Nei við þjóðkirkjuákvæði?

Hjalti Hugason, 18. September 2012 21:21

Nýlega hafa birst hér í Fréttablaðinu tveir pistlar sem hvetja fólk til að greiða atkvæði gegn þjóðkirkjuákvæði í nýrri stjórnarkrá í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. okt. n.k. Báðir eru allrar athygli verðir. Þó verður að gera veigamiklar athugsemdir við röksemdafærslu beggja.
Í greininni „Vilt þú ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá?“ (15. sept.) staðhæfir Þorkell Helgason sem sat í stjórnlagaráði að með því að krossa við JÁ séu kjósendur „væntanlega að greiða því atkvæði að ákvæði um þjóðkirkjuna verði óbreytt frá því sem er í gildandi stjórnarskrá...“ Þetta fær ekki staðist. Upphaflega var ráðgert að þjóðkirkjuspurningin lyti einmitt að óbreyttu þjóðkirkjuákvæði. Síðar var fallið frá því og nú er aðeins spurt: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?“ Þessi breyting sýnir að Þorkell oftúlkar merkingu jákvæðra svara.
Þessi breyting varð svo einmitt til þess að ég treysti mér til að greiða atkvæði með Já-i. Ég tel að enn um hríð séu gildar forsendur fyrir að þjóðkirkja sé nefnd í stjórnarskránni en tel að það eigi ekki að gera með 19. aldar hætti eins og nú er heldur í anda 21. aldarinnar. Það verður best gert með að tryggja öllum skráðum trú- og lífsskoðunarfélögum sambærilega stöðu í stjórnarskránni og kveða í framhaldi af því á um takmarkaða sérstöðu þjóðkirkjunnar gagnvart hinu opinbera meðan hún nýtur sérstöðu meðal þjóðarinnar eins og vissulega er enn raunin.
Viku áður (7. sept.) birtist brot úr bloggfærslu Friðriks Þórs Guðmundssonar „Nei við þjóðkirkjuákvæði“. Sé færslan lesin í heild er hún málefnalegt innlegg í umræðu um trúmálarétt á 21. öld sem vel er hægt að taka undir í meginatriðum þótt atkvæði yrði greitt með Já-i. Kaflanum sem birtur var í Fréttablaðinu lýkur hins vegar svo: „Það er ekki hlutverk ríkisins að lýsa því yfir að eitt trúfélag, ein trúarskoðun, sé betri og réttari en önnur“. Væri þetta merking núgildandi 62. gr. stjskr. mundi ég greiða atkvæði með Nei-i eins og Þorkell og Friðrik. En nú er þetta sannarlega ekki rétt túlkun sé greinin skoðuð í lögfræðilegu og sögulegu ljósi.
Í 62. gr. felast bæði réttindi og skyldur þjóðkirkjunni til handa. Greinin kveður á um að evangeliska lúterska kirkjan skuli njóta stuðnings og verndar ríkisvaldsins „að því leyti“ sem hún er þjóðkirkja. Það var hún svo sannarlega 1874. Fram til þess tíma hafði þjóðinni borðið skylda til að vera lútersk. Með stjórnarskránni var hins vegar innleitt trúfrelsi. Allur þorri þjóðarinnar var þó áfram lúterskur í einhverri merkingu og tilheyrði kirkjunni. Því var hún þjóðkirkja, kirkja þjóðarinnar. Í ákvæðinu fólst aftur á móti ekki að ríkisvaldið skyldi styðja og vernda þessa kirkju vegna þess að hún boðaði réttari trú en aðrar kirkjur. Ríkisvaldið hafði vissulega litið svo á fyrir daga trúfrelsisins en ekki eftir að því var komið á. Umrædd grein skyldar þjóðkirkjuna svo til að vera áfram lútersk kirkja og þannig til þess hæf að mynda ramma um trúarlíf mikils meirihluta þjóðar sem býr að 500 ára gamalli lútherskri hefð. Því er þjóðkirkjuákvæði réttlætanlegt svo lengi sem meirihluti þjóðarinnar kýs sér slíkan ramma — hvert og eitt okkar á sínum forendum.
Í þjóðkirkjuákvæðinu felst því enginn gildisdómur af hendi ríkisvaldsins um að lútersk kristni sé réttar eða betri en önnur trú. Þrátt fyrir ákvæðið er ríkisvaldið trúarlega hlutlaust eins og kemur fram í 63.–65. gr. stjskr. Það er m.a. þess vegna sem eg treysti mér til að greiða atkvæði með Já-i þann 20. okt. Það hvet ég líka aðra til að gera. — Ekki til að kjósa óbreytt ástand heldur til að þróa íslenskan trú- og lífsskoðunarrétt áfram inn í 21. öldina en á þeim grundvelli sem byggt hefur verið á frá 1874.

