Ræða við útför Jónasar Pálssonar

Hjalti Hugason, 6. September 2014 11:20

Kveðjuorð flutt við útför Jónasar Pálssonar (1922–2014) fyrrv. rektors KHÍ sem fram fór í Kópavogskirkju 4. sept.

Skagafjörður skín við sól.

Á himni eru fáeinir hvítir háskýjabakkar á hröðu reki. Að öðru leyti er heiður himinn. Hann liggur í hlýrri suð-vestanátt með brakandi þerri. Hjónin í Beingarði, Páll Björnsson og Guðný Jónasdóttir eru að slá fergin í tjörn neðst á engjum við austurkvíslir Héraðsvatna. Páll slær. Guðný bjargar nýslæjunni á þurrt. Synir þeirra — Jónas og Bogi, síðar bóndi í Beingarði, hjálpa til eftir megni. Systir þeirra, Helga María, síðar húsfreyja í Keflavík, var tæpast fædd. Það fara ekki mörg orð á milli en fjölskyldan er samhent og samtaka, hjálpast að og öll leggja þau sig fram.
Að þessu sögðu langar mig eiginlega að vitna í fleyg ummæli sem höfð eru eftir Jónasi Pálssyni sjálfum. Þau eiga að hafa fallið eftir innblásinn fyrirlestur á kennaraþingi: Annars veit ég ekkert um þetta! — Þ.e. ég veit ekki hvernig þetta var í raun og veru. — Um hitt er mér fullkunnugt að mörgum áratugum síðar varð sálfræðingnum Jónasi tíðrætt um þennan atburð. Hann taldi að þarna í ferginstjörninni hafi hann fundið til djúprar samsömunar og samstöðu með fólkinu sínu — fjölskyldunni — en líka íslenskri alþýðu í þúsund ár — samsömunar við landið, náttúruna og líklega eitthvað meira og dýpra. Þetta sem sum okkar mundu ef til vill kalla allífið — önnur hið heilaga og leyndardómsfulla, Guð. Svo ofarlega var þessi minning í huga Jónasar að í örstuttum hugleiðingum um þessa „kveðjustund ættingja og vina“ eins og hann sjálfur kaus að kalla þessa samveru okkar nefnir hann þetta atvik og leggur út af því.
Reynslan við Héraðsvötnin en líka löng vetrarkvöld í torfbaðstofunni í Beingarði í samvistum við foreldra, systkini, afa, en ekki síst móðurömmu, Guðrúnu Jónsdóttur, settu æfilangt mót á Jónas eins og hann kom oft inn á gamall maður. Hann varð læs á íslenska bændamenningu, öðlaðist djúpa tilfinningu fyrir kjörum alþýðufólks og tengdist þessu öllu sterkum böndum. — En hann varð ekki sveitamaður — heldur heimsborgari. Sýn hans beindist ekki um öxl heldur fram á við: Þetta er leyndardómurinn um líf og starf Jónasar Pálssonar. — Einn af samstarfsmönnum hans til áratuga lét þau orð falla að hann hefði aldrei kynnst manni með jafn langa framtíðarsýn. — Ég held að við getum mörg tekið undir þá einkunn hvort sem við gengum með honum langan eða skamman spöl — kynntumst honum ungum eða harðfullorðnum manni.
— — —
Jónas fæddist 26. nóv. 1922 í Beingarði í hinum forna Rípurhreppi í Skagafirði. Þar ólst hann upp uns hann hleypti heimdraganum og þá til að stunda skólanám umfram það sem kostur var í heimasveit. Hugsanlega skipti þar miklu að ungir, nýútskrifaðir kennarar höfðu valist til farkennslu í Hegranesinu hver á eftir öðrum og Jóns hlotið innblástur og hvatningu frá þeim. Gæti það að einhverju leyti skýrt hugsjónir hans um kennaramenntun og kennslu ungra barna síðar á lífsleiðinni. Leiðin lá til Hofsóss, síðar suður í Ingimarsskóla og Samvinnuskólann en úr honum útskrifaðist Jónas tvítugur 1942. Hóf hann upp úr því stöf á skrifstofu SÍS á Akureyri.
