Trú, menning, samfélag 1

Hjalti Hugason, 1. December 2014 18:32

RÚV/Rás 1 16. nóv. 2014
Það hefur komið í minn hlut að leggja orð í belg um trú, menningu og samfélag á þessum vettvangi í kvöld og þrjá næstu sunnudaga. Ekki er víst að þú munir leggja við hlustir allan þann tíma. Sjálfum finnst mér þó mikilvægt að eitthvert samhengi sé í þessum pistlum mínum. Í kvöld mun ég því fyrst og fremst fjalla um fyrirbærið trú. Síðar mun ég velta fyrir mér samspili trúar menningar og samfélags út frá ýmsum bæjardyrum.
Hugleiðingar mínar munu óhjákvæmilega markast af að ég er alinn upp í landi þar sem kristin trú hefur verið ríkjandi í 1000 ár. Auk þess hef ég lagt stund á guðfræði og starfað sem prestur. Vonandi tekst mér þó að einhverju leyti að fjalla um trú almennt þannig að fleiri en þau sem telja sig kristin kannist við eitthvað það sem sagt verður um trúna.

Í samræðum um trú gætir þess oft að litið sé svo á að hún hljóti eðli sínu samkvæmt að vera bjargföst sannfæring um samfellt kenningarkerfi sem spanni viðhorf til allra hluta frá sköpun heims til efsta dags — eða frá fæðingu til dauða ef við þrengjum sjónarhornið. Þá verður þess oft vart að jafnvel djúpt þenkjandi fólk líti svo á að öll trú hljóti að vera bókstafstrú og fallist viðmælandi ekki á það er hann sakaður um undanslátt ef ekki afneitun á trú sinni. Þá hefur því lengi verið haldið fram að trú slæfi vitund trúaðra fyrir vandamálum þessa heim og vitund þeirra fyrir ranglæti í samfélaginu, geri trúaða að undirgefnum þegnum sem ekki axla fullgilda ábyrgð borgara í nútímasamfélagi. Þetta sjónarmið felur í sér að trú sé „ópíum fyrir fólkið“ eins og forðum var komist svo smellið að orði. Þá er þess auðvitað að geta að mörgum finnst trú og trúarleg afstaða beinlínis heimskuleg. Nú nýlega heyrði ég þessari afstöðu lýst svo að viðkomandi kvaðst einfaldlega fá aulahroll þegar trúarleg málefni bæri á góma.
Ég ætla mér ekki að svara öllum þessum mótbárum við trúna. Þær eru þó ögrandi og örfandi og gott að hafa þær huga þegar rætt er um trú.
— — —
Eigi að fjalla um trú á sæmilega skýrum nótum verður að gera greinarmun á trú, trúarbrögðum og trúarstofnunum — það er kirkjum og trúfélögum. Að vísu er óskandi að trú sé að finna bæði innan trúarbragða og trúarstofnana. Ekki er þó víst að svo sé alltaf og óhjákvæmilega! Líkt og hugsjónir rúmast ekkert endilega í stjórnmálaflokkum sem öðrum þræði eru valdastofnanir og samtryggingarsamtök er ekki öruggt að trúarstofnanir rúmi eða séu bornar uppi af trú. Þær geta líka verið hagsmunablokkir og skiptir stærð þeirra og staða ekki sköpum um hvort svo fer eða ekki. Uppbygging, hugmyndir um hlutverkaskiptingu leikra og lærðra og ekki síst sjálfsmynd leiðtoganna skipta þar ekki síður máli.
Ýmislegt bendir til að tími hinnar hörðu efnishyggju sem réð ríkjum víða um hinn vestræna heim á 20. öld sé nú liðinn. Margir fræðimenn benda á að á síðustu áratugum hafi mikil andleg vakning átt sér stað á Vesturlöndum og að fólk leiti nú í ríkum mæli hvíldar, kyrrðar, afdreps eða andrýmis í erli dagsins líkt og gert var áður fyrr og þá sótt til kirkna, klaustra og annarra trúarlegra stofnana eða helgra staða. — Þeir hinir sömu benda þó á að einkenni þessarar nýju vakningar sé að fólk leiti ekki á hefðbundin mið og að þessi andlega frekar en trúarlega nýbylgja streymi því í raun framhjá trúarstofnunum á borð við þjóðkirkjuna og önnur hefðbundin trúfélög. Á trúarsviðinu gætir sem sé ekki ósvipaðra aðstæðna og vart verður í heilsugeiranum þar sem margir snúa baki við viðtekinni læknisfræðilegri þekkingu og vestrænum lyfjaiðnaði en leita í þess stað uppi óhefðbundnar lækningar og náttúrulyf. Því kemur yoga-iðkun og íhugunartækni af austrænum rótum í stað kirkjuferða og þátttöku í kirkjustarfi hjá mörgum. Þetta mættu kirkjur og trúarstofnanir vissulega hugleiða. Nýtast aðferðir þeirra og áherslur nútímaaðstæðum eða láta þær leitandi sálir frá sér fara án þess að megna að veita þeim þá næringu sem leitað er?
