Kristmundur Bjarnason: Amtmaðurinn á einbúasetrinu

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Saga íslenskrar sjálfstæðisbaráttu hefur orðið sífellt flóknari á síðustu árum, og munar þar mestu um þá innspýtingu sem hefur fylgt rannsóknaraðferðum á borð við einsögu, kvennasögu og módernískar kenningar um þjóðernishyggju. Fáir trúa því núorðið að dönsk yfirvöld hafi í meginatriðum samanstaðið af illum og siðblindum kúgurum. Sagnfræðingar hafa aftur á móti leitast við að endurskoða ferlið sem Ísland gekk í gegnum frá útgáfu Fjölnis til lýðveldisstofnunarinnar með hliðsjón af því sem gerðist í öðrum löndum. Hliðstæðurnar eru víða augljósar en margt liggur enn órannsakað. Grímur Jónsson amtmaður er gott dæmi um 19. aldar Íslending sem hefur lengi legið óbættur hjá garði; Grímur var vitaskuld ekki í „vinningsliðinu“, og frá því að Björn Þorsteinsson prófessor kvað í Íslandssögu sinni upp úr um Grím að hann hefði verið „dálítið galinn“ hefur sú einkunn staðið óhögguð að mestu. Það er því löngu tímabært að fá ítarlega ævisögu Gríms amtmanns upp í hendurnar. Ævisagan Amtmaðurinn á einbúasetrinu er á vissan hátt í samræmi við sagnfræðilega endurskoðunarstefnu síðustu tveggja áratuga, því hér er upphaf sjálfstæðisbaráttunnar skoðað frá sjónarhóli hins opinbera valdhafa. Þó er það svo að höfundur bókarinnar, Kristmundur Bjarnason á Sjávarborg, var orðinn nafnkunnur fræðimaður hérlendis löngu áður en nokkur maður hafði heyrt minnst á Benedict Anderson. Kristmundur verður níræður á næsta ári; þegar nafni hans er slegið upp í Gegni koma upp 160 færslur af ýmsu tagi, þar á meðal allar Fimmbækurnar eftir Enid Blyton, sem Kristmundur þýddi á íslensku.

Amtmaðurinn á einbúasetrinu er hefðbundin ævisaga að forminu til, saga eins einstaklings frá vöggu til grafar. Ekkert er við það að athuga í sjálfu sér, en við lestur sumra kafla vakna spurningar um hvort ævisöguformið hafi beinlínis hamlandi áhrif á framsetningu efnisins. Þetta á sérstaklega við í fyrri hluta bókarinnar þar sem Ingibjörg Jónsdóttir, systir Gríms, kemur mjög við sögu. Mikið er stuðst við þau bréf Ingibjargar sem birtust í Húsfreyjunni á Bessastöðum; þetta er svo ríkulegur efniviður að maður ímyndar sér að einhver gæti tekið að sér að skrifa systkinasögu – bók þar sem Grímur og Ingibjörg eru í jafnmiklu aðalhlutverki. En í meðförum Kristmundar verður líka ljóst hvers ævisagan er megnug, ekki síst í yfirlitsköflum um þar sem hin sértæka rannsókn er tengd við breiðari heildarmynd. Kaflarnir um uppeldi og skólagöngu Gríms eru raktir í nákvæmri tímaröð, en þegar Grímur er tekinn við amtmannsstarfinu koma kaflar þar sem einstök mál eru afgreidd, eitt í einu, og þá oft hlaupið fram í tímann til að rekja þráðinn til enda. Kaflarnir um embættisstörfin eru oft mjög yfirgripsmiklir, enda viðbúið að saga svo áhrifamikils embættismanns sem Gríms Jónssonar sé öðrum þræði samfélagssaga tímabilsins sem hann lifir. Persóna Gríms er notuð sem bindiefni margra ólíkra frásagna, og Kristmundur dregur hér saman ýmislegt úr sínum fyrri rannsóknum sem eru flestar á mun þrengra sviði, s.s. Saga Sauðárkróks og bækurnar um Þorstein á Skipalóni. Til að bæta um betur er svo birtur í bókinni mikill fjöldi munnmælasagna og lausavísna, og settur í samhengi við meginsöguna. Frásögnin er rituð með blandaðri aðferð, ef svo má segja; ímyndaðar senur og hlutlægar staðreyndir eru settar fram á víxl.

Amtmaðurinn á einbúasetrinu er bók sem bregður nýju ljósi á Grím Jónsson amtmann. Það er t.a.m. dregið vel fram að Grímur viðhafði nútímalega stjórnunarhætti á borð við verðlaunaveitingar, og var framfarasinnaðri og frjálslyndari en almennt er talið; hann beitti sér fyrir bættum samgöngum og ræktun matjurta, fæðu sem flestir samlandar hans höfðu hina mestu óbeit á. Þáttur Baldvins Einarssonar er ein skýrasta sönnun þess að áhrif amtmannsins á hina ungu og frjálslyndu kynslóð voru allnokkur, en af bréfum Baldvins að dæma er aðdáun hans á Grími alveg augljós. Víða skín sú tilhneiging höfundarins í gegn að bera blak af Grími eða taka upp hanskann fyrir hann, t.d. í frásögninni um aftöku Agnesar og Friðriks 1830. Það er gefið í skyn að amtmanni hafi verið óljúft að gefa grænt ljós á aftökuna, en ekki er vísað til neinna heimilda, s.s. bréfaskrifa, til að rökstyðja þá skoðun. Það er þó hvergi reynt að draga fjöður yfir þá skapgerðarbresti sem Grímur Jónsson bjó sannarlega yfir. Sálfræðilegar túlkanir eru ekki alls fjarri, þótt ekki séu þær of áberandi. Þannig er t.d. lagt upp með það í æskuköflunum að Grímur hafi stefnt að frama í embættismannakerfinu frá unga aldri. Stefnufesta hans og ósveigjanleiki á fullorðinsárum eru rakin til menntunar hans í landher Dana, en sú túlkun er víða sjáanleg í skrifum eldri höfunda um Grím amtmann.

Tök Kristmundar Bjarnasonar á efninu í Amtmanninum á einbúasetrinu eru sannarlega engin lausatök; hér er vitnað í mikið magn frumheilda – sendibréf, annála, dómabækur, tímarit, verslunarbækur – og meira að segja munnlegar frásagnir gamalla Hörgdæla sem höfundur ræddi við á sjötta áratug síðustu aldar. Það eru því engar ýkjur að segja að Kristmundur sé í svo gott sem beinu talsambandi við ýmsa þá aðila sem komu að atburðunum sem lýst er. Mikið er um leiðréttingar á rangfærslum í eldri heimildum og málfarið er allt kjarngott og rismikið án þess að virka nokkurs staðar uppskrúfað eða tilgerðarlegt. Bókin er afrakstur hálfrar aldar rannsókna að minnsta kosti, og nú þegar Kristmundur er búinn að reisa Grími Jónssyni þennan mikla bautastein, er auðvitað bara að vona að yngri fræðimenn taki við keflinu. Þess má að lokum geta að Norðurreið Skagfirðinga, sá örlagaríki atburður sem stendur við endalok ævi Gríms Jónssonar, var enn raunverulegt þrætuefni manna eftir miðja 20. öld; fólk skiptist í lið eftir því hvort það studdi Grím eða Norðurreiðarmenn og deildi um siðferðilegt réttmæti þeirrar ráðgátu sem uppákoman óneitanlega var. Ef nógu margir lesa Amtmanninn á einbúasetrinu er aldrei að vita nema sá þráður verði tekinn upp aftur – og mikið yrði það skemmtilegt.

(Víðsjá, 3. desember 2008)

Eiríkur Örn Norðdahl: Ú á fasismann

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Ein áþreifanlegasta þversögnin við íslenskt málsamfélag er sú staðreynd að þótt aldrei hafi jafnmargir tjáð sig á ritaðri íslensku eins og nú hefur einsleitnin aldrei verið meiri. Við lifum í heimi skilaboða, og dagurinn er ein samfelld textarannsókn; frá dagblöðum á morgnana, um bloggsíður á daginn, til spjallþátta á kvöldin. Við aðstæður sem þessar er hætt við því að hugurinn sljóvgist og við verðum ónæmari fyrir klisjunum. Ekkert skal hér fullyrt um hvort bókmenntirnar græði á svona ástandi eða ekki, en þó má segja með nokkurri vissu að hingað til hafi þær ekki brugðist við því nógu oft, alla vega ekki á sérlega frumlegan eða áhrifaríkan hátt. Þess vegna var það bara tímaspursmál hvenær skáld eins og Eiríkur Örn Norðdahl kæmi fram; þegar maður les ljóðin hans spyr maður sig hvers vegna einhver annar skuli ekki vera löngu búinn að vinna verkið.