Trú til góðs og ills

Hjalti Hugason, 5. September 2012 11:44


Skömmu áður en hlé varð á birtingum hér á innihald.is skrifaði ég pistil undir fyrirsögninni Trúlausir guðfræðingar? (http://www.innihald.is/index.php/grein-af-handahofi/item/962-trulausir-gudhfraedhingar). Var hann svar við innihalds-grein eftir Magnús S. Magnússon rannsóknarprófessor við HÍ undir fyrirsögninni Hverjir vilja láta blekkja sig? (http://www.innihald.is/index.php/thjodfelagsmal/frettaumfjollun/item/932-hverjir-vilja-lata-blekkja-sig) Í pistli mínum boðaði ég frekari umræðu um grein Magnúsar. Þrátt fyrir að nokkuð sé um liðið tek ég þráðinn nú upp að nýju enda grein Magnúsar enn ögrandi hugvekja fyrir guðfræðing.
Í stuttu máli má draga efnið grein Magnúsar saman í eftirfarandi þrjá punkta: 1) Að inntak kristninnar sé trú á ósýnilega, yfirnáttúrulega ofurveru er hafi skapað alla hluti. 2) Að guðfræðingar trúi almennt ekki á slíka veru en viðhaldi þó trú á hana vegna þess 3) að hún sé þrautreynt tæki til að halda fólki í skefjum og fá það til að strita gegn loforðum um laun í öðru lífi. — Í fyrri pistli mínu brást ég við öðrum töluliðnum en mun nú staldra við hina tvo.

Hvað felst í sköpunartrú?
Kristin kirkja játar vissulega trú á almáttugan Guð, skapara himins og jarðar eins og kemur t.d. fram í Postullegu trúarjátningunni sem er sameiginleg öllum kirkjudeildum sem á annað borð binda sig við fastmótaðar játningar. Af þeim sökum verður ekki framhjá því gengið að guðshugmynd og sköpunarhugsun eru mikilvæg stef í kristninni. Magnús S. Magnússon virðist líta svo á að þeir sem aðhyllast hugmyndir af þessu tagi hljóti að binda sig við for-nútímalega heimsmynd og afneiti þar með nútímavísindum, þar á meðal þróunarhyggju á borð við þá sem Darwin setti fram á sínum tíma.
Slík afneitun felur vissulega í sér vitsmunalegan óheiðarleika eða leti sem einstaklingar kunna að geta leyft sér en smellið dæmi um slíkt nefnir Magnús í grein sinni. Þetta getur hvorki heil vísinda- eða fagstétt né ábyrg stofnun leyft sér og á ég þar við guðfræðinga og kirkjuna. Það er enda svo að afneitun á náttúruvísindum og túlkunum þeirra tengist fyrst og fremst bókstafstrú sem þorri íslenskra guðfræðinga og þjóðkirkjufólks aðhyllist ekki.
Skammt er raunar síðan Þjóðkirkjan stóð frammi fyrir viðfangsefni þar sem reyndi á hvort hún byggði á for-nútímalegum eða nútímalegum mannskilningi, samfélagssýn og jafnvel heimsmynd. Á ég þar við álitamálið um hvort kirkjan vildi viðurkenna rétt samkynhneigra til hjónavígslu á borð við gagnkynhneigða. Vissulega tók það Þjóðkirkjuna nokkurn tíma að komast að niðurstöðu. Eigi að síður varð hún meðal fyrstu kirkna heims til að taka þetta skref. Með því sýndi hún að í þessu álitamáli byggði hún ekki á bókstafstrú.
Svipuðu máli gegnir um sköpunarhugsunina. Í kristinni sköpunartrú felst ekki skýring á því hvert sé upphaf manns og heims sem sé kostur að velja í stað þróunarkenningar Darwins eða einhverrar nútímaútgáfu af henni. Í sköpunartrúnni felst fyrst og fremst eftir atvikum von eða vissa um að lífið hér og nú sé ekki tilgangslaust og að manneskjan sé ekki ofurseld blindri tilviljun hvað varðar líf hennar og örlög. Í sköpunartrúnni felst líka að ekki sé sama hvernig við umgöngumst náttúruna og auðlindir hennar heldur boðar hún að við eigum að umgangast náttúruna af gætni og virðingu — að móðir Jörð sé hluti af stærri leyndardómi. Trú er auðvitað ekki eina leiðin til að skynja tilgang með lífinu og helgi náttúrunnar en hún er ein leið til þess og ekki endilega sú versta.

