Trú menning, samfélag 2

Hjalti Hugason, 1. December 2014 18:34

RÚV/Rás 1 23. nóv. 2014

Við Íslendingar erum þjóð sem haldin er augljósri minnimáttarkennd. Við spegla okkur stöðug í augum annarra, berum okkur saman við aðra og sannfærum okkur um að við komum vel út úr samanburðinum a.m.k. miðað við höfðatölu sem hagstætt er að grípa til þegar á okkur hallar. Við drögum líka fram sérstöðu okkar og leitum í framhaldi af því að sérstöku hlutverki okkar í heiminum — köllun, mission eða Messíasar-hlutverk svo notuð séu hugtök frá guðfræðinni eða úr málfari trúarinnar. Stöðugt leitum við að nýju og nýju sviði þar sem við getum haslað okkur völl, skarað fram úr eða markað þáttaskil. Ef það er ekki á sviði erfðarannsókna er það á fjármálamarkaðinum vansællar minningar eða á einhverjum enn öðrum vettvangi.
Og það er vissulega rétt að við höfum sérstöðu. Til skamms tíma eða að hart nær fram að síðari heimstyrjöld bjó þjóðin við nánast algera kyrrstöðu í hagrænu tilliti. Hún var tiltölulega einangruð og enn í dag erum við örþjóð. Lengst af höfum við líka verið fylgihnöttur annarra ríkja, fyrst Norðmanna, síðan Dana, þá Englendinga um hríð og loks Bandaríkjamanna. Það voru ekki mörg ár sem við vorum frjáls, sjálfstæð og öðrum óháð frá Gamla sáttmála 1264 fram að Hruni 2008. Þetta greinir okkur vissulega frá mörgum ríkjum Evrópu. Frændur okkar Danir og Svíar voru t.d. stórveldi á sínum tíma og Norðmenn náðu sér á strik löngu á undan okkur. Og nú eru þeir búnir að taka okkur í tog a.m.k. hvað varðar vopnabúnað fyrir landhelgisgæslu og lögreglu. Það er svo annað mál hvort þessi sérstaða er styrkleiki okkar eða veikleiki og hvort við getum öðlast eitthvert alþjóðlegt hlutvek út á hana.
Hvað sem því líður er ljóst að 1100 ára saga okkar hefur skilað okkur óvenju samstæðu samfélagi hvað varðar tungu, menningu, trú og reynsluheim. Það eru ótrúlega fáir einstaklingar sem fluttst hafa til landsins frá landnámi og fram á 20. öld. Það væri næstum því hægt að telja þá upp í ekki allt of löngu máli. Hingað komu nokkrir erlendir biskupar á miðöldum, síðar höfuðsmenn, hirðstjórar, amtmenn og stiftamtmenn að ógleymdum dönskum faktorum. Fæstir þeirra tengdust landsmönnum traustum böndum. Svo voru nokkrir af öðru sauðahúsi sem ílentust, eignuðust afkomendur og runnu þannig saman við okkur hin. Upp í hugann koma Jón Matthíasson prestur og prentari Jóns Arasonar og Skáneyjar-Lassi sárasóttarlæknir á 16. öld; Franz Íbsson í Hruna, dankur fóstursonur Þórðar Þorlákssonar biskups á 17. öld og auðvitað Hans Jónatan á Djúpavogi á þeirri 19. Svo kvæntust nokkrir Hafnarstúdentar dönskum konum sem fluttu með þeim hingað á klakann. Á ensku og þýsku öldinni sem og í tíð Baska hér hefur líka verið eitthvað um náið samneyti og nokkrar konur giftust og fluttu utan. Annars var hér lítil blóðblöndun allt fram að ástandi. Af þessum sökum hefur sagan skilað okkur fram á þennan dag sem einstaklega einsleitri þjóð og líklega stendur þessi hreinleiki okkur bókstaflega fyrir þrifum. Er það ekki hann sem veldur því að við höldum að við búum að skýrum þjóðareinkennum sem greina okkur frá öðrum — gera okkur einstök?
— — —
Eitt af því sem við Íslendingar teljum okkur til tekna er að við séum einstaklega víðsýn og frjálslynd þjóð og þá ekki síst í trúarefnum. Meðal okkar gætir vissulega ekki snarpra trúardeilna og við tökumst ekki á um kenningarleg málefni hvorki innan né utan kirkju þótt auðvitað gæti blæbrigðamunar. Í sumum nágrannalöndum okkar olli prestsvígsla kvenna um miðja 20. öld snörpum deilum. Svo var ekki hér. Þá var þjóðkirkja okkar meðal fyrstu hliðstæðra kirkna í heiminum til að taka upp hjónavígslu samkynhneigðra án teljandi átaka. Þó er spurning hvort friðsöm lausn okkar á þessum málum segi eitthvað um víðsýni okkar og frjálslyndi eða hvort fyrir henni séu einhverjar aðrar ástæður. Hugsanlega veldur sérstæð trúarsaga okkar því að hér á landi sé eiginlega ekki grundvöllur fyrir trúardeilum.
Hér skal ekki seilst svo langt að vísa til átakalítillar kristnitöku þjóðarinnar um aldamótin 1000 eða því haldið fram að órofa samhengis gæti í kirkjusögu okkar frá upphafi þar sem siðaskiptin á 16. öld hafi átt sér stað vegna erlends þrýstings en ekki vegna frumkvæðis landsmanna sjálfra. Ég læt nægja að benda á að á 19. öld urðu hér engar trúarlegar alþýðuvakningar eins og gerðist víðast annars staðar á Norðurlöndum. Hér varð þjóðernisvakning, félagsmálavakning, útgáfuvakning, bindindisvakning og seint og síðar meir lýðræðisvakning, verkalýðsvakning og jafnréttisvakning. Líklega rúmaði fámennis- og dreifbýlissamfélagið ekki fleiri vakningar. Í trúarefnum fórum við alla vega inn í 20. öldina sem samstæð lúthersk þjóð. Enn í dag tæpum 140 árum eftir að dönsk stjórnvöld komu hér á trúfrelsi að meira eða minna leyti í trássi við pólitíska leitoga okkar hafa furðu fáir notað það frelsi sitt til að yfirgefa þjóðkirkjuna og stofna önnur trúfélög.
Vissulega starfa hér 44 skráð trú- og lífsskoðunarfélög auk þjóðkirkjunnar. Samanlagt teljast þó einungis um 13 % þjóðarinnar til þeirra og þar af tilheyrir aðeins tæpt 1% trúfélögum utan kristni. Rúm 6 % landsmanna tilheyra ótilgreinndum og óskráðum trúfélögum og rúm 5 % standa utan trú- og lífsskoðunarfélaga. Þess má geta að tæpur helmingur skráðu trúfélaganna er svo fámennur að þau mælast ekki í prósenttölum Hagstofunnar. — Í ljósi þessara talna má halda því fram að íslenska samfélagið sé trúarlega samstætt á sögulegum, lútherskum grunni og að tæpast sé hér um að ræða trúarlega fjölmenningu í neinni venjulegri merkingu.
En höfum nú í huga að fjölmenning er ekki einvörðungu lýðfræðilegs eðlis og verður ekki alfarið mæld á tölfræðilegan máta. Fjölmenning er miklu frekar ástand eða aðstæður sem nálgast verður út frá sjónarhorni mannréttinda þar sem tölfræðin má sín lítils og þar sem taka verður því ríkara tillit til minnihluta því smærri sem hann er. Á vettvangi mannréttinda skiptir minnihlutinn nefnilega meira máli en meirihlutinn!
— — —

