Englaryk

Hjalti Hugason, 1. December 2014 18:30

Englaryk Guðrúnar Evu Mínervudóttur (JPV 2014) fjallar m.a. um hvað gerist þegar einhver tekur trú sína alveg bókstaflega. Þar á meðal fyrirheiti Krists: „Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar“ (Mt 28. 20) og tekur afleiðingunum af því.
Í sögunni verður Alma Boulanger úr Hólminum líkt og einhvers konar síðbúinn Emmaus-fari. Jesús slæst í fylgd með henni og opnar augu hennar fyrir hulinni vídd. Annars er spurning hvað gerist með Ölmu þegar hún verðu viðskila við foreldra sína og bræður suður í Cádiz. Fékk hún sólsting eða sjokk? Sjálf var hún ekki í vafa. Hún mætti Jesú klæddum bleikum kjól og gráblárri skikkju umluktum reykelsisangan og lykt af þurrum sandi. Öll skilningarvit hennar skynjuðu hann.
Í heiti bókarinnar felst ef til vill túlkunarlykill. Engalryk er íslenskt heiti á ofskynjunarlyfinu Angel Dust eða fencýklídín (PCP). Titillinn er þó skýrður á annan veg í bókarlok þar sem Alma tengir það ofurskynjun sinni á náttúrunni og umhverfinu sem hún upplifir sem lífræna heild hjúpaða ryki sem þyrlast upp af englavængjum.
Til að túlka sýn eða reynslu þarf túlkunarramma. Íslenskum unglingum almennt og yfirleitt er líklega ekki tamt að túlka reynslu sína á trúarlegum nótum. Hugsanlega er það þess vegna sem Alma er sett í kallfæri við kaþólskuna. Hún býr í Sykkilshólmi, móðurætt hennar er kaþólsk að nafninu til, faðirinn hálffranskur en er sekúler. Í hönd fer þó lútherskur fermingarvetur hjá Ölmu.
Jesú-nálægðin er ekki stundarfyrirbæri heldur fylgir Ölmu og fjölskyldu hennar að minnsta kosti þar til Alma undir vor smeygir sér yfir götu, gegnum glufu í Reykjavíkurumferðinni. Ferðin yfir götuna markar líklega þáttaskil. Alma er í þann veginn að breyta um stíl. Í sögulok heldur hún sem sé inni í óræða framtíð þar sem allir þræðir eru óhnýttir.
Englaryk segir sögu venjulegrar fjölskyldu úti á landi. Móðirin er kennari, faðirinn í veitingarekstri, eldri bróðirinn að slíta naflastrenginn og tekinn að feta sig inn í stærri heim, sá yngri að hasla sér völl í samfélagi jafnaldra. Reynsla Ölmu setur strik í reikninginn hjá þeim öllum og samfélaginu í víðari skilningi. Alma er sjúkdómsvædd þegar fjölskyldan fer í meðferð hjá fjölskylduráðgjafa og sálgreini. Þá er hún sett í sóttkví en foreldrar bestu vinkonunnar setja þær í samskiptabann. Óvíst er hvort er verra blygðunarlaust tal Ölmu um um Jesú-nálægðina eða hitt þegar hún tekur að feta í fótspor hins nýja leiðtoga síns. Það gerir hún með að leggjast með hinum „félagslega holdsveika“ Jóni Stefáni sem allir bæjarbúar hafa ímigust á og taka að sér Snæbjörn bæjardrykkjumann. Í bæði skiptin snýst samstaðan hugsanlega í höndum hennar. Líknsemi er vandmeðfarin og leiðir ekki óhjákvæmilega til góðs.
Alma er þó fyrst og fremst holdi klædd ögrun, laus við faríseisma og óviss um flesta hluti nema þetta eina að Jesús vitjaði hennar viltrar í sólinni suður í Cádiz. Sá sem á hvað erfiðast með að umbera trú Ölmu er sr. Hjörtur. Hann þekkir köllun sína á trúlausu samfélagi. Hann telur hlutverk sitt vera „...að trúa fyrir fjöldann“, „... að hvíla öruggur í trúnni; til að fólk geti hallað sér að [honum] tímabundið þegar þörf er á. Trúað í gegnum [hann]...“ (bls. 61). Hann á hins vegar erfitt með að lifa með ofurtrú Ölmu sem hrekur hann fram á hengiflug guðsafneitunar. Enn erfiðara reynist honum þó að semja frið og sýna Ölmu samstöðu þegar líður að lokum fremingarundirbúningsins.
Englaryk má lesa á mörgum plönum. Á ýmsum tímum hefur brúðar-mystík verið sterk í kristinni trúarhefð og fjöldi kvenna gegnum tíðina hefur lýst sambandi sínu við Krist með erótískum yfir- og undirtónum. Tæpast ber að setja Ölmu undir þann hatt. Hjá henni haldast vaxandi kyn- og trúarvitund þó náðið í hendur. Einfaldast er ef til vill að sjá umbrot Ölmu sem ofurvenjulega unglingauppreisn sem fellur í sérstakan farveg trúarreynslunnar. Hún er tvíátta, óráðin, skilur ekki tilfinningar sínar, þekkir ekki hvar mörk hennar liggja og er ekki sátt við þau. Þessi mynd af henni er styrkur sögunnar og gerir það að verkum að Alma gleymist ekki strax að lestri loknum. — Ég er að minnsta kosti enn nokkrum vikum eftir lestur að vona að hún hafi ekki látið klippa sig stutt eftir síðasta tímann hjá Snæfríði sálgreini. Hárið og teygjan ýmist um stertinn eða úlnliðinn hafði gegn of þýðingarmiklu hlutverki í pælingum hennar.
Englaryk er saga um fólk, ungt og gamalt, vígt og óvígt, trúað og vantrúað sem er að leita að merkingu, reyna að skilja sig og sína, lífið, tilveruna og trúna. Það gerir söguna svolítið sérstaka miðað við þá epísku skáldsagnahefð sem hér er svo sterk.

Miðaldahús í Skálholt?

Hjalti Hugason, 12. November 2014 16:45

Fyrir fáeinum árum fóru fjárfestar á flot með hugmyndir um byggingu „miðaldakirkju“ í Skálholti. Þessi kirkja skyldi þó ekki þjóna sem guðshús eins og miðaldakirkjurnar vissulega gerðu. Heldur vera umgjörð fyrir ferðaþjónustu er öðlast skyldi menningarlega tengingu á grundvelli þeirrar sögu sem Skálholt geymir. Mörgum — m.a. þeim er þetta ritar — uxu þessi áform í augum. Þótti ýmsum blasa við að bygging á stærð við miðaldadómkirkjurnar mundi breyta staðarmyndinni til mikilla muna og erill í kringum hana að líkindum bera kirkjulegt starf á staðnum ofurliði. Það var því léttir þegar hætt var við áformin.

Uppvakningur á kirkjuþingi
Það urðu því vonbrigði er í ljós kom að sömu athafnamenn höfðu ásamt fráfarandi kirkjuráði og fleirum endurvakið fyrri hugmyndir en nú ef til vill í lítið eitt breyttri mynd. Í stað „miðaldakirkju“ var nú rætt um menningarhús í miðaldastíl.
Meðan stefnt var að byggingu miðaldakirkju var vissulega unnt að taka grundaða afstöðu til hugmyndarinnar. Nokkur þekking er til staðar um stærð, stíl og aðra gerð þeirra kirkna sem stóðu í Skálholti á miðöldum og til er tilgátulíkan að þeirri sem ugglaust hefur verið mikilfenglegust þótt vissulega sé það byggt á heimildum um fleiri en eina kirkju. Svo er ekki um menningarhús í miðaldastíl. Nú getur vissulega verið að þar sé aðeins um að ræða nýtt vinnuheiti á áformunum sem áður voru nefnd. Svo þarf þó ekki að vera en þá vakna líka margar spurningar: Hversu stórt á menningarhúsið að vera? Hvaða menningu er því nákvæmlega ætlað að miðla og hvernig? Og loks má spyrja: Hvað er miðaldastíll?

Samþykkt kirkjuþings
Á kirkjuþingi í október s.l. fór fráfarandi kirkjuráð fram á að þingið samþykkti meginhugmyndir svonefnds Samráðsvettvangs um uppbyggingu ferðaþjónustu á Skálholtsstað en það er starfshópur ýmissa kirkjulegra aðila og fjárfesta í ferðaþjónustu. Auk þess fór ráðið fram á að nýju kirkjuráði yrði veitt umboð kirkjuþings til að fylgja málinu eftir með hagsmuni Skálholtsstaðar í huga.
Kirkjuþing gekk ekki að þessum kostum líkt og ráða mætti af frétt í Mbl. 1. nóvember s.l. Þvert á móti samþykkti þingið eftirfarandi ályktun:
„Kirkjuþing hefur kynnt sér meginhugmyndir viljayfirlýsingar um verkefnið SAMFERÐ- Samráðsvettvangur um uppbyggingu ferðaþjónustu í Skálholti.
Kirkjuþing styður áform um uppbyggingu Skálholtsstaðar sem eflt getur kirkjulegt starf á staðnum. Kirkjuþing felur kirkjuráði að fylgja málinu eftir og gæta hagsmuna Skálholtsstaðar í hvívetna. Kirkjuráð hafi sérstaka hliðsjón af lögum frá 1963 um heimild handa ríkisstjórninni til þess að afhenda þjóðkirkju Íslands Skálholtsstað .
Þegar áætlanir liggja fyrir verði þær teknar til umfjöllunar á kirkjuþingi áður en til bindandi ákvarðana komi..“
Af þessu er ljóst að kirkjuþing, æðsta stjórn þjóðkirkjunnar, hefur áskilið sér rétt til að hafa síðasta orðið um uppbyggingu ferðaþjónustu í Skálholti. Því er ljóst að ábyrgð þess í málinu er mikil. Einnig hefur það undirstrikað að kirkjulegt starf á staðnum skuli hafa forgang við uppbyggingu þar.

