Trú, menning, samfélag 3

Hjalti Hugason, 1. December 2014 19:23

RÚV/Rás 1, 30 nóv. 2014

Í dag er hátíðardagur í kirkjunni. Fyrsti sunnudagur í aðventu markar upphaf nýs kirkjuárs og breytir sjónarhorni safnaðarins. Í predikunartextum liðinna sunnudaga var litið um öxl. Með fyrsta sunnudegi í aðventu tekur kirkjan að beina sjónum til bæði nálægrar og fjarlægrar framtíðar.
— — —
Aðventan er tvíbentur tími og ber enda tvö nöfn en hún kallast einnig jólafasta. Fyrrum var aðventan föstu-, iðrunar- og undirbúningstími líkt og langafasta fyrir páska sem við Íslendingar tengjum af skiljanlegum ástæðum við Passíusálma sr. Hallgríms. Nú hefur hins vegar orðið breyting á bæði innan kirkju og utan. — Fyrir fáum árum hnaut ég um auglýsingu frá veitingahúsi í Reykjavík sem hvatti fólk til að halda jólaföstuna við gnægtarborð þess! Þarna gætti virðingarverðra málvöndunar. Aðventa er vissulega tökuorð. Það er þó einhver mótsögn í að fasta við jólahlaðborð. Þarna hafði neyslusamfélagið tekið yfir og teflt lystisemdum holdsins gegn andanum.
Í einu nágrannalanda okkar tók umpólun aðventunar á sig aðra mynd. Prestum í opna skjöldu tók fólk að þypast í kirkju á fyrsta sunnudegi í aðventu. Talað var um aðventuvakningu og horft með tilhlökkun til jólanna sjálfra. Þá brá aftur á móti svo við að hefðbundin messusókn brást. Þegar eftir var grennslast kom í ljós að mörgum fannst hagkvæmt að ljúka þessu kirkjulega af sem fyrst. Það væri þá meira næði til að halda jólin friði án þess þó að finnast sem eitthvað væri vanrækt.
———
Ég efa ekki að aðventan sé sérstakur og innihaldsríkur tími fyrir okkur öll, hvernig svo sem við kjósum að verja henni. Ljósum fjölgar í svartasta skammdeginu og við segjum myrkrinu stríð á hendur. Við búum í haginn fyrir okkur sjálf og þau sem okkur eru kær fyrir hátíðirnar. Mörg sækja eflaust tónleika, fylgjast með upplestri úr nýjum bókum eða gefa sér tóm til einhvers annars sem nærir andann. Við ættum líka að minnast þess að tími eins og jólafastan kallar okkur til ábyrgðar við þau sem standa höllum fæti eða líða skort enda gefast okkur nú mörg tilefni til að styrkja góð málefni. Í blálok aðventunar söfnumst við svo mörg saman í friðargöngur þar sem þess er kostur og sýnum þannig í örlitlu verki vilja til að stuðla að réttlætti en án þess verður enginn friður í heiminum. Sum fara á aðventukvöld eða taka þátt í öðrum kirkju- eða trúarlegum atburðum. — Þannig reynum við hvert með sínum hætti að gera aðventuna merkingarbæra og setja neysluhyggjunni einhverjar skorður. Við lifum þó og hrærumst í einu harðasta neyslusamfélagi heims og það mótar okkur öll bæði á aðventu, jólum og í annan tíma.
— — —
Hvernig sem við kjósum að nota aðventuna er hún þó upphaflega kirkjulegt fyrirbæri og þangað sækir hún einmitt hið alþjóðlega heiti sitt sem á rætur að rekja til adventus Domini í latínu. En það merkir „koma Drottins“. Þessar fjórar síðustu vikur fyrir jól beinir kirkjan einnig sjónum sínum fram á við að komu Krists í líkingu barns í jötu en einnig öðru fyrirbæri sem kallað er endurkoma Krists. Með því er m.a. vísað til dómsdagshugmyndarinnar sem sr. Hallgrímur lýsir svo í 27. Passíusálmi (11. v.):

Ó, Jesú, það er játning mín:
Ég mun um síðar njóta þín,
þegar þú dýrðar Drottinn minn,
dómstól í skýjum setur þinn.

— — —
Í guðfræðinni ríkja vissulega ólíkar túlkanir á endurkomu-stefinu. Sumir fræðimenn líta svo á að hún muni eiga sér stað í óræðri framtíð þegar Kristur birist í skýjum himsins með mætti og dýrð, þannig að hvert kné muni beygja sig fyrir honum og að vilji hans verða „svo á jörðu sem á himni“. Fyrst þá muni Guðs ríkið sem Kristi er svo tíðrætt um í guðspjöllunum ganga í garð en þá verði jafnframt endir bundinn á okkar efnis- og tímalega veruleika.
Aðrir álíta að stefið vísi til þess er Kristur vitjaði lærisveina sinna eftir upprisuna og þeim veittist heilagur andi á fyrstu kristnu hvítasunnunni sem kallast stofndagur kirkjunnar. Því sé Guð ríkið þegar orðið að veruleika okkar á meðal og að okkur beri að leitast við að lifa í anda þess hér og nú.
Þá eru dómsdagshugmyndirnar einnig skildar mismunandi skilningi. Sum okkar líta að dauðstundina sem dómsdag, önnur telja að við munum hvert um sig mæta dómara okkar að viðskilnaðinum loknum, enn önnur að mannkyni býði eitt stórt lokauppgjör á efsta degi. Hugsanlega lifum við öll okkar dómsdag í krefjandi aðstæðum daglegs lífs þegar við verðum að velja eða hafna og taka afdrifaríkar ákvarðanir sem snerta ekki aðeins okkur sjálf. — Allar þessar hugmyndir kalla okkur þó til ábyrgðar, draga fram að líf okkar og breytni skiptir máli. Á okkur hvílir sú áyrgð að reynast almennilegar manneskjur og að taka þátt í að byggju upp betri heim.
— — —