Nýjasta ljóðabók Eiríks Arnar, Ú á fasismann, er að sínu leyti framhald af ýmsu því sem sést hefur í fyrri bókum höfundar, en hér má segja að dirfskan sé færð upp um fjóra táknfræðilega gíra. Eiríkur Örn sækir í vopnabúr skálda sem komu fram erlendis á 6. áratugnum og brugðust við hugmyndum um kreppu í tengslunum milli orðanna og veruleikans. Menn vildu ólmir útiloka alla hefðbundna ljóðrænu og stefna að skilyrðislausum tærleika. „Við viljum ekki afmynda, við viljum mynda,“ var slagorð þessar skálda. Framlag þeirra var viðleitni til að frelsa orðin úr fjötrum viðtekinnar merkingar, en afraksturinn er kallaður einu orði konkretlist. Í konkretljóðum eru tvö svið sameinuð: Orðið og myndin. Orð eru nefnilega ekki bara tákn sem vísa á hugmyndir og raunveruleika, heldur eru þau líka gagnleg sem byggingareiningar í myndrænu sköpunarstarfi. Eiríkur Örn er vitanlega ekki fyrsta íslenska ljóðskáldið sem gerir sér mat úr þessu efni; hægt er að nefna sem dæmi tvær eldri ljóðabækur sem snúast um þetta að meira eða minna leyti: Tvíbreitt (svig)rúm eftir Gyrði Elíasson og Veggfóðraður óendanleiki eftir Ísak Harðarson. Báðar eru þær frá miðjum níunda áratugnum, þegar tölvueign var að verða almenn og hvers konar föndur með texta varð auðveldara viðureignar en á gömlu ritvélunum. Á sama hátt er Ú á fasismann afrakstur nýrra miðla, netsíðna, tölvupósts og fullkominna myndvinnsluforrita, og í verkinu er jafnvel vísað til sumra miðla beint á stöku stað. En hér er engin sjálfstýring í gangi; Eiríki Erni tekst að sökkva sér ofan í klisjurnar og spinna úr þeim vafninga sem eru í senn nýstárlegir og ágengir. Upp í hugann koma línur úr ljóði eftir Kristján Karlsson:

Úr rústum og rusli tímans

reisum vér kvæði vor undir dögun

Eiríkur Örn Norðdahl er flinkasti fúskarinn í hópi íslenskra samtímaskálda. Ljóðin hans eru smíðisgripir úr byggingarefni sem er ætlað til einhverra allt annarra nota, svona eins og fleki úr plastbrúsum, fataleppar úr skinnhandritum eða Macintosh-dolla sem er notuð sem tromma. Og þótt Ú á fasismann sé bullandi tilraunastarfsemi, a.m.k. í íslensku samhengi, þá má samt finna í henni tengsl við ljóðahefðina. Þau tengsl eru vitaskuld óhefðbundin; hér er t.d. samsuða úr öllum skrýtnustu hendingunum sem fyrirfinnast í kveðskap Æra-Tobba. Þjóðskáldin fá líka sinn skerf, t.d. listaskáldið góða í ljóðinu „Perlur úr ljóðaperlum Jónasar Hallgrímssonar“. Þar eru nokkrar handahófskenndar línur fengnar að láni úr kvæðum Jónasar og þær látnar mynda hringi; semsagt „ljóðaperlur“ í nýrri merkingu þess orðs.

En líkt og önnur framúrstefnuskáld hlýtur Eiríkur Örn Norðdahl fyrr eða síðar að þurfa að svara spurningunni um þýðingu ljóða sinna, ef hún hefur þá ekki þegar verið borin upp. Hvað ertu að reyna að segja okkur, Eiríkur Örn Norðdahl? heyri ég spurt. Hvað hefur þetta nokkuð með raunverulegt líf okkar að gera? Titill bókarinnar gefur fyrirheit um pólitískar skírskotanir, og á einni opnunni hittum við fyrir tvo stafakarla sem ræðast við um öfgasinnaðar skoðanir. „Ú á fasismann. Já, barasta ú á hann.“ segir annar stafakarlinn. Hinn stafakarlinn (sem líklega er kona) svarar: „Já, hann er geðveikt glataður.“ Allt er þetta undir írónískum formerkjum, og í samhljómi við þær félagslegu vangaveltur sem víða skjóta upp kollinum í bókinni. Hér birtast frasar og hugmyndir úr samfélagsumræðu síðustu mánaða, og því má segja að konkretljóð Eiríks Arnar Norðdahl feli líka í sér hefðbundnari róttækni en þá mállegu; hér er m.a.s. að finna gagnrýni á raunverulega, nafngreinda einstaklinga að hætti satýruskálda.

Að lokum má nefna að bókinni fylgir hljómdiskur með hljóðaljóðum, og með honum bætist enn eitt lagið ofan á merkingarheim verksins. Á þessum diski er fátt annað en rödd skáldsins sjálfs, eins og til áminningar um að merking orða er líka háð hljóðrænni tjáningu. Flest höfum við upplifað að upplifa þá tilfinningu að finnast eitthvert orð hljóma framandi, alveg fyrirvaralaust, orð sem við höfum þó notað margoft áður. Áhrifin af því að hlusta á hljóðaljóð Eiríks Arnar Norðdahl eru svipuð – við getum fundið fyrir framandleikanum í því kunnuglega ef við hlustum nógu lengi. Að öllu samanlögðu er bókin Ú á fasismann því fjölþætt upplifun og órækur vitnisburður um að Eiríkur Örn Norðdahl er fullfær um að reisa kvæði úr rústum og rusli tímans.

(Víðsjá, 27. nóvember 2008)

Ólafur Haukur Símonarson: Fluga á vegg

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Þroskasögur skálda og rithöfunda eru nefndar künstlerroman upp á þýska tungu, og að lítt athuguðu máli gæti maður haldið að nýjasta bók Ólafs Hauks Símonarsonar, Fluga á vegg, væri einmitt þannig bók. Þetta er sagan um bernsku Ólafs Hauks, allt frá fæðingunni til fyrstu barnaskólaáranna. Ekki þarf að efast um að hér sé lýst bernsku höfundarins sjálfs, enda er drengurinn nafngreindur í verkinu; en þó er settur varnagli við sannleikshugtakið strax á titilsíðu með hefðbundnum, þversagnakenndum undirtitli: „Sönn lygasaga,“ er einkunnin sem sagan fær frá hendi höfundar. Vanir lesendur sjálfsævisagna eru orðnir þaulkunnugir svona efasemdum um hæfni minnisins til að varðveita alla atburði sómasamlega; það er farið að heyra til undantekninga að sjá sögur sem gefa sig út fyrir að vera afurð óbrigðuls minnis þess sem skrifar. En skrásetningin sjálf er ekkert aðalatriði hjá Ólafi Hauki, hann vindur sér beint að efninu og lýsir því hvernig hann streitist á móti og spyrnir við fótum þegar sú stund kemur að hann þarf að yfirgefa kvið móður sinnar. Strax í þessum fyrsta kafla er sleginn tónn sem er ekki í samræmi við framhaldið; rödd þess sem talar er í ætt við það sem maður sér stundum á heimasíðum hvítvoðunga á Internetinu, á Barnalandi og hvað það nú heitir allt saman, þar sem ómálga börn halda dagbækur um atburði ævi sinnar, og kómíkin er fólgin í því að lesa óbarnslegan, stundum gelgjulegan texta og ímynda sér að það sé barnið sjálft sem segi frá. Á sama hátt lýsir hinn nýfæddi Ólafur Haukur Símonarson vonbrigðum sínum með að þurfa að koma í heiminn: „Svo klippti einhver á naflastrenginn, og þar fauk síðasta von mín um að geta lifað góðu lífi í ókeypis húsnæði með frítt fæði.“