Hvers ber að gæta?
Nú þegar sækja fjölmargir ferðamenn Skálholt heim og svo verður áfram. Þjóðkirkjunni, eiganda jarðarinnar ber einni eða í samvinnu við aðra að sjá til þess að staðurinn geti tekið á móti þessum gestum og að þeir finni sig velkomna. Hins vegar þarf kirkjuþing að marka stefnu um hvort ástæða sé til að stórauka ferðamannastraum á staðinn frá því sem nú er en að því hljóta áform um miðaldabyggingu eða -byggingar á staðnum að miða. Því verður að gæta ýtrustu varfærni um staðsetningu allra nýframkvæmda þannig að þær raski ekki fornleifum og öðrum sögulegum minjum á staðnum, brengli ekki núverandi staðarmynd sem er samstæð og stílhrein og þrengi ekki að kirkjulegu starfi á staðnum sem þarfnast kyrrðar og næðis. Þá þarf að marka stefnu um hvers konar rekstur hugsanlega í samkeppni við ýmsa nágranna staðarins skuli byggður upp í Skálholti.
Verði fyrr eða síðar gengið til samvinnu við fjárfesta í ferðaþjónustu um einhvers konar byggingar í miðaldastíl í Skálholti er líka ljóst að kirkjuþing hlýtur að bera endanlega ábyrgð á að faglega og fræðilega verði rétt að öllum framkvæmdum staðið og að starfsemin rúmist innan marka þeirra laga sem sett voru er ríkið afsalaði sér Skálholti og fól það þjóðkirkjunni til eignar.
Með samþykkt sinni á dögunum hefur kirkjuþing sýnt að það ætlar að stíga varlega til jarðar í málinu og taka sjálft af skarið um ráðstöfun á Skálholtsstað til framtíðar. Þess er hér með óskað að það verði gert fyrir opnum tjöldum og að undangenginni víðtækri umræðu. Hér með er skorða á alla velunnara Skálholts að taka virkan þátt í henni.

Ræða við útför Jónasar Pálssonar

Hjalti Hugason, 6. September 2014 11:20

Kveðjuorð flutt við útför Jónasar Pálssonar (1922–2014) fyrrv. rektors KHÍ sem fram fór í Kópavogskirkju 4. sept.

Skagafjörður skín við sól.

Á himni eru fáeinir hvítir háskýjabakkar á hröðu reki. Að öðru leyti er heiður himinn. Hann liggur í hlýrri suð-vestanátt með brakandi þerri. Hjónin í Beingarði, Páll Björnsson og Guðný Jónasdóttir eru að slá fergin í tjörn neðst á engjum við austurkvíslir Héraðsvatna. Páll slær. Guðný bjargar nýslæjunni á þurrt. Synir þeirra — Jónas og Bogi, síðar bóndi í Beingarði, hjálpa til eftir megni. Systir þeirra, Helga María, síðar húsfreyja í Keflavík, var tæpast fædd. Það fara ekki mörg orð á milli en fjölskyldan er samhent og samtaka, hjálpast að og öll leggja þau sig fram.
Að þessu sögðu langar mig eiginlega að vitna í fleyg ummæli sem höfð eru eftir Jónasi Pálssyni sjálfum. Þau eiga að hafa fallið eftir innblásinn fyrirlestur á kennaraþingi: Annars veit ég ekkert um þetta! — Þ.e. ég veit ekki hvernig þetta var í raun og veru. — Um hitt er mér fullkunnugt að mörgum áratugum síðar varð sálfræðingnum Jónasi tíðrætt um þennan atburð. Hann taldi að þarna í ferginstjörninni hafi hann fundið til djúprar samsömunar og samstöðu með fólkinu sínu — fjölskyldunni — en líka íslenskri alþýðu í þúsund ár — samsömunar við landið, náttúruna og líklega eitthvað meira og dýpra. Þetta sem sum okkar mundu ef til vill kalla allífið — önnur hið heilaga og leyndardómsfulla, Guð. Svo ofarlega var þessi minning í huga Jónasar að í örstuttum hugleiðingum um þessa „kveðjustund ættingja og vina“ eins og hann sjálfur kaus að kalla þessa samveru okkar nefnir hann þetta atvik og leggur út af því.
Reynslan við Héraðsvötnin en líka löng vetrarkvöld í torfbaðstofunni í Beingarði í samvistum við foreldra, systkini, afa, en ekki síst móðurömmu, Guðrúnu Jónsdóttur, settu æfilangt mót á Jónas eins og hann kom oft inn á gamall maður. Hann varð læs á íslenska bændamenningu, öðlaðist djúpa tilfinningu fyrir kjörum alþýðufólks og tengdist þessu öllu sterkum böndum. — En hann varð ekki sveitamaður — heldur heimsborgari. Sýn hans beindist ekki um öxl heldur fram á við: Þetta er leyndardómurinn um líf og starf Jónasar Pálssonar. — Einn af samstarfsmönnum hans til áratuga lét þau orð falla að hann hefði aldrei kynnst manni með jafn langa framtíðarsýn. — Ég held að við getum mörg tekið undir þá einkunn hvort sem við gengum með honum langan eða skamman spöl — kynntumst honum ungum eða harðfullorðnum manni.
— — —
Jónas fæddist 26. nóv. 1922 í Beingarði í hinum forna Rípurhreppi í Skagafirði. Þar ólst hann upp uns hann hleypti heimdraganum og þá til að stunda skólanám umfram það sem kostur var í heimasveit. Hugsanlega skipti þar miklu að ungir, nýútskrifaðir kennarar höfðu valist til farkennslu í Hegranesinu hver á eftir öðrum og Jóns hlotið innblástur og hvatningu frá þeim. Gæti það að einhverju leyti skýrt hugsjónir hans um kennaramenntun og kennslu ungra barna síðar á lífsleiðinni. Leiðin lá til Hofsóss, síðar suður í Ingimarsskóla og Samvinnuskólann en úr honum útskrifaðist Jónas tvítugur 1942. Hóf hann upp úr því stöf á skrifstofu SÍS á Akureyri.
Margur af kynslóð Jónasar hefði sett punkt eftir þennan kafla ævisögunnar, búið um sig í hægu millistéttarumhverfi og unað glaður við sitt. — Það hæfði ekki Jónasi. Á lýðveldisárinu settist hann aftur á skólabekk og nú í Menntaskólanum á Akureyri og lauk stúdentsprófi 1947. Tveimur árum síðar hóf hann svo nám í sálfræði, sögu og hagfræði við Edinborgarháskóla.
Þarna sýnist Jónas verða fulltrúi nýrrar stúdentakynslóðar. Hann var, þegar þarna var komið, kvæntur maður og átti fyrir fjölskyldu að sjá en naut eindreginnar hvatningar konu sinnar. Dvaldi hann einn í Edinborg fyrsta veturinn en þau saman tvö síðari árin, Jónas, Inga og Björn og þar fæddist Hermann. Náminu lauk Jónas svo með með M.A. prófi 1952. Var hann síðan um skeið blaðamaður á Tímanum og sinnti ýmsum sérfræðistörfum. Jónas undi þó ekki þessum námslokum til lengdar þar sem einfalt (ordinary) MA-próf taldist ekki fullgild prófgráða. Úr þessu bætti hann 1966 er hann lauk MA-honours gráðu frá Teachers College við Columbia-háskóla í New-York en til þess hafði hann hlotið Fulbright-styrk.
Segja má að hinn eiginlegi starfsferill Jónasar hefjist 1956 þegar hann var ráðinn „ráðunautur um uppeldismál við ríkisskólana“ í Kópavogi. Þessi staða var raunar ekki til og titlaðist Jónas því gagnfræðaskólakennari. Þetta hlutverk hlotnaðist honum fyrir atbeina Finnboga Rúts Valdimarssonar þá bæjarstjóra og alþingismanns. Þarna hófst náið samstarf og vinátta Jónasar og þeirra hjóna Finnboga Rúts og Huldu Jakobsdóttur á Marbakka sem Jónsi varð tíðrætt um allt til æviloka. Fjórum árum síðar kvaddi svo Jónas B. Jónsson fræðslustjóri í Reykjavík nafna sinn til að hafa forystu um sálfræðiþjónustu við skólana í Reykjavík. Var þar með grunnur lagður að Sálfræðideild skóla. Jónas B. og Guðrún Ö. Stephensen voru önnur vinahjón sem Jónasi varð tíðrætt um á því skeiði ævinnar sem við höfðum mest samband. — Mér virðast þau persónulegu vináttutengsl sem greinilega ríktu milli Jónasar og þessara yfirmanna hans og húsbænda sýna að hér var ekki unnin hverdagsleg launavinna heldur baráttu- og hugsjónastarf sem miðaði að því að hefja íslenska skólakerfið á faglegra stig og auka þjónustu og stuðning við nemendur — ekki síst þau sem stóðu höllum fæti. Þetta var verkefni sem sameinaði framsýna baráttu- og fagmenn í skólamálum á þessum tíma.
1971 urðu þau þáttaskil í starfi Jónasar að hann sótti um og fékk stöðu skólastjóra við Æfinga- og tilraunaskóla Kennaraháskóla Íslands. Ráðning hans var alls ekki átakalaus enda hafði hann ekki formlega kennaramenntun og hafði heldur ekki starfað við kennslu eða skólastjórn fram til þessa. Naut hann því ekki fyllilega fylgis kennarasamfélagsins við skólann. Eymdi raunar lengi eftir af þeirri spennu og mun Jónas líklega síður en svo hafa talið það neikvætt. Hann átti auðvelt með að lifa við óreiðu og áleit skoðanaágreining fremur af hinu góða í þeirri skapandi deiglu sem hann vildi að skólinn væri.
Eftir tíu ár vi Æfingaskólann sóttist Jónas eftir lektorsstöðu á sviði yngri barna kennslu við Kennaraháskólann og fékk hana. Hér mun hann þó hafa horft til lengri framtíðar því rúmu ári síðar eða 1983 gaf hann kost á sér til rektors-starfa og gegndi þeim til starfsloka 1991.
Hér er ekki tóm til að rekja starfsferil Jónasar frekar en auðvitað fór ekki hjá því að hann tók þátt í ýmis konar nefnda- og stjórnarstörfum. Fyrir störf sín í þágu uppeldis og menntunar var honum á efri árum sýndur margvíslegur heiður og þakklæti. Hann var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu 1992 og kjörinn heiðursdoktor við Kennaraháskóla Íslands 2001.

