Trúarbrögð og ofbeldi

Hjalti Hugason, 23. January 2015 12:09

Ásamt Sólveigu Önnu Bóasdóttur

Undanfarið hafa spunnist miklar umræður um þá ógn sem ýmsir telja að stafi af múslimum m.a. hér á landi. Mörgum hefur verið umhugað um að ekki verði hafnað þeim kristnu gildum sem virt hafi verið hér í þúsund ár. Þessi gildi eru talin undirstaða þess friðar sem ríkir á Vesturlöndum nú um stundir. Samkvæmt þessu sjónarmiði er ofbeldisógn ekki talin vestræn heldur er hún álitin koma utanfrá og þá ekki síst frá trúarhugmyndum múslima.

Andstæð gildi?
Sú skoðun er algeng að kristin trú sé friðsöm en íslamstrú ekki. Stenst það og er raunhæft að líta svo á að trúarkenningar og trúarrit hvetji öðru fremur til ofbeldis? Hvernig ber þá að réttlæta allt það ofbeldi sem framið er af Vesturlandabúum? Hvert sóttu ráðamenn t.d. réttlætingu fyrir innrás kristinna þjóða í Írak 2003? Fjölmargir vestrænir ráðamenn studdu hana, þar á meðal íslenskir ráðherrar.
Við sem þetta ritum erum að vísu ekki sérfræðingar í íslömskum fræðum né í Kóraninum. Við gerum okkur þó ljóst að þar er að finna fjölmarga staði þar sem rætt er um ofbeldi og það réttlætt sem boðorð Guðs. Hið sama má raunar segja um trúarrit kristinna manna, Biblíuna, einkum ýmis rit Gamla testamentisins. Þar er ofbeldi víða fyrirferðarmikið og hvatt til hefnda og ófriðar. Í báðum trúarritum má því finna tengsl trúar og ofbeldis en ekki síður tengsl trúar og friðar.

Bókstafstrú
Tilvísun til trúarbókstafs er ekki framandi fyrir kristið fólk frekar en múslima. Um langt skeið mótaði kristin bókstafstrú afstöðu einstaklinga og hópa í ýmsum samfélagslegum málefnum bæði hér og erlendis. Svo er víða enn.
Íslenska samfélagið einkenndist t.d. til skamms tíma af hugmyndum feðraveldis og forræðishyggju sem voru rökstuddar með tilvísun til bókstaflegrar túlkunar Biblíunnar. Lausleg trúarsöguleg athugun færir okkur enda heim sanninn um að kristnar og múslimskar trúarhugmyndir eru ákaflega líkar hvort sem þær lúta að friði eða ofbeldi. Af því leiðir að skírskotun til trúarhugmynda hefur takmarkað gildi þegar skýra á ofbeldi.

Trú og stjórnmál
Trú og stjórnmál voru til skamms tíma samtvinnuð á Vesturlöndum. Á síðari öldum hefur svokölluð nútímavæðing aftur á móti átt sér stað okkar á meðal. Hún lýsir sér ekki síst í að trúmál hafa verið leidd til sætis á einkasviðinu en stjórnmálum komið fyrir á almannasviðinu. Í íslömskum ríkjum hefur þessi þróun ekki átt sér stað í sama mæli. Trú og stjórnmál eru þar enn samofin eins og tíðkaðist hjá okkur áður fyrr. Enn er líka svo að margar kristnar kirkjur og trúfélög eiga langt í land með að geta kallast nútímaleg.
Af framansögðu leiðir að við leysum ekki þann vanda sem mörgum virðist ríkja í samskiptum kristinna manna og múslima með að halda fram kostum kristinna gilda en ókostum hinna múslimsku. Gildi þessara trúarbragða eru mun líkari en margur hyggur.

