Trú, menning, samfélag 4

Hjalti Hugason, 7. December 2014 20:28

RÚV/Rás 1, 7. des. 2014

Trú og trúarbrögð hafa verið ofarlega á baugi á þessari nýbyrjuðu 21. öld.
Úti í hinum stóra heimi ber þar hæst harðnandi afstöðu og auknar aðgerðir í nafni íslamisma en það er vel að merkja ekki það sama og íslam. Íslamistar eru í sjálfu sér ólíkri innbyrðis en eiga það sameiginlegt að vilja haga samfélaginu eftir bókstaflegum skilningi á íslömskum lögum, stofna hreinræktuð íslömsk ríki. Þeir eru með öðrum orðum pólitísk, íslömsk hreyfing og þegar verst lætur grípa fylgjendur hennar til óvönduðsutu meðala sem ekki er mögulegt að verja. Við hin megum þó ekki láta þennan arm villa okkur sýn þannig að við setjum samasemmerki milli íslamista og múslima. Flestir múslimir eru friðelskandi, trúað fólk sem margt má læra af. — Við skulum hins vegar vona að aldrei komi upp þær aðstæður hér á landi að ungir múslimar finni sig knúna til að ganga íslamsima á hönd. Margir úr þeirra röðum koma einmitt frá Vesturlöndum þar sem þeir hafa hafnað í stöðu annars flokks borgara og finna sig knúna til að leita sér framtíðar með örþrifaráðum, jafnvel með því að ganga til liðs við hryðjuverkasamtök.
Ef við Íslendingar viljum leggja okkar af mörkum til að sporna gegn þeirri óöld sem af íslmaisma kann að stafa í framtíðinni gerum við það best með því að vinna á heimavelli. Þar á ég við að við tökum vel á móti þeim múslimum sem hingað leita og umgöngumst þá af vinsemd og virðingu, veitum þeim fullan borgararétt í samfélagi okkar.
— — —
Hér heima hefur líka komið til núnings í trúarefnum en hér liggur átakalínan milli trúarlegra og veraldlegra sjónarmiða. Hugsanlega má í þessu efni seilast allt aftur til kristnihátíðarinnar á aldamótaárinu en þá stefndu ríki og kirkja þjóðinni til Þingvalla eins og venja var á hátíðarstundum á „öldinni sem leið“. Þjóðin mætti hins vegar ekki á staðinn eða a.m.k. ekki í þeim mæli sem vænst var. Kannski vitnaði þetta um að hvörf hefðu orðið í trúarsögunni — sem sé að kristnin sem tekið var við á Þingvöllum í tíð Gissurar hvíta, Síðu-Halls og Þorgeirs Ljósvetningagoða ætti ekki lengur þau ítök í þjóðinni sem verið hafði.
Svo þarf þó vissulega ekki að vera. Að hátíðinni stóðu að hluta sömu enbættismenn og boðað höfðu til þjóðvegahátíðarinnar miklu fáum árum áður. Þau sem sátu föst í bílum sínum þá hafa varla viljað eiga það á hættu öðru sinni og fordæmið ekki aðeins fælt þau frá. Þá kann líka að vera að tími rómantískra þjóðfunda á hinum helgu völlum hafi einfaldlega verið liðinn.
— — —
Kirkju- og trúmál bar einnig nokkuð á góma í aðdraganda kosninga til stjórnlagaþings 2010 sem fóru nú eins og þær fóru. Þá var þjóðkirkjuákvæði stjórnarskrárinnar mikið rætt við þjóðaratkvæðagreiðsluna um frumvarp stjórlagaráðs tveimur árum síðar. Nú má velta fyrir sér kjörsókn, orðalagi spurningarinnar sem spurt var, hvort samspil spurninganna hafi e.t.v. ýtt undir jákvætt svar og hvernig túlka beri svarið. Niðurstaðan verður þó ætíð sú sama: Svar meirihlutans var „Já“ og það verður að virða eigi ekki að grafa undan þjóðaratkvæðagreiðslum almennt og yfirleitt. Þetta dæmi bendir til þess að ekki megi túlka dræma þátttöku í kristnihátíðinn sem svo að róttæk breyting hafi orðið á trú þjóðarinnar.
Í þessu sambandi má enn benda á stefnu Mannréttindaráðs Reykjavíkur og í framhaldi borgarinnar sjálfrar um samskipti skóla við trú- og lífsskoðunarhópa og gagnrýni margra á henni og nú síðast baráttu fyrir því að Orð kvöldsins og morgunbænir verði áfram á dagskrá Ríkisútvarpsins. Þar var vissulega ekki aðeins um formleg viðbrögð biskups og kirkjulegra stofnana að ræða heldur fjöldahreyfingu í netheimum en fésbókarsíða um málið hafði þegar að var gáð vel á 7. þúsund stuðningsmanna.
— — —

