Ljós í myrkri

Hjalti Hugason, 18. December 2014 13:00

Jólasöngur starfsfólks HÍ, 18. des. 2014

Við höfum nú í enn eitt skiptið heyrt heilagt guðspjall jólanna, þ.e. a. s. hið þekktasta þeirra. Árlega kemur það til okkar, tengir okkur við liðna tíma en beinir líka sjónum okkar fram á við, til hátíðarinnar sem fer í hönd.
Jólaguðspjöllin í Nýja testamentinu eru fleiri eða að minnsta kosti þrjú. Fæðingarfrásaga Mattheusar-guðspjalls er rituð út frá sjónarhóli Jósefs sem vissulega er líkt og hornreka í frásögu Lúkasar-guðspjalls. Annars er frásaga Mattheusar grimm: full af lævísi og grimmd, flótta, ofbeldi og barnamorðum. Þar koma engir himneskir herskarar við sögu þótt engill boðaði vissulega fæðingu frelsaran. Þar er María þó ekki ávörpuð heldur Jósef.
Jólaguðspjall Jóhannesar er aftur á móti gríðarlega „abstrakt“. Það hefst á orðunum: „Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð.“ Hér er Orðið þýðing á Logos sem kemur fyrir í „lógík“ og ýmsum orðmyndum öðrum sem tegjast rökum, rökræðum, vitsmunum og skynsemi. Jóhannes flytur ef til vill jólaguðspjall heimspekinga og háskólaborgara. Hann tengir hið „abstrakta“ orð þó einnig við raunheminn:
Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum. En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans.
Orð er sterkt hugtak sem miðlar margháttuðum boðskap. — Ljós sem skín í myrkri er ekki síður sterkt tákn. Það skiljum við sem upplifum íslenskt skammdegismyrkur eins og það gerist svartast einmitt nú dagana fyrir vetrarsólhvörf. Myrkrið sem við erum stödd í þessa dagana gera aðventuna, þessar þrjár til fjórar vikurnar fyrir jól svo mikilvægan og magnþrunginn tíma.
Aðventan felur einmitt í sér andóf, mótmæli, uppreisn eða bylting gegn myrkri. Þegar skammdegið gerist svartast kveikjum við ljós. Á liðnum vikum hafa mörg okkar vísast sett upp seríur á svölum eða í trjám og runnum, komið fyrir ljósastjökum eða stjörnum í gluggum. Ljósunum hefur stöðugt fjölgað og gleðja augað í öllum regbogans litum.
Ljós sem lýsir í myrkri er tákn um líf og er í raun frummynd vonar. Ljósið lýsir upp myrkur, dreifir hita — ef ekki í bókstaflegum skilningi þá í óeiginlegri merkingu — og nú á allar síðustu tímum höfum við lært að ljós vinnur jafnvel gegn þunglyndi og depur. Þannig nærir ljósið lífið á ótrúlega marga vegu. Ljósið boðar líka sigur lífsins yfir dauðanum. Þegar við kveikjum á kerti við leiði ástvinar eins og sum okkar eiga ef til vill eftir að gera á komandi jólum er það yfirlýsing okkar þess efnis að lífið sé máttugra en dauðinn. Það er sigri hrósandi vitnisburður um upprisutrú og von um endurfundi jafnvel þótt auðvitað fylgi líka sorg og tregi en vonandi umfram allt þakklæti.
Ljós er tákn sem ekki verður misskilið í skammdeginu. En það er til annars konar myrkur og skammdegismyrkrið er ekki það versta. Til er sálrænt myrkur, svartnætti sem hellst getur yfir okkur hvenær og hvar sem er á lífleiðinn og raunar hvernig sem stendur á. Jarðnesk gæði og líkamlegt atgerfi getur ekki komið í veg fyrir það. Það er einnig til andlegt myrkur sem getur búið um sig í huga þess sem finnst Guð fjarri en tómið og tilgangasleysið blasa við. Einnig má tala um félagslegt myrkur sem getur lagst yfir heil lönd og ríki. Á árunum sem liðin eru frá Hruni má segja að það hafi verið meiri sorti yfir samfélagi okkar en um langan tíma fyrir Hrun. Víst hefur rofað til síðan í Búsáhaldabyltingunni en það er enn ekki orðið bjart. Andstæðurnar í samfélaginu eru að aukast og það hryktir víða í stoðum velferðarkerfisins eins og umræðurnar um fjárlög næsta árs hafa borið vitni um.
Ef til vill er átt við slíkt félagslegt myrkur í jólatextanum þekkta sem ábyggilega er tekinn að hljóma í hugum einhverra:
Sú þjóð, sem í myrkri gengur,
sér mikið ljós.
Yfir þau sem búa í landi náttmyrkranna
skín ljós.
2Þú eykur stórum fögnuðinn,
gerir gleðina mikla.
Menn gleðjast fyrir augliti þínu
eins og þegar uppskeru er fagnað,... (Jes 9.1–2)

Einnig í félagslegu myrkri hefur ljósið táknræna merkingu sem veitir von. Það er til ljós sem lýst getur upp lönd náttmyrkranna, ljós réttlætis, friðar og sáttargjörðar.

Við skulum leitast við að láta þetta ljós lýsa okkur á komandi dögum en ekki síður gera okkur far um að reyna að bera það áfram til þeirra sem við lifum með og umgöngumst. Þannig leggjum við okkar litla skerf af mörkum til að ljós Guðs lýsi í þessum heimi og geri hann mannúðlegan og boðlegan öllum mönnum en ekki aðeins okkur sem búum okkur nú undir að fagna komu frelsarans við gnægtarborðið sem bíður okkar. — Guð gefi okkur náð til Þess!