Gullkálf í Skálholt?

Hjalti Hugason, 10. July 2013 23:43

Hjalti Hugason og
Sigrún Óskarsdóttir

Gullkálf í Skálholt?
Ríkisstjórn Íslands var heimilað með lögum fyrir réttum 50 árum að afhenda þjóðkirkjunni Skálholt. Staðurinn er einn helsti sögustaður þjóðarinnar. Mikið var því í húfi að vernda hann og byggja upp. Vegleg fjárhagsleg meðgjöf fylgdi afhendingunni og árlega er greidd úr ríkissjóði ákveðin upphæð til staðarins.
Það er ánægjulegt að Skálholt hefur fest sig í sessi sem kirkjulegt menningarsetur. Þau eru fjöldamörg sem vitna um að þar hafi gefist dýrmæt hvíld, endurnæring og uppbygging. Staðsetningin utan skarkala daglegs lífs, helgihald, fræðsla og umhverfið allt hjálpar til að svo megi verða.

Skilmálar sem afhendingunni fylgdu
Í athugasemdum með frumvarpi til ofangreindra laga er forsendum afhendingarinnar lýst:
Til þess að þessi verðmæta alþjóðareign megi ávaxtast á komandi tímum til sem mestra nytja fyrir þjóðina í andlegu og menningarlegu tilliti, þarf frumkvæði og forgöngu, sem sprettur af áhuga, vakandi ræktarsemi við þá erfð, sem helgar staðinn í meðvitund þjóðarinnar og samtök um að gera hana með tímabærum aðferðum frjóa fyrir nútíð og framtíð. Má þykja eðlilegt, að til kirkjunnar sé einkum horft um þetta og að hún vænti tiltrúar í þessu efni (Alþtíð. 1963AI: 897).
Þá kom fram að meðgjöfina með staðnum skyldi nota „til að koma fótum undir stofnanir og starfrækslu, er að mati [kirkjunnar] manna sæma staðnum bezt, svara til nauðsynja og horfa til nytsemda fyrir þjóðina nú á tímum“ (s. st).

Skálholt og kolkrabbinn
Saga Skálholts hefur verið stormasöm og enn blása kröftugir vindar um staðinn.
Um 1100 gaf Gissur Ísleifsson jörðina og stofnaði þar biskupsstól sem standa skyldi meðan landið væri byggt og kristni héldist í því. Skilmálar hans voru haldnir í 700 ár en á einu mesta erfiðleikaskeiði þjóðarsögunnar var Skálholt einkavætt. Hannes Finnsson biskup sá sér leik á borði og keypti jörðina en hann var giftur inn í helstu auð- og valdaætt landsins. Þar með gleypti kolkrabbinn Skálholt.
Væntingar hafa eflaust staðið til að Skálholti væri óhætt í skjóli laganna frá 1963. Svo virðist þó ekki vera. Tilkynning birtist sl. haust í Lögbirtingarblaðinu (103/2012) um skráningu einkahlutafélags undir því yfirlætislausa heiti Gestaþjónustan ehf. Í lýsingu á markmiðum félagsins segir:
Tilgangur félagsins er að vera rekstrar- og framkvæmdafélag í menningartengdri ferðaþjónustu, annast endurreisn Miðaldadómkirkju í Skálholti og rekstur sýningar — og verslunar og veitingastarfsemi, eignarhald og rekstur fasteigna og lánastarfsemi [leturbr. höf.].
Vonandi eru öll þessi umsvif, t.d. lánastarfsemin, ekki fyrirhuguð í Skálholti! Markmiðum sínum mun Gestaþjónustan ekki ná án fulltingis kirkjustjórnarinnar. Í því sambandi ályktaði kirkjuþing 2012
... að ekki verði horfið frá þeirri deiliskipulagsvinnu í Skálholti sem hafin er og telur að ekki beri að setja þeirri vinnu nein takmörk. Hins vegar brýnir kirkjuþing kirkjuráð og vígslubiskup Skálholtsstiftis að skoða vel allar hliðar þessa máls [þ.e. byggingu „miðaldakirkju“] og skuldbinda kirkjuna ekki með nokkrum hætti, nema eftir víðtæka kynningu og umræðu og blessun kirkjuþings. Kirkjuþing telur brýnt að rekstur Skálholtsstaðar komist í viðunandi horf og skoðað verði ýtarlega hvort bygging miðaldadómkirkju/safnahúss geti orðið liður í þeirri viðleitni, án þess að Skálholt sem helgistaður bíði hnekki. Kirkjuþing leggur áherslu á að staðsetning og fyrirkomulag, verði af áformum, verði með þeim hætti að ásýnd staðarins og andblær haldist og að rekstrarlegur ávinningur staðarins sé tryggður. (http://www.kirkjuthing.is/gerdir/2012/37 (4.7.2013))
Hér með köllum við eftir greinargóðri kynningu á áformum Gestaþjónustunnar, afstöðu kirkjustjórnarinnar til þeirra og opinni umræðu um hvort tveggja. Hún verður að fara fram fyrir kirkjuþing í nóvember n.k. Málefni Skálholts koma líka allri þjóðinni við.
Ákvörðun um fyrirhugaða mannvirkjagerð snýst um „afhelgun“ Skálholts. Nú er þar höfuðáhersla á kirkjustarf í anda þeirra skilmála sem Gissur setti gjöf sinni um 1100 og íslenska þjóðin 850 árum síðar. Ef áform um „miðaldakirkju“ verða að veruleika mun veraldlegur rekstur, veitinga-, lopapeysu-, lunda- og önnur minjagripasala taka yfir og Skálholt þar með selt í hendur kolkrabbans öðru sinni.

Gullkálfur á helgum stað
Torvelt er að sjá að „miðaldadómkirkja“ í Skálholti reist á öndverðri 21. öld geti þjónað öðrum tilgangi en að vera sölubúð. Það er ekki annað að sjá en að það sé einmitt hugmyndin. Því virðist fyrst og fremst um gullkálf að ræða, svo vísað sé til forns dæmis sem kirkjan ætti að varast.
Bregðist þjóðkirkjan því trausti sem henni var sýnt með afhendingu Skálholts er mikill skaði skeður. Gjöfin verður vissulega ekki aftur tekin. Verði Skálholt „afhelgað“ er kirkjunni og kolkrabbanum á hinn bóginn vorkunnarlaust að reka staðinn af þeim tekjum sem gullkálfurinn og dansinn í kringum hann kunna að skapa. Árleg meðgjöf þjóðarinnar með Skálholti ætti þá að falla niður. Það er óþarft að þjóðin leggi fé í þá hít.