Lengst af ævinnar gegndi Jónas forystu- og stjórnunarstörfum. Samt sem áður vitum við flest sem með honum störfuðum að hann var raunar ekki stjórnandi í þeirri merkingu sem oftast er lög í það orð. En hún lýtur einna helst að marksækni og skilvirkni. Jónas var miklu frekar hugmyndafræðingur og menntapólitíkus. Hann vissi hvað hann vildi, keppti að því og kom því oft í verk með sínum aðferðum þrátt fyrir margs konar mótspyrnu. Markmiðið var ljóst: að laga uppeldi og skólastarf að síbreytilegu umhverfi og fjölbreyttum hópi nemenda.
— —
Hingað til höfum við aðeins litið yfir opinbert líf Jónasar og rifjað upp þá hlið sem við þekktum flest og mörg ykkar miklu betur en ég. Færri þekktu „prívatpersónuna“, fjölskyldumanninn og förðurinn, Jónas Pálsson.
Jónas kvæntist 21. september 1947 Ingunni Önnu Hermannsdóttur. Hún var dóttir Hermanns Hjartarsonar sóknarprests lengst af á Skútustöðum og síðar skólastjóra á Laugum og konu hans, Kristínar Sigurðardóttur. Inga, eins og hún var alltaf nefnd var fædd 20. ágúst 1921 en lést 2010. Jónasi lá alltaf einkar hlýtt orð til hennar og bar greinilega fyrir henni djúpa virðingu og var henni þakklátur fyrir samvistirnar. Þetta duldist engum sem umgekkst hann á persónulegan máta en þau slitu samvistir eftir langt hjónaband. Börn þeirra urðu fimm: Björn rafvirki, börn hans og Guðrúnar Sigurðardóttur sem nú er látin eru Jónas Páll og Bryndís. Næstur er Hermann Páll BA í heimspeki. Þá Finnbogi sem nú er látinn. Síðan Gunnar Börkur kennari en kona hans er Ingibjörg Dóra Hansen innanhússarkítekt, þau eiga börnin Heru, Höllu og Kára. Og yngst er svo Kristín félagsfræðingur og skrifstofustjóri við nemendaskrá HÍ. Dætur hennar eru Ingunn Anna og Guðný Ragna. Faðri þeirra og fyrrum eiginmaður Kristínar er Ragnar H. Björnsson rafeindavirki. Langafabörnin eru orðin sjö.
Börnin minnast Jónasar um umhyggjusams og greiðvikins föður sem var umhugað um að fjölskyldu hans skorti ekkert af því sem hann gat veitt henni. Þannig muna þau frá unglingsárum að hann var síður en svo fastheldinn á fé og svo örlátur á bílalán að hann mundi oft ekki hvort hann var sjálfur á bílnum eða eitthvert þeirra. Kostaði það hann jafnvel gönguferðir til að sækja bifreiðina sem hann hafði skilið eftir einhvers staðar úti í bæ. Hann var ekki strangur faðir en metnaðargjarn fyrir hönd barna sinna og ekki síður barnabarna. Átti það ekki síst við um allt sem að námi og skólagöngu laut. Þegar Kristínu þótti hart að sér sótt um námsárangur bar hún sig upp við Gunnar Börk bróður sinn sem tileinkað hafði sér aðra tækni. Benti hann á að ef námsárangrinum væri stillt í hóf og markið sett nærri 7.5 keypti maður sér frið!
Einkum var Jónasi annt um málanám afkomenda sinna og var óþreytandi að benda á að tungumál væri lykill að framtíðinni í stöðugt samtengdari heimi. Jós hann orðabókum á báða bóga til barna og barnabarna og gerði að öðru leyti sitt til að auðvelda námið.
Jónas var virkari í heimilishaldi en almennt var um karla af hans kynslóð og maður sem kynntist honum síðar á lífsleiðinn gat eiginlega gert sér í hugarlund. Hann vaskaði upp, ryksugaði, vaknaði til barna sinna á nóttunni og skipti um bleyjur. Síðar var hann fullfær um að gæta ungra barnabarna jafnvel næturlangt og það langt fram eftir ævi. Börnunum er þó ofarlega í minni hvernig heimilislíf og starf Jónasar fléttaðist saman. Að kvöldverði og uppvaki loknu settist hann gjarna við símann og talaði — klukkutímum saman að því er þeim fannst. Einhver í fjölskyldunni líkti þessu við að farið væri í tölvupóst nú á dögum. Annars voru símtöl Jónasar sérstæð í mínum huga. Hann hringdi, kom fljótt að efninu, ræddi málin í langan eða skamman tíma en svo allt í einu kvaddi hann í skyndi, nánast skellti á að því er mér fannst. Í fyrstu spurði spurði ég: Hvað gerðist eða hvað sagði ég? Varð hann reiður? Þetta var þó aðeins stíll sem lærðist fljótt.
Jónas og fjölskylda voru meðal frumbyggja í Kópavogi. Fljótlega eftir Edinborgarárin settust þau að við Kársnesbraut en fluttust skömmu síðar að Hraunbraut 3 þar sem þau reistu sér hús í samvinnu og vinnuskiptum við nágranna. Afkomendurnir telja þó að Jónas hafi einkum unnið sem handlangari en hann var röskur til verka og sterkur langt fram eftir ævi. Sérstaklega var til þess tekið hve vasklega hann gekk fram við gróðursetningu í landi Gunnars Barkar og Dóru. Keypti hann þangað ýmiskonar tré og vildi hafa þau stór. Hann taldi sig enda hafa lítinn tíma til að bíða vaxtarins! Sjálfur gróf hann vel fyrir rótunum og sótti í að grafa þar sem jarðvegur var grýttur!
Systkinunum er minnisstætt að ekki var létt að vera barn sálfræðings á uppvaxtarárunum í Kópavogi. Jafnaldrarnir stríddu með óskiljanlegu starfsheiti og enn óskiljanlegri starfsvettvangi föðurins og reiðar húsmæður fjargviðruðust ef sálfræðingsbarni varð eitthvað á: Áttu þau ekki sérfræðing í uppeldi að föður?
Jónas vakti yfir afkomenum sínum í annan og þriðja lið, gaf öllum gaum, fylgdist með og tók út framfarir með vakandi auga þorskasálfræðingsins og gaf svo góð ráð varðandi uppeldið. Ráðlagði jafnvel að láta börnin fara seinna í háttinn ef hann taldi ástæðu til. Þá reyndist hann líka góður ráðgjafi þegar til hans var leitað varðandi úrlausn „prófessíónal“ vanda eða hvernig bæta mætti samskipti á vinnustöðum.
Eins og Jónasar var háttur gat hann þó líka stuðað og látið neista í hópi sinna nánustu rétt eins og á vinnustað. Gekk hann e.t.v. stundum fulllangt í því efni en virti þegar honum var bent á.
— —
Jónas settist ekki í helgan stein þótt starfsævinni lyki. Þvert á móti hóf hann nýtt skeið þar sem segja má að hann hafi hnýtt lausa enda sem honum þóttu vera frá fyrri tímum. Hann hóf tungumálanám í þýsku, frönsku og síðar ítölsku og lagðist í ferðalög sem stóðu uns börnum hans þótti nóg komið og settu honum mörk er þeim fannst hann tefla á tæpara vað en aldur og heilsa leyfðu. Tungumálanámið átti sér líklega tvær skýringar. Heimsborgarann Jónas þyrsti í að geta fylgst með, lesið helstu dagblöð Evrópu og myndað sér skoðun á samtímamálefnum í heimspólitíkinni. Auk þessa hefur sálfræðingunum Jónasi ugglaust verið kunnugt um kenningar þess efnis að nám í tungumálum sé öðru fremur til þess fallið að viðhalda minni og ýmsum vitrænum þáttum mannshugans. — En það var hluti af metnaði Jónasar að halda reisn sinni einmitt á þessu sviði.
Á þessum árum hóf Jónas einnig stórt rannsóknarverkefni sem fjallaði um grunnskólastarf við breytilegar aðstæður. Ferðaðist hann víða um land bæði til að afla gagna og kynna niðurstöður sínar. Loks tók hann til við að þýða rit gamals læriföður síns Johns Macmurray’s. Lagði hann tíma, krafta og metnað í vinnuna og sendi hópi vina frá mismunandi skeiðum ævinnar handrit til yfirlestrar og samræðu. Þegar á reyndi sýndi það sig þó að þýðingin þjónaði frekar þeirri sjálfsrækt og hugarstyrkingu sem Jónasi var svo umhugað um en áhuga á að koma henni á framfæri. — Ég verð að játa að ég skildi ekki þetta verkefnaval Jónasar og lá honum á hálsi fyrir að setja ljós sitt undir mæliker. Ég vildi frekar að hann drægi saman þekkingu sína og reynslu frá starfsárunum — eða enn frekar skrifaði greinar um íslenskt samfélag og þróun þess út frá þeirri skörpu framtíðarsýn sem hann hafði. Jónas lét sér þrasið í léttu rúmi liggja. Hann vissi hver tilgangur hans með verkefnavalinu var og sýndi auk þess þann þroska að brosa út í annað og benda á að í samfélagi okkar væri ekki mikil eftirspurn eftir skoðunum gamalla manna! — Mér fannst hann ekki tjá eftirsjá og kala eins og margan hendir heldur lífsvisku hins reynda manns sem veit að eitt æviskeið tekur við af öðru, hvert með sín viðfangsefni. Þjóðfélagsvakt hans var í þessum skilningi lokið þótt hann héldi eigi að síður vöku sinni. — Um það vitna orð sem hann lét falla nú fyrir skömmu við fjölskyldu sína. Hann lýsti því sem sé skorinort yfir að hann ætlaði sér ekki að „...deyja frá þessari ríkisstjórn, það væri ábyrgðarhluti“. Og þetta bar ekki að skilja sem stuðningsyfirlýsingu! — Þrátt fyrir þetta fór Jónas sáttur þegar tíminn var kominn. Hann mat lífsgæði meira en lífslengd og óskaði þess sjálfur að fremur yrði beitt líknandi meðferð en læknisfræðilegum inngripum til að teygja æviþráðinn til hins ítrasta.
— — —
Enginn sem kynntist Jónasi fór varhlutar af því að hann var altekinn af samfélagspólitíkum áhuga og hugsjónum. Snemma tók hann að ræða um hið nýja Ísland sem væri að rísa á rústum hins gamla — borgríkið Ísland, sem til væri orðið og teygði anga sína stöðugt lengra út frá suð-vesturhorninu. Hann spáði í þróun þess, varaði við hættunum en var sannfærður um möguleikana og kostina sem í þróuninni fælust. Hann óskaði okkur ekki aftur til fortíðar, var Evrópumaður og heimborgari sem boðaði að aðeins í samfélagi þjóðanna ætti Ísland framtíð og vaxtarmöguleika.
— — —
Hugur Jónasar var vakandi, síkvikur og ör. Það einkenndi hann allt fram á efstu ár að vera í vafa um hvað hann vildi verða þegar hann yrði stór og hann efaðist stöðugt um val sitt. Mér fannst skiljanlegt þegar hann, Samvinnuskólagenginn maður, taldi sig ef til vill hafa átt að verða kaupfélagsstjóri úti á landi. Það var líka eðlilegt að maður með hans samfélaglega „paþós“ mátaði sig í stól alþingismanns og ráðherra. — Persónulega varð ég þó örlítið efins þegar hann kvað oftar en einu sinni upp úr með að líklega hefði hann þó átt að verða fatahönnuður. — Þar vanmat ég þó Jónas eða þekkti hann ekki nægilega vel. Hann bjó við þá sérstöðu að eiga oftar ferð af landi brott en flestir aðrir framan af starfsævi hans. Ætíð koma hann heim hlaðinn fatnaði sem hann hafði keypt á fjölskylduna, ekki síst konu sína og dóttur. Valið brást aldrei og táningurinn Kristín gat stolt gengið í flíknum sem hann hafði valið og lýst því yfir að hann hefði keypt þau einn og óstuddur.