En þessi aðferð fyrsta kaflans er hins vegar einsdæmi í verkinu, og í köflunum sem á eftir koma er þessu víða snúið við: Írónían gengur út á það að sögumanninum er gerð upp vanþekking, svo að útkoman verður skopleg. Sjónarhorni barnsins er beitt til að lýsa athöfnum fullorðna fólksins og þannig er stundum undirstrikaður viss fáránleiki. Dæmi um þetta má sjá í lýsingunni á Hauki málara, sem er pabbi Arnars, vinar Ólafs Hauks. Haukur málari er sem sagt haldinn spilafíkn, en það er hvergi sagt beint, heldur er einkennunum lýst með augum hins barnunga sögumanns, sem er að sjálfsögðu mjög forviða á þessari hegðun: „Á veturna sefur hann stundum allan daginn,“ segir drengurinn. „Mamma segir að hann spili á nóttinni. Ég skil ekki hvernig menn nenna að vaka á nóttinni til þess að spila. Við Arnar spilum oft á daginn og á kvöldin og það er mjög gaman, en ekki mundum við nenna að vaka alla nóttina til að spila.“ Önnur persóna í bókinni er nágranni fjölskyldunnar og kallaður Óskar hinumegin. Það er gefið sterklega til kynna að samband hans við mömmuna sé aðeins nánara en pabbanum þyki hæfilegt. En barnið sem segir söguna skilur ekki slíkt og lýsir atvikum án þess að gera sér grein fyrir orsakasamhenginu. Þessi íroníska frásagnartækni er eins konar aðalsmerki á sögunni, en hún er þó ekki allsráðandi, því stundum er eins og sögumaðurinn gleymi því stundarkorn að hann er barn, og breytist í fullorðinn mann, sem leggur mat á atburðina úr fjarlægð. Þetta gerist gjarnan í lok kafla. Þá er sagt frá einhverju sem gerist tuttugu eða þrjátíu árum síðar og varpar ljósi á málsatvik, eða þá hvernig höfundurinn sjálfur upplifi hlutina eftir svo langan tíma. Þetta er óneitanlega í algerri mótsögn við þá barnslegu einfeldni sem er ríkjandi annars staðar í verkinu, og fyrir vikið er listrænu samræmi þessarar sögu verulega ábótavant.

En þrátt fyrir þetta er Fluga á vegg ýmsum góðum kostum gædd. Þetta er Reykjavíkursaga; hér er lýst kjörum fátæks fólks um miðja síðustu öld, og gildismat samfélagsins er tekið til frjórrar skoðunar. Þetta birtist m.a. í hugleiðingum um stéttamun, sem stundum getur verið falinn. Sögumaðurinn ungi fær tár í augun og hleypur í vörn þegar faðir hans gerir honum ljóst að þótt fjölskyldan búi í húsi en ekki bragga sé samt ekki svo mikill munur á þeim og braggafólkinu, kömpurunum; lífskjörin eru nefnilega um margt sambærileg. Drengurinn hefur mikið stolt til að bera þrátt fyrir fátæktina og líkist þannig móður sinni sem sér til þess að sonur hennar gefi rausnarlegar gjafir þegar honum er boðið í barnaafmæli hjá fjölskyldum í efri stétt. Fluga á vegg hefur mikla samfélagslega skírskotun; það má segja að þetta sé helsti styrkur bókarinnar og tengi hana jafnframt við þær skáldsögur sem Ólafur Haukur skrifaði í kringum 1980. Lesandinn fær sterka tilfinningu fyrir lífskjörunum sem persónurnar búa við og þeirri félagslegu orðræðu tímabilsins sem birtist t.d. í máli sjálfstæða kaupmannsins sem kallar KRON-veldið „kommúnistafélag“. Það er þó ekki laust við að hér sé fortíðin skoðuð í ljóma sem verður helst til of rjósrauður á köflum, og sums staðar rennur tónn verksins út í hreina og klára væmni, t.a.m. í sögulok.

Fluga á vegg er saga sem ber þess ekki augljós merki að vera rituð af jafnreyndum höfundi og raunin er. Á vissan hátt minnir verkið einna helst á barnabók, ekki bara vegna þess að það er barn sem talar, heldur líka vegna þeirrar bernsku úrvinnslu sem bókin byggir á. Þótt Ólafur Haukur Símonarson ætli sér ekki um of í þessu verki fær verkið þó óneitanlega laka útkomu úr samanburði við sambærileg verk hérlend frá síðustu áratugum. Það er enn fremur ljóst að ekki er þetta künstlerroman, því þroskasaga Ólafs Hauks sem rithöfundar fær sama og enga athygli, en fyrst hann er á annað borð kominn í endurminningagírinn er auðvitað bara að vona að sú saga verði sögð í næstu bókum.

(Víðsjá, 25. nóvember 2008)

Hermann Stefánsson: Algleymi

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Sagan segir að á meðan Bítlarnir voru enn starfandi hafi John Lennon borist til eyrna að í einhverjum breskum skólum væri þegar byrjað að láta nemendur túlka texta Bítlalaga í ljóðgreiningartímum. John brást við þessum fréttum með því að semja lagið „I am the Walrus“, en texti þess lags er ein samfelld og óskiljanleg þvæla. „Látið þið nemendurna túlka þetta,“ sagði John Lennon. Þegar nýjasta skáldsaga Hermanns Stefánssonar, Algleymi, er lesin, er ekki laust við að mann gruni að þar sé eitthvað svipað á ferðinni; rithöfundurinn sitji heima og flissi yfir öllum bókmenntafræðingunum sem séu að reyna að túlka textann. Þetta er með öðrum orðum ögrandi skáldsaga, því hún ögrar viðteknum hugmyndum okkar um sköpun merkingar. Á einum stað í verkinu er að finna hugleiðingu um orðið „borðstofuborð“, og má segja að þar sé komin hliðstæða við merkingarheim sögunnar. Orðið „borðstofuborð“ er furðulegt orð; þetta er borð – af því þiggur stofan merkingu sína (borðstofa) – og svo er borðið skilgreint aftur með vísun í stofuna = borðstofuborð. Þar með er merkingarsköpunin komin í hring. Svoleiðis er þetta líka í Algleymi Hermanns Stefánssonar: Textinn vísar í raunveruleikann sem aftur vísar í textann, og útkoman er sífelld speglun.

En þótt þetta hljómi nýstárlega er hér vitanlega eldgamalt fyrirbæri á ferðinni. Svona skáldskapur varð til í alvöru á sjöunda áratugnum með verkum höfunda eins og John Fowles og Kurt Vonnegut. Þetta er á erlendum málum kallað metafiksjón, eða sjálfsögur; sjálfsmeðvitaðar sögur þar sem fengist er við hlutverk skáldskaparins sjálfs og tengsl hans við veruleikann. En bókmenntalegur tími er auðvitað afstæður og mismunandi eftir bókmenntakerfum. Íslenska metafiksjónið er þannig enn óskrifað blað að mestu. Fræðimenn hafa að vísu þóst sjá einkenni þess í verkum eldri höfunda, nú síðast Jón Karl Helgason í sannfærandi Skírnisgrein um Vikivaka Gunnars Gunnarssonar. Hallgrímur Helgason var sömuleiðis kominn á sporið í Höfundi Íslands, en hreinræktaða metafiksjón-sagnahöfunda höfum við Íslendingar enga átt fyrr en Hermann Stefánsson mætti á svæðið.

Algleymi hefst á því að aðalpersónan, Guðjón Ólafsson, vaknar á sjúkrahúsi og er búinn að missa minnið. Í hönd fer endurhæfingarferli þar sem hann þarf að læra líf sitt upp á nýtt. Minnisleysi er þekkt frásagnarbragð í skáldverkum, enda kjörin leið til að fást við stórar spurningar; minnið er jú ein helsta undirstaðan undir persónuleika mannsins. Og þjóðfélagsþróun er tilvalið að skoða með augum hins minnislausa. Það gerði Washington Irving í smásögunni Rip van Winkle, sögu um mann sem missir tuttugu ár úr lífi sínu og sefur af sér bandaríska frelsisstríðið. En minnisleysi Guðjóns Ólafssonar hefur lítinn sem engan þjóðfélagslegan snertiflöt; Hermann Stefánsson notar það fyrst og fremst sem tilefni til að fabúlera um málspekileg álitaefni, þanþol merkingarsköpunar og mannleg samskipti. Allt er þetta gert með miklum sóma, það er flogið upp í hæstu hæðir fáránleikans og vangaveltunum hrært saman við pælingar um eðlisfræði, sem eru alls ekki fyrir byrjendur, en eru þó gerðar læsilegar hér.