Ummæli um endurkomu Krists, hinn efsta dag eða dómsdag eru óræð og torskilin jafnvel þeim sem er vel heima í málfari trúarinnar. Hvort svo sem slíkar hugmyndir höfða til okkar eða ekki ætti umræða um heimsendi þó ekki að vera okkur sérlega framandi enda gætir slíkra hugmynda ekki aðeins í Biblíunni og kristnum trúararfi heldur skjóta þær víða upp kollinum í bókmenntum bæði fornum og nýjum. Þá ætti okkur að vera algjörlega ljóst að heimsendir er fullkomlega raunhæfur möguleiki. — Þá á ég ekki við dómsdag í trúarlegum skilningi heldur heimsendir af völdum okkar sjálfra.
Þessi tvö stef, trúarlegur heimsendir og heimsendir af manna völdum, fela í sér andstæðar sviðsmyndir. Heimsendir af manna völdum má líkja við dystópíu. Trúarlegur heimsendir er hins vegar hliðstæða útópíu. — Dystópía er hugsaður eða tilbúinn staður eða samfélag sem einkennist af vonleysi en útópíur einkennast af von. Útópían opnar sýn að ónýttum möguleikum. Dystópían varar aftur á móti við hættu eða vá sem vofir yfir. Himnaríki er frummynd útópíunnar en Helvíti er dystópían í sinni hreinræktuðustu mynd.
— — —
Nú er mikið rætt um nýtt kalt stríð. Um daga fyrra kalda stríðsins var kjarnorkuváin sú ógn sem mannkyni stóð mest hætta af og kallaði sterkast fram vitundina um að heimsendir af manna völdum væri trúlega á næsta leyti. Í hugum okkar sem þá vorum börn fólst ógnin í hugmynd um hnapp á borði í Hvíta húsinu eða Kreml sem þrýsta mætti á og binda þar með enda á þá veröld sem við settum traust okkar á.
Nú hefur kjarnorkuváin þokað fyrir öðrum ógnum. Reglulega erum við þó minnt á hana. Herveldum heimsins hentar oft annað tveggja að minna á eyðingarmátt sinn með kjarnorkutilraunum eða svala þörf sinni fyrir skilgreindan óvin með ásökunum um að raunverulegur eða meintur andstæðingur hafi yfir gjöreyðingarvopnum að ráð. — Sú ógn sem við stöndum frammi fyrir nú á dögum er samt annars eðlis. Hún er eins og þokubakki úti við sjóndeildarhringinn sem nálgast stöðugt knúinn áfram af lífsstíl okka Vesturlandabúa.
Þessi skuggi hefur tekið á sig ýmsar myndir eftir því sem hann hefur þokast nær. Ein af fyrstu birtingarmyndunum sem athygli heimsins var vakin á var sú hætta sem stafaði af stóraukinni notkun skordýra- og illgresiseyða eins og DDT í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar og varð síðar ein af grunnstoðum grænu byltingarinnar. Einna fyrst til að afhjúpa stórfelldar og langvarandi afleiðingar af notkun hinna nýju efna var Rachel Carson og þá einkum með bók sinni Silent Spring sem í íslenskri þýðingu nefnist Raddir vorsins þagna og varð „kult-bók“ heillar kynslóðar. Í bókinni gekkst Carson á málefnalegan nótum á hólm við ríka hagsmuni í landbúnaði, hratt af stað umhverfisverndarbylgju og lagði drjúgan skerf við að móta vistfræðina sem þá var í burðarliðnum.
Á bókarkápu íslensku útgáfunnar segir á látlausan hátt að höfundurinn hafi látist 57 ára að aldri árið áður en þýðingin kom út. Sannleikurinn er öllu nöturlegri. Rachel Carsson féll fyrir eigin hendi eins og svo óhugnanlega margir aðrir brautryðjendur í náttúruvernd um þetta leyti. Sá grunur leitar óneitanlega á að sú framtíðarsýn sem blasti við þeim en ekki síður sú óvægna andstaða sem hagsmunaaðilar beittu þau hafi bókstaflega orðið þeim að bana.
Hér heima hófst náttúruverndarhreyfingin nokkru síðar eða á sjöunda áratug liðinnar aldar. Í ársbyrjun 1971 ritaði Laxness t.d. fræga grein, þar sem hann ræddi „hernaðinn gegn landinu“ og réðst einkum gegn stóriðjustefnunni sem staðið hefur æ síðan en mælti einnig fyrir vernd og endurheimt votlendis sem nú er hafin í örlitlum mæli.
— — —
Nú síðast eru loftslagsbreytingar af manna völdum sú vá sem tekin er að setja mark sitt á umhverfi okkar og framtíð. Ég kýs að verða nokkuð persónulegur til að skapa nánd við vandann sem við er að etja. Á síðasta hlaupársdag eignaðist ég dótturson. Egill sem þá fæddist á góða möguleika á að verða jafngamall og langafi hans var þá eða 88 ára. Það gerist einmitt 2100 en það er viðmiðunarár í spám Alþjóðaloftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna um hækkun hitastigs. — Sá dómsadagur mun sem sé renna upp í tíð núlifandi fólks.
Spárnar sem nýlega hafa raunar verið endurskoðaðar gera ráð fyrir að hiti hafi þá hækkað um allt að 4o C. Hlýnunin getur þó jafnvel orðið enn meir eða allt að rúmum 6o C. Hún mun leiða til þess að hitabylgjur verða tíðari á alheimsvísu, útbreiðsla skordýra mun aukast, þurrkasvæði jarðar stækka. Skert aðgengi að vatni mun valda landeyðingu, dauða búpenings og jafnvel manna. Úrhelli og steypireng munu þó jafnframt verða algengari með rofi og jarðvegsruðningi. Fellibyljum mun og fjölga og þeir ásamt hlýnuninni valda flóðbylgjum og hækkun sjávar með aukinni seltu á þeim svæðum sem verst verða úti. Áður en strákurinn sem ég nefndi áðan verður 10 ára gæti landbúnaðaruppskera í Afríku þegar hafa dregist saman um helming með tilheyrandi hungursneyð. Áður en hann verður fimmtugur gætu fiskveiðar verið hrundar ef núverandi sókn heldur áfram. En í skýrslum kemur fram að nú er á heimsvísu veitt um 250% meira en raunhæft er til að fiskistofnarnir séu sjálfbærir.
— — —
Þessi sviðsmynd bendir til að varnaðarorð Alþjóðanefndar um framtíð matvæla og landbúnaðar fái staðist en í skýrslu hennar segir:
Því hefur verið fleygt fram að loftslagsvandinn sé stærsta prófraun sem mannkynið hefur nokkurn tímann staðið frammi fyrir, enda munu örlög milljóna manna og dýrategunda ráðast af því hvort samfélög heimsins grípa til sameiginlegra aðgerða eður ei.

