Hvers konar þjóðkirkjuákvæði?

Hjalti Hugason, 29. October 2012 20:09


Lokatölur í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október urðu athyglisverðar. Tæpur helmingur þeirra sem kosningarrétt höfðu mætti á kjörstað. Um tveir þriðju vilja að frumvarp Stjórnlagaráðs verði lagt til grundvallar við áframhaldandi meðferð málsins á vegum Alþingis, stjórnarskrárgjafans. Þó vék nokkur meirihluti kjósenda frá þessari meginvísbendingu með því að svara spurningu nr. 3 með „Já“-i en þar var spurt: „ Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?“

19. gr. stenst ekki
Það augljósa í stöðunni er að þrátt fyrir mikið fylgi við tillögur Stjórnlagaráðs verður að víkja 19. gr. þeirra til hliðar en þar segir:
Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins.
Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.
Mikill stuðningur við tillögur ráðsins í heild veldur því þó að reyna verður að fara sem næst þeim grunni. Þó verður að gæta þessa að í stjórnarskránni verði „ákvæði um þjóðkirkju“ sem rís undir nafni.

Hvað merkir „Já“?
Spurning nr. 3 í atkvæðagreiðslunni hljómaði ekki upp á óbreytta 62. gr. í núgildandi stjórnarskrá. Þannig var spurningin orðuð á undirbúningsstigi en var breytt á síðari stigum. Af þeim sökum var frá upphafi ljóst að ekki var mögulegt að líta svo á að „Já“ jafngilti atkvæði er greitt væri með óbreyttri 62. gr. — En hvað merkir „Já“-ið þá?
Við sem svöruðum með „Já“-i getum hafa lagt mismunandi merkingu í svarið. Óhjákvæmilega höfum við þó átt við að í nýrri stjórnarkrá skuli vera ákvæði einhvers staðar á litrófinu frá núgildandi 62. gr. og langleiðina í áttina að 19. gr. Stjórnlagaráðs — en þó ekki alla leiðina þangað. Við hljótum að hafa verið sammála um að þjóðkirkjuhugtakið skyldi koma fyrir í stjórnarskrártextanum. Annars væri vart um þjóðkirkjuákvæði að ræða.
Verkefnið sem nú liggur fyrir er þetta: Hversu nærri tillögu Stjórnlagaráðs er mögulegt að fara til að ná þó fram marktæku þjóðkirkjuákvæði sem jafnframt er þó þannig lagað að það geti orðið grunnur að trúmálarétti fyrir 21. öld?

Fær leið?
Ein leið til þessa er að orða nýja 19. gr. í frumvarpi byggðu á tillögu Stjórnlagráðs á eftirfarandi hátt:
Kveða skal á um stöðu þjóðkirkjunnar sem og annarra skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga í lögum.

Nú samþykkir Alþingi breytingu á ákvæðum laga um stöðu þjóðkirkjunnar og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.

Í ákvæði sem þessu er farin sama leið og í 19. gr. Stjórnlagaráðs með því að skapa stjórnarskrárgrunn undir lagaákvæði þar sem nánar er kveðið á um stöðu þjóðkirkjunnar. Ákvæðið gengur þó mun lengra en 19. gr. Stjórnlagaráðs. Þar er um heimildarákvæði að ræða. Hér er lögð sú skylda á löggjafann að kveða á um stöðu þjóðkirkjunnar í lögum. Þá kemur þjóðkirkjuhugtakið fyrir í ákvæðinu öfugt við það sem uppi er á teningnum hjá Stjórnlagaráði. Af ákvæðinu er því ljóst að í landinu starfar þjóðkirkja, að málefni hennar heyra undir opinberan rétt, að staða hennar sem þjóðkirkju er skilgreind í lögum og að þjóðin hefur síðasta orðið þegar um breytingar á stöðu þjóðkirkjunnar er að ræða rétt eins og nú er.

Stjórnarskrárgrunnur undir trúmálarétt
Styrkleiki þeirrar tillögu sem hér er kynnt felst í því að hún skapar stjórnarskrárgrunn undir trúmálarétt sem er þó sveigjanlegri og rúmar meiri jöfnuð en 62. gr. núgildandi stjórnarskrár. Því er slegið föstu að kveðið skuli á um stöðu þjóðkirkjunnar í lögum. Þetta er nú gert í 1. gr. laga nr. 78/1997 um stöðu stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Þar segir:

Íslenska þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni.
Ríkisvaldinu ber að styðja og vernda þjóðkirkjuna.
Skírn í nafni heilagrar þrenningar og skráning í þjóðskrá veitir aðild að þjóðkirkjunni.

Verði fyrrgreind tillaga samþykkt verður þessari grein laganna eða hliðstæðu hennar ekki breytt án þjóðaratkvæðagreiðslu. Öðrum greinum þjóðkirkjulaganna má hins vegar breyta án slíkrar vegferðar. Að þessu leyti er tillagan afdráttarlausari en tillaga Stjórnlagaráðs sem kvað á um „kirkjuskipan ríkisins“ og þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á henni. Að vísu kann samstaða að hafa ríkt um að inntak „kirkjuskipanar ríkisins“ væri hvorki neitt meira né minna en að ofan greinir. Það er þó kostur að vera laus við tækniheiti í stjórnarskrá sem kalla á sérstaka túlkun — jafnvel sögulega túlkun á því hvað „kirkjuskipan ríkisins“ merkti árið 1920 þegar orðalagið komst inn í stjórnarskrána.

Í tillögunni er einnig áskilið að kveðið skuli á um stöðu annarra skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga í lögum. Það er nú gert í lögum um skráð trúfélög nr. 108/1999 sem í framtíðinni munu vonandi áskilja lífsskoðunarfélögum sambærilegan rétt til skráningar og trúfélög njóta nú að uppfylltum skilyrðum sem tilgreind verða í lögnum.

Á stöðu þjóðkirkjunnar og stöðu annarra skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga er sá meginmunur að ákvæðum laga um stöðu trú- og lífsskoðunarfélaga má breyta án þjóðaratkvæðagreiðslu enda skarast þau ekki við þjóðina með neinu sambærilegu móti og þjóðkirkjan. Í tillögunni er því tekið tillit til sérstöðu hennar hvað stærð og samfélagsleg hlutverk áhrærir.

Það skyggir ekki á þjóðkirkjuna þótt öðrum trú- og lífsskoðunarfélögum sé skapaður traustari stjórnarskrárgrunnur en nú er jafnvel þó það sé gert í þeirri grein sem um hana fjallar. Í því efni rúmast ofangreind tillaga enda innan ályktunar aukakirkjuþings þjóðkirkjunnar sem kallað var saman í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar en henni lauk með orðunum:

... hvetur þingið til þess að áfram verði ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá og að staða og réttindi annarra trú- og lífsskoðunarfélaga verði tryggð.

Aukum rétt lífsskoðunarfélaga

Hjalti Hugason, 25. October 2012 13:28


Eitt af þeim verkefnum sem við stöndum frammi fyrir sem samfélag og þjóð er að setja okkur trúmálarétt sem hæfir 21. öldinni. Með trúmálarétti er átt við stjórnarskrárákvæði og löggjöf sem sem verja trúfrelsi einstaklinga og setja leikreglur um störf trúfélaga í landinu. Þetta er áhugavert og brýnt viðfangsefni þar sem margt bendir til að hin nýja öld verði öld fjölhyggju ekki síst á sviði trúar og lífsskoðana.
Trú er einkamál — en ekki trúfélög
Öll erum við líklega sammála um að trú mín og trú þín eða trúleysi okkar beggja eigi að vera einkamál sem lög og reglur samfélagsins hafi lítið með að gera.

Hið sama á ekki við um trú- og lífsskoðunarfélög. Þau eru gerendur í félagslegu samhengi og starfa á afar viðkvæmu sviði mannlífsins. Um þau gegnir því ekki sama máli og íþróttafélög eða Kívanisklúbba. Trú- og lífsskoðunarfélög geta gengið nær einstaklingum en flest önnur félög. Sum okkar telja ugglaust að þau séu allt of nærgöngul. Því þarf að setja starfi þeirra opinbera ramma sem ekki þurfa að eiga við annars konar félög.

