Páfinn sem sagði af sér

Hjalti Hugason, 25. February 2013 12:07


Væntingar þeirra sem tilheyra rómversk-kaþólsku kirkjunni við kjör Josephs Ratzingers til páfa 2005 hafa óhjákvæmilega verið æði mismunandi. Hann hafði verið prófessor við ýmsa þýska háskóla, síðast í Regensburg. Ungur var hann frjálslyndur guðfræðingur en snérist til aukinnar íhaldssemi kringum ´68. Á 8. áratugnum varð hann erkibiskup af Mainz, kardínáli og „trúfræðilögga“ kirkju sinnar (forstöðumaður Congregatio pro Doctrina Fidei). Hugsanlega var hann talinn geta snúið vörn kirkjunnar í sókn meðal fræðilega þenkjandi fólks í gamla heiminum. Hann boðaði enda afturhvarf til hefðbundinna grunngilda kirkjunnar sem svar við aukinni veraldarhyggju Vesturlanda. Þess vegna má líta á hann sem fulltrúa þeirrar skerpingar á sérstöðu kristninnar í heiminum sem mjög er kallað eftir nú á dögum — m.a. hér á landi — til að mæta þeim áreitum sem kirkjan verður fyrir í samtímanum.

Fyrrverandi páfi?
Þá hefur mat manna á fyrir hvað Benedikst XVI mundi helst verða minnst verið mismunandi fram undir þetta. Nú er það þó hafið yfir allan vafa. Hans verður minnst sem páfans sem sagði af sér. Þar er enda um stórtíðindi að ræða — ekki aðeins vegna þess hve sjaldan þetta hefur gerst, heldur miklu frekar sökum þess að afsögn stríðir gegn þeirri hugmyndafræði sem páfaembættið hvílir á. Samkvæmt henni er aðeins ein leið fær út úr páfadómi og hún liggur yfir móðuna miklu. Þetta skýrir tilfinningauppnám margra þeirra sem fréttamenn tóku tali á Péturstorginu strax eftir afsögnina. Mörg töldu páfann hafa óhlýðnast og brugðist trausti Guðs og manna.
Benedikt XVI olli líka ýmsum vanda með afsögn sinni. Praktískt hugsandi maður á borð við þann sem þetta ritar spurði t.d. strax: Hvernig ætli hann komi til með að standa í símaskránni í framtíðinni — sem Benedikt fv. páfi eða sem J. Ratzinger? Nú er svar fengið við þeirri spurningu. Hans fyrra sjálf verður aftur virkt og hann leystur undan öllum vegtyllum páfa. Hvorki rómversk-kaþólska kirkjan né heimsbyggðin rúmar heldur nema einn mann í páfadómi þótt mörg dæmi séu auðvitað um að tveir eða jafnvel þrír hafi tekist á um embættið fyrr á öldum.

Sjónvarpið olli afsögninni
Hin uppgefna ástæða fyrir afsögn Benedikts XVI er hrakandi heilsa hans og engin ástæða er til að draga hana í efa þótt fleira kunni að koma til. J. Ratzinger hafði enda skilað drjúgu dagsverki og náð eftirlaunaaldri og vel það er hann var valinn páfi.
Heilsan er þó ekki eina skýringin. Auðvitað hafa páfar oft verið ófærir um að gegna störfum um langt skeið áður en dauðinn leysti þá frá skyldum sínum. Fram undir þetta hefur Vadíkanið þó myndað leiktjöld sem hafa gert þetta mögulegt. Svo fremi sem páfi hefur getað birst í eigin persónu í glugganum fræga við Péturstorgið við nauðsynleg tækifæri hefur verið búandi við heilsulausan páfa. Við kúríuna hefur væntanlega alltaf verið nægan mannskap að finna sem fús var að vinna nauðsynleg verk og taka óhjákvæmilegar ákvarðanir. Hrumur páfi hefur aðeins fært kardínálasamkomunni aukin áhrif.
Eins og síðustu ár Jóhannesar Páls II:s sýndu gengur þetta ekki lengur. Sjónvarpið hefur gert það ómögulegt. Hrumur páfi gerir sig ekki í beinni útsendingu og það eykur ekki traust og tiltrú til embættisins eða rómversk-kaþólsku kirkjunnar ef ljóst er að æðsti stjórnandi hennar og einn af áhrifamestu leiðtogum heims er ekki lengur fær um að gegna embættinu af þeim myndugleika sem það krefst af handhafa sínum.