Sú leit margra að aukinni dýpt í líf sitt og tilveru sem víða má finna stað í nútímanum bendir að mínu mati til að við höfum mörg ríka þörf sem hugsanlega er okkur eðlislæg og meðfædd og felst í þrá eftir einhverju öðru en hinn sýnilegi og áþreifanlegi veruleiki hefur uppá að bjóða. Ég ætla ekki að kalla þetta trúarþörf eins og oft hefur verið gert, heldur þörf fyrir eitthvað sem við getum nefnt „annað“, handanlægt, hulið, dulmagnað, leyndardómsfullt eða hvernig sem við kjósum nú að lýsa því hvert fyrir sig sem þrá okkar beinist að. Þetta er ein hlið á þörf okkar flestra fyrir eitthvað sem setur okkur í víðara samhengi, lýkur upp fyrir okkur huldum víddum tilverunnar, skapar lífi okkar mark og mið og tengir okkur við allífið, frumupphafið, hinstu rök tilverunnar, Guð. Vissulega er það ekki trúin ein sem uppfyllir þessa þörf eða þrá heldur má í þessu sambandi benda á ástina, listirnar eða náttúruna, óspjölluð víðernin sem við Íslendingar erum enn svo auðgu af hvað sem verður í náinni framtíð ef áform um loftlínur, malbikaða vegi yfir hálendið og enn fleiri virkjanir ná fram að ganga.
— — —
Í trúarbragðafræðunum eru til kenningar í þá veru að trú felist ekki fyrst og fremst í skoðunum, kenningum eða trúarjátningum heldur einmitt í leitt okkar að tilgangi, markmiði, samhengi og samsvörun við eitthvað sem er æðra og meira en við sjálf. Því sé öll leit að samhengi í tilverunni í raun trúarleg, hvort sem hún svo beinist að okkar mati að Guði, mennskunni, samfélaginu, náttúrunni eða einhverju því sem við kunnum að líta á sem heilagt eða að minnsta kosti heilt og háleitt. Á þeim grunni má halda því fram að allt leitandi fólk og öll þau sem leitast við að breyta samkvæmt þeim hugsjónum sem þeim eru helgastar sé trúað þegar upp er staðið.
Hér skal slíkum kenningum alls ekki haldið fram. Þær kunna að varpa fersku ljósi á trú og trúarbrögð en þær svipta fólk sjálfsákvörðunarrétti á þann hátt sem ekki verður við unað. Hvert og eitt okkar verður að hafa óskorað frelsi til að skilgreina lífsskoðun sína sem trúarlega eða veraldlega hvað sem öllum fræðitúlkunum líður. Við ættum hins vegar að gera okkur grein fyrir að himinn og haf skilur ekki að viðleitni þeirra sem leita þrám sínum fullnægingar á sviði trúarinnar og hinna sem gera það með hjálp listanna, upplifunar af náttúrunni, íhugun af einhverju tagi eða eftir enn öðrum leiðum.
Auðvitað kann öll viðleitni sem er fólgin í að lyfta okkur upp fyrir hið hversdaglega og leita annars en hins augljósa að vera hlægileg, aulaleg og fallin til að vekja kjánahroll þeirra sem láta sér nægja raunsæja og einfalda sýn á heiminn og manninn í heiminum — nú eða leita hins háleita eftir öðrum leiðum en þeirri sem hrollinn vekur hjá hverjum og einum! En að leið trúarinnar sé í sjálfu sér hægilegri, fráleitari eða heimskulegri en aðrar leiðir að markinu er ekki svo augljóst.
— — —
Trúin kom inn í líf mitt þegar ég var á barnsaldri. Það hefur eflaust orðið mér bæði til góðs og staðið mér fyrir þrifum líkt og flest sem fyrir okkur kemur og við vinnum úr með mismunandi móti á lífsleiðinni. Þessi trúarlega uppvakning mín gerðist ekki í skjótri svipan með brauki og bramli sem ég get tímasett eða rakið til einhverrar ákveðinnar reynslu. Heldur varð þetta fyrir hægfara mótun í sunnudagaskóla sem rekinn var norður á Akureyri í húsi sem síðar varð miðstöð Framsóknarflokksins en hýsir nú sjúkraþjálfunarstofu. Þar má e.t.v. segja að andinn hafi vikið fyrir efninu þótt ég efist raunar um að svo sé ef pólitíska skeiðinu í sögu hússins er sleppt!
Fyrsta trúarlega minning mín á rætur að rekja aftur til þess tíma er ég var enn á foraðgerðastiginu svo stuðst sé við orðaforða Jean Piaget án þess að ég ætli endilega að gera kenningar hans að mínum. Ég var með öðrum orðum enn á því þroskastigi að sjá aðeins mitt eigið sjónarhorn og hafði enn ekki öðlast hæfni til óhlutbundinnar hugsunar þótt ég væri tekinn að skilja tákn og merkingu þeirra að einhverju örlitlu leyti. Ég gæti hafa verið 4-5 ára gamall og hef greinilega haft svolítið neutrótískar tilhneigingar. Um þetta leyti lærði ég bænarversið alkunna:
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni.
Sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.

