Þórunn Erlu Valdimarsdóttir: Loftnet klóra himin

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

„Án sorgar / er hjartað bara bolli / sem blóðið sullast um.“ Svo hljóðar ljóðið „Niðurstaða“ eftir Þórunni Erlu Valdimarsdóttur. Merkingarsvið þessa stutta ljóðs er ágætlega lýsandi fyrir bókina í heild: Hér skarast hið kómíska og hið tragíska, djúp og einlæg sannindi eru sett fram á gáskafullan hátt. Þannig er tónninn í þessari bók, Loftnet klóra himin. Þórunni er dauðinn víða hugleikinn, en aldrei nær þó örvæntingin yfirhöndinni. Bókin hefst á minningarpistli, eins konar djassjarðarför, þar sem minnst er þriggja látinna vinkvenna. Það má vart á milli sjá hvort vegur þyngra, söknuðurinn eða gleðin yfir því að hafa fengið að kynnast þessum manneskjum. Með minningarnar um þær í farteskinu tekst skáldið svo á við þau verkefni sem lýst er í bókinni.

Yrkisefnin í þessari bók eru mörg hver æði hversdagsleg; hér er fjallað um göngutúra úti á Granda, sundferðir og heimilisketti. Þetta eru myndir úr lífinu, og þótt dauðinn sé sínálægur er það þó ástin á lífinu sem má kallast aðalsmerki bókarinnar. Það er þessi skilyrðislausa sátt við lífið sem vekur athygli, en hún er iðulega sett fram undir kómískum formerkjum. Niðurstaðan í ljóðinu „L’amour dans le jardin“ er á þessa leið:

Dýrkun æskunnar er uppbót fyrir

vandræði og skelfingu hennar.

Eitt best geymda leyndarmál í heimi

er hve gott er að eldast.

Æskan er dýrkuð svo þau þoli hana betur,

greyin.

Hér er ort um það að eldast, og ekkert er hálfsagt. Það er miðaldra kona sem talar í þessari bók, og það vottar ekki fyrir andúð eða óbeit á eigin stöðu í mannfélaginu. Að þessu leyti er tónn verksins dídaktískur, hér getur lesandinn sótt sér fordæmi fyrir hegðun og lífsviðhorfum, sé hann farinn að hafa áhyggjur af hrukkum og gráum hárum. Manneskjur eru eins og ávextir, „sætleikinn kemur seint“, og engin þörf að kvíða þótt við færumst af skeiði æskunnar yfir á næsta skeið á eftir. Að miklu leyti eru þetta líkamleg ljóð – nærvera hins þroskaða kvenlíkama er nokkuð sem við eigum ekki að venjast í táknheimi og orðræðu nútíma fjölmiðlunarmenningar. Þess vegna eru þetta líka andófsljóð, þótt „andóf“ sé kannski heldur fast að orði kveðið. „Stríðni“ er nær lagi; lesandinn er dreginn inn í reynsluheim hinnar miðaldra konu og þar er væmnin ekki á dagskrá – undirtónninn er allt að því hryssingslegur á köflum. Þetta er undirstrikað með tali um líkamleika sem jaðrar við grótesku; hér er blygðunarlaust talað um hormónabreytingar, „víkkun á rassgati“, hrukkur og barnsfæðingar.

Ljóðformið sem Þórunn velur sér í þessari bók passar vel við yrkisefnin. Þetta eru útleitin ljóð og hálfgerðar romsur sum hver, enda bókin rúmlega 150 síður að lengd. Verkið vegur hæfilega salt á milli orðagjálfurs og fágunar, sem sannarlega er til staðar, þótt ljóðin séu löng. Þegar allt er lagt saman stendur eftir heildstæð mynd af persónuleika að lestrinum loknum, og manni finnst þetta kunnugleg týpa; hún einkennist af alltumlykjandi og elskulegri, en þó stuðandi, nærveru. Sums staðar snýst sjálfsöryggi ljóðmælandans upp í þrætubókarlist, þar sem venjubundnum viðhorfum er snúið á haus og færð gild rök fyrir hinu gagnstæða. Þannig er það t.d. í ljóðinu „Vanda, vanda, gættu þinna handa“, þar sem rætt er um jafneðlilegan hlut og framhjáhald:

Auðvitað prófa allir nýju ástina fyrst

til að vera vissir um að þeirri gömlu

sé rétt að kasta.

Það heitir svik

en er

eðlilegasti hlutur í heimi.

En þótt jarðlífið sé í fyrirrúmi er hér ekki lýst guðlausum heimi. Guð er hvergi nefndur á nafn beint, en trúin er ekki langt undan. Í ljóðinu „Í Maríukirkjunni“ er lýst sorgarferli sem endar í samræðu við almættið, samræðu sem háð er á algjörlega persónulegum nótum, og má segja að hér nái bókin hápunkti sínum:

Við sitjum eftir með eintóma hvítu

í augunum

rýnandi í óskrifaða nótu.

Ekkert að gera

nema klóra himin

uns blóðdropi fellur.

Loftnet klóra himin er óvenjuleg ljóðabók, en eins og við vitum eru möguleikar ljóðlistarinnar einmitt ríkulegastir þegar hún víkur af sviði hins venjulega. Þórunn býður okkur með sér í ferðalag sem er fróðlegt og aldrei leiðinlegt. Þetta er skáldskapur sem er notalegur í tilgerðarleysi sínu og einlægni. Hitt er annað mál að þótt verkið gangi upp miðað við þær forsendur sem liggja til grundvallar skrifunum er ekki þar með sagt að hér sé tímamótaverk á ferð. Þetta eru hugmyndaljóð, pælingar, sem flest mætti umorða eða endursegja með einfaldri afkóðun sem ætti ekki að vera neinum sæmilega menntuðum lesanda um megn. Skáldkonunni Þórunni er hvort tveggja gefið, málróf og speki, en orðsnilldin lætur á sér standa í þessari atrennu.

(Víðsjá, 5. nóvember 2008)