Þær aðstæður sem hér var lýst túlkum við með afar ólíku móti. Í röðum kirkjufólks heyrist því oft fleygt að „sótt sé að kirkju og kristni“, trúfélögum og þá ekki síst þjóðkirkjunni séu settar óeðlilega þröngar skorður og að upp sé kominn hópur fólks sem telja að vernda þurfi börn innan 18 ára aldurs fyrir „barnavininum mesta“. Á hinn bóginn telja aðrir að hér ríki ekki nema takmarkað trúfrelsi, mismunun vegna trúar sé óeðlileg og þjóðkirkjuskipanin sem slík brjóti jafnvel í bága við mannréttindi.

Kirkjur og trúfélög verða að gera sér grein fyrir að hér hafa orðið stórvægilegar þjóðfélagsbreytingar sem valda því að staða þeirra í samfélaginu hlýtur að vera allt önnur en fyrrum. Eftir Hrunið virðist líka hafa orðið hér ákveðin hugarfarsbreyting. Afstaða er nú látin í ljós með beinskeyttari hætti en áður, gagnrýni er afdráttarlausari og þolmörk samfélagsins fyrir stofnunum með hefðbundna stöðu að ekki sé talað um forréttindastöðu minna en fyrrum. E.t.v. var það einmitt þess vegna sem Ríkisútvarpið var gagnrýnt svo hart þegar dregið var úr trúarlegu efni á dagskrá þess. Í gagnrýninni fólst sá broddur að niðurskurðurinn fæli í sér vanmat á trúnni þegar hin raunverulega ástæða var líklega aðeins vanheimtur á útvarpsgjaldi úr fjárhirslum ríkisins og niðurskurður stuttra dagskrárliða í kjölfarið. En það er sami vandi og fram kemur í vanheimtum á sóknargjöldum og kirkjur og trúfélög vita að hefur sár og skaðleg áhrif.

Þjóðkirkjan þarf alveg sérstaklega að sæta því að gagnrýni beinist að henni og hefðbundinni stöðu hennar í samfélaginu. Hún er í augum margra sérstakt tákn gamalla tíma. Hún er vel í stakk búin til að svara þeirri gagnrýni og ætti að gera það af stolti og sjálfsöryggi. Auðvitað ber henni einnig að líta í eigin barm og laga sig að breyttum aðstæðum þar sem það á við.

— — —

Ekki skal dregið í efa að mörgum sem tilheyra minnihlutahópum í trú- og lífsskoðunrefnum finnist oft að sér þrengt í íslensku samfélagi. Það á ekki síst við um þau sem standa utan allra trúfélaga, tilheyra veraldlegum lífsskoðunarfélögum eða aðhyllast önnur trúarbrögð en kristni. — Hér skulu ekki bornar brigður á slíkar tilfinningar né efast um réttmæti þeirra. — Aftur á móti má spyrja hvort slík þregsli stafi að íslensku þjóðkirkjuskipaninni og trúarbragðaréttinum í landinu almennt eða hinu hversu óvenju samtoga þjóðin er á sögulegum, kristnum og lútherskum grunni. Sú arfleifð aldanna mótar auðvitað samfélagið með margvíslegu móti sem við í meirihlutanum eru ugglaust mikið til ómeðvituð um.