Margur af kynslóð Jónasar hefði sett punkt eftir þennan kafla ævisögunnar, búið um sig í hægu millistéttarumhverfi og unað glaður við sitt. — Það hæfði ekki Jónasi. Á lýðveldisárinu settist hann aftur á skólabekk og nú í Menntaskólanum á Akureyri og lauk stúdentsprófi 1947. Tveimur árum síðar hóf hann svo nám í sálfræði, sögu og hagfræði við Edinborgarháskóla.
Þarna sýnist Jónas verða fulltrúi nýrrar stúdentakynslóðar. Hann var, þegar þarna var komið, kvæntur maður og átti fyrir fjölskyldu að sjá en naut eindreginnar hvatningar konu sinnar. Dvaldi hann einn í Edinborg fyrsta veturinn en þau saman tvö síðari árin, Jónas, Inga og Björn og þar fæddist Hermann. Náminu lauk Jónas svo með með M.A. prófi 1952. Var hann síðan um skeið blaðamaður á Tímanum og sinnti ýmsum sérfræðistörfum. Jónas undi þó ekki þessum námslokum til lengdar þar sem einfalt (ordinary) MA-próf taldist ekki fullgild prófgráða. Úr þessu bætti hann 1966 er hann lauk MA-honours gráðu frá Teachers College við Columbia-háskóla í New-York en til þess hafði hann hlotið Fulbright-styrk.
Segja má að hinn eiginlegi starfsferill Jónasar hefjist 1956 þegar hann var ráðinn „ráðunautur um uppeldismál við ríkisskólana“ í Kópavogi. Þessi staða var raunar ekki til og titlaðist Jónas því gagnfræðaskólakennari. Þetta hlutverk hlotnaðist honum fyrir atbeina Finnboga Rúts Valdimarssonar þá bæjarstjóra og alþingismanns. Þarna hófst náið samstarf og vinátta Jónasar og þeirra hjóna Finnboga Rúts og Huldu Jakobsdóttur á Marbakka sem Jónsi varð tíðrætt um allt til æviloka. Fjórum árum síðar kvaddi svo Jónas B. Jónsson fræðslustjóri í Reykjavík nafna sinn til að hafa forystu um sálfræðiþjónustu við skólana í Reykjavík. Var þar með grunnur lagður að Sálfræðideild skóla. Jónas B. og Guðrún Ö. Stephensen voru önnur vinahjón sem Jónasi varð tíðrætt um á því skeiði ævinnar sem við höfðum mest samband. — Mér virðast þau persónulegu vináttutengsl sem greinilega ríktu milli Jónasar og þessara yfirmanna hans og húsbænda sýna að hér var ekki unnin hverdagsleg launavinna heldur baráttu- og hugsjónastarf sem miðaði að því að hefja íslenska skólakerfið á faglegra stig og auka þjónustu og stuðning við nemendur — ekki síst þau sem stóðu höllum fæti. Þetta var verkefni sem sameinaði framsýna baráttu- og fagmenn í skólamálum á þessum tíma.
1971 urðu þau þáttaskil í starfi Jónasar að hann sótti um og fékk stöðu skólastjóra við Æfinga- og tilraunaskóla Kennaraháskóla Íslands. Ráðning hans var alls ekki átakalaus enda hafði hann ekki formlega kennaramenntun og hafði heldur ekki starfað við kennslu eða skólastjórn fram til þessa. Naut hann því ekki fyllilega fylgis kennarasamfélagsins við skólann. Eymdi raunar lengi eftir af þeirri spennu og mun Jónas líklega síður en svo hafa talið það neikvætt. Hann átti auðvelt með að lifa við óreiðu og áleit skoðanaágreining fremur af hinu góða í þeirri skapandi deiglu sem hann vildi að skólinn væri.
Eftir tíu ár vi Æfingaskólann sóttist Jónas eftir lektorsstöðu á sviði yngri barna kennslu við Kennaraháskólann og fékk hana. Hér mun hann þó hafa horft til lengri framtíðar því rúmu ári síðar eða 1983 gaf hann kost á sér til rektors-starfa og gegndi þeim til starfsloka 1991.