Nývæðing?
Benedikt XVI, kúrían, eða hverjir það voru sem að atburðarásinni sem lauk með afsögn páfa komu, sýndu mikla dirfsku. Þarna var hugsað af framsýni og viturleika eins og svo oft þegar stigið er út úr kassanum hver sem hann er. Nú er eftir að sjá hvort afsögnin verður einstakur atburður sem ekki endurtekur sig fyrr en eftir nokkur hundruð ár eða hvort hér var stigið róttækt skref í átt að nývæðingu á páfadæminu og í framhaldi af því rómversk-kaþólsku kirkjunni í heild.
Ekki er við því að búast að tekinn verði upp fastur eftirlaunaaldur páfa. Hitt kann þó að vera að ný leið hafi verið hönnuð út úr embættinu til frambúðar, viðurkennt að mögulegt sé að láta af embætti páfa líkt og hverju öðru köllunarhlutverki í kirkjunni svo ekki sé sagt starfi! Með því opnast t.d. leið til að kjósa yngri menn en oftast hefur verið raun á án þess að eiga þrásetu á hættu.
Ný hugsun kringum páfaembættið gæti líka flýtt fyrir endurskoðun á ýmsum öðrum atriðum sem valda því að rómversk-kaþólska kirkjan á undir högg að sækja víða um heim. Er þar átt við kröfuna um einlífi presta svo ekki sé minnst á prestsvígslu kvenna, afstöðuna til getnaðarvarna og samkynhneigðar. Þetta eru mál sem í sjálfu sér eru algerlega óskyld embættislokum páfa en verða rómversk-kaþólsku kirkjunni vaxandi fjötur um fót í náinni framtíð. Það þarf dirfsku og nýhugsun í kirkjunni til að glíma við þau hver sem niðurstaðan verður og hvort sem hún fæst fyrr eða síðar.
Ekkert af þessu þarf þó að breytast við þá atburði sem orðnir eru. Afsögn Benedikts XVI kann að verða algert einsdæmi. Þá verður hans aðeins minnst fyrir þá djörfung sem hann sýndi.

Kaþólskari en páfinn?
Við hér, mótmælendur uppi á Íslandi, höfum svo e.t.v. ástæðu til að hugsa skilning okkar á biskupsembættinu svolítið upp á nýtt í kjölfar afsagnarinnar ef við ætlum okkur ekki að verða „kaþólskari en páfinn“.
Í seinni tíð hefur verið litið svo á að sá eða sú sem eitt sinn hafi verið kjörin/-n biskup verði það áfram þótt viðkomandi láti af starfi: Eitt sinn biskup ávallt biskup. Þetta gildir greinilega ekki um Rómabiskup eða hvað? Hver eru þá rök okkar?

Hvellur

Hjalti Hugason, 8. February 2013 13:47

Sprengingin við Miðkvísl, eina af upptakakvíslum Laxár í Aðaldal, í ágúst 1970 er mjög til umfjölluna um þessar mundir. Ástæðan er að heimildarmynd Gríms Hákonarsonar um atburðinn hefur nýlega verið frumsýnd í Mývatnssveit og er nú til sýninga í Bíó Paradís.