Berjumst gegn ofbeldi
Við verðum að berjast gegn ofbeldi í öllum myndum en megum ekki einblína á hryðjuverk íslamista. Við verðum t.d. að líta í eigin barm og mótmæla gegndarlausu ofbeldi sem kristnir valdamenn standa fyrir og réttlæta með að þeir séu verndarar mannréttinda og lýðræðis á alþjóðavísu. — Ofbeldi er ofbeldi, hvar og hvernig sem það birtist og hver sem beitir því. Ofbeldi er alltaf mannfjandsamlegt hvort sem í hlut eiga einstaklingar eða heil samfélög. Þetta á ekki síst við linnulaust pólitískt ofbeldi sem beitt er á veraldarvísu og er réttlætt með reglum alþjóðasamfélagsins.

Samstaða er lausnin
Mikilvægt er að samfélög sem ekki hafa innleitt mannréttindi og frelsi borgurum sínum til handa verði studd í að tileinka sér þessi gildi. Við sem erum kristin getum ekki eignað okkur einum þessi grundvallargildi. Þvert á móti verðum við að viðurkenna að þeirra má víða sjá stað bæði í trúarlegu og veraldlegu samhengi. Sama má segja um samstöðu, samhyggð, samlíðan og siðvit. Þetta eru mannlegir eiginleikar sem alls staðar má finna burtséð frá trúarbrögðum. Hið sama á við um ofbeldi. Það er alls staðar að finna og birtingarmyndir þess eru bæði trúarlegar og veraldlegar. Skörp aðgreining hins trúarlega og veraldlega á enda ekki rétt á sér í öllu tilliti.
Í stað þess að stilla upp andstæðum kristins og íslamsks eða trúarlegs og veraldlegs er heillavænlegra að halda til haga því besta úr hugsjónum hvers um sig og sameinast um allt sem horfir til farsældar fyrir einstaklinga og samfélög.

Eggert Þór Bernharðsson — Minningarorð

Hjalti Hugason, 13. January 2015 19:25

Minningarorð við útför Eggerts Þórs Bernharðssonar í Hallgrímskirkju
13. jan. 2015

Óleiðrétt handrit.
(Nokkrir kaflar voru felldir brott í flutningi)

Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama
en orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur.
(Hávamál 76)
Frammi fyrir alvöru lífs og dauða leita spekiorð úr ýmsum áttum á hugann. Til þeirra sækjum við þrótt og visku til að halda áttum á erfiðum stundum. — Þessi fornu orð leituðu sterkt á mig fyrstu daga ársins.
Strax og andlát Eggerts Þórs spurðist og samstarfsfólk hans í Nýja-Garði hafði náð áttum, hóf það undirbúning að minningarstund. Hún var haldin áður en hverdagsannir hófust í húsinu. Þá varð mér ljóst að óvenju stórt skarð hafði nú verið hoggi. Við undirbúning stundarinnar var mér líka gert ljós að Eggert hefði ekki verið neinn venjulegur samstafsmaður. Heldur hafi hann átt drýgstan þátt í að móta það góða samfélag sem ríkt hefði á staðnum. — Þessa vildi fólkið minnast — þakka og finna leið til að halda áfram við breyttar aðstæður. — Mér fannst erindið sem ég fór með lýsa best þeim tilfinningum sem ég skynjaði.
— — —
En hvað er þessi orðstír sem aldrei deyr? — Getur það verið orðspor þess sem reynist heill og sannur — hreykir sér ekki upp, öfundar ekki og leitar ekki eigin ávinnings? Þegar ég nokkrum dögum síðar sat með ykkur, fjölskyldunni og nánustu vinum, tók annar texti að hljóma og mér þótti hann lýsa orðstír Eggerts í meiri smáatriðum:
Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki.
Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykri sér ekki upp.
Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki sín eigin,
hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.
Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum.
Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.

Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. (IKor 13.4–8a)

Kalli minningar samferðafólks fram slíka texta hefur verið verið vel lifað. Þá hefur verið lagður grunnur að góðum orðstír, góðum minningum, sem lina sorg og trega þeirra sem eftir lifa. — Í því felst mikil gæfa. Góðar minningar eru haldgott vegarnesti til framtíðar. Það er sammannleg reynsla en líka rauður þráður í lífsstarfi Eggerts Þórs. Hann lét sér ekki annt um söguna af frotíðarfíkn heldur vegna þess að minningar hafa gildi fyrir nútíð og framtíð.