Nú veit ég ekki hvernig barokkskáldið Sigurður Jónsson frá Presthólum hugsaði sér þessa mynd af englahjörðinni. Sjálfur skildi ég hana fullkomlega hlutbundnum skilningi. Því þurfti yfirsængin að vera alveg slétt þannig að englarnir gætu nú setið þar væng í væng í reglulegum hring yfir bringunni á mér. Eins var mikilvægt að ég hitti á réttan tíma til að fara með bænina en það gerði ég með því að biðja hennar strax og ég var lagstur uppí þar sem annars var ekki víst að hún yrði yfirleitt heyrð. Mér þótti raunar ólíklegt að Guð gæti sjálfur verið að rekast í að hluta á bænir krakka eins og mín. Hann hlaut að hafa til þess önnur ráð. Líklegast þótt mér að postularnir tveir og tveir saman væðu skýjaðan himininn líkt og snæviþakta jörð og hlustuðu svo niður um vakirnar, rofin eða heiðríkjublettina yfr rúmmi hvers og eins okkar barnanna um allan heim sem hlytu að vera að biðja sínar bænir um svipað leyti. Þessa bókstaflegu túlkun mína útfærði ég svo enn frekar með hjálp biblíumynda í pre-rafaelískum stíl sem útbýtt var í sunnudagaskólanum. — Að þessari helgistund minni afstaðinni sveif ég inn í svefninn sannfærður að allt yrði í besta lagi á komandi nóttu og um alla framtíð og okkur mundi öllum vegna vel.

Síðar þroskaðist ég yfir á stig hlutbundinna og loks formlegra aðgerða svo enn sé vísað til Piagets og tók að hugsa óhlutbundið og afstætt, setja mig að einhverju leyti í annarra spor og skilja heiminn út frá örlítið víðara sjónarhorni en eigin nafla þótt enn eigi ég vissulega mikið ólært í þeim efnum. Ég lærði vo guðfræði og var um skeið atvinnumaður á sviði trúarinnar. Loks gróf ég mig niður í kirkjusögu og hef upp frá því eytt æfinni í að skoða hvernig kristnin breyttist smám saman — úr grasrótarheyfingu kvenna og karla af lágum stigum sem yfirgáfu net sín og báta og slógust í fylgd með Jesú frá Nasaret — yfir í valdastofnun sem sem seildist til stöðugt vaxandi valda yfir hugsunum og tilfinningum fólks — gekk inn í hlutverk þess sem skilgreinir hvað sé rétt og hvað rangt við breytilegar aðstæður daglegs lífs.

— — —

Trúin hefur fylgt mér á fyrrgreindri vegferð minni en auðvitað hefur hún umbylts á ýmsa lund og mér er nú ljóst að hún hefur margar hliðar. Trúin eins og ég skil hana nú felst ekki fyrst og fremst í fullvissu og sannfæringu heldur stundum miklu frekar í áleitnum grun, von og hikandi trausti um að líf okkar allra hafi mark og mið þótt það virðist oft ofurselt tilviljunum, óláni og jafnvel ranglæti. En svo hefur trúin líka myrkari tóna eins og allar mannlegar kenndir. Trú getur t.d. leitt til vonleysis, biturðar eða reiði ef því er að skipta. — Trúin verður eins og allt annað sem við berum með okkur á æviferðinni að vaxa og þroskast með okkur.

Nú á miðjum aldri hef ég gaman af því að rifja upp hugmyndir mínar um Guð, bænir og bænheyrslu í brensku og bera þær saman við trúarhugmyndir mínar nú. Þá var Guðmynd mín skýr og greinileg en hefur með tímanum orðið óræðari og óljósari. Nú á ég raunar í erfiðleikum með að lýsa mynd minni af Guði. Ég held að það stafi ekki af því að ég hafi endilega misst sjónar af honum eða hann sagt skilið við mig einhvers staðar á leiðinni heldur hafi lotning mín ef til vill aukist. Ég hef líklega einnig öðlast þá dómgreind að sjá að ég kem aldrei til með að skilja eða skynja hugarheim trúarinnar nema í óljósri mynd og get ekki gert neina kröfu um að ég hafi höndlað sannleikann í þeim efnum fremur en öðrum. — Í því felast þó ekki afneitun á því að Sannleikur kunni að vera til og að okkur beri að leita hans.