Mynd Gríms Hákonarsonar
Hvellur er lífleg og spennandi mynd sem segir söguna af sprengingunni, undirbúningi hennar og þeim lögreglu- og dómsmálum sem fylgdu í kjölfarið. Fléttað er saman gömlu og nýju myndefni, kviku og kyrru, fréttaviðtölum frá sögutímanum og nýjum viðtölum við þátttakendur. Úr verður spennandi saga með magnaðan hápunkt, hvellinn. En á spýtunni hangir síðan margt fleira. Við kynnust t.d. náttúrusýn sem sannar að enn eru til Íslendingar sem lifa í sátt og samlyndi við umhvefi sitt, ganga með ánni og tala við fuglana líkt og Frans frá Assissí forðmu. Þeir mættu vera svo miklu fleiri. Sögulega myndefnið spinnst svo saman við ægifögur myndskeið frá vatnasvæðinu við ýmis birtuskilyrði. Þannig erum við minnt á hvað vannst við sprenginguna, hverju var bjargað.
Vissulega má taka undir með einum af sprengjumönnum um að mynd Gríms Hákonarsonar sé „alveg einhliða“ og dragi ekki upp skýra mynd af sjónarmiðum virkjunarsinna og eigenda Laxárvirkjunar á þessum tíma, Akureyrarbæjar og ríkisins (sjá “Baráttunni er alls ekki lokið“, Fréttablaðið 26. 1. 2012.) Sjálfur minnist ég nokkuð heiftarlegra viðbragða fólks á Akureyri við atburðinum. Það hefði líka verið fróðlegt að rifja þau upp nú rúmlega 40 árum síðar. Þetta dregur þó ekki úr gildi myndarinnar. Henni virðist ekki ætlað að rekja Laxárdeiluna í heild heldur afmarkaðan hluta hennar, rof Miðkvíslarstíflunnar. Þannig fær sá atburður líka víðtækari skírskotun: hvað gerðist, hvaða áhrif hafði það og getum við dregið af því einhvern lærdóm?

Laxárdeilan
Laxárdeilan stóð í fjögur ár eða frá 1969–1974 eins og lesa má um í ágætri bók Unnar Birnu Karlsdóttur sagnfræðings, Þar sem fossarnir falla; Viðhorf til náttúru og vatnsaflsvirkjana á Íslandi 1900–2008 (Rvík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2010, bls. 89–113. Hér er byggt á þessu verki). Þar sýnir Unnur fram á að deilan markaði þáttaskil í íslenskri náttúruverndarsögu, sem og umræðum um og undirbúningi að virkjunarframkvæmdum. Þá breyttist orkustefna stjórnvalda þar sem stórvirkjanir á hálendinu tóku við af smærri virkjunum í byggð á 8. áratug liðinnar aldar.
Í Laxárdeilunni tókust á sjónarmið sem annars vegar hafa verið kölluð „tilfinningasemi“ og „rómantísk vistfræði“ en á hinn bóginn „helstefnulögmál reikníngsstokksins“. Meðan á deilunni stóð litu virkjunarsinnar líka svo á að um hagsmunaárkestur væri að ræða milli „landlauss þéttbýlisliðs“ og „fámenns landeigendauðvalds“. Tekist var á um hvort réttlætanlegt væri að leysa brýna raforkuþörf iðnaðarbæjarins Akureyrar og íbúa víða á Norðurlandi með hagkvæmasta virkjunarkostinum eða hvort rétt væri að vega einnig inn annars konar verðmæti: Hefðbundnar landnytjar, veiði og ræktarland, mannvist og mannvirki í einkaeigu, sögulegar og menningarlegar minjar og síðast en ekki síst þá náttúrufegurð sem við njótum öll ásamt þeim aragrúa erlendra ferðamanna sem sækja Mývantssveit heim ár hvert. Í ljósi þess sem áunnist hefur er óneitanlega athyglisvert að lesa að álit þriggja manna nefndar sem Jakob Björnsson þáverandi orkumálastjóri skipaði 1969 til að fjalla um áhrif svokallaðrar Gljúfurversvirkjunar. Hún fól í sér 57 m háa stíflu og uppistöðulón sem sökkt hefði hálfum Laxárdal. Þá hefði jökulvatni úr Skjálfandafljóti verið veitt inn á vatnasvæði Mývatns og Láxar, einnar fegurstu bergvatnsár landsins. Nefndarmenn komust að þeirri niðurstöðu að tjón af völdum virkjunarinnar væri „fyllilega réttlætanlegt“. Hölluðust þeir að því að fegurðarauki yrði af Gljúfurversvirkjun og Laxárlón yrði vinsæl útivistarperla sem hefði aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Óneitanlega virðist þetta athyglisverð fagurfræði nú!
Vart þarf faglega útreikninga til að sannfærast um að björgun Laxár og Mýtvatns borgaði sig hreint þjóðhagslega burtséð frá öllum þeim verðmætum sem mölur og ryð fær ekki grandað en bjargað var. Báðir deiluaðilar litu líklega svo á að í Laxárdeilunni kæmi fram árekstur milli fortíðar og nútíðar. Það sem menn greindi á um var aftur á móti við hvað bæri að leggja rækt til framtíðar.
Laxárdeilan og lausn hennar, lög um verndun Mývatns og Laxár, markaði þau straumhvörf að þeim sem réðu ferðinni um orkunýtingu okkar var sýnt fram á að í framtíðinni yrði að taka tillit til náttúruverndarsjónarmiða. Val á milli verndunar og nýtingar yrði að verða mun vandaðra en verið hafði og byggt á rannsóknum. Óhætt virðist að fullyrða að „hvellurinn“, sprengingin við Miðkvísl, hafði veruleg áhrif á þrón Laxárdeilunnar og úrslit hennar. Svo sérstök var aðgerðin. Framhjá henni varð ekki litið.