Algleymi líður þó dálítið fyrir óljósar sögureglur, því auðvitað er þetta fantasía, og þótt við gerum ekki þá kröfu að fantasíur séu í samræmi við raunveruleikann viljum við þó helst að þær séu samkvæmar sjálfum sér. Þannig getum við gengið út frá því að Fróði í Hringadróttinssögu verði alltaf ósýnilegur þegar hann setur upp hringinn, Billy Pilgrim í Sláturhúsi 5 flakki úr einu atviki ævi sinnar yfir í annað algjörlega fyrirvaralaust og að Gremlinsarnir breytist í skrýmsli ef þeir borða eftir miðnætti. En í Algleymi er erfitt að greina nokkrar svona reglur, hér er öllu blandað saman; tímaflakki, minnisleysi, vitfirringu. Þessi skáldsaga er sannkölluð ótemja sem tryllist þegar minnst varir og engin leið er að segja hvert hún snýr sér næst. Og kannski er það ekki ókostur heldur kostur; um það er ekki gott að dæma, þegar upplausnin er á annað borð komin á dagskrá er kannski eins gott að leyfa henni að taka öll völd. Svo er þetta auðvitað tengt hinni eilífu spurningu um hlutverk rithöfunda. Ef hlutverk rithöfundarins er að skapa merkingaþrungna heild handa lesandanum er ljóst að Hermann Stefánsson er að vanrækja hlutverk sitt gróflega, því Algleymi býr hvorki yfir ótvíræðri merkingu né heild af nokkru tagi.

En svo snaggaraleg afgreiðsla er að sjálfsögðu ekki til sóma, því við nánari athugun er Algleymi, ásamt tveimur fyrri sögum höfundarins, sannkallað brautryðjendastarf. Hermann Stefánsson er í óðaönn við að innleiða bókmenntagrein sem er áður óþekkt í íslenska bókmenntakerfinu þó hún þekkist annars staðar, og með því kviknar von um að okkar bókmenntalegi tími fari nú að þokast áfram; við þurfum bara handfylli af forpokuðum gagnrýnendum sem úthrópa Hermann og hugsanlega sporgöngumenn hans fyrir tilgangslausan heilaspuna sem á ekkert erindi við lesendur og segir þeim ekki neitt um neitt. Við þurfum alltaf viðspyrnu við formgerðinni til að geta skilgreint betur í hverju formgerðin felst; og þetta á jafnt við í bókmenntum sem öðru. Algleymi er því kærkomið innlegg í umræðuna, og fyrir hana ber að þakka þótt ég hafi geispað yfir sumum köflunum.

(Víðsjá, 19. nóvember 2008)

Álfrún Gunnlaugsdóttir: Rán

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Álfrún Gunnlaugsdóttir er einn fárra íslenskra skáldsagnahöfunda sem leitast við að tengja sagnaheim sinn stórviðburðum í mannkynssögunni. Þetta sést auðvitað best á Yfir Ebrofljótið, hinni epísku skáldsögu Álfrúnar frá árinu 2001, sem fjallar um spænsku borgarastyrjöldina. Það er alls ekki hefðbundið að sagnahöfundar smáþjóða geri atlögu að svo stórum viðburðum í verkum sínum, og það má sannarlega kallast hugrekki af hálfu Álfrúnar að stunda slíka tilraunastarfsemi. Nýjasta skáldsaga Álfrúnar, Rán, er af svipuðum toga, því spænska borgarastyrjöldin er líka umfjöllunarefni þeirrar sögu; en þó með allt öðrum hætti. Stríðið er aðeins í bakgrunni sögunnar; frásagnir um það eru afgreiddar framarlega í verkinu með upprifjunum einfætta kráareigandans don Eloy sem barðist sjálfur í stríðinu. Sögusvið Ránar er miklu fremur sá Spánn sem er afleiðing stríðsins heldur en stríðið sjálft. Hér er sagðar sögur frá valdatíma Francos, tímanum þegar venjulegir, spænskir borgarar þora ekki að gagnrýna stjórnvöld nema í hálfum hljóðum, fjölmennar stúdentasamkomur eru leystar upp af litlu eða engu tilefni og yfirheyrslur yfir uppreisnarseggjum enda með því að fórnarlambið dettur út um glugga.

En sjónarhorn Álfrúnar í þessu nýju sögu miðast líkt og fyrr við Íslending í útlöndum; hún heitir Rán og er komin yfir miðjan aldur þegar sagan gerist, líklega farin að nálgast sjötugt. Rán býr í Genf í Sviss og er gift svissneskum manni, Hansjürg. Hún leggur af stað í ferðalag til Íslands þar sem hún þarf að ganga frá erfðamálum, en eiginmaðurinn vill ekki koma með, honum leiðast ferðalög og hverfur þar að auki sporlaust skömmu áður en Rán leggur af stað. Hún millilendir í Barcelona og á þar tveggja daga dvöl. Í þeirri göfugu borg gengst Rán á hólm við fortíðina, en hún var þar við nám á sínum yngri árum, snemma á 7. áratugnum. Í Barcelona kvikna endurminningarnar á hverju götuhorni; Rán horfir inn í sjálfa sig eins og hún er og eins og hún var, og reynir að spegla sjálfa sig andspænis því sleipa fyrirbæri sem kallað er „nútími“. „Hvað var nútími?“ spyr hún sig. „Upplifun fólks sem horfði með eftirvæntingu eða kvíða fram á veginn? Og átti allt eftir? Upplifun fólks er var á miðjum aldri og við völd og sat í feitustu embættunum? Eða upplifun þeirra sem áttu allt að baki?“ Við þessum spurningum á Rán engin örugg svör, en það hefði verið gaman að fylgjast með henni takast á við þær af meiri einurð. Framandleikinn sem Rán upplifir í þessari nútímalegu stórborg verður oftar en ekki kveikja að nostalgískri vandlætingu á ástandi hlutanna eins og þeir eru, og fyrir vikið verður til einhver kvörtunartónn sem hljómar of sterkt í þessari sögu. Þess ber þó að geta að lýsingarnar á Barselónuborg eru með því áhugaverðasta í bókinni, og bersýnilega skrifaðar af yfirgripsmikilli þekkingu á staðnum og sögu hans. Rán heimsækir kirkjur og listasöfn og lætur hugann reika um málverk, styttur og byggingar sem fyrir augu ber. Hvort þetta blandast á sannfærandi hátt við sjálfan söguþráðinn er síðan annað mál; að mínu mati skortir dálítið upp á að úr verði nægilega sterk heild. Útúrdúrarnir er oftast einmitt það – útúrdúrar – og þeir skapa ekki sérlega mikinn stuðning við sögu Ránar sjálfrar.

Rán hefur kynnst nokkrum fjölda fólks um ævina og deilir með okkur þeim ályktunum sem hún hefur dregið um mannseðlið. Þau sannindi eru þó dálítið misvísandi þegar vel er að gáð. Snemma í bókinni er Rán á ferð um borgina sem er í senn gömul og ný í hennar augum: ,,Ég kannast ekki við verslanirnar sem við mér blasa,“ hugsar hún þá. „Staðir taka greinilegri stakkaskiptum en fólk sem oftast varðveitir eitthvað af sínu gamla sjálfi.“ Nokkru seinna í bókinni segir Rán hins vegar: „Hugmyndin um að sérhver manneskja sé óbreytanleg eining, og þar með heilsteypt, fær varla staðist. Að minnsta kosti kemur hún ekki heim og saman við reynslu mína af að vafra um í henni veröld.“ Þetta misræmi er ekki til marks um að einhver breyting hafi átt sér stað í hugskoti Ránar; þvert á móti er lítil sem engin stigmagnandi afhjúpun í þeim endurminningum sem bornar eru á borð – allt er sem það sýnist í upphafi. Sé seinni skoðunin tekin gild má þó finna samsvörun í henni við hið stefnulausa ráf Ránar um borgina með tilheyrandi leigubílaferðum; Rán er hvorki heilsteypt né óbreytanleg heldur ósköp mannleg, og þess vegna mótsagnakennd.