Alvarleiki þessa rennur líklega fyrst upp fyrir okkur þegar við tökum tillit til þess efnahagslega, félagslega og pólitíska óstöðugleika sem mun fylgja í kjölfar loftslagsvandans. Það gerist um leið og þeir hlutar mannkyns sem verst verða út taka að krefjast — ef ekki réttlætis — þá í það minnsta réttar síns til lífs. En ef að líkum lætur munum við sem betur eru sett reyna að verja núverandi lífsform okkar með kjafti og klóm. Lífsstíll okkar byggist eins og við vitum öll á ranglátri skiptingu jarðargæða.
Þessi skelfilega sviðsmynd sem er ekki aðeins fjarlægur möguleiki heldur veruleiki sem steðjar að í náinni framtíð að öllu óbreyttu. Frammi fyrir henni er mikilvægt að við veltum fyrir okkur hlutverki og áskorunum trúarbragða og trúarstofnana á „öldinni okkar“, 21. öldinni. Kirkjur og trúfélög verða eins og öll almannasamtök önnur að takast á við vandann.
— — —
Ef a.m.k. vestræn trúarbrögð eiga einhvern sameiginlegan grunntón sem vert er að þau haldi á lofti við núverandi aðstæður er það virðing fyrir lífinu og uppruna þess ásamt þeirri þrá að lífið í þessum heimi haldi velli í öllum sínum fjölbreytileika. Hugmyndin um sköpunina gengur eiginlega út á þetta. Framtíðarvídd vestrænnar trúarhugsunar er því frekar útópísk en dystópísk svo aftur sé gripið til þessara lánsorða. Dystópían kemur þar þó vissulega við sögu en þá einkum sem víti til að varast.
Við núverandi aðstæður er mikilvægt að kirkjur og trúfélög leggi sitt af mörkum í baráttunni fyrir áframhaldandi lífi hér á jörðu, standi vörð um náttúruna, líffræðilegan fjölbreytileika og hreinleika, hlúi að móður Jörð og öllu því sem hún ber í alltumlykjandi faðmi sínum. Þeim ber líka að stuðla að réttlátri skiptingu jarðargæða og friði og jafnvægi í heiminum. Leggi þau sitt af mörkum mun trúin ekki reynast „opíum fyrir fólki“ eins og hún er oft sökuð um!

Trú menning, samfélag 2

Hjalti Hugason, 1. December 2014 18:34

RÚV/Rás 1 23. nóv. 2014

Við Íslendingar erum þjóð sem haldin er augljósri minnimáttarkennd. Við spegla okkur stöðug í augum annarra, berum okkur saman við aðra og sannfærum okkur um að við komum vel út úr samanburðinum a.m.k. miðað við höfðatölu sem hagstætt er að grípa til þegar á okkur hallar. Við drögum líka fram sérstöðu okkar og leitum í framhaldi af því að sérstöku hlutverki okkar í heiminum — köllun, mission eða Messíasar-hlutverk svo notuð séu hugtök frá guðfræðinni eða úr málfari trúarinnar. Stöðugt leitum við að nýju og nýju sviði þar sem við getum haslað okkur völl, skarað fram úr eða markað þáttaskil. Ef það er ekki á sviði erfðarannsókna er það á fjármálamarkaðinum vansællar minningar eða á einhverjum enn öðrum vettvangi.
Og það er vissulega rétt að við höfum sérstöðu. Til skamms tíma eða að hart nær fram að síðari heimstyrjöld bjó þjóðin við nánast algera kyrrstöðu í hagrænu tilliti. Hún var tiltölulega einangruð og enn í dag erum við örþjóð. Lengst af höfum við líka verið fylgihnöttur annarra ríkja, fyrst Norðmanna, síðan Dana, þá Englendinga um hríð og loks Bandaríkjamanna. Það voru ekki mörg ár sem við vorum frjáls, sjálfstæð og öðrum óháð frá Gamla sáttmála 1264 fram að Hruni 2008. Þetta greinir okkur vissulega frá mörgum ríkjum Evrópu. Frændur okkar Danir og Svíar voru t.d. stórveldi á sínum tíma og Norðmenn náðu sér á strik löngu á undan okkur. Og nú eru þeir búnir að taka okkur í tog a.m.k. hvað varðar vopnabúnað fyrir landhelgisgæslu og lögreglu. Það er svo annað mál hvort þessi sérstaða er styrkleiki okkar eða veikleiki og hvort við getum öðlast eitthvert alþjóðlegt hlutvek út á hana.
Hvað sem því líður er ljóst að 1100 ára saga okkar hefur skilað okkur óvenju samstæðu samfélagi hvað varðar tungu, menningu, trú og reynsluheim. Það eru ótrúlega fáir einstaklingar sem fluttst hafa til landsins frá landnámi og fram á 20. öld. Það væri næstum því hægt að telja þá upp í ekki allt of löngu máli. Hingað komu nokkrir erlendir biskupar á miðöldum, síðar höfuðsmenn, hirðstjórar, amtmenn og stiftamtmenn að ógleymdum dönskum faktorum. Fæstir þeirra tengdust landsmönnum traustum böndum. Svo voru nokkrir af öðru sauðahúsi sem ílentust, eignuðust afkomendur og runnu þannig saman við okkur hin. Upp í hugann koma Jón Matthíasson prestur og prentari Jóns Arasonar og Skáneyjar-Lassi sárasóttarlæknir á 16. öld; Franz Íbsson í Hruna, dankur fóstursonur Þórðar Þorlákssonar biskups á 17. öld og auðvitað Hans Jónatan á Djúpavogi á þeirri 19. Svo kvæntust nokkrir Hafnarstúdentar dönskum konum sem fluttu með þeim hingað á klakann. Á ensku og þýsku öldinni sem og í tíð Baska hér hefur líka verið eitthvað um náið samneyti og nokkrar konur giftust og fluttu utan. Annars var hér lítil blóðblöndun allt fram að ástandi. Af þessum sökum hefur sagan skilað okkur fram á þennan dag sem einstaklega einsleitri þjóð og líklega stendur þessi hreinleiki okkur bókstaflega fyrir þrifum. Er það ekki hann sem veldur því að við höldum að við búum að skýrum þjóðareinkennum sem greina okkur frá öðrum — gera okkur einstök?
— — —
Eitt af því sem við Íslendingar teljum okkur til tekna er að við séum einstaklega víðsýn og frjálslynd þjóð og þá ekki síst í trúarefnum. Meðal okkar gætir vissulega ekki snarpra trúardeilna og við tökumst ekki á um kenningarleg málefni hvorki innan né utan kirkju þótt auðvitað gæti blæbrigðamunar. Í sumum nágrannalöndum okkar olli prestsvígsla kvenna um miðja 20. öld snörpum deilum. Svo var ekki hér. Þá var þjóðkirkja okkar meðal fyrstu hliðstæðra kirkna í heiminum til að taka upp hjónavígslu samkynhneigðra án teljandi átaka. Þó er spurning hvort friðsöm lausn okkar á þessum málum segi eitthvað um víðsýni okkar og frjálslyndi eða hvort fyrir henni séu einhverjar aðrar ástæður. Hugsanlega veldur sérstæð trúarsaga okkar því að hér á landi sé eiginlega ekki grundvöllur fyrir trúardeilum.
Hér skal ekki seilst svo langt að vísa til átakalítillar kristnitöku þjóðarinnar um aldamótin 1000 eða því haldið fram að órofa samhengis gæti í kirkjusögu okkar frá upphafi þar sem siðaskiptin á 16. öld hafi átt sér stað vegna erlends þrýstings en ekki vegna frumkvæðis landsmanna sjálfra. Ég læt nægja að benda á að á 19. öld urðu hér engar trúarlegar alþýðuvakningar eins og gerðist víðast annars staðar á Norðurlöndum. Hér varð þjóðernisvakning, félagsmálavakning, útgáfuvakning, bindindisvakning og seint og síðar meir lýðræðisvakning, verkalýðsvakning og jafnréttisvakning. Líklega rúmaði fámennis- og dreifbýlissamfélagið ekki fleiri vakningar. Í trúarefnum fórum við alla vega inn í 20. öldina sem samstæð lúthersk þjóð. Enn í dag tæpum 140 árum eftir að dönsk stjórnvöld komu hér á trúfrelsi að meira eða minna leyti í trássi við pólitíska leitoga okkar hafa furðu fáir notað það frelsi sitt til að yfirgefa þjóðkirkjuna og stofna önnur trúfélög.
Vissulega starfa hér 44 skráð trú- og lífsskoðunarfélög auk þjóðkirkjunnar. Samanlagt teljast þó einungis um 13 % þjóðarinnar til þeirra og þar af tilheyrir aðeins tæpt 1% trúfélögum utan kristni. Rúm 6 % landsmanna tilheyra ótilgreinndum og óskráðum trúfélögum og rúm 5 % standa utan trú- og lífsskoðunarfélaga. Þess má geta að tæpur helmingur skráðu trúfélaganna er svo fámennur að þau mælast ekki í prósenttölum Hagstofunnar. — Í ljósi þessara talna má halda því fram að íslenska samfélagið sé trúarlega samstætt á sögulegum, lútherskum grunni og að tæpast sé hér um að ræða trúarlega fjölmenningu í neinni venjulegri merkingu.
En höfum nú í huga að fjölmenning er ekki einvörðungu lýðfræðilegs eðlis og verður ekki alfarið mæld á tölfræðilegan máta. Fjölmenning er miklu frekar ástand eða aðstæður sem nálgast verður út frá sjónarhorni mannréttinda þar sem tölfræðin má sín lítils og þar sem taka verður því ríkara tillit til minnihluta því smærri sem hann er. Á vettvangi mannréttinda skiptir minnihlutinn nefnilega meira máli en meirihlutinn!
— — —