Hér er ekki tóm til að rekja starfsferil Jónasar frekar en auðvitað fór ekki hjá því að hann tók þátt í ýmis konar nefnda- og stjórnarstörfum. Fyrir störf sín í þágu uppeldis og menntunar var honum á efri árum sýndur margvíslegur heiður og þakklæti. Hann var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu 1992 og kjörinn heiðursdoktor við Kennaraháskóla Íslands 2001.

Lengst af ævinnar gegndi Jónas forystu- og stjórnunarstörfum. Samt sem áður vitum við flest sem með honum störfuðum að hann var raunar ekki stjórnandi í þeirri merkingu sem oftast er lög í það orð. En hún lýtur einna helst að marksækni og skilvirkni. Jónas var miklu frekar hugmyndafræðingur og menntapólitíkus. Hann vissi hvað hann vildi, keppti að því og kom því oft í verk með sínum aðferðum þrátt fyrir margs konar mótspyrnu. Markmiðið var ljóst: að laga uppeldi og skólastarf að síbreytilegu umhverfi og fjölbreyttum hópi nemenda.
— —
Hingað til höfum við aðeins litið yfir opinbert líf Jónasar og rifjað upp þá hlið sem við þekktum flest og mörg ykkar miklu betur en ég. Færri þekktu „prívatpersónuna“, fjölskyldumanninn og förðurinn, Jónas Pálsson.
Jónas kvæntist 21. september 1947 Ingunni Önnu Hermannsdóttur. Hún var dóttir Hermanns Hjartarsonar sóknarprests lengst af á Skútustöðum og síðar skólastjóra á Laugum og konu hans, Kristínar Sigurðardóttur. Inga, eins og hún var alltaf nefnd var fædd 20. ágúst 1921 en lést 2010. Jónasi lá alltaf einkar hlýtt orð til hennar og bar greinilega fyrir henni djúpa virðingu og var henni þakklátur fyrir samvistirnar. Þetta duldist engum sem umgekkst hann á persónulegan máta en þau slitu samvistir eftir langt hjónaband. Börn þeirra urðu fimm: Björn rafvirki, börn hans og Guðrúnar Sigurðardóttur sem nú er látin eru Jónas Páll og Bryndís. Næstur er Hermann Páll BA í heimspeki. Þá Finnbogi sem nú er látinn. Síðan Gunnar Börkur kennari en kona hans er Ingibjörg Dóra Hansen innanhússarkítekt, þau eiga börnin Heru, Höllu og Kára. Og yngst er svo Kristín félagsfræðingur og skrifstofustjóri við nemendaskrá HÍ. Dætur hennar eru Ingunn Anna og Guðný Ragna. Faðri þeirra og fyrrum eiginmaður Kristínar er Ragnar H. Björnsson rafeindavirki. Langafabörnin eru orðin sjö.
Börnin minnast Jónasar um umhyggjusams og greiðvikins föður sem var umhugað um að fjölskyldu hans skorti ekkert af því sem hann gat veitt henni. Þannig muna þau frá unglingsárum að hann var síður en svo fastheldinn á fé og svo örlátur á bílalán að hann mundi oft ekki hvort hann var sjálfur á bílnum eða eitthvert þeirra. Kostaði það hann jafnvel gönguferðir til að sækja bifreiðina sem hann hafði skilið eftir einhvers staðar úti í bæ. Hann var ekki strangur faðir en metnaðargjarn fyrir hönd barna sinna og ekki síður barnabarna. Átti það ekki síst við um allt sem að námi og skólagöngu laut. Þegar Kristínu þótti hart að sér sótt um námsárangur bar hún sig upp við Gunnar Börk bróður sinn sem tileinkað hafði sér aðra tækni. Benti hann á að ef námsárangrinum væri stillt í hóf og markið sett nærri 7.5 keypti maður sér frið!
Einkum var Jónasi annt um málanám afkomenda sinna og var óþreytandi að benda á að tungumál væri lykill að framtíðinni í stöðugt samtengdari heimi. Jós hann orðabókum á báða bóga til barna og barnabarna og gerði að öðru leyti sitt til að auðvelda námið.
