Um HG

Hólmfríður Garðarsdóttir, Ph.D., lauk doktorsnámi í bókmenntafræði og spænsku, með áherslu á bókmenntir Rómönsku Ameríku, frá Texasháskóla í Austin árið 2001. Hún hefur starfað sem aðjunkt, lektor, dósent og prófessor við Háskóla Íslands frá 1998, -um þessar mundir við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda á Hugvísindasviði skólans. Hún hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir háskólann m.a. verið formaður jafnréttisnefndar, setið í gæðanefnd og stjórn Alþjóðastofnunar. Hún hefur verið greinarformaður í spænsku og setið í deildarráði. Hólmfríður tók við starfi deildarforseta Deildar í erlendum tungumálum sumarið 2012 og situr  í stjórn Hugvísindasviðs.

Sem fræðimaður starfar Hólmfríður innan vébanda Hugvísindastofnunar og Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Hún hefur haldið  fyrirlestra víða um heim og birt fjölda fræðigreina á spænsku, ensku og íslensku um rannsóknir sínar.

Hólmfríður er höfundur bókarinnar La Reformulación de la Identidad Genérica en la Narrativa de Mujeres Argentinas de Fin de Siglo XX (Uppstokkun kynjaðra sjálfsmynda í ritverkum argentínskra kvenna við lok tuttugustu aldar), sem út kom í Buenos Aires árið 2005. Hún ritstýrði og ritaði að hluta bókina Mujeres latinoamericanas en movimiento (Konur Rómönsku Ameríku sem hreyfiafl), sem út kom hjá Háskólaútgáfunni árið 2006. Hún ritstýrði (ásamt dr. Helga Gunnlaugssyni, prófessor) og sá um þýðingu á bókinni Félagsfræði rótfestunnar: Kenningar um uppruna og eðli borgarsamfélagsins, eftir argentínska félagsfræðinginn dr. Enrique del Acebo Ibáñez, sem einnig kom út hjá Háskólaútgáfunni árið 2007. Hún ritstýrði enn fremur og ritaði inngang að bókinni Gustur úr djúpi nætur: Ljóðasaga Lorca á Íslandi. Í bókinni er að finna tvímála útgáfu á ljóðaþýðingum eftir spænska ljóðskáldið Federico García Lorca ásamt ítarlegri umfjöllun um líf hans og störf. Bókin kom út árið 2007 í sérstakri tvímála ritröð á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Bókin Yfir saltan mar, sem hún ritstýrir ásamt Sigrúnu Ástríði Eiríksdóttur, þar sem er að finna ljóð og þýðingar á ljóðum argentínska rithöfundarins og ljóðskáldsins Jorge Luis Borges, kom út í sömu ritröð árið 2012. Um þessar mundir vinnur hún að svipaðri útgáfu á ljóðum síleanska ljóðskáldsins Pablo Neruda ásamt Guðrúnu Tulinius auk þess að vinna að bókinni Langt að komnar, en þar er að finna safn þýðinga á smásögum eftir konur frá Mið-Ameríku.

Ógetið er þeirra fjölmörgu greina sem Hólmfríður hefur sent frá sér, á sviði bókmennta- og kvikmyndafræði -á íslensku og bókarinnar sem hún vinnur enn fremur að um þessar mundir um málefni minnihlutahópa við Karíbahafsströnd Mið-Ameríku ríkja.