— — —

Eggert Þór fæddist í Reykjavík 2. júní 1958. Hann var yngstur þriggja sona hjónanna Guðrúnar Guðjónsdóttur og Bernharðs Guðmundssonar sem lést 2006. Eldri eru Guðjón Hafsteinn og Guðmundur. Leiðir þeirra Guðrúnar og Bernharðs skildu. En þegar Eggert var 10 ára gekk Guðrún í hjónaband með Gunnari Gissurarsyni. Gunnar gekk Eggerti í föðurstaða og var samband þeirra náið. Gunnar mótaði Eggert mjög sem kunni honum alltaf miklar þakkir fyrir. Gunnar lést 1993 en nafn Gunnars Theodórs heldur minningu hans á lofti.

Þegar á unga árum kom vel í ljós hvern mann Eggert hafði að geyma og eðlisþættir þróuðust sem einkenndu hann síðar fullorðinn mann. Guðrún þakkar syni sínum mikla umhuggju og hjálpsemi en þeim eiginleikum áttu mörg okkar eftir að kynnast þó á öðrum vettvangi væri.

Í fyllingu tímans lauk Eggert stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund. Líklega hafa fleiri en ég álitið að þá hafi hann halið beina leið á vit sagnfræðinganna vestur á Melum. Svo var ekki. Eggert hóf nám í læknisfræði, síðar lá leiðin í sálfræði, íslensku og stjórnmálafræði og hann lagist jafnvel um skeið skeið í sjálfsnám í stærðfræði. Loks kom röðin að sagnfræðinni. Þegar að því kom má líklega líta svo á að Eggert hafi fundið sig í hugmyndalegu samhengi. Hann lauk BA-prófi í sögu og stjórnmálafræði 1983. Meðan á náminu stóð gegndi Eggert flestum trúnaðarstörfum sem stúdentum voru falin í námsgreininni og heimspekideildinni gömlu. Þá varð hann formaður Sagnfræðingafélags Ísland strax og hann öðlaðist sagnfræðings-titil. Skömmu eftir BA-próf sneri Eggert svo aftur „heim“ í söguskorina og nú sem stundakennari frá 1987. Einnig í því hlutverki kom hann að trúnaðarstörfum eftir því sem stundakennarar áttu á annað borð hlut að stjórnun. Meistaranámi lauk Eggert svo í sagnfræði 1992.

— — —
Eggert var Reykjavíkurbarn, alinn upp í Árbæjarhverfi sem þá var vaxtarbroddur borgarinnar. Hann var ekki af þeirri kynslóð sem send var í sveit og varð mikill borgarmaður. Einhver lét þau orð falla að Eggert hafi auk þess verið svo mikill krati að hann hafi á þessum tíma haft ímigust á landsbyggðinni og milda ég þó orðalagið! Stundum þótti honum Reykjavík jafnvel fullþröng og hefði líklega vel geta hugsað sér að lifa og hrærast í mun stærri borg.

Fyrsta stóra verkefni Eggerts eftir að námi lauk kann raunar bæði að vera orsök þessa Reykjavíku-hugarfars og afleiðing þess. Fer mat á því allt eftir því hvort við álítum að menn velji sér verkefni eða verkefnin velji sér menn! Þarna á ég við bindin tvö í Sögu Reykjavíkur. Á eftir fylgdu fleiri verkefni sem lutu að mannlífi, menningu og athafnasemi í borginni. Má þar nefna sögu Leikfélagsins sem hann ritaði með Þórunn, sögu Trésmiðafélagsins, Landsbankans og Íslandsbanka. — Annars ætla ég ekki að rekja hér ritaskrá Eggerts. Aðeins minna á hvernig hugarheimur okkar, áhugamál og viðfangsefni spinnast í flóknu samspili ættar, uppruna, umhverfis og aðstæðan þannig að úr verður líf — heilsteypt en margbrotin tilvera. Lífsskoðun, gildismat og samfélagssýn hefur líka mikil áhrif á viðfangsefni og efnistök okkar — ekki síður í fræðunum en á öðrum sviðum — hvort sem okkur er það ljúft eða leitt.