Ég viðraði áðan efasemdir mínar um að við gætum talist víðsýn og umburðarlynd þjóð í trúarefnum. Ég ætla nú að stíga feti framar og fullyrða að við séum það ekki. Ég ætla að halda því fram að þegar öllu sé á botninn hvolft séum við lokuð, bæld og hrædd á því sviði. Líklega vitum við ekki til fulls í hvorn fótinn við eigum að stíga í trúarmálefnum í upphafi 21. aldar.

Þetta álit mitt reisi ég á umræðum sem spunnust á liðnu sumri um lóðarúthluntun til Félags múslima á Íslandi og staðið hefur með hléum síðan. Forsaga málsins er að um árabil hefur félagið farið þess á leit við yfirvöld á höfuðborgarsvæðinu að fá lóð fyrir tilbeiðsluhús en kirkjur múslima kallast sem kunnugt er moskur. Málið hefur velkst um í kerfinu og hafa ýmsir staðir þótt koma til greina. Semma var tekið að ræða um að ekki mætti moskan rísa í Breiðholti þar sem hætta væri á að þar mundi hún valda samþjöppun og einangrun múslima líkt og gerst hafi í stórborgum erlendis. Einhvern tíman mun hafa komið til tals að moska risi í Öskjuhlíð. Þá heyrðist sú mótbára að hún mætti ekki gnæfa yfir kirkjugarðinn í Fossvogi. Síðar kom annar staður til álita. Sá þótti geta valdið því að Bessastaði og moskuna bæri saman á myndum undir ákveðnum sjónarhornum. Ekki þótti það ganga Loks var Félaginu afhent lóð í Sogamýri. Þótt ýmsum moskan þá komin í borgarhlið Reykjavíkur. Ekki er mögulegt að líta á mótbárur af þessu tagi þannig að um skipulagsvanda sé að ræða. Þær rista býpra en svo. Í þeim felst annars vegar að ekki megi múslimir mynda hér of þéttan kjarna en hins vegar að þeir megi ekki verða of sýnilegir í samfélaginu og borgarmyndinni. Hér skal fallist á það sjónarmið að best sé að fylgjendur hinna ýmsu trúarbragða blandist sem mest og samlagist sem fyrst. Hitt sjónarmiðið er alvarlegra ef múslimum eða öðrum trúarlegum minnihlutahópum er ætlað að verða eins og óhreinu börnin hennar Evu, að þeir megi vissulega búa hér en þeim beri að vera ósýnilegir.

