Álfrún Gunnlaugsdóttir: Rán

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Álfrún Gunnlaugsdóttir er einn fárra íslenskra skáldsagnahöfunda sem leitast við að tengja sagnaheim sinn stórviðburðum í mannkynssögunni. Þetta sést auðvitað best á Yfir Ebrofljótið, hinni epísku skáldsögu Álfrúnar frá árinu 2001, sem fjallar um spænsku borgarastyrjöldina. Það er alls ekki hefðbundið að sagnahöfundar smáþjóða geri atlögu að svo stórum viðburðum í verkum sínum, og það má sannarlega kallast hugrekki af hálfu Álfrúnar að stunda slíka tilraunastarfsemi. Nýjasta skáldsaga Álfrúnar, Rán, er af svipuðum toga, því spænska borgarastyrjöldin er líka umfjöllunarefni þeirrar sögu; en þó með allt öðrum hætti. Stríðið er aðeins í bakgrunni sögunnar; frásagnir um það eru afgreiddar framarlega í verkinu með upprifjunum einfætta kráareigandans don Eloy sem barðist sjálfur í stríðinu. Sögusvið Ránar er miklu fremur sá Spánn sem er afleiðing stríðsins heldur en stríðið sjálft. Hér er sagðar sögur frá valdatíma Francos, tímanum þegar venjulegir, spænskir borgarar þora ekki að gagnrýna stjórnvöld nema í hálfum hljóðum, fjölmennar stúdentasamkomur eru leystar upp af litlu eða engu tilefni og yfirheyrslur yfir uppreisnarseggjum enda með því að fórnarlambið dettur út um glugga.

En sjónarhorn Álfrúnar í þessu nýju sögu miðast líkt og fyrr við Íslending í útlöndum; hún heitir Rán og er komin yfir miðjan aldur þegar sagan gerist, líklega farin að nálgast sjötugt. Rán býr í Genf í Sviss og er gift svissneskum manni, Hansjürg. Hún leggur af stað í ferðalag til Íslands þar sem hún þarf að ganga frá erfðamálum, en eiginmaðurinn vill ekki koma með, honum leiðast ferðalög og hverfur þar að auki sporlaust skömmu áður en Rán leggur af stað. Hún millilendir í Barcelona og á þar tveggja daga dvöl. Í þeirri göfugu borg gengst Rán á hólm við fortíðina, en hún var þar við nám á sínum yngri árum, snemma á 7. áratugnum. Í Barcelona kvikna endurminningarnar á hverju götuhorni; Rán horfir inn í sjálfa sig eins og hún er og eins og hún var, og reynir að spegla sjálfa sig andspænis því sleipa fyrirbæri sem kallað er „nútími“. „Hvað var nútími?“ spyr hún sig. „Upplifun fólks sem horfði með eftirvæntingu eða kvíða fram á veginn? Og átti allt eftir? Upplifun fólks er var á miðjum aldri og við völd og sat í feitustu embættunum? Eða upplifun þeirra sem áttu allt að baki?“ Við þessum spurningum á Rán engin örugg svör, en það hefði verið gaman að fylgjast með henni takast á við þær af meiri einurð. Framandleikinn sem Rán upplifir í þessari nútímalegu stórborg verður oftar en ekki kveikja að nostalgískri vandlætingu á ástandi hlutanna eins og þeir eru, og fyrir vikið verður til einhver kvörtunartónn sem hljómar of sterkt í þessari sögu. Þess ber þó að geta að lýsingarnar á Barselónuborg eru með því áhugaverðasta í bókinni, og bersýnilega skrifaðar af yfirgripsmikilli þekkingu á staðnum og sögu hans. Rán heimsækir kirkjur og listasöfn og lætur hugann reika um málverk, styttur og byggingar sem fyrir augu ber. Hvort þetta blandast á sannfærandi hátt við sjálfan söguþráðinn er síðan annað mál; að mínu mati skortir dálítið upp á að úr verði nægilega sterk heild. Útúrdúrarnir er oftast einmitt það – útúrdúrar – og þeir skapa ekki sérlega mikinn stuðning við sögu Ránar sjálfrar.

Rán hefur kynnst nokkrum fjölda fólks um ævina og deilir með okkur þeim ályktunum sem hún hefur dregið um mannseðlið. Þau sannindi eru þó dálítið misvísandi þegar vel er að gáð. Snemma í bókinni er Rán á ferð um borgina sem er í senn gömul og ný í hennar augum: ,,Ég kannast ekki við verslanirnar sem við mér blasa,“ hugsar hún þá. „Staðir taka greinilegri stakkaskiptum en fólk sem oftast varðveitir eitthvað af sínu gamla sjálfi.“ Nokkru seinna í bókinni segir Rán hins vegar: „Hugmyndin um að sérhver manneskja sé óbreytanleg eining, og þar með heilsteypt, fær varla staðist. Að minnsta kosti kemur hún ekki heim og saman við reynslu mína af að vafra um í henni veröld.“ Þetta misræmi er ekki til marks um að einhver breyting hafi átt sér stað í hugskoti Ránar; þvert á móti er lítil sem engin stigmagnandi afhjúpun í þeim endurminningum sem bornar eru á borð – allt er sem það sýnist í upphafi. Sé seinni skoðunin tekin gild má þó finna samsvörun í henni við hið stefnulausa ráf Ránar um borgina með tilheyrandi leigubílaferðum; Rán er hvorki heilsteypt né óbreytanleg heldur ósköp mannleg, og þess vegna mótsagnakennd.

Skáldsagan Rán krefst einbeitingar við lesturinn því skiptingar milli tímasviða eru örar. Framsetningin ber þannig keim af hugarórum aðalpersónunnar; Rán gleymir sér í eigin hugsunum og endurminningum þar sem hún situr eða stendur og er svo kippt aftur inn í nútímann. Sjálf frásagnaraðferðin er svo ekki til að einfalda málið, en Álfrún Gunnlaugsdóttir hefur tekið þá óvenjulegu ákvörðun að segja söguna á víxl í fyrstu og þriðju persónu. Það liggur ekki í augum uppi hvernig þær skiptingar eru ákvarðaðar, þær virðast hálftilviljanakenndar og áhrifin því takmörkuð. En hreyfiaflið í tilverunni, sem er Álfrúnu hugleikið í bókinni, er allrar athygli vert, og sé á annað borð hægt að tala um rauðan þráð í verkinu má segja að hann sé fólginn í hugleiðingum um þetta afl: „Eitthvert afl í tilverunni sá til þess að ekkert stæði í stað, að allt hreyfðist og væri breytingum undirorpið líkt og hver einstök manneskja. Það var óneitanlega heillandi tilhugsun, nema þegar afl þetta gekk eyðingunni á hönd.“ Á heildina litið má segja að þótt skáldsagan Rán hafi ekki til að bera rismikinn stíl og söguþráðurinn sé ekki leiddur til lykta á nógu áhrifaríkan hátt, innihaldi verkið samt geysifróðlegan efnivið. Álfrúnu Gunnlaugsdóttur lætur vel að lýsa hinum þversagnakennda veruleika sem setti svip sinn á Spán á 20. öldinni. Þeir sem eru á leiðinni til Barselóna á næstunni mega a.m.k. ekki sleppa því að lesa Rán, því hún kemur ekki síður að gagni sem ferðahandbók en skáldsaga.

(Víðsjá, 13. nóvember 2008)