Ísland verði friðarríki

Hjalti Hugason, 11. December 2012 18:16


Borgarstjórinn í Reykjavík hefur að undanförnu látið í ljósi þá afstöðu að borgin ætti að verða vopna- og hernaðarlaust svæði. Því til áréttingar ætti að banna herskipum að koma hingað til hafnar. Þar með yrðu reglulegar flotheimsóknir NATO m.a. úr sögunni. Þetta er sjónarmið sem vissulega er ástæða til að hugleiða á aðventunni þegar friðarhátíðin mikla fer í hönd.
Þessari friðsamlegu hugsjón borgarstjórans hefur verið andmælt af hálfu minnihlutans í borgarstjórn. Fulltrúi hans hefur m.a. bent á að slíkt bann mundi torvelda eftirlits-, öryggis- og hugsanlega björgunarstörf Dana við Grænland.

Friðarríki
Auðvitað ættum við að nýta okkur þá sérstöðu til fulls að við erum herlaus þjóð. Það gerum við með því að segja að fullu skilið við NATO, afþakka loftrýmiseftirlit af þess hálfu og biðjast að öllu leyti undan heimsóknum herflugvéla og herskipa hingað til lands.
Með þessu móti kæmum við hér á hlutlausu svæði sem orðið gæti miðstöð rannsóknar- og ráðstefnumiðstöðva á sviði afvopnunar- og friðarmála. Hingað gætum við boðið fulltrúum stríðandi afla til friðarsamninga og á annan hátt orðið gestgjafar þeirra sem vinna að slökun spennu og friðsamlegri sambúð í heiminum. Þetta er eitthvert göfugasta hlutverk sem við getum valið okkur í samfélagi þjóðanna.

Besta vörnin
Í sérstöðu á borð við þá sem hér er lýst felast líka bestu varnirnar sem okkur standa til boða eins og heimsmálum er nú háttað. Þau hernaðaröfl eru vart til sem legðu til atlögu við slíkt friðarríki.
Ef við ávinnum okkur trúverðugleika sem friðelskandi og friðareflandi þjóð stafar okkur engin hætt af hálfu hervelda heimsins. Þær hættur sem að okkur kunna að steðja eru enda af allt öðru tagi. Þar ber einkum að nefna hættur af náttúrunnar hálfu, eldgos og jarðskjálfta, sem og hættunnar sem okkur stafar af okkur sjálfum: gáleysi okkar og skeytingarleysi sem m.a. kom í ljós í Hruninu og í aðdraganda þess. — Loftrýmiseftirlit sem í raun eru dulbúnar heræfingar auka ekki öryggi okkar í þessu efni. — Einhver kynnu að sakna hryðjuverkaógna í fyrrgreindri upptalningu. Hefðbundnar hervarir hrökkva þó skammt til að sporna við þeim eins og dæmin sanna.

Undanþága
Friðarstefna af þessu tagi þarf ekki að útiloka að dönskum varðskipum sem leið eiga í friðsamlegum tilgangi til Grænlands verði heimilað að koma hér til hafnar reynist slíkt nauðsynlegt. Slíkt má gera með sértækum undanþágum og krefjast þá skýrslu um hvaða vopnum skipin kunna að vera búin hverju sinni. Síst er ástæða til að friðarstefna okkar stofni grænlenskum öryggishagsmunum í hættu. Þá hyggi sá sem hlífa skyldi. Þvert á móti er ástæða til að Norðurlöndin standi saman gegn þeim ógnum sem að þeim kunna að steðja t.d. vegna náttrúhamfara (sbr. samstöðuyfirlýsingu norrænu utanríkisráðherranna 5. 4. 2011. http://www.utanrikisraduneyti.is/frettir/nr/6245).

Fagnaðarefni?
Í nýlegum leiðara Fréttablaðsins (8. des. sl.) var því fagnað að varnarmál okkar væru nú í vaxandi mæli að færast af vettavangi NATO og verða hluti af norrænu samstarfi.
Þetta er því aðeins fagnaðarefni ef þróunin verður sú að Norðurlöndin stofni sameiginlegt friðarbandalag á líkum grunni og að framan var lýst. Lítil ástæða er aftur á móti til að gleðjast yfir auknum hernaðarumsvifum norrænna þjóða hér enda nefndu norrænu ráðherrarnir ekki hernaðarógnir í samstöðuyfirlýsingu sinni. Því er vandséð hvernig hefðbundið varnarsamstarf við önnur Norðurlönd gagnist okkur í raun og veru komi til slíkrar ógnar sem vissulega er ófyrirséð. Sýni eitthvert stórveldi klærnar í raun er hætt við að vinir okkar og frændur í Skandínavíu héldu sér til hlés. Það var ekki á vísan að róa með samstöðu þeirra í milli þegar á reyndi í seinni heimsstyrjöldinni. Litlar líkur til að það verði frekar í þeirri þriðju ef til kemur sem Guð forði. Það má því ekki villa okkur sýn að heræfingar hér muni eftirleiðis fara fram undir nokkuð breyttum merkjum.