Skáldsagan Rán krefst einbeitingar við lesturinn því skiptingar milli tímasviða eru örar. Framsetningin ber þannig keim af hugarórum aðalpersónunnar; Rán gleymir sér í eigin hugsunum og endurminningum þar sem hún situr eða stendur og er svo kippt aftur inn í nútímann. Sjálf frásagnaraðferðin er svo ekki til að einfalda málið, en Álfrún Gunnlaugsdóttir hefur tekið þá óvenjulegu ákvörðun að segja söguna á víxl í fyrstu og þriðju persónu. Það liggur ekki í augum uppi hvernig þær skiptingar eru ákvarðaðar, þær virðast hálftilviljanakenndar og áhrifin því takmörkuð. En hreyfiaflið í tilverunni, sem er Álfrúnu hugleikið í bókinni, er allrar athygli vert, og sé á annað borð hægt að tala um rauðan þráð í verkinu má segja að hann sé fólginn í hugleiðingum um þetta afl: „Eitthvert afl í tilverunni sá til þess að ekkert stæði í stað, að allt hreyfðist og væri breytingum undirorpið líkt og hver einstök manneskja. Það var óneitanlega heillandi tilhugsun, nema þegar afl þetta gekk eyðingunni á hönd.“ Á heildina litið má segja að þótt skáldsagan Rán hafi ekki til að bera rismikinn stíl og söguþráðurinn sé ekki leiddur til lykta á nógu áhrifaríkan hátt, innihaldi verkið samt geysifróðlegan efnivið. Álfrúnu Gunnlaugsdóttur lætur vel að lýsa hinum þversagnakennda veruleika sem setti svip sinn á Spán á 20. öldinni. Þeir sem eru á leiðinni til Barselóna á næstunni mega a.m.k. ekki sleppa því að lesa Rán, því hún kemur ekki síður að gagni sem ferðahandbók en skáldsaga.

(Víðsjá, 13. nóvember 2008)

Óskar Árni Óskarsson: Skuggamyndir úr ferðalagi

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Í nýjustu bók Óskars Árna Óskarssonar, Skuggamyndum úr ferðalagi, er að finna stuttan texta sem heitir „Dúskarnir í kjólnum“. Þetta er lýsing á mynd; „ekfrasis“ var slíkt nefnt meðal Grikkja til forna. Skáldið lýsir ljósmynd af móður sinni þegar hún var barn – hún stendur fyrir framan birkistól og er klædd í dökkan kjól. Þeir sem eru vel heima í verkum Óskars Árna átta sig strax á því að hér er gamall texti á ferðinni. Hann birtist áður undir titlinum „Ljósmynd af móður minni sjö ára“ í ljóðabókinni Ljós til að mála nóttina; það var árið 1996. Nú, tólf árum síðar, fáum við svo loks að sjá ljósmyndina sjálfa, en hún er birt með textanum í sinni nýju gerð. En hversu ný er hún, þessi nýja gerð? Nákvæmur samanburður leiðir í ljós að textarnir tveir eru nánast alveg eins, textinn í Skuggamyndum úr ferðalagi og þessi frá 1996. Þetta er raunar aðeins eitt tilvik af átta í þessari nýjustu bók Óskars Árna um smáprósa sem eru teknir úr fyrri verkum höfundar og birtir að nýju. Er Óskar Árni orðinn staðnaður, kynni einhver að spyrja af þessu tilefni. Er hann kominn í þrot með efnivið og byrjaður að bjóða upp á bixímat í stað ferskra rétta? Svarið við þessum spurningum sáraeinfalt, og svarið er nei. Sannleikurinn er nefnilega sá að Óskar Árni hefur aldrei verið ferskari en einmitt núna.

Skuggamyndir úr ferðalagi markar viss tímamót í höfundarverki Óskars Árna Óskarssonar. Tónninn er orðinn jarðbundnari en áður, absúrdkómíkin er næstum horfin og smáprósarnir standa nú mun nær sagnaskáldskap en ljóðlist. Kveikja verksins er rútuferðalag sem höfundurinn fer sumarið 2005. Hugmynd hans er að skoða sig um á ættarslóðum föðurættar sinnar austur á Langanesströnd. Á leiðinni er stoppað á nokkrum stöðum – á Sauðárkróki, Siglufirði, Akureyri, Þórshöfn. Þetta endar með því að verða hringferð, þótt ekki fái austur- og suðurland jafnmikla umfjöllun og norðurlandið. Leiðin sjálf er enda ekki í brennidepli, þetta er ekki tilraun til að teikna upp þverskurð af þjóðinni eins og Huldar Breiðfjörð gerði fyrir áratug með Góðum Íslendingum. Það er fjölskylda skáldsins sjálfs sem er í fyrirrúmi, og þeir staðir sem henni tengjast. Þetta er því persónulegasta verk Óskars Árna til þessa; hann rekur sögur af foreldrum sínum, ömmum og öfum, en það er þó ömmubróðir Óskars Árna sem fær mest rými. Sá maður er Magnús Stefánsson, en hann var einnig þekktur undir skáldanafninu Örn Arnarson. Lítið er til af prentuðum heimildum um Magnús, enda er hér stuðst við bréf hans og væntanlega munnmælasögur líka, auk þess sem skáldað er í eyðurnar. Skuggamyndir úr ferðalagi er því líka kærkomið bókmenntasögulegt innlegg, því sjaldan hefur verið dregin upp eins heilsteypt mynd af þessu merka skáldi.

Þegar fyrri bækur Óskars Árna eru bornar saman við þessa nýju vekur athygli að aðferðin sem höfundurinn beitir við frásögnina er nokkuð breytt. Hingað til hafa smáprósar Óskars Árna gjarnan einkennst af léttgeggjuðu hugarflugi; þeir lýsa smáskrýtnum atvikum, og stundum fær lesandinn á tilfinninguna að frásögninni sé lokið áður en hinn frásagnarverði atburður eigi sér stað. Ég nefni sem dæmi stuttan texta sem ber yfirskriftina „Toronto“ og er að finna í Lakkrísgerðinni, bók frá árinu 2001. Þar er brugðið upp myndum af þremur atburðum sem gerast á jafnmörgum stöðum á landinu. Maður rennir upp buxnaklauf, dósastæða hrynur, sími hringir. Þessir atburðir tengjast ekki að öðru leyti en því að þeir gerast á sama augnablikinu. Svona lagað er ekki að finna í Skuggamyndunum, þar er frásögnin raunsæislegri og sagnfræðilegri. En hið fantastíska er samt sem áður undirliggjandi. Við hrífumst með Magnúsi Stefánssyni þegar hann er átta ára drengur austur á Langanesströnd og fær ortar um sig tvær vísur frá Símoni Dalaskáldi. Í meðförum Óskars Árna verður þetta litla atvik bókstaflega stórbrotið. Inn í þetta fléttast minningar um samferðamenn höfundarins sjálfs. Þar er skylt að nefna hér Geirlaug Magnússon, skáldið á Sauðárkróki, en í lýsingunum á sambandi þessara tveggja skálda fæst tilfinning fyrir því stóra í hinu smáa. Þannig er galdurinn við list Óskars Árna; honum tekst að vefa heillega mynd úr brotum sem við fyrstu sýn virðast ekkert eiga sameiginlegt. Ekkert er sagt að óþörfu og hvert orð er dýrt.

Um „endurvinnsluaðferðina“ sem ég gat um í upphafi má að lokum segja að hún sé leið höfundarins til að sýna gamlar frásagnir í alveg nýju ljósi. Óskar Árni er höfundur sem stendur í nánum og lifandi tengslum við eigin verk, hann endurtúlkar myndir sem hann hefur áður birt okkur og tengir þær nýjum myndum. Smáprósarnir sem eru endurbirtir í Skuggamyndunum eru að mestu óbreyttir, séu þeir lesnir einir og sér, en með samlestri við það sem fylgir með verður túlkunin önnur og víðari. Þannig fáum við t.d. fyrst núna að vita að stúlkubarnið sem fæðist með tólf fingur, og við lásum um í Lakkrísgerðinni fyrir sjö árum, er í raun móðir höfundarins. Textinn „Brjóstamjólk og vínarbrauð“, sem birtist í sömu bók, er að öllum líkindum sagan um fæðingu Óskars Árna sjálfs.

Skuggamyndir úr ferðalagi er grípandi lesning, Skáldskapur með stóru essi. Óskar Árni Óskarsson leiðir okkur í ferðalag „áleiðis áveðurs frá einni tilfinningu / til annarrar“ – í fylgd með honum komum við sífellt að nýjum dyrum. Og

allt í einu

opnast dyr

milli heima,

eins og segir í gömlu ljóði,

veröldin

svo miklu stærri

en þig minnti.

(Víðsjá, 11. nóvember 2008)

Þórunn Erlu Valdimarsdóttir: Loftnet klóra himin

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

„Án sorgar / er hjartað bara bolli / sem blóðið sullast um.“ Svo hljóðar ljóðið „Niðurstaða“ eftir Þórunni Erlu Valdimarsdóttur. Merkingarsvið þessa stutta ljóðs er ágætlega lýsandi fyrir bókina í heild: Hér skarast hið kómíska og hið tragíska, djúp og einlæg sannindi eru sett fram á gáskafullan hátt. Þannig er tónninn í þessari bók, Loftnet klóra himin. Þórunni er dauðinn víða hugleikinn, en aldrei nær þó örvæntingin yfirhöndinni. Bókin hefst á minningarpistli, eins konar djassjarðarför, þar sem minnst er þriggja látinna vinkvenna. Það má vart á milli sjá hvort vegur þyngra, söknuðurinn eða gleðin yfir því að hafa fengið að kynnast þessum manneskjum. Með minningarnar um þær í farteskinu tekst skáldið svo á við þau verkefni sem lýst er í bókinni.