Ég held því að tilviljun hafi ekki ráðið þegar Eggert hóf næst vinnu að því verkefni sem vakti hvað mesta athygli á ferli hans og olli að mínu mínu mati margháttuðum straumhvörfum. Þarna á ég við stórvikrið Undir bárujárnsboga sem er borgarsaga, félagssaga, alþýðusaga og alþýðleg saga sem vakti mikla athygli á viðfangsefninu, höfundinum en ekki síst högum þeirra sem lifðu og hrærðust undir braggabogunum — um lengri eða skemmri tíma — allt fram til 1970. Ljóst er að með bók Eggerts fengu mörg þau sem búið höfðu í bröggunum uppreisn æru, eigin rödd og mál og djörfung til að gangast við þessum bakgrunni sínum með stolti. Undir bárujarnsboga er því dæmi um hvernig sagnfræðiverk geta haft félagsleg, sálfræðileg og jafnvel sálgæsluleg áhrif. Við útgáfu braggabókarinnar mótaðist líka sú afstaða Eggerts að fræðin ættu að vera almenningseign og fræðimaðurinn maður fólksins. Hann lagði meðal annars áherslu á að bækur sínar ættu að verða eins ódýrar og verða mætti.

Ég hygg líka að þetta verk hafi einnig haft mikil persónuleg áhrif á höfund sinn. Við samninguna kynntist hann meðal annars manni sem alist hafði upp í Camp Knox til sjö ára aldurs. Sá var menntaður bílasmiður og áhugamaður um bílasögu og bílasöfn. Það hefur líklega valdið því að það neistaði saman. Í félagi unnu þeir að nokkrum ritum og sýningum. Upp úr samskiptunum þróaðist öflug vinátta og sjóndeildarhringur Reykjavíkur-fræðimannsins breyttist. Landsbyggðin laukst upp fyrir honum og saman lögðust þeir félagar í lengri eða skemmri ferðir sem voru allt í senn náttúru- og mannlífsskoðun og þautskipulegar safnaheimsóknir. Ein slík stóð í viku, farin var nákvæmlega skipulögð hringferð um landið og ótal safna vitjað enda var Eggert nefndur „maðurinn sem safnaði söfnum“.

Það fer margt milli tveggja karla í bíl þótt þagnir verði líka margar og langar. Samferðamaðurinn segir að þeir hafi rætt margt: Þennan alþekkt dag og veg, söfnin sem á vegi þeirra urðu, ástand þeirra og gæði. Þeir ræddu samt aldrei pólitík en töluvert um hamborgara.— Á þessum ferðum breyttist viðhorf Eggerts til landsbyggðarinnar og náttúrunnar. Maðurinn sem mótaðist á malbikinu féll fyrir landinu, náttúrinni og mannfólkinu í hinum dreifðu byggðum.

Á ferðum spinnast náin kynni. Ég tel því að lýsing þessa samferðamanns á Eggerti búi að töluverðu heimildargildi og dregur ekki úr að heimildarmaður, sem kynntist Eggerti fullþroskuðum. Mannlýsingin er stutt og laggóð en kunnugleg: “Hann er rólegur, en vill að hlutirnir gangi, er ákveðinn og stendur fast á sínu. Það þýðir ekkert að þræta við hann.“ — „Það sem mér líkar best í fari hans er að ekki er til í honum snefill af menntahroka“. Við þessa mannlýsingu má bæta að Eggert var sjálfkjörinn til forystu hvar sem var, var ærslabelgur í hópi vina og ættingja og hann hafði góða nærveru. Sjálfum fannst mér hann einkennast af hlýju — sem hann vildi að væri dálítið hrjúf!