Jónas var virkari í heimilishaldi en almennt var um karla af hans kynslóð og maður sem kynntist honum síðar á lífsleiðinn gat eiginlega gert sér í hugarlund. Hann vaskaði upp, ryksugaði, vaknaði til barna sinna á nóttunni og skipti um bleyjur. Síðar var hann fullfær um að gæta ungra barnabarna jafnvel næturlangt og það langt fram eftir ævi. Börnunum er þó ofarlega í minni hvernig heimilislíf og starf Jónasar fléttaðist saman. Að kvöldverði og uppvaki loknu settist hann gjarna við símann og talaði — klukkutímum saman að því er þeim fannst. Einhver í fjölskyldunni líkti þessu við að farið væri í tölvupóst nú á dögum. Annars voru símtöl Jónasar sérstæð í mínum huga. Hann hringdi, kom fljótt að efninu, ræddi málin í langan eða skamman tíma en svo allt í einu kvaddi hann í skyndi, nánast skellti á að því er mér fannst. Í fyrstu spurði spurði ég: Hvað gerðist eða hvað sagði ég? Varð hann reiður? Þetta var þó aðeins stíll sem lærðist fljótt.
Jónas og fjölskylda voru meðal frumbyggja í Kópavogi. Fljótlega eftir Edinborgarárin settust þau að við Kársnesbraut en fluttust skömmu síðar að Hraunbraut 3 þar sem þau reistu sér hús í samvinnu og vinnuskiptum við nágranna. Afkomendurnir telja þó að Jónas hafi einkum unnið sem handlangari en hann var röskur til verka og sterkur langt fram eftir ævi. Sérstaklega var til þess tekið hve vasklega hann gekk fram við gróðursetningu í landi Gunnars Barkar og Dóru. Keypti hann þangað ýmiskonar tré og vildi hafa þau stór. Hann taldi sig enda hafa lítinn tíma til að bíða vaxtarins! Sjálfur gróf hann vel fyrir rótunum og sótti í að grafa þar sem jarðvegur var grýttur!
Systkinunum er minnisstætt að ekki var létt að vera barn sálfræðings á uppvaxtarárunum í Kópavogi. Jafnaldrarnir stríddu með óskiljanlegu starfsheiti og enn óskiljanlegri starfsvettvangi föðurins og reiðar húsmæður fjargviðruðust ef sálfræðingsbarni varð eitthvað á: Áttu þau ekki sérfræðing í uppeldi að föður?
Jónas vakti yfir afkomenum sínum í annan og þriðja lið, gaf öllum gaum, fylgdist með og tók út framfarir með vakandi auga þorskasálfræðingsins og gaf svo góð ráð varðandi uppeldið. Ráðlagði jafnvel að láta börnin fara seinna í háttinn ef hann taldi ástæðu til. Þá reyndist hann líka góður ráðgjafi þegar til hans var leitað varðandi úrlausn „prófessíónal“ vanda eða hvernig bæta mætti samskipti á vinnustöðum.
Eins og Jónasar var háttur gat hann þó líka stuðað og látið neista í hópi sinna nánustu rétt eins og á vinnustað. Gekk hann e.t.v. stundum fulllangt í því efni en virti þegar honum var bent á.
— —
Jónas settist ekki í helgan stein þótt starfsævinni lyki. Þvert á móti hóf hann nýtt skeið þar sem segja má að hann hafi hnýtt lausa enda sem honum þóttu vera frá fyrri tímum. Hann hóf tungumálanám í þýsku, frönsku og síðar ítölsku og lagðist í ferðalög sem stóðu uns börnum hans þótti nóg komið og settu honum mörk er þeim fannst hann tefla á tæpara vað en aldur og heilsa leyfðu. Tungumálanámið átti sér líklega tvær skýringar. Heimsborgarann Jónas þyrsti í að geta fylgst með, lesið helstu dagblöð Evrópu og myndað sér skoðun á samtímamálefnum í heimspólitíkinni. Auk þessa hefur sálfræðingunum Jónasi ugglaust verið kunnugt um kenningar þess efnis að nám í tungumálum sé öðru fremur til þess fallið að viðhalda minni og ýmsum vitrænum þáttum mannshugans. — En það var hluti af metnaði Jónasar að halda reisn sinni einmitt á þessu sviði.