Yrkisefnin í þessari bók eru mörg hver æði hversdagsleg; hér er fjallað um göngutúra úti á Granda, sundferðir og heimilisketti. Þetta eru myndir úr lífinu, og þótt dauðinn sé sínálægur er það þó ástin á lífinu sem má kallast aðalsmerki bókarinnar. Það er þessi skilyrðislausa sátt við lífið sem vekur athygli, en hún er iðulega sett fram undir kómískum formerkjum. Niðurstaðan í ljóðinu „L’amour dans le jardin“ er á þessa leið:

Dýrkun æskunnar er uppbót fyrir

vandræði og skelfingu hennar.

Eitt best geymda leyndarmál í heimi

er hve gott er að eldast.

Æskan er dýrkuð svo þau þoli hana betur,

greyin.

Hér er ort um það að eldast, og ekkert er hálfsagt. Það er miðaldra kona sem talar í þessari bók, og það vottar ekki fyrir andúð eða óbeit á eigin stöðu í mannfélaginu. Að þessu leyti er tónn verksins dídaktískur, hér getur lesandinn sótt sér fordæmi fyrir hegðun og lífsviðhorfum, sé hann farinn að hafa áhyggjur af hrukkum og gráum hárum. Manneskjur eru eins og ávextir, „sætleikinn kemur seint“, og engin þörf að kvíða þótt við færumst af skeiði æskunnar yfir á næsta skeið á eftir. Að miklu leyti eru þetta líkamleg ljóð – nærvera hins þroskaða kvenlíkama er nokkuð sem við eigum ekki að venjast í táknheimi og orðræðu nútíma fjölmiðlunarmenningar. Þess vegna eru þetta líka andófsljóð, þótt „andóf“ sé kannski heldur fast að orði kveðið. „Stríðni“ er nær lagi; lesandinn er dreginn inn í reynsluheim hinnar miðaldra konu og þar er væmnin ekki á dagskrá – undirtónninn er allt að því hryssingslegur á köflum. Þetta er undirstrikað með tali um líkamleika sem jaðrar við grótesku; hér er blygðunarlaust talað um hormónabreytingar, „víkkun á rassgati“, hrukkur og barnsfæðingar.

Ljóðformið sem Þórunn velur sér í þessari bók passar vel við yrkisefnin. Þetta eru útleitin ljóð og hálfgerðar romsur sum hver, enda bókin rúmlega 150 síður að lengd. Verkið vegur hæfilega salt á milli orðagjálfurs og fágunar, sem sannarlega er til staðar, þótt ljóðin séu löng. Þegar allt er lagt saman stendur eftir heildstæð mynd af persónuleika að lestrinum loknum, og manni finnst þetta kunnugleg týpa; hún einkennist af alltumlykjandi og elskulegri, en þó stuðandi, nærveru. Sums staðar snýst sjálfsöryggi ljóðmælandans upp í þrætubókarlist, þar sem venjubundnum viðhorfum er snúið á haus og færð gild rök fyrir hinu gagnstæða. Þannig er það t.d. í ljóðinu „Vanda, vanda, gættu þinna handa“, þar sem rætt er um jafneðlilegan hlut og framhjáhald:

Auðvitað prófa allir nýju ástina fyrst

til að vera vissir um að þeirri gömlu

sé rétt að kasta.

Það heitir svik

en er

eðlilegasti hlutur í heimi.

En þótt jarðlífið sé í fyrirrúmi er hér ekki lýst guðlausum heimi. Guð er hvergi nefndur á nafn beint, en trúin er ekki langt undan. Í ljóðinu „Í Maríukirkjunni“ er lýst sorgarferli sem endar í samræðu við almættið, samræðu sem háð er á algjörlega persónulegum nótum, og má segja að hér nái bókin hápunkti sínum:

Við sitjum eftir með eintóma hvítu

í augunum

rýnandi í óskrifaða nótu.

Ekkert að gera

nema klóra himin

uns blóðdropi fellur.

Loftnet klóra himin er óvenjuleg ljóðabók, en eins og við vitum eru möguleikar ljóðlistarinnar einmitt ríkulegastir þegar hún víkur af sviði hins venjulega. Þórunn býður okkur með sér í ferðalag sem er fróðlegt og aldrei leiðinlegt. Þetta er skáldskapur sem er notalegur í tilgerðarleysi sínu og einlægni. Hitt er annað mál að þótt verkið gangi upp miðað við þær forsendur sem liggja til grundvallar skrifunum er ekki þar með sagt að hér sé tímamótaverk á ferð. Þetta eru hugmyndaljóð, pælingar, sem flest mætti umorða eða endursegja með einfaldri afkóðun sem ætti ekki að vera neinum sæmilega menntuðum lesanda um megn. Skáldkonunni Þórunni er hvort tveggja gefið, málróf og speki, en orðsnilldin lætur á sér standa í þessari atrennu.

(Víðsjá, 5. nóvember 2008)

Kristín Eiríksdóttir: Annarskonar sæla

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Þegar litið er yfir íslenska ljóðskáldahópinn í heild sinni lendir Kristín Eiríksdóttir óhjákvæmilega í hópi byrjenda, en þó er tvennt sem þarf að hafa á hreinu strax í upphafi. Annars vegar það, að það er enginn byrjendabragur á ljóðum Kristínar. Hins vegar það, að ljóðabækur Kristínar eru ekki fyrir byrjendur, svo torskildar sem þær eru. Og þó kann að vera að þær séu hentugur byrjunarreitur fyrir lítt vana ljóðalesendur einmitt vegna þess að þær eru hluti af því nýja upphafi, þeirri uppstokkun, sem hermt er að hafi átt sér stað á allra síðustu árum, og er gjarnan kennd við ljóðlistarhópinn Nýhil.

En það er snúið að negla ljóðin hennar Kristínar Eiríksdóttur niður, fullyrða nokkuð um það með vissu hvernig þau eru, hvað þau eru. Það er miklu auðveldara að átta sig á því hvað þau eru ekki. Í ljóðum Kristínar er ekki að finna sömu mannúðlegu hnyttnina og ljóð Ingunnar Snædal, þau einkennast ekki af sömu vitstola firringunni og ljóð Gísla Þórs Ólafssonar, og ekki af eitraðri kaldhæðni eins og ljóðaverk Eiríks Arnar Norðdahl. Og þó kann að vera að ljóð Kristínar innihaldi þetta allt saman: Hnyttni, firringu og kaldhæðni. Sannleikurinn er sá að ljóð Kristínar eru galopinn texti, þau krefjast mjög virkrar þátttöku lesandans og minna að sumu leyti á myndaþrautirnar sem stundum birtast í barnablöðum – þrautirnar þar sem maður á að teikna strik á milli númera svo að út kemur mynd. En ekki einu sinni sú samlíking veitir endanlegt svar, því númerin hjá Kristínu Eiríksdóttur eru á sífelldu iði, og telji maður sig eina stundina geta teiknað rökrétta mynd út úr þeim er ekki víst að sú sannfæring endist lengi.

Annarskonar sæla er að ýmsu leyti lík fyrri bókum Kristínar. Form ljóðanna er þó breytt að því leyti að upplausnin er meiri en áður, þetta eru ekki smáprósar heldur stutt fríljóð með endurteknum stefjum á köflum. Bókin skiptist í fjóra hluta. Fyrsti hlutinn er lýsing á ferðalagi: Ljóðmælandinn ferðast með sporvagni, gengur yfir brú, inn um dyr og upp stiga til fundar við mótleikara. Síðan er farið til baka sömu leið með sporvagninum. Það liggur ekki ljóst fyrir hvort ljóðmælandinn er karl eða kona, en viðtökusaga ljóða Kristínar Eiríksdóttur samanstendur í meginatriðum af tilraunum til að lesa kynhlutverk inn í textann. Kjötbærinn og Húðlit auðnin, fyrri bækur Kristínar, fjalla báðar um konu eða stúlku sem býr með karlmanni, og ýmislegt bendir til þess að þar sé fjallað um kúgun, heimilisböl og óhamingju. Það er forvitnilegt hvernig karlmönnunum er lýst; þetta eru augljóslega hrottar og illmenni, en þó eru lýsingarnar á þeim blandnar aðdáun og væntumþykju.