Það hallar á lífsskoðunarfélög
Nú eru í gildi lög um skráð trúfélög frá 1999. Upphaf þeirra fjallar bæði um trú- og lífsskoðunarfélög en þar segir:

I. kafli. Almenn ákvæði um trúfélög.
1. gr. Trúfrelsi.
Rétt eiga menn á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Eigi má þó fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði og allsherjarreglu. Á sama hátt eiga menn rétt á að stofna félög um hvers konar kenningar og lífsskoðanir, þ.m.t. um trúleysi.
Eigi er skylt að tilkynna stjórnvöldum um stofnun eða starfsemi trúfélaga eða annarra félaga um lífsskoðanir.
Óheimilt er að taka upp nafn á trúfélag sem er svo líkt nafni annars trúfélags að misskilningi geti valdið. (Lög um skráð trúfélög 1999 nr. 108 28. desember http://www.althingi.is/lagas/140b/1999108.html).
Síðan skilja leiðir. Lögin taka aðeins fram að heimilt sé „að stofna félög um hvers konar kenningar og lífsskoðanir, þ.m.t. um trúleysi“, þ.e. lífsskoðunarfélög. Í framhaldinu opna þau síðan leið fyrir trúfélög að óska opinberrar skráningar. Uppfylli þau tiltekin skilyrði áskilja lögin þeim hlutdeild í ýmsum gæðum sem Þjóðkirkjan nýtur svo sem hlutdeild í sóknargjöldum (sbr. lög um sóknargjöld nr. 91/1987) og rétti forstöðumanna til að framkvæma ýmsar athafnir á borð við presta Þjóðkirkjunnar. Er þar einkum átt við hjónavígslur.
Lögunum um skráð trúfélög er þannig ætlað að auka jöfnuð í trúarlegu tilliti. Nú jafna þau þó aðeins stöðu skráðra trúfélaga og Þjóðkirkjunnar. Þau mismuna aftur á móti lífsskoðunarfélögum í þessu efni. Eru þau þó náskyld trúfélögum.

Stjórnlagaráð féll á prófinu!
Í störfum sínum fjallaði Stjórnlagaráð um trúmálaréttarleg efni. 18. grein frumvarps þess fjallar um trúfrelsi. Hún er svona:
Öllum skal tryggður réttur til trúar og lífsskoðunar, þar með talinn rétturinn til að breyta um trú eða sannfæringu og standa utan trúfélaga.
Öllum er frjálst að iðka trú, einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einkavettvangi.
Frelsi til að rækja trú eða sannfæringu skal einungis háð þeim takmörkunum, sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.
http://stjornlagarad.is/other_files/stjornlagarad/Frumvarp_med_skyringum.pdf

Þessi grein lofar góðu. Hún segir að öllum skuli „tryggður réttur til trúar og lífsskoðunar“. Með þessu virðist Stjórnlagaráð stíga skref í átt að jöfnuði — eða hvað? Í skýringum með frumvarpinu segir:
Fram að fyrri umræðu um frumvarp Stjórnlagaráðs var eftirfarandi setning inni í 3. mgr.: „Stjórnvöldum ber að vernda öll skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög.“
Mikið var rætt um þá nýjung að kveða á um það í trúfrelsisgrein stjórnarskrárinnar að stjórnvöld skuli vernda öll skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög. Mörgum fannst óljóst hvað átt væri við með „lífsskoðunarfélög“ og sumir töldu hugtakið ótækt. Aðrir voru á því að engin ástæða væri til að veita slíkum félögum sérstaka vernd. Þá kom fram sú skoðun að í stjórnarskrá ætti ekki að tala sérstaklega um trúar­ og lífsskoðanir, heldur beri að líta svo á að ákvæðið um tjáningarfrelsið nægi, enda tilheyri slíkar skoðanir ekki hinum opinbera vettvangi, heldur aðeins hinu persónulega sviði. Í atkvæðagreiðslu í fyrri umræðu var breytingartillaga um að fella setninguna um vernd stjórnvalda út samþykkt með eins atkvæðis meirihluta. (http://stjornlagarad.is/other_files/stjornlagarad/Frumvarp_med_skyringum.pdf)
Undir sumt af þessu má vissulega taka. Hugsanlega er t.d. ekki ástæða til að áskilja trú- og lífsskoðunarfélögum sérstaka vernd þó rök standi til að um þau þurfi að gilda sérstök lög sem ekki eiga við annars konar félög. Þá hefði mátt sameina skoðana-, tjáningar- og trúfrelsið í einni og sömu greininni. Þrátt fyrir það hefði þurft að nefna trúfrelsi sérstaklega. Það er oftast gert í slíkum greinum. Þá er það hárrétt að trú- og lífsskoðanir tilheyra „ekki hinum opinbera vettvangi, heldur aðeins hinu persónulega sviði“. Þessi fyrirvari á þó ekki við um starf trú- og lífsskoðunarfélaga eins og bent var á hér að framan.
Þrátt fyrir þetta verður að líta svo á að Stjórnlagaráð hafi fallið á þeirri prófraun sem það mætti á sviði trúmálaréttarins. Það áræddi ekki að leggja til að staða trú- og lífsskoðunarfélaga yrði jöfnuð. Það versta er að þessi niðurstaða virðist byggð á vanþekkingu ráðsfólksins — eða réttum og sléttum fordómum. Einu rökin sem tilfærð eru gegn auknum jöfnuði lífsskoðnarfélögum til handa virðast þessi: „Mörgum fannst óljóst hvað átt væri við með „lífsskoðunarfélög“ og sumir töldu hugtakið ótækt“.
Góðu heilli virðist þó lausn í sjónmáli. Innanríkisráðherra vinnur nú að breytingum á lögunum um skráð trúfélög í þá veru að lífsskoðunarfélögum verði gert þar jafnhátt undir höfði og trúfélögum. Núgildandi stjórnarskrá rúmar þá breytingu vel og vonandi frumvarp Stjórnlagaráðs líka þó tæpast sé breytingin í anda þess.

Trú og lífsskoðun
Öll höfum við okkar trú eða lífsskoðun. Sum aðhyllast mótað afstöðu í þessu efni, deila henni og iðka með öðrum og eiga auðvelt með að lýsa henni í smáatriðum. Önnur hallast að því sem kalla má nafnlausa einkatrú eða -lífsskoðun. Þau hafa ekki þörf fyrir að halda henni á lofti eða gera grein fyrir henni heldur halda henni fyrir sig. Sum eru jafnvel illa meðvituð um hver lífsskoðun þeirra er.
Lífsskoðun má lýsa svo að um sé að ræða grundvallarafstöðu sem hefur í för með sér markaða sýn á eðli mannsins og tilganginn með lífi hans í heiminum, þ.e. mannskilning, sem og hugmyndir um eðli alheimsins, þ.e. heimsmynd. Þá hefur lífsskoðun í för með sér mótað gildakerfi og hefur hún því áhrif á breytni fólks og siðferði. Hún hefur þar með ákveðna siðfræði í för með sér. Sé lífsskoðun okkar ekki „nafnlaus“ erum við reiðubúin til að viðurkenna hana fyrir sjálfum okkur og öðrum og taka afleiðingum þess. Lífsskoðanir geta verið fullkomlega veraldlegar en þá fela þær ekki í sér neina tilvísun til æðri máttar. Svo geta þær líka verið trúarlegar. Helsti munurinn á lífsskoðun og trúarbrögðum er að trúarbrögðin fela ekki aðeins í sér að reiknað sé með ærði mætti heldur er hann einnig tilbeðinn, ákallaður eða dýrkaður í helgihaldi af einhverju tagi.
Í nútímasamfélagi er það æ algengra að fólk aðhyllist veraldlega lífsskoðun. Ekki virðast málefnaleg rök fyrir því að gera greinarmun á því hvort það vill stofna félög um trú sína eða lífsskoðun né að heimila skráningu sumra, þ. e. trúfélga, en ekki annarra, þ.e. lífsskoðunarfélaga.