Jónas hélt persónueinkennum sínum til hinstu stundar. Honum var sjálfstæði og reisn metnaðarmál. Allt fram til hárrar elli þreif hann hús sitt, eldaði sína eigin ýsu, bauð heim gestum og sótti mannamót af aðskiljanlegu tagi. Það var líka gefandi að kíkja inn til hans á Grettisgötuna eða í Furugerðið og spjalla yfir tebolla eða púrtvínsglasi. Stöðugt var hann líka reiðubúinn að setja sig í annarra spor og ræða um áhugamál þeirra um það vitna barnabörnin. Við vorum hins vegar mörg sem flöskuðum á einu þegar samfundum tók að fækka og Jónas varð bundnari við heimili sitt: Hann var vel tölvutengdur og hafði einkar gaman af tölvupóstsamskiptum. Hann skrifaðist reglulega á við mörg barnabarnanna sem undruðust ungæðislegan stíl hans á því sviði og kynntust á honum nýrri hlið. Henni hefði ég líka viljað kynnast en hugsanlega var það ekki í boði fyrir aðra en barnabörnin.
Þegar ég hugsa til Jónasar nú er mér efst í huga að með honum er genginn mikill húmanisti í margháttuðum skilningi. Að hans mati voru maðurinn og mennskan heilög — einstaklingurinn í samfélagi við aðra óendanlega mikils virði. Þessu tvennu —einstaklini og samfélagi — helgaði hann starfskrafa sína alla. Hvers er fremur hægt að krefjast? Á þessari stundu leyfi ég mér að þakka traust og vinsemd sem hann sýndi mér frá því við kynntums fyrst. Hann var á þeim aldri sem ég er nú. Ég á hinn bóginn enn galopinn fyrir nýjum áhrifum. Það var þorskandi að starfa með Jónasi og fylgjast með honum í glímunni við verkefni hverdagsins og leyndardóma lífsgátunnar.
— — —
Upp úr seinna stríði var langt úr Hegranesinu til Edinborgar. Það var heldur ekki sjálfsagt að strákurinn sem forðum buslaði í ferginstjörninni heima í Beingarði yrði einn af helstu frumkvölum í skóla- og uppeldismálum þjóðarinnar á sinni tíð. Á þann hátt var Jónas langförull maður í fjölbreytilegri merkingu. Nú er hann svo lagður upp í þá ferð sem bíður okkar allra. Vegna æskureynslu Jónasar í úthallandi engjaslætti á hlýjum síðsumardegi hefur örstutt textabrot úr Aðventu Gunnars Gunnarssonar leitað á huga minn við samantekt þessara fátæklegu minningarorða. Þar lýsir hinn alvitri sögumaður hugrenningum eða tilfinningum sögupersónu sinnar, langferðamannsins Benedikts svofelldum orðum:

Og þarna í næturkyrðinni og einverunni ... hvarflaði aftur að honum aðkenningu að aðventu, [þ.e. eftirvæntingu], leifar af hljómum, endurminningar um sólskin og heyilm, von um sumarland — eða hvað það nú var. Ef til vill aðeins einskonar innri kyrrð og friður. (Gunnar Gunnarsson, Aðventa, Reykjavík: Mál og menning, 1996, bls. 58)

Það er áleitin tilfinning mín að Jónas hafi nú öðru sinni upplifað sólskin, heyilm, sumarland — hvað eða hvernig sem það nú er — eins konar innri kyrrð og frið — samsömun á borð við þá sem hann reyndi forðum í ferginstjörninni nema bara miklu, miklu dýpri — samsömun við upphaf og endi allra hluta — samsömun við hið mikla, óendanlega og óþekkta, leyndardóminn sem umlykur alla mannlega tilveru frá fæðingu til dauða. Leyndardóminn sem sum okkar nálgast sem Guð en önnur kjósa að túlka eða tjá með öðru móti. Sú tilfinning hjálpar að minnsta kosti mér að skilja og hugsanlega sættast við þá ögrandi hugsun sem séra Hallgrímur orðar svo í lokahendingu sálmsins um blómstrið eina:

Dauði ég óttast eigi
afl þitt né valdið gilt,
í Kristí krafti ef segi:
Kom þú sæll, þá þú vilt.
(Sálmabók 2001, nr. 273)

Amen

Stöndum saman

Hjalti Hugason, 4. June 2014 13:20

Í kjölfar Hrunsins vakti margt ugg. Það sem sem olli mér einna þyngstum áhyggjum var að harðri þjóðernishyggju yxi fiskur um hrygg líkt og víða hafði gerst. Íslendingar eru sjálhverf þjóð og skildi varnaðarorð og gagnrýni umheimsins sem ofsóknir gegn landi og þjóð. Uggurinn reyndist ástæðulaus þar til í nýafstöðunum kosningum.

Ekki óvænt
Það kom ekki á óvart að frumkvæði að þjóðernishyggju kæmi frá Framsókn. Hún hefur lengi verið snar þáttur í hugmyndafræði flokksins. Í byrjun kann hún að hafa verið frjó. Svo er ekki nú. Árangurinn af útspilinu í moskumálinu kom heldur ekki á óvart. Hugsanlega gefa úrslitin í Reykjavík hugboð um hlutfall ákafra þjóðernissinna. Það er þó óvíst. Hlutfallið kann að vera mun hærra en upp úr kössunum kom. Í öllu falli er tími til kominn fyrir allt vel hugsandi fólk sem þráir opið samfélag að snúast til varnar gegn tortryggni, útilokunarstefnu og útlendingaandúð.

Blindgata
Átökin sem blásið hefur verið til snúast um hvort veita eigi múslimum og orþodoxum lóðir á sömu forsendum og öðrum trúfélögum og afturkalla e.t.v. þegar veittar lóðir. Í lýðræðislegu réttarríki er þessi kostur ekki í boði þótt hugmyndin hafi nýst í kosningaslag.
Í sjórnarskrá lýðveldisins segir: „ Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins“. Til þess þurfa múslimir moskur ekki síður en kristið fólk kirkjur. Auk þess segir: „Enginn má neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna“. Og loks: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til ... trúarbragða ... og stöðu að öðru leyti“. Öllum þessum mikilvægu mannréttindareglum virðast borgarfulltrúar Framsóknar vilja gleyma eða brjóta gegn þeim.
Trúfrelsis- og jafnræðisreglur stjórnarskrárinnar vernda rétt allra en leggja jafnframt mikilvægar skyldur á herðar okkar en þar segir líka: „Þó má ekki kenna eða fremja neitt (þ.e. í nafni trúar) sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu“, sem og „né heldur má nokkur fyrir þá sök skorast undan almennri þegnskyldu“. Ákvæðunum er ætlað að tryggja að enginn misnoti frelsi sitt til að brjóta gegn lögum og grunngildum landsmanna. Þannig er trúfrelsið stillt af.
Þetta er sá rammi sem stjórnarskráin setur um grundvallarmannréttindi á trúmálasviðinu. Af ákvæðunum verður ekki slegið eða kosið um framkvæmd þeirra nema með því að ógna lýðræðinu og réttarríkinu. Borgar- og skipulagsyfirvöld hljóta því að úthluta lóðum til múslima eins og þegar aðrir eiga hlut að máli. — Eða hvernig málflutningur skyldi vera hafður uppi ef kosið yrði um slíkt mál?

Til framtíðar
Nú verðum við sem viljum opið, frjálst og friðsamlegt samfélag að horfast í augu við raunveruleikann: Við verðum að standa saman um grunngildi okkar. — Framsóknarflokkurinn má gjarna vera með ef hann vill og endurheimtir trúverðugleika eftir útspilið í Reykjavík.

Á að afturkalla lóðir trúfélaga?

Hjalti Hugason, 27. May 2014 12:54

Nýr oddviti Framsóknar í Reykjavík, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, hefur nú lýst yfir þeirri afstöðu sinni að ekki beri að „úthluta lóðum undir hús eins og moskur eða kirkjur fyrir grísku réttrúnaðarkirkjuna“. Hið „jákvæða“ við þessa dapurlegu yfirlýsingu er vissulega að Sveinbjörg vill ekki mismuna múslimum einum heldur einnig trúfélögum sem hún virðist telja of framandi á einn eða annan hátt. Hitt er ekki ljóst hvar mismununin á að hefjast og hvar hún eigi að enda. Hugsanlega ber að skilja „röksemdina“ sem Sveinbjörg færir fyrir afstöðu sinni svo að einungis eigi að úthluta lútherskum söfnuðum lóðum fyrir kirkjur eða ígildi þeirra. Sé svo verður að afturkalla fjölda lóða. Þá hljóta ýmsar byggingar sem þegar hafa risið að valda vanda ef Sveinbjörg tæki nú við stjórn borgarinnar eftir kosningar.
Sjálf telur Sveinbjörg afstöðu sína ráðast af eigin reynslu og mikilli yfirsýn. Ekki skulu bornar brigður á það. Þó má vera að fleiri skýringar komi til greina eins og þjóðhverf stefna Framsóknarflokksins eða tilraunir til að ná með auðveldu móti atkvæðum þeirra mörgu sem lýst hafa sig andvíga mosku. Hjá Framsókn má finna eldri dæmi um einfaldan „popúlisma“.

Hæpin röksemd
Sem guðfræðingur, áhugamaður um trúmálarétt í landinu og ekki síst vígður prestur í þjóðkirkjunni vil ég þó aðeins vara við og harma þá einu beinu röksemd sem Sveinbjörg færir fyrir útilokandi afstöðu sinni í trúarefnum sem felst í þjóðkirkjuskipaninni. En yfirlýsingin sem höfð hefur verið eftir Sveinbjörgu hljómar svo: „Á meðan við erum með þjóðkirkju eigum við ekki að úthluta lóðum undir hús eins og moskur eða kirkjur fyrir grísku réttrúnaðarkirkjuna“ (leturbr. HH).

Hættulegt þjóðkirkjuskipaninni
Í þjóðkirkjuskipan felst eðli máls ýmis konar mismunun sem hingað til hefur talist málefnaleg. Því hefur þjóðkirkjuskipan sem slík ekki verið talin brjóta í bága við mannréttindi. Gæta þarf þess samt að mismununin sé sem minnst og skerði ekki lögvarinn rétt og frelsi annarra á trúmálasviðinu en það hlýtur stefna Sveinbjargar að gera hvort sem hún nú beinist aðeins gegn múslimum og orþódoxum eða öllum trúfélögum sem ekki eru lúthersk. Fyrir mitt leyti vara ég alvarlega við að þjóðkirkjuskipanin sé notuð sem rök gegn því að trúfélögum nýbúa í landinu sé meinað að njóta þess réttar sem þeim er veittur með stjórnarskrá lýðveldisins. Slík afstað kemur fyrr eða síðar til með að binda enda á þjóðkirkjuskipanina sem mörgum er enn kær eins og dæmin sanna. Það virðist þó ekki endilega felast í afstöðu Sveinbjargar. Hún þyrfti þó e.t.v. að gera fyllri grein fyrir afstöðu sinni í því efni og helst fyrir kosningar. Eftir kosningarnar kynni það síður að verða áhugavert!
Þá hlýtur þjóðkirkjan að harma að hún skuli með þessum hætti vera dregin inn í pólitíska refskák í aðdraganda kosninga. — Eða hvað?

