Ræðum tengsl ríkis og kirkju

Hjalti Hugason, 30. April 2014 10:31

Eftir stuðningsyfirlýsingu Árna Páls Samfylkingarformanns við þjóðkirkjuna hefur nokkuð verið ritað hér í blaðið um samband ríkis og kirkju. Hér verður ekki tekin afstaða í því máli en vakin athygli á að það verðskuldar umræðu án sýndarraka og staðhæfulítilla fullyrðinga.

Þýðingarlaust ákvæði?
Í leiðara 16. apríl. s.l. staðhæfir Ólafur Þ. Stephensen að stjórnarskrárákvæðið um þjóðkirkjuna hafi „í dag enga praktíska þýðingu“. Er það örugglega svo? Mætti þá fella það niður án nokkurra afleiðinga? Er það t.d. skilningur Þjóðkirkjunnar sjálfrar? Hvers vegna beitti hún sér þá fyrir varðveislu þess í óbreyttri mynd fyrir tæpum tveimur árum? Er æskilegt að hafa ákvæði í stjórnarskrá sem ekki hafa neina „praktíska þýðingu“?
Ritstjórinn telur að 62. gr. stjórnarskrárinnar sé „nokkurs konar yfirlýsing um kristna sögu og siðferðisgrundvöll ríkisins“. Var hún raunverulega hugsuð þannig? Ef þetta er hlutverk hennar væri þá ekki nær að orða hana sem gildagrein og staðetja hana framar í stjórnarskránni? Þarfnast sagan þess að vera staðfest með stjórnarskrárákvæði? Lifir hún ekki fremur í sameiginlegu minni og sjálfsmynd þjóðarinnar? Ef sagan þarf stjórnarskrárstaðfestu hvernig verður henni þá best fyrir komið?
Í öllu falli er mikilvægt að gera sér grein fyrir að af trúarsögu Íslendinga verður ekki leitt neitt eitt ákveðið fyrirkomulag á tengslum ríkis og kirkju og það endurspeglað í ákvæðum stjórnarskrár eða laga. Í því efni þarf fremur að líta til nútímaaðstæðna. Á þeim nótum skrifar Valgarður Guðjónsson hér í blaðinu 23. apríl s.l.

Þjóðkirkja og mismunun
Margt í grein Valgeirs þarfnast þó skýringa. Það er í sjálfu sér rétt að þjóðkirkjuskipan felur í sér mismunun. Það er aftur á móti ekki rétt sem af grein Valgarðs má ráða að það sé mismunun af því tagi sem Mannréttindadómstóll Evrópu telur brjóta gegn Mannréttindasáttmálanum. Þvert á móti sýna nýlegir dómar að þjóðkirkjufyrirkomulag sem slíkt sé ekki álitið brjóta gegn sáttmálanum þótt einstakar afleiðingar þess eða útfærslur kunni að gera það. Eigi rök Valgeirs að gilda verður að sýna fram á að slíkir annmarkar séu til staðar hér. Samanburður hans við mismunun kynjanna eða kynþáttamisrétti er því misvísandi.
Það er heldur ekki rétt sem Valgeir staðhæfir að enginn viti hvaða jarðir það séu sem standa undir samningi „ríkisins og þjóðkirkjunnar um rekstrarkostnað vegna prestsembætta og prófasta, rekstrarkostnað biskupsstofu, framlag til kristnisjóðs og sérframlög til þjóðkirkjunnar“. Það er skjalfest og í flestum tilvikum litlum vafa undirorpið un hvaða jarðir er að ræða. Hitt er sanni nær að erfiðara mun að meta „hveru mikils virði þær eru“. Þá má velta því fyrir sér við hvaða tíma skuli miðað komi til eignauppgjörs milli ríkis og kirkju, 1907, 1997 eða eitthvað ár í framtíðinni.

Ræðum saman af nákvæmni

Hvaða skoðun sem við kunnum að hafa er mikilvægt að umræðan um tengsl ríkis og kirkju fari fram á málefnalegum grunni en ráðist ekki tilfinningaþrungnum fullyðingum.