Hvað er lífsskoðunarfélag?
Lífsskoðunarfélag er félagsskapur sem stofnaður er um mótaða lífsskoðun af ofangreindu tagi, t.d. siðrænan húmanisma en það er algengasti grunnur slíkra félaga í vestrænum samfélögum.
Sé ofangreind skilgreining á lífsskoðun lesin niður í kjölinn er ljóst að ekki er um rétta og slétta pólitíska skoðun að ræða svo dæmi sé tekið. Fólk með sömu lífsskoðun getur starfað í mjög ólíkum flokkum líkt og trú skipar fólki ekki í ákveðinn stjórnmálaflokk okkar á meðal. Enn fráleitara er að tengja lífsskoðunarfélög við „gengi“ af ýmsu tagi eins og oft er gert. Raunar virðast lífsskoðunarfélög eiga mest sameiginlegt með trúfélögum þó auðvitað skuli ekki gert lítið úr þeim mikla mun sem einkum felst í mismunandi grundvallarafstöðu til æðri máttar. Af þeim sökum virðist torvelt að færa rök fyrir að trú- og lífsskoðunarfélögum sé mismunað.
Það er líka hæpið að halda því fram að óljóst sé hvað átt sé við með lífsskoðunarfélögum eða að hugtakið sé „ótækt“ eins og sumt Stjórnlagaþingsfólk áleit. Þvert á móti virðist það fremur skýrt. Lýsa má skilyrðum þessa að lífsskoðnarfélagi verði heimiluð skráning á grundvelli endurskoðaðra laga um skráð trú- og lífsskoðunarfélög á eftirfarandi veg:
Skilyrði fyrir skráningu lífsskoðunarfélags er að um sé að ræða félag sem byggist á veraldlegum lífsskoðunum, miðar starfsemi sína við ákveðin siðferðisgildi og fjallar um siðfræði og þekkingarfræði með skilgreindum hætti. Þá er það jafnframt skilyrði fyrir skráningu að um sé að ræða félag sem ástundar mannrækt og sér um athafnir á ævihátíðum, svo sem nafngjafir, fermingar, giftingar, útfarir eða aðrar hliðstæðar athafnir.
Sé óskað skráningar fyrir lífsskoðunarfélag ætti síðan að fela sérfræðinganefnd að skera úr um að félagið standist fyrrgreindar kröfur líkt og gert er með trúfélög nú.
Hversu mörg félög ætli stæðust þessi þröngu skilyrði og hvaða vanda ætli sé við að glíma þegar skera skal úr um hvort um lífsskoðunarfélag sé að ræða eða ekki? Svarið stendur upp á þau sem lagst hafa gegn auknum jöfnuði milli trú- og lífsskoðunarfélaga t.d. á vettvangi Stjórnlagaráðs.

Bylting í klaustrasögu

Hjalti Hugason, 23. October 2012 17:10


Í ágúst s.l. var hátíð á Fljótsdal í tilefni af að lokið var fornleifarannsókn á klausturstaðnum á Skriðu. Málþing var haldið í Végarði laugardaginn 18. ág. Daginn eftir var hátíðardagskrá á Skriðuklaustri þar sem hæst bar opnun minjasvæðis sem aðgengilegt verður á staðnum og lúthersk-kaþólska messu í kirkjutóftinni. Þá kom út bók dr. Steinunnar Kristjánsdóttur um niðurstöður rannsóknarinnar: Sagan af klaustrinu á Skriðu (Reykjavík, Sögufélag. 375 bls.).
Það var sannarlega við hæfi að rannsókninni væri lokið með þessum fagnaðarfundi. Hún stóð í fullan áratug og leiddi margt athyglisvert í ljós. Sumarið 2000 fundust klausturleifarnar á svonefndu Kirkjutúni niður af húsi Gunnars skálds sem stendur á gamla bæjarstæðinu á Skriðu. Uppgrefri lauk síðla sumars 2011. Í millitíðinni var hulu svipt af mikilli sögu sem geymst hafði í sverðinum í 500 ár.
Klaustur var stofnað á Skriðu 1493. Það var fullbyggt 1512 er klausturkirkjan var vígð. Þegar 60 ár voru liðin frá stofnun klaustursins var því lokað í kjölfar siðaskipta. 1598 voru byggingar klaustursins fallnar nema kirkjan sem stóð lengi eftir þetta og var notuð sem heimilskirkja fyrir klausturhaldarann á staðnum og fólk hans. Þakti klaustrið alls um 1500 fermetra spildu. Leifar þess fundust milli gjóskulaga úr Veiðivatnagosum 1477 og 1717 og ofar var aska úr Öskjugosinu 1875. Varðveislu- og uppgraftarskilyrði voru almennt góð og gerðu það að verkum að uppgröfturinn skilaði ríkulegum árangri sem í raun hefur valdið byltingu á sviði íslenskrar klaustursögu.

Torfklaustra- og flugstöðvarkenningarnar
Lengi hafa skoðanir verið skiptar um byggingarlag og formgerð íslenskra klaustra enda hefur verið á litlu að byggja nema takmörkuðum rannsóknum á ritheimildum — einkum úttektum — sem margar hverjar eru til komnar eftir að klausturlífi lauk.
Hér á landi hlutu klaustur að vera byggð af innlendum mönnum og úr innlendum efniviði, rekaviði, trofi og grjóti nema klausturkirkjurnar sem ugglaust hafa verið altimburkirkjur. Lengi var litið svo á að þessar aðstæður hefðu sett mark sitt á klausturbyggingarnar og þær dregið dám af byggingum á stórbýlum höfðingja og fylgt í megindráttum þeim breytingum sem þær tóku. Þetta má kalla torfklaustrakenninguna.
Á semínörum sem haldin voru meðan Kristni á Íslandi (Rekjavík, Alþingi. 2000) var í smíðum á lokaáratugi aldarinnar sem leið hélt sr. Sigurjón Einarsson form. ritstjórnar aftur á móti mjög á lofti hugmynd sem við kölluðum flugstöðvarkenninguna. Hún gekk út á að líkt og flestar stórar flughafnir nú á dögum byggjast á sambærilegu grunnformi hafi öll klaustur á miðöldum byggst á sömu frumgerð, þ.e. byggingum sem raðast hafi með reglubundnum hætti umhverfis lokaðan garð.
Skriðuklaustursrannsóknin staðfestir flugstöðvarkenninguna á ævintrýralegan hátt. Auðvitað hafa engin tvö klaustur verið eins og að sjálfsögðu hefur efniviðurinn sett sinn sérstaka svip á íslensku klaustrin. Klaustrið á Skriðu fellur hins vegar ágætlega að því sniðmáti sem varveitt var í klaustrinu St. Gallen í Sviss og talið er frá fyrri hluta 9. aldar. Þrátt fyrir að líklega hafi þeirri teikningu aldrei verið fylgt nákvæmlega getur þar að líta grunnmynd sem vel má heimfæra upp á klaustrið á Skriðu og því þá ekki önnu íslensk klaustur?