Ég viðraði áðan efasemdir mínar um að við gætum talist víðsýn og umburðarlynd þjóð í trúarefnum. Ég ætla nú að stíga feti framar og fullyrða að við séum það ekki. Ég ætla að halda því fram að þegar öllu sé á botninn hvolft séum við lokuð, bæld og hrædd á því sviði. Líklega vitum við ekki til fulls í hvorn fótinn við eigum að stíga í trúarmálefnum í upphafi 21. aldar.

Þetta álit mitt reisi ég á umræðum sem spunnust á liðnu sumri um lóðarúthluntun til Félags múslima á Íslandi og staðið hefur með hléum síðan. Forsaga málsins er að um árabil hefur félagið farið þess á leit við yfirvöld á höfuðborgarsvæðinu að fá lóð fyrir tilbeiðsluhús en kirkjur múslima kallast sem kunnugt er moskur. Málið hefur velkst um í kerfinu og hafa ýmsir staðir þótt koma til greina. Semma var tekið að ræða um að ekki mætti moskan rísa í Breiðholti þar sem hætta væri á að þar mundi hún valda samþjöppun og einangrun múslima líkt og gerst hafi í stórborgum erlendis. Einhvern tíman mun hafa komið til tals að moska risi í Öskjuhlíð. Þá heyrðist sú mótbára að hún mætti ekki gnæfa yfir kirkjugarðinn í Fossvogi. Síðar kom annar staður til álita. Sá þótti geta valdið því að Bessastaði og moskuna bæri saman á myndum undir ákveðnum sjónarhornum. Ekki þótti það ganga Loks var Félaginu afhent lóð í Sogamýri. Þótt ýmsum moskan þá komin í borgarhlið Reykjavíkur. Ekki er mögulegt að líta á mótbárur af þessu tagi þannig að um skipulagsvanda sé að ræða. Þær rista býpra en svo. Í þeim felst annars vegar að ekki megi múslimir mynda hér of þéttan kjarna en hins vegar að þeir megi ekki verða of sýnilegir í samfélaginu og borgarmyndinni. Hér skal fallist á það sjónarmið að best sé að fylgjendur hinna ýmsu trúarbragða blandist sem mest og samlagist sem fyrst. Hitt sjónarmiðið er alvarlegra ef múslimum eða öðrum trúarlegum minnihlutahópum er ætlað að verða eins og óhreinu börnin hennar Evu, að þeir megi vissulega búa hér en þeim beri að vera ósýnilegir.