Ferðir Eggerts skildu einnig eftir sig margs konar afrakstur sem einkum má sjá merki um í vinnuherberginu í Nýja-Garði. Hvarvetna sem hann kom gróf hann upp markaði, minjagripa-, forn- og skransölur og keypti skringulegustu gripi úr öllum áttum. Hér var ekki um söfnunaráráttu að ræða þótt vel kunni hennar að hafa gætt í einhverju. Í þessu kom raunar fram rausnarskapur Eggerts og áhugi hans á tengslum. Ég sé ekki fyrir mér að hann hafi farið með veggjum og raðað þegjandi í körfu sína. Oftar en ekki hefur hann líklega reitt fram greiðsluna með hressilegum hlátri eftir góða samræðu, snúist á hæli og kvatt á sinn kankvísa máta. Og þar er komin meginskýring kaupaáráttunnar. Það var bjargföst skoðun hans að maður ætti að skilja eitthvað eftir sig þar sem maður kæmi — og þá ekki síst fé. Það ætti að ýta undir framtak og frumkvæði, fá hjól athafnalífsins til að snúast þótt í smáu væri og þjóðhagslegur ávinningur væri ekki mikill. Í minjagripasafni Eggerts má því skoða sem eins manns byggðarstefnu og áhuga fyrir grasrótinn í hverjum stað. Hér kom líka fram höfðingslund Eggerts, menn áttu ekki að vera fastir á fé og hann hafði yndi af að gefa góðar gjafir. Hitt var honum líka lagið að gera góð kaup og finn hagkvæmt verð. Hann var höfðingi í lund en ekki hirðulaus um fé.

— — —
Starfsferill Eggerts við Háskólann hófst af fullum karfti er hann var ráðinn fastur stundakennari í sagnfræði 1997 og síðar aðjúnkt 2002. 2006 hlaut hann bæði lektors og dósents-titil og varð prófessor 2009 en þá var fræði- og kennslugrein hans orðin hagnýt menningarmiðlun. Er þar ugglaust komið að merkasta framlagi Eggerts til háskólastarfsins en hann lagði sjálfur grunn að að þessari grein, stýrði henni „með glæsibrag alla tíð og gerði hana að einni helstu aflstöð framhaldsnáms á Hugvísindasviði“ svo ég vísi til ummæla Ástráðs Eysteinssonar, forseta sviðisins. Eggert gat þó ekki gefið sig óskiptan að þessu uppbyggingarstarfi þar sem hann gegndi auk þess umfangsmiklum stjórnunarstörfum: Var formaður sagnfræði- og fornleifafræðiskorar frá 2007 til 2008 er hann tók við starfi deildarforseta í Sagnfræði- og heimspekideild sem þá varð til og gegndi því til 2012. Auk þessa gegndi hann ýmsum nefnda- og trúnaðarstörfum sem ekki verður getið hér.

Eggert hafði ákveðna sérstöðu í hópi háskólafólks af sinni kynslóð. Hann lauk ekki doktorsprófi. Með því tók hann áhættu. Svo hefði geta farið að hlið háskólans lokuðust honum í samkeppni um stöður eða störf sem fór mjög harðnandi meðan hann haslaði sér völl. Þetta val dró þó ekki úr honum frumkvæði, þrótti og áræði í háskólastarfinu heldur varð honum fremur til hvatningar. Hann var framsækinn og metnaðargjarn fyrir hönd þeirra málefna sem hann bar fyrir brjóti og þá ekki síst menningarmiðlunarinnar. Hann stóðst líka hæfismat til hæstu háskólagráðu og gegndi henni með sóma.