Fræðasetur eða líknarstofnanir?
Ora et labora — biðja og iðja er klassísk yfirskrift alls klausturlífs í kristninni og hefur einnig átt við hér á landi. En í hverju var iðja klausturfólks hér á landi fólgin milli tíðabænanna?
Löngum var litið svo á íslensku klaustrin hafi verið lærdóms- og listamiðstöðvar. Þar var talið að fram hafi farið bókagerð, mennta- og skólastarf auk listiðnaðar og handverks ekki síst í nunnuklaustrunum tveimur sem hér voru. Ugglaust hefur þessu líka verið þannig varið en ekki einvörðungu. Aðalverkefni klausturbræðra á Skriðu var annað og svo kann vel að hafa verið á þeim klaustrum öðrum sem enn eru að mestu fólgin í íslenskri mold.
Skriðuklaustur var ekki stór stofnun. Þar kunna að hafa verið öðru hvoru megin við fimm bræður í senn allan klausturtímann. Það kom því á óvart þegar í ljós kom að tæplega 300 manns voru grafnir í klausturgarðinum. Það er undrahá tala þegar tillit er tekið til þess að aðeins virðist hafa verið grafið í garðinn á klausturtíma en hann stóð eins og fram er komið aðeins í 60 ár.
Fornir kirkjugarðar búa oftast yfir sérstakri félagslegri landafræði þar sem tilviljun réði ekki hvar hver og einn hlaut leg. Þannig voru yfirmenn í klaustrinu jarðaðir austur af kór kirkjunnar, starfslið kaustursins úr röðum leikfólks fyrir sunnan kirkju en norður af kirkjunni hvíldi sá hópur sem mest kom á óvart. Er þar átt við stóran hóp sjúklinga með langvinna sjúkdóma sem settu mark sitt á bein þeirra. Má þar nefna sárasótt (sýfilis), berkla, krabbamein, lungnabólgu, bólusótt og sullaveiki auk annarra sýkinga. Eyrnabólga virðist t.a.m. hafa verið landlægur kvilli meðal forferða okkar. Sum sem þarna hvíla hafa þjáðst af fleiri en einum af þessum sjúkdómum og verið örkumlafólk þegar það kom á staðinn hvort sem það hefur hafist þar við lengur eða skemur. Beinasafnið frá Skriðu eitt og sér er merkileg nýjun í rannsóknum á sóttarfari hér á landi.
Vera má að hér sé komin skýringin á tilurð klaustursins sem var stofnað í kjölfar klassísks harðindatíma í íslenskri sögu þar sem eldgos, drepsóttir og hallæri leystu hvað annað af hólmi. Hugsanlega var því ætlað að mæta upp söfnuðum félagslegum vanda í Austfirðingafjórðungi en þetta var eina klaustrið norðan Vatnajölkuls sem til hans taldist. Steinunn Kristjánsdóttir varpar fram tilgátu um hvort Skriðuklaustur hafi í grunninn verði svokallað heilagsandahús en hlutverk þeirra var einkum að annast fátæka og sjúka.
Segja má að þessi hlið Skriðuklaustursrannsóknarinnar „afhelgi“ klaustrið eða hugmyndir okkar um það. Í stað upphafinnar kyrrðar klausturlífsins kemur annasamt starf þess sem lifir og hrærist með hinum verst settu í samfélagi nærri hungurmörkum. Gegnir svipuðu máli um önnur klaustur sem hér störfuðu?

Bylting í klaustrasögu
Hvernig sem á er litið veldur Skriðuklaustursrannsóknin straumhvörfum í íslenskri klaustrasögu og þar með kirkjusögu miðalda. Í ljós kemur að hérlend klaustursaga sver sig í ætt við það sem uppi var á teningnum um svipað leyti annars staðar í Evrópu.
Þetta er ein af þeim nýju rannsóknum sem sýna að þrátt fyrir að við værum á landfræðilegum jaðri á það sama ekki við um ýmsa þá þætti menningar og samfélags sem kannaðir hafa verið með nýjum aðferðum á liðnum öldum. Nú erum við sem óðast að fylla út í þær eyður sem þjóðernislega sögutúlkunin skyldi eftir sig en hún lagði mesta áherslu á sérstöðu íslenskrar menningar og samhengið í henni. Í ljós kemur að kirkjan var mikilvægur áhrifavaldur í mótun íslenskrar menningar og sú mótun var alþjóðleg þegar kirkjan á annað borð hafði náð að vaxa fram í landinu sem stofnun. Það tók þó óhjákvæmilega sinn tíma.

Sagan af klaustrinu á Skriðu
Bók Steinunnar Kristjánsdóttur er engin venjuleg skýrsla að loknum fornleifagreftri.
Steinunn hefur skrifað læsilega sögu af klaustrinu byggða á áþreifanlegum heimildum sem hún hefur sjálf grafið úr jörðu með samstarfsfólki sínu auk ritheimilda. Í sögunni lesum við ekki aðeins um það sem upp kom og samhengi þess. Við kynnumst líka innri glímu fornleifafræðings sem lifir sig inn í fag sitt: spennunni sem gerir vart við sig þegar eitthvað óvænt kemur upp á yfirborðið en líka rödd samviskunnar sem vaknar þegar grafarró löngu látinna einstaklinga er raskað. — Sagan af klaustrinu á Skriðu er falleg bók í mörgu tilliti og öllum aðgengileg. Full ástæða er til að samgleðjast Steinunni með árangurinn.

Hvers vegna þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá?

Hjalti Hugason, 18. October 2012 15:57


Í tveimur greinum hér í Fréttablaðinu (18. og 27. sept.) hef ég mælt með að þjóðkirkjuákvæði verði áfram í stjórnarskránni enn um sinn a.m.k. Ég hef þó ekki mælt með óbreyttu ákvæði heldur trúmálagrein er hæfi nútímanum og kvæði á um tengsl allra skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga við ríkisvaldið. Þar væri þjóðkirkjunnar getið sérstaklega. Margir benda á að trúmál séu einkamál í vestrænum nútímasamfélögum og því eigi ekki að kveða sérstaklega á um kirkjur, trú- og lífsskoðunarfélög í stjórnarskránni. Það er því eðlilegt að spurt sé hvers vegna mælt sé með þjóðkirkju- eða trúfélagagrein í stjórnarskrá.

Endurkoma trúarbragða
Á 20. öld dró úr áhrifum trúarbragða og trúfélaga á Vesturlöndum. Kirkjusókn minnkaði og trúariðkun þvarr. Á síðari áratugum hefur orðið breyting í þessu efni og margir ræða um endurkomu trúarbragðanna. Ýmislegt bendir til að starf trúfélaga muni fara í vöxt á komandi árum og þau seilast til aukinna samfélagsáhrifa. Trúarbragðaflóran mun einnig verða fjölskrúðugri og trúfélögum þar með fjölga.
Hingað til hefur þjóðkirkjan mætt þessari þróun með víðsýni þroskaðrar móður. Svo þarf þó ekki að verða áfram. Stöðugt oftar heyrist úr röðum þjóðkirkjunnar að „sótt sé að henni“. Hin virðulega meirihlutakirkja virðist skynja vaxandi ógn og öryggisleysi. — Kirkja sem telur sér ógnað skerpir línurnar, leggur aukna áherslu á sérstöðu sína, tekur að keppa við önnur trúfélög og kemur í auknum mæli fram á sama hátt og þau. Yfirbragð þjóðkirkjunnar kann því að breytast.

Trú til góðs og ills
Trú og trúfélög hafa haft fjölmargt gott í för með sér. Þau hafa hjálpað ótalmörgum að túlka tilveru sína, eygja tilgang í lífinu og öðlast lífshamingju. Þau hafa miðlað jákvæðum samfélagsgildum og lagt grunn að góðu mannlífi. Loks hafa þau orðið kveikja að fjölmörgum listaverkum af ólíku tagi. Þannig mætti lengi telja. Trú og trúfélög geta þó líka alið á spennu og fordómum, valdið styrjöldum og brotið niður sjálfsmynd einstaklinga og traust þeirra til annarra.
Af þessum sökum er brýnt að reiknað sé með trúfélögum sem gerendum í þjóðfélagi framtíðarinnar. Þá er mikilvægt að hlúð sé að jákvæðum hliðum þeirra og þeim gert mögulegt að leggja sitt af mörkum til að efla velferð í samfélaginu. Þar hafa þau af miklu að miðla.
Vegna skuggahliða trúarbragðanna er líka mikilvægt að samfélagið hafi innsýn í starf trúfélaga og ríkisvaldið geti jafnvel átt aðkomu að því a.m.k. sem öryggisloki ef illa fer.

