Trú, menning, samfélag 3

Hjalti Hugason, 1. December 2014 19:23

RÚV/Rás 1, 30 nóv. 2014

Í dag er hátíðardagur í kirkjunni. Fyrsti sunnudagur í aðventu markar upphaf nýs kirkjuárs og breytir sjónarhorni safnaðarins. Í predikunartextum liðinna sunnudaga var litið um öxl. Með fyrsta sunnudegi í aðventu tekur kirkjan að beina sjónum til bæði nálægrar og fjarlægrar framtíðar.
— — —
Aðventan er tvíbentur tími og ber enda tvö nöfn en hún kallast einnig jólafasta. Fyrrum var aðventan föstu-, iðrunar- og undirbúningstími líkt og langafasta fyrir páska sem við Íslendingar tengjum af skiljanlegum ástæðum við Passíusálma sr. Hallgríms. Nú hefur hins vegar orðið breyting á bæði innan kirkju og utan. — Fyrir fáum árum hnaut ég um auglýsingu frá veitingahúsi í Reykjavík sem hvatti fólk til að halda jólaföstuna við gnægtarborð þess! Þarna gætti virðingarverðra málvöndunar. Aðventa er vissulega tökuorð. Það er þó einhver mótsögn í að fasta við jólahlaðborð. Þarna hafði neyslusamfélagið tekið yfir og teflt lystisemdum holdsins gegn andanum.
Í einu nágrannalanda okkar tók umpólun aðventunar á sig aðra mynd. Prestum í opna skjöldu tók fólk að þypast í kirkju á fyrsta sunnudegi í aðventu. Talað var um aðventuvakningu og horft með tilhlökkun til jólanna sjálfra. Þá brá aftur á móti svo við að hefðbundin messusókn brást. Þegar eftir var grennslast kom í ljós að mörgum fannst hagkvæmt að ljúka þessu kirkjulega af sem fyrst. Það væri þá meira næði til að halda jólin friði án þess þó að finnast sem eitthvað væri vanrækt.
———
Ég efa ekki að aðventan sé sérstakur og innihaldsríkur tími fyrir okkur öll, hvernig svo sem við kjósum að verja henni. Ljósum fjölgar í svartasta skammdeginu og við segjum myrkrinu stríð á hendur. Við búum í haginn fyrir okkur sjálf og þau sem okkur eru kær fyrir hátíðirnar. Mörg sækja eflaust tónleika, fylgjast með upplestri úr nýjum bókum eða gefa sér tóm til einhvers annars sem nærir andann. Við ættum líka að minnast þess að tími eins og jólafastan kallar okkur til ábyrgðar við þau sem standa höllum fæti eða líða skort enda gefast okkur nú mörg tilefni til að styrkja góð málefni. Í blálok aðventunar söfnumst við svo mörg saman í friðargöngur þar sem þess er kostur og sýnum þannig í örlitlu verki vilja til að stuðla að réttlætti en án þess verður enginn friður í heiminum. Sum fara á aðventukvöld eða taka þátt í öðrum kirkju- eða trúarlegum atburðum. — Þannig reynum við hvert með sínum hætti að gera aðventuna merkingarbæra og setja neysluhyggjunni einhverjar skorður. Við lifum þó og hrærumst í einu harðasta neyslusamfélagi heims og það mótar okkur öll bæði á aðventu, jólum og í annan tíma.
— — —
Hvernig sem við kjósum að nota aðventuna er hún þó upphaflega kirkjulegt fyrirbæri og þangað sækir hún einmitt hið alþjóðlega heiti sitt sem á rætur að rekja til adventus Domini í latínu. En það merkir „koma Drottins“. Þessar fjórar síðustu vikur fyrir jól beinir kirkjan einnig sjónum sínum fram á við að komu Krists í líkingu barns í jötu en einnig öðru fyrirbæri sem kallað er endurkoma Krists. Með því er m.a. vísað til dómsdagshugmyndarinnar sem sr. Hallgrímur lýsir svo í 27. Passíusálmi (11. v.):

Ó, Jesú, það er játning mín:
Ég mun um síðar njóta þín,
þegar þú dýrðar Drottinn minn,
dómstól í skýjum setur þinn.