Í öðrum hluta Annarskonar sælu er brugðið upp myndum af daglegu lífi; þarna er íbúð, hjónarúm, þvottapoki, pantaður grillkjúklingur og fólk sem leiðist og borðar ís. En líkt og í fyrsta hlutanum hefur innri einræðan meira vægi en þær ytri aðstæður sem lýst er. Sá túlkunarmöguleiki skýtur upp kollinum að hér sé lýst vímu eða sturlunarástandi – það er jú talað um bobblandi eitur og sprautu sem stingst í nárann. Ávörp koma til sögunnar í öðrum hluta og halda svo áfram bókina á enda; einhver er ávarpaður, kannski er það ástmaður ljóðmælandans eða sambýlismaður. Það er svo í þriðja og stysta hluta verksins sem stígandin nær hámarki: Ávörpin verða að skipunum. „komdu á mig annars sker ég þennan háls í sundur,“ segir undir lok þriðja hluta. „hann er ungur þessi háls komdu annars sker ég“. Tómarúmið sem er búið að vaxa frá því í upphafi bókarinnar er nú orðið alveg yfirþyrmandi, og það er undirstrikað með stuttum línum og höktandi hrynjandi. Fjórði og síðasti hluti bókarinnar heitir „Stóri hvíti maður“ og er lýsing á ferðalagi, líkt og fyrsti hlutinn. Að þessu sinni er þó um að ræða ferðalag til útlanda, líklega til Asíulands, kannski Tælands. Nú er ljóðmælandinn að mestu leyti óvirkur andspænis gerandanum, ferðafélaga sínum, stóra hvíta manninum. Augnaráðið er í aðalhlutverki, og það er undirstrikað með upphafslínunum: „ég sé í gegnum þig“.

Sú þokukennda rýmisskynjun sem við þekkjum úr fyrri bókum Kristínar Eiríksdóttur er eitt af aðalsmerkjum Annarskonar sælu. Nokkrar vísbendingar eru hér um raunverulega staði: Mjódd, Grensásvegur, Miklabraut, Kringlan, en við erum litlu bættari þó við reynum að lesa einhverja merkingu út úr þeim. Raunveruleikinn sem lýst er í Annars konar sælu er hafinn yfir áþreifanlega staði. Nærvera þeirra er hins vegar til þess fallin að gefa hugarástandinu sitt sérstaka bragð. Þegar vel er að gáð má líka sjá að það eru sums staðar tengsl í orðavali við næstu bók á undan, Húðlita auðnina. Þetta rennir líka stoðum undir þann grun að það sé hyggilegast að lesa Annarskonar sælu sem brot af stærri heild – bókin græðir tvímælalaust á því að vera lesin í samhengi við hinar bækurnar tvær. En sú spurning vaknar hversu lengi leit Kristínar Eiríksdóttur að þolmörkum forms og stíls getur haldið áfram, án þess að snúast upp í fyrirsjáanlegt og endurtekningasamt stagl. Þeirri spurningu verður auðvitað að svara í hvert skipti sem hún skrifar nýja bók. Svarið að þessu sinni er á þá leið að Annars konar sæla sé lestrarins virði, og vel það. Mér er hálfilla við að endurtaka hér klisjuna um að Kristín Eiríksdóttir standi feti framar en kollegar hennar sem kenna sig við Nýhil, en að vel athuguðu máli held ég að sú klisja sé klisja einmitt vegna þess að hún er sönn.

(Víðsjá, 30. október 2008)

Guðmundur Andri Thorsson: Segðu mömmu að mér líði vel

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

„Saga um ástir“ er undirtitill þessarar fimmtu skáldsögu Guðmundar Andra Thorssonar, og er það síst rangnefni, enda vel hægt að fullyrða að ástin sé bindiefni sögunnar. Sögumaðurinn Einar er arkitekt á fimmtugsaldri og býr með öldruðum föður sínum. Hann á einn son úr fyrra sambandi, sambandi sem í raun varð aldrei meira en nokkurra mánaða reytaruglingur. Hann er nú í sambandi með Kötu, konu á svipuðum aldri og hann, þótt þau búi ekki saman. Einar og Kata verða kærustupar á fimmtugsaldri, og hún á líka son úr fyrra sambandi. Dag einn fer Kata norður á Akureyri að heimsækja son sinn, og á meðan lætur Einar hugann reika til liðinna atburða, fólks sem hann hefur kynnst um ævina, gamalla sendibréfa og umliðinna ásta.

Svona er þetta nokkurn veginn, en líkt og með flestar aðrar bækur Guðmundar Andra er þó vart nema hálf sagan sögð þótt reynt sé að endursegja hana. Það er svo margt sem tapast í endursögninni, enda gerist sagan að miklu leyti á öðrum plönum en í söguflækjunni. Hér gerist vissulega eitt og annað, það er greint frá ýmsum frásagnarverðum atburðum, en það er ekki endilega þannig að á milli þeirra sé röklegt samhengi, eða einn atburður leiði af þeim næsta á undan. Frásagnaraðferðin byggist fyrst og fremst á hugleiðingu – sögumaðurinn rifjar upp liðna tíma og veltir vöngum um stöðu sína í heiminum. Þetta má með réttu kallast raunsæisleg aðferð, enda skynjum við veruleikann að miklu leyti sem blöndu minninga og raunverulegra upplifana. Og við vissar kringumstæður er ekkert raunverulegra en einmitt minningarnar.

Tengsl mannsins við umhverfi sitt er eitt af meginstefjum þessarar bókar. Sögumaðurinn Einar er arkitekt og fæst við að hanna rými og búa til íverustaði handa öðru fólki. En hann veit þó að lífið er flóknara en svo að það megi temja með hornréttum veggjum, og veggirnir eru líka lítils virði án fólksins. „Því að hús er ekki bara hús,“ segir hann. „Hús er ekki bara form og litur, ekki bara veggir og gluggar, ekki einu sinni þótt innréttingar bætist við – og ekki einu sinni þó að sushi-réttirnir séu í sétteringum við sólbekkina. Hús er miklu fremur vettvangur. Hús er dagarnir sem liðu, allar næturnar, jólin og fermingarveislurnar, allir búkarnir sem þar hafa búið, allt fótatakið.“  Þetta er hin kunna „in-der-Welt-sein“-formúla Heideggers: Maður og heimur eru ekki tvö sundurgreinanleg fyrirbæri. Heimurinn er ekki aðskilið viðfang frá manninum, maðurinn stendur ekki andspænis heiminum eins og viðskiptavinur andspænis gjaldkera, heldur er heimurinn hluti af manninum. Tilvera mannsins breytist eftir því sem heimurinn breytist.

En Segðu mömmu að mér líði vel er umfram allt bók um samskipti fólks, sambönd og sambandsleysi. Öll sagan er bið eftir símtali. Einar nær ekki í Kötu, hún er með slökkt á símanum, og í biðinni eftir að síminn hringi kvikna minningar um liðna tíma. Þessi bið endurspeglar einhverja stærri bið í lífi Einars og Kötu. „Við vorum að bíða eftir einhverju,“ segir hann. „Við vorum að bíða eftir því að við yrðum ein. Samt vorum við alltaf ein.“ Og Guðmundur Andri Thorsson bregður upp myndum af fleiri samböndum sem kvikna og þróast. Sögunni er vikið aftur á 6. áratuginn þegar foreldrar Einars kynnast, en sú ástarsaga er um leið óður Andra til íslenskrar dægurtónlistar. Ragnar, faðir Einars, er á yngri árum saxófónleikari í Danshljómsveit Binna Frank, og móðir hans gerist söngkona í sömu hljómsveit. Samband Einars við föður sinn er allrar athygli vert, ekki síst fyrir þá þversögn að þeir þurfa fjarlægð hvor frá öðrum til að geta verið nánir. Á námsárum Einars í Danmörku skrifar faðir hans honum fjölda bréfa þar sem hann gerir upp fortíðina og framkomu sína gagnvart eiginkonu sinni. Þær minningar eru langt í frá sársaukalausar. Hinn opni endir sögunnar er líka tengdur föðurnum, það er komið að kaflaskiptum í lífi Einars og hinn mildi húmaníski tónn frásagnarinnar hæfir vel til að búa í haginn fyrir hið kyrrláta og ljóðræna lokaaugnablik; bát á lygnum sjó og ófullgerðan himin.