Ég hef það líka á tilfinningunni að Eggert hafi ekki látið matskerfi Háskólans stýra verkum sínum um of. Mörg þeirra hefðu líklega getað skilað honum drýgri afrakstri hefði hann lagt þau öðru vísi upp, fækkað myndum en dregið úr alþýðleika, ritað fleiri greinar en færri bækur, skrifað meira á erlendum málum en minna á íslensku. Erindi Eggerts á starfsakur sögunnar var einfaldlega ekki að loka sagnfæðina inni í fílabeinstrurni. Hann vildi taka þátt í að opna hana og víkka, gera hana að almenningseign, færa þjóðinni hana í nýjum búningi. Hann var einn þeirra sem báru hugsjónina um Háskóla Íslands sem þjóðskóla áfram inn í nýja öld.

Fyrir störf sín hlaut Eggert margvíslegan heiður. 1997 hlaut hann viðurkenningu úr Gjöf Jóns Sigurðssonar og viðurkenningu frá Bókasafnssjóði höfunda tveimur árum síðar. Þá voru öll meginrit hans tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna nú síðast nýjasta Reykjavíkurbókurbókin um Sveitina í sálinni. Þar var borgarfræðimaðurinn á sinn hátt að tengja hugarfar þéttbýlis og landsbyggðar og hverfa að nýju að þeirri alþýðsögu sem braggabókin var svo gott dæmi um.

Það er ekki við hæfi orð mín hér verði aðeins helguð sýslulífi Eggerts. En mér er vorkunn þegar kallið kemur á dagsláttunni. Þess skal getið að Eggert féll frá hálfnuðu verki sem ber vinnutitilinn Böðullinn, þjófurinn, hómópatinn og griðkan. Með því vildi hann grafast fyrir um sakamál sem lengi hefur vakið áhuga og heitar tilfinningar en einnig varpa ljói hlutskipti forföður síns sem síðastur manna gekk í böðulshlutverk hér á landi. — Segja má að hér spinnist örlög ætta okkar tveggja saman. Ég er kominn í beinan legg af bróður þess sem hogginn var! Ég vona samt að mögulegt reynist að ljúka verkinu.

— — —

1981 gekk Eggert að eiga Þórunni Erlu- og Valdimarsdóttur sagnfræðing og rithöfund. Synir þeirra eru Gunnar Theodór rithöfundur og bókmenntafræðingur og Valdimar Ágúst tölvunarfræðinemi. Kona Gunnars er Yrsa Þöll Gylfadóttir sem einnig er rithöfundur og bókmenntafræðingur. Þau eiga dótturina Þórhildi Elínu sem er þriggja ára. Eggert naut afahlutverksins og næstsíðasta daginn sem hann lifið var hann með Þórhildi á jólaballi Háskólans. Er þess nú sárt saknað að þau ættu ekki lengir samvistir.

Þórunn og fjölskyldan vissu að Eggert bar til þeirra heita elsku án þess að hann væri alltaf að tjá hana. Þau skynjuðu umhyggju hans og efðuðust ekki um heilan hug. Þórunn lýsir honum sem örlátri orkulind og orkuuppsprettu. Það fer þó ekki milli mála að jafn skapandi fólk og þau voru sjálfstæðir einstaklingar sem fóru hvort sína leið í vinnubrögðum verkefnavali og lífsstíl.

— — —

Í byrjun þessarar athafnar var ef til vill slegið á óvænta strengi. Ég veit ekki hvort þið þekktuð Guðföðurinn í Eggerti eða Eggert í Guðföðurnum. Þetta var þó eitt af þeim stefjum sem urðu að rauðum þræði við undirbúning þessarar athafnar.

Eggert var forfallinn aðdáandi glæpamynda en þær urðu þó að svara ströngum kröfum. Guðfaðirinn var ein þeirra mynda sem stóðust mál. Þetta var þó aðeins einn þátturinn í Guðföður-ímyndinni.