— — —
Í guðfræðinni ríkja vissulega ólíkar túlkanir á endurkomu-stefinu. Sumir fræðimenn líta svo á að hún muni eiga sér stað í óræðri framtíð þegar Kristur birist í skýjum himsins með mætti og dýrð, þannig að hvert kné muni beygja sig fyrir honum og að vilji hans verða „svo á jörðu sem á himni“. Fyrst þá muni Guðs ríkið sem Kristi er svo tíðrætt um í guðspjöllunum ganga í garð en þá verði jafnframt endir bundinn á okkar efnis- og tímalega veruleika.
Aðrir álíta að stefið vísi til þess er Kristur vitjaði lærisveina sinna eftir upprisuna og þeim veittist heilagur andi á fyrstu kristnu hvítasunnunni sem kallast stofndagur kirkjunnar. Því sé Guð ríkið þegar orðið að veruleika okkar á meðal og að okkur beri að leitast við að lifa í anda þess hér og nú.
Þá eru dómsdagshugmyndirnar einnig skildar mismunandi skilningi. Sum okkar líta að dauðstundina sem dómsdag, önnur telja að við munum hvert um sig mæta dómara okkar að viðskilnaðinum loknum, enn önnur að mannkyni býði eitt stórt lokauppgjör á efsta degi. Hugsanlega lifum við öll okkar dómsdag í krefjandi aðstæðum daglegs lífs þegar við verðum að velja eða hafna og taka afdrifaríkar ákvarðanir sem snerta ekki aðeins okkur sjálf. — Allar þessar hugmyndir kalla okkur þó til ábyrgðar, draga fram að líf okkar og breytni skiptir máli. Á okkur hvílir sú áyrgð að reynast almennilegar manneskjur og að taka þátt í að byggju upp betri heim.
— — —

Ummæli um endurkomu Krists, hinn efsta dag eða dómsdag eru óræð og torskilin jafnvel þeim sem er vel heima í málfari trúarinnar. Hvort svo sem slíkar hugmyndir höfða til okkar eða ekki ætti umræða um heimsendi þó ekki að vera okkur sérlega framandi enda gætir slíkra hugmynda ekki aðeins í Biblíunni og kristnum trúararfi heldur skjóta þær víða upp kollinum í bókmenntum bæði fornum og nýjum. Þá ætti okkur að vera algjörlega ljóst að heimsendir er fullkomlega raunhæfur möguleiki. — Þá á ég ekki við dómsdag í trúarlegum skilningi heldur heimsendir af völdum okkar sjálfra.
Þessi tvö stef, trúarlegur heimsendir og heimsendir af manna völdum, fela í sér andstæðar sviðsmyndir. Heimsendir af manna völdum má líkja við dystópíu. Trúarlegur heimsendir er hins vegar hliðstæða útópíu. — Dystópía er hugsaður eða tilbúinn staður eða samfélag sem einkennist af vonleysi en útópíur einkennast af von. Útópían opnar sýn að ónýttum möguleikum. Dystópían varar aftur á móti við hættu eða vá sem vofir yfir. Himnaríki er frummynd útópíunnar en Helvíti er dystópían í sinni hreinræktuðustu mynd.
— — —
Nú er mikið rætt um nýtt kalt stríð. Um daga fyrra kalda stríðsins var kjarnorkuváin sú ógn sem mannkyni stóð mest hætta af og kallaði sterkast fram vitundina um að heimsendir af manna völdum væri trúlega á næsta leyti. Í hugum okkar sem þá vorum börn fólst ógnin í hugmynd um hnapp á borði í Hvíta húsinu eða Kreml sem þrýsta mætti á og binda þar með enda á þá veröld sem við settum traust okkar á.
Nú hefur kjarnorkuváin þokað fyrir öðrum ógnum. Reglulega erum við þó minnt á hana. Herveldum heimsins hentar oft annað tveggja að minna á eyðingarmátt sinn með kjarnorkutilraunum eða svala þörf sinni fyrir skilgreindan óvin með ásökunum um að raunverulegur eða meintur andstæðingur hafi yfir gjöreyðingarvopnum að ráð. — Sú ógn sem við stöndum frammi fyrir nú á dögum er samt annars eðlis. Hún er eins og þokubakki úti við sjóndeildarhringinn sem nálgast stöðugt knúinn áfram af lífsstíl okka Vesturlandabúa.
Þessi skuggi hefur tekið á sig ýmsar myndir eftir því sem hann hefur þokast nær. Ein af fyrstu birtingarmyndunum sem athygli heimsins var vakin á var sú hætta sem stafaði af stóraukinni notkun skordýra- og illgresiseyða eins og DDT í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar og varð síðar ein af grunnstoðum grænu byltingarinnar. Einna fyrst til að afhjúpa stórfelldar og langvarandi afleiðingar af notkun hinna nýju efna var Rachel Carson og þá einkum með bók sinni Silent Spring sem í íslenskri þýðingu nefnist Raddir vorsins þagna og varð „kult-bók“ heillar kynslóðar. Í bókinni gekkst Carson á málefnalegan nótum á hólm við ríka hagsmuni í landbúnaði, hratt af stað umhverfisverndarbylgju og lagði drjúgan skerf við að móta vistfræðina sem þá var í burðarliðnum.
Á bókarkápu íslensku útgáfunnar segir á látlausan hátt að höfundurinn hafi látist 57 ára að aldri árið áður en þýðingin kom út. Sannleikurinn er öllu nöturlegri. Rachel Carsson féll fyrir eigin hendi eins og svo óhugnanlega margir aðrir brautryðjendur í náttúruvernd um þetta leyti. Sá grunur leitar óneitanlega á að sú framtíðarsýn sem blasti við þeim en ekki síður sú óvægna andstaða sem hagsmunaaðilar beittu þau hafi bókstaflega orðið þeim að bana.
Hér heima hófst náttúruverndarhreyfingin nokkru síðar eða á sjöunda áratug liðinnar aldar. Í ársbyrjun 1971 ritaði Laxness t.d. fræga grein, þar sem hann ræddi „hernaðinn gegn landinu“ og réðst einkum gegn stóriðjustefnunni sem staðið hefur æ síðan en mælti einnig fyrir vernd og endurheimt votlendis sem nú er hafin í örlitlum mæli.
— — —
Nú síðast eru loftslagsbreytingar af manna völdum sú vá sem tekin er að setja mark sitt á umhverfi okkar og framtíð. Ég kýs að verða nokkuð persónulegur til að skapa nánd við vandann sem við er að etja. Á síðasta hlaupársdag eignaðist ég dótturson. Egill sem þá fæddist á góða möguleika á að verða jafngamall og langafi hans var þá eða 88 ára. Það gerist einmitt 2100 en það er viðmiðunarár í spám Alþjóðaloftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna um hækkun hitastigs. — Sá dómsadagur mun sem sé renna upp í tíð núlifandi fólks.
Spárnar sem nýlega hafa raunar verið endurskoðaðar gera ráð fyrir að hiti hafi þá hækkað um allt að 4o C. Hlýnunin getur þó jafnvel orðið enn meir eða allt að rúmum 6o C. Hún mun leiða til þess að hitabylgjur verða tíðari á alheimsvísu, útbreiðsla skordýra mun aukast, þurrkasvæði jarðar stækka. Skert aðgengi að vatni mun valda landeyðingu, dauða búpenings og jafnvel manna. Úrhelli og steypireng munu þó jafnframt verða algengari með rofi og jarðvegsruðningi. Fellibyljum mun og fjölga og þeir ásamt hlýnuninni valda flóðbylgjum og hækkun sjávar með aukinni seltu á þeim svæðum sem verst verða úti. Áður en strákurinn sem ég nefndi áðan verður 10 ára gæti landbúnaðaruppskera í Afríku þegar hafa dregist saman um helming með tilheyrandi hungursneyð. Áður en hann verður fimmtugur gætu fiskveiðar verið hrundar ef núverandi sókn heldur áfram. En í skýrslum kemur fram að nú er á heimsvísu veitt um 250% meira en raunhæft er til að fiskistofnarnir séu sjálfbærir.
— — —
Þessi sviðsmynd bendir til að varnaðarorð Alþjóðanefndar um framtíð matvæla og landbúnaðar fái staðist en í skýrslu hennar segir:
Því hefur verið fleygt fram að loftslagsvandinn sé stærsta prófraun sem mannkynið hefur nokkurn tímann staðið frammi fyrir, enda munu örlög milljóna manna og dýrategunda ráðast af því hvort samfélög heimsins grípa til sameiginlegra aðgerða eður ei.