Þessum aðstæðum verður þó ekki breytt með lagasetningu eða stjórnvaldsaðgerðum enda gætu lausnir af því tagi raunar brotið í bága við menningu okkar og reynst annað tveggja gagnslausar eða ankanalegar í opnu lýðræðissamfélagi. — Lengi má breyta og bæta í trúmálarétti. Menningarlegum aðstæðum verður aftur á móti ekki breytt hvorki með handafli né formlegum samþykktum. Þá ber og að varast að gengisfella orð og hugtök á borð við trúfrelsi, mannréttindi og jöfnuð eða öllu heldur yfirlýsingar um brot á þessu öllu með því að heimfæra slíka dóma upp á aðstæður sem á alþjóðavísu mætti jafnvel segja að væru í fararbroddi á sviði trúmálaréttar.

— — —
Í þeim núningi sem hér hefur verið rætt um eru hvorki á ferðinni trúarofsóknir né ofsatrú og afturhvarf til fornra tíma með trúaránauð og innrætingu. Þvert á móti erum við sem þjóð og samfélag að reyna að fóta okkur í nýjum aðstæðum. Við erum að þreifa eftir því hvar mörkin eigi að liggja milli hins trúarlega og veraldlega í samfélaginu og menningunni sem og hins opinbera sviðs og einkarýmisins ekki síst í trúarefnum. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra hvar í flokki sem við stöndum varðandi trú og lífsskoðun að leita að þessum mörkum þannig að við getum öll þrifist í sama samfélagi, þ.e. haft a.m.k ein lög ef ekki „einn sið“ eins og eitt sinn var komist að orði að sögn Ara fróða. Ekki er nema eðlilegt að slík leit taki tíma og reyni á gömul gildi og samskiptahætti. Hér erum við raunar á sama báti og ýmsar aðrar lýðræðisþjóðir m.a. grannar okkar á Norðurlöndum.
— — —
Það er almennt viðtekið í mannréttindaumræðu að gæta þurfi jafnræðis í trúarefnum í hinu opinbera rými og alveg sérstaklega á stöðum þar sem einstaklingar dvelja nauðugir eða eru lögum samkvæmt skyldir til að vera. Öll mundum við sjálfsagt dvelja nauðug í fangelsi þrátt fyrir að við hefðum gerst brotleg. Þá óskar sér enginn að dvelja á sjúkrahúsi þrátt fyrir að við leitum þangað af fúsum og frjálsum vilja þegar á bjátar og væntum okkur þá bestu þjónustu sem völ er á.
Nú er það svo að hér starfar lútherskur fangaprestur og sjúkrahúsprestar á stærstu spítölum okkar. Orkar það tvímælis út frá mannréttindasjónarmiðum? Tæpast. Þessi þjónusta er hugsuð út frá forsendum þiggjendanna. Hún felst í stuðningi við fanga eða sjúklinga, aðstandendur þeirra og jafnvel starfsfólk stofnanna eftir því sem hver og einn óskar. Hún er ekki ágeng og felst ekki í trúboði a.m.k. ef faglega er að verki staðið. Á hinn bóginn veldur þjónusta þjóðkirkjunnar í fangelsum og á sjúkrahúsum því að þessar stofnanir þurfa að gera ráðstafanir til að tryggja öllum sem þess óska sambærilega stuðningsþjónustu á öðrum trúarlegum eða hreint veraldlegum grunni.
— — —
Vonandi dvelur ekkert barn okkar á meðal nauðugt í grunnskóla þótt oft sé þeim þar margt mótdrægt því miður. Þeim er hins vegar skylt að sækja skóla og við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að gera þeim dvölina þar sem ánægju- og þroskavænlegasta. Því er allt þróunarstarf sem lýtur að því að efla hag nemenda og bæta aðstæður þeirra til góðs. Það er sameiginlegt hlutverk skólans, starfsmanna hans og stjórnenda, foreldra og forráðamanna barna en líka allra þeirra einstaklinga og stofnana sem láta sig velferð barna varða.