Eldklerkurinn í sviðsljósinu

Hjalti Hugason, 22. May 2014 10:40

Jón Steingrímsson eldklerkur (1728–1791) á Prestsbakka á Síðu hefur verið í sviðsljósinu að undanförnu og það jafnvel í bókstaflegri merkingu rúmum 220 árum eftir dauða sinn. Vissulega er hann persóna úr sögu þjóðarinnar sem verðskuldar að hans sé minnst. Hann stóð stranga vakt á einu mesta hörmungarskeiði sem yfir landið hefur gengið í Skaftáreldum og móðuharðindunum sem fylgdu í kjölfarið. Á þeim tíma tók hann sjálfstætt frumkvæði til að styrkja og styðja sóknarbörn sín auk þess að mæla yfir moldum allra þeirra sem létust og hugga hina sem eftir lifðu. Þannig mætti hann hinum fjölþættu kröfum sem gerðar voru til sálusorgara á neyðartímum. Líklega var Jón allt í senn Almannavarnirnar holdi klæddar, eins manns hjálparsveit og stuðningsfulltrúi sem veitti áfallahjálp. Auk þess að tengjast þannig beint einu dramatískasta tímabili þjóðarsögunnar sker Jón Steingrímsson sig úr fjöldanum með því að hafa látið eftir sig nærgöngul og opin sjálfsskrif, ævisögu sína, sem komið hefur út í þremu útgáfum (1913, 1945 og 1973). Getur verið að Hrunið hafi að einhverju leyti vakið athygli á eldklerkinum og samtíð hans?

Skáldasagan um Jón
Haustið 2010 kom út Skáldsaga um Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur og undirbjó komu hennar & nýrra tíma (Reykjavík: Mál og menning). Þar spinnur höfundurinn, Ófeigur Sigurðsson, á hugvitsamlegan hátt þráð sem hann sækir til ævisögunnar nánar til tekið kap. XXV¬–XXVII (13 bls. í ævisögunni móti 213 bls. í skáldsögunni!) og er sagan að því leyti heimildasaga. Ófeigur fylgir vel lýsingu Jóns á ferð hans ásamt Þorsteini (d. 1794) bróður sínum, síðar bónda í Kerlingardal í Mýrdal, og Jóni Þorgeirssyni vinnumanni úr Skagafirði og suður Kjöl um veturnætur 1755 uns þeir settust að Hellum í Mýrdal. Þar voru eignarjarðir sjúpbarna Jóns, þ.e. barna Þórunnar Hannesdóttur (Scheving) (d. 1784) og fyrri manns hennar, Jóns Vigfússonar (d. 1752) klausturhaldara á Reynistað í Skagafirði. Með flutningi suður hugðist Jón flýja harðindi norðanlands en auk þess þann þráláta orðróm að þau Þórunn hefðu orðið klausturhaldaranum að bana skömmu áður sökum óreglu hans og heimilisofbeldis en Jón Steingrímsson hafði verið djákni á staðnum. Hvað byggingu áhrærir skiptist skáldsagan eins og ráða má af titlinum í 27 bréf sem Jón ritar konu sinni. Þannig verður hún að stórum hluta hugflæði Jóns er hann tjáir konu sinni hug sinn en segir henni jafnframt hvað á daga hans drífur.
Hið frjálsa framlag Ófeigs Sigurðssonar hefst fyrir alvöru þegar Jón er sestur að í Hellum. Sjálfur segir hann svo frá í ævisögunni:
Þá ég nú eftir veturnætur 1755 settist að í Hellum, fékk Einar [Eiríksson, „umboðsmaður“ Jóns] mér til íveru skemmukofa fyrir vestan bæjardyr. Hún var höggvin inn í bergið, en ég bjó hana svo stóra inn lengra í bergið, að ég kom þar fyrir rúmi mínu, borðkorni og bekk og öllu því, er meðferðis hafði, og vorum við þar bræður báðir um veturinn og áttum þar bezta og rólegasta líf (Jón Steingrímsson, Ævisagan og önnur rit, Kristján Albertsson gaf út, Reykjavík: Helgafell, 1973, bls. 127).
Út af þessu stefi leggur Ófeigur er hann lætur Jón hola suðurodda landsins að innan og breyta honum ekki aðeins í híbýli fyrir sjálfan sig, heldur lærdómssetur, sjúkrahús og ljósvita fyrir sæfarendur, heilan heim sem horfir til framfara og upplýsingar. Þar ganga einnig helstu umbótamenn Íslands ljósum logum, Skúli fógeti Magnússon (1711–1794), Eggert Ólafsson (1726–1768) og Bjarni Pálsson (1719–1779) en úti fyrir geysa Kötlueldar líkt og fyrirboði þess sem koma skal tæpum 30 árum síðar. Skúli kom mjög við sögu Jóns til ills og góðs og þeir Jón og Bjarni voru persónulegir vinir. Eggert virðist Jón þó aðeins hafa þekkt sem rithöfund og skáld. Rannsókarleiðangur Eggerts og Bjarna stóð einmitt yfir 1752–1757 en ekkert bendir til að neinn þeirra hafi komið í skemmuna til Jóns í Mýrdalnum veturinn 1755. Með samskiptum við þá er Jóni aftur á móti skipað í hóp helstu athafnaskálda landsins þar sem hann á ýmsan hátt á heima.
Sá söguheimur sem Ófeigur byggir upp í bréfunum er heillandi og miðlar ævistarfi Jóns í hnotskurn eins vetrar. Þá hæfir málfar og hófstilltur lítið eitt fyrndur stíll bréfanna efninu. Úr verður hugljúfur lestur þar sem sögulegt efni er hagnýtt á skapandi hátt.

Eldklerkur Möguleikhússins
Eldklerkurinn í leikgerð Péturs Eggerz sem frumsýnt var á vegum Möguleikhússins í nóvember 2013 er að sínu leyti hreinræktaðra heimildaverk en saga Ófeigs Sigurðssonar að þar er ævisagan rakin í heild og auk þess stuðst við eldrit Jóns eða Fullkomið skrif um Síðueld frá 1788. Uppfærsla Péturs Eggerz (og Sigrúnar Valbergsdóttur leikstjóra) er þó alls ekki flöt endursögn heldur hefst verkið og lýkur með sömu senunni þar sem Jón Steingrímsson tekur út refsingu á alþingi 1786. En hann hafði hann verið dæmdur til að reiða af hendi 5 ríkisdala sekt og að biðjast opinberlega fyrirgefningar fyrir að hafa vikið frá fyrirmælum stiftamtmanns um meðferð „viðlagasjóðs“ er honum hafði verið falið að flytja frá Bessastöðum á hamfarasvæðið. (bls. 198–200, 205–218). Dómurinn var að frumkvæði H. C. D. V. von Levetzow sem hér var stiftamtmaður 1785–1789. Um hann segir Magnús Ketilsson (1732–1803) að hann hafi haft „góðar sinnisgáfur“ og verið „fljótskarpur“ en heldur áfram: „En hans stoltu hissugheit gjörðu það, að honum missýndist margt og stundum mistókst, ekki so af ásetningi, sem af fljótræði.“ (Stiftamtmenn og amtmenn á Íslandi 1750 til 1800, Þorkell Jóhannesson bjó til prentunar, Reykjavík: Sögufélag, 1948, bls. 35) Þannig varð Jón eins og fram kemur í verkinu eini einstaklingurinn sem tók út refsingu í kjölfar hörmunganna í Síðueldum en hélt þó mannorði sínu trausti Hannesar Finnssonar (1739–1796) biskups, sem þó fær ekki að öllu leyti góð ummæli í ævisögunni. Vera má að hér sé komin ein helsta ástæða þess að Jón tók að rita sögu sína auk orðrómsins um sviplegan dauðdaga klausturhaldarans. (Matthías Viðar Sæmundsson, „Upplýsingaröld 1750–1840“, Íslensk bókmenntasaga III, ritstj. Halldór Guðmundsson, Reykjavík: Mál og menning, 1996, bls. 125)
Með þessari áherslu er einstaklingi teflt fram gegn kerfinu, frumkvæði og persónulegum viðbrögðum gegn hlýðni, réttlæti gegn skriffinnsku. Ljær þetta verkinu boðskap. Þá má finna í því vísanir til samtímans í fleygum frösum eins og „Maybe I should have“ og „Guð blessi Ísland“! Hvort tveggja, endurtekin niðurlægingarsenan og frasarnir, gefur sýningunni brodd sem einnig mátti lesa út úr handarhreyfingu leikarans á réttum stöðum! — Eftir stendur umhugsunarverð útgáfa af sjálfsævisögu eldklerksins.
Pétur bregður sér í fjölmörg hlutverk í sýningunni auk þess sem hann er sögumaður sem tengir einstaka þætti verksins saman. Vissulega má segja að persónurnar séu staðlaðar eftir tveimur fyrirmyndum: mýrdælskum hjárænulegum kotbónda og dönskum, pepíulegum höfðingja. Stöðluninni hjálpar þó ef til vill til við að draga aðalpersónuna, eldklerkinn, betur fram og leggja meiri dýpt í persónu hans.
Sýningin er sniðinn að því að vera farandsýning, sviðbúnaður er því í lágmarki en nýtist vel (verk Rósu Sigrúnar Jónsdóttur). Það vakti þó athygli mína á sýningunni hve áberandi var að leikarinn sneri baki við flestum áhorfendum er hann var í gerfi Jóns sjálfs og talaði við ímyndaðan viðmælanda eða mótleikara úti í horni. Þetta kann að stafa af því að verkið hafi verið æft inn í öðru vísi rými en það sem notað var þegar ég sá sýninguna. Það var vel að merkja í menningarhúsinu Hlöðunni í Litla-Garði skammt framan Akureyrar. Rýmið er hrátt og frumstætt (í góðri merkingu) og gefur frumlegum listamönnum ýmsa möguleika til uppfærslna.

Menningarhúsin og menningin
Svo virðist sem tilkoma Hörpu fyrir sunnan og Hofs fyrir norðan ætli að skapa ýmis konar vandi í menningar- og listalífinu þegar um er að ræða viðburði sem ekki eru líklegir til að þjóna sem kassastykki eða draga af öðrum ástæðum fjölda fólks á staðinn. Getur hugsast að stóru menningarhúsin verið til að markaðsvæða sviðlistirnar? Nú lítur til dæmis svo út að Hof muni að minnsta kosti óbeint og hugsanlega tímabundið verða ein af ástæðum þess að sjálfstæðar uppfærslur leikverka með atvinnufólki leggist af og aftur verði horfið í það far er Þjóðleikhúsið eða LR ferðuðust um landið og buðu upp á sýnishorn að leikárinu. Það væri stórt skref afturábak eftir frjótt tímabil atvinnuleikhúss í höfuðstað Norðurlands.