Alvarleiki þessa rennur líklega fyrst upp fyrir okkur þegar við tökum tillit til þess efnahagslega, félagslega og pólitíska óstöðugleika sem mun fylgja í kjölfar loftslagsvandans. Það gerist um leið og þeir hlutar mannkyns sem verst verða út taka að krefjast — ef ekki réttlætis — þá í það minnsta réttar síns til lífs. En ef að líkum lætur munum við sem betur eru sett reyna að verja núverandi lífsform okkar með kjafti og klóm. Lífsstíll okkar byggist eins og við vitum öll á ranglátri skiptingu jarðargæða.
Þessi skelfilega sviðsmynd sem er ekki aðeins fjarlægur möguleiki heldur veruleiki sem steðjar að í náinni framtíð að öllu óbreyttu. Frammi fyrir henni er mikilvægt að við veltum fyrir okkur hlutverki og áskorunum trúarbragða og trúarstofnana á „öldinni okkar“, 21. öldinni. Kirkjur og trúfélög verða eins og öll almannasamtök önnur að takast á við vandann.
— — —
Ef a.m.k. vestræn trúarbrögð eiga einhvern sameiginlegan grunntón sem vert er að þau haldi á lofti við núverandi aðstæður er það virðing fyrir lífinu og uppruna þess ásamt þeirri þrá að lífið í þessum heimi haldi velli í öllum sínum fjölbreytileika. Hugmyndin um sköpunina gengur eiginlega út á þetta. Framtíðarvídd vestrænnar trúarhugsunar er því frekar útópísk en dystópísk svo aftur sé gripið til þessara lánsorða. Dystópían kemur þar þó vissulega við sögu en þá einkum sem víti til að varast.
Við núverandi aðstæður er mikilvægt að kirkjur og trúfélög leggi sitt af mörkum í baráttunni fyrir áframhaldandi lífi hér á jörðu, standi vörð um náttúruna, líffræðilegan fjölbreytileika og hreinleika, hlúi að móður Jörð og öllu því sem hún ber í alltumlykjandi faðmi sínum. Þeim ber líka að stuðla að réttlátri skiptingu jarðargæða og friði og jafnvægi í heiminum. Leggi þau sitt af mörkum mun trúin ekki reynast „opíum fyrir fólki“ eins og hún er oft sökuð um!