Við sveitastjórnarkosningarnar í vor öðlaðist málið svo óvænt pólitíska vídd þegar oddviti Framsóknar í höfuðborginn kvað upp úr um að „meðan við erum með þjóðkirkju eigum við ekki að úthluta lóðum undir hús eins og moskur eða kirkjur fyrir grísku rétttrúnaðarkirkjuna“, eins og hún komst að orði. Eins og kunnugt er vann flokkurinn mikið fylgi á síðustu metrum kosningabaráttunnar. Niðurstöður könnunar sem MMR birti svo í haust benda til að það hafi ekki síst verið vegna þessarar afstöðu. En í könnuninni kom fram að rúm 40 % kváðust andvíg því að Félag múslima fengi að reisa trúarbyggingar á Íslandi. Þá kom einnig fram að aðeins tæp 30 % voru því fylgjandi en nokkuð hærra hlutfall var því fylgjandi að Rússneska réttrúnaðarkirkjan fengi að reisa hér kirkju og að Búddistar fengju hér trúarbyggingu. Rétt tæpur helmingur svarenda kvaðst hins vegar fylgjandi að Ásatrúarfélagið fengi að reisa sér hof og tæplega 2/3 svarenda voru fylgjandi því að þjóðkirkjan fengi áfram að reisa hér kirkjur. Þessar tölur leiða að mínu mati í ljós að hinn dæmigerði Íslendingur óttast það sem kalla má framandi í trúarefnum og vill að fylgjendur annarra trúarbragða en þeirra sem líta má á sem þjóðleg fái að iðka trú sína við eðlilegar aðstæður. Þetta eru dapurlegar niðurstöður.

Í tengslum við sveitarstjórnarkosningarnar lýstu margir sig líka andvíga því að sveitarfélög úthlutuðu trúfélögum ókeypis lóðum. Þar á meðal var oddviti Sjálfstæðisflokksins sem kvað slíkt ekki eiga við á 21. öld. Óljóst er hvað það er við þessa nýbyrjuðu öld sem kann að valda þeirri afstöðu. Líklega á þetta atriði einmitt sérstaklega við nú á dögum þegar trúarflóran verður sífellt fjölbreyttari með auknum fólksflutningum og þegar stöðugt meira mun reyna á jöfnuð þeirra sem hingað flytja og okkar sem fyrir erum. Það skal þó vakin athygli á að himinn og haf ber á milli þeirra sjónarmiða hvort múslimum eða öðrum með skamma sögu í landinu skuli úthlutað lóðum fyrir tilbeiðsluhús og hins að lóðin skuli vera ókeypis. Fyrri spurningin lýtur ótvírætt að mannréttindum. Hin síðari er frekar praktísk eðlis þótt hún feli einnig í sér trúarbragðaréttarlega hlið.

— — —

Í stjórnarskránni segir að allir eigi rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins, að enginn megi neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna, sem og að allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til trúarbragða. Á grundvelli þessarar trúfrelsishefðar sem komið var á 1874 og endurnýjuð 1995 er ljóst að ekki er mögulegt að meina opinberlega skráðum trúfélögum að koma sér upp þeim tilbeiðsluhúsum sem þau telja sér nauðsynleg. Þannig stappar nærri mannréttindabroti hve lengi vafðist fyrir borgaryfirvöldum að úthluta múlimum heppilegri lóð.
Á hinn bóginn er stjórnarskrár- og lagaumhverfi hér með þeim hætti að lög gera aðeins ráð fyrir að þjóðkirkjan fái úthlutað ókeypis lóðum fyrir kirkjur. Því kæmust dómstólar væntanlega að þeirri niðurstöðu að ekki fælist mismunun í að gera Ásatrúarfélaginu, múslimum eða hvaða öðru trú- eða lífsskoðunarfélagi sem er að greiða lóðargjöld. Sú góða hefð hefur hins vegar mótast hér að veita smærri trúfélögum nokkra hlutdeild í þeim styrk og stuðningi sem stjórnarskráin áskilur þjóðkirkjunni af hálfu hins opinbera. Í þjóðkirkjufyrirkomulaginu felst vissulega mismunun sem vel má færa rök fyrir að sé málefnaleg og því heimil án þess að til núnings komi á sviði mannréttinda. Í fyrirkomulaginu felst hins vegar ekki mismununarskylda og vonandi verður haldið áfram á þeirri braut að auka jöfnuði á trúamálasviðinu eins og á öðrum sviðum. Það mun til lengdar ekki aðeins gagnast minnihlutahópum heldur einnig þjóðkirkjunni.

Það er óskandi að okkur Íslendingum beri gæfa til að taka vel á móti þeim sem hingað leita úr fjarlægum heimshornum og gera þeim í senn auðvelt fyrir með að samlagast samfélaginu en einnig að halda tryggð við eigin rætur, sögu og menningu eins og okkur er sjálfum svo mikið í mun síst er við dveljum fjærri ættjörðinni. Eigi þetta að takast verðum við ekki hvað síst að gera nýbúum okkar kleift að ástunda trú sína. Ef okkur tekst að vinna farsællega og fordómalaust á þessu sviði gætum við skapað okkur jákvæða sérstöðu í samfélagi þjóðanna en víða hefur þetta reynst torvelt og valdið spennu og átökum.

Trú, menning, samfélag 1

Hjalti Hugason, 1. December 2014 18:32

RÚV/Rás 1 16. nóv. 2014
Það hefur komið í minn hlut að leggja orð í belg um trú, menningu og samfélag á þessum vettvangi í kvöld og þrjá næstu sunnudaga. Ekki er víst að þú munir leggja við hlustir allan þann tíma. Sjálfum finnst mér þó mikilvægt að eitthvert samhengi sé í þessum pistlum mínum. Í kvöld mun ég því fyrst og fremst fjalla um fyrirbærið trú. Síðar mun ég velta fyrir mér samspili trúar menningar og samfélags út frá ýmsum bæjardyrum.
Hugleiðingar mínar munu óhjákvæmilega markast af að ég er alinn upp í landi þar sem kristin trú hefur verið ríkjandi í 1000 ár. Auk þess hef ég lagt stund á guðfræði og starfað sem prestur. Vonandi tekst mér þó að einhverju leyti að fjalla um trú almennt þannig að fleiri en þau sem telja sig kristin kannist við eitthvað það sem sagt verður um trúna.