Trúmál ekki bara einkamál
Af fyrrgreindum ástæðum virðast veigamikil rök fyrir að jafnvel í lýðræðislegum fjölhyggjusamfélögum sé ekki litið svo á að allt sem að trúmálum lýtur sé einkamál. Þrátt fyrir að ríkisvaldið eigi ekki að hlutast til um trú okkar hvers og eins er æskilegt að í gildi sé vönduð löggjöf um starf trúfélaga og þau heyri þannig undir opinberan rétt. Því eru nú í gildi lög um skráð trúfélög sem þjóna tvíþættu hlutverki: Þau setja opinberar leikreglur um störf trúfélaga en veita þeim jafnframt nokkra hlutdeild í þeirri fyrirgreiðslu sem hið opinbera veitir þjóðkirkjunni þó í ríkari mæli. Í framtíðinni þurfa þessi lög einnig að ná að fullu til lífsskoðunarfélaga sem gegna hliðstæðu hlutverki og trúfélög þótt „kenning“ þeirra sé veraldleg.

Þjóðkirkjulög
Rök standa einnig til að um hina stóru meirihlutakirkju — þjóðkirkjuna — gildi sérstök lög vegna yfirburðastæðrar hennar, þeirra fjölþættu hlutverka sem hún gegnir umfram önnur trúfélög og vegna þeirra miklu fjármuna sem hún veltir. Þessi stóra kirkja verður að standast sömu kröfur og smærri trú- og lífsskoðunarfélög. Auk þess hlýtur samfélagið að gera ríkari kröfur til hennar en smærri trúfélaga: Ætlast til að hún þjóni fólki um land allt, sé öllum opin, ástundi vandaða stjórnsýslu, starfi í anda lýðæðis og jafnréttis og fari vel með eignir sínar sem komnar eru frá þjóðinni þó vissulega sé þar um framlag löngu genginna kynslóða að ræða þar sem eru hinar fornu kirkjueignir.

Þjóðkirkjuákvæði verndar þjóðina
Vissulega er mögulegt að kveða á um stöðu trú- og lífsskoðunarfélaga þar á meðal þjóðkirkjunnar í almennum lögum án þess að þeirra sé getið í stjórnarskrá. Þjóðkirkjuákvæði eða ígildi þess sem nær til allra trú- og lífsskoðunarfélaga er á hinn bóginn mikilvæg yfirlýsing um að slík lög skuli sett og þannig reiknað með trúarbrögðum í hinu opinbera rými en aðkomu þeirra að því settar skýrar leikreglur. Hlutverk slíks ákvæðis og löggjafar sem reist væri á því er því ekki einvörðungu að vernda trú- og lífsskoðunarfélög almennt og þjóðkirkjuna sérstaklega heldur einnig að vernda þjóðina fyrir ýmsum skuggahliðum trúarbragðanna sem sagt gætu til sín í auknum mæli ef trúmál heyrðu alfarið undir einkamálarétt. — Þetta eru veigamestu rökin fyrir þjóðkirkjuákvæði eða ígidi þess.

Þjóðkirkja í stjórnarskrá?

Hjalti Hugason, 17. October 2012 17:09


Nýverið gekkst Stjórnarskrárfélagið fyrir fundi um spurningu nr. 3. á kjörseðlinum í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. okt. n.k. Sú spurning sem beint var til frummælenda var: Hvaða áhrif mun ný stjórnarskrá hafa á stöðu þjóðkirkjunnar?

Áhrif í báð og lengd
Sú breyting sem Stjórnlagaráð leggur til er ekki líkleg til að hafa veruleg áhrif á stöðu þjóðkirkjunnar til skamms tíma. Allar líkur eru aftur á móti á að til lengri tíma litið muni breytingin móta trúmálarétt í landinu en hann er það „landslag“ sem þjóðkirkjan og önnur skráð trú- og lífsskoðunarfélög hræra sig í.
Ástæðan fyrir því að frumvarp Stjórnlagaráðs er ekki líklegt til að hafa skjót áhrif er að staða þjóðkirkjunnar er nú fremur ákveðin með sérlögum en núgildandi 62. gr. stjkr. Þar má einkum benda á lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar en einnig lög um skráð trúfélög, lög um sóknargjöld, lög um helgidagafrið og raunar fjölda ákvæða í öðrum lögum.
Vissulega byggist tilvist þessara laga á VI. kap. núgildandi stjórnarskrár. Það er þó sjálfstætt viðfangsefni óháð endurskoðun stjskr. hvort og þá hvernig þessum lögum skuli breytt og hvort sum þeirra verði jafnvel felld úr gildi í framtíðinni. Sú vinna krefst samræðu og stefnumótunar og hún mun óhjákvæmilega taka tíma.
Til að meta líkleg langtímaáhrif þarf að túlka hvað „Já“-kvætt og hvað „Nei“-kvætt svar við spurningu nr. 3 merki á kjörseðlinum þann 20. okt.

Hvað merkir „Já“ og „Nei“?
Þau sem svara spurningu nr. 3 með „Já“-i hljóta að eiga við að í nýrri stjórnarkrá skuli vera ákvæði einhvers staðar á litrófinu frá núg. 62. gr. stjskr. og langleiðina í áttina að 19. gr. Stjórnlagaráðs en þó ekki alla leið. Greinin hljóðar svo:
Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins.
Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.
„Já“-fólkið hlýtur að vilja að þjóðkirkjuhugtakið komi fyrir í stjórnarskrártextanum. Annars er vart um þjóðkirkjuákvæði að ræða.
Þau sem svara „Nei“ virðast aftur á móti vilja 19. gr. Stjórnlagaráðs í gildi eða eitthvað þaðan af minna. Sum líklega að það verði engin hliðstæða 19. gr. í stjskr framtíðarinnar
Hvorki „Já“ né „Nei“ eru því nákvæmt eða endanlegt svar. Í svörunum felst miklu frekar mikilvæg vísbending um hverjir skuli vera burðarásarnir í trúmálrétti framtíðarinnar.

Burðarásar trúmálaréttarins
„Já“–vængurinn mun gefa þau skilaboð að byggt skuli á hefðinni frá 1874 en samkvæmt henni eru burðarásarnir í íslenskum trúmálarétti tveir: Trúfrelsi og þjóðkirkjuskipan sem vissulega eru nefndir í öfugri röð í núg. stjskr.
„Nei“-vængurinn mun hins vegar gefa þá vísbendingu að byggt skuli á fyrirmyndum víða erlendis frá — t.d. BNA og Frakklandi. Þar er burðarás trúmálaréttarins aðeins einn: Trúfrelsið.
Báðar leiðirnar eru gamlar og báðar eru færar í nútímanum og hvor um sig hefur sína kosti og sína galla.

Jöfnuður upp á við eða niður á við?
„Já“-leiðin rúmar aukinn jöfnuð í trúarefnum miðað við það sem nú er og hann má kalla jöfnuð „upp á við“. Hann felst í að öðrum skráðum trú- og lífsskoðunarfélögum verði tryggð sambærileg staða og þjóðkirkjan nýtur nú. Þessi leið rúmar líka aukna aðgreiningu þjóðkirkjunnar frá ríkinu en þó er orðin.
„Nei“-leiðin felur hins vegar í sér aukinn jöfnuð niður á við sem felst í að þjóðkirkjan fái í framtíðinni sömu stöðu og önnur trúfélög hafa nú eða þau fái hugsanlega öll veikari stöðu.
Það er nákvæmlega hér sem ástæða er til að staldra við og spyrja: Hvers vegna í ósköpunum ætti að vera þjóðkirkjuákvæði í nýrri stjórnarskrá í upphafi 21. aldar?

Hvers vegna þjóðkirkjuákvæði?
Hugmyndin um sekúlaríserað eða veraldarvætt samfélag virðist ekki hafa verið fullkomlega raunhæf. Nú er rætt um endurkomu trúarbragða í vestrænum löndum. Allt bendir líka til að trúarbrögð og trúfélög muni hafa meiri áhrif á 21. öldinn en þau þó höfðu á þeirri 20.
Af þessum sökum er brýnt að reiknað sé með trúfélögum sem gerendum í þjóðfélagi framtíðarinnar. Því er mikilvægt að hlúð sé að jákvæðum hliðum þeirra og þeim gert mögulegt að leggja sitt af mörkum til að efla velferð í samfélaginu. Þau geta miðlað jákvæðum samfélagsgildum og lagt grunn að góðu mannlífi. Það þarf að efla þau til þess.
Trú og trúfélög geta þó líka alið á spennu og fordómum, valdið styrjöldum og brotið niður sjálfsmynd einstaklinga og traust þeirra til annarra. Vegna þessara skuggahliða trúarbragðanna er líka mikilvægt að samfélagið hafi innsýn í starf trúfélaga og ríkisvaldið geti jafnvel átt aðkomu að því a.m.k. sem öryggisloki ef illa fer.