Hérvera og handanvera
Kristin trúarhugsun gerir mikilvægan greinarmun á því sem kalla má hérveru og handanveru en þau orð eru þýðingar á erlendu hugtökunum immanens og transcendens.
Hérveran felst í öllu því sem við þekkjum sem hluta af alheiminum eða teljum vera það. Handanveran felur hins vegar í sér það sem við teljum, vonum eða trúum að sé til en liggi utan alheimsins eða búi að baki honum í einhverjum skilningi. Í raun og veru gengur handanveran upp í hugtakinu Guð. — Guð er handanlægur og allt hið handanlæga er hluti af honum. Af þeim sökum er Guð og handanveran eitt og hið sama.
Með hjálp vísinda- og fræðikenninga, þar á meðal þróunarkenningarinnar, sköpum við okkur þekkingu á hérverunni, alheiminum og fyrirbærum hans. Trúin er hins vegar tilraun til að teygja vitundina inn í handanveruna. Í því efni kann okkur að greina á um hve traust þekking okkar eða öllu heldur innsæi geti orðið.
Þau sem aðhyllast bókstafstrú telja sig ugglaust búa að meiri þekkingu en hin sem aðhyllast trú sem einkennist af meiri dulhyggju (mystik). Með „bókstaflegri“ útleggingu trúartexta telja hin fyrrnefndu sig geta fullyrt margt um vilja og fyrirætlanir Guðs, afdrif fólks eftir dauðann sem hin telja hluta af leyndardómum handanverunnar sem okkur hljóti að vera hulin nema rétt sem í óljóri mynd eða mikilli þoku. — Þau sem aðhyllast dulhyggju í einhverri mynd sætta sig við að trú þeirra verði aldrei byggð á þekkingu á borð við þá sem vísindin veita. Hún felst fremur í tilfinningu, veikri von eða trausti þess að tilgangur, vit og markamið búi að baki mannlegri tilveru. Og þau sætta sig við algera óvissu umfram það. Þeim liggur mörgum hverjum spurningin um uppruna heimsins líka í léttu rúmi og telja vísindin betur í stakk búin en trúarbrögðin til að fást við þá gátu sem mörgum er greinilega hugleikin.

Er Guð yfirnáttúrulegur?
Veikleikinn í grein Magnúsar S. Magnússonar er m.a. sá að hann álítur að öll trú sé bókstafstrú. Þá gerir hann ekki greinarmun á því sem kallað er yfirnáttúruleg fyrirbæri og handanverunni að kristnum skilningi. Kristnir menn líta aftur á móti ekki á Guð sem yfirnáttúrulegan. Hann er handanlægur, sem sé róttækt öðru vísi en það sem er þessa heims. Því máli þarf ekki að gegna um yfirnáttúrulegar verur sé yfir höfuð litið svo á að þær séu til. Hugmyndir fólks um þær eru oftast mjög „þessa heimslegar“ eftir „lýsingum“ að dæma. Þar á meðal lýsingum Magnúsar S. Magnússonar á Guði.
Þau fyrirbæri sem almennt eru kölluð yfirnáttúruleg skipa alls ekki veigamikinn sess í kristindómi. Fyrirferð yfirnáttúrulegra fyrirbæra í trúarhugmyndum Íslendinga stafa t.d. ekki af því að þeir eru kristni þjóð heldur af hinu að spíritismi myndaði uppistöðuna í trúarhugsun þjóðarinnar um a.m.k. hálfrar aldar skeið á liðinni öld.
Loks er áhorfsmál hvort kristin trú reiknar með „öðru lífi“ eins og Magnús gerir skóna. — Það fer eftir því hvað átt er við með þeim orðum.

Ópíum fyrir fólk?
Loks er þá komið að þriðja liðnum hér að framan sem sé þeirri staðhæfingu að trú almennt og ekki síst kristin trú sé þrautreynt tæki til að halda fólki í skefjum. Eitt sinn var lík hugsun orðuð svo að trúarbrögð væru „ópíum fyrir fólkið“.
Því er til að svara að trú og trúarbrögð hafa haft fjölmargt gott í för með sér. Þau hafa orðið ótalmörgum hjálp til að túlka tilveru sína, eygja tilgang í lífinu og öðlast lífshamingju. Þá hafa þau miðlað fjölþættum, jákvæðum samfélagsgildum og lagt grunn að góðu mannlífi. Loks hafa þau orðið kveikja að fjölmörgum listaverkum af ólíkasta tagi. Þannig mætti áfram telja.
Trú getur líka alið á spennu og fordómum, valdið styrjöldum og ófriði og brotið niður sjálfsmynd einstaklinga og traust þeirra til annarra.
Mergurinn málsins er að trú er hægt að beita bæði til góðs og ills. Trúin er t.d. hættulegt afl þegar fulltrúar hennar gera tilkall til að skoðanir þeirra séu algildur sannleikur, þegar trúarleiðtogar krefjast að fylgjendur þeirra hlýði þeim í blindni, þegar spáð er endalokum heims í nafni trúar og ráðstafanir jafnvel gerðar til að flýta þeim, þegar litið er svo á að tilgangurinn helgi meðalið ef unnið er í nafni trúar, sem og þegar hvatt er til heilags stríðs (sjá Charles Kimball: When Religion Becomes Evil. Five Warning Signs. N. Y.: HarpeOne 2008 og síðar).
Því miður virðist Magnús S. Magnússon líta svo á að trú sé alltaf og óhjákvæmilega beitt til ills. Það er of mikil einföldun á sögu mannkyns til að á hana verði fallist.