Engin ástæða er til að ætla annað en Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar hafi fyrir nokkrum misserum tekið frumkvæði um að settar yrðu verklagseglur um samskipti skóla í borginni við trú- og lífsskoðunarhópa í þeim anda. Niðurstaðan af þeirri umræðu sem þá fór fram hefur líka skýrt línur að ýmsu leyti. Aftur á móti má hugleiða hversu langt kjörnir sveitarstjórnarmenn og nefndir og ráð á þeirra vegum ættu að ganga í reglusetningu í þessu efni.
Farsælli leið gæti falist í að mannréttaráð og –nefndir á vegum hins opinbera efndu til umræðna og fræðslu um hvaða grundvallarsjónarmiða beri að gæta í trúarefnum og á öðrum sviðum þar sem reynir á mannréttindi. Síðan mætti fela fagfólki á vettvangi, kennurum og skólastjórnendum að ákveða hvað er við hæfi og hvað ekki á hverjum stað. Það kann að vera breytilegt eftir hverfum í Reykjavík svo ekki sé borin saman stórborg og strjálbýli. Þetta bæri auðvitað að gera í samvinnu við forráðamenn sem hafa frumlægan rétt til að ráða mótun barna sinna er að trú og lífsskoðunum kemur.
— — —
Öll ættum við að geta verið sammála um að munur er á fræðslu um trú og trúarbrögð sem er eðlilegt hlutverk skyldunámsskóla og fræðslu í trú eða til trúar sem er hlutverk heimila og trúfélaga. Trúarleg innræting ætti hins vegar hvergi að eiga sér stað. Það er ekki þroskavænleg leið í nokkru tilliti og á ekkert skylt við trúarlega boðun. Þá er ljóst að í skyldunámsskólum mega ekki ríkja þær aðstæður að börn séu gerð öðruvísi, sérstaða þeirra kölluð fram eða þau gerð útundan af trúarlegum ástæðum Þá ætti að vera sem allra minnst þörf fyrir undanþágur og öllum að bjóðast verðug og sambærileg verkefni ef til þeirra kemur. Sé alls þessa gætt er áhorfsmál hvort ekki sé of langt gengið að banna kynningu á tómstunastarfi sem börnum kann að standa til boða utan skólatíma hvort sem það er á vegum íþróttafélaga, skáta, lífsskoðunarfélaga, trúfélaga þjóðkirkju eða annarra. — Tæpast er óskandi að þröskuldar grunnskóla séu gerðir of háir eða eldveggir séu reistir milli þeirra og þess umhverfis sem börn dvelja í að öðru leyti.
— — —
Hér hefur verið staldrað við nokkur atriði sem öll ganga út frá því að einhver algerlega augljós skil liggi milli þess sem er veraldlegt og trúarlegt eða opinbert og einstaklingsbundið. Í raun er þetta ákaflega vestræn, nútímaleg og tæknileg hugsun sem byggð er á heimsmynd náttúruvísindanna í yfirfærðri og alþýðlegri útgáfu. Í öðrum heimshlutum er lífssýnin víðast miklu heildrænni og svo var vissulega einnig á Vesturlöndum fyrr á tíð. Það er ekki endilega víst að við höfum skapað okkur besta hugsanlega heim allra heima á þennan hátt. Sennilega er meira flæði milli hins trúarlega og veraldlega ekkert skaðlegt. En þá þurfum við líka að virða hvert annað, umbera ólíkar skoðanir og þora að lifa saman í sátt og samlyndi í einhverju sem sumum kann að virðast fjölmenningarlegur glundroði.