Trú er einkamál — en hvað um trúfélög?
Bæði í „Já“- og „Nei“-línunni felst sá skilningur að trú í merkingunni trú mín og trú þín eða trúleysi okkar beggja sé fullkomið einkamál. „Nei“-línan getur svo líka falið í sér þann skilning að allt sem lýtur að trúariðkun, trúartjáningu, trúboði og starfi trúfélaga skuli einnig vera einkamál og um það skuli ekki gilda nein sérstök lög. Þá hefur samfélagið og ríkisvaldið enga innsýn eða aðkomu að þessu viðkvæma sviði samfélagsins. Innan trúfélaga gætu þá þrifist ýmis konar mannréttindabrot án þess að auðvelt yrði að bregðast við.
„Nei“-línan getur þannig falið í sér upphaf á aðskilnaðarferli ekki aðeins milli þjóðkirkju og ríkis heldur ríkis og trúarlífs almennt. „Nei“-línan þarf vissulega alls ekki að fela þetta skref í sér en opnar í öllu falli fyrir þróunina.
„Já“-línan felur aftur á móti í sér vísbendingu um að starf trúfélaga skuli að falla undir opinberan rétt og um það skuli gilda einhver lög. Útvíkkað þjóðkirkjuákvæði er því besta tryggingin fyrir að einhver opinber öryggisloki sé til staðar þegar trú- og lífsskoðunarfélög eiga í hlut.

Þjóðkirkjuákvæði býður upp á vandamál
Við sem gjarna viljum hafa nútímavætt þjóðkirkjuákvæði sem raunar yrði trú- og lífsskoðunarákvæði í stjskr. verðum þó að horfast í augu við að það er ekki vandamálalaust.
Ákvæðið býður upp á vandamál fyrir trú- og lífsskoðunarfélögin en þó einkum þjóðkirkjuna þar sem slíkt ákvæði takmarkar óhjákvæmilega sjálfstæði eða autonomíu hennar. Trúfélög þurfa að vera eins autonóm eða sjálfstæð og nokkur kostur er í samfélagi nútímans!
Of þröngt þjóðkirkjuákvæði skapar líka vandamál gagnvart öðrum trú- og lífsskoðunarfélögum og ríkisvaldinu þar sem það leiðir auðveldlega til ómálefnalegrar mismununar trúfélaga sem við verðum að forðast.

Markmið fyrir trúmálarétt á 21. öld
Í trúmálarétti 21. aldarinnar verður að tryggja 1) jöfnuð fólks óháð trú og lífsskoðun, 2) rétt fólks til að tjá og iðka trú sína og lífsskoðun, 3) rétt fólks til að fá að vera í friði fyrir áreitum af hálfu trú- og lífsskoðunarfélaga ef það kýs svo, 4) jafna stöðu trú- og lífsskoðunarfélaga og loks 5) jafna stöðu þjóðkirkjunnar og annarra trú- og lífsskoðunarfélaga eftir því sem eðlilegt er miðað við stærð og félagsleg hlutverk.
Þessum markmiðum er mögulegt að ná bæði innan „Já“- og „Nei“-línunnar í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar er einfaldlega um tvær leiðir að sama marki að ræða. Vafamál er hvort Stjórnlagaráð hafi hitt á bestu lausnina í því efni. Þess vegna vil ég að endurskoðað þjóðkirkjuákvæði — sem raunar yrði ákvæði um stöðu trú- og lífsskoðunarfélaga almennt — verði í nýrri stjórnarskrá. Það gæti hljóðað á þessa leið:
Allir eiga rétt á að aðhyllast og iðka trú eða lífsskoðun í samræmi við sannfæringu sína og að stofna um það félög. Öllum er frjálst að breyta um trú eða sannfæringu og standa utan trú- og lífsskoðunarfélaga. Enginn má skorast undan almennum borgaralegum skyldum vegna trúar eða lífsskoðana. Enginn er skyldur til að greiða persónuleg gjöld til trú- eða lífsskoðunarfélags sem hann á ekki aðild að.
Ríkisvaldið verndar öll skráð trú- og lífsskoðunarfélög.
Evangelíska lúterska kirkjan er þjóðkirkja á Íslandi. Breyta má þessu með lögum. Slík lög skal bera undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.

Múhameðs-teikningar og samskipti menningarheima

Hjalti Hugason, 9. October 2012 10:47


Á fárra ára fresti birta vestræn dagblöð og aðrir fjölmiðlar háðs- og ádeiluteikningar sem sýna Múhameð spámann á niðrandi og niðurlægjandi máta. Viðbrögðin láta aldrei á sér standa og eru ætíð hin sömu: kröftug, oft ofbeldisfull og valda stundum langvarandi ófriði. Öfagöfl í röðum múslima taka hverju slíku tækifæri fagnandi. Þau nýtast vel til að vekja athygli á málstað þeirra og festa þau í sessi. En hvernig stendur á þessum hörðu viðbrögðum, hvers vegna eru teikningar af þessu tagi birtar og þjóna þær einhverjum tilgangi?

Myndbann
Bókartrúarbrögði þrenn Gyðingdómur, kristni og islam eru náskyld bæði sögulega og fyrirbærafræðilega. Oft er litið svo á að öll játi trú á einn og sama Guð — Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs sem oft er nefndur í Gamla testamentinu — þótt hann sé nefndur ólíkum nöfnum: Jahve, Allah og Drottinn. Helstu viðmið eða boðorð þessara trúarbragða eru líka mörg þau sömu. T.d. ríkti upphaflega myndbann í þeim öllum en í því felst að bannað er að gera sér myndir af Guði (sjá 2. Mós. 20. 4.) Ástæðurnar eru einkum tvær: Hið heilaga og óendanlega verður ekki fangað í endanlega mynd. Allar tilraunir til að freista þess smætta hið óendanlega, ólýsanlega og að nokkru leyti óþekkjanlega, þ.e. Guð. Myndir af Guði eru líka til þess fallnar að breytast í skurðgoð hver svo sem upprunalegur tilgangur þeirra hefur verið. Bannið við að gera sér myndir af hinu heilaga hefur haldið gildi sínu á mjög mismunandi vegu í fyrrgreindum trúarbrögðunum.

Myndheimur kristninnar
Myndbannið hefur að mestu fallið í gleymsku í kristninni eftir ákafar deilur um helgimyndir á 8. og 9. öld. Krists-myndir af ýmsu tagi hafa gegnt mikilvægu hlutverki í guðsþjónustulífi og fræðslustarfi kirkjunnar og tekið á sig ýmsar myndir. Í evrópskri myndhefð hefur semítinn frá Nasaret t.d. hlotið æði germanskt yfirbragð. Í kristninni eru líka gerðar myndir af Maríu mey, dýrlingum, englum og jafnvel Guði sjálfum. Hugmyndin um Guð sem síðskeggjaðan öldung á sér ekki aðeins upphafi í hugarheimi barna heldur ekki síður myndhefð kirkjunnar. Myndir af slíku tagi eiga sinn þátt í að festa patríarkala guðsmynd í sessi sem ótvírætt skaðar kristnina nú á dögum.

Myndbann í islam
Múslimir hafa haldið fastast í bannið við að gera sér myndir af hinu heilaga og hefur það haft víðtæk áhrif á listsköpun þeirra. Þar nær myndbannið einnig yfir spámanninn Múhameð. Séu á annað borð gerðar myndir af honum mega þær ekki sýna andlit hans. Stafar það af því að enginn megnar að miðla fegurð hans eða því sem líklega væri nefnt útgeislun nú á dögum.
Þetta er skýringin á snörpum viðbrögðum múslima við háðsteikningum af spámanninum. Með þeim er ekki aðeins skopast að upphafsmanni trúar þeirra heldur er brotið gegn einu af upprunalegustu boðorðum hennar og hið heilaga haft í flimtingum. — Hér skulu þessi viðbrögð ekki réttlætt. Þau eru aftur á móti vel skiljanleg séu þau sett í samhengi.

