Þorsteinn frá Hamri: Dyr að draumi

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Í titilljóði nýjustu bókar Þorsteins frá Hamri, „Dyr að draumi”, talar skáldið um ástleitið auglit: „Það hló við mér álengdar”, segir skáldið, „og braut sér leið / inn í ljóð / sem talið verður framvegis / fjalla um allt / já, allt, allt, allt, / annað.” Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Þorsteinn yrkir um skapandi viðtökur lesenda sinna, eða skapandi mislestur svo fastar sé að orði kveðið – ég nefni „Af manni og ljóði” úr Vetrarmyndinni frá árinu 2000. Það er eins og að með svona viðtökuljóðum ætli skáldið sér að vera skrefi á undan lesandanum, að bregðast við túlkuninni áður en hún verður til. Það er því með nokkurri varfærni sem við hljótum að nálgast þessa nýjustu ljóðabók Þorsteins, minnug þess að sérhver lesandi er einstakur og merking ljóðanna háð þeim farangri sem hvert og eitt okkar stendur uppi með frammi fyrir þeim.

Skáldferill Þorsteins frá Hamri er nú orðinn nokkuð langur, bráðum hálf öld, og hann er að vissu leyti dæmigerður fyrir þróun módernismans í heild sinni. Fyrstu bækurnar voru æði torskildar, næstum of snúnar til þess að „hinum almenna lesanda” væri etjandi á þær, með ógrynni af vísunum í fornar bækur, og orðum eins og „níðíngavofur”, „snærökkursskíma” og „íðilrunnur”. Í seinni tíð hafa ljóð Þorsteins orðið látlausari og stilltari, notendavænni gæti einhver sagt, og í síðustu bókum er hann meira að segja farinn að láta skýringar fylgja með aftast. Þetta ber þó ekki að skilja sem svo að ljóðin séu orðin grynnri eða útþynntari, langt frá því, eins og Dyr að draumi er til vitnis um. Þessi nýjasta ljóðabók Þorsteins er á svipuðu plani og þær sem hann hefur skrifað síðustu árin, ljóðin eru tilbrigði við sömu stef. Skáldið yrkir sem fyrr um sjálf lögmál kveðskaparins eins og þegar er nefnt, samband skáldsins við lesanda sinn. Lestrarreynslan er líka í brennidepli í ljóðinu „Veðruð orð”, þar eru orðin hlutgerð sem fornleifar, í þeim sér lesandinn merki um sögu, líf og tilfinningar, og „eitthvað að auki”. Auk hins augljósa finnur lesandinn eitthvað innra með sjálfum sér, eitthvað einstakt, þetta óræða „je ne sais quoi” eins og franski klassísistinn Boileau orðaði það, þetta sem ég veit ekki hvað er, sjálfa skýringuna á mikilfengleika skáldskaparins.

Rauði þráðurinn í þessari nýju ljóðabók Þorsteins frá Hamri er hins vegar eitthvað sem kenna má við efahyggju. Skáldið er tortryggið á hugmyndina um endanlegan sannleika og vantrúað á bjargfasta þekkingu. Það er varasamt að tala beinlínis um ádeilukenndan tón í þessari bók, en maður fær stundum á tilfinninguna að samtíminn liggi hér undir ámæli. Í ljóðinu „Svör” standa þessi orð:

Með stroknu fasi

ilma í dag af dásemd

hin sjálfbirgu svör.

Á morgun dreifa þau

hatri, sprengjum og heimsku.

Með þessum línum er eins og skáldið orði vandlætingu sína á þeirri tvöfeldni sem fylgir allri bókstafstrú: Það sem ilmar af dásemd í dag er notað til að réttlæta alls kyns óhæfu á morgun. Ljóðið heitir „Svör”, og það er varla tilviljun að næsta ljóð á eftir skuli heita „Spurningin”. Þar er um að ræða lofsöng til spurningarinnar, til efans og leitarinnar, sem eru „nýjustu fréttum / státnustu staðhæfingum / ýtrustu svörum / æðri!” Þetta kemur heim og saman við orð Þorsteins sjálfs í viðtali frá árinu 1988. Þar segir hann: „Án umburðarlyndis og hóflegrar forvitni út í heilabrot annarra kemst maður aldrei í kynni við neitt, afneitar lífsfyllingu annarra, festist í kreddum og týnir niður brosinu. Innst inni hljótum við að fagna fjölbreytni. Því miður rekst maður stundum á fólk sem vill helst að öll verk og hugsanir séu nokkurs konar eftirlíkingar einhvers sem það sjálft þykist gjörþekkja.”

Þessi efahyggja Þorsteins frá Hamri er um leið mannhyggja, húmanismi, rétt eins og hjá ítalska endurreisnarhöfundinum Pico della Mirandola sem taldi að maðurinn stæði öðrum verum framar einmitt vegna þess að hann efast og skilningur hans á lífinu tekur breytingum. Það er eðli mannsins að vera ófullgerður og síbreytilegur, og þess vegna stendur hann utan við öll stigveldi. Í okkur er eyða sem okkur tekst aldrei að fylla, hvorki með nýjustu fréttum né státnustu staðhæfingum. Þorsteinn fjallar um hið síbreytilega þekkingarsvið mannsins í ljóðinu „Sólbráð” – það sem á einu tímaskeiði er álitin algjör vissa gufar upp á því næsta eins og fótspor í snjó sem bráðnar: „Hægt og hægt / urðu að engu / spor / stigin af staðfestu, þrungin / merkingu, meinum og sælu”.

En þrátt fyrir gagnrýni sína stendur skáldið ekki á stalli þar sem það fellir dóm yfir öðru fólki. Verk Þorsteins sjálfs eru ekki undanþegin gagnrýni, og hann veit af því. Það er engin ein ráðandi afstaða í þessari bók, í henni felast mótsagnir eins og svo mörgum mannanna verkum; hér birtist ljóðið okkur sem einskismegandi hjal og um leið merkingarrík niðurstaða könnunar skáldsins á heiminum. Skáldið sendir „orðin, lífsreynd, á vettvang” og gerir umhverfi sitt þannig kunnuglegt. En gagnrýni Þorsteins frá Hamri í ljóðabókinni Dyr að draumi beinist líka að honum sjálfum og því hlutskipti sem hann hefur valið sér, og það er kannski í því sem helsti styrkur bókarinnar er falinn:

Því ljóðið spyr,

leitar, efast – og sér því

heiminn skýrar en skáldið

sem ornar sér stundum

við örugg svör …

(Víðsjá, 27. október 2005)