Nemandi og síðar samstarfskona Eggerts bent á að hann hafi stöðugt verið að grafast fyrir um uppruna fólks sem á vegi hans varð, mynda tengsl, koma á samböndum, byggja upp net á stöðugt nýjum sviðum sem með einhverju móti tengdust störfum hans eða áhugamálum. — Sú sem benti á þessi augljósu tengsl við mafíu Guðföðurins var þó fljót að taka fram að Eggert hafi aldrei notaði tengslin sjálfum sér til framdráttar heldur aðeins málefnum — einhverjum af þessum ástríðum sem hann brann fyrir og tengdust svo oft sögunni, menningunni og miðluninni. Þessu að gefa þjóðinni söguna! Í því efni held ég líka að hann hafi verið fullkomlega purkunarlaus við að notfæra sér alla sína töfra og tengsl málefnunum til framdráttar.

Sterkasta tengslanetið í seinni tíð hnýtti Eggert um nemendur sína í hagnýtri menningarmiðlun. Hann bar umhyggju fyrir þeim en gerði líkla til þeirra ríkar og margvíslegar kröfur. Sumar gengu þær nokkuð lengra en almennt gerist. Honum fundust stúdentar sínir til að mynda ekki nægilega passasamir um að vökva plönturnar sem hann vildi að prýddu umhverfi menningarmiðlunarinnar. Þar er komið inn á sérstaka fagurfræði Eggerts sem kom víða fram í umhverfi hans og því sem hann lét frá sér fara.

— — —
Þeirri sem gerst þekkt varð á að lýsa lífshlaupi Eggerts svo að hann hafi lifað tvöföldu lífi á tvöföldum hraða. Þar var þó ekki um að ræða tvöfeldni óheiðarleika og blekkinga heldur hið gagnstæða: Eggert var heill og óskiptur á krefjandi sviði rit- og háskólastarfanna en einnig í umhyggju og samskipum við sína.

Synirnir lýsa því svo að pabbi þeirra hafi alltaf verið að og að hann hafi sífellt verið við tölvuna. Yfir því gladdist vinnufíkillinn sem nú stendur í stólnum. þarna taldi ég mig kominn í efni — ekki endilega til að sverta Eggert — heldur til að skyggja aðeins þá mynd sem mér fannst vissulega vera að grafa um sig hjá mér: Fundu þeir þá ekki til vanrækslu, fannst þeim þá ekki skorta athygli hans og tíma? — Ekki gat ég fengið þá kenningu mína staðfesta. Nema síður væri. Ég fékk lýsingu á fjölþættum og fjörlegum samskiptum. Eggert gat strýtt sonunum eins og öllum öðrum, æst þá og deilt við þá. Í skoðanaskiptum við þá gaf hann ekki eftir en gat svo lýst því hveru gaman það væri að eiga syni sem væru sér ekki sammála! En hann gat líka verið gagnrýnin á þá. Grein sem hann ritaði eitt sinn um „unglinginn sem ekki nennir að hlusta á fréttir“ mun byggð á heimafengnu dæmi! — Hann var þó viðkvæmur gagnvart þeim og mun einhvern tímann hafa látið þau orð falla að sér sárnaði að synirnir litu aldrei í bók eftir hvorugt foreldra sinna. Í þessu mun hann þó hafa yfirdrifið!

En það var óhjákvæmilegt að starfsgleði Eggerts setti mark á heimilislífið. Hann var ástríðumaður sem brann fyrir verkum sínum. Sum þeirra voru líka þannig að hann þau gengu nærri honum og hann var sem hengdur upp á þráð yfir að eitthvað færi úrskeiðis. Það átti til dæmis við um störfin við Gettu betur.

Hann sveiflast líka milli hlutverka á heimilinu. Gunnar Theodór lýsti því hve sér hafi þótt undarlegt ungum að sjá pabba sinn breytast — bakið réttast, handahreyfingarnar verða aðrar og hann taka að tala á annan hátt með nýrri rödd. Þetta gat gerst í símatali en líka í miðjum samræðum fjölskyldunnar. Kennarinn Eggert var mættur til leiks og fór mikinn. Svolítið öðru vísi voru vinasamverur sem oft áttu sér stað á laugardagsmorgnum heima á Bárugötunni. Þá naut fyrirlesarinn Eggert sín vel og vinir hans notfærðu sér hver hafsjór af fróðleik hann var. Í stað þess að leita gagna, fletta upp og lesa sér til var bæði skilvirkara og skemmtilegra að kíkja í kaffi og leita í smiðju Eggerts.