Ræðum tengsl ríkis og kirkju

Hjalti Hugason, 30. April 2014 10:31

Eftir stuðningsyfirlýsingu Árna Páls Samfylkingarformanns við þjóðkirkjuna hefur nokkuð verið ritað hér í blaðið um samband ríkis og kirkju. Hér verður ekki tekin afstaða í því máli en vakin athygli á að það verðskuldar umræðu án sýndarraka og staðhæfulítilla fullyrðinga.

Þýðingarlaust ákvæði?
Í leiðara 16. apríl. s.l. staðhæfir Ólafur Þ. Stephensen að stjórnarskrárákvæðið um þjóðkirkjuna hafi „í dag enga praktíska þýðingu“. Er það örugglega svo? Mætti þá fella það niður án nokkurra afleiðinga? Er það t.d. skilningur Þjóðkirkjunnar sjálfrar? Hvers vegna beitti hún sér þá fyrir varðveislu þess í óbreyttri mynd fyrir tæpum tveimur árum? Er æskilegt að hafa ákvæði í stjórnarskrá sem ekki hafa neina „praktíska þýðingu“?
Ritstjórinn telur að 62. gr. stjórnarskrárinnar sé „nokkurs konar yfirlýsing um kristna sögu og siðferðisgrundvöll ríkisins“. Var hún raunverulega hugsuð þannig? Ef þetta er hlutverk hennar væri þá ekki nær að orða hana sem gildagrein og staðetja hana framar í stjórnarskránni? Þarfnast sagan þess að vera staðfest með stjórnarskrárákvæði? Lifir hún ekki fremur í sameiginlegu minni og sjálfsmynd þjóðarinnar? Ef sagan þarf stjórnarskrárstaðfestu hvernig verður henni þá best fyrir komið?
Í öllu falli er mikilvægt að gera sér grein fyrir að af trúarsögu Íslendinga verður ekki leitt neitt eitt ákveðið fyrirkomulag á tengslum ríkis og kirkju og það endurspeglað í ákvæðum stjórnarskrár eða laga. Í því efni þarf fremur að líta til nútímaaðstæðna. Á þeim nótum skrifar Valgarður Guðjónsson hér í blaðinu 23. apríl s.l.

Þjóðkirkja og mismunun
Margt í grein Valgeirs þarfnast þó skýringa. Það er í sjálfu sér rétt að þjóðkirkjuskipan felur í sér mismunun. Það er aftur á móti ekki rétt sem af grein Valgarðs má ráða að það sé mismunun af því tagi sem Mannréttindadómstóll Evrópu telur brjóta gegn Mannréttindasáttmálanum. Þvert á móti sýna nýlegir dómar að þjóðkirkjufyrirkomulag sem slíkt sé ekki álitið brjóta gegn sáttmálanum þótt einstakar afleiðingar þess eða útfærslur kunni að gera það. Eigi rök Valgeirs að gilda verður að sýna fram á að slíkir annmarkar séu til staðar hér. Samanburður hans við mismunun kynjanna eða kynþáttamisrétti er því misvísandi.
Það er heldur ekki rétt sem Valgeir staðhæfir að enginn viti hvaða jarðir það séu sem standa undir samningi „ríkisins og þjóðkirkjunnar um rekstrarkostnað vegna prestsembætta og prófasta, rekstrarkostnað biskupsstofu, framlag til kristnisjóðs og sérframlög til þjóðkirkjunnar“. Það er skjalfest og í flestum tilvikum litlum vafa undirorpið un hvaða jarðir er að ræða. Hitt er sanni nær að erfiðara mun að meta „hveru mikils virði þær eru“. Þá má velta því fyrir sér við hvaða tíma skuli miðað komi til eignauppgjörs milli ríkis og kirkju, 1907, 1997 eða eitthvað ár í framtíðinni.

Ræðum saman af nákvæmni

Hvaða skoðun sem við kunnum að hafa er mikilvægt að umræðan um tengsl ríkis og kirkju fari fram á málefnalegum grunni en ráðist ekki tilfinningaþrungnum fullyðingum.

Orkustöðin Ísland

Hjalti Hugason, 11. April 2014 10:45

Arnfríður Guðmundsdóttir
Baldur Kristjánsson
Hjalti Hugason
Sigrún Óskarsdóttir
Sólveig Anna Bóasdóttir

Höfundar eru guðfræðingar.

Orkustöðin Ísland
Oft er sagt að náttúra Íslands sé hlaðin orku. Orka er auðlind sem ekki má fara til spillis.
Sæstrengur?
Mikið er nú rætt um sæstreng sem tengt geti landið við raforkukerfi Evrópu. Sum vona að þessi leið til útflutnings á orku valdi því að hér verði ekki haldið áfram þeirri stóriðjustefnu sem fylgt hefur verið. Önnur vona að hér sé komin leið til að auka hlutfall „grænnar“ orku í álfunni, vinna gegn mengun og hægja á loftslagsvánni. Þá kunna einhver að sjá í sæstreng leið til skjótfengins gróða.
En hvernig mun íslensk þjóð með sæstreng haga forgangsröðun sinni? Hagkvæmast hlýtur að vera að flytja sem mesta orku um strenginn og hætt er við að við búum ekki yfir því siðferðisþreki sem þarf til að nota slíka mjólkurkú af hógværð og stillingu. Um það vitna þeir lífshættir sem þjóðin hefur tamið sér á undanförnum áratugum. Líklegast er að okkar mati að sæstrengur viðhaldi þeirri stórvirkjanastefnu sem hér hefur verið fylgt undanfarið.

Óbreytt ástand ekki í boði
Jafnframt dafnar draumsýnin um olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Draumurinn um sæstreng til nálægra landa og olíupalla í Norðurhöfum vekur efasemdir um yfirlýsingar sumra um „græna“ orku. Er hugsanlegt að tal um hana beri of oft vitni um hræsni og yfirdrepsskap?
Lífsgæðakröfur okkar eru miklar. Við eigum fleiri orkufreka bíla á hvert mannsbarn en flestar þjóðir. Kröfur okkar um húsnæði eru einnig meiri í fermetrum talið. Neysla okkar krefst aukins hagvaxtar og að mati margra verður hann einkum sóttur í orkuauðlindirnar.
Eflaust er það von einhverra að orkan muni gera okkur kleift að viðhalda núverandi orkukrefjandi lífsstíl. Þá vill gleymast að óbreytt ástand er ekki í boði. Í náinni framtíð munu loftslagsbreytingarnar kalla okkur vestrænar þjóðir til ábyrgðar sem aðeins verður öxluð með endurskoðuðu lífsmunstri.

Önnur leið
En til er önnur leið til að beisla orkuna sem býr í náttúru landsins en sæstrengur og olíuvinnsla. Hún felst í að búa með og hvíla í náttúru landsins og öðlast þannig aukin lífsgæði og aukinn kraft. Þetta er sú reynsla sem flestir ferðamenn sækjast eftir. Þetta er líka eina fullkomlega sjálfbæra orkunýtingin. Hlutverk okkar er að leitast við að varðveita og viðhalda hinni náttúrulegu orku landsins og skila henni til komandi kynslóða. Til þess þurfum við að endurskoða núverandi lífsstíl okkar. Við verðum að sönnu að virkja áfram til að mæta brýnustu þörfum samtímans. En það verðum við að gera með því að sýna í verki umhyggju fyrir náttúrunni og komandi kynslóðum.

Náttúra Íslands býr yfir orku sem vekur undrun og eftirvæntingu, virðingu og von. Með því að beisla hana af ábyrgð og umhyggju fyrir óbornum kynslóðum, sýnum við henni þá virðingu sem henni ber sem hluta af hinum góðu gjöfum Guðs. Látum ekki græðgi afbaka skilning okkar á náttúrunni og valda því að við tæmum þá fjársjóði náttúrunnar sem okkur hefur verið treyst fyrir.

Guðdómlegur gleðileikur frá Fagraskógi

Hjalti Hugason, 12. February 2014 22:22

Það lagðist illa í mig þegar spurðist að leikfélagið í mínum gamla (og nýja) heimabæ, Leikfélag Akureyrar, hyggðist fagna fjörutíu ára afmæli sínu sem atvinnuleikhúss með því að færa upp Gullna hliðið. Verkið er vissulega hluti af klassískum leikbókmenntum þjóðarinnar og naut lengi mikilla vinsælda. En var nokkur von til að uppsetning á öndverðri 21. öld yrði annað en tímaskekkja?

Ævintýraheimur
Sannast sagna steinlá ég fyrir sýningunni. Vissulega má deila um hvort lágstemd tónlistin hafi þó verði ofnotuð og gengið of langt í að flétta ljóð Davíðs frá ýmsum tímum inn í verkið. Stundum tókst þetta þó afburðavel, t.d. þegar dró að hléi. Útfærsla leikstjórans, sviðsmyndin, lýsingin og best heppnuðu innskotin gerðu hins vegar að verkum að uppfærslan var vel lukkað sjónarspil með vísanir til ýmissa átta: Stef úr syndafallssögunni fléttuðstu saman við glansmyndir æskunnar og náttúru eldfjallaeyjarinnar og svo mætti lengi telja. A.m.k. þessum áhorfanda tókst að ganga inn í þann ævintýraheim sem önnur af leiðsögukonunum í hjólmsveitinni Evu (Jóhanna Vala Höskuldsdóttir og Sigríður Eir Zophoníasardóttir fara báðar auk þess með smærri hlutverk) hvatti okkur til að meðtaka. Í heild einkenndist uppsteningin eins og verkið frá hendi höfundarins af lævísum húmor með dramatískum innskotum ekki síst þar sem „óvinurinn“ sjálfur (Hilmir Jensson, sem einnig leikur hreppstjóra, ríkisbubba, þjóf og drykkjumann) fór hamförum á sviðinu, liðugur sem köttur, lævís eins og slanga, sjónræn blanda af goðsagnaveru og stríðsmanni, hvæsandi í bundnu máli meðan aðrar persónur mæltu á öðrum tungum: presturinn í postillustíl, Lykla-Pétur (Aðalbjörg Árnadóttir sem einnig leikur Vilborgu grasakonu, sýslumann, böðul, frillu Jóns, móður kerlingar og Helgu) á embættisnótum, sýslumaðurinn á kansellí-dönsku (vel lukkað frávik frá handriti) en hinar persónurnar á íslensku sveitamannamáli. Allt þetta gerði verkið að guðdómlegum gleðileik þar sem helvístisstemningin fyrir og eftir dauða Jóns (Hannes Óli Ágústsson) viku fyrir himnaríkissælu sem teygði sig langt út fyrir gullna hliðið, náði að endurskapa viðkvæmar og löngu þorrnar tilfinningar og sætta hjónin eftir kaldrana jarðlífsins og himnafararinnar. — Það má skynja sem boðskap um von! Sem sviðsverk var sýningin því vel heppnuð og sýndi að vel má hafa gaman að Gullna hliðinu tæpum 75 árum eftir fyrstu frumsýninguna hvort sem húmor áhorfandanna og verksins hefur svo breyst eða ekki.