Orkustöðin Ísland

Hjalti Hugason, 11. April 2014 10:45

Arnfríður Guðmundsdóttir
Baldur Kristjánsson
Hjalti Hugason
Sigrún Óskarsdóttir
Sólveig Anna Bóasdóttir

Höfundar eru guðfræðingar.

Orkustöðin Ísland
Oft er sagt að náttúra Íslands sé hlaðin orku. Orka er auðlind sem ekki má fara til spillis.
Sæstrengur?
Mikið er nú rætt um sæstreng sem tengt geti landið við raforkukerfi Evrópu. Sum vona að þessi leið til útflutnings á orku valdi því að hér verði ekki haldið áfram þeirri stóriðjustefnu sem fylgt hefur verið. Önnur vona að hér sé komin leið til að auka hlutfall „grænnar“ orku í álfunni, vinna gegn mengun og hægja á loftslagsvánni. Þá kunna einhver að sjá í sæstreng leið til skjótfengins gróða.
En hvernig mun íslensk þjóð með sæstreng haga forgangsröðun sinni? Hagkvæmast hlýtur að vera að flytja sem mesta orku um strenginn og hætt er við að við búum ekki yfir því siðferðisþreki sem þarf til að nota slíka mjólkurkú af hógværð og stillingu. Um það vitna þeir lífshættir sem þjóðin hefur tamið sér á undanförnum áratugum. Líklegast er að okkar mati að sæstrengur viðhaldi þeirri stórvirkjanastefnu sem hér hefur verið fylgt undanfarið.

Óbreytt ástand ekki í boði
Jafnframt dafnar draumsýnin um olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Draumurinn um sæstreng til nálægra landa og olíupalla í Norðurhöfum vekur efasemdir um yfirlýsingar sumra um „græna“ orku. Er hugsanlegt að tal um hana beri of oft vitni um hræsni og yfirdrepsskap?
Lífsgæðakröfur okkar eru miklar. Við eigum fleiri orkufreka bíla á hvert mannsbarn en flestar þjóðir. Kröfur okkar um húsnæði eru einnig meiri í fermetrum talið. Neysla okkar krefst aukins hagvaxtar og að mati margra verður hann einkum sóttur í orkuauðlindirnar.
Eflaust er það von einhverra að orkan muni gera okkur kleift að viðhalda núverandi orkukrefjandi lífsstíl. Þá vill gleymast að óbreytt ástand er ekki í boði. Í náinni framtíð munu loftslagsbreytingarnar kalla okkur vestrænar þjóðir til ábyrgðar sem aðeins verður öxluð með endurskoðuðu lífsmunstri.

Önnur leið
En til er önnur leið til að beisla orkuna sem býr í náttúru landsins en sæstrengur og olíuvinnsla. Hún felst í að búa með og hvíla í náttúru landsins og öðlast þannig aukin lífsgæði og aukinn kraft. Þetta er sú reynsla sem flestir ferðamenn sækjast eftir. Þetta er líka eina fullkomlega sjálfbæra orkunýtingin. Hlutverk okkar er að leitast við að varðveita og viðhalda hinni náttúrulegu orku landsins og skila henni til komandi kynslóða. Til þess þurfum við að endurskoða núverandi lífsstíl okkar. Við verðum að sönnu að virkja áfram til að mæta brýnustu þörfum samtímans. En það verðum við að gera með því að sýna í verki umhyggju fyrir náttúrunni og komandi kynslóðum.

Náttúra Íslands býr yfir orku sem vekur undrun og eftirvæntingu, virðingu og von. Með því að beisla hana af ábyrgð og umhyggju fyrir óbornum kynslóðum, sýnum við henni þá virðingu sem henni ber sem hluta af hinum góðu gjöfum Guðs. Látum ekki græðgi afbaka skilning okkar á náttúrunni og valda því að við tæmum þá fjársjóði náttúrunnar sem okkur hefur verið treyst fyrir.