Hvers konar mótmæli?
Í bók sinni bendir Unnur Birna Karlsdóttir á að Laxárdeilan snérist ekki aðeins um náttúruvernd. Hún vakti einnig upp spurningar um hvernig væri háttað samráði stjórnvalda, opinberra stofnana og framkvæmdaaðila í stórtækum breytingum á umhverfi og lífsskilyrðum fólks við þau sem í hlut áttu hverju sinni. Þannig var einnig tekist á um lýðræði og mannréttindi í landinu. Í því ljósi ber vissulega að skoða atburðinn við Miðkvísl.
En hvers konar aðgerð var rof stíflunnar? Var um óumdeilanlegt hreinsunarstarf að ræða? Eða var sprengingin þvert á móti skemmdarverk, skæruliðaaðgerð, hryðjuverk, liður í landvarnarstríði eða rétt og slétt skrílslæti? Á þessum neikvæðu nótum voru viðbrögð ýmissa ráðsettra Akureyringa og ugglaust margra annarra. Vissulega var aðgerðin „á gráu svæði, svo ekki sé meira sagt“ eins og einn af þátttakendunum, Arngrímur Geirssonar í Álftagerði sagði í Fréttablaðinu (sjá að framan).
Miðkvíslarstíflan var reist í óþökk landeigenda á veikum lögfræðilegum grunni og hún var notuð á ruddalegan hátt á vetrum er ryðja þurfti ána og jafna rennsli. Þá olli hún nágrönnum óþægindum og jafnvel tjóni. Hún hafði þó staðið um árabil og var eign Laxárvirkjunar, Akureyrarbæjar og ríkisins.
Ekki telst löglegt að spilla eignum annarra þótt maður sé ósáttur við gerð þeirra, staðsetningu eða notkun. Til að ná okkar málstað fram er ætlast til af okkur, óbreyttum borgurum, að við beitum formlegri og tímafrekari aðgerðum sem oft bera lítinn sem engan árangur. — Það er við slíkar aðstæður sem gripið er til aðgerða í líkingu við Miðkvíslarprenginguna og kallast þær borgaraleg óhlýðni.
Borgarleg óhlýðni er alþjóðlegt fyrirbæri sem víða hefur kallað fram öflugar grasrótarhreyfingar sem berjast gegn hernaði og stríðsátökum eða er beitt á sviði náttúruverndar og í mannréttindabaráttu svo nokkuð sé nefnt. Þá hefur aðferðum borgarlegra óhlýni verið beint gegn aðgerðum Ísraelsmanna á Gaza-svæðinu og slæmum aðbúnaði dýra á tilraunastofum eða verksmiðjubýlum til að nefna tvö gjörólík dæmi.
Helstu einkenni borgaralegrar óhlýðni eru að brotið er gegn lögum í víðtækasta skilningi. Ekki þarf að vera um sértækt brot á t.d. hegningarlögum að ræða, heldur óhlýðni við formlegar regluu, ákvarðanir valdhafa, allsherjarreglu eða viðmið samfélagsins. Brotið er framkvæmt fyrir opnum tjöldum og ekki er reynt að leyna því. Þá gengst gerandinn við brotinu, þrætir ekki fyrir það eða reynir að komast hjá afleiðingum þess, skaðabótum, sektum eða refsingu. Þeir sem ástunda borgarlega óhlýði eyða því margir hverjir margfalt meiri tíma í varðhaldi, réttarhöldum og fangelsi en til aðgerðanna sjálfra. Ekki er beitt ofbeldi við borgaralega óhlýðni enda er aðgerðum hennar alla jafna beint gegn ofbeldi af einhverju tagi. Loks er borgaralegri óhlýðni beitt til að breyta einhverju eða varðveita eitthvað í samfélagslegu tilliti eða ná fram markmiðum sem ekki virðast í sjónmáli að öðrum kosti.
Í nýlegu riti um borgaralega óhlýðni er Miðkvíslarsprengingin tekin sem dæmi um athyglisverða aðgerð af þessu tagi (Pelle Stridlund og Stellan Vinthagen, Motståndets väg; Civil olydnad som terori ock praktik, Stokkhólmi: Karneval förlag, 2011, bls. 55). Ljóst er að aðgerðin fellur vel að ofangreindri skilgreiningu. Í bókinni er þó litið svo á að hún hafi verið á jaðri borgaralegrar óhlýðni þar sem notað var sprengiefni en oftast er aðeins beitt handverkfærum. Dynamítið er fremur táknrænt fyrir þá sem barist er gegn en þau sem óhlýðnast. Höfundar taka þó fram að engum hafi verið stofnað í hættu og meðferð sprengiefnisins hafi verið „prófessionell“. Í Hvelli Gríms Hákonarsonar kemur vissulega fram að sprengjumenn höfðu reynslu og réttindi til að fara með dynamít. Það vekur þó kátínu áhorfenda þegar segt er að sprengingin sjálf hafi verið undirbúin eftir „leiðarvísi“ úr smiðju spennusagnahöfundarins Alistaire MacLean!
Mestu skiptir þó að enginn mætti á staðinn með það í huga að sprengja. Þátttaendur voru sannfærðir um að um jarðvegsstíflu væri að ræða. Þegar steypukjarni blasti við voru góð ráð dýr. Ætti aðgerðin ekki að missa marks og skaða málstað aðgerðasinna varð að bregðast við upp komnum vanda.
Sprengingin við Miðkvísl var tvímælalaust stórtækasta aðgerðin hér á landi á sviði borgaralegrar óhlýðni fram til þess tíma og er enn. Af þeim sökum vakti hún þá athygli og bar þann árangur sem raun ber vitni. Þess vegna verðskuldar hún þann áhuga sem hún hefur nú vakið hátt í hálfri öld síðar og gott er til þess að vita að mynd Gríms Hákonarsonar mun halda henni til haga til framtíðar.