Hvers vegna Múhameðs-teikningar?
Á Vesturlöndum hefur umræða um tilgang Múhameðs-teikninga oft fallið í skuggann fyrir málsvörn fyrir tjáningarfrelsi þeirra sem myndirnar birta. Sú áherslubreyting sýnir e.t.v betur en flest annað muninn á veraldlegri nútímamenningu Vesturlanda og þeirri trúarmenningu sem einkenndi þau áður fyrr og einkennir hinn múslimska heim enn í dag. — Í þessu efni er fortíð okkar nútíð múslima eins og á svo mörgum öðrum sviðum.
Þar sem trúarmenning ríkir er trúin miðlæg í samfélaginu og ummerki hennar hvarvetna sýnileg. Þar samsamar fólk sig trúarhefðum samfélagsins og lætur mótast af þeim í mun ríkari mæli en við erum vön í okkar heimshluta. Þetta þarf fólk alls ekki að gera af nauðung eða gegn eigin vilja eins og okkur er tamt að álíta. Einstaklingsvitund er að verulegu leyti menningarlega háð og er ekki eins rík í flestum múslimskum löndum og hér um slóðir. Samsömun þarf heldur ekki ætíð að hafa sjálfsafneitun í för með sér.

Tjáningarfrelsið
Eitt af því sem helst einkennir Vesturlönd og vestræna menningu er rík einstaklingshyggja sem mörgum finnst stappa nærri sjálfhverfu nú á dögum. Vissulega ber okkur að standa vörð um persónufrelsi og svigrúm sérhvers manns m.a. til að tjá hug sinn. Því má þó ekki gleyma að helsta gildi tjáningarfrelsis felst í að það verndar einstaklinginn andspænis yfirvöldunum. Það áskilur honum rétt til að gagnrýna þau á hvern þann hátt sem sannfæring hans og samviska býður honum án þess að hann sæti fyrir það refsingu, viðurlögum eða frelsisskerðingu. Þá stendur tjáningarfrelsi einnig vörð um frelsi þeirra sem finna sig knúna til að andæfa valdastofnunum, storka viðteknum skoðunum og láta reyna á tabú samfélagsins. Það ber á hinn bóginn að varast að tengja tjáningarfrelsið við hégóma eins og gert var um árið þegar látið var í veðri vaka að bann við áfengis- og/eða tóbaksauglýsingum bryti í bága við tjáningarfrelsi.
Spyrja má hvort það sé ábyrg eða virðingarverð beiting tjáningarfrelsis í hinum „kristna“ heimi að teikna eða birta myndir er brjóta í bága við trú eða gildismat annarra trúarbragða, t.d. islam. Það kann að vera róttækt og örgrandi að hæða ríkjandi trúarbrögð í eigin heimalandi, stofnanir þeirra, leiðtoga og hugarheim. Það getur líka verið róttækt og ögrandi að ganga á hólm við pólitískan rétttrúnað í eigin samfélagi. En er það virkilega svo sé ráðist að „hinum“ hvort sem um er að ræða minnihluta í eigin landi eða ráðandi viðhorf í öðrum heimshlutum?

Er munur á Múhameðs-teikningum og hatursáróðri
Í raun má spyrja hvort einhver augljós munur sé á háðsteikningum af Múhameð spámanni sem sýna hann t.d. sem hryðjuverkamann og hatursáróðri gegn múslimum. En almennt er litið svo á að tjáningarfrelsi nái ekki til slíks málflutnings.
Með birtingu Múhameðs-teikninga í vestrænum miðlum er engum tabúum sem ráða ferðinni okkar á meðal ógnað. Þvert á móti er aðeins verið að kalla fram fyrirsjáanleg og alþekkt viðbrögð. Með Múhameðs-teikningum og þeim viðbrögðum sem þær vekja er raunar aðeins ýtt undir öfgaöfl innan islam en það eru þau sem ráða ferðinni í þeim ofsafengnu mótmælum sem skýrt er frá í fréttum. Þau tjá ekki endilega huga hins almenna múslima sem er líklega álíka friðelskur og við teljum okkur flest vera.
Einu augljósu áhrifin sem Múhameðs-teikningar hafa er raunar að festa í sessi staðalmyndir og fordóma í garð islam og múslima. Þær ýta undir þá neikvæðu klisju sem ríkir á Vesturlöndum að múslimir séu upp til hópa öfgafullir hryðjuverkamenn en slíkt er fjarri sanni.
Á tímum alheimsvæðingar og trúarlegrar og menningarlegrar fjölhyggju ríður á friðsamlegri sambúð, slökun spennu, skilningi, víðsýni og gagnkvæmri virðingu milli menningarheima. — Stuðla Múhameðs-teikningar virkilega að slíku ástandi og ef svo er ekki hver er þá tilgangur þeirra?

Stjórnarskrá og mannréttindi

Hjalti Hugason, 7. October 2012 13:01

Baldur Kristjánsson
Hjalti Hugason
Sigrún Óskarsdóttir

Stjórnarskrá og mannréttindi

Innan fárra vikna gefst okkur kostur á að taka afstöðu til djörfustu endurskoðunar á stjórnarskrá okkar á lýðveldistímanum. Í raun er um að ræða róttækustu endurskoðun frá 1874. Við stofnun konungsríkisins Íslands 1918 og síðar lýðveldisins 1944 var byggt á grunni stjórnarskrárinnar frá 1874 og þar með dönsku grundvallarlögunum frá 1849. — Þjóðaratkvæðargreiðslan 20. okt. er því tímamótaviðburður.
Mikilvægt er að þjóðin taki þátt í atkvæðagreiðslunni og sýni þannig í verki hvaða stefnu hún vill að stjórnarskrármálið taki. Í stjórnarskrárgerð er ekki tjaldað til einnar nætur. Þegar þjóðaratkvæðagreiðsla stendur fyrir dyrum hlýtur því að teljast eðlilegt að spurt sé gagnrýninna lykilspurninga um inntak og útfærslur í þeirri tillögu sem afstaða skal tekin til. Af þeim sökum vekur furðu hversu lítið hefur farið fyrir umræðum um frumvarp Stjórnlagaráðs nú í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Gagnrýninnar umræðu er þörf
Stjórnarskrá er grundvöllur löggjafar í landinu, stjórnarhátta og réttarfars. Þess vegna er stjórnarkráin grundvöllur samfélagsins og sá sáttmáli sem við byggjum samlíf okkar á sem þjóð. Spurningum um gildismat og siðfræði verður að gefa gaum áður en gengið er að kjörborði. Mannréttindi í fjölbreyttu nútímasamfélagi hljóta að skipa verðugan sess í endurskoðaðri stjórnarskrá. Þá er mikilvægt að spyrja hvort frumvarp Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá leggi nægilega traustan grunn að því félagslega réttlæti sem við viljum að ríki. Þá þarf að spyrja hvort frumvarpið tryggi almenningi þá aðkomu að opinberum ákvörðunum og leggi að öðru leyti traustar undirstöður að því lýðræði og því réttarríki sem við viljum búa við. Teljum við með öðrum orðum að frumvarp Stjórnlagaráðs leggi grunn að góðu og öruggu samfélagi fyrir okkur, börn okkar og komandi kynslóðir?

