengsl kirkju og ríkis er aðeins ein afleiðingin af tengslum kirkju og þjóðar. — Atkvæðagreiðsla í haust verður óhjákvæmilega vísbending um hvernig þeim tengslu er í raun og veru farið!

Um gæskuna

Hjalti Hugason, 12. August 2012 11:04Fyrir margt löngu birti ég hér á Hugrás litla hugleiðingu um illskuna undir því yfirvarpi að guðfræðin fjallaði um allt milli himins og jarðar — þar á meðal gott og illt. Í huga mínum hefur þessi pistill lengi kallað á framhald sitt: hugleiðinu um gæskuna eða hið góða. Framkvæmdin hefur þó látið á sér standa. Nú loks þegar til kastanna kemur verður mér líka ljóst að ég á erfitt að fjalla um hið góða í sjálfu sér. Það virðist aðeins koma í ljós í samanburði við hið illa. Spyrja má hvort gæskan hafi ekkert eigið gildi — ef ekki almennt þá a.m.k. í mínum huga!

Er illskan áhugaverðari en gæskan?
Stafar skortur á andagift í umhugsun minni um hið góða af því að illskan sé í eðli sínu áhugaverðari en gæskan? Er illskan torráðnari, dulræðari, leyndardómsfyllri, meira laðandi og lokkandi en gæskan? Til er nokkuð sem kallast mysterium tremendum eða leyndardómur sem ógnar. Slíkur leyndardómur umlykur illskuna og er andstæða mysterium fascinosum, leyndardómsins sem heillar. Fylgir meiri spenna leyndardóminum sem ógnar en hinum sem heillar?
Einnig má spyrja hvort búið sé að gelda gæskuna. Þá á ég við hvort hún hafi verið tamin, sveigð og beygð eftir siðrænum mælikvörðum. Höfum við „móralíserað“ gæskuna? Beinist allt uppeldi okkar og félagsmótun að því að gera okkur „góð“, siðferðilega ábyrga þjóðfélagsþegna? Er gæskan orðin að uppeldismarkmiði siðmenntaðra þjóða? Þar með væri hún dæmd úr leik. Hún verður þá aldrei eins lokkandi og hið illa. — Tabúin lokka og laða en ekki hitt sem má eða á að gera.
Svo kann að vera að ekki sé til neitt algilt svar við spurningunni hvers vegna mér reynist torveldara að festa á blað hugleiðingar um gæskuna en þanka mína um illskuna. Ég kann einfaldlega prívat og persónulega að dragast fremur að illskunni en gæskunni. Þar fyrir þarf ég ekki að vera vondur skipti það nú einhverju máli.