Túlkun leikstjórans
Fyrir utan innskotin og þýðingarnar á tilsvörum sýslumannsins virtist texta verksins fylgt að mestu framan af. Þar hurfu þó hjónin sem sveltu og börðu Jón í uppvextinum. Eftir hlé, er leikurinn þéttist bar meira á persónusplæsingum. Faðir kerlingar og presturinn runnu saman, Páll postuli hvarf og María Guðsmóðir verður ósýnileg í uppsetningunni. Þá hurfu nokkrar aukapersónur. Allt gerði þetta framvinduna hraðari, einkum í lok verksins sem ella hefðu e.t.v. orðið langdregin fyrir nútímaáhorfanda.
Með vissri stoð í texta höfundarins leysir leikstjórinn, Egill Heiðar Anton Pálsson, heimsmynd og „sannfræði“ verksins með því að setja meginhluta þess, frá dauða Jóns til lokasenunnar er kistan er negld aftur, sem draum kerlingarinnar (María Pálsdóttir). Þar með túlkar hann verkið sem leiðslubókmenntir í ætt við Sólarljóð eða La divina commedia Dantes (1265–1321) og önnur miðaldaverk sem lýsa sýnum frá öðrum heimi, himnaríki og helvíti. Í nútímanum getur enda allt gerst í draumi líkt og í vitrunum og þjóðsögum fyrri alda enda e.t.v. ekki ljóst hvar eitt tekur við af öðru í þessari yfirskilvitlegu veröld draums og veruleika.
Óljósara er hvernig Davíð sjálfur hugsaði þessa hlið verksins. Honum virðist þó hafa verið efst í huga að leggja út af fyrirferðarmiklu stefi í þjóðtrú Íslendinga, nefnilega hlutskipti sálarinnar eftir dauðann, en deila janframt á kirkjuvald og lýsa bágum kjörum alþýðu sem braut niður siðferðisþrek hinna undirokuðu. Þjóðsögurnar og alþýðlegur menningararfur var Davíð líka í blóð borin og koma víða fram í verkum hans. Hann var enda náskyldur þjóðfræðingnum Ólafi Davíðssyni (1863–1903). Í erindi eða ræðu sem síðar birtist á prenti undir yfirskriftinni „Á leið til Gullna hliðsins“ fékkst Davíð við trúarsögu þjóðarinnar og þar er m.a. að finna skýringu á þeim tóni sem hann léði fulltrúum kirkjunnar í verkinu (einkum prestinum). Þar telur hann andstæðurnar milli himnaríkis og helvítis hafa verið fyrirferðarmikinn þátt í trúarhefð þjóðarinnar er kirkjan hafi alið á. Jafnfram getur hann þessa hvernig þjóðin hafi í senn umgengist djöfulinn sem gamansagnapersónu og „sjálfstæða veru með horn og hala og hóf á öðrum fæti“. Þarna tímasetur Davíð Gullna hliðið óbeint um miðja 18. öld og fjallar um listina að lifa og ekki síst deyja (ars morendi) kristilega samkvæmt kenningum kirkjunnar á þeim tíma. Þar má einnig finna skýringar hans á hugmyndinni um himanförina sem fjallgöngu en hana byggði hann á frásögnum Gamla testamentisins, t.d. Saltarans, á kraftbirtingu Guðs á fjöllum. Þá rekur hann og dæmi úr sálmaarfi þjóðarinnar (sem í raun byggja á Opinberun Jóhannesar) þar sem himnaríki er líkt við höll eða kastala sem hann telur eðlilegt að íslensk alþýða hafi umbreytt í góðbýli í grösugri sveit. Nú á dögum væri slíkt nefnt umhverfistengd eða kontextuell guðfræði. Vandséð er hversu djúpum rótum mynd Davíðs af gamalli, íslenskri þjóðtrú stendur í sögulegum veruleika. Erindið sýnir þó hvernig hann hugsaði sér leikverkið sem útlistun á henni.

Rætur verksins
Davíð byggði Gullna hliðið á þjósögunni „Sálin hans Jóns míns“ sem Matthías Jochumsson (1835–1920) skráði, líklega á prestaskólaárum sínum (1863–1865). Í gerð Matthíasar ber sagan öll svipmót meitlaðs og stílfærðs ævintýris og hefur m.a. að geyma samtöl kerlingar við postulana Pétur og Pál, Maríu guðsmóður og Krist sjálfan. Verkið kvaðst Davíð hafa skrifað á þremur vikum veturinn 1940–1941. Hefur það þá líklega verið fullmótað í huga hans löngu fyrr. Hann lagði enda löngu áður út af þjóðsögunni í samnefndu ljóði sem birtist í fimmtu ljóðabók hans Í byggðum (1933) en þar gætti róttækari hugmynda hjá Davíð en áður. Þar fann hann ekki aðeins til með öreigunum eins og stundum áður heldur sá nú heiminn í ríkari mæli með augum þeirra. Í ljóðinu er kerlingin slóttug í samningaumleitunum sínum við Lykla-Pétur og er staðráðin í að koma Jóni fyrir á „viðkunnanlegum stað“ en hann hafði átt fáa að og þar með staðið utan samtryggingar hinna máttugu í þessum heimi. Ljóðið hefur því félagslegan undirtón.
„Sálina hans Jóns míns“ er að finna í Þjóðsögum Jóns Árnasonar undir flokknum „Helgisögur, Paradís og helvíti“ og er hún líklega þekktasta þjóðsaga þess flokks. Kann að vera að hún hafi höfðað svo mjög til Davíðs og þjóðarinnar fyrr og síðar vegna þess boðskapar síns að sigrast megi á dapurlegum kjörum sínum og jafnvel örlögum með þrautseigri baráttu og eindregnum viljastyrk.
Hjónunum er lýst sem andstæðum. Jón var ódæll og illa þokkaður og þar að auki latur og ónýtur í heimili. Kerlingin var síúðrandi og hafði alla króka í frammi til að afla þess sem þurfti og kunni að koma ár sinni vel fyrir borð. Þótt þeim bæri margt í milli unni kerling karlinum mikið. Um áform kerlingar við banabeðið segir: „... er draga tók af karli kemur henni til hugar að eigi muni hann svo vel búinn undir dauða sinn að eigi sé vafamál hvort hann nái inngöngu í himnaríki. Hún hugsar því með sér að það sé ráðlagast að hún reyni sjálf að koma sál bónda síns á framfæri.“ Ekkert er rætt um ferð kerlingar en einfaldlega sagt: „Síðan fer hún til himna [...]“ Ekkert er heldur rætt um gullið hlið en þó um hlið, dyr og hurð hinmaríkis sem fremur ber svipmót hallar en bóndabýlis. Davíð stílfærði því þjóðsöguna og færði til íslenskra aðstæðna.
Kerling gaf ekki hlut sinn fyrir neinum. Við Pétur sem kvaðst ekki geta veitt sálinni viðtöku sagði hún: „Það hélt ég ekki Sankti-Pétur að þú værir svona harðbrjóstaður og búinn ertu nú að gleyma hvernig fór fyrir þér forðum þegar þú afneitaðir meistara þínum“. Við Páll sem taldi Jón ekki verða náðar sagði hún: „Þér má það Páll; ég vænti þú hafir verið verðari fyrir náðina þegar þú forðum varst að ofsækja guð og góða menn. Ég held að það sé bezt að ég hætti að biðja þig.“ María Guðsmóðir sýndi kvenlegri viðbrögð en hinir embættislegu postular og kvaðst ekki þora að hleypa Jóni inn vegna „ólátanna“ í honum. Kerlingin sækir mál sitt því harðar og segir: „Og ég skal ekki lá þér það [...] ég hélt samt þú vissir það að aðrir gæti verið breyskir eins og þú; eða manstu það nú ekki að þú áttir eitt barnið og gazt ekki feðrað það?“ Loks kom Kristur sjálfur fram í gættina en hafnaði Jóni þar sem hann hafi ekki trúað á sig. Snaraði kerlingin skjóðunni með sálinni þá inn hjá honum svo hún „fauk langt inn í himnaríkishöll“. Létti þá steini af hjarta kerlingar og fór hún við svo búið heim í kotið. Í þjóðsögunni sér „óvinarins“ eða djöfulsins aftur á móti ekki stað en hann gegnir mikilvægu hlutverki í leikritinu og á Akureyri hefur verkið jafnan verið dæmt nokkuð út frá frammistöðu hans!
Eins og fram kom óttaðist Davíð að áhorfendur hneyksluðust á verki hans. Hann ritskoðar þó þjóðsöguna og mildar hana. Í leikgerð hans skerst „Máríá, mild og há“ í leikinn er postularnir höfðu úthýst Jóni, kveðst skulu tala máli hans við son sinn vegna ástar og umhyggju kerlingar. Hún hefur því ekki tilefni til stóryrða, Kristur kemur ekki að öðru leyti við sögu og kerlingin leikur á Lykla-Pétur en ekki frelsarann. Leikgerð Davíðs gengur því sýnu skemur en fyrirmyndin.
Í Gullna hliðinu spinnur Davíð á vissan hátt sama þráð og í fyrsta leikverki sínu Munkunum á Möðruvöllum (1926). Þar deildi hann ákaft á ofurval kirkjunnar fyrr á tíð. Í Gullna hliðinu er gagnrýnin öll mildari og húmorinn meiri þótt ádeilu gæti á trúarlega sýndarmennsku, einstrengingshátt og dómhörku.

Karl og kerling
Benda má á að Jón Jónsson í Gullna hliðinu minnir lifandi og dauður á nafna sinn Hreggviðsson sem leit dagsins ljós nokkrum árum síðar í Íslandsklukku Laxness (1943–6, leikgerð 1950). Hann er hinn breyski og ófsótti kotbóndi sem talar kjarnyrta íslensku og biður ekki afsökunar á tilveru sinni frammi fyrir yfirvöldunum, hvorki þessa heims né annars. Einnig kveður við þjóðernislegan tón í verkinu þótt hann sé blandin ádeilu á úlfúð og ósamlyndi. Minnir það á að Davíð var ásamt Stefáni frá Hvítadal (1887–1933) eitt helsta skáld fullveldisins á sínum tíma. Enda lifði lengi í hinum þjóðernisrómantísku glæðum hjá honum.
Það er þó kerlingin sem er höfuðgerandi og aðalpersóna leikritsins, þótt hún beri ekkert nafn. Þá eru tilfinningar hennar margræðar ekki síst í garð Jóns. Kemur það í raun heim og saman við kvenímyndina í ljóðum Davíðs ekki síst í fyrstu bókinni, Svörtum fjöðrum (1919). Er hún í senn undirokuð kotkerling og uppreisnarkona gegn feðraveldinu og Guði sem endurlifir unga ást sína þegar nær dregur gullna hliðinu. Raunar má velta fyrir sér hvert hlutverk kerlingin hefur í þeim ýmsu myndum sem hún tekur á sig í þjóðsögunni og verkum Davíðs frá Fagraskógi: Er hún uppreisnarkona sem deilir á yfirvöld og krefst réttar hinna hrjáðu út yfir gröf og dauða? Er hún meðvirk eiginkona sem er brotin eftir heimilisofbeldi, niðurlægingu og smán? Eða er hún ef til vill samverkakona launarans (Co-Redeptrix) sem með þjáningu sinni ávinnur Jóni himnaríkisvist? Þegar hæst ber í himnaferðarsenunum má vissulega greina óljósar vísanir í krossfestingu.