Við sveitastjórnarkosningarnar í vor öðlaðist málið svo óvænt pólitíska vídd þegar oddviti Framsóknar í höfuðborginn kvað upp úr um að „meðan við erum með þjóðkirkju eigum við ekki að úthluta lóðum undir hús eins og moskur eða kirkjur fyrir grísku rétttrúnaðarkirkjuna“, eins og hún komst að orði. Eins og kunnugt er vann flokkurinn mikið fylgi á síðustu metrum kosningabaráttunnar. Niðurstöður könnunar sem MMR birti svo í haust benda til að það hafi ekki síst verið vegna þessarar afstöðu. En í könnuninni kom fram að rúm 40 % kváðust andvíg því að Félag múslima fengi að reisa trúarbyggingar á Íslandi. Þá kom einnig fram að aðeins tæp 30 % voru því fylgjandi en nokkuð hærra hlutfall var því fylgjandi að Rússneska réttrúnaðarkirkjan fengi að reisa hér kirkju og að Búddistar fengju hér trúarbyggingu. Rétt tæpur helmingur svarenda kvaðst hins vegar fylgjandi að Ásatrúarfélagið fengi að reisa sér hof og tæplega 2/3 svarenda voru fylgjandi því að þjóðkirkjan fengi áfram að reisa hér kirkjur. Þessar tölur leiða að mínu mati í ljós að hinn dæmigerði Íslendingur óttast það sem kalla má framandi í trúarefnum og vill að fylgjendur annarra trúarbragða en þeirra sem líta má á sem þjóðleg fái að iðka trú sína við eðlilegar aðstæður. Þetta eru dapurlegar niðurstöður.

Í tengslum við sveitarstjórnarkosningarnar lýstu margir sig líka andvíga því að sveitarfélög úthlutuðu trúfélögum ókeypis lóðum. Þar á meðal var oddviti Sjálfstæðisflokksins sem kvað slíkt ekki eiga við á 21. öld. Óljóst er hvað það er við þessa nýbyrjuðu öld sem kann að valda þeirri afstöðu. Líklega á þetta atriði einmitt sérstaklega við nú á dögum þegar trúarflóran verður sífellt fjölbreyttari með auknum fólksflutningum og þegar stöðugt meira mun reyna á jöfnuð þeirra sem hingað flytja og okkar sem fyrir erum. Það skal þó vakin athygli á að himinn og haf ber á milli þeirra sjónarmiða hvort múslimum eða öðrum með skamma sögu í landinu skuli úthlutað lóðum fyrir tilbeiðsluhús og hins að lóðin skuli vera ókeypis. Fyrri spurningin lýtur ótvírætt að mannréttindum. Hin síðari er frekar praktísk eðlis þótt hún feli einnig í sér trúarbragðaréttarlega hlið.

— — —

Í stjórnarskránni segir að allir eigi rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins, að enginn megi neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna, sem og að allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til trúarbragða. Á grundvelli þessarar trúfrelsishefðar sem komið var á 1874 og endurnýjuð 1995 er ljóst að ekki er mögulegt að meina opinberlega skráðum trúfélögum að koma sér upp þeim tilbeiðsluhúsum sem þau telja sér nauðsynleg. Þannig stappar nærri mannréttindabroti hve lengi vafðist fyrir borgaryfirvöldum að úthluta múlimum heppilegri lóð.
Á hinn bóginn er stjórnarskrár- og lagaumhverfi hér með þeim hætti að lög gera aðeins ráð fyrir að þjóðkirkjan fái úthlutað ókeypis lóðum fyrir kirkjur. Því kæmust dómstólar væntanlega að þeirri niðurstöðu að ekki fælist mismunun í að gera Ásatrúarfélaginu, múslimum eða hvaða öðru trú- eða lífsskoðunarfélagi sem er að greiða lóðargjöld. Sú góða hefð hefur hins vegar mótast hér að veita smærri trúfélögum nokkra hlutdeild í þeim styrk og stuðningi sem stjórnarskráin áskilur þjóðkirkjunni af hálfu hins opinbera. Í þjóðkirkjufyrirkomulaginu felst vissulega mismunun sem vel má færa rök fyrir að sé málefnaleg og því heimil án þess að til núnings komi á sviði mannréttinda. Í fyrirkomulaginu felst hins vegar ekki mismununarskylda og vonandi verður haldið áfram á þeirri braut að auka jöfnuði á trúamálasviðinu eins og á öðrum sviðum. Það mun til lengdar ekki aðeins gagnast minnihlutahópum heldur einnig þjóðkirkjunni.

Það er óskandi að okkur Íslendingum beri gæfa til að taka vel á móti þeim sem hingað leita úr fjarlægum heimshornum og gera þeim í senn auðvelt fyrir með að samlagast samfélaginu en einnig að halda tryggð við eigin rætur, sögu og menningu eins og okkur er sjálfum svo mikið í mun síst er við dveljum fjærri ættjörðinni. Eigi þetta að takast verðum við ekki hvað síst að gera nýbúum okkar kleift að ástunda trú sína. Ef okkur tekst að vinna farsællega og fordómalaust á þessu sviði gætum við skapað okkur jákvæða sérstöðu í samfélagi þjóðanna en víða hefur þetta reynst torvelt og valdið spennu og átökum.