Ákvæði um þjóðkirkju á ekki að vera það eina sem þjóðkirkjan lætur sig varða.
Hvert og eitt okkar hlýtur að spyrja sig þeirra spurninga sem að ofan getur. Það er líka eðlilegt að vænta þess að ýmsar lykilstonfanir samfélagsins og almannasamtök geri slíkt hið sama. Í þeirra hópi má m.a. líta til þjóðkirkjunnar. Hún er stofnun sem eðlilegt er að láti sig gildismat og siðferðileg álita varða — einnig þegar þau hafa félagspólitíska skírskotun eins og raun er á í stjórnarskrármálinu.
Þjóðkirkjan hefur vissulega tjáð sig varðandi tillögu Stjórnlagaráðs. Þann 2. sept. s.l. var kallað saman aukakirkjuþing til að fjalla um málið en kirkjuþing er æðsta stjórn þjóðkirkjunnar. Á þinginu var samþykkt að hvetja „til þess að áfram verði ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá og að staða réttindi annarra trú- og lífsskoðunarfélaga verði tryggð“. Með þessari ályktun er kirkjuþing ekki að mæla fyrir óbreyttu ástandi. Þjóðkirkjan er í raun að lýsa sig reiðubúna til að taka þátt í þróun trúmálaréttar fyrir 21. öld og sér sanngirni í að staða annarra skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga verði skilgreind með nákvæmari hætti en nú er. Með skýrari skilgreiningu verður dregið úr þeim mismun sem nú er á stöðu þeirra og þjóðkirkjunnar.
Það er eðlilegt að þjóðkirkjan taki frumkvæði á þessu mikilvæga sviði fjölhyggjusamfélagsins. Hún er stærsta trú- og lífsskoðunarfélag landsins og henni ber sem slíkri að berjast fyrir auknum rétti yngri og smærri systurfélaga sinna. Í ljósi stærðar sinnar og hlutverks er eðlilegt að þjóðkirkjan hafi einnig skoðun á því hvort nægilega vel sé búið um hnútana í þeim hlutum frumvarpsins sem lúta að mannréttindum, mannhelgi, jafnrétti og jöfnuði.
Þorum við sem að taka umræðu um gildi og gildismat? Einhverra hluta vegna virðist sú umæða ekki vera okkur töm. Þjóðkirkja sem vill standa undir nafni sem slík hlýtur líta á það sem hlutverk sitt að kalla slíka umræðu fram og leiða hana. Það liggur í hlutarins eðli sé hún sú grundvallarstofnun samfélagsins sem hún telur sig vera.

Verður þjóðkirkjuákvæðið að pólitísku bitbeini?
Allt frá upphafi hefur sú endurskoðun stjórnarskrárinnar sem nú stendur yfir verið pólitískt bitbein. Hún hefur verið eitt helsta baráttumál stjórnarflokkanna en þyrnir í augum stjórnarandstöðununnar. Hætt er við að þessi skuggi fylgi málinu inn í komandi atkvæðagreiðslu. Það yrði döpur niðurstða ef þjóðkirkjuákvæðið yrði að pólitísku bitbeini. Þjóðkirkja í boði þessa eða hins stjórnmálaflokksins rís ekki undir því að vera kirkja allrar þjóðarinnar heldur verðun hún hluti af bákninu. – Viljum við það?

Já en — við þjóðkirkjuákvæði

Hjalti Hugason, 7. October 2012 13:00

Með grein hér í Fréttablaðinu fyrir nokkru (18. sept.) mælti ég með að kjósendur í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu svari spurningunni „ vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?“ með já-i. Væri þess kostur mundi ég samt hvetja til að greitt yrði atkvæði með „Já en...!“ Með já-yrðinu meina ég því ekki að 62. gr. stjskr. skuli standa óbreytt. Þvert á móti tel ég að þróa beri þann arf sem við búum að frá þeirri frjálslyndis- og frjálsræðisþróun sem hófst um miðja 19. öld inn í þá fjölhyggju sem nú hefur rutt sér til rúms. Á grundvelli þjóðkirkjuákvæðis í breyttri mynd má vel þróa trúmálarétt sem hæfir 21. öldinni.

Viðmið við breytingar
Við breytingar á núgildandi trúmálakafla stjskr. (VI. kafla) verður að 1) tryggja jafnræði fólks óháð trúar- og lífsskoðunum, 2) tryggja rétt fólks til að tjá trúar- og lífsskoðanir sínar og iðka þær í einrúmi eða með öðrum, 3) tryggja rétt fólks til að hafna slíkum skoðunum, 4) jafna stöðu trúfélaga eftir því sem eðlilegt má telja með tilliti til stöðu þeirra í samfélaginu 5) og loks jafna stöðu trú- og lífsskoðunarfélaga.

Það er fagnaðarefni að þegar er í gangi vinna að frumvæði innanríkisráðherra sem miðar að því að jafna stöðu skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga í landinu. Markmiðunum öllum verður þó best náð með endurskoðaðri trúmálagrein í stjskr.

Trúfrelsi- og þjóðkirkjuákvæði
Sé vilji til að byggja ekki aðeins þjóðkirkjuákvæði heldur einnig trúfrelsisgrein stjskr. á innlendum rétti í stað alþjóðasáttmála eins og stjórnlagaráð kýs að gera í frumvarpi sínu (18. gr.) gæti nýtt trúfrelsis- og þjóðkirkjuákvæði hljómað í líkingu við þetta:

Allir eiga rétt á að iðka trú eða lífsskoðun í samræmi við sannfæringu sína og að stofna um það félög. Öllum er frjálst að standa utan slíkra félaga. Enginn má skorast undan almennri þegnskyldu vegna trúar- eða lífsskoðana. Enginn er skyldur til að greiða persónuleg gjöld til trú- eða lífsskoðunarfélags sem hann á ekki aðild að.

Ríkisvaldið verndar öll skráð trú- og lífsskoðunarfélög.

Evangelíska lúterska kirkjan er þjóðkirkja á Íslandi. Breyta má þessu með lögum. Slík lög skal bera undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar í leynilegri atkvæðagreiðslu.

Þessi endurskoðaða trúfrelsisgrein ætti heima næst á eftir greinum sem fjalla um almennt skoðunar-, tjáningar-, og félagafrelsi. (þ.e. eftir núv. 74. gr.) svipað og gert er í frumvarpi stjórnlagaráðs.

Hinu breytta trúfrelsisákvæði er ætlað að að taka af tvímæli um skoðana-, tjáningar- og félagafrelsi á sviði trúmála. Þá er því ætlað að standa vörð um rétt þeirra sem vilja standa utan allra trúfélaga og trúariðkunar.

Takmörk trúfrelsis
Almenn jafnræðisregla (sbr. 65. gr. stjskr.) kveður á fullnægjandi hátt á um að ekki megi mismuna fólki eða skerða rétt þess vegna trúar eða lífsskoðana. Af þeim sökum er óhætt að fella brott sérstakt ákvæði um að enginn megi „neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna“ eins og nú segir í 64. gr. stjskr. Aftur á móti er mikilvægt að setja trúfrelsinu mörk og undirstrika að fólk geti ekki skorast undan „almennri þegnskyldu“ eða almennum félagslegum skyldum sínum með skírskotun til trúar sinnar eins og einnig segir 64. gr. núgildandi stjskr. Slík takmörkun trúfrelsis virðist nægja en í henni felst meðal annars að óheimilt sé að brjóta gegn lögum landsins með tilvísun til trúar. En það er einmitt merking síðari liðar núgildandi 63. gr. stjskr. þar segir að ekki megi í nafni trúar brjóta gegn „góðu siðferði“ og „allsherjarreglu“ sem óneitanlega hljómar æði 19. aldarlega.

Með trúmálaákvæði í þessa veru yrði staða trú- og lífsskoðana í landinu og félaga sem um þær eru stofnuð jöfnuð frá því sem nú er og trúfrelsið því enn fest í sessi. Um leið yrði viðurkennd a.m.k. táknræn sérstaða stærsta trúfélags landsins, þjóðkirkjunnar, meðan meirihluti þjóðarinnar sjálfrar kýs að viðhalda slíkri sérstöðu. — Að gildi þess verður vikið í sérstakri grein á næstunni.

P.s. Vakin skal athygli á að í Fréttablaðinu (27. sept.) var uppsetningu greinarinnar breytt þannig að þungamiðja hins breytta trúfrelsisákvæðis (Ríkisvaldið verndar öll skráð trú- og lífsskoðunarfélög) varð að millifyrirsögn og varð um leið að merkingarlausri upphrópun og rýfur samhengi greinarinnar.