Í samræðum um trú gætir þess oft að litið sé svo á að hún hljóti eðli sínu samkvæmt að vera bjargföst sannfæring um samfellt kenningarkerfi sem spanni viðhorf til allra hluta frá sköpun heims til efsta dags — eða frá fæðingu til dauða ef við þrengjum sjónarhornið. Þá verður þess oft vart að jafnvel djúpt þenkjandi fólk líti svo á að öll trú hljóti að vera bókstafstrú og fallist viðmælandi ekki á það er hann sakaður um undanslátt ef ekki afneitun á trú sinni. Þá hefur því lengi verið haldið fram að trú slæfi vitund trúaðra fyrir vandamálum þessa heim og vitund þeirra fyrir ranglæti í samfélaginu, geri trúaða að undirgefnum þegnum sem ekki axla fullgilda ábyrgð borgara í nútímasamfélagi. Þetta sjónarmið felur í sér að trú sé „ópíum fyrir fólkið“ eins og forðum var komist svo smellið að orði. Þá er þess auðvitað að geta að mörgum finnst trú og trúarleg afstaða beinlínis heimskuleg. Nú nýlega heyrði ég þessari afstöðu lýst svo að viðkomandi kvaðst einfaldlega fá aulahroll þegar trúarleg málefni bæri á góma.
Ég ætla mér ekki að svara öllum þessum mótbárum við trúna. Þær eru þó ögrandi og örfandi og gott að hafa þær huga þegar rætt er um trú.
— — —
Eigi að fjalla um trú á sæmilega skýrum nótum verður að gera greinarmun á trú, trúarbrögðum og trúarstofnunum — það er kirkjum og trúfélögum. Að vísu er óskandi að trú sé að finna bæði innan trúarbragða og trúarstofnana. Ekki er þó víst að svo sé alltaf og óhjákvæmilega! Líkt og hugsjónir rúmast ekkert endilega í stjórnmálaflokkum sem öðrum þræði eru valdastofnanir og samtryggingarsamtök er ekki öruggt að trúarstofnanir rúmi eða séu bornar uppi af trú. Þær geta líka verið hagsmunablokkir og skiptir stærð þeirra og staða ekki sköpum um hvort svo fer eða ekki. Uppbygging, hugmyndir um hlutverkaskiptingu leikra og lærðra og ekki síst sjálfsmynd leiðtoganna skipta þar ekki síður máli.
Ýmislegt bendir til að tími hinnar hörðu efnishyggju sem réð ríkjum víða um hinn vestræna heim á 20. öld sé nú liðinn. Margir fræðimenn benda á að á síðustu áratugum hafi mikil andleg vakning átt sér stað á Vesturlöndum og að fólk leiti nú í ríkum mæli hvíldar, kyrrðar, afdreps eða andrýmis í erli dagsins líkt og gert var áður fyrr og þá sótt til kirkna, klaustra og annarra trúarlegra stofnana eða helgra staða. — Þeir hinir sömu benda þó á að einkenni þessarar nýju vakningar sé að fólk leiti ekki á hefðbundin mið og að þessi andlega frekar en trúarlega nýbylgja streymi því í raun framhjá trúarstofnunum á borð við þjóðkirkjuna og önnur hefðbundin trúfélög. Á trúarsviðinu gætir sem sé ekki ósvipaðra aðstæðna og vart verður í heilsugeiranum þar sem margir snúa baki við viðtekinni læknisfræðilegri þekkingu og vestrænum lyfjaiðnaði en leita í þess stað uppi óhefðbundnar lækningar og náttúrulyf. Því kemur yoga-iðkun og íhugunartækni af austrænum rótum í stað kirkjuferða og þátttöku í kirkjustarfi hjá mörgum. Þetta mættu kirkjur og trúarstofnanir vissulega hugleiða. Nýtast aðferðir þeirra og áherslur nútímaaðstæðum eða láta þær leitandi sálir frá sér fara án þess að megna að veita þeim þá næringu sem leitað er?
Sú leit margra að aukinni dýpt í líf sitt og tilveru sem víða má finna stað í nútímanum bendir að mínu mati til að við höfum mörg ríka þörf sem hugsanlega er okkur eðlislæg og meðfædd og felst í þrá eftir einhverju öðru en hinn sýnilegi og áþreifanlegi veruleiki hefur uppá að bjóða. Ég ætla ekki að kalla þetta trúarþörf eins og oft hefur verið gert, heldur þörf fyrir eitthvað sem við getum nefnt „annað“, handanlægt, hulið, dulmagnað, leyndardómsfullt eða hvernig sem við kjósum nú að lýsa því hvert fyrir sig sem þrá okkar beinist að. Þetta er ein hlið á þörf okkar flestra fyrir eitthvað sem setur okkur í víðara samhengi, lýkur upp fyrir okkur huldum víddum tilverunnar, skapar lífi okkar mark og mið og tengir okkur við allífið, frumupphafið, hinstu rök tilverunnar, Guð. Vissulega er það ekki trúin ein sem uppfyllir þessa þörf eða þrá heldur má í þessu sambandi benda á ástina, listirnar eða náttúruna, óspjölluð víðernin sem við Íslendingar erum enn svo auðgu af hvað sem verður í náinni framtíð ef áform um loftlínur, malbikaða vegi yfir hálendið og enn fleiri virkjanir ná fram að ganga.
— — —
Í trúarbragðafræðunum eru til kenningar í þá veru að trú felist ekki fyrst og fremst í skoðunum, kenningum eða trúarjátningum heldur einmitt í leitt okkar að tilgangi, markmiði, samhengi og samsvörun við eitthvað sem er æðra og meira en við sjálf. Því sé öll leit að samhengi í tilverunni í raun trúarleg, hvort sem hún svo beinist að okkar mati að Guði, mennskunni, samfélaginu, náttúrunni eða einhverju því sem við kunnum að líta á sem heilagt eða að minnsta kosti heilt og háleitt. Á þeim grunni má halda því fram að allt leitandi fólk og öll þau sem leitast við að breyta samkvæmt þeim hugsjónum sem þeim eru helgastar sé trúað þegar upp er staðið.
Hér skal slíkum kenningum alls ekki haldið fram. Þær kunna að varpa fersku ljósi á trú og trúarbrögð en þær svipta fólk sjálfsákvörðunarrétti á þann hátt sem ekki verður við unað. Hvert og eitt okkar verður að hafa óskorað frelsi til að skilgreina lífsskoðun sína sem trúarlega eða veraldlega hvað sem öllum fræðitúlkunum líður. Við ættum hins vegar að gera okkur grein fyrir að himinn og haf skilur ekki að viðleitni þeirra sem leita þrám sínum fullnægingar á sviði trúarinnar og hinna sem gera það með hjálp listanna, upplifunar af náttúrunni, íhugun af einhverju tagi eða eftir enn öðrum leiðum.
Auðvitað kann öll viðleitni sem er fólgin í að lyfta okkur upp fyrir hið hversdaglega og leita annars en hins augljósa að vera hlægileg, aulaleg og fallin til að vekja kjánahroll þeirra sem láta sér nægja raunsæja og einfalda sýn á heiminn og manninn í heiminum — nú eða leita hins háleita eftir öðrum leiðum en þeirri sem hrollinn vekur hjá hverjum og einum! En að leið trúarinnar sé í sjálfu sér hægilegri, fráleitari eða heimskulegri en aðrar leiðir að markinu er ekki svo augljóst.
— — —
Trúin kom inn í líf mitt þegar ég var á barnsaldri. Það hefur eflaust orðið mér bæði til góðs og staðið mér fyrir þrifum líkt og flest sem fyrir okkur kemur og við vinnum úr með mismunandi móti á lífsleiðinni. Þessi trúarlega uppvakning mín gerðist ekki í skjótri svipan með brauki og bramli sem ég get tímasett eða rakið til einhverrar ákveðinnar reynslu. Heldur varð þetta fyrir hægfara mótun í sunnudagaskóla sem rekinn var norður á Akureyri í húsi sem síðar varð miðstöð Framsóknarflokksins en hýsir nú sjúkraþjálfunarstofu. Þar má e.t.v. segja að andinn hafi vikið fyrir efninu þótt ég efist raunar um að svo sé ef pólitíska skeiðinu í sögu hússins er sleppt!
Fyrsta trúarlega minning mín á rætur að rekja aftur til þess tíma er ég var enn á foraðgerðastiginu svo stuðst sé við orðaforða Jean Piaget án þess að ég ætli endilega að gera kenningar hans að mínum. Ég var með öðrum orðum enn á því þroskastigi að sjá aðeins mitt eigið sjónarhorn og hafði enn ekki öðlast hæfni til óhlutbundinnar hugsunar þótt ég væri tekinn að skilja tákn og merkingu þeirra að einhverju örlitlu leyti. Ég gæti hafa verið 4-5 ára gamall og hef greinilega haft svolítið neutrótískar tilhneigingar. Um þetta leyti lærði ég bænarversið alkunna:
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni.
Sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.