Þakkir
Í öndverðri Laxárdeilunni sendu samtök náttúruverndarsinna á Norðurlandi, sem einnig áttu sér marga fylgismenn á Akureyri (!), íbúum Laxárdals þá hvatningu að íslenska þjóðin, og reyndar mannkyn allt, ætti aðeins eina kröfu á hendur þeim: að þeir varðveittu „óskemmdan þann fjársjóð sem þeir væru bornir til“. Á þingi tók Jónas Árnason undir þessa herhvöt og kvað málstað fólksins í Laxárdal sameiginlegan málstað „alls lífsins á þessum hnetti.“ Þetta sjónarmið fékk mikilvæga staðfestingu þegar 1977 en þá var Laxá og Mývatn sett á skrá yfir alþjóðlega mikilvægt votlendi sem standa bæri vörð um einkum vegna fuglalífsins á svæðinu.
Þessi pistill er skrifaður af Akureyringi til að þakka þeim sem sem þátt tóku verndun Laxár og Mývatns þótt við sætum stundum í myrkri og kulda vegna „kraps í stíflunni“. Það var orðalag sem mörg okkar lærðu löngu áður en við vissum hvar stíflan var eða skildum hvaða samband var milli krapsins og myrkursins. Þrátt fyrir sigurinn sem vannst er samt mikilvægt að hafa orð Arngríms Geirssonar í huga er hann segir í Fréttablaðinu: „Baráttu af þessu tagi er ekki lokið...“!