Á þjóðkirkjan að hafa afskipti af pólitík? — Tvö nýleg svör

Hjalti Hugason, 6. May 2013 21:16

Oft er deilt um hvort þjóðkirkjunni, prestum hennar eða öðrum talsmönnum sé eftir atvikum heimilt eða jafnvel skylt að taka afstöðu í pólitískum álitaefnum. Hér skal bent á tvö nýleg dæmi um mismunandi afstöðu til þess álitamáls. Bæði eru sótt til íhaldssamari arms stjórnmálanna.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins
Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 23. febrúar s.l. var samþykkt eftirfarandi ályktun: „Öll lagasetning skal ávallt taka mið af kristnum gildum og hefðum þegar það á við.“ Daginn eftir var yrðingin felld úr samþykktum fundarins. Með samþykktinni virðist gengið út frá að til séu einhver sér-kristin gildi sem taka beri tillit til við veraldlega lagasetningu og séu önnur og en þau grunngildi sem krefjast verður að löggjafi í réttarríki leggi almennt til grundvallar í störfum sínum og eru m.a. frelsi, lýðræði, jöfnuður og mannréttindi. Þá er gengið út frá að hin sértæku kristnu gildi eigi við á tilteknum sviðum þjóðlífsins en öðrum ekki.

Ólíklegt er að Sjálfstæðismenn hafi haft þröngt afmarkað svið löggjafar í huga er þeir samþykktu þessa skammæu ályktun. Þannig er t.d. ósennilegt að henni sé ætlað að árétta að hér eftir sem hingað til skuli tekið tillit til kristinna viðmiðana við endurskoðun á helgidagalögunum. Líklegt má aftur á móti telja að þeir hafi haft fræðslulöggjöfina í huga en í núgildandi lögum um grunnskóla nr. 91/2008 segir m.a. í 2. gr. „ Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.“ Ekki virðist heldur langsótt að þeir hafi litið svo á að „kristni gildi“ „ættu við“ á ýmsum sviðum einkamálaréttar svo sem í löggjöf um hjónabönd og ættleiðingar samkynhneigðra, staðgöngumæðrun, fóstureyðingar og fleiri skyld svið. Meiri vafi er á hvort Sjálfstæðismenn hafi talið að kristin gildi „ættu við“ t.d. í virkjunar- og stóriðjumálum og á öðrum sviðum þar sem reynir á nýtingu mannsins á náttúrunni og umgengni við hana. Auðvelt er þó að vísa til gilda í því sambandi sem leiða má af kristinni sköpunartrú. Þá má jafnvel telja ólíklegt að þeir hafi litið svo á að „kristin gildi“ „ættu við“ t.d. í skattamálum eða fjármálum almennt, stefnu þjóðarinnar í utanríkismálum (t.d. beinum eða óbeinum stuðningi við hernaðaraðgerðir) eða öðrum málum sem kenna má við „stórpólitíkina“. Það er þó ljóst að einmitt á þessum sviðum reynir mjög á félagslegt réttlæti sem er hápólitískt viðfangsefni.
Það sem í öllu falli virðist mega lesa út úr ályktuninni er að á ákveðnum stað og stundu ríkti það viðhorf í einum stærsta stjórnmálaflokki landsins að til væru sértæk kristin gildi er stundum ættu við á sviði löggjafar en stundum ekki. Út frá guðfræðilegu sjónarhorni er bæði gerlegt að færa fyrir því rök að slík gildi séu til og að þau séu það ekki, sem og að þau eigi við á afmörkuðum sviðum löggjafar og að þau eigi ætíð við séu þau á annað borð til. Hér skal látin í ljósi sú skoðun að á sviði löggjafar orki tvímælis að greina skýrt á milli kristinna gilda og annarra viðtekinna vestrænna gilda sem á annað borð viðurkenna t.a.m. mannréttindi, mannhelgi, helgi náttúrunnar og félagslegt réttæti. Þá orki og tvímælis að greina á milli sviða í löggjöf þar sem kristin gildi eigi við og annarra þar sem þau eigi ekki við.
Hvað niðurfelling umræddrar ályktunar felur í sér er erfitt að segja. Þar kunna að hafa komið til sjónarmið á borð við það sem hér var haldið fram um samþættingu kristinna gilda og annarra, trúfrelsissjónarmið og jákvæð afstaða til fjölhyggju, veraldarhyggja („sekúlarismi“) sem gengur út frá að trú og pólitík eigi aldrei saman eða raunsætt mat á hvað sé pólitíkst klókt og hvað ekki („realpólitík“). Í öllu falli má draga þá ályktun að í einn sólarhring í febrúar á s.l. vetri hafi þau sjónarmið átt fylgi að fagna meðal Sjálfstæðismanna að á sumum sviðum löggjafarinnar færi vel á því að byggja á sérkristnum gildum. Sé því haldið fram hlýtur að teljast eðlilegt og raunar óhjákvæmilegt að þjóðkirkjan, stærsta trúfélag landsins, starfsmenn hennar og aðrir er láta boðskap hennar til sín taka fjalli um pólitík í ræðu og riti, bendi á hin kristnu gildi og afleiðingar þeirra m.a. á sviði lagasetningar. Síðan geta skoðanir verið skiptar um það hvernig og hvenær það skuli gert.