Nú veit ég ekki hvernig barokkskáldið Sigurður Jónsson frá Presthólum hugsaði sér þessa mynd af englahjörðinni. Sjálfur skildi ég hana fullkomlega hlutbundnum skilningi. Því þurfti yfirsængin að vera alveg slétt þannig að englarnir gætu nú setið þar væng í væng í reglulegum hring yfir bringunni á mér. Eins var mikilvægt að ég hitti á réttan tíma til að fara með bænina en það gerði ég með því að biðja hennar strax og ég var lagstur uppí þar sem annars var ekki víst að hún yrði yfirleitt heyrð. Mér þótti raunar ólíklegt að Guð gæti sjálfur verið að rekast í að hluta á bænir krakka eins og mín. Hann hlaut að hafa til þess önnur ráð. Líklegast þótt mér að postularnir tveir og tveir saman væðu skýjaðan himininn líkt og snæviþakta jörð og hlustuðu svo niður um vakirnar, rofin eða heiðríkjublettina yfr rúmmi hvers og eins okkar barnanna um allan heim sem hlytu að vera að biðja sínar bænir um svipað leyti. Þessa bókstaflegu túlkun mína útfærði ég svo enn frekar með hjálp biblíumynda í pre-rafaelískum stíl sem útbýtt var í sunnudagaskólanum. — Að þessari helgistund minni afstaðinni sveif ég inn í svefninn sannfærður að allt yrði í besta lagi á komandi nóttu og um alla framtíð og okkur mundi öllum vegna vel.

Síðar þroskaðist ég yfir á stig hlutbundinna og loks formlegra aðgerða svo enn sé vísað til Piagets og tók að hugsa óhlutbundið og afstætt, setja mig að einhverju leyti í annarra spor og skilja heiminn út frá örlítið víðara sjónarhorni en eigin nafla þótt enn eigi ég vissulega mikið ólært í þeim efnum. Ég lærði vo guðfræði og var um skeið atvinnumaður á sviði trúarinnar. Loks gróf ég mig niður í kirkjusögu og hef upp frá því eytt æfinni í að skoða hvernig kristnin breyttist smám saman — úr grasrótarheyfingu kvenna og karla af lágum stigum sem yfirgáfu net sín og báta og slógust í fylgd með Jesú frá Nasaret — yfir í valdastofnun sem sem seildist til stöðugt vaxandi valda yfir hugsunum og tilfinningum fólks — gekk inn í hlutverk þess sem skilgreinir hvað sé rétt og hvað rangt við breytilegar aðstæður daglegs lífs.

— — —

Trúin hefur fylgt mér á fyrrgreindri vegferð minni en auðvitað hefur hún umbylts á ýmsa lund og mér er nú ljóst að hún hefur margar hliðar. Trúin eins og ég skil hana nú felst ekki fyrst og fremst í fullvissu og sannfæringu heldur stundum miklu frekar í áleitnum grun, von og hikandi trausti um að líf okkar allra hafi mark og mið þótt það virðist oft ofurselt tilviljunum, óláni og jafnvel ranglæti. En svo hefur trúin líka myrkari tóna eins og allar mannlegar kenndir. Trú getur t.d. leitt til vonleysis, biturðar eða reiði ef því er að skipta. — Trúin verður eins og allt annað sem við berum með okkur á æviferðinni að vaxa og þroskast með okkur.

Nú á miðjum aldri hef ég gaman af því að rifja upp hugmyndir mínar um Guð, bænir og bænheyrslu í brensku og bera þær saman við trúarhugmyndir mínar nú. Þá var Guðmynd mín skýr og greinileg en hefur með tímanum orðið óræðari og óljósari. Nú á ég raunar í erfiðleikum með að lýsa mynd minni af Guði. Ég held að það stafi ekki af því að ég hafi endilega misst sjónar af honum eða hann sagt skilið við mig einhvers staðar á leiðinni heldur hafi lotning mín ef til vill aukist. Ég hef líklega einnig öðlast þá dómgreind að sjá að ég kem aldrei til með að skilja eða skynja hugarheim trúarinnar nema í óljósri mynd og get ekki gert neina kröfu um að ég hafi höndlað sannleikann í þeim efnum fremur en öðrum. — Í því felast þó ekki afneitun á því að Sannleikur kunni að vera til og að okkur beri að leita hans.