Er boðsakur í verkinu?
Hugsanlega er þó langt til seilst að leita djúprar merkingar og boðskapar í guðdómlegum gleðileik Davíðs frá Fagraskógi og Leikfélags Akureyrar. Hann gefur fyrst og fremst innsýn í ævintrýraheim þjóðsögunnar. Og þó! Í verkinu má skynja jákvæða lífssýn og djúpan húmanisma að baki ádeilu og húmor. Sú sýn kemur ekki síst fram í orðum Helgu vinnukonu (ætli nafnið sé tilviljun?). Þar má jafnvel skynja grunnþætti góðrar kvennaguðfræði!

Ástarsaga Íslendinga

Hjalti Hugason, 7. January 2014 15:42

Gunnar Karlsson fyrrum sagnfræðiprófessor hefur ekki setið auðum höndum síðan hann lét af starfi við HÍ (2009). Líkt og fyrr hefur hann líka valið sér ólík viðfangsefni bæði hvað varðar tímaskeið, efnistök og markhópa. Í Ástarsögu Íslendinga að fornu um 870–1300 sem kom út í lok nýliðins árs (Reykjavík: Mál og menning 2013) heldur hann inn á enn nýjar slóðir í áhugaverðu og umfangsmiklu riti (381 bls., tilvísanir, enskur útdráttur, heimildaskrá, myndaskrá og bendiskrá). Eins og fram kemur í titli afmarkar höfundur tímabil sitt frá upphafi Íslandsbyggðar þar til sögutíma samtímasagna (hér biskupasagna) lýkur (bls. 13).
Í þessari athyglisverðu bók fjallar Gunnar um sístætt og fyrirferðarmikið fyrirbæri í mannlegri tilveru þar sem er ástin. Þar einskorðar höfundur sig þó við kynferðislega ást (bls. 279) en fjallar ekki um ást foreldra til barna, barna til foreldra eða aðrar viðlíka kenndir (bls. 285) enda er slík afmörkun algeng og líklega algild þegar orðið ástarsaga er viðhaft þótt ekki sé það notað um rit í Rauðu seríunni.
Víða hefur vissulega í seinni tíð verið fjallað um samskipti kynjanna í sögu Íslendinga út frá mismunandi sjónarhornum. Nú síðast má nefna doktorsritgerð Agnesar S. Arnórsdóttur í því samhengi, Property and Virginity. The Christianization of Marriage in medieval Iceland 1200–1600 (Århus 210). Ástarsaga Gunnars er þó umfangsmesta ritið sem gefið hefur verið út hérlendis um samskipti karla og kvenna á hinu kynferislega sviði og afleiðingar þeirra á miðöldum. Hér má þó minna á brautryðjendaverk Ingu Huldar Hákonardóttur Fjarri hlýju hjónasængur. Öðru vísi Íslandssaga (Reykjavík: Mál og menning 1992 og 1995).
Ástin er lykilfyrirbæri í hugarfars- og jafnvel félagssögu ásamt fæðingunni, dauðanum, reiðinni, hatrinu, hefndinni og ýmsu öðru sem vissulega getur tengst ástinni eða verði afleiðingar hennar þó svo þurfi sem betur fer alls ekki að vera nú á dögum þótt sú væri oft raunin á miðöldum. Höfundur kýs þó að skilgreina rit sitt með nokkuð þrengri hætti og nefnir efni þess „réttarsögu tilfinninganna“ (sjá bls. 11–12) eða „tilfinningasögu“ (bls. 167) og skal hér fremur hallast að síðari afmörkunina þar sem ritið er svo miklu meira en réttarsaga.
Bók sinni skiptir Gunnar í 20 kafla sem bregður nokkru ljósi á fjölþætt efnistök hans. Efnið má þó stúka saman í stærri heildir: Fræðilegan grunn ( einkum kap. 2–4), umfjöllun um ástina eins og hún endurspeglast í mismunandi heimildaflokkum (ljóðum, Íslendingasögum og samtímasögum (Sturlungu og biskupasögum) (kap. 5–7), þematíska umfjöllun um flest sem að kynferðislegri ást lýtur (kap. 8–17) hvort sem um einstaklinga af gagnstæðu eða sama kyni (kap. 18) er að ræða. Þá er Laxdælu með Guðrúnu Ósvífursdóttur ekki að ófyrirsynju helgaður sérstakur kafli (kap. 19) og efnið loks dregið saman í yfirliti( kap 20). Er líklegt að ólíkir lesendur muni hafa mismikinn áhuga fyrir hinum ýmsu hlutum efnisins en auðvelt er að fóta sig í ritinu með hjálp óvenju greinargóðs efnisyfirlits auk bendiskrár (sjá síðar).
Gunnar Karlsson hefur víða leitað fanga til þessa rits síns og aflað sér undraverðrar yfirsýnar yfir efni miðaldarita um ástina og kynlífið í margbreyttum myndum þess. Þá virðist hann vel áttaður í fræðilegri umfjöllun um efnið. Hér skal þó staldra við fræðilegt atriði sem lýtur að sjálfu grundvallarhugtakinu ást og fyrirbærinu sem slíku. Við lestur ritsins vakna oft efasemdir um hvort raunhæft sé að ræða um ást á sögutíma bókarinnar, öndverðum miðöldum, og ást í nútímanum eins og um sama eða sambærilegt fyrirbæri sé að ræða. Hér er ekki ýjað að því að við nútímafólk og tilfinningar okkar séu á einhvern veigamikinn hátt öðru vísi en miðaldamenn, karlar og konur, og kenndir þeirra. Það sem átt er við er að félagslegt umhverfi ástarinnar og þess vegna réttarstaða hennar er með allt öðrum hætti nú en gerðist á miðöldum. Hér skal því sem sé haldið fram að ást í for-nútímalegu samhengi sé ekki sama fyrirbæri og ást í nútímasamhengi. Með þessu er sagt að ást Íslendinga á miðöldum hafi félagslega séð ekki að öllu leyti verið sama fyrirbæri og ástir okkar nútímafólks. Með þessu er raunar líka haldið fram að ást okkar Vesturlandabúa þurfi ekki að vera eins og ást t.d. meðal múslima og er þá ekkert fullyrt um að við séum eitthvað öðru vísi en þeir sem einstaklingar.
Almennt er litið svo á að einstaklingshyggja og sjálfsvitund sé með allt öðrum hætti nú en á miðöldum. Þá er einstaklingbundið svigrúm til tilfinninga og tjáningar þeirra miklu meira. Nú er ást almennt kennd sem gerir vart við sig milli tveggja sjálfráðra og jafnrétthárra einstaklinga sem í langflestum tilvikum kallar fram gagnkvæmni, samábyrgð og samstöðu beggja aðilanna. Ef svo er ekki lítum við líklega flest svo á að ekki sé um ástarsamband að ræða heldur ofbeldissamband. Þessi var alls ekki raunin á sögutíma Gunnars. Þá kom konan í langflestum tilvikum ekki fram sem myndugur einstaklingur á sviði ástarinnar heldur ráskuðust aðrir með hana og ást hennar. Svona í einfaldaðri mynd eru flest okkar líklega þeirrar skoðunar að ást sé sjálfsögð ef ekki nauðsynleg forsenda fyrir samlífi tveggja einstaklinga (ef ekki er um skyndikynni að ræða). Áður fyrr var aftur á móti löngum litið svo á að ástin skapaðist af samlífinu og væri afleiðing þess en ekki forsenda. Því virðist mér óhjákvæmilegt í fræðilegri umræðu að greina skarpt á milli þess sem kalla má holdlega ást (þ.e. hinar lífeðlisfræðilegu hliðar ástarinnar) og félagslegrar ástar (þ.e. hvernig ástin er upplifuð, túlkuð og tjáð) líkt og greint er milli líffærðilegs og félagslegs kyns. Þessa virðist mér ekki nægilega gætt í annars ágætu riti Gunnars Karlssonar og valdi það stundum svolítið rómantískri slagsíðu. Ástæðan fyrir þessu er sú að Gunnar stillir eðlis- og mótunarhyggju upp sem of skýrum valkostum þegar um fræðilegan grunn ritsins er að ræða og dæmir mótunarhyggjuna raunar úr leik. — Þeim sem þetta ritar virðist aftur á móti að eðlishyggja sé traustur fræðilegur grunnur til að skilja hina holdlegu ást en mótunarhyggjusjónarmið séu óhjákvæmileg til að fóta sig í breytilegum veruleika hinnar félagslegu ástar.
Höfundur ætlar bók sína fræðimönnum, háskólanemum og „ósérfróðu áhugafólki“ (bls. 13). Þetta er raunar algeng markaðsfærsla svipaðra rita þar sem sérfræðimarkaðurinn er of smár en söguáhugi hefur aftur á móti verið útbreiddur meðal þjóðarinnar a.m.k. fram undir þetta. Sá sem hér rýnir í ritið er þó ekki frá því Gunnari hafi tekist einkar vel til að ná þessu víðtæka og um margt mótsagnakennda markmiði. Þar kemur ugglaust tvennt til: hið áhugaverða viðfangsefni og fjölþætt þjálfun höfundar að miðla rannsóknum sínum og sögulegum rannsóknarniðurstöðum almennt en hann hefur m.a. ritað kennslubækur fyrir flest skólastig.
Loks skal höfundi og útgefandi hrósað sérstaklega fyrir ýtarlega bendiskrá (tæpar 30 bls.) en það er samfelld nafna-, örnefna- og atriðisorðaskrá. Allt of oft er illa staðið að slíkum skrám í íslenskum fræðiritum. Löng hefð er vissulega fyrir nafnaskrám sem nýttust vel á tímum persónuhverfrar sögu. Við nútímafræðimennsku ríður aftur mun meira á að mögulegt sé að slá upp á einstökum hugtökum eða fyrirbærum enda efnistökin nú orðið oftast þematísk með einum eða öðrum hætti.