Segðu mömmu að mér líði vel er hagleikssmíði, og þótt það sé skoðun sögumannsins að maður skynji aldrei hina afmörkuðu stund, virðist mér það einmitt vera hún sem Guðmundur Andri Thorsson geri atlögu að í þessari bók. Yfirborð sögunnar er nefnilega rammbundið samtímanum, þótt kjarninn sé tímalaus. Hér er ýmsum einkennum nútíma og neysluþjóðfélags lýst í góðlátlegum hæðnistón, þótt ekki sé háðið í forgrunni verksins. Atferli og hugðarefni persóna eru líka ákaflega samtímaleg; þetta er ekki fólk sem setur á langar ræður um réttlæti og ranglæti, syndina eða lífsgæðakapphlaupið, heldur venjulegar manneskjur sem fara út að ganga með hundinn, segja börnunum sínum bullsögur, raula lagið úr Rúmfatalagersauglýsingunni og spila badminton. Þjóðfélagslega víddin sem einkennir Íslenska drauminn, skáldsögu Andra frá árinu 1991, er ekki til staðar hér, a.m.k. ekki í sama mæli. En það er óneitanlega upplífgandi tilhugsun að nú, þegar íslenskar sagnabókmenntir snúast að mestu leyti um stóru línurnar, hvort sem það er Íslandssagan eða valdajafnvægið í þjóðfélagi samtímans, skuli finnast höfundar sem leitast við að skoða hversdagslífið á skáldlegan hátt. Guðmundur Andri Thorsson er dæmi um slíkan höfund, og fyrir vikið hlýtur sérstaða hans að vera hafin yfir vafa.

(Víðsjá, 28. október 2008)

Stefán Máni: Ódáðahraun

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Stefán Máni er þungarokkarinn í hópi íslenskra skáldsagnahöfunda. Í bókum hans hafa íslenskir lesendur um nokkurt skeið átt sér athvarf þar sem hægt er að stilla allt í botn og heddslamma duglega í takt við tryllingslegt gargið. Yfirdrifinn stíll, svæsið ofbeldi, illskan í manninum – allt eru þetta áberandi einkenni á bókum Stefáns Mána. Útkoman hefur auðvitað verið misjöfn eins og gengur, en efnistökin oft með svipuðu sniði. Ódáðahraun, nýjasta afurðin, er biti í þessu sama púsli. Hér segir frá hrottanum og fíkniefnabaróninum Óðni R. Elsusyni og ævintýrum hans. Óðinn er kunnugleg persóna, séu eldri verk sama höfundar höfð til hliðsjónar; metnaðarfullur efnishyggjumaður, eitursnjall demón. Eftir örstutt yfirlit yfir æsku þessarar andhetju á fyrstu síðum bókarinnar fylgjum við Óðni þar sem hann þeysir á kolsvörtum pallbíl út í óbyggðir til fundar við litháenskan dópsmyglara. Þannig fáum við strax tilfinningu fyrir nýstárlegri sýn á háleitt og hrikafullt landslag íslenska hálendisins; hér er það hin hagnýta náttúruskynjun glæpamannsins sem ræður ríkjum, og endurspeglast í titli bókarinnar. Ódáðahraun, stærsta samfellda hraunbreiða landsins, er ekki bara forvitnilegt, náttúrufræðilegt rannsóknarefni eða skáldlegt innblástursefni heldur líka kjörlendi fyrir hvers kyns myrkraverk. Þar sem víðsýnið skín og háfjöllin heilög rísa – þar er líka með góðu móti hægt að grafa lík eða versla með amfetamín án þess að hafa neinar áhyggjur.

En þegar betur er að gáð er nöturlegt hraunið ekki sögusvið verksins nema að mjög litlu leyti, og því undir hælinn lagt hvort bókartitillinn hæfi sögunni, þótt hann sé flottur. Hér er það nefnilega viðskiptalífið sem fær mesta plássið, og þeir sem ætluðu að gleyma sorgum sínum, myntkörfulánum og eignatapi – þeir gætu orðið fyrir vonbrigðum við lesturinn. Spennan í sögunni snýst nefnilega að stórum hluta um kaup og sölu verðbréfa, aukningu hlutafjár, frestun hlutahafafunda og fleira í þeim dúr. Það eru dálítil vonbrigði að Óðinn R. Elsuson, þessi svívirðilegi ofbeldishundur, skuli ekki fá verðugri verkefni í þessari sögu, og er hann þó í mynd næstum allan tímann. Það er lítið um pyntingarsenur og bílaeltingaleiki hér, en þeim mun meira af fjasi um viðskiptamál. Nú er ég ekki að segja að slíkir hlutir séu með öllu óspennandi, og það er alveg ábyggilegt að mér fjármálafróðari menn ættu að geta haft djúpa nautn af því að lesa um þær leikfléttur sem hér eru settar á flot. Stefán Máni hefur heldur aldrei verið þekktur fyrir að vinna ekki heimavinnuna sína: Skipið er t.a.m. skáldsaga sem ber þess greinileg merki að vera skrifuð af fróðleiksfúsum höfundi sem hefur sjálfur verið á sjónum og kjaftað við reyndustu togarajaxla. Og gleymum ekki Svartur á leik, doðrantinum sem Stefán Máni skrifaði eftir gaumgæfilega rannsóknarvinnu meðal dílera og handrukkara.

En samslátturinn sem virðist vera markmið Ódáðahrauns, gagnkvæm speglun glæpa og viðskipta, finnst mér bara ekki ganga upp. Líkamlegt ofbeldi og kænska í viðskiptum eru, þrátt fyrir allt, ekki sami hluturinn, og það er frásagnarfræðilegur slóðaskapur að láta sögupersónu grípa til þess fyrrnefnda þegar hún kemst í þrot með hið síðarnefnda. Óðinn R. Elsuson er einhliða karakter, fulltrúi fyrir heim glæpa og fíkniefna, en sú hlið hans fellur alveg í skuggann þegar hann eltist við vísbendingarnar sem honum er gert að vinda ofan af, hvað þá í atriðunum þegar hann situr áhugalaus og geispar undir löngum romsum Viktoríu, samverkakonu sinnar, um aðsteðjandi ógnir í átökum um hlutabréfin. Upplýsingaflæði sögunnar felst að verulegu leyti í þessu sambandi meistarans og lærlingsins. Óðinn er lengst af fullkomlega tómlátur um þá flóknu vefi viðskiptalífsins sem hann flækist í, en svo allt í einu, eins og upp úr þurru, verður algjör viðsnúningur, og hann tekur málin í sínar hendur.

Persónusköpunin í Ódáðahrauni er hvorki tilþrifamikil né eftirminnileg – til þess er söguflækjan of yfirþyrmandi. Meitlaðir frasarnir sem enduróma sem mottó í upphafi hvers kafla, bæta þar litlu við. Þá gríðarlegu keyrslu sem einkenndi frásögn Skipsins er hér hvergi að finna, m.a. vegna þess að hér er aðeins ein aðalpersóna sem nær einhverju máli, en ekki níu, og þar með enginn möguleiki á hröðum skiptingum milli sögusviða, aðeins einn þunnur þráður en ekki margir súrraðir saman. Yfirborðslegar vísanir í norræna goðafræði og klaufalegur ástarsögu-útúrdúr duga heldur ekki til að setja neina vigt í textann.

Að lokum má nefna að skáldsagan Ódáðahraun hefur í auglýsingum verið kölluð „grafskrift íslenska hlutabréfaævintýrisins“, hvorki meira né minna, og má af því ráða að hér sé eitthvert hugmyndafræðilegt uppgjör í gangi, einhver róttæk endurskoðun á viðhorfunum í Íslandssögu allra síðustu ára, í takt við það sem nú heyrist í öllum fréttatímum. Ekkert er hins vegar fjær sanni. Ódáðahraun er ekki tímabærari núna heldur en hún hefði verið fyrir, segjum, tveimur árum, því hún er ekki bara algjörlega hefðbundin í forminu, heldur hvílir hugmyndaheimur verksins á því óorðaða viðhorfi að bisnissheimurinn sé hinn æðsti vettvangur mannlegrar hugmyndaauðgi, að klækir í viðskiptum séu aðdáunarverðir, vel heppnaðir bissnissdílar frábært söguefni. Að skreyta slíka hálfvelgju með merkimiðanum „grafskrift“ þykir mér þess vegna nokkuð djúpt í árinni tekið, og eiginlega hálfgerð öfugmæli.

(Víðsjá, 23. október 2008)