Hver er góður/góð?
Ímyndir eða persónugervingar skipta máli til að setja ásjónu og sköpulag jafnvel á huglægustu fyrirbæri. Því er gott að spyrja: Hver er góð eða góður? Hver er til þess falin/fallinn að ljá gæskuni mynd sína?
Guðfræðingur hlýtur fyrst að spyrja: Er Guð góður? Hugsanlega kann það að hljóma guðlasti líkast í huga einhvers að halda því fram að svo sé ekki. Mörgum finnst þó hugmyndin um „algóðan“ Guð stangast á við mörg frásagnarbrot sem við þekkjum úr stórsögu Biblíunnar og þá þurfum við ekki að binda okkur við Gamla testamentið eitt og sér. Sannleikurinn er sá að leyndardómi Guðs er best lýst með orðunum mysterium tremendum et fascinosum en með því er átt við leyndardóm sem í senn ógnar og laðar; er hræðilegur en jafnframt líknandi, skelfir um leið og hann huggar. Þetta vekur spurningar um hvort í Guð búi í senn ljós og myrkur eða í það minnsta laðandi og hræðandi hlið. — Er Guð bæði vondur og góður mælt á mannlegan mælikvarða? Sé Guð almáttugur og standi hann að baki öllu sem varð, er og verður hljótum við að minnsta kosti að gera ráð fyrir að við séum ekki dómbær á hvað sé gott og illt, hvað sé okkur og heiminum fyrir bestu, hvað gæskan í sinni hreinustu mynd sé.
Eins má spyrja hvort Jesús Kristur hafi verið góður. Við sem á hann trúum lítum til hans sem afdráttarlausustu sönnunina fyrir elsku Guðs til heimsins. Séu frásagnir guðspjallanna og tilvitnanir þeirra í orð Krists lesnar ofan í kjölinn verða fyrir mörg dæmi sem vekja efasemdir um að honum sé best lýst sem „góðum“ náunga. Til þess var réttlætiskenndin of sterk, kröfurnar of altækar, boðskapurinn of róttækur, storkunin of yfirgengileg þegar honum laust saman við fulltrúa hefðarfestu og löghlýðni. Sú tilfinning verður ágeng að það hafi verið allt annað en auðvelt að vera í lærisveinahópunum áður en hreyfingin í kringum Krist varð að stofnun, kristnin að kirkju.
Enn má spyrja hvort til dæmis móðir Teresa hafi verið góð. Hún þróaði nunnureglu sína til róttækrar sjálfsafneitunar og þjónustu meðal hinna bágstöddustu á Indlandi. Auðvitað dáumst við af fórnfýsi hennar og kærleika en getur verið að við skynjum einnig í henni friðþægingu fyrir okkur? Sjáum við hana sem eina af líknandi höndum Vestursins í Austrinu?
Móðir Teresa er hér nefnd sem dæmi um hina mörgu dýrlinga kaþólsku kirkjunnar, karla og konur sem tekin hafa verið í tölu heilgara oft fljótt eftir dauðann vegna kærleiksríks lífs eða mikillar sjálfsafneitunar. Séu lífssögur þessa fólks lesnar af gagnrýni kemur oftar en ekki í ljós að dýrlingarnir áttu sér skuggahliðar engu síður en við hin. Á bak við gæsku leyndist stundum valdaþorsti, hroki að baki auðmýktar, sjálfsupphafning að baki fórnfýsi. — Hér skal því alls ekki haldið fram að þetta hafi verið skapgerðargallar í fari móður Teresu. Aðeins er átt við trúarhetjur og hugsjónafólk almennt og yfirleitt bæði fyrr og síðar.

Staðalmyndir gæsku og illsku
Öll erum við meðvituð um veikleika staðalmynda sem meðal annars er bent á í málshættinum: „Oft er flagð undir fögru skinni“. Sú vitneskja ristir þó ekki ætíð djúpt enda er gert út á staðlaðar hugmyndir til dæmis í afþreyingariðnaðinum. Oftar en ekki er hinn góði ljós yfirlitum, í góðu formi, vel út lítandi, fínn til fara og vel settur í samfélaginu. Hinn dæmigerði skúrkur er hins vegar dökkur á brún og brá, grófur, kominn af lágum stigum — jafnvel útlendingur.
Því miður er hér ekki aðeins um ímyndir úr annars flokks kvikmyndum eða krimmum að ræða. Staðalmyndir af líku tagi ganga ljósum logum í fréttatímum og þjóðmálaumræðu. Þjóðerni er oft vandlega tíundað þegar sagt er frá afbrotum sem mögulegt er að tengja við útlendinga. Hinn dæmigerði illræðismaður er ekki vestrænn í okkar huga heldur íslamískur hryðjuverkamaður. Glæpurinn í Útey varð líklega hálfu alvarlegri í huga okkar og meðhöndlun málsins mun flóknari þegar i ljós kom að ljóshærði Norðmaðurinn Anders Behring Breivik var þar að verki en ekki ofstækisfullur Arabi.
Staðalmynd okkar af hinum góða er spegilmynd okkar sjálfra. Hinn vondi kemur að utan, úr röðum hinna.

Aflfræði góðs og ills
Sjálfur á ég auðveldast með að hugsa mér gott og illt sem tvo andstæða krafta, miðflótta- og miðsóknarafl. Gæskan beinist út á við — frá sjálfinu, illskan inn á við — að egóinu. Hún er egóísk. Gæskan opnar og umlykur. Illskan útilokar og hafnar. Gæskan leitar ekki síns eigni heldur tengir og skapar samstöðu. Illskan leitar eigin ávinnings og hagnaðar. Henni fylgir firring og einangrun. Gæskan er límið sem heldur samfélögum fólks saman. Illskan er andfélagsleg.
Í okkur öllum felst bæði miðflótta- og miðsóknartilhneigingar. Ef til vill verður líka svo að vera til að við verðum félagslega heilbrigðar manneskjur sem bæði geta staðið sjálfstæðar og lifað með öðrum. Ætli jafnvægi kraftanna skipti ekki mestu máli?