Á þessum árum hóf Jónas einnig stórt rannsóknarverkefni sem fjallaði um grunnskólastarf við breytilegar aðstæður. Ferðaðist hann víða um land bæði til að afla gagna og kynna niðurstöður sínar. Loks tók hann til við að þýða rit gamals læriföður síns Johns Macmurray’s. Lagði hann tíma, krafta og metnað í vinnuna og sendi hópi vina frá mismunandi skeiðum ævinnar handrit til yfirlestrar og samræðu. Þegar á reyndi sýndi það sig þó að þýðingin þjónaði frekar þeirri sjálfsrækt og hugarstyrkingu sem Jónasi var svo umhugað um en áhuga á að koma henni á framfæri. — Ég verð að játa að ég skildi ekki þetta verkefnaval Jónasar og lá honum á hálsi fyrir að setja ljós sitt undir mæliker. Ég vildi frekar að hann drægi saman þekkingu sína og reynslu frá starfsárunum — eða enn frekar skrifaði greinar um íslenskt samfélag og þróun þess út frá þeirri skörpu framtíðarsýn sem hann hafði. Jónas lét sér þrasið í léttu rúmi liggja. Hann vissi hver tilgangur hans með verkefnavalinu var og sýndi auk þess þann þroska að brosa út í annað og benda á að í samfélagi okkar væri ekki mikil eftirspurn eftir skoðunum gamalla manna! — Mér fannst hann ekki tjá eftirsjá og kala eins og margan hendir heldur lífsvisku hins reynda manns sem veit að eitt æviskeið tekur við af öðru, hvert með sín viðfangsefni. Þjóðfélagsvakt hans var í þessum skilningi lokið þótt hann héldi eigi að síður vöku sinni. — Um það vitna orð sem hann lét falla nú fyrir skömmu við fjölskyldu sína. Hann lýsti því sem sé skorinort yfir að hann ætlaði sér ekki að „...deyja frá þessari ríkisstjórn, það væri ábyrgðarhluti“. Og þetta bar ekki að skilja sem stuðningsyfirlýsingu! — Þrátt fyrir þetta fór Jónas sáttur þegar tíminn var kominn. Hann mat lífsgæði meira en lífslengd og óskaði þess sjálfur að fremur yrði beitt líknandi meðferð en læknisfræðilegum inngripum til að teygja æviþráðinn til hins ítrasta.
— — —
Enginn sem kynntist Jónasi fór varhlutar af því að hann var altekinn af samfélagspólitíkum áhuga og hugsjónum. Snemma tók hann að ræða um hið nýja Ísland sem væri að rísa á rústum hins gamla — borgríkið Ísland, sem til væri orðið og teygði anga sína stöðugt lengra út frá suð-vesturhorninu. Hann spáði í þróun þess, varaði við hættunum en var sannfærður um möguleikana og kostina sem í þróuninni fælust. Hann óskaði okkur ekki aftur til fortíðar, var Evrópumaður og heimborgari sem boðaði að aðeins í samfélagi þjóðanna ætti Ísland framtíð og vaxtarmöguleika.
— — —
Hugur Jónasar var vakandi, síkvikur og ör. Það einkenndi hann allt fram á efstu ár að vera í vafa um hvað hann vildi verða þegar hann yrði stór og hann efaðist stöðugt um val sitt. Mér fannst skiljanlegt þegar hann, Samvinnuskólagenginn maður, taldi sig ef til vill hafa átt að verða kaupfélagsstjóri úti á landi. Það var líka eðlilegt að maður með hans samfélaglega „paþós“ mátaði sig í stól alþingismanns og ráðherra. — Persónulega varð ég þó örlítið efins þegar hann kvað oftar en einu sinni upp úr með að líklega hefði hann þó átt að verða fatahönnuður. — Þar vanmat ég þó Jónas eða þekkti hann ekki nægilega vel. Hann bjó við þá sérstöðu að eiga oftar ferð af landi brott en flestir aðrir framan af starfsævi hans. Ætíð koma hann heim hlaðinn fatnaði sem hann hafði keypt á fjölskylduna, ekki síst konu sína og dóttur. Valið brást aldrei og táningurinn Kristín gat stolt gengið í flíknum sem hann hafði valið og lýst því yfir að hann hefði keypt þau einn og óstuddur.

