Ræðum tengsl ríkis og kirkju
Eftir stuðningsyfirlýsingu Árna Páls Samfylkingarformanns við þjóðkirkjuna hefur nokkuð verið ritað hér í blaðið um samband ríkis og kirkju. Hér verður ekki tekin afstaða í því máli en vakin athygli á að það verðskuldar umræðu án sýndarraka og staðhæfulítilla fullyrðinga.
Þýðingarlaust ákvæði?
Í leiðara 16. apríl. s.l. staðhæfir Ólafur Þ. Stephensen að stjórnarskrárákvæðið um þjóðkirkjuna hafi „í dag enga praktíska þýðingu“. Er það örugglega svo? Mætti þá fella það niður án nokkurra afleiðinga? Er það t.d. skilningur Þjóðkirkjunnar sjálfrar? Hvers vegna beitti hún sér þá fyrir varðveislu þess í óbreyttri mynd fyrir tæpum tveimur árum? Er æskilegt að hafa ákvæði í stjórnarskrá sem ekki hafa neina „praktíska þýðingu“?
Ritstjórinn telur að 62. gr. stjórnarskrárinnar sé „nokkurs konar yfirlýsing um kristna sögu og siðferðisgrundvöll ríkisins“. Var hún raunverulega hugsuð þannig? Ef þetta er hlutverk hennar væri þá ekki nær að orða hana sem gildagrein og staðetja hana framar í stjórnarskránni? Þarfnast sagan þess að vera staðfest með stjórnarskrárákvæði? Lifir hún ekki fremur í sameiginlegu minni og sjálfsmynd þjóðarinnar? Ef sagan þarf stjórnarskrárstaðfestu hvernig verður henni þá best fyrir komið?
Í öllu falli er mikilvægt að gera sér grein fyrir að af trúarsögu Íslendinga verður ekki leitt neitt eitt ákveðið fyrirkomulag á tengslum ríkis og kirkju og það endurspeglað í ákvæðum stjórnarskrár eða laga. Í því efni þarf fremur að líta til nútímaaðstæðna. Á þeim nótum skrifar Valgarður Guðjónsson hér í blaðinu 23. apríl s.l.
Þjóðkirkja og mismunun
Margt í grein Valgeirs þarfnast þó skýringa. Það er í sjálfu sér rétt að þjóðkirkjuskipan felur í sér mismunun. Það er aftur á móti ekki rétt sem af grein Valgarðs má ráða að það sé mismunun af því tagi sem Mannréttindadómstóll Evrópu telur brjóta gegn Mannréttindasáttmálanum. Þvert á móti sýna nýlegir dómar að þjóðkirkjufyrirkomulag sem slíkt sé ekki álitið brjóta gegn sáttmálanum þótt einstakar afleiðingar þess eða útfærslur kunni að gera það. Eigi rök Valgeirs að gilda verður að sýna fram á að slíkir annmarkar séu til staðar hér. Samanburður hans við mismunun kynjanna eða kynþáttamisrétti er því misvísandi.
Það er heldur ekki rétt sem Valgeir staðhæfir að enginn viti hvaða jarðir það séu sem standa undir samningi „ríkisins og þjóðkirkjunnar um rekstrarkostnað vegna prestsembætta og prófasta, rekstrarkostnað biskupsstofu, framlag til kristnisjóðs og sérframlög til þjóðkirkjunnar“. Það er skjalfest og í flestum tilvikum litlum vafa undirorpið un hvaða jarðir er að ræða. Hitt er sanni nær að erfiðara mun að meta „hveru mikils virði þær eru“. Þá má velta því fyrir sér við hvaða tíma skuli miðað komi til eignauppgjörs milli ríkis og kirkju, 1907, 1997 eða eitthvað ár í framtíðinni.
Ræðum saman af nákvæmni
Hvaða skoðun sem við kunnum að hafa er mikilvægt að umræðan um tengsl ríkis og kirkju fari fram á málefnalegum grunni en ráðist ekki tilfinningaþrungnum fullyðingum.