Hraðinn og tvöfeldnin sem drepið var á vísar einnig til afkastanna en ekki síður fjölbreytninnar í miðluninni. Eggert var stöðugt að leita nýrra leiða til að koma sögunni til skila til stöðugt stærri viðtakendahóps. Þar skipti ugglaust máli að hann ólst upp við áhuga á myndum af öllu tagi. Í móðurfjölskyldu hans er til dæmis til ljósmyndasafn sem nær ótrúlega langt aftur af slíki einkasafni að vera. Líklega voru það kynnin af því sem ollu að hann varð fljótt næmur á myndmál og myndgæði og uppgötvaði stöðugt nýjar hliðar á möguleikum myndarinnar sem heimildar og miðlunartækis. Eggert notaði þó myndir ekki aðeins í vinnutengdum tilgangi. Þvert á móti má segja að stafræna ljósmyndunin hafi leyst úr læðingi listamann sem bjó með honum. Hann tók myndir og vann með þær á fjölbreyttan hátt, tók saman myndræna annála sem hann gaf vinum og vandamönnum og hélt tvær ljósmyndasýningar á eigin verkum.

— — —

Eggert gerði ríkar kröfur til sín og lagði sig allan fram um að ná markmiðum sínum. — Það eina sem hann vanrækti var hann sjálfur. — Þórunn og Valdimar höfðu þungar áhyggjur af heilsu hans og lögðu hart að honum að huga betur að henni. Eggert var tregur til að leita lækna en síðan í vor var hann alltaf á leiðinni en taldi sig ekki hafa tíma til fyrr en nýju bókinni væri lokið og henni verið fylgt úr hlaði. Þá taldi hann sig hafa vanrækt kennsluna sem bæta þyrfti úr. Á nýju ári hugðist hann hefja nýtt líf hvað þetta áhrærði. Þessa er getið til að minna okkur á að öllu erum við brothætt og öll ómetanleg. — En „Lífið manns hratt fram hleypur, hafandi enga bið!“

Það fór þó ekki milli mála að síðustu mánuðirnir voru honum gleðitími. Hann hafði öðlast dýpra sjálfstraust, hann var sáttur við verk sín og naut þess að vinna að þeim. Hann elskaði lífið alla tíð, það var honum ástríða og uppspretta stöðugt nýrra áskorana og hann lifði af krafti til hinstu stundar. Fjölskyldan sem nú sér á bak honum þakkar samvistirnar og gleðst yfir því að hann naut sín til hins síðasta og þurfti ekki að þjást.

Kæra Þórunn. Ég lýk þessari fátæklegu tölu með því að vitna til orða þinna frá um daginn. Þú saðir að þú ættir bara „hreina og heilaga sorg“. Í því felst mikil huggun sem mun létta sporin inn í þá framtíð sem nú bíður.

— — —

Ég hef verið beðin að skila nokkrum kveðjum frá fjarstöddum vinum.

Agnes S. Arnórsdóttir í Árósum skrifar:

Þakka fyrir öll góðu árin sem við áttum saman sem félagar í sagnfræðinámi við Háskóla Íslands. Þróttur þinn og kraftur mun halda áfram að verða okkar leiðarljós.
Innilegar samúðarkveðjur!

Ragnheiður Mósesdóttir í Kaupmannahöfn sendir einngi samúðarkveðjur.

Þá senda Jóhann Páll Valdimarsson og Guðrún Sigfúsdóttir útgefendur Eggerts og vinir Þórunni og fjölskyldunni samúðarkveðjur og biðja Guð að styrkja þau öll við fráfall góðs dregns og frábærs verkmanns.

Ég árétta svo að fjölskyldan vill gjarna sjá ykkur öll í niður Iðnó eftir jarðsetninguna.

Þess er vænst að við tökum öll vel undir sálmasönginn hér á eftir!