Jónas hélt persónueinkennum sínum til hinstu stundar. Honum var sjálfstæði og reisn metnaðarmál. Allt fram til hárrar elli þreif hann hús sitt, eldaði sína eigin ýsu, bauð heim gestum og sótti mannamót af aðskiljanlegu tagi. Það var líka gefandi að kíkja inn til hans á Grettisgötuna eða í Furugerðið og spjalla yfir tebolla eða púrtvínsglasi. Stöðugt var hann líka reiðubúinn að setja sig í annarra spor og ræða um áhugamál þeirra um það vitna barnabörnin. Við vorum hins vegar mörg sem flöskuðum á einu þegar samfundum tók að fækka og Jónas varð bundnari við heimili sitt: Hann var vel tölvutengdur og hafði einkar gaman af tölvupóstsamskiptum. Hann skrifaðist reglulega á við mörg barnabarnanna sem undruðust ungæðislegan stíl hans á því sviði og kynntust á honum nýrri hlið. Henni hefði ég líka viljað kynnast en hugsanlega var það ekki í boði fyrir aðra en barnabörnin.
Þegar ég hugsa til Jónasar nú er mér efst í huga að með honum er genginn mikill húmanisti í margháttuðum skilningi. Að hans mati voru maðurinn og mennskan heilög — einstaklingurinn í samfélagi við aðra óendanlega mikils virði. Þessu tvennu —einstaklini og samfélagi — helgaði hann starfskrafa sína alla. Hvers er fremur hægt að krefjast? Á þessari stundu leyfi ég mér að þakka traust og vinsemd sem hann sýndi mér frá því við kynntums fyrst. Hann var á þeim aldri sem ég er nú. Ég á hinn bóginn enn galopinn fyrir nýjum áhrifum. Það var þorskandi að starfa með Jónasi og fylgjast með honum í glímunni við verkefni hverdagsins og leyndardóma lífsgátunnar.
— — —
Upp úr seinna stríði var langt úr Hegranesinu til Edinborgar. Það var heldur ekki sjálfsagt að strákurinn sem forðum buslaði í ferginstjörninni heima í Beingarði yrði einn af helstu frumkvölum í skóla- og uppeldismálum þjóðarinnar á sinni tíð. Á þann hátt var Jónas langförull maður í fjölbreytilegri merkingu. Nú er hann svo lagður upp í þá ferð sem bíður okkar allra. Vegna æskureynslu Jónasar í úthallandi engjaslætti á hlýjum síðsumardegi hefur örstutt textabrot úr Aðventu Gunnars Gunnarssonar leitað á huga minn við samantekt þessara fátæklegu minningarorða. Þar lýsir hinn alvitri sögumaður hugrenningum eða tilfinningum sögupersónu sinnar, langferðamannsins Benedikts svofelldum orðum:

Og þarna í næturkyrðinni og einverunni ... hvarflaði aftur að honum aðkenningu að aðventu, [þ.e. eftirvæntingu], leifar af hljómum, endurminningar um sólskin og heyilm, von um sumarland — eða hvað það nú var. Ef til vill aðeins einskonar innri kyrrð og friður. (Gunnar Gunnarsson, Aðventa, Reykjavík: Mál og menning, 1996, bls. 58)

Það er áleitin tilfinning mín að Jónas hafi nú öðru sinni upplifað sólskin, heyilm, sumarland — hvað eða hvernig sem það nú er — eins konar innri kyrrð og frið — samsömun á borð við þá sem hann reyndi forðum í ferginstjörninni nema bara miklu, miklu dýpri — samsömun við upphaf og endi allra hluta — samsömun við hið mikla, óendanlega og óþekkta, leyndardóminn sem umlykur alla mannlega tilveru frá fæðingu til dauða. Leyndardóminn sem sum okkar nálgast sem Guð en önnur kjósa að túlka eða tjá með öðru móti. Sú tilfinning hjálpar að minnsta kosti mér að skilja og hugsanlega sættast við þá ögrandi hugsun sem séra Hallgrímur orðar svo í lokahendingu sálmsins um blómstrið eina:

Dauði ég óttast eigi
afl þitt né valdið gilt,
í Kristí krafti ef segi:
Kom þú sæll, þá þú vilt.
(Sálmabók 2001, nr. 273)

Amen