Englaryk

Hjalti Hugason, 1. December 2014 18:30

Englaryk Guðrúnar Evu Mínervudóttur (JPV 2014) fjallar m.a. um hvað gerist þegar einhver tekur trú sína alveg bókstaflega. Þar á meðal fyrirheiti Krists: „Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar“ (Mt 28. 20) og tekur afleiðingunum af því.
Í sögunni verður Alma Boulanger úr Hólminum líkt og einhvers konar síðbúinn Emmaus-fari. Jesús slæst í fylgd með henni og opnar augu hennar fyrir hulinni vídd. Annars er spurning hvað gerist með Ölmu þegar hún verðu viðskila við foreldra sína og bræður suður í Cádiz. Fékk hún sólsting eða sjokk? Sjálf var hún ekki í vafa. Hún mætti Jesú klæddum bleikum kjól og gráblárri skikkju umluktum reykelsisangan og lykt af þurrum sandi. Öll skilningarvit hennar skynjuðu hann.
Í heiti bókarinnar felst ef til vill túlkunarlykill. Engalryk er íslenskt heiti á ofskynjunarlyfinu Angel Dust eða fencýklídín (PCP). Titillinn er þó skýrður á annan veg í bókarlok þar sem Alma tengir það ofurskynjun sinni á náttúrunni og umhverfinu sem hún upplifir sem lífræna heild hjúpaða ryki sem þyrlast upp af englavængjum.
Til að túlka sýn eða reynslu þarf túlkunarramma. Íslenskum unglingum almennt og yfirleitt er líklega ekki tamt að túlka reynslu sína á trúarlegum nótum. Hugsanlega er það þess vegna sem Alma er sett í kallfæri við kaþólskuna. Hún býr í Sykkilshólmi, móðurætt hennar er kaþólsk að nafninu til, faðirinn hálffranskur en er sekúler. Í hönd fer þó lútherskur fermingarvetur hjá Ölmu.
Jesú-nálægðin er ekki stundarfyrirbæri heldur fylgir Ölmu og fjölskyldu hennar að minnsta kosti þar til Alma undir vor smeygir sér yfir götu, gegnum glufu í Reykjavíkurumferðinni. Ferðin yfir götuna markar líklega þáttaskil. Alma er í þann veginn að breyta um stíl. Í sögulok heldur hún sem sé inni í óræða framtíð þar sem allir þræðir eru óhnýttir.
Englaryk segir sögu venjulegrar fjölskyldu úti á landi. Móðirin er kennari, faðirinn í veitingarekstri, eldri bróðirinn að slíta naflastrenginn og tekinn að feta sig inn í stærri heim, sá yngri að hasla sér völl í samfélagi jafnaldra. Reynsla Ölmu setur strik í reikninginn hjá þeim öllum og samfélaginu í víðari skilningi. Alma er sjúkdómsvædd þegar fjölskyldan fer í meðferð hjá fjölskylduráðgjafa og sálgreini. Þá er hún sett í sóttkví en foreldrar bestu vinkonunnar setja þær í samskiptabann. Óvíst er hvort er verra blygðunarlaust tal Ölmu um um Jesú-nálægðina eða hitt þegar hún tekur að feta í fótspor hins nýja leiðtoga síns. Það gerir hún með að leggjast með hinum „félagslega holdsveika“ Jóni Stefáni sem allir bæjarbúar hafa ímigust á og taka að sér Snæbjörn bæjardrykkjumann. Í bæði skiptin snýst samstaðan hugsanlega í höndum hennar. Líknsemi er vandmeðfarin og leiðir ekki óhjákvæmilega til góðs.
Alma er þó fyrst og fremst holdi klædd ögrun, laus við faríseisma og óviss um flesta hluti nema þetta eina að Jesús vitjaði hennar viltrar í sólinni suður í Cádiz. Sá sem á hvað erfiðast með að umbera trú Ölmu er sr. Hjörtur. Hann þekkir köllun sína á trúlausu samfélagi. Hann telur hlutverk sitt vera „...að trúa fyrir fjöldann“, „... að hvíla öruggur í trúnni; til að fólk geti hallað sér að [honum] tímabundið þegar þörf er á. Trúað í gegnum [hann]...“ (bls. 61). Hann á hins vegar erfitt með að lifa með ofurtrú Ölmu sem hrekur hann fram á hengiflug guðsafneitunar. Enn erfiðara reynist honum þó að semja frið og sýna Ölmu samstöðu þegar líður að lokum fremingarundirbúningsins.
Englaryk má lesa á mörgum plönum. Á ýmsum tímum hefur brúðar-mystík verið sterk í kristinni trúarhefð og fjöldi kvenna gegnum tíðina hefur lýst sambandi sínu við Krist með erótískum yfir- og undirtónum. Tæpast ber að setja Ölmu undir þann hatt. Hjá henni haldast vaxandi kyn- og trúarvitund þó náðið í hendur. Einfaldast er ef til vill að sjá umbrot Ölmu sem ofurvenjulega unglingauppreisn sem fellur í sérstakan farveg trúarreynslunnar. Hún er tvíátta, óráðin, skilur ekki tilfinningar sínar, þekkir ekki hvar mörk hennar liggja og er ekki sátt við þau. Þessi mynd af henni er styrkur sögunnar og gerir það að verkum að Alma gleymist ekki strax að lestri loknum. — Ég er að minnsta kosti enn nokkrum vikum eftir lestur að vona að hún hafi ekki látið klippa sig stutt eftir síðasta tímann hjá Snæfríði sálgreini. Hárið og teygjan ýmist um stertinn eða úlnliðinn hafði gegn of þýðingarmiklu hlutverki í pælingum hennar.
Englaryk er saga um fólk, ungt og gamalt, vígt og óvígt, trúað og vantrúað sem er að leita að merkingu, reyna að skilja sig og sína, lífið, tilveruna og trúna. Það gerir söguna svolítið sérstaka miðað við þá epísku skáldsagnahefð sem hér er svo sterk.