Páskagrein Morgunblaðsins
Í forystugrein Morgunblaðsins laugardaginn fyrir páska á s.l. vori var fjallað um trúmál eins og oft er gert við það tækifæri. Greininni lýkur á þennan hátt:

Maður skipast ekki í félög eða flokka við það eitt að taka þá trú sem Kristur boðaði. Slíkan mann getur borið hvar sem er niður. Sennilegra mætti frekar segja að taka megi það besta úr stefnu ólíkra flokka eða félagasamtaka og skella í eitt og þá fyndist óðara nokkur samsvörun við boðskap Krists. Sumir segja að Kristur hafi verið byltingarmaður og vilja því skipa honum á veraldlegan bás samkvæmt því. Það er ekki heldur rétt. Bylting hans beindist öll inn á við, að viðhorfum, viðleitni og framgöngu einstaklingsins í undirbúningi hans fyrir sitt eilífa líf, „sem er ekki af þessum heimi“. Slík bylting er ekki þeirrar gerðar að hún éti börnin sín ef hún heppnast.
E.t.v. er ekki mögulegt að heimfæra þessi orð beint upp á viðfangsefni þessarar greinar. Í þeim virðist þó koma fram sá skilningur að af boðskap Krists megi leiða gildi sem félög og flokkar, t.d. pólitískir flokkar, geti gert að sínum og þess vegna lagt til grundvallar við lagasetningu ef því er að skipta. Þau séu hins vegar ekki sértæk eða þess eðlis að einstakir flokkar geti gert tilkall til þeirra. Undir þetta má taka. Hitt er umdeildara frá guðfræðilegum bæjardyrum séð hvort „bylting“ Krists hafi öll beinst „inn á við“. Það virðist a.m.k. ljóst að andstæðingar Jesú frá Nazaret í röðum farísea og æðstu presta litu ekki svo á. Yfirskriftin yfir honum á krossinum — Jesus Nazarenus Rex Judaeorum — virðist enda ótvírætt búa yfir pólitískum undirtónum. Hér virðist þvert á móti byggt á þeirri klassísku tvíhyggju sem gerir skarpan greinarmun milli hins „ytra“ og „innra“, „einstaklingslega“ og „samfélagslega“, „veraldlega“ og „trúarlega“ eða „efnisleg“ og „andlega“. Slík sjónarmið má fremur rekja til grískra og hellenískra róta en fornra ísrealískra, gyðinglegra eða frum-kristinna. Í nútímanum fel þau líka í sér eina tegund „sekúlarisma“ sem hér er ekki fallist á. Sé byggt á þessari tvíhyggju eins og gert er í leiðara Morgunblaðsins virðist ljóst að litið er svo á að þjóðkirkjan eða málssvarar hennar eigi sem slíkir ekki erindi á hinn pólitíska vettvang.

Lokaorð
Þessi dæmi eru ekki rakin til að draga af þeim ályktanir um afstöðu íslensks stjórnmálafólks til tengsla trúar og stjórnmála því síður um það hvort og þá hvernig það telji þjóðkirkjuna og málsvara hennar eiga beita sér í pólitík. Tilgangurinn er þvert á móti að benda á um hvert álitamál er að ræða og hve skoðanir geta verið skiptar um það. Af þeim sökum er heppilegt að sækja dæmi til einnar áttar, þ.e. til Sjálfstæðisflokksins og málgagns sem styður hann.